Flugsafn Íslands á Akureyri

eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing

 

Flugsafn Íslands: Pitts Special listflugvél Arngríms B. Jóhannssonar skömmu eftir að hún hafði verið sett saman og skráð (TF-ABJ) 1995. Óhapp í aðflugi að Akureyrarflugvelli 3. júlí 2002 varð til þess að vélin skemmdist mikið. Flugmaðurinn fór hins vegar fótgangandi af slysstað. Um hönnun og sögu Pitts tvíþekjunnar, sem skoða má á Flugsafninu, geta áhugasamir lesið á Vefsíðu Leós (undir FLUG).

Flugsafn Íslands á Akureyrarflugvelli, sem er 10 ára um þessar mundir (ágúst 2009), hefur tekið í notkun nýtt og glæsilegt 2200 fermetra sýningarhús. Við enda hússins stendur hluti af gamalli Douglas DC6A (Sexu) sem mun verða nýttur í þágu safnsins. Innanhúss er fjölbreytt safn flugvéla, flugmuna og ýmissa gripa sem tengjast flugi. Stærstu sýningargripirnir eru Fokker F27 og TF-SIF, Aerospatiale Daupin II -þyrla Gæslunnar (sú sem lenti í sjónum í Skerjafirði) og framendi fyrstu farþegaþotu landsmanna, Gullfaxa (Boeing 727) með flugstjórnarklefanum eins og hann var yfirgefinn eftir síðustu lendingu.
Ekki er nokkur vafi á því að Flugsafnið mun eiga eftir að auka viðsældir Akureyrar sem ferðamannastaðar. Safnið hefur menningarsögulegt gildi fyrir landsmenn alla. Flugvélarnar, sem þegar eru til sýnis, eru fulltrúar mikilvægra þátta í samgöngu- og atvinnusögu landsins. Tveggja hreyfla Beechcraft C-45H segir af farþegaflugi eftir að það var orðinn fastur liður í samgöngum (tæknilega merkileg flugvél með talsverða sögu, m.a. var smurolían að hreyflunum kæld í spírallögnum innan í bensíngeymunum). Landhelgisgæsla og björgunarflug eiga sína fulltrúa, millilandaflugið, bæði fyrir og eftir þotuöld. Fulltrúi fyrstu ára sjúkraflugs er sérkennileg einshreyfils-vél af gerðinni Auster. Ég man eftir Birni Pálssyni þegar hann, í VÍR-úlpunni, eins og gærufóðruðu úlpurnar frá Vinnufatagerðinni nefndust, var að ýta þessari vél út úr Þyts-skýlinu einhvern tíma upp úr 1950 (gott ef hann hafði ekki notað KZ-vél fram að því. Í þessu sama flugskýli, en það stóð þar sem Landhelgisgæslan fékk síðar aðstöðu, voru ýmsar merkilegar flugvélar, gott ef sú Stinson Reliant, sem nú er á Flugsafninu, var ekki með heimilisfesti í því skýli og mun ásamt ljóta andarunganum DeHaviland hafa verið notuð til að leita uppi síldargöngur fyrir Norðurlandi. Þarna í skýlinu forðum í Skerjafirðinum voru geymdar ýmsar fleiri vélar sem vöktu athygli okkar strákanna sem vöppuðum þar um (án þess að amast væri við okkur). Nefni Stinson Voyager sem Flugskólinn Þytur átti þá og flottustu sportvélina Miles Magister. Mér kom skemmtilega á óvart aðð rekast á gamlan kunningja á Flugsafninu, sportvél, eins og minni einkaflugvélar nefndust hér áður fyrr, af gerðinni Ercoupe 415C og sýnist mér það vera sama vélin og lengi var í notkun í Reykjavík. Þegar ég var í þeim merkilega félagsskap sem nefndist Flugmódelklúbburinn á 6. áratugnum, en hann hafði aðstöðu í litlu húsi í eigu Sælgætisgerðarinnar Freyju á Lindargötu (og starfaði undir verndarvæng Ólafs Magnússonar, sonar Magnúsar í Freyju en Ólafur varð seinna þekktur sem Óli í nærbuxnagerðinni (rak fyrirtæki sem framleiddi Artemis-kvenundirföt af miklum myndarskap). Flugmódelklúbburinn var tengdur þeim Filipusarbræðrum sem ráku Flugmó og Tómstundahúsið. Ég smíðaði módel af Aercoupe 415C sem var með 160 sm vænghafi og var á meðal fyrstu radíóstýrðra flugmódela á þeirri tíð (ég þurfti að fá sérstakt leyfi og skriflega undanþágu frá Landsímanum til að mega nota lampana í fjarstýringuna - en hana smíðaði maður líka).

Of langt mál yrði að telja upp allt sem áhugavert er á Flugsafninu. Sjón er sögu ríkari. Ég mæli eindregið með því að þeir sem fara um Akureyri láti ekki undir höfuð leggjst að heimsækja þetta vandaða og merkilega flugsögusafn. Ekki sakar að geta þess að aðgangseyri er mjög í hóf stillt (500 kr. sumarið 2009). Safnstjóri er Gestur Einar Jónasson.

Arngrímur heldur hér á þriggja blaða skrúfu úr tré sem hann prófaði en hún er með föstum skurði. Málmskrúfan á Pitts Special er hins vegar með stillanlegum skurði.

 

 

Aftur á aðalsíðu

Vefsíða Flugsafnsins