Frönsk tæknisnilld:

Facel Vega

eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing.

Flestir sem inngrip hafa í bíla eiga sér draumabíl, einn eða fleiri. Í grein sem nefnist ,,Bílar sem komu á óvart" og birt er á vefsíðunni minni segi ég frá reynslu minni af því að aka nokkrum minna draumabíla en ég hef verið svo heppinn að áratuga starf mitt við bílaprófanir hefur gefið mér tækifæri til að kynnast ýmsum merkilegum bílum á ferðalögum erlendis sem fylgt hafa prófun nýrra bíla.

Sá bíll sem hér er til umfjöllunar, Facel Vega, varð þó aldrei á vegi mínum við þær aðstæður heldur hafði ég kynnst honum fyrst á námsárum í Stokkhólmi upp úr 1960 og skoðað seinna á bílasýningum í Bretlandi og Bandaríkjunum (en þennan bíl eiga jafnvel ekki stærstu bílasöfn heims). Þessi stóri, voldugi og hraðskreiði franski lúxusbíll, Facel Vega, var handsmíðaður í París á árunum 1954-'64. Afar fá eintök af Facel Vega munu vera til í heiminum og því eru þessir bílar mjög sjaldséðir - en af Facel Vega I og II, sem voru með V8-vél, munu hafa verið handsmíðuð 1178 eintök á 9 árum. Ekki er ég viss um að ljósmyndir gefi ,,rétta mynd" af Facel Vega, jafnvel þótt þær væru mjög góðar. En þegar bíllinn er skoðaður fer ekkert á milli mála að vandaðri gerist bílasmíði ekki - sérkennilegum glæsileika stafar af bílnum; hann er stílhreinn, lagið er einstaklega fallegt sem og útlitið; áberandi efnismikill, form, smíði og frágangur áberandi fallegur, t.d. er handbragðið á innréttingu og klæðningu bílsins hrein snilld. Sé til eitthvað sem nefna mætti ,,franska fágun" í handverki og tækni, og þá sem mælistiku á smekkvísi og klassík í stíl og gerð, þá er Facel Vega verðugur fulltrúi þess.

Fyrstu kynni mín af Facel Vega voru einfaldlega með þeim hætti að einn örfárra slíkra bíla, sem þá voru til í Svíþjóð, stóð daglega fyrir utan hús á Östermalm í Stokkhólmi þar sem ég fór fótgangandi til og frá járnbrautarstöð og tækniskólans 6 daga í viku um árabil. Bíllinn, sem merktur var sendiráðsstarfsmanni (CD), var Facel Vega HK 500 af árgerð 1960 og hann bar af öllum öðrum bílum í götunni sökum glæsilegs yfirbragðs.

Á árunum á milli 1960 og 1970 komu margir handsmíðaðir stórir GT-lúxusbílar á markaðinn. Flestir þeirra urðu þó skammlífir, eða réttara sagt; framleiðendum þeirra entist ekki örendið. Margir voru mjög glæsilegir svo sem ítölsku ISO og stóru Maserati-bílarnir; bresku Gordon Keeble, Jensen og Aston Martin, hinn svissneski Monteverdi og sá franski 4ra dyra Monica - sem var einstaklega fallegur bíll. Einn fárra sem enn er framleiddur er Aston Martin en Facel Vega og Monteverdi eiga það hins vegar sameiginlegt að hafa verið nálægt 10 árum við lýði - þ.e. lengur en flestir hinna. Facel Vega, Monica (sem upphaflega var bresk hönnun og nefndist Deep Sanderson) og Monteverdi áttu það sameiginlegt að vera einstaklega glæsilegir og jafnframt þeir langdýrustu í flokki ofurbíla síns tíma. Þeir þrír áttu það einnig sameiginlegt að nota Chrysler V8-vélar.

Persónuleika þarf til ...

Nördar, grútar og aðrar leiðindaskjóður; menn sneyddir tæknilegum hæfileikum, talentlausir menn og gráðugir, hugsjónalausir tækifærissinnar (mikið eða lítið menntaðir, - jafnvel mikið en illa menntaðir), hafa aldrei skapað merkilega bíla en hins vegar rutt gríðarlegu magni af drasli á fjórum hjólum á markaðinn, en sá varningur nefnist magnsölubílar,- öðru nafni vísitölutíkur. Það þarf, hins vegar, hugsjónamenn með talent , tækniþekkingu og faglega færni til að hanna, þróa og smíða bíla á borð við Bugatti, Aston Martin, Morgan, Monteverdi, Monica, BMW M1, Tucker, Cord, Porsche, Delahaye, Delage, Mercedes 300SL, Lotus Elite og Facel Vega, svo ég nefni nokkur dæmi.

Hugsjónamaðurinn á bak við Facel Vega var Jean C. Daninos (f. 2/12/1906, d. 13/11/2001). Hann var af þekktri ætt með rætur í Grikklandi, en sem búið hefur á 3ja hundrað ár í Frakklandi (yngri bróðir hans er þekktur sakamálarithöfundur, Pierre Daninos).

Jean Daninos var menntaður í vélatækni og hóf störf hjá Citroën um 1927 við útlitshönnun bíla svo sem 6CV, 15CV og fyrsta ,,Traction avant" og gegndi seinna ýmsum stöðum innan franska flugvélaiðnaðarins. Upp úr 1934 hafði hann farið til starfa í Bandaríkjunum og Kanada og vann þar við hönnun á hlutum í flugvélar. Hann stofnaði fyrirtæki til framleiðslu á flugvélahlutum í Somerset á Englandi 1938 og hafði einnig sett á laggirnar 2 verksmiðjur í París um svipað leiti en sérgrein hans var fargmótun hluta úr léttmálmum og ryðfríu stáli.

Franska fyrirtækið nefndi hann ,,Forges et Ataliers de Construction d'Eure et de Loire SA" og var það stytt í Facel. Jean Daninos var gæddur meðfæddri tæknilegri snilld og undir hans stjórn gat Facel framleitt margt, - oft tæknilega flókinn búnað, sem öðrum tókst ekki að framleiða. Þegar þýski herinn hafði lagt undir sig stóra hluta Frakklands og nálgaðist París sumarið 1940 flúði Daninos land, fyrst til Bretlands. Bretar töldu sig ekki þurfa á þekkingu hans að halda en bentu Daninos á að hún myndi nýtast best í Bandaríkjunum eða Kanada. Til Bandaríkajanna hélt hann og starfaði þar til stríðsloka sem sérfræðilegur ráðgjafi í fargmótun hluta úr áli og einnig sem sérfræðingur á sviði rafsuðu ryðfrís stáls. Á meðal þess sem Daninos þróaði í Bandaríkjunum var fyrsta sjálfvirka ísmolavélin (Cuberator).

Í París stjórnaði þýska hernámsliðið Facel sem framleiddi alls konar búnað svo sem katla sem festir voru utan á bíla og framleiddu eldsneytisgas með brennslu sags og trjáspóna, sem bíllinn notaði í stað bensíns. Undir stjórn nasistanna framleiddi Facel einnig alls konar vélahluti fyrir þýska herinn.

Boddísmíði í stórum stíl

Að stríðinu loknu hélt Daninos aftur til Parísar, tók aftur við stjórn fyrirtækis síns og hóf framleiðslu á skrifstofubúnaði úr áli og stáli, eldhúsinnréttingum úr ryðfríu stáli, hlutum í mótorhjól, gastúrbínum auk þess að framleiða boddí fyrir franska Ford (Vedette og Cométe), Delahaye, Panhard og Simca bíla. Um 1950 störfuðu 2000 manns hjá Facel sem þá rak nokkrar verksmiðjur. Um 1952 framleiddi Facel um og yfir 100 bílaboddí á dag. 1953 hætti Panhard að kaupa boddí frá Facel (en þá tók Chausson við framleiðslu Panhard boddísins sem var úr áli). Simca var áfram stærsti kaupandi sjálfberandi boddía af Facel fram til 1961 að ,,dauðastríð" þess hófst með afskiptum Chrysler.

Á millistríðsárunum, og í kreppuástandinu sem ríkti á alþjóðlegum markaði á milli 1930 og '40, dró verulega úr eftirspurn eftir stórum hraðskreiðum lúxusbílum, en þannig bíl nefna Frakkar ,,Grand Routiere" og er slíkur bíll skyldari GT-bíl en sportbíll, en þá bíla hafði ríka fólkið í Evrópu keypti og notað. (Því má skjóta hér inn í að Jean Daninos talaði aldrei um Facel Vega sem sportbíl heldur sem ,,Grand Routire" og gerði skýran greinarmun þar á). Þekkt frönsk stöðutákn og glæsivagnar höfðu horfið af sjónarsviðinu; á meðal þeirra klassískir franskir bílar á borð við Bugatti, Delahaye, Hotchkiss, Delage og Talbot. Jean Daninos rann blóðið til skyldunnar og ákvað að bæta úr þessum skorti á nýtísku öflugum frönskum lúxusbílum. Hann varð sér úti um Bentley- undirvagn með vél- og drifbúnaði og fékk Pinin Farina á Ítalíu til að hanna og smíða boddí þannig að úr varð glæsilegur stór 2ja dyra lúxusbíll sem hann nefndi Cresta I. Bílinn sýndi hann á árlegu bílasýningunni í París 1948, 1949 og 1950. Þótt hann þætti fokdýr voru pöntuð, handsmíðuð og seld 17 eintök. 1951 hannaði Daninos sjálfur annan sportbíl á Bentley-undirvagni og smíðaði Facel eitt eintak af honum. Sá nefndist Facel Cresta II og var einkabíll Daninos fram til ársins 1956.

