Stuttfréttir Leós 2004: (vikan 27. apríl - )

 • Í kjölfar slita á samstarfi á milli Daimler-Chrysler og Mitsubishi hefur forstjóri þýska dótturfyrirtækis MMC sagt af sér og látið af störfum. þá hefur Daimler-Chrysler hefur borið til baka sögusagnir í fjölmiðlum um að forstjóri þess í Þýskalandi muni hætta störfum vegna MMC-málsins.
 • Nissan hefur rétt verulega úr kútnum eftir langt erfiðleikatímabil en eins og kunnugt er keypti Renault ráðandi hlut í Nissan fyrir nokkrum árum þegar útlitið var sem verst. Fyrstu 3 mánuði ársins 2004 skilaði Nissan meiri hagnaði en það hefur áður gert.
 • Daimler-Chrysler hefur ákveðið að taka upp samstarf við kóreanska Hyundai í stað Mitsubishi og mun það verða aukið stig af stigi á næstu árum.
 • Daimler-Chrysler hefur lýst því yfir að það sé hætt við fyrirætlanir um að leggja fram fé til enduruppbyggingar Mitsubishi í Japan sem róið hefur lífróður undanfarin misseri. Samtímis hefur MMC og japanskir bankar tilkynnt að unnið sé að nýrri viðskiptaáætlun sem eigi að geta tryggt framtíð fyrirtækisins.
 • Daimler-Chrysler tilkynnti á blaðamannafundi í New York í gær (miðvikudag 7/4) að nýr og breyttur Cherokee-jeppi af árgerð 2005 væri væntanlegur seinna á árinu. Nýi Cherokee verður með 5,7 lítra Chrysler Hemi V8-vél (þeirri sömu og verið hefur í Chrysler 300C og Dodge Magnum). Aðrar grundvallarbreytingar eru m.a. nýtt fjórhjóladrifskerfi með endurbættri drif- og veggripsstýringu sem byggir á nýrri tækni í meðferð breyta frá skynjurum.
 • Nissan frumsýnir nú nýjan lúxusjeppa í New York. Sá er af gerðinni Infiniti og hefur vakið sérstaka athygli fyrir glæsileika og fullkominn búnað, ekki síst öryggisbúnað sem byggir akstursstjórn með tölvugát. Sérfræðingar telja að tæknileg áhrif frá Renault, sem nú á ráðandi hlut í Nissan, séu greinanleg í þessum nýja Nissan-lúxusjeppa.
 • Tölur um sölu bíla á alþjóðlegum markaði sýna að sala Mercedes-Benz bíla hefur enn dregist saman. Miðað við fyrstu 3 mánuði ársins 2003 hefur sala á Benz minnkað um 1,8%. Það er einkum keppinauturinn Lexus sem tekur sölu frá Mercedes-Benz - mest á bandaríska markaðnum þar sem Lexus hefur komið betur út en Benz í könnunum (m.a. Consumer Reports) á áreiðanleika og bilanatíðni.
 • ,,Engine Expo" verður haldin í Stuttgart dagana 25. 26. og 27. maí n.k. Á þessari alþjóðlegu sýningu og ráðstefnu er fjallað um hönnun, þróun og framleiðslu brunavéla af öllum gerðum. Veitt er alþjóðleg viðurkenning fyrir hönnun véla. Einnig eru sýnd alls konar stýritæki fyrir vélar, prófunar- og bilunarleitartæki o.fl.
 • Toyota hefur enn aukið sölu bíla, nú um 23% í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi; seldi í mars í fyrsta sinn fleiri en 100 þúsund bíla á mánuði í Evrópu en það er 20% aukning á milli mánaða. Markaðshlutur Toyota í Evrópu er nú 5,4% sem er 4,6% aukning frá sama tíma í fyrra.
 • Nú hefur Ford Motor Company í Bandaríkjunum gefið til kynna að 10.apríl n.k. sé að vænta fyrstu opinberrar tilkynningar þess um innkallanir á Ford F250/350/450/550 Super Duty og Excursion með nýju 6 lítra PowerStroke dísilvélinni en ýmsar sagnir hafa gengið um bilanir og galla í vélinni. Upplýsingar verða birtar á www.blueovalnews.com á næstu dögum. Frank Ligon hjá Ford í Bandaríkjunum svarar fyrirspurnum um þetta mál (á ensku) á netfanginu fligon@ford.com eða fligon2@ford.com
 • ,,Bíladella 2004" nefnist árleg sýning sem Kvartmíluklúbburinn stendur fyrir nú um páskana. B&L lánar húsnæði sitt undir sýninguna annað árið í röð. Opið verður bæði á Páskadag og Föstudaginn langa. Sýnd verða alls kyns tryllitæki og tilheyrandi. Sýningin mun standa daganna 8-12.apríl næstkomandi.
 • Brimborg opnaði nýtt umboð á Suðurnesjum í janúar. Sýningarsalur Brimborgar er í nýja iðnaðarhverfinu við Njarðarbraut sem liggur samhliða Keflavíkurveginum í Njarðvík. Samkvæmt bifreiðatölum Skráningarstofu (Umferðarstofu á Vefnum) hafði Brimborg selt 2 bíla (Ford) á Suðurnesjum fyrstu 3 mánuði ársins.
 • Næsta kynslóð bandarískra fólksbíla verður með drifið á afturhjólunum. Þetta er niðurstaða rannsóknahóps á vegum samtaka tæknimanna í bíaliðnaði ASAE. Með aukinni tækni og þróun ýmiss öryggisbúnaðar er nú hægt að miðla átaki á sjálfvirkan hátt á milli hjóla, stýra veggripi og bremsun þannig að sambærilegir eiginleikar í hálku og snjó ásamt sparneytni næst með afturdrifi einu eins og nú með framdrifi. Með þessu móti er talið að auka megi öryggi í umferð þar hinn almenni bílstjóri á auðveldara með að hafa fulla stjórn á afturhjóladrifnum bíl en framdrifnum við óvæntar uppákomur.
 • Breyttir tímar: Rolls-Royce (sem nú er í eigu BMW) hefur opnað glæsilegan sýningarsal og söluskrifstofu við sjálft Rauða torgið í Moskvu, einungis spölkorn frá Kreml. Rússland er þegar orðið einn af mikilvægustu mörkuðum fyrir Rolls-Royce.
 • Samtök eigenda Land Rover, Íslandrover, ætla að koma saman við Húnaver í Langadal dagana 17. og 18. júlí í sumar og sýna þar bíla sína og taka sér ýmislegt annað fyrir hendur. Þangað munu m.a. steðja nokkrir eigendur nýuppgerðra eldri Land Rover sem verður gaman að sjá.
 • Toyota, sem lagt hefur sérstaka áherslu á Evrópumarkaðinn sl. ár og það sem af er þessu, kynnti í síðustu viku (23/3) nýjan bíla á Spáni. Það verður 3. evrópski Toyota-bíllinn (hinir eru Yaris sem framleiddur er í Frakklandi og Avensis sem framleiddur er í Bretlandi og Belgíu). Sá nýi er fjölnotabíll (MPV) af minni gerð byggður á Corolla botni og nefnist Corolla Verso. Sá bíll verður að öllum líkindum framleiddur í Póllandi og ef til vill einnig á Spáni. Athygli vekur að Toyota Corolla Verso er 5 sæta en með nokkrum handtökum má breyta honum í 7 sæta bíl. Helstu keppinautar í þessum flokki bíla eru 7 sæta nema Ford C-Max sem, merkilegt nokk, er einungis 5 sæta enda mun nýja Corolla Verso vera ætlað að taka kaupendur frá Ford.
 • Fyrstu opinberu ljósmyndirnar hafa verið birtar í Þýskalandi af nýjum BMW, nýrri línu sem nefnist BMW 1 en fyrstu bílarnir koma á markaðinn í haust. BMW 1-línan verður ódýrasti BMW-bíllinn og jafnframt einn örfárra bíla í þessum stærðarflokki með afturhjóladrifi. Nýi BMW-bíllinn mun hafa ýmislegt umfram keppinauta - en honum er m.a. stefnt gegn Benz A-seríunni. Ódýrasti BMW-1 er með 1600-vél en sá dýrasti með 2ja lítra.
 • Peugeot 206 er mest seldi bíllinn í Evrópu í sínum stærðarflokki - nýi VW Golf hefur ekki slegið Peugeot 206 út í sölu eins og markaðsdeild VW hafði gert ráð fyrir
 • Toyota Prius hefur, að margra mati, ekki reynst eins hagkvæmur í rekstri og Toyota vildi meina. Vegna gagnrýni sem komið hefur fram, m.a. í breskum fjölmiðlum, en þar er því m.a. haldið fram að Prius sé mun dýrari í rekstri en framleiðandinn hefur fullyrt, mun vera von á opinberri yfirlýsingu frá Toyota vegna málsins.
 • Kínverskur núðluframleiðandi er hættur við að yfirtaka SsangYong í Suður-Kóreu þar sem ekki tókst að semja um verð. SsangYong hefur ekki tekist að koma undir sig fótunum fjárhagslega eftir gjaldþrot Daewoo-samsteypunnar sem það var hluti af og hafa verið spáð gjaldþroti þess eða yfirtöku. Suður-Kóreubúar munu hafa talið kínverskan núðluframleiðanda skárri kost af tveimur slæmum - en hinn mun hafa verið hópur japanskra fjárfestingarfyrirtækja. Staða SsangYong er viðkvæmt mál í S-Kóreu, ekki síst vegna þess að það er annar stærsti innlendi hergagnaframleiðandinn.
 • Nýr framleiðandi SUV/jeppa er að hefjast handa í Suður-Kóreu - samstarfsverkefni Samsung og Renault (sem nú á meirihlutann í Nissan).
 • Árið 2004 byrjar ekki vel fyrir Ford. Í dag, 22. mars, var tilkynnt að kalla þyrfti inn 180 þúsund bíla af tegundunum Land Rover og Jaguar á næstu 30 dögum vegna alvarlegra galla. Þetta er talinn verulegur álitshnekkir fyrir lúxusbílafyrirtæki Fords, Premium Automotive Group.
 • Þriðja árið í röð hafa samtök breskra fyrirtækja sem reka flota bíla (bílaleigur, kaupleigur o.fl.) valið Lexus sem þann bíl sem nýtur mestra vinsælda og álits og vegna hagkvæmni í rekstri. Fyrir 10 árum átti Mercedes-Benz nánast þessa viðurkenningu vísa - en það virðist vera liðin tíð.
 • Þýska Continental hyggst stórauka dekkjaframleiðslu sína í Malasíu og Brazilíu og flytja þangað stóran hluta af þeirri framleiðslu sem stundar nú í Bandaríkjunum. Ástæðurnar eru vaxandi kostnaður í Bandaríkjunum og hagstæð tilboð frá opinberum aðilum í Malasíu og Brazilíu.
 • Evrópskur kaupandi Cadillac býst sjálfsagt við að bíllinn sé framleiddur í Bandaríkjunum. En svo þarf ekki að verða því á næstunni mun hefjast framleiðsla á sérstökum Cadillac fyrir evrópska markaðinn og verður hann framleiddur í verksmiðju Saab í Bretlandi.
 • Hörðust samkeppni á evrópska markaðnum er í C-flokki bíla. Sterkustu keppendur eru VW með nýjan Golf og GM með Opel Astra. GM hefur ekki gengið vel með Astra fram að þessu en fylgir nú nýjum og verulega endurbættum Astra úr hlaði með alls konar nýjungum í markaðsfærslu.
 • Porsche hefur með hlutabréfaútboði á bandaríska markaðnum aflað aukins hlutafjár sem nemur 625 milljónum dollara. Þetta er stærsta hlutafjárútboð þýsks fyrirtækis á bandaríska markaðnum til þessa. Með þessu telur Porsche að sterk fjárhagsleg staða fyrirtækisins hafi verið tryggð í nánustu framtíð. (Um er að ræða hlutabréf sem nefnast ,,Private placement" og eru sambærileg við ,,Non-quote-bond").
 • Nissan í samvinnu við eiganda sinn Renault, hefur ákveðið að margfalda framleiðslu sína á stiglausum sjálfskiptingum fyrir smærri bíla (Continious Variable Transmission = CVT) en sú skipting byggir á upphaflegri hönnun DAF í Hollandi frá því um 1960 en hefur verið verulega endurbætt. Nissan hefur þróað þessar skiptingar í samvinnu við Fiat og Subaru og hefur slíkur gírkassi verið t.d. í Nissan Micra. Sérfræðingar Nissan gera ráð fyrir að CVT-skiptingar verði algengustu sjálfskiptingar í minni bílum innan fárra ára.
 • GM hefur þróað nýja aðferð við fargmótun bílhluta sem gerir það að verkum að hægt er að nota ál í mun meira mæli í bílaframleiðslu í stað stáls en hingað til hefur verið framkvæmanlegt. Gríðarleg hækkun á verði stáls og skortur á brotajárni hefur fllýtt þessari tækniþróun. Þessi nýja framleiðslutækni mun auka notkun áls verulega og hafa mælanleg áhrif á markaðsmál áls í næstu framtíð.
 • Ný 5,7 lítra V8-Hemivél frá Chrysler-Daimler hefur reynst frábærlega vel - hún er alfmeiri, sparneytnari og með minni mengun í útblæstri en nokkur önnur 8 sílindra fjöldaframleidd bensínvél á markaðnum. Tímaritið Ward Auto News kaus þessa Chrysler V8-vél eina af bestu bílvélunum á markaðnum árið 2003 (það kaus reyndar líka nýju 6.0 Ford Power Stroke dísilvélina eina af bestu vélunum - sú hefur reynst meingölluð).
 • Hins vegar hefur Chrysler-Daimler lent í miklum hremmingum með aðra nýja vél, 3,5 lítra V6 sem ætluð var fyrir Chrysler Pacific en mun einnig hafa verið sett í aðrar gerðir C-D-bíla. Vélin hefur reynst gölluð og hefur það valdið því að sala á Pacific hefur verið stöðvuð.
 • Chrysler PT-Cruiser, en það er snaggaralegur bíll með klassískt útlit sem náð hefur verulegum vinsældum í Bandaríkjunum, er nú boðinn í fyrsta sinn sem 2ja dyra blæjubíll.

---------------------------

Eldra:

 • Stjórnendur BMW viðurkenna að þeim komi á óvart hve góðar viðtökur MINI-bíllinn hefur fengið.
 • Ford í Bandaríkjunum hefur neyðst til að setja í gang sérstakt verkefni til að endurkaupa sem flesta Ford pikköpp sem fyrirtækið hefur selt með nýrri 6.0 lítra Power Stroke dísilvél. Það mun vera í fyrsta sinn í sögunni sem amerískur bílaframleiðandi grípur til slíkra aðgerða. Nýja dísilvélin mun vera stórgölluð og hefur þegar valdið Ford alvarlegum álitshnekki.
 • A.m.k. 6 borgir í Bandaríkjunum hafa höfðað skaðabótamál gegn Ford Motor Company vegna Crown Victoria lögreglubíla sem taldir eru hættulegir. Lögreglumenn sem lent hafa í óhöppum á þessum bílum vilja meina að öryggi bílanna sé stórlega ábótavant. Ford neitar öllum ásökunum.
 • Fyrrum risafyrirtæki í framleiðslu á bílavarahlutum, Federal Mogul, sem verið hefur í greiðslustöðvun sem undanfari gjaldþrots, hefur nú kynnt nýja áætlun sem stjórnendur þess telja að muni gera þeim kleift að fá nýja hluthafa til liðs við sig og forða fyrirtækinu þannig frá endanlegu gjaldþroti.
 • GM-bílasalar í Evrópu hafa rekið fyrirtæki sín með tapi sl. 6 ár. Nú er útlit fyrir að árið 2004 muni reksturinn komast á núllið og gert er ráð fyrir að hagnaður verði á árinu 2005. Á meðal þess sem talið er muni rétta hag bílasalanna eru nýir, ódýrir og vel heppnaðir bílar frá GM-Daewoo í Kóreu.
 • Árið 2003 varð algjört metár í 46 ára sögu Toyota sem aldrei hefur selt jafn marga bíla. Salan jókst um 6,3% árið 2003. Camry var mest seldi fólksbíllinn í Bandaríkjunum annað árið í röð.
 • Gríðarleg hækkun á verði stáls undanfarið ár, en hún nemur nú um 60%, hefur valdið mörgum smærri framleiðendum bílavarahluta miklum erfiðleikum. Samtök varahlutaframleiðenda fóru fram á að General Motors samþykkti hækkun verðs til þeirra til að mæta hluta af verðhækkun stálsins. GM hefur neitað að verða við þeirri beiðni. Gjaldþrot mun blasa við mörgum smærri fyrirtækjum í varahlutaiðnaði.
 • Sérfræðingar í alþjóðlegum bílaiðnaði reikna með því að sú mikla hækkun sem orðið hefur á verði stáls muni valda verðhækkun á bílum síðar á árinu 2004.
 • Á alþjóðlegu bílasýningunni sem nú stendur í Genf í Sviss hafa nokkrir nýir bílar vakið sérstaka athygli. Mesta athygli hefur vakið nýr 500 hestafla BMW Sport Sedan með V10-vél. Sama vél verður í nýjum opnum Rolls Royce sem BMW framleiðir. (sem breskir gárungar kalla ,,Kraut-Rag-Rolls"). Skoda hyggst setja á markaðinn ,,Minivan" byggðan á forgerðinni Roomster. Þótt Skoda sýni nýjan bíl sem arftaka Octavia verður framleiðslu Octavia haldið áfram. Ástæðan er mjög góð sala í Þýskalandi ! Porsche hefur tilkynnt að ekki standi til að bjóða Cayenne-jeppan með dísilvél (norskir nirflar verða að snúa sér annað).
 • Af 20 bílum sem bandarísku neytendasamtökin (www.consumerreports.org) hafa prófað lengri tíma og mæla með sem bestu kaupunum eru einungis 3 sem ekki bera japönsk tegundarheiti; Ford Escort, Geo/Chevrolet Prizm og Mercury Tracer. Af 20 bílum sem sömu samtök hafa prófað lengri tíma og telja áhættusöm kaup (en þó ekki þau verstu) bera 19 bandarísk tegundarheiti en einn er evrópskur.
 • Opel Vectra GTS V8 er nýr keppnisbíll sem Opel Motorsport hefur verið að prófa undanfarnar vikur á Colmar-kappakstursbrautinni í Frakklandi. Bíllinn, sem er með 476 ha V8-vél, er sagður firna öflugur en Opel Motorsport mun gera hann út í þýska DTM-kappakstrinum (Deutsche Touringwagen-Masters) þar sem keppt er á stærri fólksbílum.
 • Nýleg kaup Daimler-Chrysler á 34% hlut í Mitsubishi hafa vakið athygli og sýnist sitt hverjum. Tilgangurinn með því að kaupa sig inn í MMC, sem átt hefur í vök að verjast í langan tíma en Þykir vera að rétta úr kútnum, segja talsmenn D-C að muni auðvelda sölu Daimler-Chrysler-bíla í Japan og víðar í Asíu. Samstarf Chrysler og Mitsubishi er engin nýbóla en Mitsubishi í Bandaríkjunum framleiðir t.d. Chrysler Sebring og Dodge Stratus fyrir Daimler-Chrysler.
 • Á meðal þess sem talið er renna stoðum undir batnandi hag Mitsubishi eru gríðarlega góðar viðtökur sem nýi jepplingurinn Outlander hefur fengið í Bandaríkjunum, Kanada og í Ástralíu. MMC Outlander með stærri 4ra sílindra vélinni og tölvustýrðri sjálfskiptingu, sem jafnframt má handskipta, hefur verið hrósað af bandarískum bílaprófurum fyrir frábæra hönnun og tækni. (Sjá einnig Bílaprófun Leós og grein um MMC Outlander).
 • Árlega eru flutt inn rúmlega 2000 tonn af dekkjum fyrir bíla og önnur fartæki. Margir framleiðendur bíldekkja nota sérstaka olíu við framleiðslu dekkjanna, sk, ,,Hi-aromatic oil" eða HA-olíu og í sumum óvandaðri dekkjum getur magn hennar verið einn lítri á dekk. HA-olían er hættulegt efni og umhverfisskaðvaldur, sérstaklega þegar hún er í negldum dekkjum. Svíar, m.a. hafa gefið út lista yfir dekk og dekkjaframleiðendur sem ekki nota HA-olíu. (frekari upplýsingar má nálgast á vefsíðu verkefnahópsins GRÖNKEMI á vegum háskólans í Gautaborg).