Maine er nyrst og stærst bandaríkja á austurströndinni norðan við New Hampshire við landamæri Kanada. Íbúar eru um ein milljón, stærsta borgin Portland með um 80 þús. íbúa en höfuðstaðurinn er Augusta. Nyrsti hluti Appalacia fjallgarðsins er í vesturhlutanum en svæðið á milli fjalls og fjöru Atlantshafsmegin er skógi vaxið. Uppi í fjöllunum eru stór stöðuvötn, eitt þeirra er Mooshead og úr því rennur m.a. skipgeng Kennebec áin í Atlantshaf og myndar víðaáttumikið vatnasvæði. Á Kennebec-svæðinu var mikil tréskipasmíði þegar á 18. öld. Helstu bæirnir þar sem skipasmíði var aðalatvinnuvegurinn voru Dresden, Richmont, Bowdoinham og Bath. Richmont, þar sem Jamsetown var byggt, er lítill bær með um 3.500 íbúa en í Bath búa um10 þúsund manns. Hæst reis skipasmíðin á árunum 1860-1890. Á Kennebec-vatnasvæðinu risu snemma sögunarmillur, stíflur og uppistöðulón og síðar alls konar pappírsiðnaður. Námavinnsla er mikilvægur atvinnuvegur.

Um 1850 hafði lífríki vatnasvæðisins orðið fyrir miklum skaða vegna mengunar frá iðnaði og um 1900 höðu fiskistofnar eyðst og fuglalíf var ekki svipur hjá sjón. Þegar 1880 höfðu umhverfisverndarsinnar hafið baráttu fyrir því að stöðva náttúruspjöll af vörldum iðnaðarmengunar en fengu litlu ágengt í fyrstu. Fram eftir 20. öldinni dróst atvinnurekstur saman og íbúum Main fækkaði jafnt og þétt; skipasmíðar lögðust að mestu af og pappírsiðnaður dróst saman, ekki síst vegna mengunarvandamála. (Alvarleg díoxínmengun, sem mælst hefur í íslenskum fiski og valdið hefur erfiðleikum á mörkuðum, t.d. í Frakklandi og Belgíu, hefur verið rakin til mengunar frá pappírsiðjuverum á austurströnd Bandaríkjanna en hún hefur borist með hafstraumum á Íslandsmið).

Á undanförnum áratugum hefur staðið yfir gríðarlegt átaksverkefni sem beinist að því að ,,hreinsa" Kennebec-vatnasvæðið. Liður í því hefur verið að fjarlægja pappírsiðjuver ásamt mörgum stíflumannvirkjum og hreinsa vatnasvæðið af uppsöfnuðum mengunarefnum. Það hefur þegar borið þann árangur að fiskur gengur nú aftur upp í Kennebec, m.a. Atlantshafslax, og fuglalíf hefur aukist, m.a. er himbrimi kominn aftur á vötnin.

Til baka

Aftur á aðalsíðu