Hvað eru 900 kæfðir minkar á milli vina?

Opinber dýravernd Íslendinga kemur spanskt fyrir sjónir. Hún virðist ekki ná til bænda þótt þeir hafi mest með dýr að gera - ekki einu sinni þegar þeir hundelta hrútsgrey sem leggur á sund þvert yfir fjörð undan böðlum sínum úr bændastétt til þess eins að verða drepinn örmagna þar sem hann nær loks landi - þótt ,,dáðinni" sé lýst í dagblöðum!

Hún virðist þó ná til hestamanna um sjónvarpið - af makalausu máli að dæma þar sem hestur var látin keppa deyfður og braut undan sér fót í beinni útsendingu - en eigandinn reif stólpakjaft og þóttist vera í fullum rétti og taldi sig engar reglur hafa brotið.

Nýlegt dæmi um opinbera dýravernd er framtak umhverfisráðherra að senda tvo umba norður í Bárðardal að fanga stork og koma honum til höfuðborgarinnar í hnitmiðuðu kastljósi fjölmiðla - því annars var hætt við að dýrið hefði drepist! Eitthvað mun þó nátturuverndarsinnum hafa þótt þetta framtak lítils virði - gott ef þeir ýjuðu ekki að því í fjölmiðlum að þetta væri ,,pólitísk dýravernd" sem tengdist Kárahnúkavirkjun.

Um svipað leiti gerist það að eldur kemur upp í loðdýrabúi í Svarfaðardal og tókst ekki betur til en svo að um helmingur bússtofnsins, um 900 minnkar, sem læstir voru inni í þröngum búrum, köfnuðu án þess að geta nokkra björg sér veitt. Þótt það hafi verið rækilega tíundað í fjölmiðlum að á þessu loðdýrabúi hafi ekki verið nokkur öryggis- eða viðvörunarbúnaður né lágmarksbúnaður til eldvarna er ekki annað að merkja en að íslenskum dýraverndurum komi málið ekki við.

Getur það verið að minkurinn sé álitinn réttdræpur og skipti ekki máli - jafnvel þótt hann sé lifandi spendýr og því sé trössum í bændastétt leyfilegt að fara með þessi dýr eins og þeim sýnist? Þeir sem hér áttu hlut að máli börmuðu sér m.a. yfir því í viðtölum að allar tölvuskrár með gögnum yfir eldið hefðu eyðilagst í brunanum (öryggisafritun trössuð).

Það kom sérstaklega fram í viðtali við slökkviliðsstjóra að ítrekað hafði verið varað við því að á þessum stað í Svarfaðardal væri eldvörnum ábótavant - m.a. vegna vatnsskorts en vatnsból er um 50 metrum neðan við húsin. Aðvörunum var ekki sinnt enda mun valdsvið eldvarnaeftirlits ekki ná til bænda, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.

Um það eru sjálfsagt skiptar skoðanir hvort sleppa hefði átt loðdýrunum út með sjálfvirkum búnaði þegar eldur hefur verið laus í húsi ákveðinn tíma. Hins vegar ættu dýraverndarar að beita sér fyrir því að fólk úti á landsbyggðinni, sem stundar ræktun lifandi dýra í stórum stíl, sé gert að setja upp öryggis- og viðvörunarbúnað þannig að viðbragðsflýtir minnki hættu á að innilokuð dýr kafni eða drepist af völdum óhappa þar sem eftirlit er ekki allan sólarhringinn.

Skyldi dýraverndurum ekki þykja eðlilegt að sömu reglur gildi um eldvarnir og eftirlit með þeim hjá loðdýrabúum á sama hátt og hjá iðnfyrirtækjum í þéttbýli - sem jafnvel sæta dagsektum, eins og vera ber, séu eldvarnir ekki í lagi ?

Hvers vegna hefur enginn tekið upp hanskann fyrir minkinn?

Grunar engan, sem fylgst hefur með þessu máli, að það gefi tilefni til þess að dýraverndarar kanni hvort aflífun loðdýra hérlendis (án bruna) sé með forsvaranlegum hætti?

Leó M. Jónsson (netfang)