NX37602 (,,Grenigæsin") stærsta flugvél veraldar

eftir Leó M. Jónsson.

Einn skrítnasti auðmaður 20. aldar, Howard Robard Hughes, fékkst við ýmislegt um dagana. Á meðal furðulegustu verkefna sem hann tók sér fyrir hendur var smíði stærstu flugvélar veraldar; 8 hreyfla 180 tonna flugbáts sem flaug einu sinni.

Iðnjöfurinn Henry J. Kaiser hafði mörg járn í eldinum. Auk þess að reka skipasmíðastöðvar, orku- og stáliðjuver og bílaverksmiðju var hann á kafi í hergagnaframleiðslu fyrir Bandaríkjastjórn. Þegar kafbátar Þjóðverja (,,úlfahóparnir") voru farnir að sökkva bandarískum birgðaskipum strax fyrir utan hafnarmynnin á austurströnd Bandaríkjanna á seinni árum heimstyrjaldarinnar síðari fékk Kaiser þá hugmynd að flytja hergögn og birgðir til Evrópu með risaflugvélum í stað skipa og fékk til liðs við sig stjórnmálamenn og fjölmiðlafólk. Árangurinn varð sá að bandaríska þingið veitti fé til verkefnisins.

Kaiser hafði ekki gripsvit á flugvélum og gerði sér ljóst að það þurfti meira en einhvern golubelg til að stjórna verkefninu. Howard Hughes var á þessum tíma eins normal og hann varð (byrjaði að klikkast fyrir alvöru rúmum áratug seinna) og stjórnaði miklu fyrirtækjaveldi, m.a. á sviði flugvélaframleiðslu auk þess að hafa sjálfur sett heimsmet í flugi. Kaiser fékk Hughes til þess að taka verkið að sér enda voru þá 18 milljón dollarar frá ríkinu tilbúnir í sjóði og skyldi byggja 3 sjóflugvélar til reynslu fyrir þá peninga. Stofnað var fyrirtækið Kaiser-Hughes Corporation um flugvélasmíðina og gerður við það samningur um verkefnið.

Terminal Island á Long Beach í Kaliforníu 31.október 1947. ,,Grenigæsin" tilbúin fyrir fyrsta flug sem skyldi verða næsta dag. Hæð þessa ferlíkis var á við 8 hæða íbúðablokk. Mynd: Tímaritið Bíllinn 2. tbl. 1997.

 

Á meðal skilyrða var að ekki skyldi notað efni í flugvélarnar sem hefði hernaðarlega þýðingu enda mikill skortur á slíku. Ál kom því ekki til greina. Þess í stað var notað sérstakt samlokuefni úr tréþynnum, sem nefndist Duramold og eitt af fyrirtækjum Hughes hafði þróað. Þetta efni var létt, sveigjanlegt og sterkt, hafði verið prófað við smíði minni flugvéla og þótti lofa góðu og er ekki loku fyrir það skotið að Hughes hafi, í og með, eygt möguleika á að fá verulega góða auglýsingu fyrir Duramold.

Vantrú

Eftir að reist hafði verið stærsta tréhús veraldar, risaflugskýli hjá flugvélaverksmiðju Hughes í Culver City í Kaliforníu, hófst smíði fyrstu risaflugvélarinnar haustið 1942, - stóð allt árið 1943 og hluta ársins 1944. Á síðari stigum smíðinnar höfðu stríðsvindar blásið með bandamönnum um hríð, minni hættu stafaði af kafbátum Þjóðverja á Atlantshafi eftir að stórum hluta þeirra hafði verið grandað og ljóst var að engin þörf yrði fyrir risaflugvélar til birgðaflutninga yfir hafið.

Howard Hughes mun hafa haft illan bifur á pólitíkusum - hafði einhverju sinni látið hafa eftir sér að einungis stórkostlegir skíthælar yrðu miklir pólitíkusar - og í ljósi reynslu sinnar af þeim hafði hann látið lögfræðinga sína fara nákvæmlega yfir öll ákvæði samningsins um smíði risaflugvélarinnar og slá þar ýmsa varnagla sem nú reyndi á. Sígandi lukka á vígstöðvunum í Evrópu hafði gert það að verkum að ýmsum heybrókum á bandaríska þinginu óx ásmegin og kjarkur og lögðu nú fast að ríkisstjórn Roosevelts að segja upp samningnum við Kaiser-Hughes til að spara fé skattgreiðenda.

Eftir talsvert þjark varð niðurstaðan sú að K-H skyldi ljúka smíði þeirrar flugvélarinnar sem byrjað hafði verið á en verkið mætti ekki kosta meira en 18 milljónir dollara. Þeirri sögu var komið á kreik að sjálfir hönnuðir flugvélarinnar væru sannfærðir um að hún gæti ekki flogið frekar en múrsteinn. Fjölmiðlar gerðu mikið úr því að verkefnið væri enn eitt dæmið um bruðl, svindl og svínarí í tengslum við framleiðslu á hergögnum og þingmenn notuðu málið til að vekja á sér athygli.

Þótt þannig yrði almenn vantrú á að verkefnið myndi heppnast hélt Howard Hughes sínu striki. Hann lagði sjálfur fram fé til að unnt væri að ljúka verkefninu þrátt fyrir alls konar erfiðleika og tafir. Flutningurinn á flugvélarskrokknum og vængjunum frá smíðastað og að sjó var gríðarlegt fyrirtæki, bæði tæknilega flókið og erfitt í framkvæmd. Vængirnir, en hvor um sig var um 50 metrar á lengd, voru ekki tilbúnir fyrr en á árinu 1946. Þá var ekki hægt að festa á skrokkinn innanhúss. Tekið var á leigu hafnarsvæði við Terminal Island á Long Beach. Byggð var 80 metra löng þurrkví og flugvélarskrokknum komið fyrir í henni þannig að hann lá undir sjávarmáli. Vængjunum, sem þurfti að flytja 45 km leið á landi, var síðan fleytt á sjónum að skrokknum og hæð kvíarinnar stillt þar til þá mátti festa á skrokkinn. Til þess að gera sér einhverja grein fyrir umfangi þessa verks þá er hæð flugvélarinnar jafn mikil og 8 hæða íbúðablokkar. Sem dæmi þá kostaði flutningur vængjanna 80 þúsund dollara en fyrir þá upphæð mátti fá 73 nýja Chevrolet Stylemaster af árgerð 1946.

Skrokkurinn fluttur frá Culver City og að sjó á Long Beach.
Vængirnir voru smíðaðir á öðrum stað og þurfti að flytja þá 45 km leið til sjávar.

 

Á meðan starfsmenn Kaiser-Hughes unnu að því að setja vængina á risaflugvélina var verið að smíða aðra flugvél á vegum Howards Hughes. Sú nefndist XF-11, lítil vél ætluð fyrir njósnaflug í hernaði og svo hraðfleyg að nánast átti ekki að vera hægt að skjóta hana niður með þeim vopnum sem tíðkuðust á 5. áratugnum. Ekki tókst betur til en svo að þessi vél hrapaði á hús í Beverly Hills snobbhverfinu með Hughes sjálfan við stýrið. Vélin gjöreyðilagðist og minnstu munaði að Hughes færist. Hann lifði slysið af en mikið meiddur. En hann var samt kominn aftur á ról innan mánaðar.

Stærri en Jumbo

Lítum aðeins nánar á stærð þessarar sjóflugvélar: Fjarlægðin á milli vængenda er 107,5 m (Boeing 747 er með tæplega 60 m vænghaf). Lengdin er 66,6 m (747 er rúmlega 70 m löng) og hæði 24,2 m (747 er um 20 m á hæð). Skrokkurinn er 7,4 m á breidd. Eldsneytisgeymarnir rúmuðu meira en 47 þúsund lítra. Flugþol var 4800 km og mesti flughraði átti að vera 300 km/klst. Hreyflarnir 8 eru af gerðinni Pratt & Whitney Wasp Major R4360-4A, hver um sig 3000 hestöfl.

Fyrsta og eina flugið

Risafluvélin, sem nefndist á smíðatímanum HK-1, var tilbúin fyrir fyrstu prófanir um það leiti sem Hughes haltraði út af spítalanum. Pólitískir andstæðingar sökuðu hann um að hafa stórgrætt á styrjöldinni sem varð til þess að hann var kallaður til yfirheyrslu hjá rannsóknarnefd Öldungadeildarinnar í Washington D.C. auk þess sem alríkislögreglan FBI lét rannsaka bókhald nokkurra fyrirtækja hans. (Löngu síðar var talið sannað að Hughes og fyrirtæki hans hefðu beitt mútum og alls konar bellibrögðum til að ná til sín samningum um smíði þyrla og annarra hergagna).

Ein af örfáum ljósmyndum sem til er af ,,Grenigæsinni" í flugtakinu 2. nóvember 1947.

 

Fjölmiðlar fóru mikinn og fullyrtu m.a. að Hughes hefði smíðað risavaxinn tréklump sem aldrei gæti flogið og haft þannig stórfé af skattgreiendum. Allt lét þetta ljúft í eyrum almennings, sem þyrsti eftir hneyksli, ekki síst þegar í hlut átti dularfyllsti maður Ameríku.

Seint í október 1947 var hafist handa um undirbúning prófunar á ,,Grenigæsinni" eins og flugvélarbáknið var kallað í fjölmiðlum. Fyrst átti að reyna vélina 1. nóvember en slæmt veður kom í veg fyrir það. Daginn eftir hafði veðrið skánað þótt ekki teldist það ákjósanlegt. Hughes, sem lá á að finna út hvernig vélin hegðaði sér á yfirborði sjávar og brann í skinninu að sýna að flugfarið virkaði, hafði boðið skara fréttamanna að vera viðstöddum prófunina. Fréttamenn útvarps og blaða létu sig ekki vanta því viðburðurinn hafði fengið gríðarlega kynningu fyrirfram, ekki síst vegna rannsóknarinnar á vegum Öldungadeildarinnar.

Þegar hver hreyfillinn af öðrum var ræstur á þessu silfurlita hrikalega ferlíki stóð mannfjöldinn á öndinni; hvert sem litið var meðfram strönd og bryggjum stóð maður við mann. Úti á höfninni mátti lögreglan hafa sig alla við að halda smábátum með forvitið fólk frá afmarkaðri prófunarbraut vélarinnar.

Um borð í ,,timburgæsinni" voru 32, þar af 16 sem töldust til áhafnar. Af hinum 16 voru 7 blaða- og fréttamenn auk starfsmanna Kaiser-Hughes og fylgdarliðs. Howard Hughes sat í flugstjórasætinu vinstra megin en á hægri hönd honum sat Dave Grant, tæknifræðingur sem hafði hannað mikið og flókið vökvaþrýstikerfi flugvélarinnar. Um leið og Hughes gaf hreyflunum inn og mjakaði vélinni í rétta stefnu úti á ytri höfninni ítrekaði hann við aðstoðarmennina að ekki stæði til að lyfta vélinni í þetta sinn heldur einungis að reyna sjóhæfni hennar.

Fyrsta prófunin hófst: Hughes keyrði vélina upp í 40 hnúta hraða (70 km/klst) en eftir fáeinna km siglingu venti hann og hélt til baka. Lét hann nú skila til áhafnar og farþega að hver skyldi halda sér sem fastast því nú yrði hraðinn aukinn verulega. Nú náði flugvélin 90 hnúta hraða (140 km/klst) sem var flugtakshraði hennar. En þar sem vængflipum (flöpsum) var ekki beitt skreið ferlíkið áfram á sjónum með miklum drunum án þess að lyftast - eða þar til Hughes stöðvaði flugvélina.

Eftir þennan ,,gjörning" var blaða- og fréttamönnum hleypt frá borði enda orðnir ólmir að komast í síma til að skila af sér fréttinni um að ,,timburgæsin" hefði ekki komist á loft. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum varð útvarpsfréttamaðurinn James McNamara einn eftir um borð (sú skýring var seinna gefin að sendibúnaður hans hefði ekki rúmast í síðasta bátnum). Hughes, sem ekki hafði drepið á hreyflunum, rak nú nefið út um hliðarrúðu, fékk þennan fína flugtaksbyr beint í nösina, beið ekki boðanna en öskraði á áhöfnina að loka og gera klárt fyrir flugtak; skipaði Dave Grant að setja flapsana í 15° stöðu (sem sýndi sig síðar að vera nákvæmlega rétt flugtaksstilling). Hughes gaf nú hreyflunum fullt afl. Samtímis því sem skrokkur ferlíkisins nötraði undan átökunum lýsti McNamara því sem gerðist í beinni útsendingu - jafn æstur og væri hann að lýsa ruðningskappleik toppliða. Hann þagnaði ekki fyrr en ölduskellirnir hættu að dynja á flugvélarskrokknum: ,,Hún flýgur - hún flýgur - hvert þó í heitasta - hún flýgur, - öskraði hann í hljóðnemann hás af æsingi.

Howard Hughes hafði sýnt að þessi stærsta flugvél veraldar gat flogið. Flugið varð að vísu ekki langt; tæpir 2 km í 20-25 m hæð á innan við einni mínútu - en hún hafði flogið - um það varð ekki deilt enda í vitna viðurvist. Og enn einu sinni varð Howard Hughes flukappi Ameríku númer eitt á forsíðum allra blaða.

Á safni

Eftir þessa flugferð var ,,Grenigæsinni" komið fyrir í þurrkvínni og hún flutt að landi þar sem byggt var yfir hana risastórt loftkælt skýli. Þar stóð hún óhreyfð, vandlega gætt af öryggisvörðum, næstu 33 árin. Árið 1980 var NX37602 flutt til Long Beach í Kaliforníu og höfð til sýnis við hlið farþegaskipsins Queen Mary. Nokkrum árum síðar var flugvélin svo flutt sjóleiðina til Oregon þar sem hún er nú til sýnis í sérstöku safni sem byggt var fyrir hana.

Undarleg örlög

Á sínum yngri árum setti Howard Hughes, sem fæddur var 1905, hvert heimsmetið á fætur öðru í flugi. Hann setti heimsmet í hraðflugi 1936 á H-1 (565 km/klst) og heimsmet í hraðflugi umhverfis hnöttinn árið 1938 (91 klst. og 14 mín.). Þegar Howard Hughes hafði flogið ,,Grenigæsinni" vantaði hann mánuð upp á 42 ár. Upp úr fimmtugu ágerðist einkennileg hegðun hans og um 1960 var hann hættur að sjást opinberlega - var sagður haldinn sjúklegri smithræðslu og umgekkst enga aðra en örfáa aðstoðarmenn. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann stundaði viðskipti og stjórnaði fyrirtækjaveldi sínu í hvert gjaldþrotið á fætur öðru. Eitt af því síðasta sem hann tók sér fyrir hendur var að reyna að kaupa upp öll hótelin í Las Vegas. Það tókst honum ekki frekar en margt annað. Deilur og vaxandi óstjórn vegna geggjunar og duttlunga Hughes leiddu til þess að fyrirtæki hans gengu honum ýmist úr úr greipum eða töpuðu gríðarlegum fjárhæðum. Það kom þó ekki í veg fyrir að eignir hans væru taldar um 2,5 milljarðar dollara þegar hann dó (sagt er af næringarskorti) árið 1976.

Helstu heimildir:

Tímaritið Nostalgia 2/1996

Tímaritið Bíllinn 2/1997

Aviation Digest

Copyright © Leó M. Jónsson

Fleiri frásagnir

Aftur á forsíðu

Netfang höfundar