PRÓFUN:

KIA SPORTAGE 4x4

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur.

Kia Motors Corporation er eitt af þeim fyrirtækjum í Suður-Kóreu sem fáir könnuðust við á Vesturlöndum þar til fyrir
áratug . Kia er þó enginn nýgræðingur í bílaframleiðslu. K
ia hefur, fram að þessu, aðallega séð innanlandsmarkaði í Kóreu fyrir smábílnum Pride og hafa hann fengið færri en vildu. Fyrirtækið hefur átt tæknilega samvinnu við japanska bílaframleiðendur. Kia Sportage jeppinn, sem kom á Evrópumarkaðinn 1994 og var framleiddur fram að 2001, ber með sér ýmis merki um japanska tækni. Án þess að geta fullyrt neitt um það finnst mér ég kannast við drifbúnað frá Toyota og hjólastell og fjöðrun frá Mazda. 2ja lítra bensínvélin sem verið hefur í Kia fram að þessu er þrautreyndur vinnuhestur frá Mazda. Nýr Kia Sportage af árgerð 2005 er hins vegar jepplingur, grindarlaus og án lága drifsins. Á móti kemur að hann er fáanlegur með 2ja lítra dísilvél.

GRUNNBYGGING

Kia Sportage fram að árgerð 2001 (en þá tók Sorreno við) er jeppi fyrir áreynslu - ósvikinn ,,trukkur"; hann er byggður á sterkri grind, með hátt og lágt drif í millikassa, stífa afturhásingu og stutta framhásingu með berum drifsköftum og klafaupphengju. Gormar eru að aftan og framan. Þessi hjólaupphengja og drifbúnaður er í stórum dráttum eins og í Toyota Hilux bensín og Isuzu Pick-up. (þessi tegund framhásingar nefnist á ensku ,,Independent Front Suspension" = IFS.) Munurinn er hins vegar sá að neðri klafinn í Kia er miklu gleiðari en t.d. í Hilux. Það hefur áveðna kosti í för með sér sem komið verður inn á síðar.

,,Alvöru" jeppi fram að árgerð 2001. Kia Sportage hefur verið einn ódýrasti jeppinn á markaðnum.

Kia er 4ra dyra jeppi með sæti fyrir 5. Afturhlerinn opnast upp sem er ákveðinn kostur t.d. fyrir þá sem þurfa að bakka upp að
palli á sumarbústaði, svo dæmi sé tekið.
Óbreyttur kemur Kia Sportage á 27,5 tomma dekkjum. Á þeim eru 12 sm (tæpar 5 tommur) frá efri brún framdekks og upp í brettiskant. Það þýðir að setja má 31" dekk undir bílinn án þess að breyta þurfi nokkru öðru. Bíllinn kemur á 15", 5 gata, sportfelgum. Vélbúnaðurinn er ein samstæð heild, vél, gírkassi og millikassi (ekki drifskaft á milli gírkassa og millikassa). Millikassinn er knúinn með breiðri keðju í stað gírhjóla. Það dregur úr gírgnauði á ferð. Millikassinn er boltaður aftan á gírkassann eins og tíðkast í flestum nýlegri fjórhjóladrifnum bílum. Stutt hásing að framan, þ.e. drifhásing með stúta sem ekki ná útfyrir grindina, hefur ýmsa kosti umfram stífa hásingu og er jafnframt laus við helstu galla hennar. Þótt þessi lausn sé ekki allra meina bót gefur hún minni jeppa eftirsóknarverða eiginleika sjálfstæðrar fjöðrunar á framhjólum án þess að fórnað sé nema litlum hluta styrks heillar hásingar.

Samanburður á stærð jeppa
Mál í mm

Kia Sportage, 5 manna, 5 dyra, 4 síl. 2000

Nissan Terrano II, 7manna, 5 dyra, 4 síl. 2400

Suzuki Vitara, 5 manna , 5 dyra, 4 síl. 1600
Lengd
4250
4585
4030
Breidd
1735
1735
1635
Botnskuggi, ferm.
7,37
7,95
6,59
Hæð
1655
1810
1700
Fríhæð
210
250
195

