Leó M.Jónsson vélatæknifræðingur.

NÝ KYNSLÓÐ LEXUS GS300
Árgerð 2006

Okkur kann að koma það spankst fyrir sjónir en víða í Evrópu verður enn vart fordóma gagnvart japönskum bílum sem hafa reynst betur hérlendis en evrópskir bílar yfirleitt. Í Bandaríkjunum hafa bílakaupendur lært að meta gæði japanskra lúxusbíla - þar er lLexus ofar á lista yfir gæðamerki en t.d. Mercedes-Benz. Í Þýskalandi fást kaupendur jafnvel ekki til að prófa Lexus; þjóðtrúin, þrátt fyrir óþægilegar staðreyndir, segir að Benz sé bestur og menn una glaðir við sitt - enn um stund sem, í sjálfu sér, lýsir í hnotskurn rót þeirra erfiðleika sem Daimler-Benz hefur glímt við.

Japanir hafa sýnt að þeir vinna sínar markaðsáætlanir vel og til langs tíma. Lykillinn sem opnaði Lexus leiðina inn á markað fyrir dýrari lúxusbíla var tækniþekking og reynsla Toyota af því að fjöldaframleiða ódýra fólksbíla í háum gæðaflokki. Nú finnur fólk þá kosti í Lexus sem áður voru sérstök einkenni Mercedes-Benz. Lexus og Cadillac eru nú sterkustu stöðutáknin á bandaríska bílamarkaðnum og í efstu sætum á listum yfir gæðastig. Hvað sem þessu líður þá er Mercedes-Benz enn ímynd lúxusbílsins (og leigubílsins) í augum margra hérlendis þrátt fyrir hlutverkaskiptin vestanhafs.

Ný kynslóð - breytt áhersla
Nýr Lexus GS300 (árgerð 2006) er 3. kynslóðin af GS; nýr hönnun frá grunni; 4ra dyra lúxusbíll af millistærð. Þar til nú hefur GS300 fyrst og fremst verið lúxusbíll. Stílhreinu og fersku útliti er nú ætlað að skerpa ímynd um afl og snerpu. Um þrenns konar útfærslur er að ræða, a.m.k. fyrst um sinn; GS300 með V6-vél með afturhjóla- eða aldrifi og GS430 með V8-vél með afturhjóladrifi. Hér er fjallað um afturhjóladrifinn GS300 V6.

Nýr Lexus GS300 af árgerð 2006 er 3. kynslóðin af þessum lúxusbíl. 2006-árgerðin er ný hönnun frá grunni og leysir af hólmi bílinn sem verið hefur við lýði síðan 1998. Útlitsbreytingin er ekki meiri en svo að bíllinn þekkist en hann er ívið stærri og með meira hjólhaf en sá eldri.

Hérlendis verður nýi Lexus GS300 borinn saman við 2006 árgerðin af Mercedes-Benz E. Engu að síður dylst manni ekki að hönnuðir Lexus hafa, með breyttum áherslum, gert GS300 að öflugri keppinaut um yngri kaupendur lúxusbíla og tefla honum á móti Jaguar XJ6, BMW 530 og nýja Audi 6.

Hefðbundinn
Þótt útlitsbreytingin á GS300 sé talsverð er hún ekki sérstaklega áberandi. Eins og fyrirrennarinn er bíllinn fremur látlaus, a.m.k. af lúxusbíl að vera. Sama máli gildir um breytta stærð bílsins - fæstir taka eftir að sá nýi er dálítið stærri enda er mesti munurinn fólginn í auknu hjólhafi um 5 sm.

Grundvallarbygging GS300 er hefðbundin varðandi undirvagn, drif- og vélbúnað - þrautreynd hönnun eins og við er að búast í afturhjóladrifnum bíl. Hins vegar er beitt mikilli tækni til að tryggja það besta, sem næst með hefðbundinni hönnun. Eiginleikar bílsins bera því vitni svo sem mýktin, stöðugleikinn og hljóðeinangrun; fágun í meiri mæli en gengur og gerist í bílum yfirleitt. Samt mun áberandi snerilstyrkur nýja bílsins koma á óvart.

Vélaraflið er yfirdrifið. Það gefur þó frekar til kynna akstursöryggi en reykspólandi snerpu því sportlegir eiginleikar eru einfaldlega ekki það sem sóst er sérstaklega eftir: Lexus GS300 er fyrst og síðast lúxusbíll og stendur vel fyrir sínu sem slíkur. Markviss og þróuð hönnunin hefur gefið af sér eðalvagn en ekki tækniviðundur; það sem skiptir máli er í réttu hlutfalli, hvergi er farið yfir strikið og smekkvísi viðbrugðið. Markmiðið er að láta þann sem ekur Lexus GS300 upplifa raunverulegan lúxus - þeir sem prófa bílinn dæma um hvort það hefur tekist.

Tækni er lúxus
Stór hluti þess sem fæst fyrir peningana í Lexus GS300 er tæknibúnaður sem eykur öryggi og þægindi - hvort tveggja eiginleikar sem eiga þátt í að skapa réttu ímyndina.

Annars vegar er staðalbúnaður sem ver ökumann og farþega svo sem loftpúðar fyrir framan, á hliðum að ofanverðu, í hliðum framstóla og neðan á mælaborði til verndar hnjám; 3ja punkta bílbelti fyrir öll sæti, en öll beltin nema í miðju aftursæti strekkjast við höggálag og draga úr endurkasti með tempraðri slökun. Á bílbeltunum er jafnframt öryggislás sem kemur í veg fyrir að viðkomandi losni úr beltinu eða flækist í því lendi bíll á hvolfi. Hluti varnarbúnaðar eru styrkingar í hliðum bílsins og krumpusvæði í fram- og afturenda. Rafstilltir speglar eru með minnisstillingu og afísingu og innispegill með sjálfvirka glampastillingu. Meira að segja glæra hlífin yfir mælunum er með glampastillingu til öryggis.

Hins vegar er rafeindabúnaður sem eykur öryggi í akstri. Til upplýsingar er hér talinn upp staðal- og auka-öryggisbúnaður sem um ræðir í GS300 og heiti hans og skammstafanir skýrðar:

Staðal-öryggisbúnaður: VSC = Vehicle Stability Control = Stöðugleikastýring.ABS 4C/4S+AB= Anti-lock Brake System + Brake Assist = Læsivarðar bremsur með 4 rásum/4 nemum og átaksauka.EDB = Electronic Brake-force Distribution = Rafræn bremsu-átaksmiðlun.TWS = Tire Warning System = Gátkerfi fyrir dekkjaþrýsting.
Auka-öryggisbúnaður: VDIM = Vehicle Dynamic Integrated Management = Kerfi sem samhæfir verkun annarra öryggiskerfa svo sem ECB, ABS, BA, EBD, VSC og EPS og heldur hraða, inngjöf, stefnu og beitingu bíls innan öruggra marka við mismunandi aðstæður.ECB = Electronic Controlled Brake System = Kerfi sem tryggir hámarksafköst bremsukerfis við mismunandi aðstæður.BA = Brake Assist = Bremsu-átaksauki. EPS = Electronic Power Steering = Vökvastýri með rafeindaskynjun.PCS = Pre Collision System = Kerfi sem "skynjar" aðsteðjandi hættu og undirbýr öryggis- og varnarbúnað bílsins í þágu ökumanns og farþega.

Til að girða fyrir misskilning er hér einungis upptalinn sérstakur öryggisbúnaði en ekki staðal- og aukabúnaður til þægindaauka. Sá búnaður, bæði sá sem er innifalinn í verði bílsins og sá aukabúnaður sem hægt er að fá með honum gegn aukagjaldi er mikil upptalning sem ekki verður gerð tæmandi skil í þessari grein. Búnaðarlistar eru birtir á vefsíðu umboðsins (með www.lexus.is).

Eins og að líkum lætur er tækni hluti af þeim lúxus sem greitt er fyrir. Lág bilanatíðni er einnig lúxus. Það er til marks um ótrúlega vandaðan frágang þessa bíls að þótt hann sé búinn öllum hugsanlegum tæknibúnaði er Lexus og hefur verið ár eftir ár efstur á lista yfir þá bíla sem minnst bila og fæstar kvartanir berast um frá eigendum. Sem dæmi má nefna gæðastigslista bandaríska fyrirtækisins J.D. Power en þar hefur Lexus trónað í efsta sæti ár eftir ár.

