Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:
SsangYong Kyron 2008/2009
Nýr fullvaxinn jeppi tekinn við af Musso

Ákveðin tímamörk varðandi lúxusjeppa urðu, að mínu mati, með Musso árið 1996 en ég prófaði hann fyrst fyrir austan fjall og á Kaldadal 1997. Um útlit og eiginleika bíla verður alltaf deilt en athygli vakti hve Musso var þýður, lipur og snöggur; með þægilega fjöðrun, vel bólstruð sæti og glæsilega innréttingu. Musso var auk þess talsvert ódýrari og betur búinn en margir keppinautar. Nú er nýr jeppi, Kyron, tekinn við hlutverki Musso.

Framleiðandinn SsangYong í Suður-Kóreu lenti í greiðsluerfiðleikum sl. haust vegna gjaldþrots undirverktaka og þurfti að loka verksmiðjum. Um tíma mátti ætla að það yrðu endalok þessa gamalreynda fyrirtækis. En svo varð ekki: Hópur fjárfesta brá við og hafa allar verksmiður SsangYong í Suður-Kóreu tekið til starfa á ný. Samkvæmt frétt á just-auto.com mun fjárhagur SsangYong nú hafa verið tryggður.

Reynslan er …..
Reynsluleysi bílaumboða fyrir áratug, bæði varðandi samskipti við bílaframleiðendur í S-Kóreu og viðvíkjandi forvarnarviðhaldi, áttu þátt í ótímabærum bilunum og talsverðum óþægindum vegna ábyrgðarviðgerða. Og hin makalausa ,,íslenska ryðvörn" hefur valdið ótímabærum skemmdum.

Frá upphafi hefur fengist mikið fyrir peningana í jeppum frá SsangYong og ég er á því að kaupin hafa batnað s.l. 10 ár með auknum gæðum. Mercedes-Benz vélarnar hafa reynst vel, ekki síst 5 sílindra 2,9 lítra dísilvélin í Musso/Korando. Þótt Benz-dísilvélarnar frá SsangYong væru í fyrstu ekki jafn tæknilega þróaðar og þær nýrri þýsku, voru t.d. með hefðbundið olíuverk og spíssa þar til 2005, hafa þær reynst gangöruggar, sterkar og sparneytnar en eyðsla Musso er um og innan við 11 lítrar enda sigraði hann jeppaflokkinn, bæði dísil- og bensín, tvö ár í röð (2000 og 2001) í sparaksturskeppni FÍB og Esso. Engir meiriháttar gallar hafa verið í Benz-vélum frá SsangYong. Varahlutaþjónusta hefur verið ágæt og varahlutaverð undir meðaltali.

Sérstaða SsangYong
SsangYong er sá bílaframleiðanda í Suður-Kóreu (S-K) sem lengstan feril hefur á sviði fjórhjóladrifsbíla. Fram að 1993 framleiddi fyrirtækið einungis herjeppa fyrir Asíumarkaðinn og AMC-Jeep (sem Korando) en framleiðsla á Musso hófst 1993 (kom á evrópska markaðinn 1995). Samstarf við Mercedes-Benz AG um þróun og framleiðslu véla og sendibíla stendur á gömlum merg. Með Musso markaði SsangYoung þá stefnu að nota drifbúnað frá þekktum alþjóðlegum framleiðendum. Nefna má sem dæmi gírkassa frá Tremac og BorgWarner, millikassa frá BorgWarner, sjálfskiptingar frá Mercedes-Benz, BTRA og nú ZF, hásingar frá Dana-Spicer, stýrisvélar frá Saginaw eða TRW auk tölvu- og öryggisbúnaðar frá Ziemens, VDO og Bosch. Kyron, eins og Musso, er hannaður og byggður á þessum grunni.

Nýtt útlit en hóflega breyttur kjarni
Kyron, sem nú hefur tekið við hlutverki Musso, er byggður á svipaðan hátt en með nýrri tækni. Það fyrsta sem vekur athygli er að Kyron er talsvert stærri bíll en ljósmyndir gefa til kynna. Þetta er fullvaxinn jeppi á sterkri þverbita U-grind með stutta Dana 35 lið-hásingu að framan (slík liðhásing er að framan í Ford Explorer/Ford Ranger, Izusu Pickup o.fl.) og stífa Dana 44 afturhásingu. Kyron er frábrugðinn Musso að því leyti að hafa gorma bæði að aftan og framan (snerilfjöðrun og stutt stíf framhásing í Musso). Með liðhásingu, gorma og öfugt skorið drif að framan (pinjóninn kemur á kambinn ofan við miðju til að minnka halla á framskafti) er Kyron mýkri og slaglengd fjöðrunar meiri.

Bílabúð Benna hefur lengi verið fremst í flokki við jeppabreytingar og því mun framhásingin, með öfugt skornu drifi, ekki draga úr möguleikum á breytingum, t.d. varðandi lægri hlutföll. Umboðið hefur þegar fengið sérsmíðuð drif með mismunandi hlutfalli fyrir Kyron auk driflæsinga en Kyron hentar vel til breytinga, sé áhugi fyrir þeim - Dana/Spicer hásingar tryggja hagstæðasta verð á drifbúnaði til breytinga.

Útlit Kyron vekur athygli fyrir ávalar línur - mjúkt form. Bíllinn er nýtískulegur, minnir t.d. talsvert á X5-jepplinginn frá BMW og Benz-jeppann (M) en er hins vegar gjörólíkur nýjum L-R Discovery og Nissan Pathfinder sem einkennast af brotnum línum og sléttum flötum. Án efa munu verða skiptar skoðanir um útlitið á Kyron eins og gengur.

Tæknilega þróaðar vélar
Athyglisvert er að bera saman 5 sílindra dísilvélina í Musso og 4ra sílindra dísilvélina (minni dísilvélina) í Kyron. Á milli þessarra tveggja Benz-dísilvéla er áratugur mikilla tæknilegra framfara í eldsneytiskerfum dísilvéla.

Eldri 2,9 lítra dísilvélin (Musso/Korando) er með einn ofanáliggjandi keðjuknúinn kambás og 2 ventla á hverju brunahólfi. Slagrýmið er 2,874 lítrar eða 575 rsm/sílindra og aflið 129 hö við 4000 sn/mín með pústþjöppu og milikæli. Það þýðir 44,89 hö/lítra. Dísil-innsprautukerfið í Musso er síðasta kynslóðin af raðdælu með hefðbundnum gormaspíssum (og stenst ekki þá mengunarstaðla sem tóku gildi í ársbyrjun 2007).

Minni dísilvélin í Kyron, nýja 2ja lítra vélin, er með 2 ofanáliggjandi keðjuknúna kambása og 4 ventla á hverju brunahólfi. Slagrýmið er 1,997 lítrar eða 499 rsm/sílindra og aflið 141 ha við 4000 sn/mín með pústþjöppu og millikæli. Það þýðir 70,6 hö/lítra. Dísil-innsprautukerfið er 3. kynslóðar forðagrein (common rail) með rafspíssum. Það segir nánast allt um stökkið, sem orðið hefur í tækniþróun dísilvéla á einum áratug, að þessi nýja 2ja lítra Benz-dísilvél frá SsangYong skilar 57,3% meira afli á hvern lítra slagrýmis en eldri 5 sílindra vélin!

Stærri dísilvélin í Kyron er 2.7 lítra 5 sílindra Benz- túrbódísilvél (163 hö við 4000 sn/mín) með 345 Nm hámarkstog við 1800 sn/mín. Með þeirri vél í Kyron er engu líkara en að pipar hafi verið settur undir stertinn á góðhesti enda er dráttargetan allt að 3,5 tonnum.

Ekki kæmi manni á óvart þótt skiptar skoðanir yrðu um ,,fegurð" bakhlutans. En svona lítur nýi Kyron út séður aftan á. Silfurlitur breiður láréttur listi þvert yfir afturhlutann strax ofan við afturljósin er meira áberandi sé bíllinn dökkur á litinn en hann breytir útliti bakhluta nýjustu árgerðar bílsins verulega. Á myndinni má sjá að það er fremur hátt undir bílinn (óbreyttan).

Báðar dísilvélarnar eru með þeim visthæfari. Endurbætt tækni gerir það að verkum að mengun í útblæstri hefur minnkað og báðar standast strangari kröfur Euro IV staðalsins um hreinsun útblásturs - og gott betur.

Til frekari fróðleiks kannaði ég sérstaklega varahlutalista Mercedes-Benz og sá að bæði blokk og hedd beggja dísilvélanna í Kyron eru þau sömu og í Benz (sama varahlutanúmer).

Einfaldur, traustvekjandi búnaður
Búnaðarstig staðalgerða jeppa frá S-K er hátt - maður fær mikið fyrir peningana í þessum bílum. Mest af þeim auka-, lúxus- og þægindabúnaði, sem tíðkast í dýrum lúxusjeppum, er staðalbúnaður í þeim kórönsku að undanskildri leðurklæðningu og rafknúinni þaklúgu. Öryggisbúnaður er ekki jafn fullkominn og í ýmsum algengari (dýrari) lúxusjeppum, t.d. eru ekki hliðar-öryggispúðar í höfuðhæð í Kyron.

Kyron er byggður til notkunar sem hefðbundinn jeppi jafnframt því að vera þægilegur heimilisbíll. Sterkbyggð grindin með íhnoðuðum þverbitum er hæfilega sveigjanleg til að gefa bílnum ákjósanlegan torfærueiginleika. Drifbúnaðurinn er einfaldur og sterkur, hátt og lágt drif - venjulegt hlutadrif með sjálfvirkum framdrifslokum sem hafa verið endurbættar þannig að sé aldrif tengt mánaðarlega (eins og segir í handbók) er ekki hætta á að þær festist. Þeir sem vilja vera öruggir geta fengið handvirkar framdrifslokur. Með þessu kerfi er bíllinn einungis í afturdrifi í öllum venjulegum akstri, en skipta má yfir í aldrif í háa drifinu (4H) á ferð með takka í mælaborði. Drifval er rafknúið - takki.

Nýju túrbódísilvélarnar í Kyron eru búnar tækni til að afl og sparneytni sé eins og best gerist hjá fullvöxnum jeppum. Pústþjöppukerfi 2ja lítra vélarinnar eykur bæði afl og sparneytni, m.a. er inngjöf (ástig) rafvirk og sé sjálfskipta bílnum, með 2ja lítra vélinni, ekið með sparnaðarforritið virkt finnst að inngöfin tekur seinna við sér og við botngjöf verður vart við hik - pústþjappan kemur ekki strax inn. Þetta er gert til að tryggja hámarkssparneytni án tillits til þess hvernig bílstjórinn beitir hægri fætinum. Þetta er því ekki dæmigert þjöppuhik heldur með ráðum gert enda er Kyron með minni dísilvélinni mjög sparneytinn þrátt fyrir talverða þyngd.

Upphækkun á 33" krefst ekki mikilla breytinga - en gjörbreytir bílnum eins og sjá má . Mest munar um hækkun fjöðrunar og útlitsbreytinguna sem brettakantar valda. Aksturseiginleikar batna, m.a. eykst rásfesta, veghljóð minnkar og fjöðrun mýkist.

Skipti hins vegar máli að geta stungið venjulega bíla af á ljósum þá velur maður einfaldlega Kyron með 2,7 lítra vélinni. Það skal fúslega viðurkennt að þótt mér, eins og öðrum venjulegum bílstjórum, myndi finnast nægur kraftur í 2ja lítra Kyron, þá er hann bráðskemmtilegur og meira spennandi með stærri vélinni - sérstaklega er mikill munur á "sparkinu'' þegar pústþjappan kemur inn og þrýstir manni í stólinn!

Einföld og hefðbundin bygging ásamt einfaldri tækni gerir það að verkum að Kyron er skynsamleg málamiðlun; fullbúinn jeppi með glæsilega innréttingu og öllum helstu þægindum fyrir lægra verð. Jafnframt er maður laus við alls konar rafeinda- og tölvubúnað í driflínunni sem þýðir væntanlega aukið rekstraröryggi, ekki síst úti á landi, og minni viðhaldskostnað. Vegna byggingarinnar hentar Kyron sem efniviður í breyttan jeppa. Hvort sem honum verður breytt eða ekki auðveldar það endursölu.

ZF Tiptronic sjálfskipting
Sjálfskiptingin í Kyron er frá þýska ZF (skammstöfun á Zahnradfabrik Friedrikshafen); 5 gíra skipting búin tölvustýringu (TipTronic). Þessi sjálfskipting er sömu gerðar og í Mitsubishi Outlander. Auk þess að vera með veljanleg álagskerfi fyrir sparakstur (venjulegan), vetrarakstur og sportlegri akstur má velja sérstakt forrit sem gerir kleift að handskipta upp og niður með því að ýta við stönginni fram eða aftur. Í þeirri stillingu er bíllinn sérstaklega lipur og skemmtilegur í borgarakstri.

Eflaust munu einhverjir reka augun í að gefin eru upp tvö mismunandi hlutföll fyrir bakkgírinn í sjálfskiptum Kyron. Skiptingin er búinn tveimur bakkgírum; venjulegum og hærri bakkgír sem skiptingin notar sem spólvörn (mýkra átak) þegar forritið fyrir vetrarakstur er valið. Þetta er sams konar spólvörn og beitt er í sjálfskiptingum sem taka af stað í 2. gír þegar sá háttur er valinn.

Öryggis- og annar búnaður
Auk hefðbundins öryggisbúnaðar, krumpusvæða, styrktarbita, loftpúða, beltastrekkjara o.s.frv. er Kyron-jeppinn búinn ýmsum tölvustýrðum viðbragðsbúnaði. Nefna má sjálfvirkt kerfi sem stjórnar hraða bílsins þegar farið er niður mikinn bratta (HDC = Hill Descent Control). Bílstjórinn þarf ekki að hafa áhyggjur af inngjöf eða bremsum, því bíllinn heldur stöðugum hraða, en hann getur einbeitt sér að því að stýra. Spólvörn er innbyggð í sjálfskiptinguna og stýrist af breytum frá ABS-hjólnemunum.
ARP-kerfið (ARP = Active Rollover Protection) grípur inn í þegar flóttaafl nær ákveðnum mörkum, t.d. þegar ekið er of hratt í krappa beygju; það dregur úr hættu á því að bíllinn fari á hliðina (hafa ber í huga að ARP-kerfið bætir á vissan hátt upp þann ókost Kyron að hafa ekki öryggispúða til hliðar í höfuðhæð - en samkvæmt tölfræðinni er jeppum yfirleitt hættara við að velta en öðrum bílum). BAS-kerfið (BAS = Brake Assistant System) nemur viðbrögð bílstjóra áður og um leið og hann stígur á bremsuna í neyðartilviki og tvöfaldar þá bremsuaflið sjálfvirkt til öryggis. Bremsubúnaðurinn er mjög öflugur - ekki síst vegna þess hve klafarnir að framan eru sterkbyggðir. (Varðandi skráningu niðurstaðna staðlaðra öryggisprófana samkvæmt www.EURONCAP.COM : Ég skoða þær niðurstöður (og einnig á www.FOLKSAM.SE ) fyrir alla bíla sem ég prófa, séu þær til staðar. Komi eitthvað fram í þeim sem ég tel sérstakt get ég þess. Þótt Kyron sé ekki að finna í þeim skrám yfir öryggisprófanir skyldi maður ekki vera of fljótur á sér að draga ályktanir af því. Af einhverjum ástæðum (reglum) er t.d. Porsche Cayenne-jeppann heldur ekki að finna í þessum skrám og mun þó enginn bera brigður á öryggi og/ eða öryggisbúnað hans).