Hjólhaf

2650
2650
2480
Sporvídd, fram/aftur
1440/1440
1455/1430
1395/1400
Bensíngeymir, l
60
80
55
Afl, hö/snm
128/5300
124/5200
97/5600
Hámarkstog, Nm/snm
175/4700
197/4000
132/4000
Meðaleyðsla l/100 km
14,0
13,7
11,5
Eigin þyngd, kg
1420
1750
1100
Burðargeta, kg
1865
2300
1650
Dráttargeta, vagn m/bremsum
2000
2800
1650
Hámarkshraði, km/klst
165
160
152

Í minni jeppa hefur þung heil framhásing tilfinnanleg áhrif á hreyfingar bílsins. Ástæðan er sú að öll hásingin hreyfist lóðrétt með hjólunum og vegna tregðulögmálsins skekur hásingin bílinn sem gerir hann óþægilegri auk þess að draga úr veggripi. Stutta hásingin, með berum öxlum frá stút í hjólnöf, er hins vegar hengd upp í grindina þannig að hún vegur salt þversum í bílnum. Massi hásingarinnar fylgir því hreyfingu bílsins en ekki hjólanna - hjólin tolla betur (lengur) á veginum; hreyfing bílsins verður dempaðri og veggrip hjólanna meira. Þessa kosti finnur maður fljótt í Kia Sportage. En þá spyr ef til vill einhver: Ef sjálfstæða fjöðrunin að framan gefur svo góða raun hvers vegna er þá heil stíf hásing að aftan - myndi ekki sjálfstæð fjöðrun á afturhjólunum bæta bæði veggrip og aksturseiginleika enn frekar?

Tæknimenn, sem hanna bíla, eru á einu máli um að sjálfstæð fjöðrun á öllum hjólum gefi bestan árangur í flestum (ekki öllum) tilvikum. Vandinn er sá að stærstur hluti bílstjóra er vanur hreyfingum bíla með stífa afturhásingu; vanur að bregðast við því þegar bíll skvettir afturendanum út í beygju og framendinn leitar inn í beygjuna (yfirstýrður). Bílaframleiðendur, með nokkrum undantekningum (t.d. Citroën), telja það of áhættusamt að breyta þessum eiginleikum. Það sem líklega vegur þó þyngst er að stífa afturhásingin er ódýrasta hönnunin (smíðin) miðað við burðargetu í afturhjóladrifnum eða fjórhjóladrifnum bíl - heil hásing, eða þverbiti á milli afturhjóla, gefur bíl meira burðarþol en náð verður með sjálfstæðri fjöðrun sem auk þess er dýrari búnaður.

VÉLBÚNAÐUR

Kia Sportage, (af árgerðum 1995-2001) er með 2ja lítra 4ra sílindra vél. Heddið er 16 ventla og með tvo keðjuknúna kambása. Vélin er með beina innsprautun í sogport (4 spíssa) og kveikjulaust neistakerfi. Þessum kerfum er tölvustýrt eftir hitastigi og álagi. Vélin skilar 128 hö við 5300 sn/mín (með hvarfa). Hámarkstogið er 175 Nm við 4700 sn/mín. Eins og sjá má af þessum tölum þá þarf þessi vél talsverðan snúningshraða til að vinna sitt verk og það finnst í akstri. Togið í vélinni mætti vera meira undir 3000 sn/mín; bíllinn verður dálítið sleðalegur nema vélinni sé haldið á snúningi með gírunum og þess skortur á togi dregur úr getu bílsins í torfærum. Ein skýring á þessu er sú að tveggja lítra bensínvél eins og þessi, sem upphaflega mun hafa verið hönnuð fyrir fólksbíl, er í minnsta lagi fyrir 1420 kg jeppa. Önnur skýring er sú að til að nota megi blýsnautt lág-oktan bensín og ná meiru togi út úr vélinni er þjöppunarhlutfallið haft fremur lágt, 8,7 : 1. (þyrfti að vera nær 10 : 1) en það veldur því að snúningssnerpa vélarinnar við inngjöf er minni en ella. Þriðja skýringin kann að vera sú að Kia Sportage sé upphaflega hannaður fyrir dísilvél. Á móti kemur að Kia Sportage er sparneytinn jeppi. Íprófun okkar mældist meðaleyðsla í blönduðum akstri 13,3 l/100 km en tæpir 15 l/100 km í borgarakstri. Og áður en skilist er við vélina er ástæða til að nefna að hún er upphaflega frá Mazda og var í fólksbílunum 626, 929 og Capella fra, að 1988. Nýr Kia Sportage jepplingur með sídrif sem nú kemur sem 2005 árgerð er fáanlegur með 142ja hestafla 2ja lítra bensínvél, 175ja ha V6-vél með hámarkstog 249 Nm við 4000 snm og nýrri 2ja lítra dísilvél, 112 hö og með 254 Nm hámarkstogi við 2500 snm.

