Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Er einhver glóra í ,,metanbreytingu"?

Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir varðandi metangas sem eldsneyti á bíla og um þá breytingu sem er nauðsynleg til að bensínvél eða Diesel-vél geti notað metangas í stað bensíns eða gasolíu. Að undanförnu hefur verið talsvert um beinar og óbeinar auglýsingar varðandi metangas. Almenningur virðist samt sem áður ekki mjög áhugasamur, nema á höfuðborgarsvæðinu enda er metangas ekki fáanlegt annars staðar á landinu og breytingin talsverð fjárfesting - og líklega muna margir eftir ,,vetnisdellunni" sem stóð yfir í mörg ár og reyndist ekkert annað en lygi og blekkingar í því augnamiði að tefja Diesel-væðingu bílaflotans en hún hefði, eins og í nágrannalöndum, minnkað veltu olíufélaga og dregið úr loftmengun.

Óreyndum blaða- og fréttamönnum er talin trú um að notkun metangass sem eldsneytis sé tækninýjung. Gas hefur verið notað sem eldsneyti fyrir bíla í stað bensíns í meira en 60 ár og náði hámarki upp úr 1940 þegar fljótandi eldsneyti var skammtað eða ófáanlegt í Evrópu vegna stríðsins. Stórir flotar skólarúta með Diesel-vél hafa keyrt á jarðgasi í Bandaríkjunum síðan um 1960 fyrst og fremst til að draga úr loftmengun en einnig til að spara reksturskostnað. Búnaður til að breyta bílvélum, fyrst og fremst bensínvélum, fyrir tvenns konar eldsneyti (gangsetning á bensíni en akstur á gasi) hefur verið fáanlegur í Evrópu síðan um 1950 (Weber á Ítalíu) og í Bandaríkjunum síðan 1960 (Impco).

Eðlilegt er að áhugi fyrir ódýrara eldsneyti aukist með stighækkandi verði á bensíni og olíu. Samt er ekki ástæða til að villa um fyrir fólki með því að segja bara hálfa söguna og kynna tæknilegar endurbætur sem byltingarkenndar nýjungar. Ef til vill er tilgangurinn með þessum blekkingum sá að dylja furðulegt framtaksleysi undanfarna áratugi á þessu sviði. Sem dæmi um framtaksleysið hérlendis má nefna að mörg dönsk kúa- og svínabú hafa verið sjálfum sér næg um eldsneyti á sína bíla og vélar í rúm 30 ár - en þau vinna metangas úr húsdýraskít. Með því móti spara bændur talsvert fé og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en metangas sem streymir upp af mjólkur-, kjöt- og alifuglabúum er um fjórðungur af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hérlendis (Vefsíða Umhverfisráðuneytis, nýjasta skýrslan um umhverfismál, bls. 68).

Fyrir nokkru kynnti fyrirtæki í Reykjavík þjónustu við ísetningu breytingarbúnaðar fyrir metangas. Fram kom að breytingin, t.d. á 4ra sílindra bensínvél, kosti 410 þús. kr. En á meðan metangas fæst ekki nema á 2 stöðvum á landinu og báðar eru á höfuðborgarsvæðinu orkar fjárfestingin tvímælis í mínum augum. Eins og gildir um annað eldsneyti fylgir metangasi og notkun þess ýmsir ókostir svo sem hætta á loftmengun með aukinni notkun vegna óhappa, bílvél er aflminni , bílar fyrir metan eru dýrari (niðurgreiðslur fela það) og óvissa ríkir um verðlagningu og sköttun (hver treystir stjórnvöldum?). Núverandi verðlagning metangassins hjá Sorpu og N1 finnst mér fráleit og út úr kortinu. Hefðu stjórnvöld einhvern raunverulegan áhuga á aukinni umhverfisvernd væri aukakostnaður bíleigenda, sem létu breyta vélum til að geta notað metangas, samhliða bensíni eða gasolíu frádráttarbær frá skattstofni.

