Eitt og annað um fólksbíladekk

Þegar Bretar, Þjóðverjar, Danir, Frakkar o.fl. tala um vetrardekk eiga þeir ekki við sams konar dekk og nefnast vetrar- eða snjódekk í Skandinavíu. Í eystri og nyrðri hlutum Svíþjóðar og Noregs og í Finnlandi er svipuð vetrarfærð og á Norðurlandi. Í Kaupamannahöfn er sjaldan nokkur snjór að vetri til frekar en en núorðið í Reykjavík - en þar er heldur engin Hellisheiði. Í þessum fyrstnefndu löndum eru vetrardekk fyrst og fremst hönnuð til að tryggja jafn gott veggrip, á auðu eða blautu malbiki við hitastig undir 7 °C, og sumardekk gera við hærra hitastig. Munstur þeirra vetrardekkja er verulega frábrugðið munstri snjódekkja, er mun nær því sem við og Bandaríkjamenn myndum kalla heilsársdekk en við eigum það sameiginlegt með Bandaríkjamönnum að ökuhraði er minni en í flestum Evrópulöndum. Heilsársdekk er að mestu leyti hætt að nota þar sem skiptast á vetur og sumar. Reynslan hefur sýnt að á því eru tæknileg takmörk að tryggja veggrip sama dekks á auðum vegi annars vegar í köldu loftslagi og heitu og þeir tæknilegu annmarkar stytta endingu slíkra dekkja verulega. Þess vegna er hagkvæmast, t.d. við okkar aðstæður að nota sjódekk eða vetrardekk að vetri, eftir því hvar maðu rbýr á landinu, en sumardekk hinn hluta ársins.
Við Íslendingar erum allir sérfræðingar í öllu - okkar mottó er „það sem ég þekki ekki - það þarf ég ekki’’ - þess vegna þýðir ekkert að bjóða dekkjasölum upp á ráðgjöf um val á dekkjum - þeir vita allt sem þarf að vita. Afleiðingin er sú að ruglað er saman tveimur ólíkum gerðum dekkja, sett samasem-merki á milli vetrardekkja og snjódekkja - sem eru tvö ólík dekk. Afleiðingin af þessu rugli er svo sú að hér á Suðvesturhorninu er verið að selja fólki snjódekk í stórum stíl í stað vetrardekkja. Þetta skapar hættu í umferðinni vegna þess að snjódekk eru ekki gerð fyrir þann gríðarlega vatnsaga sem hér er á vetrum í stað snævar - bílar á snjódekkjum, negldum eða ónegldum, fljóta því upp í mesta vatnsaganum og verða gjörsamlega stjórnlausir, jafnvel þótt snjódekkin séu ný. Vetrardekk, t.d. Michelin Alpin, eru með sérstakar vatnsfráveituraufar til að varna því að bíll fljóti upp á blautum vegi. Þeir sem lenda í þessu vandamáli (og sleppa vonandi án þess að valda slysi á sjálfum sér eða öðrum) geta sjálfum sér (og hugsanlega dekkjasalanum) um kennt; þeir völdu snjódekk þegar rétt val hefði verið vetrardekk.

Margir myndu verða undrandi ef þeir sæu prófanir sem sýna mun á veggripi sumardekks annars vegar við 20 °C og hins vegar við 5 °C. Áhrif lækkandi hitastigs á veggrip sumardekkja eru veruleg strax undir 7°C, sérstaklega í bleytu og þarf ekki frost til. Þetta atriði er næstum því aldrei minnst á af "séfræðingum'' í umferðaröryggi hérlendis, því þeir kunna ekki muninn á vetrardekkjum og snjódekkjum, þótt þýðing þess sé ótvíræð og komi t.d. oft fram í sambandi við Formúlu 1-keppnina þar sem stór hluti af dæminu snýst um dekkjatækni og þurrum og blautri braut.

Annað atriði sem sjaldan er minnst á í sambandi við dekk, fyrir utan að þau eru mikilvægasta öryggistæki bíls, er að dekk frá Michelin og Bridgestone, svo tveir þekktir framleiðendur gæðadekkja seú nefndir af mörgum, sem koma undir nýjum fólksbílum eru yfirleitt sérstaklega framleidd fyrir viðkomandi bílaframleiðanda með hraðakóða sem gerir sóla þeirra klístraðri til að gefa viðkomandi bíl sem mestan stöðugleika í höndum nýs eigenda (auk þess sem bílaframleiðandinn sparar sér eitthvað með ódýrari dekkjum og lakari að gæðum. Því hefur það komið mörgum á óvart að slík dekk dekk endast jafnvel einungis helming á við það sem dekk á eftirmarkaði frá sama framleiðanda, og af sömu gerð, gera.

Ég get nefnt tvenns konar dekk þessu til sönnunar: Annars vegar Michelin Energi sem hafa verið undir nýjum Citroën-bílum og Bridgestone B390 sem hafa verið undir nýjum Ford Focus. Þetta eru dekk sem eru komin niður í slitmörk munsturs strax við 18-20 þús. km. akstur, þ.e. þau endast mjög illa. Sama gildir um ýmis önnur þekkt dekkjamerki undir öðrum nýjum bílum. Þetta er eins og margt annað sem erfitt er að skilja í sambandi við bílaframleiðslu - auðvitað er þetta vond auglýsing fyrir viðkomandi dekkjategund en það virðist ekki skipta dekkja- og bílaframleiðandurna jafn miklu máli og skjóttekinn gróði.

Af þessum ástæðum endirst Michelin Energi, sem kemur undir nýjum Citroën C4 einungis árið en Michelin Energi, sem keypt er af Ísdekki/N1 endist jafnvel 50 þúsund km. Dekkin nefnast Energi vegna þess að bygging þeirra á að minnka eldsneytisnotkun bíls um allt að 5%. Sölumenn nýrra Michelin-dekkja eru ekki öfundsverðir af þessum ástæðum.

Vetrardekk: Sem dæmi um áðurnefnd sérstök vetrardekk, eins og notuð eru t.d. í Danmörku, má nefna Michelin Alpin, örskorið dekk með tveimur djúpum vatnsraufum á miðjum sólanum og skásettum raufum sem veita vatninu frá miðraufunum og út af hliðunum. Michelin Alpin er kjörið sem vetrardekk hér á höfuðborgarsvæðinu þurfi maður ekki daglega yfir Hellisheiði (því það er ekki snjódekk) og dugar vel í hálku án nagla, enda ekki gert ráð fyrir að það sé neglt. Michelin Alpin er hins vegar alls ekki ætlað til notkunar að sumri til heldur er gert ræað fyrir að því sé skipt fyrir sumardekk snemma vors. Þú getur reiknað með um 50 þús. km endingu að 3mm munsturdýpt sé Michelin Alpin notað á þennan hátt. Ódýrari dekk sem geta enst svipað eru ónegld Cooper snjódekk. Cooper snjódekk halda hins vegar illa nöglum og þegar þeir losna fara þeir illa með munstrið sem slitnar fyrr en ella.

Nokian Hakkapellitta eru dýr snjódekk en með nöglum sem tolla í þeim og með frábært snjógrip . Ég hef notað þau undir Mazda 626 (sem ég á ekki lengur) en veit að þau eru komin undir 3. veturinn og ekki sjáanlegt neitt slit á þeim og hver einasti nagli á sínum stað. Þessi finnsku snjódekk eru einhver þau albestu sem ég hef notað og einu snjódekkin sem ég man eftir í svipinn sem hafa bætt aksturseiginleika bíls miðað við Mastercraft sumardekk sem ekki entust sérlega vel.

Harðkornadekk (Green Diamond) eru sóluð vetrardekk, þ.e. notaðir belgir sem eru með endurnýjuðum sóla sem blandað er í sérstökum rifefnum (harðkornum). Fyrir þá sem eru sérstaklega umhverfismeðvitaðir má nefna að endurvinnsla dekkja með sólun sparar olíu og minnkar þannig mengun en samkvæmt upplýsingum á vefsíðu sænska framleiðandans Green Diamond AB fara að meðaltali 29 lítrar af olíu í framleiðslu á hverjum belg fólksbíladekks - þannig að hver gangur af endursóluðum dekkjum sparar um 130 lítra af olíu. Á vefsíðu íslenska framleiðandans, sem er Nýiðn ehf, vekur það sérstaka athygli að þess er hvergi getið að Green Diamond-harðkornadekk séu notuð endursóluð dekk!

Verð dekkja speglar ekki endilega gæði. Því léttari sem bíll er því betur geta ódýrari dekk komið út. Ég hef t.d. mjög góða reynslu af Kumho og Marshal- dekkjum frá S-Kóreu undir Daihatsu og Renault Clio, t.d. má geta þess að Kumho-sumardekk entust tvöfalt á við miklu dýrari GoodYear og General sporbíladekk.

Bygging dekkja hefur breyst á sl. 15 árum - núna eru dekk t.d. gerð fyrir meiri þrýsting sem eykur veggrip, öryggi í akstri og endingu dekkjanna. Fólk hefur ef til vill ekki tekið eftir því fyrr en það er minnt á það að ef hugsað er um dekkin, passað upp á þrýsting, sem nú er yfirleitt ekki undir 30 pundum (psi), heyra "punkteringar'', eins og þeir segja á Akureyri, nánast sögunni til. Einstaka hefur samt ekki áttað sig á því að eðlilegur þrýstingur í dekkjum hefur aukist um allt að 10 pundum (psi).

Sjá má á dekki hvort þrýstingur er eðlilegur, of mikill eða of lítill: Slitni munstrið á miðjum sólanum er þrýstingur of mikill en slitni munstrið á jöðrunum er þrýstingurinn og lítill.

Einnig má sjá á sliti dekkja hvort millibil framhjóla er rétt, of lítið eða of mikið: Slitni dekkin á ytri jöðrunum er millibilið að framan of lítið (innskeifur) en slitni dekkin á innri jöðrunum er millibilið að fram of mikið (útskeifur) - því dekk slitnar á þeim jaðrinum sem það ryður á undan sér.

Um jeppadekk

Aftur á aðalsíðu