DRIFBÚNAÐUR

Gírkassinn er 5 gíra en millikassinn í Kia er með hlutadrif sem nefnist ensku ,,Part-time" til aðgreingar frá ,,Full-time", - á íslensku hlutadrif og sídrif. Þetta þýðir að aka má bílnum í háa drifinu með drifið einungis á afturhjólum. Með driflokum á hjólnöfunum að framan er hægt að aftengja öxla framhjólanna. Það þýðir að þegar millikassinn er í 2H snúa framhjólin ekki framdrifinu og framdrifskaftinu. Það sparar eldsneyti, dregur úr sliti og er að vissu leyti heppilegri búnaður en sídrif, a.m.k. í jeppum. Framdrifslokurnar eru sjálfvirkar (sog): Þær fara sjálfkrafa af þegar drifstöngin er færð úr 4H í 2H en þó ekki fyrr en bíllinn hefur verið stöðvaður og honum bakkað 1-2 m. Þetta er ekki öryggisatriði, eins og einhver kynni að halda, því millikassinn hættir að knýja framhjólin um leið og skipt er úr 4H í 2H á ferð, en við það minnkar veggripið, heldur tæknileg takmörkun sem háir þessari ákveðnu gerð af sjálfvirkum (sogvirkum) framdrifslokum.

Kosturinn við að geta skipt á milli 2H og 4H á ferð (innan við 60 km/klst og með því að kúpla frá um leið og skipt er) er sá að með því móti má auka veggripið með fjórhjóladrifi þegar aðstæður breytast snögglega, t.d. í hálku, t.d. þegar farið er upp hála brekku og hjólin byrja að spóla; að geta sett fjórhjóladrifið, án þess að þurfa að stöðva bílinn, getur haft úrslitaþýðingu - og maður kemst all leið upp. Væru framdrifslokurnar ekki sjálfvirkar heldur handvirkar þyrfti að stöðva bílinn, fara út og læsa þeim til að fjórhjóladrifið virkaði. Sjálfvirku framdrifslokurnar fara hins vegar ekki af, af sjálfum sér, fyrr en bíllinn hefur verið stöðvaður, sett í 2H, og bakkað 1-2 metra. Þótt það sé útúrdúr má nefna að mörgum, sem ekki vita hvernig þessi búnaður virkar, hefur orðið það á að aka í 4H með handvirkar framdrifslokur ólæstar. Þá snýr millikassinn framöxlunum en ekki framhjólunum; núningsviðnám myndast þá í hjólnöfunum, þær geta hitnað og skemmst. Þar að auki hefur bílstjórinn falska öryggistilfiningu; telur sig vera með drif á öllum hjólum.

Lágadrif-niðurfærsla nokkurra jeppa
* Árgerð 1997
Lágt drif í millikassa

Mesta niður-gíruná hjólnöf

Kia Sportage
1,98
35,16
Nissan Terrano II
2,02
33,56
MMC Pajero sjálfsk.
1,925
28,51
Suzuki Vitara/Sidekick
1,816
30,67
Toyota HiLux
2,276
36,85
Ford Bronco II
2,69
35,95
Range Rover
3,244

Millikassinn í Kia Sportage er dæmigerður fyrir þá fjórhjóladrifnu bíla sem lengi hafa verið vinsælir í Bandaríkjunum og nefnast þar samheitinu ,,Sport utility". Sameiginlegt einkenni margra er að niðurgírun í millikassa er minni en tvöföld. Hlutfall lága drifsins er þá innan við 2 ( á móti einum); því hærri sem talan er því meiri er niðurfærslan (því lægra er drifið/niðurfærslan). Til að staðsetja Kia jeppann í röð keppenda má hafa töfluna yfir lágadrifs-niðurfærslu nokkurra jeppa sem viðmiðun. Í fremri dálknum er niðurfærsla lága drifsins í millikassa. Í aftari dálknum er margfeldi niðurfærslna í 1. gír, lága drifi millikassa, og hásingu. Það er sú niðurfærsla sem skilar sér til hjólsins. Ef jepparnir væru allir með jafn stór hjól væri viðmiðunin enn nákvæmari.

Niðurfærslan í drifum/hásingum Kia Sportage er 4,778 : 1. Drifkúlan á stuttu framhásingunni er hægra megin við vél. Ég hef ekki fengið það staðfest en mér sýnist þetta vera 6-7" drif (þvermál kambs) eins og í Isuzu Pick-up, þ.e. fíntenntara en t.d. 7,5" framdrifið í Toyota HiLux með stuttu framhásingunni (IFS) en í henni er niðurfærslan 4,1 eða 4,56 : 1. Því er á þetta minnst hér að loftlæsing var lengst af ekki fáanlega fyrir svo lítið mismunardrif en nú hefur verið bætt úr því. Drifskiptingin í Kia, á milli háa/lága/2H/4H, er þægilegri en í flestum öðrum jeppum. Gírskiptingin er einnig vel heppnuð, með hæfilega miklu ílagi til að virka traustvekjandi í jeppa. Svolítið snerilslag er í drifrásinni sem finnst þegar tekið er af stað í fyrsta gír (mér finnst ég kannast við þetta slag úr MMC-driflínum). Kúplingin er með vökvaaðstoð. Í afturdrifinu er sjálfvirk tregðulæsing í mismunardrifinu (LSD).

HVAÐ MEÐ BREYTINGAR?

Nú pæla margir í því hvort breyta megi jeppa, m.a. með því að hækka hann upp og setja á stærri dekk. Þetta hefur meira með útlit og stæl að gera en torfærugetu. Sumum finnst þetta aukaatriði og einber hégómaskapur. Staðreyndin er hins vegar sú að hófleg breyting, sem lögð er upp og framkvæmd af nægilegri þekkingu getur bætt aksturseiginleika jeppa auk þess sem möguleikar á breytingum auka yfirleitt endursöluvirði jeppa. Ég myndi ef til vill breyta Kia jeppanum að einu leyti; setja hann 31" dekk og láta þar við sitja. Mér sýnist það megi gera án annarra breytinga eða styrkinga - en set þetta þó fram með ákveðnum fyrirvara. Reglur Dómsmálaráðuneytisins, varðandi hjólin, eru þær að jeppi telst breyttur og eigi að sérskoðast hafi hjólin verið stækkuð um 10% eða jeppinn hækkaður um meira en 5 sm (2"). Upprunalegu hjólin á Kia (205 75 R15) eru tæplega 69 sm að þvermáli. Með 10% stækkun eykst þvermál hjólsins í sem næst 76 sm. 31" dekk er með tæplega 79 sm þvermál. Hálfur mismunur þvermáls er sú hækkun sem verður á jeppanum þegar 31" dekk eru sett undir í stað þeirra upprunalegu, eða tæpir 5 sm. Bíllinn þyrfti, samkvæmt því, ekki sérskoðun á 31" dekkjum og sömu felgurnar mætti nota. Mér finnst Kia jeppinn bera sig betur og vera jeppalegri 31" dekkjunum og vegna þess hve vökvastýrið er létt (en það er allt að því amerískt) helst jeppinn lipur en verður mýkri; hann er t.d. óaðfinnanlegur eftir faglega breytingu og 33" dekk en þá er hann hins vegar kominn í hóp ,,breyttra jeppa" og orðið of hátt upp í hann fyrir sumt fólk. (Á óbreyttum Kia Spotage eru 32 sm frá jörðu og upp undir síls/gangbretti).

Samanburður á vél- og drifbúnaði jeppa

Kia Sportage, 5 manna, 5 dyra

Nissan Terrano II, 7manna, 5 dyra

Vélargerð

4 síl.16ventla 2 kambásar, ofanáliggjandi

4 síl.12 ventla 1 kambás, ofanáliggjandi
Millikassi Hlutadrif, sogst. driflokur, tregðulæsing í afturhásingu Hlutadrif, sogst. driflokur, tregðulæsing í afturhásingu
Niðurf. í millikassa.
1,0/1,98
1,0/2,02
1. gír
3,717
3,592
2. gír
2,717
2,246

3. gír

1,363
1,416
4. gír
1,00
1,00
5. gír
0,804
0,821
Bakkgír
3,445
3,657
Drif
4,778
4,625
Mesta niðurfærsla
33,16
33,56
Að- og fráhorn °
36,5/36,2
35/26,5
Klifurgeta °
47,5
39
Hliðarhallaþol °
48
48
Dekkjastærð
205/75 R15
215/75 R15

Um aðrar breytingar, t.d. hækkun yfirbyggingar á grind og hækkun á gormum sé ég enga fyrirstöðu eftir að hafa skoðað hjólabúnaðinn. Nota mætti sömu tækni, í stórum dráttum, og þróuð hefur verið fyrir leyfilegar og löglegar breytingar t.d. á Toyota HiLux (bensín), en sá er með svipaða hjólupphengju að framan (IFS með klöfum). Vandamálin verða ef til vill í sambandi við drifin og þá aðallega framdrifið sem getur verið erfitt að fá fjarstýrða 100% mismunardrifslæsingu fyrir en tregðulæsing í framdrifi er ekki heppileg af ýmsum ástæðum. Þetta er ekki bara vandamál í sambandi við Kia Sportage heldur einnig fleiri minni fjórhjóladrifna jeppa/pallbíla með háu/lágu drifi. Sumir hafa leyst þetta mál með s.k. ,,ELGA-læsingu" en slíkar ,,suður" eru utan við ramma þessarar greinar.

Þrennt þarfnast lagfæringar í Kia Sportage. Bremsuslöngurnar að diskadælunum að framan eru of langar og illa varðar. Þær liggja í löngum boga aftan við hjólin og þannig að allar líkur eru á að þær klippist í sundur í torfærum og/eða vatnaakstri. Annað atriði
eru óvarðar leiðslur innan í hægri brettaskál að aftan. Á malarvegi tekur það steinkastið frá hjólinu ekki langan tíma að sarga þessar leiðslur í sundur. Þetta og ýmislegt fleira smálegt hefði átt að lagfæra sem lið í frágangi (,,Pre-delivery Inspection) fyrir afhendingu hjá umboðinu. Því hefur greinilega ekki verið sinnt og því eru þessir bílar afhentir án nauðsynlegrar forvarnar. Það er ekki í fyrsta skipti sem viðvaningum í innflutningi bíla yfirsést í þessu efni og ástæða til að benda á að oft er bilanatíðni nýrra bíla á fyrstu mánuðum eftir afhendingu fremur skorti á tækniþekkingu hjá umboði að kenna frekar en framleiðanda bílsins eða gæðum hjá framleiðanda.
Hlífðarplatan undir bensíngeyminum er of þunn og efnislítil fyrir okkar aðstæður, en geymirinn er uppi í grindinni vinstra megin við miðju og framan við afturhásingu.

INNRÉTTING

Að tvennu leyti kemur Kia Sportage á óvart. Innréttingin er fallegri, smekklegri og vandaðri en maður átti von á. Þar til fyrir stuttu mátti greinilega sjá stigsmun á frágangi innréttinga bíla frá Suður-Kóreu í samanburði við bíla frá Japan. Í Kia er ekki hægt að sjá þennan mun. Innréttingin er t.d. með sama eða svipuðum frágangi og innréttingin í Nissan Terrano II; dæmigerður japanskur frágangur með einni undantekningu: Útvarpstækið er neðarlega í miðju mælaborði Kia fyrir ofan öskubakkann. Í Terrano II og öðrum nýtískulegum bílum er útvarpstækið haft efst í mælaborðinu miðju eða nær bílstjóra til að auka öryggi og þægindi. Kia hefur það framyfir flesta keppinauta að mjög stór frálagshvilft er ofan á vinstri hluta mælaborðsins. Sölumenn, mælingamenn, verkstjórar, rukkarar og aðrir sem þurfa að hafa alls konar pappíra við hendina, munu kunna vel að meta þennan kost Kia - fyrir bragðiŒ er hann ákjósanlegur vinnubíll. Í hurðunum að neðanverðu eru geymsluvasar auk þess sem lítið hólf er framan og aftan við gírstöng. Hanskahólfið er í stærra lagi. Í nýja Kia (árgerð 2005) er nærri 3000 lítra flutningsrými þegar aftursæti hefur verið fellt niður.

Mælaborði er þetta staðlaða japanska; mælar eru skýrir og liggja vel við eins og önnur stjórntæki. Miðstöðin er með 4 stefnuristar
í mælaborðinu auk þeirra sem blása upp á fram- og hliðarrúður og niður á gólfið. Blásarinn er 4ra hraða, tveir þeir lægstu eru nánast
hljóðlausir. Speglarnir eru rafstilltir, rúðurnar rafknúnar með barnalæsingu og læsingar samstilltar. Fremst, efst fyrir miðju mælaborði, er nánast gagnslaus ljósstafaklukka.

Það segir talsvert um hljóðeinangrun og frágang innréttingarinnar í Kia-jeppanum að hún gefur ,,fautalega fínt sánd frá græjunum", eins og það heitir í nútildags. Þá er innréttingin alveg laus við allt marr og/eða ískur. Stillingar bílstjórastólsins ásamt stillanlegum halla stýrishjóls gera hverjum sem er kleift að finna þægilega stellingu undir stýri. Stólarnir og aftursætið eru með smekklegu tauáklæði og góðri bólstrun; þetta eru þægileg sæti og rými, t.d. fram í bílnum, er yfir meðallagi; rýmra er um bílstjórann í Kia en í eldri Nissan Patrol. Engu að síður styðja stólarnir vel við, bílbeltin eru þægileg og nægt fótarými. Auk þess að vera 4ra dyra er aftursætið með tvískipt bak em fella má fram. Hægt er að taka aftursætið úr með lítilli fyrirhöfn. Eins og í Terrano II eru vasar í bökum framstólanna, þeir eru stærri í Kia og er það kostur.

AKSTUR - ÞÆGINDI

Á Kia Sportage eru stórar dyr og hurðir sem opnast vel. Sem dæmi þá er hæð framdyra 111 sm. Bíllinn er fremur hár að innanverðu þannig að jafnvel þeir stærstu geta setið sæmilega uppréttir. Maður situr hátt í bílnum og útsýn er mjög góð. Á meðal stórra kosta þessa bíls, sem fáir aðrir geta státað af, er að hliðarrúðurnar eru þannig að baksýn til hliðar í spegli gerir kleift að aka inn á hægri akrein af aðrein eftir spegli og því lítil hætta á að fara úr hálsliðnum við þá athöfn. Annar ótvíræður kostur við þennan bíl er sá að hann fjaðrar eins og fólksbíll; er laus við þessa gúmkenndu tilfinningu sem einkennir suma jeppa. Kia er fremur þýður en þó jeppalegur; ágætlega rásfastur en vagar þó dálítið þegar lagt er á á ferð. Vökvastýrið er næstum því of létt sem m.a. gerir það að verkum að ákveðna öryggistilfinningu vantar t.d. þegar komið er á rúman leyfilegan hraða.

Þgar ekið er í torfærum er áberandi að stýrið leiðir ekki til baka, ,,slær" ekki, sama á hverju gengur enda er ekki tannstangarstýri í eldri gerðum Kia heldur snekkja. Hins vegar háir það Kia-jeppanum, í akstri utanvegar, hve vélin togar lítið fyrr en við 3000 sn/mín. Þessi skortur á togi kemur einnig fram í borgarakstri og getur bíllinn virkað áberandi slappur í 3. gír þegar auka þarf hraða. Ákveðna æfingu þarf í því að nota gírana til að halda uppi snúningi vélarinnar, en það kemst upp í vana. Engu að síður er þetta ókostur við Kia Sportage með þessari 2ja lítra bensínvél. Þrátt fyrir ,,togleysið" er Kia Sportage merkilega lipur borgarbíll. Það má ekki síst þakka léttu vökvastýri, góðum bremsum (diskar að framan en skálar að aftan en þó ekki ABS í elstu gerðunum 1995-1997), lipurri gírskipting og góðri útsýn.

Á malbikinu líkist Kia Sportage talsvert Nissan Pathfinder (Terrano I); er lipur og hæfilega þýður og þótt maður sitji hátt finnst lítið fyrir hraðanum. Á malarvegi í 4H er Kia Sportage mjög stöðugur enda með mikið hjólhaf (2650 mm) þótt það leyni á sér. Mýkt fjöðrunarinnar gerir þennan jeppa þægilegan. Rásfestan kemur ekki á óvart með þetta framhjólastell; klafarnir eru álíka gleiðir og sterkbyggðir og í BMW 700.

