Land Rover 1947-1983

Eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing.

Sjálfsagt hefur það vafist fyrir einhverjum Íslendingi hvers vegna Bretar höfðu (og hafa) takmarkaða trú á bandarískum bílum, - reyndar er ekki fráleitt að fullyrða megi að á meðal Breta sé óbeit á amerískum bílum algeng. Sú kenning hefur verið sett fram af málsmetandi sagnfræðingum1 að ástæðan sé vond reynsla Breta á árum síðari heimstyrjaldarinnar af amerískum skriðdrekum, sem þeim voru lagðir til, og áttu litla sem enga möguleika á móti vandaðri og öflugri skriðdrekum Þjóðverja. (Hafirðu áhuga á að kynna þér skriðdrekamálin frekar skaltu smella HÉR )

Tæknistjóri Rover Car Company í Coventry, Maurice Wilks, hafði notað amerískan herjeppa í stað dráttarvélar á landareign sinni í Angelsey á árunum eftir seinna stríðið. Fyrir tilviljun hafði jeppinn borist í tal á milli hans og bróður hans, en sá var Spencer Wilks þáverandi stjórnarformaður Rover, og voru þeir að velta því fyrir sér hvaða bíll myndi taka við hlutverki ameríska herjeppans þegar sá hefði gengið sér til húðar. Sagan segir að þar með hafi hugmyndin að Land Rover kviknað. Hjá Rover töldu menn sig sjá fyrir mikla þörf fyrir ódýrt, fjölhæft farartæki fyrir landbúnað bæði heima fyrir og í bresku nýlendunum í fjarlægum álfum - löndum þar sem breskar vörur áttu upp á pallborðið og/eða skortur á dollurum kom í veg fyrir sölu á amerískum jeppum. Tæknimönnum Rover voru fengnir tveir amerískir herjeppar til að hafa sem útgangspunkt til að hanna og þróa nýjan jeppa sem fékk strax heitið Land Rover. Forsprakki hönnunarliðsins var Gordon Bashford. Það fylgir sögunni að hjá Rover var ekki gert ráð fyrir að framleiðsla á jeppa myndi verða við lýði nema örfá ár til auka útflutning og tekjur tímabundið til að fjármagna þróun hefðbundnari Rover fólksbíla.

Fyrstu tilraunabílarnir voru með yfirbyggingu sem var sett saman úr álplötum með hnoðum. Ástæða þess að ál varð fyrir valinu var ekki vegna þess að það væri þá talið æskilegt efni eða vegna þess að það væri ódýrt heldur sú að stál var nánast ófáanlegt upp úr stríðslokum. Kosturinn við álið var sá að það mátti vinna með einföldum tækjum og handverkfærum en það var talið æskilegt þar sem um minniháttar framleiðslurunu var að ræða - eða svo héldu menn á þeim tíma.

Með stýrið í miðjunni

Fyrsta forgerðin (prototype) var tilbúin til prófunar á árinu 1947 - sá bíll var með grind úr amerískum herjeppa en vélin var 1389 rsm 4ra sílindra, 48 ha, vél úr Rover 10 fólksbílnum, með gírkassa úr fólksbíl og afturhásingu og fjaðrir úr Rover 10. Eini búnaðurinn sem var sérstaklega smíðaður var 2ja gíra millikassi. 3 eða 4 forgerðir voru smíðaðar og á þeim var allur sá búnaður, sem síðar var í Land Rover, prófaður, þ.m.t. aflúrtak og framspilið (með lóðréttu tromlunni). Á þessu stigi var bíllinn með stýrið í miðjunni en þannig átti að slá 2 flugur í einu höggi og gera hann jafnvígan í hægri- sem vinstriumferð - en bílstjórinn átti sem sagt að hafa gírkassastokkinn á milli fótanna eins og á traktor. Engin forgerðanna, sem smíðaðar voru í upphafi, hefur varðveist. Þær urðu þó til þess að sýna að hugmynd þeirra Wilks-bræðra var góð og í framhaldi voru smíðaðuð 48 eintök af Land Rover til frekari tilrauna, þróunar og sem sýningargripir. Höfuðáhersla var lögð á að hafa bílinn tilbúinn fyrir alþjóðlega bílasýningu í Amsterdam vorið 1948. Sem betur fer, fyrir Rover, hafði verið hætt við miðjustýrið og stýrið haft ýmist hægra eða vinstra megin í þessum 48 bílum en þeir voru ýmist opnir (pikköpp) eða með station-húsi. Það skyldi ekki koma neinum á óvart að hjólhafið var 80 tommur (2,032 m) enda grindin úr Willys Jeep MB.

Forgerðin 1947 var með grind úr Willys MB en stýrið í miðjunni. Þannig átti að leysa vandamálið með sérvisku annarra þjóða sem óku röngu megin á veginum að mati Breta. Þessir station-Land Rover voru framleiddir í takmörkuðu upplagi árið 1948 og höfðu sama 80" hjólhaf og fyrsti framleiddi jeppinn.
Georg VI bretakonungur við liðskönnun í Land Rover af ágerð 1951. Fyrsti bíllinn sem kom til Íslands mun hafa verið eins og þessi og er endurbyggður og í eigu Heklu. Innréttingin í fyrsta Land Rover var ef til vill ekki íburðarmikil en hann hafði breiddina umfram Willys-jeppann eins og sjá má á miðjusætinu enda mun rúmbetri jeppi.

Nýi Land Rover mun ekki hafa orðið miðpunktur sýningarinnar í Amsterdam vorið 1948 en hann vakti nægilega mikla athygli til að tæplega 2 árum seinna seldust 2 Land Rover á móti hverjum einum af hinum glæsilega nýja Rover P3 fólksbíl. Af þessum fyrstu 48 Land Rover var vitað um 18 árið 1989, m.a. fyrsta bílinn í rununni, sem Rover náði að kaupa og láta gera upp en nr. 4 er til sýnis á breska þjóðarbílasafninu í Beaulieu skammt norðan við Southampton. 9 af þessum fyrstu Land Rover er vitað um utan Bretlands. Að þeim 21, sem ekkert var vitað um um 1990, hefur verið leitað dyrum og dyngjum og þeir bjartsýnustu á meðal breskra Land Rover-áhugamanna eru vongóðir um að finna megi einhverja þeirra á yfirgefnum býlum eða á geymslusvæðum.

Fyrsta framleiðslurunan

Fyrsta framleiðsluruna Land Rover fyrir almennan markað var 1500 bílar árið 1949. Flestir þeirra voru opnir pikköpp. Strax 1948 hafði verið sýndur 7 sæta station-bíll með sama hjólhaf en af honum voru framleidd 640 eintök á fyrstu árunum og þá með yfirbyggingu úr tré. Seinna var yfirbygging stationbílsins, sem þá var lengri á milli hjóla, með klæddur álrammi. 1953 var hjólhafið aukið í 86 tommur (SWB) og í 107 tommur með lengri gerð (LWB) 1954.

Fram að 1950 voru bílarnir af Seríu 1 frábrugnir þeim sem síðar komu að því leyti að þeir voru með hálftengt fjórhjóladrif. Þetta var búnaður sem byggðist á fríhjólandi framhjólsnöfum með tengihring sem læsti nöfunum við inngjöf hann reyndist ekki vel og var breytt þannig að sítengt aldrif varð virkt þegar sett var í lága drifið. Frá 1950 var Land Rover hins vegar með hefðbundið hlutadrif þar sem handskipt var á milli afturhjóla- og fjórhjóladrifs eins og nú tíðkast í millikössum en sem Bretinn nefnir ,,hundakúplingu". Drifhlutfallið var 4,7:1. Hlutföllin í millikassanum voru þannig að í háa drifinu var yfirgírun (1,148) en lága drifið var með hlutfallið 2,89. Mesta niðurgírun út á hjólöxul í 1. gír (sem var með niðurgírunina 2,99) var 40,676. Stýrisvélin var niðurgíruð 10:1. Eigin þyngd var 1297 kg.

