Bandarísk bílaframleiðsla: Örstutt landafræði.

Bílaframleiðsla í Bandaríkjunum fyrr og nú er órjúfanlega tengd ákveðnu landssvæði, nánar tiltekið nyrðri Mið-vesturríkjunum. Þau eru Michigan, sem er gríðarstór skagi með Michigan-vatn að vestanverðu, Huron-vatn að norð-austan og Erie- og Ontario-vatn að austanverðu; Indiana og Ohio sem liggja sunnan við Michigan. Wisconsin og Illinois tilheyra einnig Mið-vesturríkjunum og þar er umtalsverður iðnaður sem tengist bílaiðnaði, t.d. var AMC með sína starfsemi í Kenosa í Wisconsin sem Daimler-Chrysler reka nú. Telja má með nyrsta hluta New York-ríkis sem liggur að Erie-vatni (Buffalo) og Ontario-vatni (Rochester) eftir að hinn 580 km langi Erie-skipaskurður var grafinn í gegnum fjalllendið á milli Buffalo og Albany árið 1925 - þótt ríkið tilheyri ekki Mið-vesturríkjunum tilheyrir það bíliðnaðarsvæðinu.

Hin miklu samtengdu vötn, Superior, Michigan, Erie, Huron og Ontraio ásamt járnbrautum mynda flutningakerfi sem auðvelda nýtingu gríðarlegra náttúruauðæfa þessara ríkja svo sem járnnámanna í Minnesota, járn- og koparnáma í Michigan auk þess sem kol og olía eru unnin í flestum þessara ríkja í mismiklum mæli - en vötnin og námurnar eiga stóran þátt í að gera Mið-vesturríkin að einhverju afkastamesta iðnaðarsvæði veraldar en landkostir á vestanverðu svæðinu gera þau jafnframt að mesta hveiti- og kornræktarsvæði Bandaríkjanna. Því til viðbótar er gríðarleg mjólkur- og kjötframleiðsla í Kansas, Missouri, Iowa, Minnesota, Wisconsin, Nebraska og Norður- og Suður-Dakota (en S-D framleiðir mest af gulli í Bandaríkjunum). Þá er matvælaiðnaðurinn í Illinois þýðingarmikil stóriðja.

Mið-vesturríkin eru ekki einungis kjörin til alls konar framleiðslu sökum náttúruauðæfa og veðurfars heldur eru landkostir afar hagstæðir. Miklar lágsléttur eru ekki einungis kjörnar til akuryrkju og búfjárræktar heldur gera þær kleift að leggja og reka járnbrautir á auðveldari hátt en víða annars staðar í Bandaríkjunum. Járnbrautirnar, mjög góðir vegir, afkastamiklir flugvellir, flutningar á skipgengu fljótunum Missisippi, Ohio og Missouri; vötnunum miklu og Lawrence-fljóti frá þeim út í Atlantshafið mynda saman eitthvert afkastamesta flutningakerfi veraldar.

Mið-vesturríkin eru einnig skilgreind sem Efra-Missisippi-svæðið á milli Appalacia-fjallgarðsins í austri og Klettafjalla í vestri. Efra-Missisippi vatnasvæðið tengist vötnunum miklu og Lawrence-fljóti, sem rennur í Atlantshaf, og saman mynda þau stærsta ferskvatnssvæði heims. Landsvæðið er gríðarlega stórt með ótrúlegar vegalengdir. Þannig má nefna að vatnaleiðin frá Duluth í N-Dakota að Lawrence-fljóti er 1.900 km og Lawrence-fljótið frá Ontario-vatni til sjávar er 3.500 km. Og því má bæta við að stór hluti íbúa Mið-vesturríkjanna á ættir að rekja til þýskra innflytjenda og þar hefur verið og er enn eitt traustasta vígi Repúblikanaflokksins.

Þessi landafræði skýrir m.a. hvers vegna umtalsverður bílaiðnaður var í Ohio (Willys Overland o.fl. í Toledo), í Indiana (Marmon í Idianapolis, Studebaker í South Bend og Auburn, Cord og Dusenberg í Auburn) og einnig nyrst í New York-ríki. Nálægðin við Michigan og vötnin miklu gera það að verkum að enn þann dag í dag er umtalsverður iðnaður tengdur bílaframleiðslu í þessum 3 ríkjum.

Það vill gleymast að Kanada, stærsta land veraldar, tilheyrir einnig Norður-Ameríku, og sumum kemur jafnvel á óvart hve mikill bílaiðnaður er í Ontario í Kanada. Ástæður eru mikil málmauðæfi í jörðu og aðgangur að vötnunum miklu og þar með að hinu fullkomna flutningakerfi Mið-vesturríkja.

Til baka

Aftur á aðalsíðu