Maybach V12-skriðdrekavélin

Wilhelm Maybach (f. 1846/d. 1929) og Gottleib Daimler voru vinir og félagar um rekstur fyrirtækisins Daimler Motoren Gesellschaft sem hóf framleiðslu á brunavélum (Otto-mótorum) fyrir ýmis farartæki fyrir aldamótin 1900. Maybach var yfirvélahönnuður fyrirtækisins og ein af mörgum uppfinningum hans er blöndungurinn eins og enn er notaður á bílvélum. 1907 stofnaði Maybach nýtt fyrirtæki sem framleiddi bensín- og dísilvélar fyrir Zeppelin loftskip og járnbrautir. Upp úr fyrra stríði, árið 1919 hafði Þjóðverjum verið bannað að framleiða vélar fyrir flugför. Þá stofnuðu feðgarnir Wilhelm og Karl Maybach nýtt fyrirtæki, Maybach Motoren-Werken til framleiðslu á iðnaðar- og bílvélum, m.a. 12 sílindra V-vélum fyrir járnbrautir. Maybach framleiddi einnig merkilega lúxusbíla (1921-1941).

Séð aftan á vélina og hægri hlið hennar.
Fjórir Solex 52-blöndungar. Samstilling þeirra var vandaverk og ekki á hvers manns færi.

Fljótlega eftir að Nasistar urðu einráðir í Þýskalandi upp úr 1933 hófst hergagnaframleiðsla á laun. Á tímabilinu 1936-1945 framleiddi Maybach um 140 þúsund bensínvélar fyrir skriðdreka og hálfbeltabíla. Eftir lok seinna stríðs framleiddi Maybach-fyrirtækið í Friedrichshafen stórar dísilvélar fyrir Mercedes-Benz vörubíla og nefnist nú MTU (Motoren-Turbinen-Union) og er hluti af Daimler-Chrysler samsteypunni. Maybach er nú notað sem vöruheiti á nýjum lúxusbíl sem Daimler-Chrysler framleiðir og er nýtt flaggskip þess.

Maybach-vélin, sem Þjóðverjar höfðu í Panzer-skriðdrekunum var léttbyggð 12 sílindra vatnskæld 60° V-vél. Um þrenns konar afbrigði af sömu bensínvélinni var að ræða, 11, 12 og 23 lítra vél. Minni vélarnar voru 230 og 265/272/300 hö við 2600 sn/mín. Þjöppun var 6,5:1. Þvermál sílindra var 100 og 105 mm og slaglengdin 115 mm. 11 og 12 lítra vélarnar voru með undirlyftur (höfðu kambásinn í blokkinni).

Stærri vélin (í Panther og Tiger) var með 23,1 lítra slagrými. Aflið var 650 og 700 hö eftir árgerðum. Þvermál sílindra var 130 mm og slaglengdin 145 mm. Þjöppun var 6,5 og 6,8:1 eftir árgerð. Þessi vél var með ofanáliggjandi kambása og 4 Solex-blöndunga (2ja hálsa) af gerð 52. Hver blöndungur fæddi 3 sílindra. Vélin brenndi bensíni með oktantöluna 74-78. Á vélunum var kveikjukerfi með svokölluðum magnetum (segulkveikjur).Panther og Tiger var vélarrýmið búið sjálfvirkum slökkvibúnaði en þrátt fyrir hann skemmdust margir þeirra, sem framleiddir voru í fyrstu rununni, vegna sjálfsíkveikju.

Copyright © Leó M. Jónsson

Helstu heimildir:
Motoren und Getriebe deutscher Panzer 1935-1945. Höf. Fred Koch. Podzun-Pallas. 2000.