Innrétting
Í Kyron er vel útfærð og vönduð innrétting með allt sem nú þykir sjálfsagður þægindabúnaður í lúxusjeppa. Innrétting og klæðning er áberandi glæsileg. Gegn aukagreiðslu er Kyron fáanlegur með enn glæsilegri leðurklæðningu. Sætin eru efnismikil og virka vel bólstruð. Auk allra venjulegra stillinga, er bílstjórastóllinn með stillanlegum stuðningi við mjóbak. Aftursætið er 40/60-skipt og myndar sléttan flöt þegar það er fellt fram og niður að hluta eða að öllu leyti. Farangursrýmið er stórt, með rennihlíf og afturhlera sem opnast upp.

Fyrir einungis fáum árum hefði svona vönduð leðurklæðning verið talin óhugsandi í lúxusjeppa á þessu verði. Þessi frágangur kemur mörgum á óvart.

Flutningsrýmið, með aftursætið fellt, er formað þannig og frágengið að það nýtist til fulls. Þægileg gólfhæð er fyrir hleðslu varnings um afturdyr, þ.e. hliðardyr. Og hafi manni dulist stærð þessa bíls kemur hún berlega í ljós þegar aftursætið hefur verið fellt. Staðalbúnaður, innifalinn í verði á sjálfskiptum Kyron af dýrari gerðinni (5190 þús. kr. en ódýrari gerðin kostar 4490 þús. kr. í febrúar 2009), vekur sérstaka athygli. Sem dæmi má nefna sjálfvirkan hraðastilli, tölvustýrt loftkælikerfi/hitun sem heldur völdu hitastigi á sjálfvirkan hátt, þakrekka, litað gler í hliðarrúðum að aftan og í hlera, upphitun í framstólum, fjölbreyttar sætisstillingar, stillanlegt leðurklætt stýrishjól, farangurshlíf og öryggisnet fyrir farangur og hljómflutningskerfi með fjarstýringu í stýri, svo það helsta sé nefnt af löngum listanum. Viðtækið er með alþjóðlegt FM-registur og nær því öllum FM-stöðvum hvort sem tíðnisvið þeirra er odda- eða raðtala (amerísk tæki ná ekki FM-stöðvum með raðtölu).

Farangursrýmið í þessum nýja lúxusjeppa frá SsangYong mun koma mörgum á óvart, einungis rýmið undir hlífinni er 625 lítrar og þó er varahjólið í hólfi í botninum en ekki geymt óvarið undir bílnum. Athygli vekur hve allur frágangur innréttingar, svo sem form, efni og festingar er vandaður.

Akstur
Ég hef áður gert grein fyrir þeirri skoðun minni að nánast sé tilgangslaust að reyna að lýsa því hvernig manni finnst nýr bíll koma út í akstri. Ástæðan er einfaldlega sú að engir tveir bílstjórar aka eða upplifa sama bílinn á sama hátt. Eftir að hafa kynnst Kyron kemur fyrst í hugann hve vanmetinn þessi bíll virðist vera. Eengu er líkara en að hann hafi að mestu leyti farið framhjá jeppamönnum - en þetta er einmitt tæki fyrir jeppamenn frekar en stöðutákn fyrir pjattrófur, sterkur jálkur án þess að vera púkó. Í akstri vakti athygli fremur mjúk fjöðrun, góð hljóðeinangrun, hljóðlát vél og lipurð bílsins þrátt fyrir stærð og þyngd. Sjálfskiptur Kyron með 2ja lítra dísilvélinni er hvorki rífandi kraftmikill né ljónsprækur - en það eru fæstir að leita að því hjá svona jeppa. En þeir fá talsvert af því í Kyron með 2,7 lítra vélinni - en hann hef ég einnig prófað á 33" dekkjum (upprunalegu dekkin eru 30") og fann lítinn mun á viðbragði en töluvert meiri rásfestu og mýkt.

