Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

MAZDA 6: ,,SportSaloon" sem stendur undir nafni


Toyo Kogyo var stofnað í Hiroshima 1932 og framleiddi aðallega vörubíla fram að lokum síðara stríðs. Verksmiðjurnar voru lagðar í rúst í kjarnorkuárás Bandaríkjamanna 1945 og flest starfsfólkið lést í sprengingunni. Eftir stríð komst Toyo Kogyo aftur á legg og 1960 hóf það framleiðslu fólksbíla sem það nefndi Mazda en Mazda er heitið á því góða í sameiginlegu tákni góðs og ills í trúarbrögðum Japana.

Mazda hefur sérstöðu á meðal japanskra bílaframleiðanda að fleiri en einu leyti: Mazda er stærst allra fyrirtækja í Hiroshima og eins konar undirstöðuatvinnuvegur borgarinnar. Ólíkt mörgum öðrum japönskum bílaframleiðendum framleiðir Mazda stærstan hluta bíla sinna í Japan. Í Bandaríkjunum eiga Mazda og Ford sameiginlega Auto Alliance í Detroit sem framleiðir Mazda fyrir bandaríska markaðinn en Ford eignaðist hlut í Mazda upp úr 1980 og á nú ráðandi hlut í Mazda í Japan og er margvísleg samvinna á milli fyrirtækjanna. 1984 var heiti fyrirtækisins breytt í Mazda Motor Corporation.

Mazda 6 er efnismikill og sterkbyggður bíll (um 1400 kg) sem er með allan þann öryggisbúnað sem nú tíðkast í vandaðri fólksbílum.

Tæknilega hefur Mazda löngum skorið sig úr öðrum japönskum framleiðendum. Í fyrsta lagi hefur það verið frumkvöðull nýrrar tækni. Mikilvægasti þáttur þess frumkvöðlastarfs er Wankel-vélin (RX-bíllinn) en Mazda tók við af NSU í Þýskalandi og þróaði Wankel-vélina þar til hún öðlaðist núverandi stöðu á markaðnum.

Gæði Mazda-bíla hafa löngum mælst mest japanskra bíla. Margir muna enn eftir smábílnum Mazda 818 sem var metsölubíll hérlendis nokkur ár í röð upp úr 1977 og Mazda 323 sem kom framhjóladrifinn frá og með árgerð 1981 - en hann mun hafa verið einhver endingarbesti bíll sem sögur fara af hérlendis. Mazda er einn þeirra bíla sem hafa mest endursöluvirði, jafnvel hérlendis þótt umboð hafi verið slappt og á hálfgerðum þvælingi síðan Bílaborg var og hét (sem gárungar nefndu ,,Byggt og búið"). En nú hefur verið tilkynnt að Brimborg hafi tekið við umboðinu fyrir Mazda. Verður áhugavert fyrir Mazda-eigendur að fylgjast með hve mikið varahlutirnir hækka við þá breytingu - en sem betur fer eiga Mazda-eigendur og aðrir möguleika á að kaupa varahluti á eðlilegu verði á Netinu (www.discountautoparts.com). Þess má geta hér að forstjóri Brimborgar gerir athugasemd við þessi ummæli mín um varahlutaverð og segir (í nóvember 2005); ,,að verð á varahlutum í Mazda verði a.m.k. sambærilegt og áður og í flestum tilvikum, ef ekki öllum, lægra en hjá fyrra umboði."

Fyrsti Mazda-bíllinn var seldur í Bandaríkjunum 1970. Mazda 626 kom fyrst á markaðinn 1982 en hann nefnist Capello og Montrose á Asíumarkaði. Í Bandaríkjunum er Mazda 626, svo dæmi sé tekið, á lista hjá bandarísku neytendasamtökunum (í Consumer Reports) yfir þá bíla sem sjaldnast bila (flokkast sem "Very reliable").

"Besti fólksbíll í heimi"
Hérlendis er Mazda vanmetinn - enda hefur markaðsfærslan lengi verið furðu máttlaus og fálmkennd. Víða í Evrópu, t.d. í Þýskalandi, BeneLux, Frakklandi, Danmörku og Svíþjóð er Mazda það japanska merki sem hefur sterkasta stöðu á markaðnum en góður orðstír Mazda á rætur sínar að rekja 15 ár aftur í tímann: Einhverjir muna sjálfsagt enn eftir því þegar sérfræðingar þýska bílatímaritsins "Auto Motor und Sport" kusu Mazda 626 "Besta fólksbíl (Saloon) í heimi" árið 1988 - en það var ekki lítil frétt á sínum tíma. Mazda 626, sem kom af nýrri gerð 1987, hlaut ekki einungis einróma lof evrópskra bílagagnrýnenda heldur náði því fyrstur japanskra bíla (framleiddum í Japan) að verða einn af metsölubílum á evrópska markaðnum þar sem fordómar gagnvart japönskum bílum hafa löngum verið öðrum framleiðendum þungur ljár í þúfu.

