Hyundai Sonata GLS 2.4
Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur

Þekktasti og stærsti bílaframleiðandi Suður-Kóreu er Hyundai Motor Company sem jafnframt á dótturfyrirtækið KIA Motors.
Fyrir nokkrum árum auglýsti Hyundai í fjölmiðlum skipulagt gæðaátak með það m.a. að markmiði að slá Toyota út í gæðum innan ákveðins tíma. Sérfræðingar efuðust um að Hyundai tækist þetta og töldu að yfirlýsingin væri auglýsingabrella sem jaðraði við bíræfni: Blaðamenn gerðu grín að yfirlýsingunni sem mannalátum og bentu m.a. á að Hyundai-bílar væru á lista yfir þá sem biluðu einna mest. En nú er öldin önnur - enginn gerir lengur grín að Hyundai.

5 ára ábyrgð í Bretlandi
Hyundai hefur náð tekist að ná slíkum tökum á gæðunum að það státar nú af og auglýsir lægri bilanatíðni en Toyota. Hyundai hefur færst jafnt og þétt upp lista alþjóðlegra fyrirtækja sem mæla gæði. Mest munar þar um viðsnúning og stöðu Hyundai á listum bandaríska J.D. Power (www.jdpower.com) en gæðamælingar þess þekkja fagmenn á sviði bílaviðskipta. Það lýsir vel árangri Hyundai á gæðasviðinu að í Bretlandi er Sonata seld með 5 ára ábyrgð.

Ný kynslóð og stærri
Nýr Hyundai Sonata (frumsýndur sem árgerð 2006) birtist nú sem árgerð 2007; bæði lengri og breiðari en fyrirrennarinn og reyndar með þeim stærstu í þessum flokki fólksbíla. Verðið er athyglisvert því bæði er bíllin stór og mjög vel búinn. Af 5 keppinautum, sem valdir eru með tilliti til verðs, er einungis lægra verð á Skoda Superb enda er sá með minni vél.
Nýi Sonata sker ekki beinlínis í augun. Grámóskulegir litir undirstrika látleysi. Það er ekki tilviljun því hópur kaupenda sækist látlausum bílum - bílum sem vekja síður athygli þjófa og skemmdarvarga. Innréttingin er látlaus en vönduð; efnisgæði og frágangur þola samanburð við dýrari bíla. Allur stjórnbúnaður bílsins er einfaldur og rökréttur og vefst ekki fyrir manni. Stýrishjólið er stillanlegt (halli og að/frá). Allar rúður eru reyklitar.
Grunnbygging bílsins er lítið breytt: Sjálfstæð fjöðrun (gormaturnar) á öllum hjólum með jafnvægisslám; fjölarma hjólastelli að aftan - í aðalatriðum hjólastellið sem Mazda hefur þróað og aðrir, m.a. Volvo, hafa tekið upp enda mörgum kostum búið; sameinar m.a. veggrip, stöðugleika og burðargetu.

Meira innra rými
Eldri Sonata var rúmgóður bíll. Sá nýi er rýmri; hann er 55 mm lengri og með meiri sporvídd sem nýtast til að auka m.a. fótarými bílstjóra um 10 mm og farþega í aftursæti um 30 mm. Stólar eru með djúpar, vel bólstraðar og þægilegar setur og bak sem styður vel. Rafstilling stólanna er við allra hæfi. Á milli stóla er armhvíla sem renna má fram eða aftur til að mynda þægilegustu stöðu. Aftursætið er tvískipt (60/40), fellanlegt, með 3 höfuðpúða og 3ja punkta belti fyrir 3 farþega. Í aftursæti er innfelld armhvíla með drykkjarhöld og ISOFIX-festingar. Hirslur eru drjúgar. Rafknúnar rúðuvindur eru með höfuðrofa og öryggisútslætti (börn). Venjuleg stærð golfpoka á hjólagrind rúmast í skottinu.

Vélbúnaður - öryggisbúnaður
4ra sílindra vélin er ný af nálinni; hönnuð í samvinnu Mitsubishi, DaimlerChrysler og Hyundai; - nýjasta tækni; blokk og 16 ventla hedd úr áli, með 2 ofanáliggjandi kambása; "hemi-brunahólf" og stýrðan breytilegan ventlatíma. Jafnvægisás dregur úr titrun: Gangurinn er mjúkur og lágvær.
Handskipting er 5 gíra en sjálfskipting 4ra gíra og búin tölvustýringu og má jafnframt handskipta.
Sonata er vel búinn bíll, nánast "einn með öllu". Öryggisbúnaður er ekki skorinn við nögl; 6 öryggispúðar, ABS með álagsstýringu, hliðarskriðsvörn og spólvörn svo fátt sé nefnt. (Alþjóðleg vottun óútgefin).

Aksturseiginleikar
Taflan sýnir að Sonata hefur í fullu tré við keppinauta. Af ásettu ráði eru þeir allir handskiptir. Eigi bíllinn að vera sjálfskiptur myndi undirritaður forðast þá evrópsku af ástæðum sem áður hafa verið nefndar í DV-bílum (gallar, bilanir og verulegur viðgerðarkostnaður hefur fylgt evrópskum sjálfskiptingum svo sem í Skoda, Volkswagen og Renault). Þá er einungis sjálfskiptur Mazda 6 Sport eftir en fjallað var um Mazda 6 í DV-bílum 5/9 sl. (sjá www.leoemm.com/bilaprofanir.htm). Hyundai Sonata 2.4 og Mazda 6 Sport 2.3 eiga það sameiginlegt að vélarnar eru með tímakeðju og báðir snúa innan í hring með um 11 m þvermáli. Mörgum mun finnast Mazda 6 flottari og telja hann líflegri og sportlegri bíll í akstri - sem hann er en fyrir 268 þús. kr hærra verð (en fyrir þann pening má fá ágætan notaðan bíl).

Niðurstaða
Sonata leynir á sér - þrátt fyrir stærð og þyngd. Hann er ekki jafn kattlipur og Mazda 6 en þó enginn sleði. Hreyfingarnar eru fágaðri. Fjöðrunin virkar dálítið hörð þegar farið er yfir brúnir í malbiki (dekkin?) en hann fjaðrar óaðfinnanlega á malarvegi og liggur eins skjaldbaka á þjóðvegi; - stöðugur og hljóðlátur.

Upplýsingum um bensíneyðslu ber ekki saman. Mæling í blönduðum akstri við prófun á Sonata sýnir 10,7 lítra en uppgefin meðaleyðsla af framleiðanda fyrir blandaðan akstur er 8,9 lítrar á hundraðið. Einhvers staðar þarna á milli er rétta talan en ástæða þess að eyðsla mælist meiri er oftast sú að annars vegar er um sparakstur að ræða en hins vegar um prófun á bíl að ræða (í þessu tilviki í öskrandi roki og rigningu) auk þess sem ástæða er til að hafa þyngd bílsins og stærð í huga (meira veður-viðnám). Því er vissara að taka samanburði á eyðslu (tafla) með þeim fyrirvara að eyðslutölur annarra bíla í töflunni eru frá framleiðendum. 2007 verður Sonata fáanlegur með dísilvél.

Skoda Superb er í fljótu bragði sá eini sem getur keppt við Sonata. En við nánari skoðun sést að hann á ekki möguleika - vélin er minni og frágangur ekki jafn vandaðir. Ég er oft spurður hvað mér finnist um einhvern ákveðinn bíl. Oftast er með öllu tilgangslaust að svara slíkri spurningu. Ástæðan er einfaldlega sú að yfirleitt hafa engir tveir einstaklingar sama álit á ákveðnum bíl eftir að hafa prófað hann - bíll er smekksatriði og persónuleg tilfinning fyrir honum er afstæð - það sem einn metur sem mikilvægan kost skiptir annan engu máli o.s.frv. En sé ég spurður um hvort góð kaup séu í þessum Hyundai Sonata er engin vandkvæðum bundið að svara því:
Það eru miklu betri kaup í þessum bíl en margan grunar.
DV-bílar 19. desember 2005

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar