Ætlarðu að kaupa notaðan bíl?

Mæli með þessum : (Upphaflega skrifað haustið 2004 en uppfært
í byrjun árs 2008, sem skýrir hvers vegna VW er horfinn af skránni. Það sem hefur gerst á þessu tímabili, fyrir utan að VW hefur hrapað í gæðum, er að besti bíllinn á markaðnum er Skoda, nýr og notaður; minni (Fabia) stærri (Octavia) og að bestu kaupin eru núorðið í nýjum og notuðum fólksbílum, jeppum og jepplingum frá Suður-Kóreu; Hyundai, Chevrolet, Kia auk bandarískra lúxusjeppa).

Toyota Yaris. Nýtískulegur smábíll með mikið innra rými en litla fyrirferð. Sparneytinn. Bilanatíðni lág, hóflegt verð á varahlutum og góð þjónusta. Heldur vel verðgildi sé vel með bílinn farið. Yaris er praktískur bíll en er hins vegar dæmigerð dós (vélar- og veghljóð áberandi) miðað við bíla í næsta stærðarflokki fyrir ofan. Einkunn: ***

Toyota Corolla. Margfaldur metsölubíll og ekki að ástæðulausu. Vel hannaður, góðir aksturseiginleikar, sparneytni bílsins með 1600-vélinni er einstök og bilanatíðni sú lægsta í bransanum. Þjónusta fyrir Toyota þykir til fyrirmyndar og Corolla heldur betur verðgildi en aðrir bílar (og því með dýrari notuðum bílum). Eitt atriði sem iðulega gleymist í sambandi við notaða Toyota Yaris, Corolla og Avensis er að akstur á milli tímareimaskipta (sem kosta yfirleitt um 27 þús. kr. ) er 90 þúsund km eða 50% meiri akstur en t.d. hjá flestum bílum frá Suður Kóreu, sem skipta þarf um tímareim á 60 þúsund km fresti og sem einnig kostar 27 þúsund krónur og er því miklu dýrara viðhald en á Toyota þegar mælt er í eknum km. Corolla Station-bíllinn er í sérflokki sem einn praktískasti bíllinn fyrir minni fjölskyldu. Corolla er ef til vill ekki spennandi kostur í augum þeirra sem einblína á sportbíla - en það er þeirra vandamál. (Prófun á nýja Corolla). Einkunn: *****

Renault Scenic. Skemmtilegasti fjölskyldubíllinn í þessum flokki - frábærir aksturseiginleikar, hljóðeinangrun og þægindi í sérflokki (hár og mikið rými). Bilanatíðni lág. Þjónusta hefur farið batnandi með hverju árinu. Takmarkað framboð af notuðum Scenic veldur því að verðið er í hærri kantinum. Einkunn: ****

Nissan Almera. Einn af þessum ódrepandi japönsku sem bókstaflega ryðgar utan af vélbúnaðinum sem gengur og gengur og er líklega sá sterkasti á markaðnum. Hvorki spennandi bíll í akstri né útliti en mikill púlshestur. Bilanatíðni þessara bíla er mjög lág og þeir eru einfaldir í viðhaldi. Það hefur komið eigendum vel því þjónusta umboðsins hefur lengi verið slök, m.a. með himinháu verði á varahlutum (hafi þeir verið til). Léleg þjónusta hefur m.a. gert það að verkum að verð á notuðum Nissan-bílum er lágt. Gera má verulega góð kaup í lítið eknum Nissan Almera. Einkunn **


Mæli með þessum bílum af miðlungsstærð:

Toyota Avensis. Eins og Corolla er þessi bíll með 1600-vélinni í algjörum sérflokki hvað varðar vandræðalausan rekstur, sparneytni, endingu og endursöluverð. Avensis hefur auk þess betri aksturseiginleika en margan grunar, t.d. í lengri akstri úti á landi, hann er vel hljóðeinangraður og er einnig mjög lipur bíl og þægilegur bíll í borgarakstri. Eins og með marga japanska bíla eru framstólarnir frekar óþægilegir og er það líklega eini mínusinn. Þjónusta umboðsins er til fyrirmyndar. Pottþétt fjárfesting. Einkunn: *****

Mazda 626 og Mazda 6. (Átti sjálfur þannig bíl þar til fyrir 3 árum) - svo það valdi ekki misskilningi). Í flestum löndum Evrópu þar sem ánægja bíleigenda með bíla sína hefur verið könnuð skipulega fær Mazda 6 þann vitnisburð að flestir eigendur séu ánægðir. Bíllinn er einstaklega vel hannaður - reyndar betur en flestir aðrir japanskir bílar, bilanatíðni er sú lægsta sem þekkist. Innréttingin mætti þó vera efnismeiri. Aksturseiginleikar frábærir og stöðugleiki einstakur. Varahlutir þykja frekar dýrir. Söluárangur umboðsins þykir lakari en gengur og gerist. Takmarkað framboð nema á mjög gömlum bílum (sem geta þó verið góð kaup ef ryðið hefur ekki tekið völdin). Einkunn: ****

Opel Vectra. Þegar Opel tekst vel upp þá munar um það. Þessi margfaldi metsölubíll sem hefur verið í myljandi sölu allar götur síðan 1994 hefur reynst traustur og notadrjúgur. Eitt af því sem gerir þennan bíl jafn þægilegan og raun ber vitni er útpæld og einstaklega vönduð innrétting með alls konar smáatriðum sem fáir aðrir bílaframleiðendur virðast hafa nennt að leggja sig eftir fyrr en þeir apa það upp eftir Opel. Stólar í Vectra eru í sérflokki - bæði vel bólstraðir og með góðum stillingum. Vectra með 1600-vélinni er kraftmikill og sparneytinn og vegna þess hve bilanatíðni er lág hefur lítið reynt á þjónustu umboðsins sem er, að mínu mati, sú lakasta sem þekkist hérlendis og er þa´talsverðu til jafnað.Einkunn: ***

Peugeot 406. Nýtískulegur, rennilegur og þægilegur bíll með þessa einstöku frönsku eiginleika sem gera hann að þægilegasta bílnum í þessum flokki, bæði fyrir bílstjóra og farþega. Gamlir fordómar gegn frönskum bílum gera það að verkum að enn má fá notaðan og vel búinn Peugeot 406 á merkilega góðu verði. Þetta er bíll sem óhætt er að eiga lengi. Einkunn: ***


Mæli með þessum stærri bílum:

Toyota Camry. Þó nokkuð hefur verið flutt inn af þessum bílum notuðum frá Bandaríkjunum. Ástand þeirra og gæði hafa verið misjöfn (m.a. flæddir, þ.e. flóðhestar). Hins vegar er Toyota Camry einn besti fólksbíll sem ég þekki. Hann er ótrúlega sterkur, þægilegur og vel hannaður og alveg einstaklega ljúfur bíll í akstri - sameinar það besta úr amerískum og japönskum fólksbíl og er sparneytnastur af stórum bílum. Enginn bíll á bandaríska markaðnum bilar jafn sjaldan. Takmarkað framboð er vegna þess hve lítil áhersla hefur verið lögð á sölu bílsins hérlendis og hve eigendur eru tregir til að selja; það eru jafnvel pottþétt kaup gömlum vel með förnum Camry. Einkunn: *****

BMW Fimman. Frá því um 1990 hafa kannanir á gæðum og tíðni kvartana/bilana á bílum í V-Evrópu næstum undantekingarlaust sýnt BMW fimmuna í einu af efstu sætunum. Gæði þessa bíls eru einfaldlega einstök. Það speglar líka verðið á honum nýjum sem notuðum - það er hátt. Eins og með marga dýrari bíla má gera bestu kaupin í bíl sem hefur verið ríkulega búinn í upphafi - sá sem kaupir slíkan bíl notaðan fær yfirleitt aukabúnaðinn ókeypis eða því sem næst. Til að tryggja hagstæð kaup ætti að forðast lækkaða bíla á breiðum dekkjum sem oftast eru mikið og illa keyrðir. Bestu kaupin eru í BMW 518 með 4ra sílindra vélinni - hins vegar má gera ráð fyrir því að flestir bílanna af 500-gerðinni séu með 6 sílindra 2ja og 2,5 lítra vélum (dýrara viðhald). Sé bíllinn með seiglæst mismunardrif og/eða spólvörn eykur það stöðugleika og dregur verulega úr ókostum afturhjóladrifsins að vetrarlagi. Þjónusta er góð.
Einkunn: *****


Ath! Áður en keyptur er notaður bíll er vel þess virði að athuga tvennt:

A. Hefur bíllinn verið afskráður sem ,,tjónabíll"? Bílasali getur kannað í ferilskrá hvort tryggingafélag hafi verið skráður eigandi eða bíllinn staðið afskráður einhvern tíma. Þótt bíll hafi lent í tjóni og verið gert við hann þarf hann ekki að vera verri þess vegna. Hins vegar getur eigandi slíks bíls lent í vandræðum vegna þeirrar reglu sumra umboða að taka ekki ,,tjónabíla" upp í nýja eða aðra notaða bíla og vegna þess að ekki fást bílalán út á nýlega bíla sem skráðir eru í stofnskrá sem viðgerðir tjónabílar. Bílar sem fluttir voru inn notaðir frá Bandaríkjunum voru oft tjónabílar, jafnvel farið á kaf í aur og skít í flóðum, en voru ekki alltaf skráðir sem slíkir. Því er rétt að fara varlega í kaupum á slíkum bílum. Ákveðnir innflytjendur („flóðhestarnir’’) hafa verra orð á sér en aðrir. Spyrjist fyrir um þá til öryggis.

(Nú 2007 er búið að breyta þessum reglum á þann furðulega hátt að allir notaðir bílar frá USA eru skráðir sem tjónabílar - skemmdir eða ekki skemmdir - en hins vegar mun það ekki gilda um notaða bíla sem t.d. eru fluttir inn frá Þýskalandi. Þegar spurt er um skýringu á þessu furðulega fyrirbæri hjá Skráningarstofu fær maður bara eitthvað tuð og rugl - eins og venjulega þegar valdnýðslu er beitt í þágu einhverra ankannalegra hagsmuna = lesist; „steinhaltu kjafti - þetta eru reglurnar sem við förum eftir og ef þú ert með eitthvað helvítis múður þá verður bíllinn einfaldlega ekki skráður! Þetta er „samkeppnin’’ í öllu sínu veldi eftir að Bifreiðaeftirlit ríksins var lagt niður og skráning/skoðun „einkavinavædd’’ sem þýðir að við bíleigendum greiðum nú nífalt verð fyrir sömu þjónustu og þá sem ríkið veitti áður!).

B. Brögð voru að því að bílaumboð neiti að taka bíla frá S-Kóreu upp í nýja bíla eða aðra notaða. Ástæðan er ekki lakari gæði S-Kóreubíla (því þau eru núorðið jöfn eða meiri en japanskra) heldur ergelsi þessara umboða sem ekki hafa staðist samkeppnina. Sé um nýlegri bíl að ræða borgar sig að vita um þetta atriði þannig að engin óvænt mál komi upp þegar þann bíl á að endurnýja.

Leó M. Jónsson (netfang)