Ný túrbódísilvél er ein sú öflugasta, með 360 Nm hámarkstog. Sparneytni þessa 2ja tonna dísilbíls er athyglisverð - um 5 lítrar á hundraðið.

Akstureiginleikar sér á parti
Mazda 626 hefur löngum getað státað af betri aksturseiginleikum en flestir keppinautar. Stöðugleiki bílsins í akstri er áberandi og þolir samanburð við það sem best gerist á þessum markaði en lengst af hefur 626 verið með sjálfstæða fjöðrun á hverju hjóli þegar margir keppinautar hafa verið með stífan afturöxul.

Mazda 6 sem frumsýndur var sem árgerð 2003 haustið 2002 er eins og fyrirrennarinn með aksturseiginleika í sérflokki og reyndar eini japanski bíllinn í þessum flokki sem þolir samanburð við BMW 300 og stenst hann með prýði. Endurbætur á árgerð 2006 skipta hundruðum - og þótt eflaust muni um þær allar eru engar þeirra áberandi þótt finna megi fyrir þeim í akstri. Mest munar um þær breytingar sem gerðar hafa verið á undirvagni og fjöðrun.

Undirvagn Mazda 6 af árgerð 2006 er sterkari og snerilstyrkur hans er meiri. Það finnst í akstri með betra veggripi sem eykur stöðugleika á beinni braut og um leið öryggi í beygjum. Aukinn snerilstyrkurinn hefur gert kleift að nota dempara með "skynjun", sem eru mýkri þegar ekið er beint af augum heldur en þegar beygt er. Bíllinn er áberandi mýkri á fjöðrunum en fyrirrennarinn sem virkaði dálítið harður - tilfinningin er sú að sá nýi sé heflaðri að þessu leyti. Hann er nákvæmlega eins og maður myndi lýsa sportlegum fólksbíl (Sport-Saloon) og er sá eini sem mér finnst geta borið það heiti með réttu enda er aðdáunarvert hve sportlegir aksturseiginleikarnir eru miðað við hve bíllinn er þægilegur.

Endurbætur á árgerð 2006 skipta hundruðum þótt fæstar þeirra séu sýnilegar. En þær eru merkjanlegar í akstri; Mazda 6 er á meðal skemmtilegustu bíla í akstri og líklega sportlegastur allra fólksbíla án þess að fórnað sé mýkt og þægindum.

Stýrið er nákvæmt, þyngist hæfilega með auknum hraða/stefnutregðu en er samt hæfilega létt þegar leggja þarf í stæði - þó er þetta hefðbundn tækni - ekkert rafmagn. ABS-bremsurnar eru búnar sjálfvirku aukaálagi sem virkar þegar mest ríður á. Athyglisvert er hve ABS-beitingin truflar lítið þótt greinilega megi finn að hún virki.

Útlit - innanrými - tækni
Fæstar endurbætur eru sýnilegar enda er útlit bílsins lítið breytt, sem betur fer, því Mazda 6 er með glæsilegri bílum. Umgerð ökuljósanna er dekkri, afturljósaglerin eru dekkri og grillinu hefur verið breytt lítilsháttar.

Klæðningarefni í innréttingu er a.m.k. 2 gæðaflokkum ofar en í eldri gerðinni - bíltækið er með breyttri framhlið en sömu stóru hringlaga stillihnöppunum og mælaumgjörðin er öðru vísi. Á tæknihliðinni munar mest um lykillaust aðgangs- og þjófavarnarkerfi með fjarstarti (kort). Stýrishjólið er með hallastillingu og einnig má stilla það að sér. Innréttingin er afar smekkleg og í henni er að finna allan þann þægindabúnað sem nú tíðkast í vandaðri fólksbílum.

Mazda 6 er með þægilegri framstóla en margir keppinautar, - stóla sem eru gjörólíkir þeim hörðu og flötu sem lengi hafa verið eitt af "vörumerkjum" japanskra bíla. Stólarnir og ýmislegt annað við Mazda 6 hafa orðið til þess að hann er nefndur "þýskur bíll undir japanskri kápu" en með því er skírskotað til BMW.

Mazda 6 er eini bíllinn sem ég hef séð með fellibúnað á aftursæti sem fellir sætið að öllu leyti fram og niður með því að hreyfður er armur aftan við sætið. Japanar nefna þennan búnað ,,Karakuri". Að vísu fylgir sá ókostur þessum búnaði að hnakkapúðar á aftursætinu eru ekki stillanlegir á hæðina. Hins vegar er ótrúlega mikið hagræði að þessu og miklu einfaldara að fást við sætið fyrir bragðið.

