Prófun:

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

RAUNVERULEGUR LÚXUS FRÁ NISSAN


Flaggskip Nissan fólksbílaflotans er Maxima, stór lúxusbíll sem sameinar langa hefð, mikla tækni og sérstök japönsk gæði. Maxima er viðbragðsfljótasti 4ra dyra fólksbíllinn á markaðnum, snerpan er innan við 7 sek. í hundraðið. Maxima (3jalítra) er snarpari en Audi, BMW og Benz.
------------------------
Þetta var inngangurinn að greininni í Bílnum haustið 1997 (3. tbl. 1997) um prófun á Nissan Maxima af árgerð 1998. Þessi Maxima, sem breyttist frá og með ágerð 1996, er með eftirminnilegri bílum sem ég prófaði. Ástæðan var m.a. sú að yfirleitt á maður ekki von á að íburðarmiklir lúxusbílar séu jafn kraftmiklir og á ég þá sérstaklega við bílana með 2,5 og 3ja lítra VQ-vélunum.
---------------------------
Með sérstökum japönskum gæðum er átt við látleysið sem einkennir vandaðar japanskar vörur; meiri áhersla er á innviði, frágang og þægindi en skært útlit. Sá sem kaupir Nissan Maxima sækist eftir ákveðnum gæðum em er ekki reiðubúinn til að greiða sérstaklega fyrir stöðutáknið eitt og sér, með eða án þeirra gæða. Japönsk hæverska veldur því að Nissan Maxima er einn þeirra stóru japönsku bíla sem erfiðlega hefur gengið að selja á evrópska markaðnum. Í Bandaríkjunum hefur skapast ákveðinn markaður fyrir bílinn en, merkilegt nokk, ekki fyrr en aksturseiginleikum hans hefur verið breytt til hins verra (mýkri fjöðrun). Nissan Maxima, sem boðinn er hérlendis er hins vegar með óskerta aksturseiginleika.

Vegna ytra látleysis eldri Maxima virðist nýi bíllinn hafa farið framhjá bílaáhugamönnum, en sá er gjörbreyttur - nýr bíll sem kom á markaðinn sem árgerð 1995 og er sýnu glæsilegri en fyrirrennarinn þótt hann skeri ekki endilega í augun. Ytra látleysið hefur sína kosti. Í stórborgum Bandaríkjanna (og reyndar einnig í Reykjavík) er stundaður skipulagður þjófnaður úr bílum og ekki ósennilegt að þjófum þyki dýrari tegundir vænlegri kostur en vísitölubílar enda geta eigendur áberandi lúxusbíla varla skilið við þá nema á vöktuðum stæðum eða í læstum bílageymslum. Afleiðingin (fyrir utan hagvöxtinn sem þjófarnir skapa!) er vaxandi hópur kaupenda sem vill almennilegan bíl sem ekki eru of áberandi.

Nissan Maxima 1998: Einstaklega glæsilegur bíll þótt hann sé ekki sérstaklega áberandi. Ljósmynd: cardomain.com

Nissan Maxima ætti samt að vekja meiri athygli en hann gerir, ekki síst vegna þeirrar tækni sem kemur saman í honum. Bíllinn er heldur ekki gefinn; ódýrari gerðin SE, kostar um 2,5 mkr. (1987). Á móti kemur að þetta er stór og mikill bíll og hlaðinn búnaði sem kaupendur annarra lúxusbíla þurfa jafnvel að greiða milljónir fyrir aukalega. Það er t.d. liðin tíð að ekki sé hægt að bera saman Nissan Maxima og Mercedes-Benz. Menn geta svo haft sínar skoðanir á því hvor hefur stigið þrep niður á við eða þrep upp á við.

Á meðal vandamála sem allir seljendur Nissan Maxima hafa þurft að glíma við er að láta stærð bílsins skila sér á auglýsingamyndum - af einhverjum ástæðum sýnist hann oftast minni en hann er.

,,BÍLL ÁRSINS"

Nýi Nissan Maxima GXE (með 3ja lítra 193 ha V6-vélinni) var kjörinn ,,Bíll ársins 1995" í flokki innfluttra bíla af bandaríska tímaritinu Motor Trend. Það þarf ótvíræða kosti, og þá mikla, til aÐ komast í gegn um það nálarauga. Sem dæmi um keppinauta sem misstu af titlinum, voru ekki ómerkilegri bílar en BMW 700-línan, Lexus LS 400, Porsche 911 Carrera o.fl.