Og talandi um fjöðrunina: Til að jeppi hafi einhverja teljandi torfærugetu þarf fjöðrunarsvið að vera sem mest. Stutta liðhásingin með gormum að framan og klöfum (sama hönnun og í Ford F-150) hefur mikið fjöðrunarsvið. Demparar eru hafðir í linara lagi til að tryggja veggrip í torfærum. Eins og ávalt með fullvaxna jeppa verður ekki bæði haldið og sleppt (þetta er ekki 15 milljón króna Porsche Cayenne) og því veldur mjúk fjöðrunin nokkrum hliðarhalla hjá Kyron í beygjum. Það má auðveldlega laga með álagsvirkum dempurum sem stinnast þegar lagt er á bílinn. Ég hef ekki prófað Kyron í torfærum en tel næsta víst að hann sé þar á heimavelli, m.a. af þessum ástæðum.

Upprunaleg hjólastærð
Tvennt myndi ég velja við kaup á Kyron: Annars vegar Toyo-harðskeljadekk af stærðinni 255/60 eða breiðari á 18" felgum (upprunaleg stærð) til að nota allan ársins hring. Hins vegar vildi ég fá bílinn án íslenskrar ,,ryðvarnar" sem ég tel einungis til óþurftar ofan á verksmiðjuryðvörn sem er með 8-12 ára ábyrgð!

Tæknilýsing
Helstu mál
Kyron er 4660 mm á lengd. Breiddin er 1880 mm, hæð 1740 mm. Hjólhaf 2740 mm. Sporvídd 1570 mm. Snúningshringur 11,2 m þvermál. Botnskuggi 8,76 m². Fríhæð (minnst) 193 mm. Aðhorn 26°. Fráhorn 23°. Miðjuhorn 21°. Klifurgeta 32° (62% bratti).
Farangursrými undir hlíf er 625 lítrar. Flutningsrými 1222 lítrar. Lengd flutningsrýmis er 1866 mm.

Helstu tæknitölur
Stýrisbúnaður: Tannstangarstýri með hraðanæmri vökvaaðstoð.
Þyngd, burðar-og dráttargeta: Leyfileg hámarksþyngd, 2530 kg. Eigin þyngd 1956-2028 Kg. Burðargeta, (m.v. 2000 kg bíl), 530 kg. Dráttargeta, vagn m. bremsum, 2300 -3500 kg. Eldsneytisgeymir: 75 lítrar.

Vélar:
A. Mercedes-Benz Xdi, túrbódísill, 4ra síl. línuvél, 16v, 2 ofanáliggjandi kambásar. Tímakeðja. Slagrými 2000 rsm. Þjöppun 18 : 1. Eldsneytiskerfi Forðagrein með rafspíssum (Common rail). Hámarkshraði: 167 km/klst.
Hestöfl: 141 við 4000 sn/mín. Tog: 310 Nm við 1800 sn/mín. Uppg. meðaleyðsla (ECE): 7,6 l/100 km. Viðbragð 0-100 km/klst: 16,2 sek. CO2 í útblæstri: 197 g/km.

B. Mercedes-Benz Gdi, túrbódísill, 5 síl. línuvél, 20 v, 2 ofanáliggjandi kambásar. Tímakeðja. Slagrými 2696 rsm. Þjöppun 18 : 1. Eldsneytiskerfi: Forðagrein með rafspíssum (Common rail).
Hestöfl: 176 við 4000 sn/mín. Tog: 350 Nm við 2000 sn/mín. Uppg. meðaleyðsla (ECE): 10,6 l/100 km. Viðbragð 0-100 km/klst: 13,5 sek. CO2 í útblæstri: 233 g/km.

Gír- og drifbúnaður
ZF Tiptronic sjálfskipting, 5 gíra. Má jafnframt handskipta sé sá kostur valinn Hlutfall: 1. gír 3,951, 2. gír 2,423, 3. gír 1,486, 4. gír 1,000, 5. gír 0,833, bakkgír, lægri 3,147, bakkgír, hærri 1,93. Hlutfall í millikassa: Hátt/lágt drif: 1,0/2,40 (BorgWarner Part-Time). Hlutföll í drifum: 3,54 : 1 (Dana Spicer) Hámarksniðurfærsla út í hjól: 33,57.

Netfang höfundar