Afturdyr eru rúmar og ná nægilega langt aftur, auk þess sem hurðin opnast vel fram, og því auðvelt er að athafna sig með barn og bílstól en Isofix-festingarnar eru fyrir stól báðu megin.

Búnaðarstig eru fjögur; S, TS, TS2 og Sport AWD (aldrif).

Öflugri vélar
Mazda 6 er fáanlegur með 5 mismunandi vélum á evrópska markaðnum; 4ra sílindra 1,8 og 2,0 og 6 sílindra 2,3 lítra bensínvélar en 2ja lítra dísilvél og sama vél sem túrbódísilvél.

2ja lítra bensínvélin er 16 ventla með 2 ofanáliggjandi kambása (tímakeðja*), 147 hö við 6000 sm. Hámarkstogið er 184 Nm við 4000 sm. Snerpan er 9,5 sek. og eyðsla í lengri akstri um 6,5 lítrar á hundraðið.

2,3ja lítra bensínvélin er 4ra sílindra 16 ventla með 4 ofanáliggjandi kambása (tímakeðja*), 166 hö við 6500 sm. Hámarkstogið er 207 Nm við 4000 sm. Snerpan er 8,7 sek. og eyðslan í lengri akstri um 7,2 lítrar á hundraðið.

2ja lítra túrbódísilvélin er 16 ventla með einn ofanáliggjandi kambás (tímareim*), 145 hö við 3500 sm. Hámarkstogið er 360 Nm við 2000 sm. sem er mikið - en til samanburðar má hafa að 2ja lítra 116 ha túrbódísilvélin í nýja Toyota Avensis, sem er sprækari en í nýja VW Passat, er með 280 Nm hámarkstog við 2200 sm. Snerpan er 9,3 sek. og eyðslan í blönduðum akstri er um 5 lítrar en það mun vera nálægt því besta sem gerist í þessum flokki bíla.

Þessi túbódísilvél í Mazda 6 er búin innsprautukerfi af annarri kynslóðinni sem byggir á nýjustu tækni svo sem forðagrein (common rail) með rafskotsspíssum (piezo-electric) og tölvustýrðu mengunarvarnarkerfi (EGR). Dísilvélin uppfyllir kröfur nýjasta evrópska mengunarstaðalsins Euro IV (og reyndar einnig bandaríska Tier 5 sem er enn strangari). Athyglisvert er hve stikunin í 6 gíra beinskipta kassanum er vel samhæfð togkúrfu vélarinnar og eflaust munu einhverjir gapa af undrun yfir togkraftinum í vélinni, t.d. þegar henni er gefið inn á 1750 sm í 3. gír. Mætti segja mér að atvinnubílstjórar verði fljótir að uppgötva þá lipurð sem fólgin er í Mazda 6 með þessari túrbódísilvél.

Handskiptingin er 6 gíra en sjálfskipting 5 gíra.

Í Bandaríkjunum er boðið upp á 220 ha V6-bensínvél en einungis með beinskiptum 6 gíra kassa.

* Vakin er athygli á því að tímakeðju þarf að endurnýja engu síður en tímareim. Kosturinn er hins vegar sá að gleymist að endurnýja tímakeðju myndast yfirleitt hljóð, áður en hún slitnar, sem virkar sem viðvörun. Gleymist hins vegar að endurnýja tímareim má reikna með að hún slitni án viðvörunar með tilheyrandi skemmdum.

Helstu mál - öryggi
4ra dyra bíllinn með skotti er 4,7 metrar á lengd, 1,78 m breiður (1,96 m með speglum) og 1,44 m á hæð. Botnskugginn er 8,4 m2 (Avensis 8,15 m2). Farangurrýmið er 510 lítrar. Dráttargeta er 1600-1800 kg. Felgur eru 16" og dekk af stærðinni 205/55 R16. Eigin þyngd, eftir gerðum og búnaði, er 1305 - 1515 kg en leyfileg heildarþyngd 1930-2010 kg.

Þeir sem pæla í öryggismálunum vita að þyngd bíls hefur heilmikið að segja í því sambandi. Mazda 6 er áberandi efnismikill og sterkurbyggður enda kemur hann með hæstu einkunn úr úr stöðluðum árekstrarprófunum. Í bílnum er allur sá sjálfvirki öryggisbúnaður sem nú tíðkast til verndar bílstjóra og farþega í framsæti - en öryggispúðana hægra megin að framan má aftengja. Því til viðbótar er tölvubúnaður sem dregur úr hættu á hliðarskriði.


Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar