Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:
Subaru Legacy Station 2006

Árið 1948 var sérkennilegur bíll frumsýndur í Bandaríkjunum. Sá nefndist Tucker Torpedo. Hann vakti óskipta athygli fyrir ýmsar tækninýjungar og afburða aksturseiginleika. Þá var því m.a. haldið fram í blöðum að Tucker væri fyrsti nýi ameríski bíllinn í 50 ár. Þótt Tucker kæmist aldrei í fjöldaframleiðslu (en 50 voru smíðaðir) er af honum mikil saga og hver veit nema ég segi hana seinna á þessari vefsíðu. Tucker, ásamt Hudson Hornet 1948, olli vatnaskilum í bandarískri bílahönnun. Á meðal þess sem gerði aksturseiginleika Tucker svo frábæra var vatnskæld vél með 6 lárétta sílindra í tveimur gagnstæðum röðum (boxari) en hún var aftast í bílnum. Auk þess sem lárétt vélin lækkaði þyngdarpunktinn dreifðist þyngd bílsins nánast jafnt á milli fram- og afturhjóla við fulla hleðslu.

Grunnhönnun Tucker, en hann var grindarlaust burðarbúr, hefur mátt sjá, mismunandi útfærða, í öðrum bílum fram til dagsins í dag. Sem dæmi má nefna Chervolet Corvair, Porsche 911 og NSU Prinz en þeir áttu það jafnframt sameiginlegt að vera grindarlausir og með loftkældar boxaravélar úr léttmálmi (Porsche 911-vélin er vatnskæld síðan 1996).

Subaru hefur notað boxara úr léttmálmi síðan 1968. Sú vél var upphaflega hönnuð og þróuð hjá þýska Borgward. Subaru hefur þróað léttmálms-boxarann, stig af stigi, í áratugi og er vélin þekkt fyrir einstakt gangöryggi, lága bilanatíðni, mikla endingu og, síðast en ekki síst, fyrir silkimjúkan gang.

Stöðugleiki - öryggi
Lárétt boxarvél úr léttmálmi gerir það að verkum að þyngdarpunkturinn í Subaru er rétt yfir hjólnöfum. Hann liggur lægra en í flestum öðrum bílum. Árangurinn er ekki einungis meiri stöðugleiki heldur umtalsvert meira öryggi. Aukið öryggi er m.a. fólgið í því að bíll með lágt liggjandi þyngdarpunkt lætur betur að stjórn þegar bremsum er nauðbeitt á mikilli ferð en bíll með hærra liggjandi þyngdarpunkt; flóttaafl (massatregða) hefur minni áhrif á hreyfingu bílsins þegar bremsum er beitt og hann lætur auðveldar að stjórn. Það vill stundum gleymast að bremsurnar ráða miklu um hve hraðskreiður og öruggur bíll er.

Legacy er með sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum; gormaturna og neðri klafa að framan en fjölliða-fjöðrun að aftan. Burðarþolið er 470 kg. Eigin þyngd er 1465 kg. Subaru Legacy er sparneytinn bíll (8,3 lítra meðaleyðsla), ekki síst þegar haft er í huga að hann er með fjórhjóladrifi. Handskipti bíllinn er með hátt og lágt drif sem kemur sér vel við kerrudrátt. Vélarafl: 165 hö Snerpa, 0-100 km/klst. 9,3 sek. Verð, frá 2,49 mkr.

Veggrip ræður úrslitum
Með lágt liggjandi þyngdarpunkt og hagstæða þyngdardreifingu lá beinast við að hafa sítengt fjórhjóladrif með sjálfvirkri aflmiðlun á milli fram- og afturhjóla. Með slíka byggingu gat Subaru náð þeim stöðugleika og öryggi sem hönnunin býður upp á.

16 ventla boxaravélin er 4ra sílindra með 2,5 lítra slagrými. Ofanáliggjandi kambás er á hvoru heddi. Vélin í Legacy er ein sú þýðgengasta á markaðnum og bilanatíðni Subaru er með því lægsta sem þekkist.

Eins og oft vill verða með bíla sem skera sig úr varðandi tæknilegar lausnir - eru örðu vísi en aðrir, getur verið erfiðleikum háð að sannfæra venjulega kaupendur um kostina; fordómar valda því að fólk fæst jafnvel ekki til að prófa. Þannig urðu Citroën- og Subaru-eigendur, um tíma, að einhvers konar sértrúarsöfnuði á meðal bíleigenda og var tekið með ákveðinni tortryggni þegar þeir lýstu kostum bílsins; - voru jafnvel álitnir skrýtnir af sumum á svipaðan hátt og eigendur hreinræktaðrar hunda.
Vandamál Subaru var að koma fólki í skilning um hve veggrip skipti miklu máli og að sítengt fjórhjóladrif kæmi ekki einungis að notum í vetrarfærð.

Impreza leysti málið
Engu er líkara en að tæknimenn Subaru hafi hugsað sem svo að úr því almenningur fengist ekki til að trúa auglýsingum og kynningarefni lægi beinast við að sanna málið með því að sýna, svart á hvítu, að þessi hönnun væri einstök. Subaru Impreza þótti upphaflega bæði dýr, þröngur og óspennandi í útliti - eða þar til bílaáhugamenn kveiktu á perunni - en þá hafði Subaru þegar hafið þá sigurgöngu í rallaksturskeppnum, sem varla á sér hliðstæðu, en á Impreza unnust allar helstu rallkeppnir heimsins í rúman áratug. Þessi sama hönnun er, í öllum aðalatriðum, í Subaru Legacy Station.

En samt ……..
En þrátt fyrir að Impreza hafi opnað augu margra fyrir kostum Subaru er engu líkara en að það þurfi hálfgerðan sértrúarsinna til að kaupa Subaru Legacy. Hérlendis er það ekki einungis lakri þjónustu umboðsins að kenna því Svíar eru ekkert öðru vísi - þeirra kreddur eru jafvel enn verri því þeir bera alla bíla saman við Volvo (jafnvel þótt langt sé síðan hann hætti að vera sænskur nema að nafninu til).

Ég ætla að nefna hér nokkur atriði sem ættu að vekja áhuga á að taka Subaru Legacy með í reikninginn við næstu endurnýjun heimilisbílsins.

"Sjálfrennireið"
Fyrsta bíllinn eignaðist ég 1958;11 ára gamall Citroën Traction Avant sem var allt öðru vísi en aðrar bílar á þeim tíma: Hann rann svo létt og hljóðlega að engu líkara var en að maður færi stöðugt niður í móti. Subaru Legacy er einn örfárra bíla sem hefur þennan sama sérkennilega eiginleika og hann er á meðal þess fyrsta sem einstaklingur, með tilfinningu fyrir bíl, veitir oftast athygli.

Handskiptur - sjálfskiptur
2,5 lítra vélin í Legacy Station er 165 hö við 5.600 sn/mín. Snerpan er innan við 10 sek. Hámarkshraðinn 206 km/klst. Handskiptur Legacy Station GL kostar rétt innan við 2,5 mkr. nú í lok febrúar 2006. Sjálfskipting kostar 100 þús. kr. meira. Dráttargetan er 1.800 kg. Hvort sem bíllinn er valinn handskiptur eða sjálfskiptur er fjórhjóladrifið sítengt með aflmiðlun. Sjálfskiptingar í Subaru hafa reynst traustar.

Sjálfskipti bíllinn (4 gírar) er með tölvustýrða gripstjórn á milli fram- og afturhjóla sem tryggir hámarksveggrip við mismunandi aðstæður. Handskipti bíllinn (5 gírar) er hins vegar með bæði hátt og lágt lágt drif og læsanlegt millidrif. Lága drifið í handskipta bílnum kemur sér vel þegar draga þarf vagn upp langar brekkur. 4 og 5 gírar er ákveðin vísbending um að þessi vélbúnaður sé kominn á endastöð og vænta megi gagngerra breytinga á næstunni.

Handskipti Legacy var áður fyrr með bakkbremsu; búnaði sem gerði það að verkum að bíllinn rann ekki afturábak í brekku þegar kúplað var og bremsunni sleppt. Subaru býður ekki lengur upp á þennan búnað. Blaðamenn sem ekki þekkja mikið til bíla hafa stundum lokið miklu lofsorði á þennan búnað og þakkað hann tæknimönnum Subaru. Búnaðurinn er ekkert verri fyrir það að hann er hannaður af tæknimönnum Studebaker og kom fyrst í Champion af árgerð 1951 og nefndist þá "Hill holder". En það er vissulega eftirsjá að honum (þessi búnaður, sem er innbyggður í allar sjálfskiptingar, mun vera enn í handskiptum Forester).

Fleiri kostir
Subaru Legacy Station er ámóta að stærð og Toyota Avensis Station og Skoda Octavia Combi. Farangursrými er 495 lítrar eða 85 lítrum minna en í Octavia en flutningsrými svipað (1628 lítrar). Legacy er sparneytnastur þessarra þriggja en er þó 15 hö öflugri vél en Octavia. Legacy er mýkri á fjöðrunum og hljóðlátastur þessarra þriggja. Innréttingin er látlaus en vönduð og hin þægilegasta. Aftast er rými fyrir meðalstórt hundabúr. Þeir sem vilja fá meira af aksturseiginleikum og afli Impreza í Legacy Station geta sérpantað 250 hestafla Legacy GT með forþjöppu. Dísilvél er hins vegar ekki á prógramminu hjá Subaru - a.m.k. ekki ennþá.