Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur skoðar borgarjeppa:

,,Nýr" Honda CR-V

Eftir því sem hönnun bíls verður eldri, t.d. meira en 5 ár, hafa sumir bílasalar meiri tilhneigingu til að setja samasemmerki á milli andlitslyftingar (útlitsbreytingar) og nýrrar hönnunar (nýs bíls). Dæmi um þetta eru eftirfarandi ummæli eins af bílasölum Brimborgar á spjallsvæði vefsins www.blyfotur.is fyrir skömmu: "Ég vil t.d. nefna bíl eins og Ford Escape en ný gerð af honum kom á markað hér á landi í mars 2004. Við höfum nú þegar selt yfir 300 bíla á tæpum 9 mánuðum og því ætti nú að vera komin mjög góð reynsla á gæðin. Niðurstaðan er sú að þetta er með bestu bílum sem við höfum selt og vandamál nánast engin". Ef frá eru taldar sölutölur stenst ekkert af þessum fullyrðingum bílasalans. Borgarjeppinn Ford Escape af árgerð 2004/2005 er ekki nýr bíll. Sá breytti Escape sem kom á markaðinn í mars 2004 er upphaflegi Escape frá 2001 með andlitslyftingu. Gæðastig Ford Escape er undir meðaltali samkvæmt mælingum J.D. Power (www.jdpower.com). Flestir bílasalar (en ekki þessi sem auglýsir speki sína á Blýfæti) þekkja muninn á nýjum bíl og andlitslyftum og margir þeirra vita jafnframt að þróaðan bíl sem búið er að endurbæta og fengið hefur vel heppnaða andlitslyftingu, getur bílasali, sem kann sitt fag, átt auðveldara með að selja en bíl sem er nýr frá grunni.

Þegar kynningardeildir bílaframleiðenda beita sams konar orðaleik er það örugglega gert gegn betri vitund. Þá hangir eitthvað á spýtunni eins og þar segir og næsta víst að ,,nýi bíllinn" er ekki eins spónnýr og af er látið. Honda er að kynna það sem það kallar nýjan borgarjeppa af gerðinni CR-V. Eftir að hafa skoðað bílinn er ég þeirrar skoðunar að þetta sé, í öllum aðalatriðum, sami CR-V og verið hefur á markaðnum undanfarin ár, a.m.k. síðan haustið 2001, jafnvel varahjólið er enn aftan á bílnum sem er orðið gamaldags. En andlitinu hefur verið lyft auk ýmissra ótvíræðra endurbóta. Að mínu mati er þetta þó sami efnisrýri og of léttbyggði og of dýri sýndarjeppinn, miðað við stærð (1621 kg), og sá sem verið hefur á markaðnum undanfarin ár. Hvert sem mitt álit á styrkleika Honda CR-V kann að vera, en hann er framleiddur í Bretlandi, hefur hann selst mjög vel, er reyndar með mest seldu bílum af þessari gerð. Ástæður eru ekki síst rekstraröryggi en bilanatíðni er langt undir meðaltali. Varðandi bilanatíðnina má nefna að Honda CR-V reyndist bila sjaldnast allra sambærilegra bíla samkvæmt könnun sænska bíleigendafélagsins (Motormännens riksforbund). Og fyrir þá sem hafa fengið sig fullsadda á tímareimaskiptum (jafnvel sliti með tilheyrandi skemmdum og viðgerðarkostnaði) þá er þessi vél með tímakeðju sem dregur verulega úr viðhaldskostnaði. CR-V2 er eins og fyrirrennarinn skemtilega léttur og lipur í borgarakstri þótt eyðsla beinskipta bílsins (5g), um 12 lítrar á hundraðið í borgarsnatti, sé í efri kantinum (10 lítrar í lengri akstri). Í mínum augum er Honda CR-V2 hátt byggður framdrifinn stationbíll (tengir aldrif sjálfvirkt við spólun) sem lítur út eins og borgarjeppi.

Á meðal þess sem mátti finna að við eldri CR-V var hve sjálfvirk tenging aldrifsins var hægvirk. Úr þessu hefur verið bætt með því að bæta diskakúplingu við sjálfvirka vökvastýrða tengibúnaðinn þannig að nú nægir að framhjól spóli sem nemur þriðjungi úr hring til að sídrifið verði virkt. Önnur endurbót sem mér finnst muna um er að hljóðeinangrunin er áberandi meiri og betri en áður var og munar mest um minna veghljóð á malarvegi. Eins og áður er innréttingin látlaus - næstum einum of fyrir minn smekk, en hún er hins vegar mjög vel útfærð þótt útlitshönnunin geti ekki kallast ný né nýstárleg, t.d. eru hirslur fyrir nánast hvað sem er. Stólar og sæti eru fremur efnislítil en hvorki betri né verri en gengur og gerist í þessum verðflokki.