Kia Sportage af árgerð 2005 er nýr grindarlaus fjórhjóladrifinn jepplingur án lágs drifs sem er með öflugri bensínvélum og fáanlegur með dísilvél. Í umsögnum ýmissa fjölmiðla um þennan bíl er eigin þyngd hans sögð um 1630 kg. Það fær varla staðist að þessi jepplingur sé svo þungur (nema botninn sé úr blýi !) og grunar mig að Kóreumenn hafi þar ruglað saman ,,Curb Weight" og ,,Laden weight". Ljósmyndir: Guðjón Guðmundsson

NIÐURSTAÐA - KEPPINAUTAR

Kia Sportage kom mér á óvart að fleiru en einu leyti. Ég átti ekki von á svo tæknilega útpældri hönnun, jafn góðri smíði eða svo vönduðum frágangi. Það kom mér einnig á óvart hve þessi ,,trukkur" er lipur í borgarsnatti. Þetta er ,,alvörujeppi" sem mörgum mun finnast eigulegur eftir að hafa prófað hann. Með stórgripagrind, krómrörahlífum, gangbrettum, toppgrind og ljóskösturum er bíllinn hinn vígalegasti - gefur réttu ímyndina, a.m.k. hafa þeir fundið það út í Þýskalandi því þar selst Kia vel. Þrátt fyrir stælinn er Kia áberandi sterkbyggður jeppi með efnismikla grind - hann lumar á sér. (Það gerði nýi Nissan Terrano II reyndar einnig þegar hann birtist fyrst 1995). Kia-jeppinn væri eftirsóknarverðari með dísilvél. Tveggja kambása, tveggja lítra 16 ventla bensínvélin er of lítil fyrir þennan bíl. Áreynslan á vélina er í meira lagi fyrir bragðið og það rýrir gildi bílsins. Á móti kemur sparneytni, en þó er eyðslan svipuð og hjá Nissan Terrano II með 2,4ra lítra vél.

Nýr Kia Sportage 2005. Innrétting. Ljósmyndir: Guðjón Guðmundsson

Kia Sportage er ódýr miðað við flesta keppinauta. Helsti keppinauturinn er Nissan Terrano II sem kostar um þriðjungi meira. Kia Sportage er mun sterkbyggðari jeppi en Suzuki Vitara og ekki eins líklegur til að ryðga. Samanburður við jepplinga er ekki réttmætur því Kia Sportage er hreinræktaður jeppi með grind og lágt drif í millikassa.

SAMANDREGIÐ:

  • Stutta hásingin með sjálfstæðri fjöðrun (IFS) er sams konar og í Toyota HiLux bensín o.fl. Klafarnir eru mjög gleiðir en það tryggir stöðugleika bílsins á ferð og við stöðvun. Neðra gormsætið situr ofan á gaffli sem tengist neðri klafanum með sama þverbolta og jafnvægisstöngin. Möguleikar á hækkun eru allir til staðar. Miðað við stærð og þyngd hlýtur Kia Sportage að teljast sparneytinn. Minni má þó vélin ekki vera. Innréttingin kom á óvart; vandaðri, smekklegri og betri en maður átti von á.
  • Kia Sportage er töff jeppi á sérstaklega hagstæðu verði miðað við styrk, gerð og búnað. Möguleikar á alls konar breytingum auka endursöluvirðið. Stór kostur er að vélin, þótt hún mætti vera öflugri, er þrautreyndur vinnuhestur frá Mazda - reyndar ein sterkasta 2ja lítra vélin sem verið hefur í fólksbílum hérlendis. Þá er það einnig kostur að drifbúnaðurinn er þrautreyndur í japönskum fjórhjóladrifsbílum. Ókostur við Kia er hins vegar reynsluleysi umboðsins og takmörkuð tækniþekking en það hefur a.m.k. þrisvar skipt um eigendur.
  • Kia Sportage frá Suður-Kóreu kemur á 27,5" dekkjum. Hægt er að setja 31" dekk undir án þess að jeppinn teljist ,,breyttur bíll" samkvæmt reglum Dómsmálaráðuneytisins.

 

Aftur á aðalsíðu