Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Suzuki Grand Vitara 2006

Suzuki Grand Vitara hefur haft sérstöðu á meðal smærri fjórhjóladrifsbíla sem fullgildur jeppi með hátt og lágt drif. Sá Grand Vitara sem nú er kominn á markaðinn af árgerð 2006, en hann mun vera 3. kynslóðin, er nýr og breyttur 4ra dyra bíll frá grunni en eftir sem áður fullgildur jeppi og nú með öflugri 2,7 lítra vél.

Eins og við var að búast eru kostir nýja Grand Vitara meiri en þess sem hann leysir af hólmi og stærstur þeirra er aukið innanrýmið, en þrengsli voru einn af fáum ókostum þess eldra. Sá nýi er jafnframt mun þýðari og þægilegri í akstri á þjóðvegi og í lengri ferðum og munu margir kunna að meta það því sá eldri var fullhastur. Það var þó ekki frágangssök enda er eldri Grand Vitara fjölhæfur, dugmikill, lipur og praktískur jeppi af smærri gerðinni.

Nýi Grand Vitara er með sambyggða grind og botn - hönnun sem eykur styrk og bætir aksturseiginleika. Verð þessa fullgilda jeppa er athyglisvert (frá 2.69 mkr) því það er álíka og fyrir jeppling. Mesta niðurfærsla á öxul (1.97 lágt drif x 4.55 1. gír x 3.583 drif) er 1 : 32.11.

Nýi Grand Vitara er nýtískulegur og stílhreinn. Á meðal þess sem er áberandi er hve dyr bílsins eru síðar. Á honum eru ekki sjáanlegir sílsar neðan við dyr. Skýringin liggur í því að grindin felld inn í og áföst botninum en með því móti verður innstig í bílinn lægra, rými á hæðina meira án þess að hæð undir lægsta punkt bílsins hafi minnkað. Frágangur og smíði er, eins og við var að búast, til fyrirmyndar enda lítur bíllin út fyrir að vera dýrari en hann er. Þá er hann hæfilega ólíkur þeim sem hann leysir af hólmi. Bilanatíðni Suzuki hefur reynst lág og er eitt af aðalsmerkjum tegundarinnar en Suzuki Vitara hefur lengi verið vinsælasti smærri jeppinn. Þó finnst manni hönnuðir hefðu mátt vera ofurlítið ,,ópraktískari" og sleppt því að hafa varahjólið á afturhleranum - það er klárt stílbrot hjá nýjum jeppa af árgerð 2006.

Suzuki Grand Vitara er oft borinn saman við Toyota RAV4 og þeir álitnir keppinautar þrátt fyrir að RAV4 sé ekki fullgildur jeppi og standist því ekki samanburð við Grand Vitara, sem, merkilegt nokk, hefur þó ekki verið dýrari og er það í sjálfu sér athyglisvert.

Innbyggð grind
Helsta grundvallarbreytingin er undirvagninn en í stað stigagrindarinnar er nú grind sem felld er inn í botn bílsins. Í stað boddífestinga/púða er botnplatan rafsoðin á grindina. Þetta er sams konar hönnun og hjá öðrum nýjum jeppum svo Land Rover Discovery III o.fl. (Grindin er að vísu felld upp í botninn á Land Rover en yfirbyggingin boltuð á grindina). Kostur þessa smíðalags er sá helstur að með því næst sambærilegur eða meiri styrkur og með hefðbundinni grind, t.d. meiri snerilstyrkur sem eykur veggrip og jeppaeiginleika, jafnframt því sem innanrýmið eykst, t.d. með auknu höfuðrými án þess að veghæð/fríhæð minnki. Skýra má þetta frekar með því að nýi Grand Vitara sé með samanlagðan styrk jeppa á grind og jeppa með sjálfberandi boddí.

