L.M.J- Fræðsluefni

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Slysahætta!
Hættulegar bílrúður og ófullnægjandi ísetning.

Í bílum er tvenns konar rúðugler. Hliðarrúður eru úr einföldu hertu gleri; sterku gleri sem brotnar í mulning við högg (perlugler). Mulningurinn kemur í veg fyrir að glerið skeri fólk. Í framrúðum og flestum afturrúðum er hins vegar samlokugler; tvær glerplötur og á milli þeirra er glær plastfilma sem límir þær saman; svonefnt öryggisgler. Auk þess að veita útsýn gegnir öryggisglerið tvenns konar hlutverki sem öryggisbúnaður; annars vegar ver fram- og afturrúða bílstjóra og farþega gegn utanaðkomandi hlutum og hins vegar varnar framrúðan því að fólk fari út í gegn um hana við árekstur og slasist meira en ella. Því gefur augaleið að framrúða þarf ekki einungis að þola gríðarlegt högg heldur þarf hún að vera rígföst og þétt í falsinu. Styrkur samlokuglers þarf að standast ákveðna staðla, - samlímingin þarf að vera þannig að ákveðin eftirgjöf sé í rúðunni án þess að gat myndist og um leið hætta af beittum glerbrotum.

Hluti af burðarbúri
Glerfletir bíla hafa stækkað með árunum. Flestir fólksbílar eru með sjálfberandi yfirvagn; burðarbúr með hluta styrksins í gleri sem límt er í föls. Rétt og fullnægjandi ísetning fram- og afturrúðu skiptir því engu minna máli en gæði og styrkur rúðunnar sjálfrar. Til að stór glerflötur megni að verja fólk fyrir áverkum, t.d. við árekstur eða veltu, þarf rúðan að vera nægilega föst í falsinu. Við ísetningu og límingu þarf sérþekkingu enda þarf líming rúðunnar að þola gríðarlegt álag.

Án framrúðu eru loftpúðar gagnslausir
Fáir efast um gildi loftpúða sem slysavarnar. En skyldu margir vita að framrúðan ræður gildi loftpúðans farþegamegin? Bílstjórameginn sprettur púðinn út úr stýrismiðjunni og styðst við stýrishólkinn. Púðinn farþegamegin sprettur hins vegar lóðrétt upp og styðst við framrúðuna þegar hann blæs upp og að farþeganum. Eftir aðstæðum getur krafturinn í púðanum valdið sprungum í framrúðu. Sé rúðan ekki nægilega föst í falsinu (límingin) og losnar við þrýstinginn frá púðanum veitir loftpúðinn enga vörn. Af því leiðir að hlutverk framrúðunnar sem öryggistækis er miklu meira en margir virðast gera sér grein fyrir.

Gæði bílrúðu skipta miklu máli
Á einfaldasta hátt má segja að gæði framrúðu ráðist af fjórum meginþáttum; yfirborðshörku glersins, gæðum samlímingarinnar, formi rúðunnar og gæðum límflatarins. Framleiðendur bíla gera mismunandi miklar kröfur um yfirborðshörku samkvæmt staðli. Því harðara sem yfirborðið er því minna rýrnar gegnumsýn vegna áreitis (af sandblæstri og/eða steinkasti). Léleg samlíming getur myndað spéspeglun og rýrt gegnumsýn. Rétt form, þ.e. rúða sem passar í bíl, fellur jafnt í falsið allan hringinn. Jafnvel sterkasta lím í heimi getur ekki fest rúðu nægjanlega sitji hún ekki rétt í falsinu - þ.e. sé hún ekki af nákvæmlega réttri lögun. Taumur úr keramísku efni sem myndar límflöt á jaðri rúðunnar þarf að uppfylla kröfur gæðastaðals; - viðloðun keramiksins og rúðu ræður álagsþoli límingarinnar.
Á markaðnum hérlendis eru kínverskar rúður af viðunandi gæðum. En hér eru einnig seldar kínverskar bílrúður sem ekki standast nein gæðapróf. Þær eru mjög ódýrar og mjög hættulegar. Tryggingafélög, sem greiða kostnað við flest framrúðuskipti, eða Umferðarstofa, ættu að taka upp tæknilegt gæðaeftirlit með framrúðum sem öryggisbúnaði (bólar ekki á slíku eftirliti núna 2009 þótt oft hafi verið bent á þessa hættu, m.a. með þessari grein sem skrifuð var 2006).
Þeir sem þekkja til í Kína vita að kínverskur framleiðandi límir hvaða vottunarmiða sem honum hentar á þá vöru sem hann selur, sé þess krafist . Hann heldur sínu striki þar til seint um síðir að svo ólíklega vildi til að opinber eftirlitsstofnun tæki kærumál á hendur honum til meðferðar - og hann kippir sér ekki upp við lítilfjörlega sekt. Því þarf eftirlit þrátt fyrir vottunarmiða.
Láttu ekki tryggingafélögin velja rúðu fyrir þig
Því miður er slysavarnarþátturinn í rekstri íslensku tryggingafélaganna 30 árum á eftir tímanum (ég þekki það af eigin raun eftir að hafa kynnst forvarnarstarfi sænska tryggingafélagsins Folksam fyrir 1970). Mér er nær að halda að það eina sem tryggingafélag semji um við rúðuísetningarþjónustu sé verð, a.m.k. er mér ekki kunnugt um að nokkurt tryggingafélag hafi á sínum snærum bíltæknimenntað fólk sem geti haft eftirlit með gæðum rúðuísetninga - eða bílaviðgerða yfirleitt. Sá sem flytur inn kínverskar draslrúður, sem kosta innan við 3000 kr. stykkið, er því eðlilega sá sem tryggingafélagið hefur áhuga á að skipta við - því það er einungis að hugsa um eigin hag í krónum en ekki þitt öryggi eða annarra í umferðinni (nýlegt dæmi er misnotkun glæpamanna á bótasjóði Sjóvár-Almennra). En þú getur gert kröfur: Framleiðendur bíla gefa upp hvaða rúðuframleiðendur þeir viðurkenna - þær upplýsingar eru meira að segja í handbókum margra bíla. Framleiðandi og staðalkröfur eru því þekktar og þú þarft ekki að láta bjóða þér ódýrt hættulegt drasl. Nú er ekki von að bíleigandi eigi hægt um vik að hafa eftirlit með því að rúðan, sem hann fær fyrir iðgjaldið og sjálfsábyrgðina (6 - 10 þús. kr. er algengast), sé óaðfinnanleg. En það er til ráð við því. Bíleigandinn ræður við hvern hann skiptir. Bíleigandi eða umráðamaður velur verkstæði sem er sérhæft í bílrúðuþjónustu, fær beiðni hjá viðkomandi tryggingafélagi stílaða á verkstæðið og óskar sérstaklega eftir því að í bílinn sé sett rúða sem viðkomandi bílaframleiðandi viðurkennir (viðkomandi bílaumboð getur oft gefið upplýsingar um það). Ábyrgð á rúðu og ísetningu er vissulega kostur þótt allir viti að sá sem veitir ábyrgð getur hafa skip um kennitölu þegar á ábyrgðina reynir. Orðstír viðkomandi fyrirtækis - orðstír sem það hefur aflað sér með góðri þjónustu á löngum tíma skiptir mestu máli.

Dýrar skemmdir
Það þarf ekki kínverska illa smíðaða og illa passandi framrúðu til að valda þér tjóni. Því miður er frágangur á sumum framrúðum svo lélegur frá hendi bílaframleiðenda (efnissparnaður) að farið er að leka með þeim inn í bílinn eftir tiltölulega skamman tíma. Vatnið fer niður með hvalbaknum að innanverðu, mettar hljóðeinangrunina, sem ýmist er úr svampi eða flóka, og sígur svo niður á gólfið og gegnbleytir botnlag gólfteppisins sem ýmist er úr flóka eða svampi. Það segir sig sjálft að innilokaður raki við gólf getur valdið gríðarlegum skemmdum á bíl. Oft eru fyrstu merkin um bleytu í gólfi og leka með framrúðu meiri móða innan á rúðum en var í bílnum upphaflega. Á ákveðnu stigi getur rakamettun inni í bílnum og frost utan hans valdið því að afturrúðan brotnar vegna spennukrafta sem myndast þegar hitarinn í henni nær ákveðnu hitastigi. Þær orsakir hafa vafist fyrir sumum - en í yfirgnæfandi meirihluta tilvika er ástæðan óþétt framrúða og vatnsmettuð gólfteppi.


Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar