Heinz Guderian

Heinz Guderian fæddist í Culm í Vestur-Prússlandi (nú tilheyrandi Póllandi) 17. júní 1888 og var sonur prússnesk hershöfðingja. Hann stundaði nám við herskóla í Berlín 1901-1907 og gerðist svo atvinnuhermaður. Eftir frekara nám við herskóla í Metz var hann gerður að undirliðsforingja, þá um þrítugt. 1913 kvæntist hann Margareta Goerne.

Heinz Guderian sérhæfði sig m.a. í flutninga- og fjarskiptatækni, öðlaðist liðsforingjatign 1914 og var gerður að höfuðsmanni 1915. Hann stjórnaði fjarskiptamálum á vesturvígstöðvunum í fyrri heimstyrjöldinni og þótt hann tæki ekki beinan þátt í bardögum þar var hann sæmdur járnkrossinum fyrir góðan árangur og frammistöðu. 1918 varð hann herráðsforingi og sá yngsti í sögu þýska hersins.

Heinz Wilhelm Guderian

Eftir fyrra stríð varð Guderian einn af þeim 100 þúsund hermönnum sem Þjóðverjum var leyft að hafa sem ríkisher og voru þeir hæfustu valdir. Hann hlaut majórstign 1927 en á þeim árum skrifaði hann reglulega greinar í tímarit um hugmyndir sínar um vélvæddan hernað auk þess sem hann þýddi greinar um efnið úr ensku og frönsku enda talaði hann þau mál reiprennandi.

1929 var Guderian ásamt fleiri þýskum herforingjum boðið til Svíþjóðar en þar prófaði hann að aka og stjórna skriðdreka í fyrsta sinn en Svíar höfðu keypt skriðdreka af Þjóðverjum og breytt (S21). Um 1930 hafði Guderian yfirumsjón með flutningakerfi og flutningatækni þýska hersins auk þess sem hann starfaði við þjálfun hermanna hjá herskóla í Berlín. Hann varð undirofursti 1931 og majór 1933 - hann var innundir hjá Hitler sem deildi með honum áhuga á vélahernaði og studdi hann á þeirri braut. 1934 var Guderian settur yfir 2. bryndeild þýska hersins, skömmu síðar gerður að ofursta og að undirhershöfðingja á miðju ári 1936 og hershöfðingja (Chef der Schnellen Truppen) 10 mánuðum síðar, þá 49 ára gamall.

Sem yfirstjórnandi brynvélahersins notaði hann tign sína og þekkingu til hins ítrasta til að gera hann jafn ótrúlega vel þjálfaðan og öflugan eins og kom í ljós þegar Þjóðverjar hófu innrásir í nálæg ríki 1939. Guderian, sem snemma fékk viðurnefnið ,,Der Schnelle Heinz" (Snöggi Heinz), var sæmdur öllum helstu og æðstu heiðursmerkjum þýska hersins á ferli sínum - sem þó var ekki alltaf upp á við.

Eins og aðrir skriðdrekaliðsstjórnendur á vígvelli á 5. áratugnum þurfti Guderian oft að gjalda þess að herstjórnendur, sem léku listir sínar á landakortum, oft fjarri vígvelli, skorti bæði þekkingu á eðli skriðdrekahernaðar og skilning á mikilvægi hraðans í framvindunni - hin hefðbundna herfræði reyndist allt of svifasein og af þeim ástæðum átti Guderian í sífelldum útistöðum við yfirboðara sína sem ásökuðu hann fyrir óþolandi óhlíðni.

Ástæðan fyrir því að Guderian komst upp með að hunsa nánustu yfirboðara sína, aftur og aftur, var ótrúlegur árangur leiftursóknar brynvélahersins undir stjórn hans og það traust sem Hitler sýndi honum, a.m.k. fyrst í stað - en það nýtti Guderian m.a. til að fá því framgegnt að stöðugar endurbætur voru gerðar á skriðdrekum og nýir og öflugri hannaðir. Þess var vissulega þörf eins og sýndi sig þegar þýsku hersveitirnar réðust inn í Frakkland 14. maí 1940 því Panzer I, II og III hefðu ekki átt neina möguleika gegn skotum þungu frönsku Char-B-skriðdrekanna nema vegna þess hve þeir voru hraðskreiðir og liprir en þeir frönsku klossaðir og stirðir.

Stöðugar útistöður Guderians við yfirboðara, sérstaklega við von Kluge hermarkskálk, sem gekk illa að fylgja hraða skriðdrekanna á vígvellinum eftir á kortinu, urðu til þess að hann var settur af tímabundið haustið 1940.

Rúmu hálfu ári seinna var Guderian aftur í náðinni og stjórnaði sókn 2. brynvélahersins í átt að Moskvu eftir innrásina í Sovétríkin sumarið 1941. Vélasveitir hans óðu áfram og höfðu, þrátt fyrir sífelldar bilanir, vista- og eldsneytisskort; öfluga mótspyrnu sovéska hersins og árásir skæruliða, náð að úthverfum Moskvu um haustið. Þá var sú sókn stöðvuð því Hitler hafði ákveðið að hertaka Úkraínu skyldi hafa algjöran forgang og því varð ekki haggað þrátt fyrir ákveðin mótmæli Guderians og annarra stjórnenda.

Lokasókn að Moskvu hófst því ekki fyrr en í október þegar haustrigningar höfðu gert vegina að botnlausum forarsvöðum. Í beinu framhaldi hófst einhver harðasti vetur í mannaminnum; matarlaust, eldsneytislaust án kuldafatnaðar, vélknúin tækin botnfrosinn í svörðinn - þannig hírðist þýska herliðið í 50 stiga frosti. Þann 14. nóvember (1941) var svo komið fyrir brynvélaher Guderians, sem um sumarið hafði brunað yfir landamærin með 600 skriðdreka, að eftir voru 50 nothæf vélknúin tæki. Guderian gat ekki haldið stöðunni og neyddist til að hörfa með lið sitt. Hitler ærðist. Í framhaldi voru hershöfðingjarnir von Rundstedt og Leeb ásamt Guderian settir af.

Eftir ófarirnar í Stalingrad og N-Afríku var Hitler brugðið; kallaði Guderian aftur til þjónustu 1. mars 1943 og setti hann nú yfirumsjónarmann með brynvélahernum. Guderian tók aftur til þar sem frá hafði verið horfið - skriðdrekaliðunum til mikillar ánægju. Hermenn undir stjórn Guderians höfðu óbilandi trú á honum og treystu þekkingu hans, kunáttu, hæfileikum og hörku til hins ýtrasta enda var hann einn örfárra hershöfðingja sem héldu sig ávallt í fremstu víglínu. Þá gat hann stokkið upp í skriðdreka og kennt mönnum sínum að beita honum betur teldi hann þörf á því.

Sem yfirumsjónarmaður leiddi Guderian þróun nýrri og öflugri skriðdreka (Panzer IV, Panther, Tiger og Köningstiger) það sem eftir var stríðsins. En nú hafði sú breyting orðið á að Hitler var ekki sá haukur í horni sem áður hafði verið og átti Guderian í stöðugum útistöðum við hann þar til hann var leystur frá þjónustu 21. mars 1945 eða 6 dögum áður en bandamenn náðu yfir Rínarfljót í stórsókninni norður eftir Þýskalandi.

Heinz Guderian var yfirheyrður af herlögreglu bandamanna að stríði loknu en var ekki ákærður fyrir stríðsglæpi. Heinz Guderian var helsti frumkvöðull nútíma vélahernaðar og er hans getið í flestum ef ekki öllum vandaðri fræðibókum sem fjalla um skriðdreka og skriðdrekahernað. Hann lést 14. maí 1954.

------------------------------------
Heinz Günther Guderian yngri fæddist 1914. Hann varð liðsforingi 1942 í skriðdrekafylki og var orðinn undirofursti 1943. Hann særðist þrisvar í bardögum og var sæmdur riddarakrossi járnkrossins. Eftir stríð var Heins Günther atvinnuhermaður í þýska sambandshernum, m.a. gegndi hann starfi yfirumsjónarmanns með brynvéladeildum (sama starf og faðir hans hafði gegnt). Hann lét af herþjónustu sem undirhershöfðingi sökum aldurs 1974.

Copyright © Leó M. Jónsson

Helstu heimildir:
Erinnerungen eines Soldaten. Höf. Heinz Guderian, Heidelberg 1950.
Panzer-Marsch. Höf. Oskar Munzel, München 1955.
Achtung-Panzer! Die Entwicklung der Panzerwaffe, ihre Kampftaktik und ihre operativen Möglichkeiten. Höf. Heinz Guderian. Stuttgart 1937.
-Day. Spearhead of Invasion. Höf. R.W. Thompson. Pan Ballantine Illustrated History og World War II. 1972.

---------------------------------
Athugasemd höfundar. Þeir sem kynna sér eftirleik síðari heimsstyrjaldarinnar, aðdraganda Nürnberg-réttarhaldanna vegna stríðsglæpa Þjóðverja og afdrif einstakra hátt settra herforingja þeirra hljóta að undrast þá staðreynd að Heinz Guderian hershöfðingi skyldi ekki vera dreginn fyrir dóminn í Nürnberg. Efasemdir sem vakna, fyrir utan þær hefðbundnu vangaveltur um hvað hinn almenni Þjóðverji hafi vitað um það sem átti sér stað í útrýmingarbúðum og hvað hann hefði hugsanlega getað gert til að afstýra stríðsglæpum (var það ekki Dietrich von Choltitz yfirmaður þýska hernámsliðsins sem bjargaði París með því að óhlíðnast fyrirskipunum Hitlers ?), eru vegna eftirfarandi atriða:

- Sem yfirumsjónarmaður, m.a. með framleiðslu skriðdreka, hlýtur Guderian að hafa orðið var við þær tugþúsundir manna sem unnu við framleiðsluna í þrælkunarvinnu og þá þrælaflutninga sem áttu sér stað á milli fangabúða og verksmiðja.

- Í skjölum sem nú eru opinber er m.a. sagt frá því að njósna- og rannsóknadeild 7. hers bandamanna hafi hlerað samtöl þýskra herforingja í varðhaldi, m.a. í fangelsinu í Naustadt og Allendorf þar sem Guderian og fleiri hátt settir þýskir herforingjar voru hafðir í haldi. Hleranir leiddu í ljós samtöl sem sýndu að þeim var öllum kunnugt um útrýmingarbúðir fyrir gyðinga þótt þeir neituðu því staðfastlega við yfirheyrslur.