Mælieiningarnar ,,Gauge" og ,,Caliber" - hugtakið ,,Duty Cycle"

 

Bandaríkjamenn nota mælieininguna ,,gauge" til að gefa til kynna sverleika vírs, millibil, þvermál röra m.a. hlaupvídd haglabyssu og caliber (calibre úr latínu = gildi) sem mælieiningu fyrir þvermál kúlu. Margur hefur farið flatt á þessum tveimur mælieiningum. Tökum caliber fyrst: Hjá enskumælandi þjóðum er caliber mælt í tíunduhlutum úr tommu. Sem dæmi þá er caliber .22 sama og 2,2 tíunduhlutar úr tommu eða 2,2/10x25,4 =5,588 mm. Hjá þjóðum sem nota metrakerfið er kaliber hins vegar mælt í millimetrum (kaliber 6,5 = 6,5 mm) þó með þeirri undantekningu sums staðar, t.d. í Svíþjóð, að hlaupvíddin er enn mæld í ,,gauge" sé um haglabyssu að ræða.

Algengt er að menn fari flatt á mælieiningunni ,,gauge" - gefa sér t.d. hiklaust að 12-gauge hljóti að vera minna þvermál en 16-gauge; gefa sér að 8-gauge vír sé örugglega grennri en 10-gauge vír. En í báðum tilvikum er þessu öfugt farið. Skýringin er þessi: Í gegnum rör sem er 12-gauge kemst kúla með sama þvermál og ein af 12 kúlum sem saman vega 1 pund. Í gegnum rör sem er 16-gauge kemst kúla sem er með sama þvermál og ein af 16 kúlum sem saman vega 1 pund. Af því leiðir, eins og sjá má, að haglabyssa sem mælist 16-gauge hefur minni hlaupvídd en haglabyssa sem mælist 12-gauge. Sama gildir um vír - því hærri sem ,,gauge-talan" er því grennri er vírinn, því þrengra er rörið, því minna er millibilið.

Þegar fagmenn kaupa rafsuðuvél skoða þeir ýmis tæknileg atriði sem segja til um raunveruleg afköst og álagsþol ákveðinnar rafsuðuvélar. Á meðal þýðingarmestu gæðahugtaka er ,,Duty cycle". Í störfum mínum sem þýðandi tæknimáls hef ég forðast að þýða þetta hugtak (enda engin þýðing til á því t.d. orðabókum), nota enska heitið innan gæsalappa en skýri út hvað hugtakið merkir. ,,Duty cycle", þegar um rafsuðuvél er að ræða, er ákveðinn mælikvarði á afköst þegar innbyggð yfirálagsvörn virkar. Samkvæmt amerískum stöðlum er ,,Duty cycle" mælt á eftirfarandi hátt: Við ákveðna suðustillingu er mældur sá hluti 10 mínútna verktíma sem raunveruleg suða fer fram. Dæmi: Sé ,,Duty cycle" uppgefið sem 60% þýðir það að suðumaður getur rafsoðið í 6 mínútur á hverjum 10 mínútna samfelldum verktíma - 4 mínútur fara í sjálfvirk hlé (útslátt) til að kæla rafsuðuvélina. Í Bandaríkjunum er gengið strangt eftir því að framleiðendur rafsuðuvéla gefi ,,Duty cycle" upp sem hlutfall af 10 mínútna verktíma. Einstaka framleiðandi eða seljandi rafsuðuvéla reynir að fara í kring um þetta gæðamat með því að gefa ,,Duty cycle" upp sem hlutfall af 5 mínútna verktíma eða minna og gefur augaleið að það er gert til að villa um fyrir kaupanda.

Leó M. Jónsson