Dæmigerð einkenni raka í bensíni hjá vél með blöndungi eru gangtruflanir eftir að ekið hefur verið dágóðan spöl eftir að vélin hefur náð fullum vinnsluhita. Þegar stöðvað er t.d. á ljósum drepur vélin á sér og er erfið í gang, gengur með skotum, hósta og rykkjum - ef hún þá fer í gang. Sé, eins og áður sagði, um vél með blöndungi að ræða getur gangurinn breyst til batnaðar ef beðið með gangsetningu í eins og 2 mínútur, en þá rýkur vélin í gang og gengur óaðfinnanlega næstu km eða þar til sama sagan endurtekur sig. Ástæðan er vatnsmengað bensín en vegna þess að vatn er þyngra en bensín skilst það frá í soggreininni og safnast upp í dropum þar til soggreinin hættir að geta gegnt hlutverki sínu. Á þeim 2 mínútum sem beðið er með gangsetningu nær heit soggreinin að breyta vatnsdropunum í gufu sem blandast þá eldsneytinu sem brennur.

Nokkuð öðru máli gegnir um innsprautukerfi sem eru mismunandi að gerð. Sum þeirra eru með einn eða tvo spíssa sem úða inn í soggreinina (Throttle Body Injection = TBI eða Central Fuel Injection = CFI). Í þeim kerfum getur vatnsmengun lýst sér á sama hátt og í vél með blöndungi. Hins vegar eru nýrri vélar með spíss fyrri hvern sílindra (Multi Point Injection = MPI eða Electronic Fuel Injection = EFI). Í þeim kerfum getur vatnsmengun, í verstu tilfellum, gert það að verkum að spíssar frjósi fastir í miklum kulda þannig að vélin fari ekki í gang. Algengast er þó að ekki verði vart við neinar teljandi gangtruflanir fyrr en á síðari stigum þegar vatnið hefur valdið tæringu eða útfellingu í spíssunum og eyðilegt þá. Ástæða er til að benda eigendum nýlegri bíla að kynna sér sérstaklega upplýsingar í handbók bílsins varðandi bæti- og íblöndunarefni. Þess eru dæmi að ekki megi setja algengustu gerð af ísvara saman við bensínið í þessum bílum, þ.e. ísóprópanól-spritt. Fyrir þessi kerfi eru til önnur efni sem halda spíssum í lagi og eyða jafnframt raka úr bensíni (t.d. InjectorMagic eða InjectorTonic frá Comma sem fæst í Bílanausti og víðar).
L.M.J.

Aftur á aðalsíðu