MEIRA UM JEPPABREYTINGAR

Nokkrum athugasemdum svarað við greinina ,,Hættulegar jeppabreytingar"

Eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing

Einhverntíman í mars sl. var viðtal við Pálma Stefánsson efnaverkfræðing í fréttaskýringaþættinum Speglinum á Rás 1 í Ríkisútvarpinu. Þar talaði Pálmi um þá hættu sem hann taldi stafa af stórum jeppum, talaði um ,,massa" þessara bíla á hreyfingu, hæð þeirra og þær afleiðingar sem hann taldi að yrðu óhjákvæmilega lentu þessir jeppar í árekstri við venjulega fólksbíla. Hann talaði fyrir því að lögum um hámarkshraða ökutækja yrði breytt þannig að hámarkshraði stórra jeppa yrði takmarkaður. Lítið var um tæknilegar skýringar í þessu viðtali við Pálma sem telja mætti haldbær rök fyrir skoðun hans. Greinilega mátti skilja að átt væri við alla breytta jeppa án þess að gerð væri tilraun til að flokka þá eftir gerð, breytingu, dekkjastærð, hæð á stuðara o.s.frv.

Sem jeppaeiganda fannst mér þessi málflutningur ekki trúverðugur eða líklegur til að standast gagnrýna skoðun en hins vegar kjörinn til að sá fræjum sem af myndu spretta ýmsir og auknir fordómar á meðal almennings í garð jeppaeigenda yfirleitt. Ég þóttist vita að Pálmi Stefánsson ætti hér við þá ,,ofvöxnu" jeppa á 44" dekkjum sem mesta athygli vekja í umferðinni vegna útlitsins þótt þeir séu einungis örfáir af öllum þeim breyttu jeppum sem eru í notkun og lítt er amast við. En vegna þess hvernig stjórnandi Spegilsins og viðmælandi Pálma fór með málið fannst mér sú skýring ekki komast til skila.

Mér til mikillar furðu kom aldrei nein athugasemd við þennan málflutning Pálma í Speglinum frá samtökum jeppaeigenda. Þegar ekkert hafði heyrst frá þeim í mánuð ákvað ég að vekja máls á þessu þótt ég hefði ekki annan vettvang til þess en einkavefsíðu mína sem fáir vita um og/eða lesa enda er hún ekki auglýst né kynnt með neinum skipulögðum hætti. Tilgangurinn var að freista þess að hreyfa við samtökum jeppamanna og fá þá til að taka á þessu máli í tíma þannig að forða mætti frá því að settar yrðu einhverjar reglur án þess að tekið væri tillit til sjónarmiða manna úr samtökunum f4x4, sem hafa reynslu og þekkingu á þessum málum. Þá þótti mér það jafnframt tilefni að farið var að auglýsa 46 og 49 tommu dekk. Greinin var sérstaklega merkt sem Skoðun mín og nefndist ,,Hættulegir breyttir jeppar".

Greinin birtist upphaflega á vefsíðu minni 8. apríl. Hún vakti skiljanleg engin viðbrögð. En 13. apríl var ég beðin um að koma í viðtal á Útvarpi Sögu (í 5. sinn á 2 árum) hjá Sigurði G. Tómassyni. Þar var m.a. fjallað um þessa grein þar sem ég set fram skoðun mína á hættulega breyttum jeppum, skoðun sem ég byggi á reynslu sem ráðgjafi á bíltæknisviði til margra ára og reynslu af mínum eigin jeppabreytingum.

Í kjölfar viðtalsins urðu talsverð viðbrögð. Annars vegar barst mér netpóstur þar sem sitt sýndist hverjum eins og gera mátti ráð fyrir enda held ég því ekki fram að mínar skoðanir séu þær einu réttu. Á vefsíðu ferðaklúbbsins 4x4 hófst spjallþráður þar sem orðhvatir þusarar ruddust fram á ritvöllinn og jusu svívirðingum yfir mig persónulega í stað þess að fjalla um þær skoðanir sem ég hafði sett fram. Til undantekninga heyrði ef tilraun var gerð til að færa fram einhver haldbær rök. Við þessu mátti búast því svo virðist sem í öllum félagsskap sé fólk sem verður öðrum félögum sínum til skammar - f4x4 er þar greinilega engin undantekning. Þetta er leiðinlegt fyrir þessi ágætu samtök sem hafa látið margt gott af sér leiða og hafa innan sinna vébanda marga reyndustu og færustu fagmennina á sviði jeppabreytinga. Vona ég bara að utanaðkomandi dæmi ekki allan félagsskapinn af þessum tiltölulega fáu taðhraukum.

Ég á ekki von á öðru en að f4x4 taki þessi mál fyrir þegar taðskýið hefur náð að setjast. Ég kippi mér ekki upp við það þótt fáir fúskarar og ritsóðar rjúki upp með andköfum og ausi yfir mig skít og fúkyrðum - það er ekkert nýtt í þessum bransa - ég hef 25 ára reynslu af slíku og mun halda áfram að skrifa það sem mér sýnist.

Á meðal þess sem mér fannst leiðinlegast fyrir hönd félagsskaparins f4x4 var innlegg rafmagnsverkfræðingsins Snorra Ingimarssonar. Í fyrsta lagi var það lítt málefnalegt og illa undirbúið (jafnvel einhvers konar ,,framboðsræða") og greinilegt að Snorri, sem ég efast ekki um að veit heilmikið um þessi jeppabreytingamál, hafði látið skapið hlaupa með sig í gönur því hann skreytti mál sitt m.a. með álíka ósmekklegum atvinnurógi í garð sjálfstæðs starfandi einstaklings eins og ,,Bull og rugl", ,,léleg þekking", ,,rugludallur", ,,sleggjudómaskrif byggð á vanþekkingu", ,,LMJ-framsetning" og ,,Að hrífast með bullinu".

Tvisvar sinnum man ég eftir því að hafa mælt með Verkfræðistofu Snorra Ingimarssonar í sambandi við öryggismál í fyrirtækjum þar sem ég hef verið ráðgjafi (og vona að hann hafi haft sæmilegar tekjur af þeim verkefnum). Ég ætla að vera meiri maður en Snorri Ingimarsson og halda áfram að mæla með fyrirtæki hans því ég veit að þar starfa við hlið hans kurteisir og færir menn. Hann má hins vegar skammast sín fyrir innleggið.

Ég ætla að svara hér nokkrum málefnalegum athugasemdum sem mér hafa verið sendar í netpósti frá einstaklingum varðandi þetta málefni:

A. Könnun á slysatíðni.
Menn vísa í niðurstöður könnunar sem Orion ráðgjöf hafi gert á slysatíðni breyttra jeppa og að niðurstöður hennar hafi verið m.a. ,,að slysatíðni varðandi breytta jeppa sé ekki marktækt lægri en fyrir óbreytta" eins og einn bréfritari orðar það.

Sé þetta niðurstaða könnunarinnar fagna ég henni. Hins vegar er verið að gera mér upp skoðanir með vísun í þessa könnun: Ég hef ekki sagt að allir breyttir jeppar væru hættulegir - þvert á móti tók ég sérstaklega fram í greininni og í útvarpsviðtalinu á Sögu að ég ætti sjálfur breyttan jeppa (á 38" dekkjum) og væri áhugamaður um að breyta jeppum til að gera þá hæfari til fjallaferða. Ég var að fjalla um jeppa sem ég tel að séu hættulegir vegna þess hvernig þeim hefur verið breytt. Greinin mín nefnist ,,Hættulegar jeppabreytingar". Ég fæ ekki séð að nein ástæða sé til að misskilja þetta atriði enda rækilega reifað í greininni. Ég er þeirrar skoðunar að menn sem kunna sér ekki hóf , eða af einhverjum öðrum annarlegum hvötum, hafi búið til ,,skrímsli", sem flestir sjá að eru hættuleg í umferðinni, og að þeir jeppar séu sameiginlegt vandamál venjulegra jeppaeigenda því þeir munu kalla yfir okkur boð, bönn og reglugerðir, verði ekkert að gert.

Svo má deila um hvaða gildi niðurstöður um slysatíðni hafa í þessu samhengi. Könnunin náði áreiðanlega ekki sérstaklega til þeirra fáu afskræmdu jeppa sem ég hef gert að umfjöllunarefni. Skotvopn eru hættuleg. Þess vegna er notkun þeirra háð leyfum og takmörkuð á ýmsan hátt. Könnun á slysatíðni af völdum skotvopna myndi engu breyta í því efni samanber að ,,byrgja skal brunninn áður en ...."

B. Massatregðan.
Helstu ,,rökin" sem jeppamenn höfðu fram að færa í sambandi við massatregðu stærri hjóla var að um hana vissu allir og hefðu vitað lengi og virtust helst vera pirraðir vegna þess að verið væri að tala um þetta mál sem ætti helst að liggja í kyrrþey. Þeir virðast hafa lagt einhvers konar ,,fréttamat" á þá skoðun sem ég setti fram - og haldið að ég væri að varpa fram einhverri bombu - sem er auðvitað misskilningur. Fyrir mér vakti að lýsa áhrifum aukinnar massatregðu (sem eykst með radíus hjóls í öðru veldi) sem mér fannst fyrrnefndur Pálmi Stefánsson ekki skýra á neinn viðhlítandi hátt í viðtalinu í Speglinum í mars.

Aðrir bentu réttilega á að snúningshraði skipti máli í sambandi við stór dekk - en virðast ekki hafa tekið eftir því að ég nefndi snúningshraða, að sjálfsögðu, í skýringum á því hvað hefði áhrif á massatregðu. Hins vegar voru mér, sem oftar gerðar upp skoðanir og forsendur, m.a. var því haldið fram að ég hlyti að hafa gefið mér þá forsendu að hraði væri 90 km/klst. Það gerði ég ekki - taldi enga þörf á þessu stigi málsins að bæta við skýringuna á fyrirbærinu - það sem máli skipti var að massatregða eykst miklu meira með auknu þvermáli hjóls heldur en margur virðist gera sér grein fyrir.

C. Stýrisbúnður.
Mér finnst ekki ástæða til að fjölyrða sérstaklega um þetta atriði (þ.e. tannstangarstýrisvélina í breyttum jeppa á stærri dekkjum en upprunalegum). Ég þekki þetta vandamál - hef komið að tæknilegu mati þar sem togliðir hafa slitnað úr stýrisvél á ferð. Tæknifróðir menn á sviði jeppa vita nákvæmlega hvað ég er að tala um. Ég tók einnig fram að gagnrýni mín ætti við tannstangarstýri sem ekki væru sérstaklega styrkt (og á þar m.a. við öflugri stýrisvél, /snekkju/stýristjakk) en það er einmitt mergurinn málsins að fæstir breyttir jeppar eru með styrktan tannstangar- stýrisgang eða sterkari búnað - en ættu að vera það.

Einn bréfritara sagðist ekki geta séð að þetta væri alvarlegt vandamál því hann vissi ekki til að togliðir hefðu slitnað úr á ferð og bætti við; ,,þetta er að gerast miklu frekar inni á bílastæðum á lítilli ferð, helst á malbiki, þar sem menn eru að taka mjög krappar beygjur."

Mér dettur ekki í hug að kalla þennan bréfritara bjána eða heimskingja (að hætti þusara á spjallþráðum f4x4) mér finnst þetta frekar lýsa manni sem talar/skrifar áður en hann hugsar (fljótfærni). Myndarleg hola í vegi sem farið er í á 90 km hraða getur gefið margfalt meira álag á stýrisbúnað við högg en snúningur stýris í kyrrstæðum bíl á malbiki. Nefna mætti dæmi af holunni frægu sem grófst við brúargólfið á brúnni yfir Blöndu á Blönduósi á 7. áratugnum og sem braut augablöð, demparafestingar, stýrisarma og grindarnef unnvörpum áður en Vegagerðin breytti samskeytum malarvegarins og brúargólfsins þannig að holan hætti að myndast.

En ég get skilið að mönnum sárni að vera teknir í bólinu hvað þetta varðar - ég fullyrði aftur að þetta vandamál og sú slysahætta sem tannstangarstýrið skapar án sérstakrar styrkingar í breyttum jeppa er mönnum fullkunnugt um, m.a. hef ég skiptst á skoðunum um hugsanlegar lausnir á því máli við sérfróða fagmenn í breytingum sem hafa skiljanlegar áhyggjur af þessu. Vonandi verður tekið á málinu og þá hjá tækninefnd 4x4 sem ég tel að væri farsælast fyrir alla jeppaeigendur og því fyrr því betra.

D. Hæð stuðara
Það einkennilega við þetta ákveðna mál er að þeir sem hafa rætt það eru yfirleitt sammála mér um að eitthvað meira en lítið sé bogið við þær reglur sem í gildi eru eða eftirlit (eða skort á eftirliti) með því að eftir reglum (sem munu vera til) sé farið. Ekki þarf lengi að aka um götur Reykjavíkur til að sjá að hæðarmismunur á stuðurum breyttra jeppa er slíkur að ekki kemur til greina að í því efni sé farið eftir reglum. Hins vegar virðast margir vera mér bæði reiðir og sárir út af því að ég skyldi hafa vogað mér að minnast á þetta - taka þetta sem ,,árás á jeppamenn". Hvers vegna slík hvatvísleg viðbrögð virðast vera einkennandi fyrir þennan hóp bíleigenda er athyglisvert. Skýringin gæti verið fólgin í máltækinu gamla sem segir ,,það er þunnt móðureyrað".

E. Fúskað við vélar
Eins og sjá má er ég einungis að fjalla um ákveðið inngrip á vegum seljanda nýs bíls sem er aflaukning fengin með því að aftengja ákveðinn mengunarvarnarbúnað sem um leið eykur hættu á skemmdum á álheddi vegna aukins varmaálags. Líkur eru á því að þessi aðgerð (fúsk) muni stytta endingu dísilvélarinnar, jafnvel eyðileggja heddið. Fyrir þetta ,,skemmdarverk", sem ég fullyrði að bílaframleiðandi myndi aldrei samþykkja, er bílkaupandinn látinn greiða ákveðna upphæð!

Einhver hneykslaðist á þessu og gerði mér upp þá skoðun að vera á móti breytingum sem ykju afl dísilvéla. Mér er fullkunnugt um að aflaukning með breyttum tölvukubbum er fáanleg fyrir ýmsar dísilvélar og jafnvel með fullu samþykki framleiðenda. Ég var ekki að gagnrýna breytingu á vélstýrikerfi með endurbættum tölvukubbi - heldur að sýna með dæmi hve langt ósvífnir prangarar og fúskarar telja sig geta gengið í að hafa fé af fólki með því að aftengja lögboðinn mengunarbúnað í nýjum bíl.
----------------------------

Ég þakka bréfritara og meðlimi í f4x4 sem sagðist ætla að vekja athygli tækninefndar 4x4 á þessari grein minni. Ég á ekki von á öðru en að þar verði tekið málefnalega og faglega á málinu. Grein mín um hættulegar jeppabreytingar var ekki árás á félagskapinn f4x4, eins og ég tel reyndar að hugsandi menn á þeim bæ geri sér fulla grein fyrir, heldur var hún til þess ætluð að hreyfa við ákveðnu máli áður en í óefni væri komið.

Á meðal skemmtilegri bréfritara var sá sem hafði tekið sér tíma til að skoða vefsíðuna mína og rekist þar á grein um ástandið sem var á Keflavíkurveginum fyrir tæpum 2 árum síðan - en þar var ég að hæðast að þeim sem ég kallaði ,,smalana" og ráku lestarnar af mikilli frekju og þjösnaskap (en hafa síðan róast talsvert- ekki síst vegna alvarlegra slysa sem framferði þeirra hefur átt þátt í að valda). Ég tók reyndar sérstaklega fram í þeirri grein (feitletrað) að gæti ég, einhverra hluta vegna, ekki haldið eðlilegum hraða (um 100 km/klst) viki ég umsvifalaust út á öxlina (væri hún til staðar) til að tefja ekki umferðina fyrir aftan. Þessi ágæti bréfritari (greinilega áhugamaður um sálarfræði) hljóp yfir til félaga sinna á spjallþræði f4x4 og lýsti því yfir að ég væri greinilega haldinn ,,ofurvaldskomplex" og byggði þá niðurstöðu á greininni um ,,Smalamennskuna": Maður þakkar bara fyrir að innan um eru enn húmoristar á meðal jeppamanna!

-------------------------

2/5/04

PS. Birti hér það nýjasta af spjallþræði f4x4 (,,Leó svarar fyrir sig"): ,,Í svari sínu minnist Leó á það að rugl sé að aftengja mengunarvarnarbúnaðinn, ég er viss um að hann á við EGR (exhaust gas recykle (Sic)). Þegar brunahitinn verður of hár þá hleypir ventillinn hluta af útblástursgasinu í soggrein, útblástursgasið hitar þar loftið sem minnkar súrefnisinnihald í hverri rúmmálseiningu. Það lækkar brunahitann. Þannig að honum finnst að menn sem setja millikæla í jeppana sína til þess að kæla loftið og auka afl eigi jafnframt að hafa EGR búnaðin tengdann til þess að hita loftið. Það "meikar ekki sens".

þetta er tekið orðrétt af spjallþræði www.f4x4 (nafni sleppt af tillitssemi við viðkomandi).

Hér er náungi sem veit ekkert hvað hann er að tala um og snýr öllu á haus. Dæmi: Hann segir millikæli kæla brunahólf - sem er, eins og flestir vita rangt, því millikælir kælir loft, minnkar þannig rúmtak þess og eykur með því tilfært súrefni í brunahólfum sem gerir kleift að brenna meiru eldsneyti fyrir hvert aflslag, sem eykur hita í brunahólfum. Þá segir hann að útblástursgasið hiti þar loftið o.s.frv. (Þegar svona ,,sérfræðingar" fara að fikta í vélum er ekki von á góðu).

Netfang höfundar

Aftur á aðalsíðu

Upphaflega greinin um hættulegar jeppabreytingar

Upplýsingar fyrir þá sem vilja vita hvernig millikælir og fleira virkar