Konum í smábílum er hættast við meiðslum
----------------------------------------

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur

Slysahætta er, að jafnaði, meiri í litlum bílum en stórum. Með breyttri hönnun hefur öryggi sumra smábíla verið aukið. Smábíll, sem fær 5 stjörnur í stöðluðu árekstrarprófi, er ekki eins öruggur og bíll af meðalstærð sem einnig fær 5 stjörnur. Stjörnugjöf eftir árekstrarpróf skyldi taka með fyrirvara. Reglur um Euro NCAP eru bæði flóknar og furðulegar og ekki allar í þágu öryggis. Árekstrarprófið er ekki skylda (Porsche tekur t.d. ekki þátt í stöðluðum árekstraprófum en segir sín eigin vera fullnægjandi). Framleiðendur greiða kostnaðinn af stöðluðu prófunum á vegum Euro NCAP og þeir vilja hafa reglur sem gera þeim kleift að fá upp í kostnað af árekstraprófum og auglýsingum.

Tvenns konar öryggisbúnaður
Meðvirkt öryggi skapa bílbelti, ABS-læsivörn á bremsum, stöðugleikakerfi, spólvörn, viðbúnar bremsur o.fl. Biðvirk öryggi skapa öryggispúðar, höggstýrðir hnakkapúðar, höggdeyfandi fram- og afturstykki, styrktarbitar í hliðum o.fl. Frá og með 2009 gilda nýjar reglur. Kröfur hafa verið skerptar og munu auknar í áföngum. Færri bílar en áður munu fá 5 stjörnur. Athygli vekur að sé innan við 85% af seldri bílgerð í Evrópu (árgerð 2009) búin sjálfvirku stöðugleikakerfi getur hann ekki fengið 5 stjörnur á árekstrarprófi - sama hver útkoman úr því er. Dæmi: Smábílarnir Suzuki Alto og Nissan Pixo eru ekki með stöðugleikakerfi (ESC) sem staðalbúnað. Báðir eru með 3 stjörnur. Báðir eru ódýrari en t.d. Renault Clio með 5 stjörnur. Suzuki-umboðið í Svíþjóð selur einungis Alto búinn stöðugleikakerfi og höggvirkum hnakkapúðum. Í Svíþjóð eru umhverfisvænni bílar niðurgreiddir af ríkinu. Þannig lækkaði Suzuki Alto um 11% og selst vel í Svíþjóð þótt stjörnurnar séu þrjár. (Svo það valdi ekki misskilningi er Suzuki Swift með 4 stjörnur).

Breytt hönnun smábíla gerir það að verkum að mun minni hætta er á alvarlegum meiðslum bílstjóra við árekstur en áður. Karlmenn njóta þó meira öryggis en konur!

Breytt hönnun smábíla að frumkvæði Toyota
Toyota hefur staðið fyrir sérstöku þróunarátaki með það að markmiði að gera smábíla öruggari. Einhverjir muna eftir hörðum árekstri í Hvalfjarðargöngunum sl. sumar þegar rákust saman úr gagnstæðum áttum lítill Yaris og vörubíll. Bílstjóri smábílsins náðist heill á húfi úr brakinu - og þótti mörgum með ólíkindum. En það kemur heim og saman við niðurstöður prófana á vegum tryggingafélagsins Folksam í Svíþjóð. Í þeim hefur nýjasti Yaris (5 stjörnur) reynst bílstjórum öruggari en eldri og stærri bílar á borð við Volvo 740 Station. Nýju smábílarnir eru þannig byggðir að við árekstur framan á veita fleiri öryggispúðar vörn um leið og hjólastell, stýrisbúnaður og burðarbotn þrýstist niður og undir bílinn; fótahólf með stýrishólk og pedölum þrýstist frá fótum bílstjórans. Sama gildir með farþega í framstól. (Myndskeið má skoða á vefsíðunni http://www.folksam.se/testergodarad/krockfilmer/krocktestwww.folksam.se)

Bílar eru ekki hannaðir fyrir konur!
Á vegum evrópskra tryggingafélaga hefur gögnum um bílslys verið safnað eftir sérstöku kerfi síðan 1995. Við samkeyrslu gagna frá sænska Folksam fram til 2007, m.a. gagna yfir 11 þúsund árekstra sem leiddu til hálsmeiðsla, kemur í ljós að konum er mun hættara en körlum við áverka vegna höfuðhnykkjar við árekstur. Meiðsli kvenna, svo sem brákun hálsliða, eru alvarlegri, afleiðingar vara lengur og eru afdrifaríkari. Böndin berast að öryggisbúnaði bíla svo sem formun stóla og hnakkapúða. Hnakkapúði kemur í veg fyrir höfuðhnykk hjá körlum í 60% tilvika en einungis í 45% tilvika hjá konum. Ekki virðist hafa verið hugað að því við hönnun bíla og öryggisbúnaðar að meðalkonan er minni en meðalkarlmaður; hrygglengja og vöðvar eru öðru vísi og hún situr neðar í bílsæti. Konur eru, að jafnaði, léttari en karlar og hröðun fram á við við árekstur því meiri. Hin staðlaða slysabrúða sem notuð er við árekstrapróf og áverkamælingar er eftirmynd meðal-karlmanns. Sérstakar slysabrúður með ,,kvenleg mál og eiginleika" eru ekki til, a.m.k. ekki notaðar. Bílar virðast vera hannaðir af körlum fyrir karla. Í vor mun þessari rannsókn verða haldið áfram á vegum ES.

Fleiri greinar um bíltækni


Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar