Neðanmáls úr sögu bílsins

Í hinum ýmsu ritum, sem segja sögu evrópskra bílaframleiðenda og eru gefin út af þeim sjálfum, er stundum farið frjálslega með staðreyndir. Athygli hefur t.d. vakið að stundum er engu líkara en að bandarískur bílaiðnaður sé ekki til, eða álitinn svo frumstææður og lítilsgildur að ekki taki því að minnast á hann, hvað þá að geta þess að þangað hafi verið sóttar ýmsar hugmyndir og tækni en fordómar (eða minnimáttarkennd) gagnvart bandarískri tækni eru merkjanlegir i fjölmiðlum helstu evrópskra iðnaðarþjóða og kunna að eiga rætur sínar að rekja til síðari heimstyrjaldarinnar (sjá grein um skriðdreka). Hér eru nokkrar rósir sem sjá má í ritum útgefnum af evrópskum bílaframleiðendum, nokkur skondin mál og almennur fróðleikur:

Fyrsti rýmisbíllinn

,,Space Van", ,,Mini Van" og ,,Multi Purpose Vehicle" eru hugtök sem flestir kannast við sem fylgjast með á bílasviði - nefnist nú rýmisbíll á íslensku. Í tímaritum hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar verið fullyrt að fyrsti rýmisbíllinn, sem hafi komist á framleiðslustig, hafi verið Renault Espace (1985) og í kjölfar hans hafi komið bílar á borð við Chrysler Voyager, GM Astro, Ford Aerostar, Toyota Previa o.fl. Renault Espace er frábrugðinn öðrum bílum svipaðrar gerðar að því leyti að yfirbygging hans er úr trefjaplasti. En Espace var ekki fyrsti rýmisbíllinn, þótt hann væri sá fyrsti sem yrði fjöldaframleiddur, heldur bandarískur bíll sem var framleiddur fyrst árið 1935, þá með yfirbyggingu úr stáli en síðar, 1945, endurbættur og þá með yfirbyggingu úr trefjaplasti. Af þeim fyrsta munu hafa verið framleidd 9 eintök en einungis eitt af þeim seinni.

Þessi bíll nefndist Scarab (nokkur eintök eru enn til) og er hann talinn merkileg iðnhönnun. Scarab var 7 sæta og stólarnir þannig að þeim mátti snúa, færa til eða taka úr og slá upp borði í staðinn. Innanrýmið var meira en í nokkrum öðrum bíl af sambærilegri stærð á þessum tíma enda var Scarab í laginu eins og láréttur regndropi. Vélin (Ford V8-flathedd) var aftast í bílnum. Grindin var úr rörum úr léttu sterku stáli eins og notað var í flugvélaskrokka; sjálfstæð fjöðrun á hverju hjóli og demparar stillanlegir eftir hleðslu bílsins.Annar höfundanna var William Bushell Stout, þekktur flugvélatæknifræðingur, sem lést 76 ára 1956, og var brautryðjandi í hönnun flugvéla að öllu leyti úr málmi. Fyrirtæki hans framleiddi fyrstu bandarísku lágþekjuna og um tíma var hann talinn mestur uppfinningamaður í Bandaríkjunum á eftir Edison. Hinn höfundurinn var John Tjaarda, þekktur vélatæknifræðingur og mun hann hafa átt upphaflegu hugmyndina að lagi bílsins og gerð (John þessi Tjaarda er þó þekktari sem hönnuður Lincoln Zephyr V12 1936 en þann bíl hannaði hann að frumkvæði sonar Henry Ford I, Edsel Ford sem stjórnaði hönnunardeild Ford á 6. og 7. áratugnum en hann er sjálfur höfundur frægra bíla á borð við Lincoln Continental 1949 og síðar sem þykir með fallegustu bílum síns tíma..

Stout Scarab var fyrsti rýmisbíllinn 1935

William Stout vann hönnunarstörf fyrir ýmsa framleiðendur, hannaði m.a. flugvélar fyrir Ford og hann stofnaði og rak, ásamt Henry Ford I, fyrsta bandaríska flugfélagið sem flaug samkvæmt fastri áætlun (Stout Air Service). Scarab var ekki fyrsti bíllinn sem Stout átti þátt í því hann hafði smíðað bíl árið 1931 sem vakið hafði óskipta athygli, m.a. vegna þess að hann var grindarlaus og án framhásingar.