Í fyrstu bílunum fram að árgerð 1952 var 4ra sílindra bensín-toppventlavél með 1595 rsm slagrými. Hámarksaflið var 50 hö við 4000 sn/mín og hámarkstogið 112 Nm við 2000 sn/mín. Frá 1952 var bensínvélin 1997 rsm, 52 hö við 4000 sn/mín. og með hámarkstog 141 Nm við 1500 sn/mín. Eins og sjá má af tölunum jókst togið verulega á lægri snúningshraða með 1997-vélinni en það sem telja verður merkilegt er að um tvær mismunandi 1997-vélar var að ræða, annars vegar útboraða 1595-vél (vandamálavél) í árgerðum 1951 og þar til seint á árinu 1953 en hins vegar 1997-vél úr Rover P4 60 frá því síðla árs 1953. Gírkassinn var 4ra gíra með samhæfðum 3. og 4. gír. Árið 1956 kom Land Rover með Rover-dísilvél (fyrst í árgerð1957). Slagrýmið var 2052 rsm, hámarksaflið 51 ha við 3500 sn/mín og hámarkstogið 122 Nm við 2000 sn/mín. Til að koma dísilvélinni fyrir varð að auka hjólhafið úr 86 í 88 tommur og voru þær 2 tommur sjáanlegar á lengra húddinu. Land Rover var vel tekið og fyrstu árin voru um 80% framleiddra bíla seldir til útflutnings. 1957 var síðasta árið sem Sería 1 var framleidd en fram að árgerð 1958 munu um 250 þúsund eintök hafa verið framleidd hjá Land Rover verksmiðjunum í Solihull í Vestur-Miðlöndum. Á stríðsárunum og eftir stríðið höfðu Bretar gert tilraunir með alls konar skrýtin fartæki sem ætluð voru fyrir herinn og líktust sum þeirra jeppa. Myndir og skýringar.

Rolls-Royce-vél

Strax 1948 sýndi breski herinn áhuga á Land Rover þótt hann hefði þá þegar ákveðið að kaupa hinn fjórhjóladrifna Austin Champ með 2,8 lítra Rolls-Royce-vél. Sérfræðingar hersins drógu í efa að 1595-vélin í Land Rovernum væri nógu öflug. Tæknimenn Rover sérhönnuðu því ákveðna gerð af Land Rover fyrir þessa mun stærri og þyngri Rolls-vél. Af þeim bíl voru framleidd 33 eintök árið 1949 og er hann stundum nefndur 81"-bíllinn vegna hjólhafsins. Austin Champ, Land Rover 81" með Rolls-vélinni og venjulegur með 1595-vélinni voru látnir gangast undir torfærupróf á vegum hersins. Þar bókstaflega stakk Land Roverinn með 1595-vélinni hina 2 af sem varð til þess að sannfæra sérfræðinga hersins og Rover lagði frekari áform um framleiðslu á 81-tommu-Land Rovernum á hilluna.

Útlit Land Rover-jeppans breyttist ekki mikið fyrstu árin. Fyrstu bílarnir voru með földum hurðahöldum, biðljósin á gluggastykkinu og ökuljósin á milli frambrettanna og á bak við vírgrillið en 1952 var tekið úr grillinu fyrir ljósunum, biðljósin flutt yfir á frambrettin og þá komu innfelldu hurðarhöldin.

Sería 2, sem kom fyrst sem árgerð 1958 og var síðast framleiddur sem árgerð 1970 var einnig með ökuljósin á milli brettanna (nema á sérstakri export-gerð frá 1968 sem hafði ökuljósin á brettunum - en sú gerð af dísilbílnum var seld hérlendis frá 1968). Sería 2 þekkist á rúnnuðum kantinum framan á húddinu. Í fyrstu S-2-bílunum var 1997 rsm bensínvélin en í apríl 1958 kom ný bensínvél, 4ra sílindra, 3ja höfuðlega og 2286 rsm. Endurbætur voru ekki byltingarkenndar nema bensínvélin, 77 hö við 4250 sn/mín og með hámarkstog 174 Nm við 2500 sn/mín. Þessi vél, sem af einhverjum ástæðum er skráð í uppsláttarritum sem 2,25 lítra, var í Seríu 2 og 3 og jafnframt í fyrstu bílunum af 90 og 110-gerðinni eftir 1983.

Sex og átta sílindra vélar

Sería 2A var við lýði frá 1961 til 1971. Sá bíll var framleiddur með 88 og 109 tommu hjólhafi og með 6 sílindra 83ja ha 2625 rsm bensínvél og einnig með 4ra sílindra 62ja ha 2286 rsm dísilvél. Í Seríu 2A var millikassi með hærra yfirdrifi í háa (1,53) í lengri bílnum af árgerðum 1968-1971.

Sería 3 var ný gerð sem byrjað var að framleiða 1971 og var framleidd til 1983 þegar nýr bíll leysti hinn upphaflega Land Rover af hólmi. Ef frá er talin Export-gerðin af Seríu 2 frá 1968 þekktist Seria 3 af því að ökuljósin eru á brettunum. Að öðru leyti var ekki um byltingarkenndar breytingar að ræða ef frá er talinn nýr alsamhæfður gískassi, mælaborðið og betri stólar. Þá komu sterkari Salisbury-afturhásingar í lengri bílnum frá 1972. Stutti bíllinn vóg um 1470 kg og lengri bíllinn með 6 sílindra vélinni um1730-1940 kg. Staðaldrifhlutfallið var 4,7:1 en í langa bílnum var hlutfallið í lága drifinu lækkað í 3,27:1.

Seria 2 sem kom 1958 þekkist m.a. á rúnnuðu húddinu að framanverðu.

Svokölluð ,,Stage 1-gerð" af Seríu 3 kom sem árgerð 1979. Það var lengri bíllinn (109") með sömu 3,5 lítra V8-álvélinni og var í Range Rover. Með tveimur Zenith- Stromberg blöndungum var vélin 91 ha við 3500 sn/mín. Janframt var sami drifbúnaður (sítengt aldrif) og í Range Rover þótt jeppinn væri áfram á blaðfjöðrum. Frambyggður Land Rover var framleiddur í ýmsum útfærslum árin 1962-1966. Vélbúnaður var í stórum dráttum sá sami og í Seríu 2 og 3. Þegar nýu Land Rover 90 og 110 tóku við frá 1983 munaði mest um breytinguna á fjaðrabúnaðinum en þá tóku gormarnir við af blaðfjöðrunum.

Bygging og eiginleikar

Upphaflega mun hafa staðið til að galvanhúða stálgrindina í Land Rover. Horfið var frá því. Sú skýring hefur verið gefin að galvanhúðunin hafi reynst of mikil framkvæmd og of dýr. Í stað þess var haft þykkara stál í grindinni. Þótt skel bílsins sé að stórum hluta úr áli voru alls konar innri styrkingar úr stáli. Land Rover ryðgaði því eins og aðrar bílar. Upphaflega var því spáð að samspil stáls og áls myndi reynast illa, ekki síst vegna hættu á tæringu. Þær spár rættust ekki þótt einhver brögð munu hafa verið að því að álið tærðist vegna utanaðkomandi efna svo sem salts og tilbúins áburðar.

Árgerð 1952 framleiddur af Tempo í Þýskalandi fyrir þýsku landamæralögregluna og fleiri. Seria 3. 1971-1983. Síðasta gerðin af upprunalega Land Rover. 88 tommu hjólhaf (SWB). Þessi er af ágerð 1980.

Burðarþol fyrstu Land Rover jeppanna sem komu hingað í upphafi 6. áratugarins var um 5-600 kg sem var meira en Willys-jeppinn gat borið. Land Rover var rúmbetri en þyngri en Willys. Þyngdin háði þeim við vissar aðstæður, ekki síst í snjó. Vegna þess að fjaðrirnar voru neðan á hásingunum og fremur lágt undir grindina vildi snjór hlaðast upp og þjappast undir bílnum þar til hann festist. Margir vildu meina að fyrstu Land Rover hefðu fullkomnari og betri vél en Willys, toppventlavél á móti hliðarventlavélinni í Willys. Á móti kom að Willys var léttari bíll og slagrými vélarinnar meira. Þótt Land Rover væri ekki gallalaus frekar en aðrir bílar hentaði hann vel t.d. íslenskum bændum sem gátu notað hann til að vinna ýmis verk, með búnaði tengdum aflúrtaknu, auk þess sem hann gengdi hlutverki fjölhæfs flutningatækis.

