Köningstiger (Tiger II)

Þýski Panzerkampfwagen VI Tiger II gerð B ,,Köningstiger" (Sd.Kfz.182/VK4503(H) var öflugastur allra skriðdreka sem beitt var í síðari heimstyrjöldinni. Jafnvel í stríðslok áttu bandamenn engan jafnoka hans. Í Köningstiger, sem vóg 68-69 tonn, komu saman gríðarlega öflug vopn og brynvörn sem nánast engin landvígvél bandamanna réð við.

Köningstiger-verkefnið hófst strax í maí 1941 eða ári áður en byrjað var að framleiða Tiger I. Upphaflega mun Tiger II hafa átt að taka við af Tiger I en gangur stríðsins breytti því. Sjá Atvikaskrá seinna stríðs.

Fleiri en eitt fyrirtæki komu að frumhönnuninni. Á meðal þeirra voru Porsche og Henschel. Forgerðir (prototypes) voru smíðaðar og prófaðar. Hönnun Henschel var valin til framleiðslu. Hönnun Porsche var þó ekki lakari en svo að 30 árum síðar notuðu Ísraelar hana við þróun á sínum fræga Markava-skriðdreka.

Eins og að líkum lætur deildi Köningstiger mörgum hlutum og búnaði með Panther og Tiger I, hönnunin var hins vegar frábrugðin hönnun Tiger I í grundvallaratriðum. Í útliti og formi dró Köningstiger dám af Panther. (Tæknitölur - yfirlit yfir þýsku skriðdrekana)

Framleiðslan hófst í janúar 1944 og henni lauk í mars 1945 eða í þann mund sem bandamenn náðu yfir Rínarfljót í sókn sinni norðureftir Þýskalandi. Einungis 489 eintök voru framleidd (auk 3ja forgerða) af þeim 1500 sem upphaflega hafði verið ákveðið. Ein af ástæðum þess, fyrir utan fallandi gengi Þjóðverja í stríðinu, var að Sohn-verksmiðjur Henschel í Kassel voru lagðar í rúst í loftárásum.

Köningstiger (Tiger II) var hrikalega öflug vígvél. Fallbyssan (88 mm frá Krupp) var upphaflega loftvarnarbyssa. Tvenns konar skotturnar voru á Köningstiger, annars vegar frá Porsche en hins vegar frá Krupp (eins og þessi).

Auk 88 mm fallbyssu (KwK 43 L71) með 6,3 m löngu hlaupi, en hún dróg rúma 10 km, var Köningstiger búinn 3 hríðskotabyssum (7,92 mm) auk sérstaks búnaðar í skotturni fyrir bardaga í návígi. Tvenns konar skotturnar voru á Köningstiger, í fyrstu svokallaður Porsche-turn en svo Henschel-turn. Fullhlaðinn með 860 lítra af bensíni, 86 fallskot og 5850 hríðskot vóg Köningstiger með Henschel-turninum 69,8 tonn.

Nánast óvinnandi

Turninum var snúið með vökvaþrýstibúnaði og tók 19-77 sek að snúa honum heilhring (eftir því hver snúningshraði vélarinnar var). Hæðarstilling, 8° niðurávið og 17° uppávið, og mið var handvirkt. Með 88 mm fallbyssunni gat Köningstiger grandað Sherman, breska Cromwell og sovéska T34/85 (nýrri gerðinni) á 3500 m færi og af allnokkru öryggi því sú fjarlægð var langtum meiri en sem nam drægni nokkurrar fallbyssu á skriðdreka bandamanna. Í skotturni Köningstiger var sjónpípa með innbyggðum sjónauka sem gerði það að verkum að stjórnandinn hafði góða yfirsýn allt í kring um skriðdrekann. Þá voru gerðar tilraunir með nætursjá og sérstakan búnað til sjálfvirkrar skotmarksleitar og miðunar.

Vélin var sama 700 ha Maybach V12 og í Tiger I og Panther og sat hún í afturrýminu. Gírkassinn var með hálfsjálfvirkri skiptingu, 8 gírar áfram og 4 afturábak og drifið á fremstu belta-tannhjólunum. Endurbættur stýrisbúnaður gerði kleift að snúa Köningstiger á punktinum.

Undirvagninn var með 9 pör af gúmlögðum snerilfjaðrandi veghjólum innan í hvoru belti, 5 ytri pör og 4 innri pör. Þessi búnaður var endurbættur frá Tiger I og reyndist síðar valda vandræðum vegna grjóts, íss og aurs. Beltin voru 660 mm breið fyrir akstur og 800 mm breið fyrir bardaga og tók skamma stund að skipta um belti.

Eyddi á við meðaltogara

Köningstiger var ekki hentugur til aksturs lengri veg, annars vegar vegna takmarkaðs vélarafls en hins vegar vegna gríðarlegrar eyðslu en um 550 lítrar af bensíni fóru í 100 km akstur á vegi og 1075 lítrar á hundraðið í utanvegarakstri.

Eins og Tiger I þurfti Köningstiger stöðugt eftirlit og viðhald til að hann væri nothæfur og það krafðist sérstakrar þjálfunar sem ekki reyndist alltaf nægur tími fyrir. Áhöfnin (5) var varin af þykkri hallandi brynvörninni sem skot festu illa á - jafnvel af stuttu færi. Engar myndir né skýrslur munu vera til sem sýna rofna brynvörn framan á Köningstiger. Hins vegar var auðveldara að laska hliðarbrynhlífar hans með skotum frá Sherman Firefly, T-34/85 og fleirum kæmust þeir í færi.
Eins og í Tiger I var áhöfnin í talsambandi um innra samskiptakerfi auk þess að hafa mjög öflugan loftskeytabúnað.

Köningstiger í skotstöðu. Myndin er tekin skammt frá Caen í Normandí skömmu eftir innrás bandamanna sumarið 1944

 

Köningstiger var einnig framleiddur, að vísu í mjög takmörkuðu upplagi, sem undir- og flutningatæki fyrir 280 mm stórfallbyssu (Jagdtiger) og sem stjórnstöð. Gerðar voru tilraunir með skotturn með 105 mm fallbyssu.

Í ársbyrjun 1944 höfðu nýjustu og öflugustu skriðdrekar sovétmanna, T-34/85 og JS-II ekkert í Köningstiger að gera. (JS-II var skammstöfun á Josef Stalin-II; ný og endurbætt gerð af þunga KV-skriðdrekanum).

Herinn (Wehrmacht) fékk 450 Köningstiger til umráða og SS-vopnaliðið (Waffen SS) 150 og voru þeir fyrstu afhentir liðunum í febrúar 1944. Fyrsti bardagi Köningstiger mun hafa verið nærri Minsk í Hvítarússlandi í maí 1944. Þar átti þung-bryndeild 501 undir stjórn von Legat undirofursta í höggi við sovést herlið og svo aftur undir stjórn sama manns í júlí 1944 í mikilli orrustu við Sandomierz í Póllandi.

Veikur fyrir loftárásum

Einungis 2 undirfylki þung-bryndeildar 503 undir stjórn Fromme höfuðsmanns börðust með Köningstiger í Normandí. Þar áttu þau í vök að verjast, annars vegar vegna þrálátra vélarbilana en hins vegar vegna sprengjuregns frá flugvélum bandamanna og þungrar fallbyssuskothríðar frá herskipum undan ströndinni. Í lok ágúst 1944 höfðu bæði undirfylkin misst alla sína Köningstiger.

Vitað er að Köningstiger tók þátt í bardögum í Hollandi í september 1944 og einnig í skógivöxnum hlíðum Ardennafjalla í Belgíu. Á austurvígstöðvunum var Köningstiger beitt í Ungverjalandi og í Póllandi 1944 og 1945. Hvarvetna reyndist hann frábær vígvél í meðförum þjálfaðra áhafna og með góðu viðhaldi.

Nokkrir Köningstiger tóku þátt í vörnum Berlínar í apríl og maí 1945. Köningstiger frá Þung-bryndeild 503 var síðasti þýski skriðdrekinn sem eyðilagður var í síðari heimstyrjöldinni - áhöfn hans sprengdi hann í loft upp í Austurríki 10. maí 1945.

Eftirfarandi er úr skýrslu breska liðþjálfans Clyde D. Brunson en hann stjórnaði einum af skriðdrekum 2. bryndeildar breska landhersins 1945: ,, Einn daginn birtist Köningstiger í 140 m fjarlægð frá okkar skriðdreka og gjöreyðilagði hann í einu skoti. Fimm af okkar skriðdrekum voru spölkorn undan og hófu skothríð á þann þýska úr 180-550 m færi. 5-6 fallbyssuskotanna hæfðu hann að framan en hrukku öll af honum eins og baunir - hann hlýtur að hafa verið orðinn skotfæralaus því han lét sig hverfa. Hefðum við skriðdreka eins og þennan stóra Tiger værum við allir komnir heim núna."

Skammt fyrir norðan St. Vith í Belgíu stendur uppgerður Köningstiger sem minnismerki úti undir beru lofti. Í St. Vith og nágrenni voru háðar einhverjar grimmilegustu orrusturnar á síðasta tímabili seinni heimstyrjaldarinnar. Þar má sjá leifar mannvirkja sem áður voru hluti af hinni gríðarlegu Sigfried-varnarlínu Þjóðverja og mun það koma mörgum á óvart hvílíkt stórvirki hún hefur verið. Königstiger er á hergagnasafninu í Saumur í Frakklandi og í Bovinton í Dorset á Suður-Englandi (sjá Tiger). Hergagnasafnið í Münster á Köningstiger (sjá Panther). Patton Museum í Fort Knox í Kentucky í Bandaríkjunum á eintök af flestum þeim skriðdrekum sem notaðir voru í fyrra og seinna stríði.
---------------------------
Köningstiger var hrikalega stórt og voldugt tæki. Þar með er ekki sagt að stærri skriðdrekar hafi ekki verið í bígerð. Þjóðverjar voru með fleiri en einn á teikniborðinu í stríðslok og höfðu smíðað eintök til prófana. Af þeim má nefna Porsche 205 sem vóg 188 tonn og Henschel E-100 sem vóg 140 tonn. Bandaríkjamenn höfðu byrjað á ,,Super Heavy Tank" vorið 1945 en hann átti að nota til að mala niður Siegfried-varnarlínu Þjóðverja, sem var ein af varnarmannvirkjum sem reist voru undir stjórn Rommels. Sá er til í einu eintaki og vegur 95 tonn með 12 tommu þykkri brynvörn (305 mm) og er til sýnis á Patton safninu í Fort Knox í Kentucky.

Copyright © Leó M. Jónsson

Helstu heimildir:
Tanks of the world. Höf. David Miller. MBI Publishing. 2000
Museum Ordnance. Tímarit. Jan. 1992.
Deutsche Kampfpanzer in Einsatz 1939-1945. Höf. Wolgang Fleisher. Nebel Verlag.