Nýr og gjörbreyttur Suzuki Grand Vitara er stærri og glæsilegri en fyrirrennarinn. Eitt af aðalsmerkjum Suzuki er lág bilanatíðni. Sé farið vel með Suzuki endist hann von úr viti.

Aukin snerilstyrkur, en með því er átt við uppávindingu undirvagns, gerir kleift að nota mýkri fjöðrun án þess að rýra stöðugleika bílsins t.d. í beyjum - reyndar eykst rásfestan vegna snerilstyrksins. Áhrifi þessarar grundvallarbreytingar eru þau að nýi Grand Vitara er miklu þægilegri og mýkri ferðabíll en sá eldri. Ekki er ástæða til að ætla að jeppaeiginleikar hans hafi rýrnað við þessa breytingu - þeir ættu frekar að hafa batnað (ég hef ekki prófað þennan bíl í torfærum). Fjöðrun er sjálfstæð á hverju hjóli; gormaturnar að framan en gormar og liðarmar að aftan. Tannstangarstýrið er með vökvaaðstoð (snýr innan í hring með 11 m þvermáli). Að framan eru diskabremsur (2ja stimpla dælur) en 10" skálar að aftan. ABS-læsivörn er staðalbúnaður.

Samandregið: Sambyggð grind og botn eykur styrk jeppa um leið og aksturseiginleikar og þægindi verða líkari því sem maður á að venjast í fólksbíl. Fram að þessu hefur þessi bygging þótt varasöm vegna þess hve erfitt hefur reynst að koma í veg fyrir ryðtæringu. En tækni í tæringarvörn er núorðið allt önnur, ekki síst á framleiðslustigi bíls. Frá framleiðanda, Suzuki, fylgir bílnum sérstök ábyrgð á verksmiðjuryðvörn. Ástæða er til að vekja athygli á að hvers konar aukaryðvörn ofan á þessa verksmiðjuryðvörn kann að ógilda tæringarábyrgð framleiðandans.

(Ég er þeirrar skoðunar að ,,íslenska aukaryðvörnin" hafi eyðilagt fleiri bíla og fyrr en margir gera sér grein fyrir. Sem dæmi nefni ég að flestir Isuzu Trooper og Isuzu pallbílar, sem umboðið flutti inn á tímabilinu 1989 - 1999, en þeir eiga það sameiginlegt að vera með lokaðan grindarprófíl (stokk), eru ónýtir vegna þess að kvoðu var sprautað inn í grindina sem fyrri bragðið hefur tærst upp og nánast horfið (það var hægt að mylja hana með berum höndunum). Hins vegar veit ég um Isuzu Trooper sem keyptir voru af sölu Varnarliðseigna af sömu árgerðum og eru enn í lagi - en þeir sluppu við íslensku ryðvörnina).

Vél og Drifbúnaður
Fyrst um sinn, að minnsta kosti, verður nýi Grand Vitara einungis boðinn með 2,7 lítra V6-bensínvél sem skilar 185 hö við 6.000 sm. Hámarkstogið er 258 Nm við 4.500 sm. Þessi vél er ekki alveg ný af nálinni hjá Suzuki en hefur verið endurbætt þannig að hún skilar 20 hestöflum og 31 Nm togi umfram eldri útgáfuna. Smurkerfið rúmar 4,8 lítra og kælikerfið 8,2 lítra. Snerpa er ekki forgangsatriði heldur tog. Viðbragðið 0-100 km er vel viðunandi en ekki meira. Vélin er með silkimjúkan gang. Vélarhljóð er merkjanlega minna en í eldri gerðum Grand Vitara. Eyðslan sjálfskipta bílsins er um 13 lítrar í borgarakstri og um 10 lítrar á þjóðvegi en 12,4 og 9,8 lítrar á hundraðið með beinskiptum kassa.

Nýi Grand Vitara er eins og sá eldri með fjórhjóladrif með hátt og lágt drif í millikassa. Í millidrifinu, sem er með niðurgírun 1,97 í lága, er seigkúpling/læsing sem miðlar átaki sjálfvirkt á milli fram- og afturhásingar. Velja má um 4 mismunandi drifhætti:

  • 4H sem er sítengt fjórhjóladrif og notað dags daglega en þá er aflmiðlunin 47% á framhjólum en 53% á afturhjólum.
  • 4H LOCK sem breytir seigkúplingunni í 100% læsingu í háa drifinu og eykur veggrip og öryggi í hálku og erfiðara færi (er ekki ætlað til lengri aksturs á fullum hraða).
  • 4L sem er lága drifið með sjálfvirkri aflmiðlun á milli hásinga.
  • 4L LOCK sem er lága drifið með 100% læsingu á milli hásinga, 50/50.

Beinskiptur kassi er 5 gíra. 1. gír með niðurgírun 4,55 en sá 5. beinn. Drifhlutfall beinskipta bílsins er 3.583. Mesta niðurgírun er 1 : 32,11

Sjálfskipting er 5 gíra. 1. gír er með niðurgírun 3,52 en sá 5. er yfirgír (0,717). Drifhlutfall sjálfskipta bílsins er 4,3. Mesta niðurgírun með sjálfskiptingu er 1: 29,82

Betri innrétting
Eins og í nýja Suzuki Swift, og reyndar í flestum Asíu-bílum eru sætin frekar hörð og setan óþægilega grunn. Sætin veita þó ágætan stuðning. Nýi Grand Vitara er nokkru stærri en fyrirrennarinn og sú stækkun hefur skilað þarfri aukningu innra rýmisins. Bíllinn er tæpum 30 sm lengri, 3 sm breiðari og með 16 sm meira hjólhaf. Af því leiðir m.a. að fótarými aftur í hefur aukist um 12 sm og breiddin inni í bílnum er 12 sm meiri. Farangursrými er 691 lítri en flutningsrými með aftursæti (60/40) fellt, en það fer fram og niður í einni aðgerð, er 1950 lítrar.

Ný og betri innrétting er með meira innanrými (1950 lítra flutningsrými). Eftir sem áður eru setur sætanna óþægilega grunnar (stuttar) en það virðist vera regla frekar en undantekning með bíla frá Asíu.

Mælaborðið er bæði þægilegt og glæsilegt. Stokkurinn á milli sætanna hefur verið breikkaður og nýtist betur. Aðgangur og gangsetning er án lykils (kort) í dýrari gerðinni.

Öryggisbúnaður - dráttargeta - mál
Auk ABS-læsivarnar og bremsu-átaksmiðlunar er nýi Grand Vitara búinn sjálfvirkri hliðarskriðsvörn, spólvörn er innbyggð í millidrifið (LOCK) og öryggispúðar eru fyrir framan og til hliðar við framstóla.

Dekkin eru af stærðinni 225 70 R16. Sportfelgurnar eru 6,5" breiðar (fæst einnig á 17" felgum). Bensíngeymirinn rúmar 66 lítra. Eigin þyngd beinskipta bílsins er sú sama og þess sjálfskipta, tæp 1.361 kg. Hámarksdráttargeta er 1.500 kg.
Aðhorn að framan er 29° , fráhorn að aftan 27° og miðjuhorn 19°.
Ytri mál í mm: 4.470 x 1.810, hæð 1.695 og hjólhaf 2.640.

Fyrir jeppamenn nefni ég að yfirhaf að framan mælist 755 mm og 1.075 mm að aftan.
Það er vel þess virði að gera sér ferð í umboðið til að skoða þennan jeppa og reynsluaka honum. Biðin eftir nýjum Grand Vitara var að vísu orðin nokkuð löng en Suzuki virðist hafa nýtt tímann vel - þessi bíll á eftir að seljast vel, ekki síst munu eigendur eldri Grand Vitara kunna vel að meta breytinguna.

Til baka á aðalsíðu

Aðrar bílaprófanir