Undirvagn
Eins og áður sagði er grunnhönnunin hefðbundin. Sjálfstæð gormafjöðrun er á hverju hjóli með stillanlega gasdempara að aftan og framan. Diskabremsur eru á öllum hjólum. GS300 er á 17" léttmálmsfelgum og á lágprófíldekkjum af stærðinni 225/50R17. Bílinn fæst á 18" felgum (235/40/R18) og einnig má sérpanta nýja gerð dekkja (245/40ZR18) sem aka má á loftlausum um 160 km leið á 80 km hraða og því er varahjól óþarft. Þessi nýja tegund dekkja nefnist á ensku "Run-flat". Þau eru um fjórðungi þyngri en venjuleg lágprófíldekk, eru með styrktar hliðar, tvöfaldan felgukant og stálbelti í sólanum sem ver þau hnjaski. Að öllu öðru leyti eru þau sambærileg við venjuleg dekk og þrátt fyrir þessa eiginleika passa þau á venjulegar felgur og eru meðhöndluð með venjulegum verkfærum á dekkjaverkstæðum.

Ný vél
Í eldri bílnum er 3ja lítra 6 sílindra línuvél með blokk úr steypyustáli. Í þeim nýja er 3ja lítra V6-vél sem er öll úr áli; 4ra kambása vel með 24 ventlum og búnaði sem stillir ventlatíma og opnun eftir álagi á öllum ásunum (VVT). Þjöppunarhlutfall er 11,5. Vélin er búin beinni innsprautun í brunahólf og kveikjulausu neistakerfi. Hámarksaflið er 245 hö og hámarkstog 322 Nm.

Sjálfskiptingin er 6 gíra tölvustýrð og er jafnframt hægt að stjórna skiptingum með hnappi í stýrishjólinu. Með þessum vélbúnaði er GS300 einn af viðbragðsfljótustu fólksbílum á markaðnum en hann er um 7 sek að ná 100 km hraða frá kyrrstöðu. Meðaleyðsla er rúmir 13 lítrar í borgarakstri en 9,1 lítri á þjóðvegi.

Útpæld innrétting
Í stíl við bílinn er innréttingin bæði vönduð og smekkleg. Skinnklæðningin ber það með sér að vera í hæsta gæðaflokki. Stjórntæki og hirslur eru þau hefðbundnu og engar gátur lagðar fyrir bílstjórann; allt er á sínum stað. Til einföldunar hefur stjórntækjum sem sjaldnar þarf að beita verið komið fyrir á sérstöku bretti, sem leikur á löm og gengur niður úr mælaborðinu lengst til vinstri, en á því eru takkar til að stilla útispeglana, opna bensínáfyllingu o.fl.

Eins og lúxusbíl sæmir er leðurklæðningin í hæsta gæðaflokki. Innrétting er bæði vönduð og smekkleg. Áhersla hefur verið lögð á að stjórntæki séu greinilega merkt og auðvelt að beita þeim. Sjálfskiptingunni (6g) má jafnframt handskipta með hnöppum á stýrishjólinu.

 

Verðið
Velja má á milli 10 lita á Lexus GS300, þ.á.m. tveggja mismunandi bjartra silfurlita. Þegar komið er upp í þennan verðflokk fólksbíla er ekki mikið að marka verðskrár nema sem viðmið. Endanlegt verð bíls á reikningi getur verið allt annað. Að sama skapi er ekki auðvelt að bera saman verð mismunandi tegunda bíla í þessum flokki, a.m.k. ekki án þess að leggja í það talsverða vinnu. Fyrir þessu er eðlileg ástæða: Lúxusbíll er, öðrum fremur, sniðinn að sérstökum óskum kaupanda og persónulegum smekk og því er úrval aukabúnaðar mikið og val hans ræður miklu um endanlegt verð bíls. En sem vísbendingu um verð má nefna að Lexus GS300 fæst fyrir um 5,2 mkr. Mercedes-Benz E280 fyrir 5,8 mkr, Audi A6 (nýi) fyrir 5,7 mkr. og BMW 530i fyrir 5,2 mkr.


Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar