Dekkjapælingar: Jeppar/jepplingar 4x4. Ónegld dekk

Pirelli Scorpion: Undanfarna 23 500 km hef ég ekið Ford Ranger Pickup V6 4.0 4x4 á 31"-dekkjum af gerðinni Pirelli Scorpion AT M+S. Þau lofuðu góðu í byrjun, voru hæfilega mjúk með 30 psi þrýstingi, bíllinn stöðugur og dekkin áberandi hljóðlát. Gripið var vel viðunandi í fyrsta snjónum - a.m.k. þegar þess er gætt að þau voru seld sem heilsársdekk (sem þau eru auðvitað ekki). Ég víxlaði þeim á milli fram- og afturhjóla sömu megin á 5000 km fresti. Ég var heppinn að því leyti að aldrei sprakk eða seig úr dekki. Það fyrsta sem kom mér á óvart var að eitt dekkið slitnaði áberandi meira á miðum sólanum en hin 3. Í sem skemmstu máli þá kom í ljós að eftir 20 þúsund km akstur var nánast allt grip í snjó horfið og eftir 23 500 km var meðalmunsturdýp allra 4 dekkjanna um 3 mm. Pirelli Scorpion AT tel ég því, þrátt fyrir áðurtalda kosti, afleit kaup því þessi dekk voru dýr. Mín reynsla af Pirelli Scorpion kemur heim og saman við reynslu tveggja eigenda Range Rover en þeirra bílar komu á þessum dekkjum nýir - ending undir Range Rover var jafnvel enn minni en hjá mér enda er Ford Ranger léttari bíll. Ég get ekki mælt með Pirelli Scorpion sem vetrardekkjum undir fjórhjóladrifsbíl.

BFGoodrich: Þrátt fyrir frekar fíngert munstur af jeppadekki að vera var gripið mjög gott og dekkjahljóðið minna en ég hefði búist við. Þessi dekk, sem einnig voru undir Ford Ranger voru með 30 psi þrýstingi og víxlað á 5000 km fresti. Stærðin var LT235 75 R15/C (sem er rúmar 29"). Munstrið var All-Terrain T/A 16 mm djúpt og ekki grófara en á vetrardekkjum fyrir fólksbíla. Ég tók þau undan þegar þau voru rúmlega hálfslitin (miðað við að 3ja mm munstur sé lágmark) en þá var meðaldýpt munsturs á öllum 4 dekkjunum um 8 mm og hafði þá ekið á þeim um 45 þúsund km vetur, sumar vor og haust. Gripið var enn talsvert þótt maður fyndi að það hafði minnkað, eins og eðlilegt er, sérstaklega í hálku en ég nota ekki nagladekk undir fjórhjóladrifnum bíl. Ég var heppinn með þessi dekk því hvorki sprakk né lak úr. Hins vegar fann ég það að í aurbleytu máttu dekkin ekki minni vera og munstrið hefði mátt vera grófara - en það var ekki BFGoodrich að kenna heldur mér sjálfum. Þegar ég keypti þessi BFGoodrich, sem ég notaði á undan Pirelli-dekkjunum, voru þau nokkuð dýr en hafa lækkað í verði síðan. Ég get mælt með BFGoodrich undir fjórhjóladrifsbílum (og reyndar einnig fyrir fólksbíla svo sem Radial T/A sem ég hef mjög góða reynslu af).

General Grabber: Eftir að hafa lent í talsverðum ógöngum og basli í torfærum (drullu) ákvað ég að prófa stærri dekk með grófara munstri, dekk sem hentuðu betur í fjallaferðir að sumri til á mismunandi jeppavegum. Fyrir valinu varð tæplega 32" General Grabber á 15" White Spoke-felgum. Munstrið er ekta „Mud Terrain’’, gróft takkamunstur og dekkin virtust afar sterkbyggð - sem þau eflaust eru og þau voru ekki eins hávær og búast hefði mátt við. Hins vegar kom fljótt í ljós að það virtist vera mjög erfitt að jafnvægja dekkin. Fyrst hélt ég að þetta væri því að kenna að jafnvægisvélar væri ekki rétt stilltar og prófaði því fleira en eitt dekkjaverkstæði með ærnum kostnaði. Fyrstu 100-150 km voru dekkin til friðs en svo byrjaði titringur strax á 80 km hraða. Svo virðist sem kanturinn, jaðarinn sem þéttir dekkið að felgunni, sé gallaður því jafnvel þótt dekkin væru límd á felgurnar með sérstaklega sterku lími virtust þau alltaf losna og snúast á felgunni - þar með var jafnvægið fyrir bí (auk þess vill maður helst ekki hafa dekk límd á felgur þegar komið er upp í 33" og yfir - dekk sem affelgast í torfærum). Ég prófaði að láta færa General Grabber dekkin yfir á upprunalegu Ford-felgurnar en það breytti engu. Það eru eflaust til einhverjir sem gera sér ekki rellu út af því þótt bíllinn skjálfi og nötri á 90-100 km hraða - en það þýðir ekki að bjóða mér upp á slíkt. Svo undan fóru þessi General-dekk án þess að ending þeirra yrði mæld - þau voru einfaldlega óþolandi og þá urðu Pirelli dekkin fyrir valinu. (Ég á AMC-jeppa sem er á 38" Monster Mudder (gömlu diagonal) sem tolla jafnvægð og, að sjálfsögðu án límingar, þótt þeim sé ekki hlíft þegar taka þarf á). Mæli ekki með General Grabber undir fjórhjóladrifsbíl.

Toyo harðskeljadekk. Frá því snemma í fyrravetur hef ég fylgst með japönskum Toyo-snjódekkjum dekkjum, sem eru með mulning úr valhnotuskel saman við efnið í sólanum (en samkvæmt Heimsmetabók Guinnes er skel valhnetu eitt harðasta efni sem þekkt er), undir Skoda Octavia sem ekið er á milli Keflavíkur og Reykjavíkur, stundum margar ferðir á dag. Eins og flestir muna þá var nánast enginn snjór í fyrravetur utan einu sinni og frekar sjaldan hálka og því hefðu vetrardekk verið betri kostur en snjódekk. En gripið í þessu dekkjum, sem eru með fínskorið munstur, er sagt jafnvel betra í hálku en hjá negldum dekkjum og ég hef staðfestingu fyrir því að það sé furðulega mikið í snjó (passar vel fyrir Norðurlandið). Þau eru auk þess mjúk, hljóðlát og veita lítið viðnám í stýri. Eftir 15 þúsund km akstur (Skodans) er ekki mælanlegt slit í fólksbíladekkjunum (þótt bílnum hafi verið ekið mestan hlutann á auðu malbiki - en rétt er að taka það sérstaklega fram að sú gerð Toyo-harðskeljadekkja, sem eru undir Skodanum eru snjódekk (Tranpath) og eiga ekki að vera undir nema yfir bláveturinn vilji maður nýta þau sem best en hér á Suðvesturlandinu hefðu Toyo-vetrardekk hentað mun betur vegna vatnselgsins og skorts á snjó. Mér finnst einnig ástæða til að vekja sérstaka athygli á því að Harðkornadekk, Green Diamond, sem eru notuð endurunnin dekk, þ.e. sóluð er ekki hægt að bera saman við Toyo-harðskeljadekkin frekar en önnur ný dekk. Loftbóludekk, en þau eru ný af gerðinni Bridgestone Blizzard, eru sögð mjúk og með gott grip í byrjun, en slitni hlutfallslega mikið og missi gripið sé ekið á þeim á auðu malbiki eins og er hér sunnanlands og á Rvk-svæðinu mestan hluta vetrar - enda eru þau sérstaklega gerð fyrir vetrarakstur en ekki sem heilsársdekk (skal tekið fram að ég hef ekki persónulega reynslu af notkun loftbóludekkja en leitaði mér upplýsinga hjá þeim sem hafa notað þau).

Toyo Winter Tranpath jeppadekkið er með 11 mm djúpu munstri á köntunum. Toyo harðskeljadekkin eru ný (ekki sóluð eins og harðkornadekk) í munstrinu er mulningur af valhnotuskel sem, samkvæmt orðabók Websters, er eitt af hörðustu efnum sem þekkt er. Skeljabrotin grípa eins og beittar kattarklær. Þessi Toyo- dekk bæta aksturseiginleika jeppa við allar aðstæður en eru þó einungis ætluð sem vetrardekk.

Eftir að hafa horft á Pirelli Scorpion-dekkin spænast upp ákvað ég því að velja Toyo-harðskeljadekk með sérstakt vetrarmunstur (ekki snjódekk) undir Ford Ranger piköppinn - en samkvæmt reynslu þeirra sem tjá sig um þau á Netinu má maður reikna með 50-60 þús. km. endingu - sem ég tek nú með ákveðnum fyrirvara. Toyo-harðskeljadekkin eru af stærðinni 235 70 R16 og gerðinni Winter Tranpath og eru með stefnuvirkt fínskorið takkamunstur (hægri/vinstri-dekk). Þau kostuðu 18.790 kr. stykkið. Byrjunin lofar góðu. Dekkin eru fullkomlega jafnvægð þannig að nú má maður vara sig (og eins gott að nota sjálfvirka hraðastillinn) á að lenda ekki í hraðasektum. Dekkin eru áberandi mjúk og bókstaflega hljóðlaus, bíllinn er stöðugri í rásinni og léttari í stýri en nokkru sinni áður. Ég hef það á tilfinningunni að eyðslan hafi minnkað mælanlega - en það á eftir að koma í ljós. Það verður spennandi að prófa hvort gripið er jafn mikið í þessum harðskeljadekkjum í hálku og sagt er á Netinu því sé það rétt eru þetta ódýr vetrardekk borið saman við jafn vönduð snjódekk með nöglum. Þótt munstrið geti ekki kallast gróft er það djúpt, um 11 mm á jöðrunum en 9 mm á miðjum sólanum, eða jafn djúpt og á grófum snjódekkjum fólksbíla! Ég ætla að nota þessi Toyo-dekk sem vetrardekk eingöngu - eins og á að gera - þetta eru ekki heilsársdekk frekar en flest önnur með svipað munstur.
Fyrsti snjórinn: Dekkin lofa góðu
Nú síðustu vikuna í október gafst fyrsta tækifærið til að reyna grip nýju Toyo-dekkjanna í snjó. Varðandi gripið í hálku og snjó verður engu logið á þessi dekk - gripið er áberandi mikið - það var engu líkara en maður væri kominn á keðjur í fjórhjóladrifinu. Það sem kom mér á óvart var hve mikið grip þessi harðskeljadekk hafa þegar bremsað er í hálku - en það er jafnmikið ef ekki meira en hjá venjulegum negldum snjódekkjum - það væri þá helst að finnsku Hakkapellitta-snjódekkin með ferköntuðu nöglunum hefðu vinninginn í því efni - en Nokian Hakkapellitta-fólksbíladekkin (Max1) eru líka einstök - eða eins og ég segi í greininni um fólksbíladekkin - enda eru þau einu negldu ekta snjódekkin, sem ég hef reynslu af, sem hafa endurbætt aksturseiginleika bíls miðað við sumardekk og þótt þau væru dýr tel ég þau hverrar krónu virði.

(Viðbót 4. janúar 2008)

Þung færð í snjó: Dekkin sönnuðu sig
Ég fékk að reyna hvað þessi Toyo-vetrardekk geta þegar ég hélt heim á Suðurnes úr Reykjavik seint um kvöld á jóladag. Keflavíkurvegurinn hafði verið skafinn fyrr um kvöldið og var ekki neitt vandamál fyrir 160 ha Ford Ranger 4x4. En vegurinn frá Fytjum í Njarðvík og út í Hafnir hafi ekkert verið mokaður og segja má að lætin hafi byrjað strax við flugvallargirðinguna. Vegurinn var algjörlega ófær venjulegum bílum. Við vorum á tveimur fjórhjóladrifnum pikköppum - sá sem fór fyrst var á heilsársdekkjum og festist strax. Eftir að hann hafði verið losaður voru þessir 8 km út í Hafnir farnir í lága drifinu í 5. gír í gegnum jafnfallinn snjó ca 15 sm og hnausþykka langa skafla sem höfðu myndast á þessum venjulegu stöðum á veginum. Fordinn fór fyrstur en hinn pikköppinn fylgdi slóðinni. Og nú kom í ljós hvílíkt feiknagrip er í þessum dekkjum - sérstaklega þar sem þau eru með frekar lítið þvermál (tæpar 29 tommur) - bíllinn hakkaði sig í gegn um hvern skaflinn af öðrum þar til heim var komið. Viðbót: Þessi Toyo Tranpath harðskeljadekk sem ég er með 2. veturinn (hafði þau undir í sumar) sýna enngin merki slits eftir 19 þús. km. akstur. Hins vegar tel ég ástæðu til að benda jeppaeigendum á að þetta eru ekki dekk fyrir torfæruakstur eða fjallaslóða - til þess eru hliðarnar of veikbyggðar - þau eru fyrst og fremst ætluð sem vetrardekk undir jeppa sem notaðir eru sem fólksbilar.

Toyo Proxes-dekk (ekki harðskelja) undir Lexus-jepplingi. Þetta er dæmigert munstur á vetrardekki fyrir svæði þar sem er meiri vatnsagi en snjór á vetrum, þ.e. vetrardekk fyrir lægra hitastig en 7°C en er hins vegar ekki snjódekk. En þeim gerðum er iðulega ruglað saman með slæmum afleiðingum (snjódekk fljóta frekar í vatnsaga en vetrardekk). Toyo-dekk voru nýlega valin besti kosturinn fyrir lúsusjeppa í Bretlandi af samtökum þarlendra bíleigenda en niðurstöður eru á eftirfarandi vefsíðu:
http://www.tyretest.com/pkw_sommerreifen/index.html

(Grein um fólksbíladekk)

Aftur á aðalsíðu