Bæði Mitsubishi Outlander og Hyundai Santa Fe eru sterkbyggðari og meiri jeppar en Honda CR-V. Annar munur á bílunum er sá að veghæð CR-V er meiri (20 sm undir lægsta punkt) og því hærra inn í bílinn og upp á stólsetu, atriði sem ég ráðlegg eldra fólki að prófa áður en það velur borgarjeppa því þótt hæð innra rýmis geri það að verkum að fólk sest inn í borgarjeppa en ekki ofan í hann, er sá kostur sýnd veiði en ekki gefin eigi fólk í erfiðleikum með að komast inn í bílinn og út úr honum.

Honda CR-V er 13 sm lengri en Santa Fe og breiddin 3,5 sm minni. Innra rýmið í CR-V er ágætt fyrir fólk af meðalstærð. Stærstu karlmenn munu þó sitja afar þröngt undir stýri, ekki síst vegna þess hve lárétt stilling bílstjórastólsins er takmörkuð. Athygli stórvaxinna skal þó vakin á því að gegn aukagjaldi mun vera hægt að fá lengri sleða fyrir bílstjórastólinn þannig að þetta ætti ekki að þurfa að vera frágangssök.

Aftursætinu má renna fram og aftur (170 mm færsla) auk þess sem stilla má halla sætisbaka (60/40-skipting). Fyrir fólk af meðalstærð er þetta ótvíræður kostur þar sem finna má þægilega stillingu. Hins vegar vandast málið fyrir stórvaxna annars vegar vegna þess að í öftustu stöðu er sætisbak aftursætis nánast lóðrétt og hins vegar vegna þess að rýmið á hæðina er takmarkað. Aftursætin er einfalt og auðvelt að fella, annað eða bæði. Isofix-festingar eru fyrir barnastóla. Farangursrýmið er meira en í öðrum borgarjeppum, 527 - 628 lítrar eftir því hvernig er mælt. Mörgum mun finnast hæðin upp á gólf farangursrýmisins nokkuð mikil, t.d. í samanburði við MMC Outlander. Séu sætin felld er flutningsrýmið heilir 952 lítrar. Til að það valdi ekki misskilningi þá er Honda CRV mjög rúmgóður bíll fyrir fólk af meðalstærð og með meira farangurs- og flutningsrými en flestir ef ekki allir keppinautar enda verður það ekki af CR-V skafið að þetta er frábær fjölskyldubíll, m.a. með fjölskylduvænni innréttingu en gengur og gerist, m.a. með uppsláanlegt borð á milli framstóla og flatt gólf farangursrýmis, (aftasta hluta þess má nýta sem matarborð með afturhurðina opna). Dráttargetan er 1500 kg. Afturhurðin, sem er með lömum á hægri hliðinni, er klossuð og þunglamaleg.

Í þessum bíl er sama 2ja lítra bensínvélin og í Honda Accord, 150 hö við 6500 snm og með hámarkstog 192 Nm við 4000 snm. Þetta er spræk og skemmtileg vél, gangmjúk, hljóðlát og þekkt fyrir gangöryggi og endingu. Snerpan er 10,6 sek 0-100 km/klst. Beinskiptingin með 5 gírum er létt og ratvís. (með 6 gírum og dálítið þéttari stikun væri þessi bíll enn skemmtilegri í akstri og sparneytnari). Aksturseiginleikar eru að því leyti betri en fyrirrennarans, en þeir þóttu betri en í meðallagi, að snerilstyrkurinn hefur aukist og það finnst í akstri, t.d. er sá nýi stöðugri og hallar minna í beygjum.

Ég hef ekki prófað CRV með nýju 2.2iCRD túrbódísilvélinni (einnig með tímakeðju eins og bensínvélin) en það er sama dísilvélin og er í Accord og samkvæmt því sem breskir kunningjar mínir segja er hún mjög vel heppnuð; með forðagrein (common rail) og stenst kröfur Euro 4 staðalsins um mengunarvörn. Uppgefin meðaleyðsla dísilvélarinnar, sem er 140 hö við 4000 snm og með hámarkstog 340 Nm við 2000 snm, er 5,6 lítrar í blönduðum akstri og snerpa bílsins með henni er 10,4 sek 0-100 km/klst. Með dísilvélinni er nýr 6 gíra beinskiptur kassi. Með tilliti til þess að þungaskattur af dísilbílum fellur niður 1. júlí n.k. hefði mátt búast við að CR-V væri boðinn hérlendis með dísilvél enda skiptir dísilvél sköpum fyrir þá sem aka eitthvað að ráði. En af einhverjum ástæðum, sem ég þekki ekki, er CR-V ekki fáanlegur hérlendis með dísilvél (viðbót 16. apríl 2005: Nú er þessi bíll fáanlegur með dísilvélinni). Eins og áður eru varahlutir í Honda með þeim dýrustu á markaðnum.

 

 

Aftur á aðalsíðu