Nissan Primera 2.2. SVE Turbódísill

Ýmsir kostir umfram bensínbíl
Vegna gamalla lífseigra fordóma og mistaka stjórnvalda, sem ákváðu upphaflega of hátt dísilgjald á eldsneyti þegar dísilskatturinn var felldur niður í 1. júlí 2005, fara allir á mis við þá umhverfisvernd sem fólgin er í hlutfallslegri fjölgun dísilbíla í stað bensínbíla - og margir fara, af sömu ástæðum, á mis við þá kosti sem dísilbíll hefur umfram bensínbíl svo sem meiri snerpu, líflegri og seigari vinnslu, færri bilanir og meiri endingu. Markaðsspár margra bílaframleiðenda hafa reynst rangar. Á meðal þeirra er Nissan sem gerði ráð fyrir að selja 2 fólksbíla á móti hverjum fjórhjóladrifnum borgarjeppa. Raunin hefur verið þveröfug - eftirspurnin eftir borgarjeppum með dísilvél hefur reynst miklu meiri en eftir fólksbílum með dísilvél.

Eins dauði er annars brauð ....
Og hvað gerir bílaframleiðandi til að forða frá áföllum vegna svo alvarlegrar skekkju í áætlunum? En svona skekkja gæti riðlað framleiðsluáætlunum sem þýddi að stofnkostnaður tapaðist og auk þess valdið keðjuverkunum svo sem að samningar við birgja lentu í uppnámi o.s.frv. Sígildi mótleikurinn er að gera viðkomandi bíl eftirsóknarverðari - þó ekki með því að lækka grunnverð heldur með endurbótum, þ.e. auka gæðin og hafa meiri búnað innifaldan í verðinu - þ.e. að auka söluna með því að bjóða upp á betri kaup.

Tækifæri?
Það er einmitt þetta sem er að gerast hjá Nissan þessa dagana og fer framhjá mörgum (einnig umboðinu?). Ástandið skapar tækifæri til að gera glimrandi góð kaup í Nissan Primera með betri (2.2ja lítra) dísilvél en áður hefur verið völ á frá Nissan. Nýr Nissan Primera er áhugaverðari en fyrirrennarinn af mörgum ástæðum en hann er framleiddur hjá Nissan í Sunderland í Bretlandi. Ný 2.2ja lítra dísilvél (en hún er einnig í X-Trail borgarjeppanum) er einnig framleidd að öllu leyti í Sunderland. Snemma í nóvember stóð yfir sérstakt söluátak hjá Nissan í Danmörku þar sem t.d. Primera Station með 2.2ja lítra dísilvélinni í SVE-útfærslunni (leðurklæðning) var boðinn á verði sem þýddi að mest af lúxusbúnaðinum sem fylgdi bílnum var kaupbætir - enda runnu þeir út eins og heitar lummur.

Breskur bílaiðnaður er smám saman að sækja í sig veðrið á ný þótt segja megi að honum sé að mestu leyti stjórnað af Bandaríkjamönnum og Japönum. Eldri Primera varð til hjá hönnunarmiðstöð Nissan í Hollandi - hann átti frá upphafi að sameina japönsk gæði og evrópska aksturseiginleika. Eldri Primera seldist nokkuð vel - sumum féll hann vel í geð aðrir töldu hann afleitan - ekki síst þótti hann harður á fjöðrunum og dísilvélarnar grófar og slappar en hann var þó vinsæll hérlendis um tíma á meðal atvinnubílstjóra vegna rýmis, sparneytni og góðrar endingar.

Sá nýi er hins vegar hannaður hjá Nissan í Bretlandi og þar hefur mikill metnaður verið lagður í að sýna að Bretar geti hannað bíl sem hægt sé að selja öðrum en Bretum - en hingað til hefur þeim ekki verið treyst til annars en að framleiða seljanlega bíla undir eftirliti Japana (og nú Frakka - eftir að Renault eignaðist ráðandi hlut í Nissan - sem fer í taugarnar á mörgum Bretanum).

Stenst samkeppni með ....
Frá því er skemmst að segja að nýi Nissan Primera dísill hefur í fullu tré við helstu keppinauta svo sem VW Passat og Ford Mondeo. Við samanburð á staðalbúnaði fær maður meira fyrir hagstæðara verð auk þess sem nýi Primera hefur ýmsa tæknilega eiginleika umfram keppinauta. Nýi bíllinn er nýtískulegur í útliti, m.a. á 17" sportfelgum; hann er lengri, breiðari, með meira hjólhaf og meiri sporvídd en fyrirrennarinn sem þýðir meira innra rými, ekki síst munar um þá breytingu í station-bílnum (1650 lítra flutningsrými). Fólksbíllinn (4ra dyra) er með 465 lítra farangursrými sem er þannig í laginu að það nýtist nánast til fulls - en það er meira en sagt verður um suma bíla sem státa jafnvel af hærri lítratölu.

Vélbúnaður
Nýja 4ra sílindra 16 ventla dísilvélin er með 2,2ja lítra slagrými; álvél með 2 ofanáliggjandi kambása, pústþjöppu og millikæli. Innsprautukerfið er af nýrri gerðinni með forðagrein. Vélaraflið er 138 hö við 4000 sm og hámarkstogið 314 Nm. (Til smanburðar er nýja 2ja lítra dísilvélin í Toyota Avensis 116 hö og hámarkstog 280 Nm við 2000 sm og þykir spræk!). Primera dísill er með 6 gíra beinskiptan gírkassa. Vélin er ein af þeim þýðgengustu - meira vindgnauð en vélarhljóð er í bílnum á ferð.

Rífandi vinnsla
Snerpan er innan við 10 sek. í hundraðið. En snerpan sem skiptir máli í borgarakstri er frá kyrrstöðu í 70 km/klst, þ.e. hröðun á milli umferðarljósa og þar munar um þessa dísilvél og frábæran gírkassa - það þyrfti að vera mjög góð sjálfskipting sem ég veldi frekar - enda togar vélin þannig að á beinni braut utan þéttbýlis þarf sjaldan að skarka í gírum. Eigin þyngd er rúm 1400 kg meðaleyðsla 5,2 lítrar á hundraðið. Samanlagt málgildi mengunarefna í útblæstri er 164 g/km en það er 21,5% minni mengun en í útblæstri sama bíls með 2ja lítra bensínvél og um 38% minna af koldíoxíði.

Flottasta mælaborðið
Sumir myndu kaupa Primera vegna útlitsins og mælaborðsins - en það er með þeim flottustu; með rauðgulri baklýsingu. Mælar og stjórntæki eru öll á réttum stað - maður þarf aldrei að líta af veginum þeirra vegna. Á meðal búnaðar er handfrjáls stjórnun farsíma (með stillingum í stýrishjólinu), magnaður tölvubúnaður, m.a. með leiðsögukerfi með mynd og tali, bakkmyndavél og gríðarlega öflugt hljómflutningskerfi með öllu en listi yfir innifalinn þæginda- og öryggisbúnað er heil A4 blaðsíða.

Evrópskur
Nýi Primera er mýkri en sá eldri þegar ekið er beint af augum en fjöðrunin stinnist þegar lagt er á og farið í beygju; stýrið er nákvæmara og dálítið þyngra. Bremsur eins og þær gerast bestar. Útsýn fullkomin og innanrýmið áberandi meira en í eldri bílnum. Þetta er bíll fyrir þá sem hafa gaman af því að keyra og hafa tilfinningu fyrir bíl. Sætin eru ekki lengur þessi hörðu japönsku heldur formuð til að veita stuðning með stinnri bólstrun eins og í BMW og gæðaleðrið í klæðningunni (SVE) er eins og Bretar einir kunna að sníða og sauma. Þetta er bíll sem verðskuldar að vera a.m.k. hafður með í myndinni þegar endurnýjun eða kaup á nýjum bíl standa fyrir dyrum. Dráttargetan er 1500 kg. Mál eru 4567 x 1760, hæð 1482 mm og hjólhaf 2625 mm. Snerpan er 9,8 sek. Eyðslan 5,2 l/100 km að meðaltali. Verð í nóvember 2005 var u.þ.b. 2,4 mkr (áætlað verð - því umboðið gat ekki gefið ákveðið verð á dísilbílnum).

Þjónustan
Bilanatíðni Nissan-bíla hefur verið lág - ending Nissan Sunny og Almera hefur t.d. reynst einstök. Hins vegar er þjónusta umboðsins ekki hátt skrifuð, t.d. hefur oft verið kvartað undan varahlutaskorti og undan þjónustudeild vegna ábyrgðarviðgerða, ekki einungis af bíleigendum heldur kvarta einnig þjónustuverkstæði úti á landi undan þjónustudeild IH (sem virðist með eindæmum illa liðin) - ekki síst í sambandi við hvers konar ábyrgðarviðgerðir og vegna samskipta yfirleitt - en af þeim ástæðum hafa Nissan og Opel-eigendur skipt yfir í Toyota. Varðandi þjónustuna skal þess getið að umsjónarmanni þessarar vefsíðu barst tölvubréf frá fulltrúa IH sem lýsti ýmsum aðgerðum innan fyrirtækisins og öðrum sem miða að því að bæta samskipti við birgja í því augnamiði að bæta varahluta- og viðgerðarþjónustu - svo hver veit nema árangur náist og Eyjólfur hressist?


Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar