Þessi Jensen var ekki danskur


Eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing.

Jensen Motors Limited var við lýði í Bretlandi sem einn af þekktustu framleiðendum hreinræktaðra sportbíla í slétt 60 ár. Einn Jensen, öðrum fremur, mun áfram halda uppi merki þess fyrirtækis um ókomin ár.

Hvernig sem á því stendur var löngum himin og haf á milli venjulegra breskra fólksbíla og breskra alvöru sportbíla. Þótt breskir fólksbílar hafi átt sín blómaskeið hafa þeir ekki þótt eftirsóknarverður utan Bretlands, og ef til vill Ástralíu, í langan tíma. Hver man ekki eftir ryðdósunum frá Vauxhall eða þessu eymdardrasli frá BMC svo sem Morris Marina, austin allegro, að ekki sé nú minnst á Metro. Jafnvel þegar breskur bílaiðnaður var nánast búinn að vera á 8. og 9. áratug fyrri aldar stóðu nokkrar tegundir upp úr lágkúrunni - bílar á borð við Aston Martin, Morgan og Jensen sem héldu sínum gæðum þegar öllu virtist lokið fyrir flestum hinna.

Jensen Interceptor Convertible Series III 1971. Ljósmynd: Collectible Automobile Vol. 8. no. 3 1991

Ofurbíll á sínum tíma
Ég átti þess kost í Luxemburg árið 1984 að taka í 2 merkilega sportbíla. Báðir komu þeir mér rækilega á óvart. Annar var Ferrari 365GTB/4 af árgerð 1970 (ef til vill betur þekktur sem Ferrari Daytona) en um hann skrifaði ég grein á sínum tíma sem birtist í Bílnum. Hinn var Jensen FF Coupe náskyldur Jensen Interceptor og að ýmsu leyti sams konar bíll en 10 sm á milli hjóla og búinn fjórhjóladrifi. Jensen FF var ekki eins fallegur og Interceptor þótt hann byggi á sömu teikningu. Ástæðan var sú að vegna fjórhjóladrifsins var hjólhafið aukið með 10 sm viðbót á milli dyraops og framöxuls en það ruglaði hlutföllunum í bílnum. Þessi FF var af árgerð 1966 með 383 cid Chrysler V8, 330 hö en það er sama vélin og var í Dodge frá og með 1968.

T. v. Innrétting í síðari gerð af Interceptor. T. h. Jensen FF af árgerð 1971. Ljósmynd: Collectible Automobile Vol. 8. no. 3 1991

Sumir hafa talið að vélarnar í Jensen (383 og 440) Interceptor og FF hafi verið Chrysler Hemi en svo var ekki. Þetta voru ,,Standard-vélar" (hins vegar var franski sportbíllinn Facel Vega með Chrysler Hemi-vélar). Við vélina var TorqueFlite-sjálfskipting frá Chrysler, fjórhjóladrif (sídrif) frá Harry Ferguson og ABS-bremsur frá Dunlop. Því hefur verið haldið fram að þessir stóru Jensen-sportbílar sameinuðu ítalska hönnun, amerískt vélarafl og breskt handverk. Það sem kom mér mest á óvart við Jensen FF var hvað þessi hrikalega öflugi og hraðskreiði sportbíll, Grand Tourer eins og hann nefnist í Evrópu, var þægilegur í akstri. Við venjulegar aðstæður minnti hann á Mercedes-Benz 220S af árgerð 1959 í hreyfingum; dálítið þungur og stöðugur, - allt að því sleðalegur en samt hljóðlátur og hæfilega mjúkur og breyttist lítið fyrr en komið var vel upp fyrir 100 km hraða en þá fór villidýrið að vakna. En meira um það síðar.

Brattir bræður
Saga Jensen hefst á því að 1931 fóru bræðurnir Richard (Dick) og Alan Jensen að framleiða yfirbyggingar á fólks- og vinnubíla í West Bromwick skammt frá Birmingham í Vestur-Miðlöndum. Þremur árum seinna keyptu þeir bílasmiðju W.S. Smith & Sons; gróið fyrirtæki í yfirbyggingum, og stofnuðu upp úr samrunanum Jensen Motors. Ári seinna, 1935, sýndu þeir fyrsta Jensen-bílinn. Næstu árin byggðu þeir sportbíla á ýmsum undirvögnum, m.a. amerískum svo sem Ford V8, Lincoln V12 og jafnvel Nash. Dick sá um tæknihliðina en Alan um fjármálin. Hönnunin var ef til vill ekki sterka hliðin á Jensen á þessum árum en engu að síður seldu þeir nokkrum ríkum og frægum einstaklingum bíla, á meðal þeirra var enginn annar en Clark Gable. Upp úr seinna stríði framleiddu Jensen-bræður bíla sem þeir byggðu á aðkeyptum undirvögnum og vélbúnaði - einn þeirra af árgerð 1948 var sportlegur og glæsilegur stór lúxus-fólksbíllbíll; Jensen Straight Eight með 130 ha 3,8 lítra 8 sílindra toppventla-lengju en annar með 4ra lítra 6 sílindra toppventlavél frá Austin sem þeir kynntu 1949 og nefndu Interceptor.
Austin-vélin var úr traktor, sk, ,,agricultural-vél". Þessi bíll kom svo betur útlítandi sem Jensen 541 árið 1953 og þá með grind úr rörum og yfirbyggingu úr glertrefjaplasti - en Jensen var frumkvöðull í notkun trefjaplasts.

Jensen 541 af forgerð (prototype) smíðaður 1952. Ljósmynd: Thoroghbred & Classic Cars Jan. 1994

Á 6. og 7. áratugnum var aðaltekjulindin framleiðsla á yfirbyggingum á Austin-Healey 100 auk þess sem þeim tókst að þróa Jensen 541 í að verða einn af hinum hreinræktuðum breskum sportbílum en sá var t.d. kominn með diskabremsur á öllum fjórum árið 1961 þegar þeir Jensen-bræður sömdu við Volvo um að framleiða fyrir það sportbílinn Volvo 1800. Það var því talverður völlur á Jensen Motors Ltd. um og uppúr 1960. 1962 kom Jensen CV-8 - mjög öflugur sportbíll byggður á Jensen 541 en með 300 ha Chrysler V8 361 cid og 3ja gíra TorqueFlite sjálfskiptingu. Þótt CV-8 gæti ekki talist fallegur bíll seldist hann ágætlega - þótti töff og bar með sér að vera öflugur. Síðasti CV-8 var af ágerð 1964 og var þá með 330 ha Chrysler V8 383 cid (4ra hólfa blöndungur) og náði leikandi 210 km hraða.

Á miðjum 7. áratugnum var rífandi gangur hjá Jensen - auk eigin bíla höfðu þeir framleitt Volvo 1800 (1962-64), Healey-yfirbyggingarnar og Sunbeam Tiger sportbílinn með Ford V8 289 kúbika-vélinni fyrir Rootes Group sem þá átti stutt í að verða Chrysler UK.

,,Spagetti-hönnun"
Nú gerðist CV-8 gamlaður og arftaka var vænst. Jafnvel Jensen-bræður var farið að gruna að þeim væri ýmislegt betur til lista lagt en að hanna bíla þótt þeir væru bestir í að smíða þá. Og þótt sumir haldi því fram að Ítalir geti ekki smíðað bíla sem ekki ,,heyrast" ryðga eru flestir sammála um að þeir séu snillingar í að hönnun og teiknun. Eftir talsverðar pælingar var ákveðið að ganga til samstarfs við Carrozzeria Touring á Ítalíu. Þeir teiknuðu tveggja dyra stóran fastback-bíl sem heita mátti bæði sportbíll og Gran Turisimo. Þetta hönnunarstúdíó gafst upp í miðju verkinu, svo að segja, og þeir Jensen-menn sáu þann kost vænstan að fara með verkefnið þvert yfir Torínó til Vignale og fá það til að ljúka því og jafnframt smíða bæði fyrirmyndina og yfirbyggingarnar á fyrstu bílana sem var úr stáli en ekki trefjaplasti eins og á CV-8. CV-8 undirvagn var fluttur til Torínó í febrúar 1966 og á árlegu bílasýningunni í Earls Court í London í október sama ár gaf að líta nýja Jensen Interceptor. Bíllinn vakti talverða athygli enda áberandi þrekvaxinn, ef þannig má að orði komast. En hafi Interceptor vakið athygli er ekki ofmælt að hinn fjórhjóla-sídrifni Jensen FF (FF=Ferguson Formula) hafi sett allt á annan endann. Auk þess að hafa sítengt fjórhjóladrif og læsivarðar bremsur hafði FF einnig aflstýri umfram Interceptor en tannstangarstýri, diskabremsur á öllum fjórum, 325 ha V8-vél, TorqueFlite sjálfskipting og þrælsterk röragrind gerði Jensen FF að mjög athyglisverðu tæki. Og ekki hefur veitt af því samkeppni á þessum smáa en sérstaka markaði var töluverð. Til sögunnar nægir að nefna AC með 428 cid Ford V8, ISO, Bizzarrini, DeTomaso, Monteverdi, Facel Vega (sem hafði reyndar sungið sitt síðasta 1964) svo ekki sé nú minnst á Ferrari.

Harnar á dalnum
Þótt Jensen Interceptor og FF vektu mikla athygli og þættu glæsilegir fulltrúar hins breska ,,Súperbíls" var ekki þar með sagt að gullið streymdi í kassann hjá Jensen-bræðrum. Þeir voru nú komnir á efri ár og þótt vel hefði gengið á árunum upp úr 1960 virtist nú sem allt gengi á afturfótunum hjá fyrirtækinu; - vandræðin voru af ýmsum toga; ef ekki var verkföllum um að kenna þá voru gæðavandamál, fjárhagsörðugleikar og allt sem nöfnum tjáir að nefna. Þótt nýju Jensen sportbílarnir væru dýrir og seldust var ekki unnt að framleiða nema 200 bíla á ári og því þurfti eitthvað fleira að koma til því fyrirtækið tapaði fé með vaxandi hraða. Það varð úr að bræðurnir seldu fyritækið. Nýtt hlutafélag tók við rekstrinum og ýmsir þekktir menn í breska iðnaðinum komu að stjórnun þess með einum eða öðrum hætti. Verkefni sem átti að bjarga fjárhagnum, framleiðsla á sportbílnum Jensen-Healey, sem kom á markaðinn 1972, snérist upp í andhverfu sína og lagði Jensen-fyrirtækið í rúst og gjaldþroti í kjölfarið í maí 1976. Framleiðsla og sala á Interceptor og FF, sem seldust vel þótt verðið væri hækkað á hverju ári, náði þó ekki að bjarga þessu merkilega fyrirtæki.

Mikil tækni
Fjórhjóladrifnir fólksbílar eru algengir nú til dags. Þeir þekktust ekki á miðjum 7. áratug 20. aldar og sídrif mátti heita algjör nýjung á þeim tíma. Sítengt fjórhjóladrif í GT sportbíl þótti saga til næsta bæjar. Og ekki nóg með það heldur var Jensen-bíllinn búinn læsivörðum bremsum 25 árum áður en ABS-kerfið frá Bosch fór að sjást í bílum. Af þessum ástæðum skipar Jensen FF sérstakan sess í tækni- og bílasögunni. Hugvitsmaðurinn Harry Ferguson varð heimsþekktur sem höfundur Ferguson traktorsins og einnig 3ja punkta dráttarbeislisins sem var mikil framför og átti sinn þátt í vinsældum ,,Fergunnar". En Harry Ferguson hafði fleiri járn í eldinum. Hann hafði m.a. hannað og þróað sítengd fjórhjóladrif fyrir bíla og sýnt hvernig það jók öryggi í akstri með auknum stöðugleika. Í drifkerfi Fergusons, sem Jensen-bræður völdu að hafa í FF, var millikassi með aflmiðlun (diskakúplingu) á milli fram - og afturhásingar og seiglæst mismunardrif í afturhásingunni. Kerfið miðlaði aflinu á milli fram- og afturhjóla í hlutfallinu 37/63 %. Með því hafði bíllinn fullt veggrip við allar venjulegar aðstæður og því einstaka aksturseiginleika þótt meira væri gert úr veggripinu í hálku og snjó - enda talin betri auglýsing á þeim tíma en frábærir aksturseiginleikar.

Þrátt fyrir fjórhjóladrifið og ýmsan annan búnað var FF einungis 150 kg þyngri en Interceptor og verður það að teljast einstakt. Jensen sportbílarnir voru með gormafjöðrun að framan en langar blaðfjaðrir á heilli hásingu að aftan. FF var með stutta hásingu að framan.

Öruggari sportbíll....
Jensen FF, sem kostaði rúmlega 40% meira en Interceptor, var snöggur eins og tígrisdýr. Snerpan var um 8 sek frá 0 í 100 km/klst og uppgefinn hámarkshraði 230 km/klst. (sem mun hafa verið nær 250 km/klst). Þetta þótti ekkert slor árið 1966 (Ferrari 365GTB/4 1968 var að vísu 5 sek. í hundrað en kostaði 5 sinnum meira en Range Rover af árgerð 1970). Ekki voru allir jafn hrifnir af Maxared-læsivörninni sem byggði á sambærilegum búnaði sem Dunlop hafði þróað fyrir flugvélar. Kerfið átti að beita mismunandi þrýstingi á hverja hjóldælu til að koma í veg fyrir að hjólið læstist við bremsun. Í öllum meginatriðum eins og ABS-bremsur nútildags nema að í stað reafeindabúnaðar stjórnaðist Maxared-kerfið af mekanískum búnaði og var því ekki nógu viðbragðsfljótt, stýritíðni þess var einungis 2-3 sinnum á sekúndu í stað 15-20 sem nú gildir. Engu að síður vann Maxared-kerfið sitt verk vel - ástæða þess að sumir hallmæltu því var líklega sú verkun þess að lyfta bremsupedalanum þegar það létti þrýstingi en slík ,,svörun" fannst sumum óþægileg. Hvernig sem á það er litið var sídrifið og læsivörnin mikil framför í öryggismálum á sínum tíma - gerði Jensen FF öruggari en aðra bíla. Þá stefnu Jensens tók Porsche upp áratugum seinna og hefur fullkomnað í nýja Carrera GT4.

Þeir fáu Jensen FF sem enn eru til, en þeir, eins og Interceptor, ryðguðu eins og þeir væru ítalskir, eru fæstir falir. Á sínum tíma seldist einungis einn FF á móti hverjum 10 Interceptor. Ástæðan var ekki einungis hærra verð heldur einnig flókinn drifbúnaður bílsins en hvern einstakan FF varð að yfirfara sérstaklega og stilla afstöðu drifskafta áður en hann mátti afhenda.

Hjá Jensen var litið til Bandaríkjanna sem sérstaklega áhugaverðs markaðar fyrir Jensen FF enda mátti ætla að þessi ,,súperbíll" myndi höfða sérstaklega til ríkra Ameríkana. En á það reyndi aldrei því nýjar reglur um öryggi bíla sem tóku gildi í Bandaríkjunum upp úr 1970 settu Jensen steininn fyrir dyrnar eins og mörgum öðrum evrópskum bílaframleiðendum. Ýmsar minniháttar endurbætur voru gerðar á árgerð 1969 sem nefndist FF Mark II. Síðustu bílarnir voru FF Mark III af ágerð 1971 en þá var fyrirtækið komið í þrot. Samtals 320 Jensen FF voru smíðaðir hjá Jensen á árunum 1966 t.o.m. 1971.Öflugastur var FF Mark III SP (1971) með 440 cid Chrysler V8. Þjöppunin var 10,3:1. Á þeirri vél voru 3 Holley tveggja hólfa blöndungar. Aflið var 385 hö við 4700 sn/mín. Hámarkstogið var 536 Nm við 3200 sn/mín. Kvartmílutíminn var 14,7 sek (1971!). Ég er ekki viss um að margir geri sér grein fyrir hvað slíkt tog þýðir, jafnvel í 2ja tonna bíl eins og FF - við botngjöf fletur það út kinnarnar á manni. Til samanburðar má hafa að Mitsubishi/Dodge Stealth 3000 GT4 Twin Turbo er með 407 Nm hámarkstog við 3000 sn/mín en sá bíll vegur 1675 kg og þykir nokkuð sprækur. Hann ætti hins vegar ekki mikla möguleika í spyrnu á móti Jensen FF.

Áberandi stór
Jensen Interceptor og FF er stór bíll - með stærstu sportbílum, megi kalla GT- bíl sportbíl (um það er deilt). Heildarlengd FF var 4826 mm en Interceptor 4724 mm. Hjólhaf FF var 2769 mm en Interceptor 2667 mm. Breidd beggja var 1726 mm og hæðin 1346 mm. Bílarnir voru ýmist blæjubílar eða Coupe. Á meðal þess sem einkenndi þá auk stórra hjóla var afturhlutinn en afturrúðan var jafnframt skottlokið. Í fyrstu bílunum var dæmigerð bresk innrétting með 2 stóra hringlaga mæla fyrir framan bílstjórann og stóran stokk í miðjunni með mælum og tökkum - minnti mann dálítið á brúsapall eins og voru algengir til sveita fyrir 1970. Stórt GT-stýrishjól og mjög vönduð leðurklæðning var á meðal þess sem vakti athygli. Í síðustu árgerðinni Mk II 1971 var innréttingin, sérstaklega mælaborðið orðið mun nýtískulegra.

Netfang höfundar

Fleiri greinar um bíla

Til baka á forsíðu