Land Rover saga Björns Sigurðssonar

Þessi Land Rover, Series IIa, var framleiddur af The Rover Company Ltd. í Solihull, Warwickshire í Englandi sumarið 1968 og fékk þar verksmiðjunúmerið 27405174 D og vélarnúmer 27144073 J. Hann var fluttur til Íslands með m/s Vatnajökli og skráður 1. ágúst 1968 á númerið A 2863 sem hann ber enn. Þetta var um það leyti sem Rússarnir réðust inn í Tékkóslóvakíu, sem mörgum er enn í jafn fersku minni og morðið á John F. Kennedy. Fyrsti eigandi hans var Ágúst Guðlaugsson á Akureyri sem þá var 51 árs og átti hann bílinn síðan svo lengi sem hann lifði, en hann dó sumarið 2003 og keypti ég þá bílinn af dánarbúinu. Með bílnum fylgdu öll upphafleg verkfæri, eigendahandbækur og jafnvel bæklingur sem innflytjandinn Hekla h/f hafði látið þýða á íslensku og afhent með nýju bílunum. Einnig hefur varðveist frá þessum tíma blár afhendingarseðill frá Rover Company þar sem upp er talinn allur útbúnaður bílsins og fylgihlutir svo sem handbækur, verkfæri sem upp eru talin, varahjól Goodyear 750x16x6, framstuðari, hurðasett, hliðarrúður, gúmmímottur, aftursæti og fleira og undir plaggið kvitta þeir Howard og Butler.
Akstursmælir vegna þungaskatts var settur í bílinn 11.08. 1976 og hafa akstursbækurnar varðveist með bílnum.
Þessi Land Rover er með 2286 rúmsentimetra díselvélinni og fjögurra gíra kassa sem er samhæfður milli 3. og 4. gírs og þar af leiðand þarf að tvíkúppla niður í 2. og 1. gírinn.
Ágúst notaði bílinn nánast eingöngu í sumarleyfum sínum framan af og ók þá suður í Borgarfjörð en þar var hann fæddur og upp alinn. Bílnum hefur því aðeins verið ekið 27.000 km frá upphafi og er því óslitinn, óryðgaður og í ótrúlega góðu lagi og tjónlaus úr umferðinni.Hann var hinsvegar talsvert veðraður og mattur, sætin og innréttingin sólbrunnin og olía lak á stöku stað og var hafist handa í desember 2003 að lagfæra eitt og annað, og bæta útlitið.
Það voru þeir Ásgeir Bragason og Hilmar Kristjánsson á verkstæðinu Bílameistarinn á Akureyri sem eiga heiðurinn af því yngingarferli. Var jafnvel haft á orði að verið væri að bjarga hluta af menningararfi þjóðarinnar.

Skipt var um hjólalegur, settar nýjar fjaðrir og demparar, framfjaðrirnar eru enskar parabole fjaðrir með 2 blöðum en að aftan eru Land Rover fjaðrir sem ekki eru heavy duty eins og upphaflega var í bílunum sem fluttust til Íslands og er hann því lúsþýður í akstri. Upphaflegu dekkin voru enn undir bílnum og voru þau lögð til hliðar til sparibrúks en í stað þeirra sett Bridgestone Blizzak 30" dekk á 15" felgum ( 5 stk ) sem enn auka á mýktina. Skipt var um eldsneytisdæluna þar eð með henn lak smurolía. Þá var yfirbyggingin að mestu tekin af og sprautuð í pörtum í sínum upphaflega lit, Landrover grænum og toppurinn beinhvítur. Fengin var ný innrétting frá Englandi ( nema þakklæðningin ), smáljósin og speglar endurnýjuð svo og efri hluti hvorrar hliðarhurðar og settar nýjar allar hurðapakkningar. Eina frávikið í útliti er að aftari hliðarrúðurnar voru hafðar heilar í stað óþéttra og glamrandi renniglugga en upphaflegu rúðurnar geymdar, og í stað dráttarbeislis var sett nútímalegri dráttarkúla. Farið var með bílinn á Land Rover mótið í Húnaveri 16.-18. júlí s.l. sumar og var það mjög skemmtileg helgi. Þar voru samankomnir um 60 Land Roverar með eigendum sínum, um helmingurinn frá öðrum löndum og voru engir tveir bílar eins. Minn bíll var elstur í hópnum og vann hann til verðlauna sem best uppgerði Land Roverinn og var það skemmtileg og óvænt reynsla.
Bíllinn er enn varðveittur í sínum heimabæ og er öllum sem áhuga hafa á Land Rover velkomið að líta á gripinn en til mín næst í farsíma 897 0259.

Björn Sigurðsson netfang: bjorns@fsa.is

Aftur á aðalsíðu