Óhreinsað hauggas sem framleitt er með gerjun húsdýraskíts og allt óhreinsað jarðgas sem leggur upp af urðuðu sorpi er ekki eins. Mismunandi aðferðir getur þurft við hreinsun þeirra. Jarðgas sem myndast í urðuðu sorpi inniheldur um 55% metan, 42% koldíóxíð og um 3% af öðru gasi. Hreinsun felst í því að fjarlægja koldíoxíð úr jarðgasinuí og má t.d. gera það með vatni á ódýran hátt í einföldum tækjum við 30 bara þrýsting. Vatnshreinsun er beitt hjá Sorpu og fæst þannig gas sem er 98% metan. Hafandi í huga að metangas (55% af jarðgasinu) veldur 21-25 földum gróðurhúsaáhrifum á við koldíoxíð, verður að eyða því þar sem sorp er urðað. Stærstum hluta jarðgassins er því brennt jafnóðum á urðunarstað. Einungis lítill hluti (of lítill) er hreinsaður þrátt fyrir að markaður fyrir eldurnargas sé umtalsverður. Og með tilliti til þess að jarðgasið er hliðarafurð sem ekkert kostar aukalega og þess hve ódýrt er að hreinsa það, er illskiljanlegt að bensínígildi þess sé látið kosta 50% af verði bensíns en ekki t.d. 20%. Mér sýnist ljóst að verið sé að vernda einhverja hagsmuni einhverra með þessari fáránlegu verðlagningu sem tryggir frystingu frekari nýtingar. Maður veltir því fyrir sér hverjir hafi beinan hag af því að sem fæstir noti metangas sem eldsneyti á bíla!

Öfugt við vetni stafar lítilli sprengi-eða eldhættu af metangasi við flutning, dreifingu og áfyllingu. Hylki af viðurkenndri gerð (CE-merkt þrýstihylki úr magnesíum-stáli) eru gríðarlega sterk og öryggisbúnaður á þeim á að koma í veg fyrir sprengingu vegna höggs eða aflögunar. Þá er slysahætta af metangasi óveruleg vegna þess að það er léttara en loft og safnast því ekki fyrir í lægðum. Skemmdist geymir í flutningi rýkur metangasið upp og dreifist strax þannig að eldsmatur er lítill. Við geymslu, t.d. á kútum í bílum er metangas ekki eins hættulegt eldsneyti né líklegt til að valda eldsvoða og bensín sem flæddi út úr geymi.

Áfylling metangass er tímafrekari en bensíns þótt sá munur sé óverulegur og mun sjálfsagt hverfa. Yfirleitt er miðað við að smærri bíll beri með sér birgðir metangass sem nemur ígildi 30 lítra af bensíni. Hver áfylling gass dugir til um 300 km aksturs bíls með 4ra sílindra 2ja lítra vél. Þar sem gaskútarnir koma til viðbótar bensíngeymi eykst þyngd bíls um 60 kg. Sé um eldri bíla að ræða, sem breytt er fyrir gas/bensín, fer drægni á hverri hleðslu eftir vélarstærð og getur verið minni en sem nemur 300 km. Auk þess teppa gaskútur/ar farangursrými. Sé um minni og léttari bíl að ræða er eðlilegt að reikna með að tvær áfyllingar metangass þurfi, t.d. fyrir 600 km akstur, í stað einnar áfyllingar bensíns. Þetta setur verulegt strik í reikninginn og með einungis tvær áfyllingarstöðvar á landinu má sjá að, jafnvel með góðu skipulagi, er útilokað að ná að aka nema takmarkaða vegalengd á metangasi; stærri hluti aksturs venjulegs einkabíls mun áfram verða á bensíni (auk þess sem kostnaður eykst af viðbótarakstri til og frá áfyllingarstöð). Þar með er ekki sagt að fjárfesting í metangasbreytingu borgi sig ekki á höfuðborgarsvæðinu.

Bíll sem breytt hefur verið fyrir metangas/bensín er ekki eins kraftmikill á gasinu eins og á bensíni. Í venjulegum akstri finnst ekki mikill munur en hins vegar greinilega eigi að hraða för, aka upp brekku eða draga vagn. Greinilegur aflsmunur finnst við botngjöf. Breyttur bíll eyðir því yfirleitt meiru á gasinu en á bensíni (kemur ekki fram á vefsíðum þeirra sem selja gasið eða breytingarþjónustu). Ný 3. kynslóð metan-bíla, sem koma fullbúnir frá bílaframleiðanda og eru töluvert dýrari en sams konar bensínbílar, nýta gasið betur og eyða því svipað og sams konar bíll með bensínvél enda hefur verið töluverð tækniþróun á sviði metan-véla og bíla og farangursrými af fullri stærð því metankútarnir eru felldir inn í botn nýju bílanna. Innan skamms munu sérstaklega lagaðir gaskútar verða fáanlegir fyrir metanbreytingu þannig að farangursrými skerðist minna.

Diesel-vélar geta brennt metangasi í stað gasolíu. Sú breyting, sérstaklega ef Diesel-vélin er búinn pústþjöppu, er miklu flóknara og meira mál en þegar bensínvél á í hlut. Hvort sem um er að ræða lífgas, metangas (jarðgas) eða propangas kviknar ekki í því við þrýsting eins og gasolíu. Þjöppunarþrýstingur, þótt hærri sé í Diesel-vél en bensínvél, kveikir því ekki í gasinu sjálfkrafa eins og í innsprautaðri gasolíu. Diesel-vélina þarf því að gangsetja með gasolíu og skipta svo yfir á annan búnað sem gerir kleift að brenna matangasin eða búa hana neistakerfi svipuðu því sem er í bensínvélum. Sú breyting er mikið fyrirtæki (ég prófaði þetta sjálfur með blöndu af própan- og bútangasi fyrir tæpum 30 árum og notaði þá propangasbrennara sem kveikju. Vélin gekk en þetta var háskalegt fyrirkomulag og frumstætt). Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að einfalda notkun gass sem eldsneytis fyrir Diesel-vélar en á sama tíma hafa vélarnar verið búnar fullkomnari og flóknari mengunarvörnum til að mæta skerptum kröfum nýs staðals (sjá skýrslu um mengunarstaðla og mörk), m.a. þvagefnis-innsprautun (ABLUE, sem fyllt er á sérstakan geymi) og sjálfhreinsandi öragnasíum. Sá búnaður einfaldar ekki málið. Gæti gasið, hins vegar, orðið til að losna mætti við þennan mengunarbúnað, en íblöndun þvagefnis eykur eyðslu og rekstrarkostnað bílanna umtalsvert, myndi það án efa auka áhuga þeirra sem gera út flota stórra flutningabíla (við erum að tala um bíla sem eyða 40-80 lítrum af gasolíu á hundraðið + þvagefni fyrir tugi þúsunda króna á mánuði og því gæti metangasbreyting sparað gríðarlegar fjárhæðir í þeim tilvikum). Hollenskt fyrirtæki, dótturfélag Shell, Roland LNG B.V. hefur þróað gaskerfi fyrir stóra vöruflutningabíla með Diesel-vél sem er að því leyti frábrugðið að gasbirgðir bílsins eru í fljótandi formi á þrýstigeymum (LNG) og drægni bílanna allt að 1200 km á hverrri gashleðslu.

Oft er fjöldi áfyllingarstöðva fyrir bensín- og Diesel-bíla gagnrýndur, einkum fjöldinn á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er gagnrýnt að margar stöðvar, hver frá sínu olíufélagi, séu hlið við hlið eða við einn og sama brúarsporðinn út um landið. Bíleigendur myndu hins vegar örugglega kvarta væri stöðvum fækkað, t.d. um helming, og 10-20 mínútna biðröð væri reglan við kaup á eldsneyti. Ég er þeirrar skoðunar að fráleitt sé að reikna með teljandi fjölgun bíla, sem notuðu metangas, á meðan áfyllingarstöðvar eru einungis tvær á landinu, að vísu á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt fyrirkomulag elur af sér neikvæða afstöðu til þessa nýja eldsneytis og, ásamt okurverði að mínu mati, tefur fyrir eðlilegri nýtingu þess (hátt hanga þau og súr eru þau .....). Ekki er til neins að tala um hvort skuli koma fyrr, hænan eða eggið í þessu samhengi; fáir eru svo skyni skroppnir að þeir geri sér ekki ljóst að eigi metan-bílum að fjölga þarf fyrst að koma áfyllingarbúnaði fyrir á öllum áfyllingarstöðvum olíufélaganna. Þangað til verður þetta gæluverkefni stjórnvalda og olíufélaga; - stjórnvalda sem hafa loftmengun að einni af sínum mikilvægustu tekjulindum (eins öfugsnúin og fráleit sem sú staðreynd er í sjálfri sér) - og mun litlu breyta þótt landsþekktir skemmtikraftar verði kostaðir annan hring umhverfis landið á metan-bíl.

Ýmsar upplýsingar eru um tvinnbíla á Netinu og má t.d. nota leitarstrenginn BIFUEL ENGINES á Google.

Fleiri greinar um bíltækni

Pistlar

Til baka á aðalsíðu