Ljósmyndir: Collectible Automobile. Vol. 1. No. 6, March 1985

Kaiser-Frazer 1947 - 1955

Eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing ©

Að lokinni síðari heimstyrjöld, vorið 1945, og fram á árið 1950, var mikill uppgangur í bandarískri bílaframleiðslu - saman fóru framfarir í hönnun, stóraukin framleiðslutækni og aukin og harðari samkeppni. Framleiðendum var skipt í 2 blokkir, annars vegar voru þeir ,,3 stóru" en hins vegar þeir ,,frjálsu" (independent automakers). Nafngiftin gefur í skyn að stærð þeirra ,,3ja stóru" hafi skapað ófrelsi í einhverri mynd sem minnkað hafi möguleika á samkeppni - nefndist líklega fákeppni nú til dags.

Ástæða þess að fólk keypti samt bíla ,,frjálsu" framleiðendanna var sú einfalda staðreynd að færri en vildu fengu bíla GM, Ford eða Chrysler (biðlistar) - í það minnsta var sú skýring gefin fram undir 1950 en síðar mun ástæðan ekkert síður hafa verið sú að fólki fannst bílar ,,frjálsu" framleiðendanna meira spennandi.

,,Frjálsir" framleiðendur á borð við Hudson, Nash, Packard, Studebaker, Kaiser - að ekki sé minnst á Crosley, buðu upp á bíla sem voru sérstakir og frábrugnir hvað varðaði útlit, tækni og búnað. Sala nýrra bíla í Bandaríkjunum sló öll fyrri met árin 1947-1949 - aldrei höfðu jafn margir bílar verið framleiddir og seldir.

Þeir ,,frjálsu" fengu að kenna samkeppninnar frá þeim ,,stóru" svo um munaði árið 1949 og þá einkum af hálfu GM og Ford. Þótt Chrysler væri með merkilega bíla af árgerð 1949, m.a. með nýtískulegu útliti, rýrðu rekstrarerfiðleikar samkeppnismátt þess verulega. En hvers vegna áttu þeir ,,frjálsu" jafn litla möguleika á að standast samkeppni af hálfu þeirra ,,stóru" og raun bar vitni? Enginn sem hefur þekkingu á tæknilegum gæðum bíla, sem framleiddir voru á þessum árum, t.d. þekktu gæði Hudson-bíla, mun efast um að þeir ,,frjálsu" framleiddu jafn góða ef ekki betri bíla. Ástæðan var yfirburðir þeirra ,,stóru" í markaðssetningu; þeir höfðu margfalt fleiri umboðssala, skilvirkara sölukerfi, sem með miklum auglýsingum og margföldum mannskap gat selt fleiri bíla með minni tilkostnaði en þeir ,,frjálsu". Þá háði það þeim ,,frjálsu" að þeir keyptu íhluti til framleiðslunnar af þeim ,,stóru" sem þannig höfðu ráð þeirra, að einhverju leyti, í hendi sér.

Árgerð 1949 þeirra ,,stóru" voru fyrstu nýju bílar þeirra eftir stríð. Þar með sáu þeir ,,frjálsu" sína sæng uppreidda. (Það segir sig sjálft að þegar það kostaði Hudson, Nash eða Studebaker, að meðaltali, fjórum sinnum meira að selja hvern einstakan bíl en það kostaði Ford, gerði það samkeppnisstöðu þeirra nánast vonlausa, a.m.k. þegar áttu í hlut bílar sem kepptu um sama kaupendahóp. Og það merkilega við Ford 1949 - sem þótti bylting í útliti vegna þess að brettin voru felld inn í hliðarnar - er að Frazer og Kaiser höfðu þá framleitt bíla með jafn nýtískulegu lagi síðan 1947 og Hudson (Commodore) síðan 1948.

Nýr keppinautur
Frazer og Kaiser, sem voru í öllum aðalatriðum sami bíll, voru merkilegir bílar á sínum tíma, m.a. vegna ýmissa tækninýjunga. Kaiser-Frazer samsteypan, sem hóf bílaframleiðslu 1946, var síðasta tilraunin sem gerð var til að veita General Motors, Ford og Chrysler samkeppni og sem virtist, á tímabili, ætla að heppnast. Þegar tveir sterkir persónuleikar eru saman um mikilvægt verkefni má búast við árangri umfram meðalag - geti þeir unnið saman á annað borð. Góð samvinna mikilla framkvæmdamanna er líklega undantekning fremur en regla.

Kaiser-Frazer varð stærsti ,,frjálsi" bandaríski bílaframleiðandinn eftir stríð. Stofnendurnir, Henry John Kaiser og Joseph Washington Frazer, voru báðir óvenjulegir menn, hvor á sínu sviði.

Frazer
Joseph W. Frazer var áhugamaður um bíla. Hann var af ríku yfirstéttarfólki á Washington-svæði Virginiu og hafði lengi fengist við ýmislegt í kring um bíla og kappakstur. Í stað þess að feta í fótspor feðranna og leggja fyrir sig fésýslu, sem þótti við hæfi ungra manna af hans uppruna, stundaði hann nám við tækniháskóla og starfaði að því loknu sem sölumaður hjá Packard, Pierce-Arrow og General Motors. J.W. Frazer var einn þeirra ungu hæfileika manna sem mynduðu ráðgjafahóp sem hjálpaði Walter Percy Chrysler að byggja upp stórveldið Chrysler Corporation á 3. áratug 20. aldar og það mun reyndar hafa verið J.W. Frazer sem stakk upp á tegundarheitinu Plymouth árið 1928.

Upp úr 1930 tók J. W. Frazer við stjórn Willys-Overland en hann stýrði því upp úr öldudal og upp úr 1940 var hann einn þeirra sem keyptu Graham-Paige Motors, sem þá hafði dregist verulega aftur úr. Markmiðið var að framleiða þar nýjan ,,eftirstríðsbíl".

Þegar hér var komið sögu, árið 1945, átti J.W. Frazer 35 ára starf að markaðs- og sölumálum í bílgreininni að baki og var að leita að samstarfsaðila sem gæti auðveldað fjármögnun framleiðslu á nýjum Graham-Paige. Hann komst í samband við Henry J. Kaiser sem þá var þekktur stór-athafnamaður á vesturströndinni.

Kaiser
Henry John Kaiser, sem um þetta leiti var 63ja ára, var fæddur í New York-ríki. Um þrítugt var hann orðinn umsvifamikill verktaki í vegagerð og upp úr 1930 átti hann og rak nokkur byggingafyrirtæki sem m.a. reistu nokkrar stærstu vatnsaflsvirkjanir Bandaríkjanna. Á árum síðari heimstyrjaldarinnar jukust umsvif H. J. Kaiser verulega og þá einkum í Kaliforníu þar sem hann var búsettur; hann stofnaði, skipulagði og stjórnaði stórfyrirtækjum á sviði sementsframleiðslu, stáliðnaðar, skipasmíða og námavinnslu. Þess má m.a. geta að á áttræðisaldri stóð H. J. Kaiser fyrir byggingu eins dýrasta og glæsilegasta hótels veraldar á þeim tíma (1955) sem var reist í Waikiki á Hawaii.

H. J. Kaiser var drífandi maður sem fór gjarnan ótroðnar slóðir og hafði sýnt að honum var treystandi til að leysa ýmis vandamál sem öðrum var ofviða. Hann hafði verið driffjöðrin í fjöldaframleiðslu á flutningaskipum á síðustu árum styrjaldarinnar en þau gerðu Bandaríkjamönnum kleift að flytja margfalt magn hergagna til Evrópu. Liberty- og Victory-skipin voru fjöldaframleidd undir stjórn Kaiser og í þágu markmiða var magnið (fjöldi) sett ofar gæðum. Sem dæmi um umfang þessa verkefnis er að á árinu 1946 framleiddu 130 þúsund iðnaðarmenn 1000 Liberty-skip sem öll voru tekin í notkun á því ári.

En flutningaskip Bandaríkjamanna týndu tölunni með óhugnanlegum hraða því undan austurströndinni biðu hjarðir þýskra kafbáta (sem nefndir voru ,,úlfahópar") en þeir grönduðu fullfermdum skipunum á leið til Evrópuhafna í gríð og erg þrátt fyrir herskipafylgd og vopnaðar eftirlitsflugvélar.

Henry J. Kaiser hafði reyndar séð það fyrir að nútímaherflutningar væru of seinvirkir með skipum. Upp úr 1940 hafði hann velt því fyrir sér hvort ekki mundi vera hægt að flytja birgðir til bandaríska hersins með flugvélum í stað skipa. Hann sá fyrir sér flota risavaxinna sjóflugvéla sem gætu flutt stærstu hergögn á borð við skriðdreka á milli meginlanda. H. J. Kaiser hafði fengið til liðs við sig pólitíkusa og fjölmiðla og tókst þannig að vekja athygli ríkisstjórnar F.D. Roosevelt á hugmyndinni sem síðan leiddi til þess að hann stofnaði fyrirtækið Kaiser-Hughes Corporation með auðjöfrinum og æfintýramanninum Howard Hughes með það að markmiði að hanna og framleiða risaflugvélar. Það fyrirtæki smíðaði aðeins eina sjóflugvél, þá stærstu í sögu veraldar og sem uppnefnd var ,,Spruce goose". Hún flaug í eitt skipti (2. nóvember 1947) með sjálfan Howard Hughes við stjórnvölinn en hefur síðan verið geymd - og er nú á safni í Seattle.

Undarleg blanda
Gagnrýnendur sögðu J.W. Frazer aldrei hafa framleitt bíla - einungis selt þá. H.J. Kaiser hafði enga sérþekkingu á bílum né bílaframleiðslu. Báðir voru þó sannfærðir um að þeir ættu mikla möguleika á bílamarkaðnum. Það segir sig sjálft að samvinnan varð ekki árekstralaus. Engu að síður leiddi hún til þess að nýr og áhugaverður bíll kom á markaðinn og náði sterkari stöðu en bjartsýnustu menn höfðu spáð. Málin æxluðust þannig að sá bíll varð ekki nýr Graham-Paige heldur Frazer.

Kaiser-Frazer Corporation var stofnað og skráð í júlí 1945. Snemma mun hafa verið ætlunin að Frazer-bílar yrðu framleiddir af Graham-Paige en Kaiser-bílar af Kaiser-Frazer. Fyrirtækið hafði tryggt sér aðstöðu í Willow Run sem var gríðarlega stór verksmiðja utan við Detriot sem Ford hafði reist á sínum tíma og átti að verða fyrirmynd sem ,,superfactory". Þar hafði upphaflega átt að fjöldaframleiða Ford Model A en þær áætlanir höfðu raskast og hafði Ford framleitt þar sprengjuflugvélar fyrir herinn og að því loknu gefið 2,5 km langa verksmiðjuna upp á bátinn af ýmsum ástæðum. Graham-Paige, sem hafði átti í miklum fjárhagserfiðleikum, gafst upp um þessar mundir og seldi Kaiser-Frazer bílaframleiðsluna. K-F gerði þessa byggingu að stærstu bílaverksmiðju veraldar undir einu þaki. J.W. Frazer varð aðalforstjóri Kaiser-Frazer 1945 og var fram á fyrri hluta ársins 1949. Henry J. Kaiser var stjórnarformaður.

Joseph W. Frazer, t.v. og Henry J. Kaiser stiltu sér upp fyrir ljósmyndara eftir að samningar höfðu tekist um stofnun Kaiser-Frazer Corporation árið 1945. Ljósmynd: Kaiser-Frazer.

Þrátt fyrir hrakspár hófst bílafraleiðsla K-F í Willow Run í júní 1946 og þrátt fyrir hrakspár reyndust hæfileikar Frazers sem sölumanns og Kaisers sem fjáröflunarmanns nýtast fyrirtækinu vel - það varð á skömmum tíma stærsti ,,frjálsi" ílaframleiðandinn og hafði í október 1950 framleitt 500 þúsund bíla á þremur og hálfu ári en það var langt umfram það sem ,,sérfræðingar" höfðu talið mögulegt.

Góður grunnur

Fyrsti bíllinn hafði upphaflega verið hannaður fyrir Graham-Paige af Howard (Dutch) Darrin og lagaður til fyrir framleiðslu af starfsmönnum þess. Annar hönnuður sem átti einnig stóran þátt í að skapa fyrstu bíla K-F var Carleton Spencer en hann hannaði innréttingu, bólstrun og klæðningu sem var um margt einstök, sérstaklega í árgerðum 1948 og síðari. Þessi bíll, sem framleiddur var frá því í júní 1946, nefndist Frazer og Kaiser jöfnum höndum og var seldur sem árgerð 1947. Hann var að mörgu leyti frábrugðinn öðrum bandarískum bílum sem á þessum tíma voru enn sömu gerðar og útlits og þeir höfðu verið fyrir stríð.

 

Henry J. Kaiser sýnir blaðamönnum ofan í vélarhúsið á forgerðinni (prototype) af K-85 árið 1945. Þessi bíll var með framhjóladrif og sjálfstæða snerilfjöðrun á hverju hjóli; merkileg hönnun á þessum tíma. Verkefnið fékk skjótan endi. Ljósmynd: Kaiser-Frazer.

Frazer var sami bíll og Kaiser en hafður ódýrari. Upphaflega hafði verið ráðgert að framleiða einn Frazer á móti hverjum tveimur Kaiser en fyrirkomulagið var liður í ákveðinni markaðsáætlun. Af einhverjum ástæðum varð sú breyting á að nánast jafn mikið var framleitt af báðum tegundum sem árgerð 1947, um 145 þúsund bílar samtals. Bíllinn var 4ra dyra, með sléttar hliðar, áberandi breiður og með lengra hjólhaf en flestir aðrir. Það sem einkenndi bílinn var látlaust, stílhreint útlit, laust við krómlista og annað prjál. Dýrari gerðin, Manhattan, var með íburðarmeiri innréttingu og bólstrun.

Hjólhafið var 3,14 m. Framsætið var rúmlega 1,6 m á breidd enda var Frazer rýmri en þorri bíla á þessum tíma. Vélin var 3,7 lítra 6 sílindra flathedd, upphaflega hönnuð og framleidd sem iðnaðarvél af Continental og var algeng í gaffallyfturum, en með smávægilegum breytingum skilaði hún 100 hö. Vélina framleiddi Kaiser-Frazer. Gírkassinn var frá Borg Warner, 3ja gíra beinskiptur og fáanlegur með yfirgír. Sjálfskipting var ekki fáanleg fyrr en í árgerð 1951. Bíllinn var byggður á mjög sterkri grind með hefðbundna fjöðrun, klafa og gorma að framan en blaðfjaðrir að aftan.

Með yfir 3ja metra hjólhaf, sem er svipað og hjá 1996 árgerð af lengri M-Benz 420 (SEL), mikinn snerilstyrk og öfluga, sparneytna vél höfðu Kaiser og Frazer betri aksturseiginleika og þægilegri hreyfingar en flestir keppinautar. Hafa ber í huga að ágerð 1947 af Ford var t.d. með 2,89 m hjólhafi, þverfjöður að aftan og framan og 100 ha V8 flathedd-vél, Chevrolet Stylemaster 1947 var með 2,94 m hjólhaf og 90 ha toppventla-sexu en þeir voru báðir með sama útlit og 1940 árgerð hafði haft - áberandi gamaldags.

Kaiser og Frazer 1947 voru framleiddir óbreyttir af ágerð 1948 en þá seldust 48 þúsund bílar, þar af voru rúmlega 29 þús. Frazer. Lífleg sala K-F kom mörgum sérfræðingum á óvart. Þrátt fyrir bakgrunn stjórnenda og ríkjandi hráefnaskort fyrstu áranna eftir stríð blómstraði K-F. Henry Kaiser reyndist drjúgur í öflun hráefnis en hann lét sérstakan vinnuhóp fínkemba landið í leit af járni, stáli og koparvír sem hann lét safna, kaupa - jafnvel fyrir offjár - og endurvinna. Fyrirtækið framleiddi samtals um 180 þúsund bíla af árgerð 1948 og varð í 8. sæti á lista yfir 19 framleiðendur (en efst á listanum var árgerð 1948 af Chevrolet, tæplega 776 þúsund seldir bílar).

Kunni á fjölmiðla
Árið 1942 hafði Henry Kaiser viðrað hugmynd um framleiðslu bíla úr plasti sem áttu að kosta fjórðung af verði meðalbíls - hann hugðist framleiða eins konar plastbólu á hjólum og hafði látið gera tilraunir með slíka framleiðslu. Hugmyndin varð aldrei að veruleika enda var hlegið að henni á meðal tæknimanna í bílaiðnaðinum. En Henry Kaiser hafði fundið það út að byltingarkenndar hugmyndir vöktu áhuga fjölmiðla, vöktu eftirtekt á meðal almennings og urðu þannig að góðri auglýsingu. Eftir að hann hóf samstarfið við Frazer tók hann eina rispu á þessu sviði og uppskar ríkulega. Árið 1945 boðaði hann blaðamenn á sinn fund og kynnti fyrir þeim byltingarkenndan bíl, K-85, sem hann hugðist láta framleiða. Um var að ræða framhjóladrifinn Kaiser með snerilfjöðrun á öllum hjólum, sjálfberandi boddí og 85 ha vél.

Fjölmiðlar slógu upp fréttinni og mynduðu Henry Kaiser við forgerðina af K-85 og úr varð heilmikil auglýsing fyrir K-F. Bíllinn reyndist hins vegar stórgallaður, hönnunin algjör steypa og ljóst að allt of dýrt yrði að framleiða hann með þess tíma tækni: Hætt var við K-85-verkefnið í maí 1946.

Nýjungar
Árgerð 1949 fékk andlitslyftingu, breiðara grill, stærri afturljós og krómlista á sílsinn. Nýjar gerðir voru boðnar og þar á meðal var ein sem Henry Kaiser átti hugmyndina að - bíll með skottloki sem opnaðist bæði upp og niður, svipað og afturhleri á ,,hatchback" sem komu ekki á markaðinn fyrr en áratugum seinna. Þessi gerð af Kaiser/Frazer nefndist Traveler/Vagabond og var með aftursæti sem fella mátti niður og fram. Með þessu móti gat K-F boðið stationbíl án þess að þurfa að leggja út í kaup á dýrum tækjum til slíkrar framleiðslu. 1949 voru einnig framleiddir Kaiser Virginian, sem var 4ra dyra hardtop og DeLuxe sem var 4ra dyra blæjubíll en auk þess boðið upp á lúxusgerð af Frazer sem nefndist Manhattan.

Frazer Manhattan 1948. Ljósmynd: Collectible Cars 1930-80

 

Eitt af því jók sölu bíla K-F var meira úrval lita en hjá öðrum framleiðendum og einnig meira úrval af mismunandi gerðum áklæðis í fjölbreyttu litavali. Merki með heiti litsins á bílnum var á frambrettinu og vakti athygli. Fram að árgerð 1949 hafði mælaborðið í K-F-bílunum verið af hefðbundinni ódýrri gerð en nú varð heldur betur breyting á - nýtt mælaborð var með stóran hringlaga hraðamæli beint fyrir framan bílstjórann og jafn stóra hringlaga klukku fyrir framan farþegann, takkar voru vandaðri og breiður bekkur neðst á borðinu úr póleruðu ryðfríu stáli. Þetta var talið flottasta mælaborðið í bandarískum bíl. Þá hafði vélin verið endurbætt þannig að aflið var 112 hö.

Nýjungar voru ýmsar og merkilegar hjá Kaiser-Frazer. Árgerð 1949 af Kaiser og Frazer var t.d. fáanleg með tvískiptum afturhlera og niðurfellanlegu aftursæti. Hér er Kaiser Vagabond Deluxe (t.v.) en það var lúxusgerðin (hinn var Frazer Traveler). Önnur nýjung var 4ra dyra blæjubíll og harðtop. Þessi (t.h.) er Kaiser Virginian Deluxe (4ra dyra) Hardtop. Ljósmynd: Kaiser-Frazer

 

En þrátt fyrir þetta dróst salan saman hjá K-F miðað við fyrri ár. Ástæðan var vaxandi samkeppni; GM. Ford og Chrysler settu á markaðinn nýja og nýtískulega bíla.

Samstarfi lýkur
K-F hafði skilað góðum hagnaði 1947 og 1948. Nú þegar samkeppnisstaðan versnaði og harðnaði á dalnum með samdrætti í sölu voru þeir félagar ekki sammála um hvernig bregðast skyldi við: Hart var deilt og hurðum skellt. Lyktir urðu að Joseph Frazer lét af starfi aðalforstjóra (en við því tók sonur Henry Kaiser, Edgar) en sat áfram um sinn í stjórn fyrirtækisins, rúinn völdum. Henry Kaiser ætlaði ekki að láta deigan síga; hann undirbjó fyrirtækið til að framleiða 200 þúsund bíla á árinu 1949 en tókst ekki að framleiða nema 60 þúsund vegna tregrar sölu og sat jafnframt upp með 20 þúsund óselda bíla af árgerð 1949 sem seinna voru seldir sem árgerð 1950. Þess má geta að dýrari gerðirnar af Frazer 1947-49 eru nú mjög eftirsóttir bílar á meðal safnara.

Kaiser Virginian Deluxe 4d Sedan árgerð 1949 var dýrasta gerðin: Innréttingin átti sér enga hliðstæðu í þessum verðflokki. Ljósmynd: Kaiser-Frazer

Að duga eða drepast - nýir bílar - nýjar aðferðir
Þegar líða tók á árið 1949 þóttust sérfræðingar í málefnum bílaiðnaðarins sjá skýr teikn á lofti um að dagar K-F væru brátt taldir en sala þess hafði þá hrapað úr 8. í 17. sæti. Miklar sögur gengu um stjórnunarstíl Henry Kaiser og flestar gáfu til kynna ráðríki, frekju, sjálfbirgingshátt og yfirgang auk þess sem hann var sagður hafa það fyrir reglu að hunsa ráðgjöf sérfróðra manna - jafnvel sagður eiga það til að taka fram fyrir hendur á hönnuðum - sem varla gat nú talist einstakt hvorki þá né síðar. En hvað sem um karlinn verður sagt þá var þrákelknin einstök; - hann var ekki á þeim buxunum að gefast upp né heldur dó hann ráðalaus enda var hann orðinn einráður í fyrirtækinu þegar hér var komið sögu.

H. J. Kaiser hafði á sér orð sem hreinasti galdramaður þegar fjármagna þurfti umtalsverð verkefni. Honum varð ekki skotaskuld úr því að afla 69 milljóna dollara láns hjá stofnun sem lánaði til enduruppbyggingar iðnaðar. Lánið átti að nota til að fjármagna hönnun nýrra bíla hjá Kaiser-Frazer. Vegna fjárhagserfiðleika tókst ekki að hanna nýjan bíl í tíma þannig að óseldir bílar af árgerð 1949 voru þrifnir upp og seldir sem árgerð 1950. Árgerð 1950 var jafnframt síðasti bíllinn sem bar heitið Frazer en þeir höfðu verið ódýari kosturinn og hjálpað til við að halda uppi sölu sem nú dróst enn meir saman. Frazer bílar af árgerð 1949/1950 sem ekki seldust fengu smávægilega andlitslyftingu og voru seldir sem árgerð 1951. Hins vegar var Kaiser af árgerð 1951 nýr og breyttur bíll. Meira um hann síðar.

Hluti af lánsfénu mun hafa farið í að fjármagna kaup á framleiðsutækjum fyrir nýjan smærri bíl sem skyldi verða eins konar nýr T-Ford eða amerískur ,,almmenningsbíll" - þ.e. ódýr fartæki sem yrði á flestra færi að kaupa. Hér var um merkilegt framtak að ræða sem hefði getað heppnast á öðrum tíma. Nýi bíllinn nefndist Henry J. Með örlítið breyttu grilli nefndist hann Allstate ('52 og '53) en sá var seldur af vörulistafyrirtækinu Sears Roebuck. Var það merkileg tilraun til að fara nýjar og áður ótroðnar slóðir í bílasölu. Henry J. var sérkennilegur útúrdúr en með honum sýndi H. J. Kaiser að hugmyndir hans voru, þrátt fyrir allt, langt frá því að vera fráleitar. Gallinn var sá að Henry J. sem þótti illa hannaður og ljótur, náði aldrei teljandi vinsældum. Um hann gilti að rétt ákvörðun sem tekin er á röngum tíma er röng ákvörðun. Henry J. var framleiddur árin 1951-1954. Upplagið var 123800 bílar samanlagt og auk þeirra 2300 Allstate.

Af öðrum aðgerðum H. J. Kaiser til að styrkja reksturinn má nefna að hann lét framleiða sérstakan leigubíl, Taxicab Special, 1949-50, hann lét hefja framleiðslu á glæsilegum sportbíl úr trefjaplasti, Kaiser Darrin 161, en 435 eintök seldust - öll af árgerð 1954. Þá skal ekki gleyma að Kaiser setti á stofn samsetningarverksmiðjur utan Bandaríkjanna, í Hollandi, Ísrael, Indlandi og Japan.

Meiriháttar bíll
Á meðal áhugamanna um bílasögu seinni hluta 20. aldar eru margir þeirrar skoðunar að 2. kynslóð af Kaiser, þ.e. árgerðir 1951 til og með 1955, sé einstakur á meðal amerískra bíla. Bíllinn frá 1951 var í grundvallaratriðum óbreyttur þegar framleiðslu hans var hætt 1955. Þegar hann kom fyrst fyrir sjónir manna vakti hann ekki síst athygli fyrir fallega hönnun en þar kom Howard ,,Dutch" Darrin enn við sögu og er talinn hönnuður bílsins þrátt fyrir að hann og H. J. Kaiser færu í hár saman þegar Darrin sætti sig ekki við breytingar á hönnuninni, sem gerðar voru að honum forspurðum og að undirlagi H. J. Kaiser, og lét m.a, í fússi, fjarlægja merkið ,,Darrin Design" af skottloki bílanna.

Auk glæsilegs útlits, sérstaklega dýrari gerðanna af Kaiser, og ýmissa tækninýjunga, sýndi það sig á næstu áratugum að þessir bílar voru vandaðir, þeir þóttu þægilegri í akstri og entust vel - t.d. ryðgaði Kaiser ekki jafn hratt og Studebaker frá sama tíma.

Kaiser Manhattan Sedan 1953. Ljósmynd: Collectible Automobiles.

 

Það sem 2. kynslóðina af Kaiser vantaði tilfinnanlega og hefði ef til vill getað lengt lífdaga hans var öflugri vél sem hefði getað keppt við V8 toppventlavélarnar sem GM bauð í Cadillac og Oldsmobile 1949, í Chevrolet og Pontiac 1955, Chrysler 1953 og Ford 1954. Þótt afl 6 sílindra flathedd-vélarinnar væri aukið í 118 hö og í 140 hö með forþjöppu (Manhattan 1954/55) átti bíll með svona vél takmarkaða möguleika eins og reyndar Chrysler fékk að þreifa á en það þumbaðist með 6 sílindra flathedd-vél síðast í 1959 árgerðum.

Willow Run, sem er skammt fyrir utan Detroit, var stærsta bílaverksmiðja veraldar undir einu þaki. Kaiser-bílar á frágangslínunni í nóvember 1950. Ljósmynd: Kaiser.
Október 1950. Sölustjóri Kaiser, Walter de Martini undir stýri á 500 þúsundasta bílnum en sá árangur var langt umfram það sem ,,sérfræðingar" höfðu spáð. Ljósmynd: Kaiser.

 

2. kynslóð Kaiser, sem var með 14 sm styttra hjólhaf en 1. kynslóðin, eða slétta 3 metra, hafði ýmislegt umfram keppinauta. Nefna má meiri snerilstyrk sem fékkst með því að festingum á milli sterkrar grindarinnar og boddís var fjölgað en árangurinn var m.a. sá að bíllinn hafði betra veggrip og lá mun betur á vegi og í beygjum en aðrar bandarískir bílar. Hann var jafnframt fyrsti billinn með bólstraða höggvörn á mælaborði og fyrsti fólksbíllinn með tvískiptan afturhlera og fellanlegt aftursæti. Kaiser var 5 sm lægri en aðrir bílar, þyngdarmiðja hans lá lægst af öllum fjöldaframleiddum bílum (einungis 56 sm yfir jörðu), hann hafði stærri gluggaflöt en keppinautar og vóg einungis rúm 1600 kg en lá eins og 2ja tonna bíll. Árgerð 1954 af Kaiser var fyrsti bíllinn sem var með afturljós sem sáust frá hlið (stefnuljós).

Mælaborðið í Kaiser 1951 var allt öðru vísi en í tíðkaðist í bandarískum bílum á þessum tíma. Í seinni árgerðum var efsti hluti mælaborðsins bólstraður og myndaði högghlíf sem var sú fyrsta í bíl. Ljósmynd: Collectible Automobile. Ljósmyndin er tekin 1983. Bíllinn er Kaiser Special Business Coupe 1951 sem þá var í eigu hjónanna Jack og Barbara Mueller en þau gáfu bílinn Ypsilanti Automotive Heritage bílasafninu í Detroit þar sem hann prýðir Kaiser-Frazer-deildina.

Þá þótti Kaiser mjög vel búinn bíll á sínum tíma. Sem dæmi má taka lúxusgerðina Dragon af ágerð 1953. Sá var með litað gler, sjálfskiptingu, hvítar hliðar á dekkjum, 2 hátalara og allur teppaklæddur - einnig skottið. Kaiser bauð upp á fleiri liti en aðrir framleiðendur og fjölbreyttara úrval klæðningar enda voru engir bílar jafn fallegir að innan. Kaiser Manhattan fékk andlitslyftingu 1954 með nýju grilli, meiri krómlistum og enn glæsilegra mælaborði. Þá var Manhattan '54 og '55 jafnframt með forþjöppu (blásara) sem varð virk við botngjöf og jók vélaraflið úr 118 í 140 hö en það þýddi að þessi 1687 kg bíll var einn allra snarpasti fólksbíllinn á markaðnum.

Ofurefli
Ástæðan fyrir því að Kaiser þraut örendið undir lok 1955 hafði ekkert með tæknilega eiginleika bílsins né gæði að gera. Framúr skarandi hönnun hjálpaði Kaiser ef til vill minna þá en margan grunar núna. Árangur Kasier á sviði hönnunar, sem nú er óumdeildur, er m.a. vegna þess að hjá því var haldið út hlutfallslega stærri þrískiptri hönnunardeild en hjá stóru framleiðendunum og stjórnað af mönnum sem almennt voru taldir færastir í sinni grein í Detroit á þessum tíma. Þeir voru stór nöfn á borð við Buzz Grisinger, Herb Weissinger, Bob Robillard og síðar gekk til liðs við þá Alex Tremulis (sem hannaði Tucker). Utanað komandi stílistar voru m.a. Howard ,,Dutch" Darrin og Brook Stewens.

En ekki dugði það samt: Um 1950 hafði hinn almenni bandaríski bílakaupandi takmarkaðan áhuga á straumlínu, lágt byggðum bíl, stórum rúðum - þ.e. fáguðum stíl: Hann vildi skriðdreka skreyttan með 150 kílóum af krómdrasli.

Gafst ekki upp bardagalaust
Sölukerfi þeirra stóru seldi eina milljón bíla á ári um 1950. Framleiðslutæki fyrir eina milljón bíla kostuðu það sama og fyrir 100 þúsund bíla. Kaiser átti því enga möguleika frekar en aðrir sjálfstæðir framleiðendur. Þótt Henry Kaiser keypti Willys Overland Motors Inc. 1953 og sameinaði í Kaiser-Willys 1954, flytti bílaframleiðsluna til Toledo í Ohio og seldi GM risaverksmiðjuna að Willow Run á því sama ári, varð það einungis til að slá dauðanum á frest.

Svanasöngur: Kaiser Special af árgerð 1954. Þegar hér var komið sögu átti Kaiser-Frazer einungis eina árgerð eftir en andlitslyftingin sem kom 1954 þótt hafa tekist mjög vel - þetta voru stórglæsilegir bílar. Dýrasta gerðin 1954 og 1955 var Manhattan með 140 ha forþjöppuvél. Sú forþjappa var knúin frá sveifarási og varð virk við botngjöf og gaf rækilegt spark sem gerði þennan bíl að einum allra snarpasta fólksbílnum á markaðnum. Ljósmynd: Colletible Automobile

 

Frá árslokum 1948 varð aldrei hagnaður af starfseminni en 92ja milljón dollara tap hafði hlaðist upp á árunum 1949-1955. Vorið 1955 var Kaiser-Frazer lagt niður (samtímis lauk einnig framleiðslu á Willys fólksbílnum). Fyrirtækinu var breytt í Kaiser Industries Corp. sem helgaði sig tækni á sviði sand- og malarnáms. Henry J. og Edgar Kaiser voru þó ekki hættir í bílaframleiðslu því þeir komu við sögu Kaiser-Willys sem hélt áfram að framleiða jeppa með góðum árangri.

Það er til marks um bardagavilja Henry J. Kaiser að þegar hann neyddist til að hætta framleiðslu Kaiser-bílsins í Bandaríkjunum náði hann samningum við ríkisstjórn Argentínu og seldi henni framleiðslutækin, tækniþekkingu og efni en Kaiser var framleiddur í Buenos Aires frá 1955 og út árið 1962. Þar nefndist hann Kaiser Carabela og naut vinsælda enda var hann enn nýtískulegur útlits um 1960.

Kasier-Frazer á Íslandi *
Árið 1946 hafði Ingólfur H. Gíslason (Grenimel 35 í Reykjavík) umboð fyrir Kaiser-Frazer. Í bókinni ,,Hver á bílinn?" frá 1956 eru skráðir 3 Frazer-bílar af árgerð 1947. Ingólfur mun hafa samið við fyrirtækið Gísla Jónsson hf, líklega 1950, um að það tæki að sér umboðið fyrir K-F en þar var þá stjórnandi Guðmundur Gíslason (sem síðar stofnaði ásamt fleirum Bifreiðar- og landbúnaðarvélar hf. ). Guðmundur mun hafa farið til Haifa í Ísrael og samið þar um kaup á 200 Kaiser-bílum af árgerð 1951 og/eða 1952.

Um 1950 hafði verið tekin upp ný stefna í utanríkisverslun eftir mikið haftaskeið. Ráðgjafar stjórnvalda, þeir Ólafur Björnsson og Benjamín H. J. Eiríksson, höfðu lagt til aukið frelsi í innflutningi og það verið samþykkt. Þetta var á tíma samsteypustjórnar sjálfstæðis- og framsóknarmanna undir forsæti Steingríms Steinþórssonar en hún hafði tekið við völdum í mars 1950 og stjórnaði fram á árið 1953. Björn Ólafsson (oftast kenndur við Kók því hann stofnaði Vífilfell hf og stjórnaði því en hann var reyndar Guðmundsson þótt hann skrifaði sig Ólafsson!) mun hafa farið með viðskiptamálin en ekki er að orðlengja það að þeim Gísla Jónssonar-mönnum tókst að fá samþykki fyrir því að greiða Kaiser-bílana með fiski (og einnig fyrir Willys jeppa frá Ísrael). Frá ritara Kaiser-Frazer-klúbbsins í Bandaríkjunum, Jack Mueller, hafa þær upplýsingar fengist að Kaiser-Frazer Export Corporation KFEC), sem annaðist útflutning á bílunum, hafi skipulagt kerfi sem gerði því kleift að taka við greiðslu í vörum, þ.á.m. fiski sem þurfti að uppfylla ákveðnar gæðakröfur. KFEC sá síðan um markaðssetningu fisksins og hefði, þess vegna, getað flutt hann á markað í Bandaríkjunum. Sams konar vöruskiptaverslun stundaði KFEC í öðrum löndum og með annan varning en fisk í skiptum fyrir bíla.

Skip voru hlaðin fiski og siglt til Haifa, fiskinum skipað á land og bílarnir lestaðir í staðinn. Þegar heim var komið var þessum Kaiser-bílum úthlutað með sérstökum leyfum til atvinnubílstjóra. Les má ítarlegri skýringu á þessu vöruskiptamáli í SKÝRING

Einhverjir Kaiser-bílar frá 1951-52 munu enn vera til. Einn þeirra mun vera gangfær og í góðu ástandi, hann er með skráningarnúmerið H-7 og af árgerð 1952. Fyrsti eigandi hans var Jón Húnfjörð og mun bíllinn vera núna í eigu ættingja hans.

Helstu heimildir:
- The World Guide to Automobiles, Nick Baldwin, G.N. Georgano, Michael Sedgwick og Brian Laban. Útg. Mcdonald Orbis, London & Sidney 1987.
- Cars of the 40s. Ritsjórar: Bob Schmidt, Alan Zachary og Ronald Mochel. Útg. Louis Weber. Publications International Ltd. IL. USA 1979.
- New Complete Book of Collectible Cars 1930-80. Richard M. Langworth og Graham Robson. Útg. Beekman House, New York. 1987.
- Standard Catalog of American Cars 1946-1975. Ritstjóri: John Gunnell. Útg. Krause Publications Inc. WI. USA 1992.
- Collectible Automobile. 1. árg. 6. tbl. Mars 1985. Útg. Louis Weber/Publications International Ltd. IL. USA.

* Höfundur þakkar eftirtöldum fyrir aðstoð við öflun upplýsinga vegna kaflans um Kaiser-Frazer á Íslandi:
Sigurbjörn Helgason
Örn Sigurðsson
Sigurður Hreiðar
Einnig er stuðst við upplýsingar um ríkisstjórn úr bók Páls Líndal, Ingólfur á Hellu II. Útg. Fjölnir. Rvk. 1983.

Vefsíður sem tengjast efninu: Vefsíða Fornbílaklúbbsins

Fleiri greinar um bíla

Netfang höfundar

Til baka á forsíðu