Maxima GXE er viðbragðsfljótari en tvöfalt dýrari 278 ha Infiniti Q45, og viðbragsfljótari en tvöfalt dýrari 250 ha Lexus LS 400 V8 og miklu sneggri en tvöfalt dýrari Mercedes-Benz C280. Þótt þetta sé næstum aukaatriði í samanburði við ýmsa aðra kosti bílsins, svo sem hreyfingar í akstri, hvetur snerpan ótvírætt söluna. Þótt viðbragðið 0-100 mælist 6,8 sek gefur það ekki alveg rétta mynd af bílnum, tíminn 0-70 km/klst (sem við höfum ekki mælt nákvæmlega en vitum að er eftirtektarverður) er áreiðanlega ekki síðri mælikvarði til að nota við samanburð á keppinautum. Viðbragð bílsins við botngjöf, t.d. frá ljósum, er slíkt að það gleymist manni ekki í bráð.

HELSTU BREYTINGAR

Eftirminnilegustu bílar sögunnar eiga það sameiginlegt að vera ódýrir og sterkir. Þannig bílar seljast yfirleitt í milljónatali. Það krefst mikillar fjárfestingar, tækni og hugkvæmni að hanna og framleiða góðan bíl sem jafnframt er ódýr en miklu auðveldara að framleiða góðan dýran bíl. Þessi kenning þykir sannast hjá tæknimönnum Daimler-Benz með nýja A-bílnum, sem ekki þykir blása byrlega fyrir í byrjun, hvað sem síðar verður. Þeim meira finnst manni til gæðanna koma hjá nýja Nissan Maxima að hann kostar ekki 5,5 mkr. heldur 2,5 og er samt ólíklegt að Nissan borgi með þessum bíl.

Undanfarna áratugi hefur ríkt eins konar tæknikapphlaup milli framleiðenda dýrari bíla - sífellt flóknari tækni í aukabúnaði hefur m.a. gert það að verkum að dýrir bílar hafa, jafnt og sígandi, orðið erfiðari og dýrari í viðhaldi án þess að verða þægilegri eða skemmtilegri í akstri. Stjórnendur Nissan höfðu fylgst með þessari þróun og afleiðingum hennar og sáu í henni nýja möguleika - lúxusbíl sem væri einfaldari, þægilegri, skemmtilegri í akstri en jafnframt auðveldari að eiga og reka. Þegar farið var að raða forsendum í forgangsröð lentu ofarlega kröfur um ríflegt rými (einnig fyrir farangur), um mikið afl og sparneytni samfara umhverfisvænni útblæstri.

Svo virðist sem Nissan hafi tekist að ná þessum markmiðum, viðurkenning Motor Trend er m.a. til vitnis um það.

Nýi Maxima er lengri, breiðari og sterkari en fyrirrennarinn. Hjólhafið er 5 sm lengra; sporvíddin er meiri. Samt hefur innra rýmið aukist hlutfallslega meira en ytri málin. Á bandaríska markaðnum flokkast Maxima sem ,,Midsize Sedan" en það er á okkar mælikvarða stór fólksbíll. Snerilstyrkur bílsins er 20% meiri en árgerðar 1994 en samt er sá nýi 70 kg léttari. Hagræðing í framleiðslutækni hefur lækkað framleiðslukostnað þannig að Nissan getur boðið þann nýja á 10% lægra verði.

Útlitið hefur breyst, straumlínan er meiri, nýr framendi með nýju grilli; stærri rúður og ávalari línur - og vindviðnámsstuðull hefur lækkað úr 0,32 í 0,31.

INNRÉTTING

Á sínum tíma (1989) prófaði ég fyrstu árgerðina af Maxima í Hollandi og Þýskalandi og mun hafa haft á orði að mér findist bíllinn einum of látlaus, sérstaklega innréttingin. Önnur kynslóð Maxima, frá og með árgerð 1995, er með nýrri og mun fallegri innréttingu. Endurbæturnar eru nú ekki einungis í útliti heldur einnig í gæðum. Nú eru t.d. framstólarnir betur bólstraðir en maður á að venjast í japönskum bílum, þeir eru nú orðnir sambærilegir við stólana í BMW 750; körfustólar sem nánast umlykja mann. Bekkurinn aftur í er með armpúða í miðjunni, mjög rúmgóður fyrir 2 fullorðna en 3 unglingar geta einnig setið sæmilega þægilega.

Skinnklæðningin í Maxima mun vera sú eina sem er handsaumuð í japönskum bíl af þessari gerð. Ljósmynd: cardomain.com

Í Maxima er sérstök hliðaráekstrarvörn innan í hurðum og sílsum, höggpúðar eru fyrir bílstjóra og farþega í framsæti, bílbeltin eru með sjálfvirkri höggstýrðri strekkingu og hljóðeinangrun bílsins er áberandi mikil. Endurbætur á hjólastelli (festingum) eiga stóran þátt í hljóðeinangruninni en auk þess veitir maður athygli þreföldum þéttiköntum á hurðunum. Þá tækni hefur Nissan tekið upp eftir Cadillac. Hljóðeinangrun er ekkert einfalt mál í bíl og því vekur hún sérstaka athygli í Maxima, ekki einungis hefur veghljóði og vingnauði verið svo að segja útrýmt heldur vélarhljóði einnig að mestu leyti. Skýringin er m.a. fólgin í vökvafylltum vélarfestingum, en sérstök dæla stýrir þrýstingi í festingunum eftir átaki vélarinnar. Árangur þessarar tækni, sem er frekar einföld, er aðdáunarverður. Svo virðist sem stefnubreyting hafi orðið í hönnun lúxusbíla í þessum flokki, því fyrir 5 árum þótti ákveðið vélarhljóð nauðsynlegt - nú er nánast þögn.

Útvarpstæki/spilari og miðstöðvarstillingar eru nú hærra í mælaborðinu en áður og er það til bóta sem öryggisatriði. Gólfteppið í þessum bíl er sérstakur kapítuli út af fyrir sig en því munu konur í hönnunardeild Nissan hafa ráðið. Skinnklæðning er aukabúnaður og er hún handsaumuð, ein fárra í japönskum lúxusbílum nú til dags.

Skottið er bókstaflega flóðlýst. Það er teppalagt og rúmar 440 lítra. Aftursætisbak er fast en skíðalúga á bak við armpúðann. Fótarými er áberandi meira aftur í en í fyrri árgerðum, höfuðhæð og breidd er hins vegar svipuð (hurðirnar eru þykkari). Allt er rafknúið innan dyra sem hreyfa þarf á annað borð. Útispeglarnir eru með merkilegum sjálfvirkum búnaði sem beinir þeim sjálfkrafa niður á við þegar sett er í bakkgírinn, þetta er öryggisatriði hjá Nissan, m.a. vegna barna sem kunna að vera fyrir aftan bílinn.

POTTURINN OG PANNAN

Það er vélin sem er sigurverkið í þessum bíl. Það fyrsta sem maður veitir eftirtekt þegar húddið er opnað er einfaldleikinn; það er ekki eins og að horfa ofan í fullan kassa af ánamöðkum - hér er ekkert óþarfa drasl og nóg rými. Þeir kvarðar sem notaðir eru við þjónustu eru með litaða hnúða; áberandi og því auðfundnir.

Nissan hefur lagt mikið í hönnun þessarar V6-vélar en hún mun vera í einni eða annarri mynd í flestum Nissan bílum með 6 sílindra vél, 2ja, 2,5 og 3ja lítra. Hjá Nissan nefnist hún VQ-vélin en það mun vera skammstöfun á ,,Very Quiet", þ.e. mjög hljóðlát og, sé það rétt, ber hún nafn með rentu: Þetta apparat suðar eins og liðamótalaus saumavél. Það sem kemur mest á óvart er að svo slagstutt vél skuli hafa jafn mikla seiglu og raun ber vitni. Prófunarbíllinn var með 2ja lítra 140 ha vél. Tökurnar eru tilkomuminni en í 3ja lítra vélinni sem hefur 53 hö umfram í bíl sem vegur 50 kg meira og munar um minna. En minni vélin hefur þó flesta kosti VQ-vélarinnar í líkum mæli og er leitun að jafn hljóðlátri og gangmjúkri 2ja lítra vél. Hámarkstogið er 177 Nm við 4400 snm en sem dæmi þá er það meira afl og tog og fyrr en hjá Volvo 850 með 2ja lítra vél.

V6 3ja lítra VQ-vélin í Maxima er að því leyti frábrugðin vélum af svipaðri gerð og stærð í bandarískum bílum að auðvelt er að komast að þeim hlutum sem þarf að þjónusta. Ljósmynd: cardomain.com

Samhalli sílindraraða er 60°. VQ-vélin er öll úr álblöndu. Í henni eru 10% færri hreyfihlutir en í eldri V6-vélum frá Nissan. Um 70% af samsetningu vélarinnar fer fram í sjálfvirkum vélum. Árangurinn er léttari vél, aflmeiri, seigari, sparneytnari, endingarbetri og ódýrari í framleiðslu. Án tillits til slagrýmis hafa vélarnar þrjár sömu slaglengd, 73,3 mm. Þær eru 24ra ventla með 2 ofaná liggjandi kambása sem knúnir eru af keðju. Sílindrar eru stálfóðringar sem rennt er í blokkina. 3ja lítra vélin er 23% léttari miðað við afl en
fyrirrennarinn en allar eru 30 mm lægri og 10 mm styttri.

Höfuðleguklossar eru steyptir í einn ramma, boltaðan bakka sem styrkir sveifarhúsið. Pannan er steypt úr áli og með styrkingum og rifflum, hún myndar einn burðarhluta blokkarinnar auk þess að kæla olíuna. Innra viðnám í vélinni hefur minnkað með nýju efni sem notað er í legur á sveifar- og kambási auk þess sem notaðir eru grennri stimpilhringir úr molybdenum-blöndu. Þá hefur stýring neistatíma verið endurbætt, sérstaklega í sjálfskipta bílnum, og dregið úr viðnámi í soggrein. Þessar endurbætur skila sér m.a. á þann hátt að nánast enginn munur er á meðaleyðslu þessa bíls með sjálfskiptingu eða 5 gíra beinskiptum kassa (ég myndi ekki láta mér detta í hug að kaupa bíl af þessari stærð beinskiptan).


TVÖFALT KÆLIKERFI

Ein af merkilegum tækninýjungum í Maxima er að vélin hefur tvö aðskilin kælikerfi; eitt fyrir blokkina en annað fyrir heddin. Með því vinnst margt í senn; kæling verður jafnari, minni hætta á ofhitnun, varmavirkni verður meiri við bruna þar sem vélin er fljótari að ná vinnsluhita en það leiðir svo áfram til þess að miðstöðin er fljótari að hitna auk þess sem örari hitun dregur úr mengun í útblæstrinum.

AKSTURSEIGINLEIKAR

Maxima er með hefðbundna fjöðrun og hjólastell fyrir framdrifinn b¡l. Að framan eru gormaturnar, neðri klafi, hjólstífa og jafnvægisstöng. Að aftan er þverbiti með gormum, jafnvægisstöng og stífu. Fjöðrunin er mýkri en í japönskum bílum yfirleitt (ef undan er skilin Primera sem er stinnari), en samt í stinnari kantinum, fyrir minn smekk; bíllinn hallar eðlilega í beygjum og fjaðrar fínt á holóttum malarvegi. Ég fann að því á sínum tíma að á mikilli ferð á malbiki varð afturendinn á Maxima dálítið laus í kröppum beygjum. Breytingin á fjaðrabúnaðinum að aftan er endurbót sem hefur eytt þessari tilhneigingu þannig að aksturseiginleikar hafa batnað verulega. Á malarvegi má hins vegar merkja ákveðna ókosti framhjóladrifsins í þetta þungum bíl en, eins og áður, það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Í borgarakstri er nýi Maxima mjög þægilegur, það er afslappandi að aka honum, sérstaklega sjálfskiptum. Einhverjum kann að finnast stýrið í léttara lagi en það er einmitt svona sem mér finnst vökvastýri eigi að vera, a.m.k. í borgarakstri. Nissan Maxima á margt sameiginlegt með Audi A6 nema verðið. Hann er ótrúlega mikið ódýrari en jafn vel búinn Benz með sambærilega eiginleika. Þá fæst meira fyrir peningana í Maxima en t.d. í Volvo 850. Maxima er skemmtilegri ¡ akstri en t.d.
Saab 9000 en um margt svipaður BMW 520, þó rúmbetri aftur í og snerpan mun meiri. Þennan bíl er vel þess virði að skoða og ég spái því að margir munu verða dálítið hissa að kynnast svo miklum lúxusvagni frá Nissan.

Aftur á aðalsíðu