Land Rover þótti hastur á fjöðrunum. Ég mun hafa sagt frá því í grein í Bílnum (3/1997) að af einhverjum ástæðum munu bílarnir hafa verið pantaðir með sérstaklega styrktum fjöðrum sem voru við það miðaðar að hann þyldi að falla hæð sína án þess að fjöður brotnaði. Á sama tíma munu Land Rover seldir í Bandaríkjunum hafa verið mun þýðari. Ekki bættu sætin í fyrstu bílunum úr því þau þóttu ekki þægileg. Hekla hf. hóf innflutning á Land Rover 1951 þótt það hefði sýnt Land Rover jeppann hérlendis í nóvember 1948. Skýringin er innflutningshöft sem voru ekki afnumin af bílum fyrr en haustið 1961. Flestir Land Rover sem hingað komu voru með húsi. Þó sáust hér bílar með íslensku húsi en þeir voru fáir. Við samanburð á Land Rover og Willys, en menn skiptust í tvo hópa varðandi þessa jeppa, þá er það staðreynd að Land Rover var sparneytnari en þó með mun sprækari vél (77 hö toppventlavél), var með 12 volta rafkerfi og 4ra gíra kassa. Willysinn eyddi meiru, ekki eins kraftmikill (52-60 hö), hafði 6 volta rafkerfi og 3ja gíra kassa.

Rover fyrirtækið

Rover hóf sinn feril 1861 með framleiðslu saumavéla en var orðið á meðal þekktustu reiðhjólaframleiðenda á fyrstu árum 20. aldar sem Rover Cycle Company í Coventry. Fyrsti Rover bíllinn kom á markaðinn 1904. 1906 var heiti fyrirtækisins breytt í Rover Motor Company Ltd. Leyland eignaðist Rover 1967 og þannig varð Rover hluti af British Leyland og svo smám saman, með því að breskur bílaiðnaður söng sitt síðasta vers, varð það að Land Rover Ltd. 1975 og svo að Rover Group sem British Aerospace yfirtók 1988 og seldi svo þýska BMW árið 1994. Það gerðist svo í mars árið 2000 að Ford keypti Land Rover af BMW sem seldi Rover Cars fjárfestingafélaginu Phoenix.

Skrýtnar Land Rover-sögur

Þegar Rover skipti út stálgrillinu á Land Rover fyrir grill úr plasti ringdi yfir það mótmælum frá Afríku og Ástralíu en þar höfðu menn lengi notað grillið til glóðarsteikingar yfir opnum eldi á ferðalögum.

Ástæðan fyrir því að brettin voru flöt að ofan var sú að Rover átti engin tæki til að forma ál. Með tímanum urðu flötu brettin á Land Rover ómissandi teborð breskra bænda.

Fyrsta dísilvélin í Land Rover var tveggja lítra tveggja sílindra forþjöppuvél sem framleidd var af Turner í Wolverhampton. Sú vél og önnur 3ja lítra voru boðnar sem breytingarpakki árið 1953.

Byrjað var að setja saman og framleiða Land Rover utan Bretlands strax árið 1952, fyrst hjá Minerva í Belgíu síðar á Spáni auk þess sem þýska Tempo (Vidal & Sohn) framleiddi þá fyrir þýsku landamæralögregluna og fleiri frá 1952.

Á fyrstu 1500 bílunum í Seríu 1 var gírskiptingin fest í gólfið, þ.e. í boddíið en ekki í grindina eða gírkassann. Þegar farið var hratt yfir ójöfnur dróst gírstöngin upp úr gírkassanum.

Myndir af Land Rover Björns Sigurðssonar

Lýsing á Land Rover Björns Sigurðssonar


Nokkrir skrýtnir breskir jeppar

Eftirfarandi vefsíður innihalda efni um Land Rover:

http:www.landroverclub.net


http:www.landroverline.com

Grein um Land Rover Defender

Stuttfréttir úr bílaheiminum

Til baka á forsíðu

Netfang höfundar

Heimildir:
1. Brute Force. Höf. John Ellis. London 1990.
Classic & Sportscar, tímarit, maí 1989