,,Den Svenska Fartpiloten"

Spaugilegt dæmi um hvernig snöggsoðnir markaðssérfræðingar bílaframleiðanda tala til kaupenda eins og væru bjálfar er frá 1994. Þá hugkvæmdist snillingum hjá Volvo að bjóða dýrustu gerðir bíla sinna á heimamarkaði með sjálfvirkum hraðastilli (Cruise Control). Þeir auglýstu búnaðinn með miklum fyrirgangi í Svíþjóð og gáfu í skyn að hann væri sænsk uppfinning - nánast bylting og nefndu ,,Fartpiloten från Volvo". (Bara þetta skemmtilega sænska orð ,,Fart-pilot" fær venjulegan Breta til að skella uppúr því merking þess á ensku er þrælskondin). Þess var auðvitað hvergi getið að sami búnaður hefði þá verið fáanlegur í 3 áratugi í ódýrum bandarískum bílum fyrir tíunda hluta þess verðs sem herra Svenson þurfti að borga fyrir ,,tækniundrið". Gárungar hafa haldið því fram að markaðsérfræðingar Volvo hafi einfaldlega ekki vitað betur ......

Fyrsti hlerabíllinn (Hatchback)

Í einu tölublaða breska bílatímaritsins Car frá fyrri öld er farið frjálslega með staðreyndir þegar fullyrt er að Renault 16, sem var frumsýndur 1965, hafi verið fyrsti hlerabíllinn (á ensku hatchback); - hagkvæm blanda af fólksbíl og óðalsvagni (station). Renault 16 markaði tímamót í þróun bílsins enda fyrsti hlerabíllinn og hafði náð umtalsverðri sölu löngu áður en keppinautar kveiktu á perunni. Hins vegar var hann ekki fyrsti bíllinn þessarar gerðar, þ.e. fólksbíll með opnanalega afturrúðu. Sú hönnun var þekkt löngu áður. Árið 1949 var 2ja dyra Kaiser fólksbíll (myndin lengst til vinstri) fáanlegur með tvöföldum afturhlera, þ.e. skottloki sem opnaðist út

og niður og afturrúðu sem opnaðist upp. Sú gerð nefndist ,,Twin Hatch Traveler Utility Sedan". Frazer bauð einnig upp á svipaða útfærslu. Ef þú vilt fræðast frekar um Kaiser, sem var merkilegur bíll þá er grein um hann á þessari vefsíðu (Smelltu hér).

Og að Kaiser nefndum má nefna eina af ,,rósunum", sem minnst er á í inngangi þessarar greinar. Porsche í Stuttgart gefur út glæsilegt tímarit á ensku sem nefnist Christophorus. Í kynningarkálfi um Puerto Rico, sem unnin er af Markaðs- og kynningardeild Porsche og felldur inn í miðju 283. tölublaðs mars/apríl 2000, má lesa eftirfarandi ,,gullmola" neðst í miðdálki og efst í þeim hægri á fimmtu síðu: ,,... and started out with the make Kaiser Fraiser (Sic), an English car that is practically unknown today." Bílaframleiðandi sem nær árangri með kynningardeild sem býr að svo ,,yfirgripsmikilli vanþekkingu" hlýtur að eiga mikla ónýtta möguleika á markaðnum?

Frumkvöðull ,,turbóvæðingarinnar"

Bílar með forþjöppu, sem knúin er með pústþrýstingi, þ.e. afgasþjöppu, voru algengir á 3. og 4. áratugi 20. aldar. Á 7. áratugnum hófst nýtt þróunarskeið afgasþjöppunnar og þegar það stóð sem hæst mátti heita að allir hlutir væru ,,turbo" þetta eða ,,turbo" hitt. Líklega dettur flestum í hug Saab í þessu sambandi því það hefur lagt mikla áherslu á það hlutverk sitt að framleiða fólksbíla með afgasþjöppu (turbo) og er ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar hefur auglýsingadeild Saab gengið of langt og fullyrt að Saab hafi verið fyrstur bílaframleiðenda til að þróa afgasþjöppuvél fyrir fólksbíla. Í fallegri og skemmtilegri bók, sem Saab-Scania gaf út 1987, er saga fyrirtækisins rakin í máli og myndum. Þar kemur áðurnefnd fullyrðing fram í texta undir mynd á bls. 129. Þar stendur m.a. ,,Afgasþjappan var fundin upp þegar árið 1905 en Saab-Scania var fyrsti bílaframleiðandinn til þess að þróa hana fyrir fólksbíla."

Fyrsti Saab Turbo var af gerðinni 99 af árgerð 1977. Deila má um hvaða bílaframleiðandi hafi fyrstur þróað afgasþjöppuvélina fyrir fólksbíl. Svo mikið er þó víst að það var ekki Saab. Um 16 árum áður en fyrsti Saab Turbo var frumsýndur fjöldaframleiddi General Motors í Bandaríkjunum bíl með þessum búnaði. Það var sportútgáfa af Chevrolet Corvair, 150 ha Monza Spyder af árgerð 1961/62 - merkilegur bíll með loftkælda aftaní-vél (undirritaður átti, á sínum tíma, 10 Corvair af ýmsum árgerðum og gerðum - frá toppeintökum til partabíla). Tæknileg lýsing á því hvers vegna afgasþjappa virkar og fleira um bíltækni er í sérstakri grein á vefsíðunni. (Smelltu hér).

Chevrolet Corvair Monza Spyder var síðast framleiddur sem árgerð 1969 þá með 180 ha túrbó-vél. Mitsubishi í Japan hefur, síðan snemma á 9. áratugnum, framleitt fleiri fólksbíla með afgasþjöppu-vél en Saab - reyndar fleiri en allir aðrir framleiðendur samanlagt á öldinni sem leið. Myndin til hægri sýnir árgerð 1964 af Monza Spyder en hann var með 150 ha turbo-vél og 4ra gíra beinskiptum kassa. Til þess að bæta aksturseiginleika og öryggi hafði GM bætt þverfjöður við að aftan auk gormafjöðrunarinnar. Aksturseiginleikar þessa bíls voru betri og skemmtilegri en nokkurs annars bandarísks bíls á sambærilegu verði. 1965 kom nýr og breyttur Corvair, m.a. með sama afturhjólastell og í Chevrolet Corvette. Sá bíll var framleiddur síðast af árgerð 1969. Undirritaður átti og notaði Corvair af árgerð 1969 í mörg ár (sá bíll er enn til og í notkun) og getur staðfest að jafn skemmtilegur og hagkvæmur bíll var vandfundinn á þeim tíma.

Fyrstur með radíaldekk ?

Á fleiri en einum stað má lesa um það á prenti að Citroën Traction Avant, sem kom á markaðinn 1934, hafi verið fyrsti bíllinn með radíaldekk. Ástæða þeirrar fullyrðingar, sem er röng, er sú að Michelin fann upp, þróaði og framleiddi fyrsta radíaldekkið upp úr 1930 og átti jafnframt meirihlutann í Citroën nokkrum árum seinna. Í fyrstu voru bílaframleiðendur ekkert upprifnir yfir radíaldekkinu - þótt það þyldi meiri hraða og væri sterkara gerði það bíla harðari á fjöðrunum og hentaði því misjafnlega í fyrstu enda voru þá engir ,,átóbanar" til í Evrópu og því takmörkuð áhersla á hraðakstursgetu. Hins vegar var fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn með radíaldekk Lancia Augusta af árgerð 1932. Um 15 þúsund Lancia Augusta voru framleiddir, flestir þeirra í Frakklandi, en bíllinn var að ýmsu leyti merkilegur: Af mörgu óvenjulegu í Lancia Augusta, sem var 4ra manna, 4ra dyra bíll af minni gerð, má taka vélina sem dæmi: Hún var mjög ,,mjó" 4ra sílindra V-vél (18°-vél) með ofanáliggjandi kambási. Þótt slagrýmið væri einungis 1194 rsm var hámarksafl vélarinnar 35 hö við 4000 sn/mín. Fjöðrun var all sérstæð; sjálfstæð með drifsköft fyrir hvort afturhjóla, vökvabremsur (þegar flestir keppinauta voru með teinabremsur) og með fríhjólun sem stjórnað var með takka í mælaborðinu. Lancia Augusta 1932 náði og gat haldið rúmlega 100 km hraða sem þótti mikið á þessum tíma - sérstaklega þar sem um lítinn bíl var að ræða.

Þá var bygging Lancia Augusta talsvert frábrugðin því sem tíðkaðist um 1930. Bíllinn var sjálfberandi (grindarlaus) og hurðirnar opnuðust út frá miðjunni. Enginn dyrastafur var á miðri hliðinni en fyrir bragðið var bíllinn mun rýmri og þægilegri. Þessa hönnun mátti sjá síðar, um 1960 m.a. í Facel Vega og Lincoln Continental.

Guli liturinn er sameiginlegt vörumerki

Skyldi það hafa vakið athygli einhverra að einkennislitur alþjóðlegu Hertz bílaleigunnar er sami guli liturinn og er á Yellow Cab leigubílunum í Bandaríkjunum? Sé svo er það ekki tilviljun því þessi tvö þjónustufyrirtæki eiga rót sína að rekja til eins og sama mannsins, John Daniel Hertz, sem hafði flust til Bandaríkjanna frá Austurríki í upphafi 20. aldar og gekk þar nánast berserksgang, enda með endemum hugmyndaríkur. Skrautlegur ferill þessa eldhuga (sem nú nefndist líklega ofvirkni) mun vera fyirmynd og kveikja skáldsagna og kvikmynda auk þess sem saga hans hefur verið gefin út á bók. J.D. Hertz þótti með fjölhæfustu mönnum og hann gat stokkið á milli mismunandi atvinnugreina og allst staðar virst vera á heimavelli. Hann hóf ferilinn í Bandaríkjunum sem íþróttafréttaritari, síðar stóð hann fyrir hnefaleikakeppnum og starfaði sem bílasali, svo fátt eitt sé nefnt.

Dag einn, árið 1910, þegar Hertz virti fyrir sér röð 10 bíla af tegundinni Thomas-Flyer, sem honum hafði ekki tekist að selja þrátt fyrir ýmsar tilraunir, datt honum í hug að leigja þá út í staðinn. En leiguskilmálarnir (lágmarksleiga 1 dagur) þóttu ekki nógu eftirsóknarverðir. Tilraunin mistókst og í stað 10 óseldra nýrra bíla stóð hann uppi með 10 notaða bíla sem enn erfiðara var að selja. Þar sem Hertz var fæddur sölumaður gafst hann ekki upp. Úr því dagsleiga gekk ekki hvers vegna ekki að reyna að leigja bílinn fyrir hverja einstaka ferð í staðinn? Hann lét mála bílana í skærgulum lit (en þá voru nánast allir bílar svartir), réð hóp stráka sem bílstjóra og sendi þá út á götur Chicago í leit að farþegum. Harkið féll strax í kramið og áður en ár var liðið hafði Hertz þurft að fjölga svo bílunum í ,,gula flotanum" að hann ákvað að framleiða þá sjálfur.

Hann stofnaði fyrirtækið Yellow Cab Manufacturing Company of Chicago - og síðan hvert fyrirtækið af öðru þar til hann stjórnaði stórveldi, samsteypu fyrirtækja sem tengdust bílum og fólksflutningum á einn eða annan hátt. Fyrstu bílaleigu heims mun Walter L. Jacobs hafa stofnað - 22 ára gamall Bandaríkjamaður. Hann hafði sparað saman nægilegt fé til að kaupa tólf svarta T-Ford-bíla, sem hann leigði út og sá sjálfur um rekstur og viðhald. 1923 voru bílar Jacobs orðnir 565 en þá keypti Hertz flota hans og fyrirtækið. Hertz stofnaði nýtt fyrirtæki, Drive-Your-Self System. Það fyrirtæki er upphafið að alþjóðlegu Hertz-bílaleigunni sem nú er ein sú stærsta í heimi. 1925 stjórnaði Hertz stórum og vaxandi flota Yellow-Cab-leigubíla, rak verksmiðju sem framleiddi leigubíla og rútur, rak Hertz-bílaleiguna með fólksbíla, sendibíla og vörubíla auk þess að reka hópferðaþjónustu. En eins og stundum vill verða með mikla framkvæmdamenn sást Hertz ekki fyrir - hann færðist of mikið í fang eða þar til hann hafði ekki lengur næga stjórn á hlutunum.

Fyrirtækin lentu í vandræðum sem leiddi til þess að General Motors keypti meirihlutann í Yellow Cab Manufacturing Company og dótturfyrirtækjum þess fyrir 16 milljónir dollara (um það leiti kostaði nýr Buick 1000 dollara). GM átti og stjórnaði Hertz-bílaleigunni þar til hún var seld 1953.

J.D. Hertz dró sig í hlé og dundaði sér við að veðja á hesta á hlaupabrautum. Ekki var hann þó dauður úr öllum æðum; tók síðar þátt í að stofna Lehman Brothers í Wall Street, sem varð í fyllingu tímans einn voldugasti verðbréfabanki veraldar. En það er önnur saga.

Fyrsti öryggisbíllinn var ekki Volvo

VW Golf með 16 ventla ,,Twin-cam-vél" var gríðarlega vinsæll bíll á 8. áratugnum. Bugatti hafði notað þessa tækni í sínum vélum 50 árum áður. Sjálfvirkt innsog, tveir yfirliggjandi kambásar og 4 ventlar á brunahólfi voru á meðal þeirra tækninýjunga sem vöktu sérstaka athygli þegar bandaríski bíllinn Stutz DV-32 var frumsýndur 1931. Auk þessa var Stutz fyrsti bíllinn með vatnslás sem flýtti hitun vélarinnar, smurolíuhitara sem virkaði sem smurolíukælir eftir að vélin hafði náð að hitna, sjálfvirka kúplingu/fríhjólun og samhæfðan 2. gír.

Stutz Motor Corporation Company of Indiana var stofnað 1911 og varð gjaldþrota 1937. Það merkilega er að gjaldþrot Stutz var ekki afleiðing Kreppunnar miklu, sem hófst í Bandaríkjunum í október 1929, stjórnendum fyrirtækisins höfðu áður orðið á mistök sem ollu því að gjaldþrot var einungis spurning um tíma.

Stutz DV-32, sem var mjög stór og glæsilegur bíll, var merkilegur fyrir fleiri sakir en vélina sem mun hafa verið langt á undan sinni samtíð. Þessi Stutz var fyrsti bíllinn sem hannaður var með aukið öryggi að markmiði. Hann var með þyngdarpunkt 15 sm lægra en aðrir bílar og því mun stöðugri á vegi, hann var með aflbremsur, þ.e. vökvabremsur með hjálparátak frá soggrein og gangbrettin voru heilsoðin á grindina sem vörn gegn hliðarhöggi.

Það öryggisatriði í Stutz sem markaði tímamót og allir bílaframleiðendur tóku síðar upp var öryggisgler í rúðum. Öryggisglerið var tveggja laga með glæra límþynnu á milli laga og þannig gert að í það mynduðust sprungur en glerið tolldi áfram saman og því minnkaði hætta á því að fólk skærist lífshættulega við árekstur. Þá vekur það athygli að á Stutz DV-32 eru hurðalamirnar að framan þannig að dyrnar opnast út að aftanverðu eins og nú tíðkast en öfugt við það sem tíðkaðist upp úr 1930.

Hvað stendur DB fyrir hjá Aston Martin?

Þeir sem hafa farið á alvöru bílasöfn erlendis, en eitt það stærsta og glæsilegasta er British National Motor Museum í Beaulieu-klaustrinu suðvestan við London, verður gjarnan starsýnt á Aston Martin sportbílana frá 1950 og síðar. Þeir eru ekki einungis fallegir heldur stærri en maður átti von á, hafi maður einungis séð þá á mynd og auk þess fer ekki á milli mála að þeir eru gríðarlega öflug tæki enda margfaldir sigurvegarar í Le Mans og fleiri alþjóðlegum kappakstri. Tegundarheitin eru m.a. DB2, DB2/4, DB4GT, DB5, DB6 og DBS. DB stendur fyrir David Brown. Já- mikið rétt það er dráttarvélaframleiðandinn David Brown. Hann hafði eignast meirihluta hlutafjárins í Aston Martin í febrúar 1947 og seinna sama ár eignaðist hann einnig ráðandi hlut í Lagonda. Bæði Aston Martin og Lagonda settu bíla sína saman í Feltham. Þeir fengu vélar og gírkassa frá verksmiðju David Brown í Farsley (skammt frá Leeds) og eflaust á það einhvern þátt í því að David Brown eignaðist meirihlutann í fyrirtækjunum. Aston Martin gekk í gegn um mismunandi alvarleg og erfið tímabil eins og aðrir breskir bílaframleiðendur uns Ford keypti það og Jaguar á 10. áratug síðustu aldar. Þau kaup munu ekki hafa reynst Ford jafn hagkvæm og ráð var fyrir gert.

Fyrstu flugmennirnir ?

Í grískri goðafræði er sagt frá listamanninum og völundinum Dedalosi frá Aþenu og syni hans Ikarusi. Dedalos settist að á eyjunni Krít og byggði þar frægt völundarhús fyrir Minos konung til að geyma ófreskjuna Minotárus. Málin æxluðust þannig að að Minos konungur lét varpa þeim feðgum í dyflissu. Snillingurinn Dedalos dó ekki ráðalaus; útbjó vængi úr fulgsfjöðrum og vaxi á sjálfan sig og soninn og með þeim flugu þeir úr dyflissunni. Þrátt fyrir aðvaranir föðursins flaug Ikarus of nærri sólinni; vaxið bráðnaði, fjaðrirnar losnuðu og féllu af og Ikarus steyptist í hafið sem síðan nefnist Ikarusarhaf.

Um 1500 reyndi rússneskur bóndi, Nikita að nafni, að fljúga með heimagerðum vængjum, sem hann spennti á bak sér. Múgur og margmenni varð vitni að því þegar hann drap sig við slíka tilraun. Hann var ekki sá síðasti sem ekkert hafði lært af sögunni um Ikarus - og það var svo sem eins gott því annars hefðu Wright-bræður ekki flogið vélknúinni flugvél í fyrsta sinn 17. desember 1903.

Leó M. Jónsson (netfang)

Aftur til aðalsíðu