Bentley Cresta 1 (by Facel) af árgerð 1948. Fyrsti bíllinn sem Jean Daninos smíðaði (17 eintök) þótti merkilegur.

Til að nýta aðstöðu, þekkingu og búnað (stærstu fergjur Frakklands) til boddísmíðinnar hóf Daninos, sem var bílaáhugamaður af lífi og sál og fagurkeri, eigin bílasmíði. Hann hannaði sportbílinn Ford Cométe sem byggður var að hluta á Vedette undirvagni og í fyrstu, frá 1951 með 2,2ja lítra Ford V8-flatheddvélinni. Bíllin var sérlega glæsilegur en vélin var ekki nógu kraftmikil til að bíllinn léti að sér kveða sem sportbíll. Úr því var bætt 1953 þegar Ford Comete kom með 3,9 lítra V8-flatheddvél úr Ford vörubíl. Þrátt fyrir nægt vélarafl kom sú endurbót of seint og eftir árgerð 1954 var hætt að framleiða bílinn. Comete smíðaði Facel í nokkuð stóru upplagi fyrir franska Ford.

Ford Comete smíðaði Facel að öllu leyti fyrir franska Ford í talsverðu upplagi. Fallegur en of kraftlítill sportbíll.

En nú var Daninos kominn á bragðið: Hann lagði drög að bíl sem varð að Vega og síðar Facel Vega. Reynslunni ríkari af Comete og með því að nýta sambönd frá dvölinni í Bandaríkjunum gekk Facel frá samningi við bandaríska Chrysler um kaup á V8 Hemi-vélum úr DeSoto og 2ja gíra PowerFlite-sjálfskiptingum.


Nýi Vega bíllinn var 4ra sæta lúxusbíll (2+2) sem frumsýndur var á árlegu bílasýningunni í París 1954. Vega var búinn 180 ha 4,5 lítra Chrysler Hemi V8-vél og 2ja gíra PowerFlite-sjálfskiptingu en kaupandinn gat valið 4ra gíra Pont-a-Mousson beinskiptan kassa í hennar stað. Vega vakti sérstaka athygli fyrir glæsilegt útlit og góða smíði. Ekki vakti verðið minni athygli (dýr). Vega var smíðaður árin 1954-1955 og seldust 46 eintök. 1956 var heiti bílsins breytt í Facel Vega og það ár seldust 227 eintök. Að handsmíða 230 eintök af jafn vönduðum lúxusbíl var mikið fyrirtæki, jafnvel þótt vélbúnaðurinn kæmi að öllu leyti tilbúinn frá öðrum framleiðanda.

Á 6. áratugnum giltu enn alls konar reglur um bíla og bílaframleiðslu í Frakklandi sem áttu að tryggja sparsemi í meðferð hráefna, eldsneytis og til að vernda innlenda framleiðslu gegn erlendum keppinautum. Um var að ræða leifar haftabúskapar frá því á 5. áratugnum. Þótt sú pólitíska sveitamennska (tollvernd) næði ekki að ganga af franska bílaiðnaðinum dauðum (eins og hún gerði í Bretlandi) fór hún langt með að leggja hann í rúst. Pólitíkusar rönkuðu ekki við sér fyrr en stærstu bílaframleiðendurnir, Citroën, Ford France, Simca og Panhard voru öll komin að fótum fram og jafnvel haldið gangandi með ríkisstyrkjum og í samkeppni við þjóðnýtt fyrirtæki, Renault sem hafði verið þjóðnýtt 1945.

Þetta rekstrarumhverfi var, eins og nærri má geta, dragbítur á útflutning hátæknivara á borð við bíla. Sem dæmi þurfti Facel að greiða tolla af innflutningi á Chrysler-vélbúnaðinum frá Bandaríkjunum en til að fá einn dollar endurgreiddan af tollinum þurfti Facel að flytja út á móti jafnvirði 5 dollara. Það sýnir ef til vill best hver hugsjónamaður Daninos var að í viðtali við franskt bílatímarit var hann spurður hvernig hægt hefði verið að framleiða bíl og flytja út við þessar aðstæður. Hann sagðist ekkert hafa pælt í því - þeir hefðu ekki verið sérfræðingar í tollamálum heldur bílamenn. Hann upplýsti jafnframt að Facel hefði að öllum líkindum greitt með hverjum einasta þeirra rétt rúmlega 3000 Facel Vega, Facellia og Facel III-bíla sem það hefði framleitt þrátt fyrir að verð bílanna hefði undantekningarlaust verið hátt.

Facel Vega Excellence. Þessi 4ra dyra glæsivagn kostaði meira en handsmíðaður Rolls og gat haldið 230 km hraða klukkustundum saman á hraðbrautum Evrópu. Ljósmynd: Collectible Automobile V2/No. 4 1985.

Árið 1953 vann Daninos á eigin vegum að undirbúningi Facel Vega ásamt hönnuðinum Jacques Brasseur sem hafði starfað hjá Facel síðan 1936 sem teiknari og hönnuður en gerðist nú yfirmaður tæknimála í bílasmíðinni. Brasseur og aðstoðarmenn hans, Dumas og Perrone, hönnuðu undirvagn og vélbúnaðarhlið bílins og undir þeirra stjórn var fyrsta forgerðin smíðuð. Burðarhönnunin var að mörgu leyti merkileg með rafsoðinni grind úr 90x90 mm stálskúffum og rörum. Grindin er mjög sterk, snerilstyrkurinn er ótrúlega mikill miðað við efnismagn grindarinnar en hún er felld inn í sílsa og gólf bílsins þannig að bíllinn er áberandi lágt byggður af grindarbíl að vera (einungis 1,37 m á hæð). Hjólhafið er 2,63 m.

Chrysler Hemi V8 var pottþétt

Í fyrsta Facel Vega af árgerð 1954 var 170 ha 4,5 lítra DeSote V8-Hemivél (276 kúbik) og PowerFlite-sjálfskipting. 11" Lockheed-Bendix skálabremsur voru á öllum hjólum og afturhásing/drif frá Salisbury. Að framan var sjálfstæð fjöðrun með mislöngum efri og neðri klöfum og gormum en að aftan stíf hásing með blaðfjöðrum og mjög öflugum dempurum. Fljótlega var einnig boðið upp á 4ra gíra beinskiptan kassa sem flestir evrópskir kaupendur völdu en næstum allir Facel Vega sem seldir voru til Bandaríkjanna, en þar seldust þeir flestir, voru sjálfskiptir. Aflbremsur og rafknúnar rúður voru staðalbúnaður og vökvastýri frá 1957.

Daninos vildi hafa mælaborðið lagt eðalviði en áleit enga trjátegund nógu endingargott efni. Því fékk listamaður það hlutverk að mála mælaborðið úr stáli sem viðarlíki. Það tókst svo vel að fæstir átta sig á því nema þeim sé bent á það. Mælar og stjórntæki öll í Facel Vega eru í hæsta gæðaflokki, miðstöð og kælikerfi sérstaklega öflugt (bandarískt) og innrétting og klæðning úr bestu fáanlegu efnum, m.a. klæðning úr völdu sérsútuðu Connolly-skinni. Hverjum bíl fylgdu 7 ferðatöskur úr sama skinni og af mismunandi stærð en þær smellpössuðu í farangursrýmið. Upphaflega var Facel Vega með einföldum aðalljósum og nánast sléttri framrúðu. Þaklínan þótti sérlega vel formuð en fáir vissu að þakstykkið var samansoðið úr 7 formuðum stykkjum. Grillið var úr fægðri álblöndu og flestir skrautlistar úr fægðu ryðfríu stáli. Á bílnum voru 15 yfirferðir af grunni/akrýllakki. Upphaflegu teinafelgurnar voru sérsmíðaðar hjá Robergel, þær voru boltaðar á og með falskri miðjuró en 1957 komu Borrani-Rudge-teinafelgur með ekta miðjuró. Dekkin voru Michelin X radíal.

Mælaborðið í Facel Vega Hk 500 1955. Ljósmynd: Collectible Automobile V2/No. 4 1985.

Svo farið sé hratt yfir sögu Facel Vega þá fékk hann andlitslyftingu með ágerð 1957, m.a. með sveigðri framrúðu og tvöföldum aðalljósum. Eftir því sem kapphlaupið um hestöflin varð æsilegra í Bandaríkjunum jókst afl Chrysler-vélanna í Facel Vega. Frá 1957 tók 3ja gíra TorqueFlite-sjálfskipting við af þeirri eldri 2ja gíra en sú kom með takkaskiptingu (án P-stöðugírs). 1957 kom einnig lengd gerð af Facel Vega, 4ra dyra Excellence með afturhurðum sem opnast út að framan og dyrum án miðjustafs - einn glæsilegasti fólksbíll seinni hluta 20. aldar. Vegna þess að dyrastafinn vantaði spunnust alls konar kjaftasögur um að Facel Vega Excellence væri svagur og liðaðist eins og pylsa. En umsagnir bílablaðamanna frá 1957, t.d. í breska tímaritinu Autocar, segja allt aðra sögu og sjálfur Daninos kannaðist ekki við að nokkur eigenda hefði kvartað og benti á að hurðirnar féllu að stöfum nánast hljólaust eins og hurðir á bankahveflfingu. Og það er til marks um fínsmíðina og handbragðið á Facel-bílunum að þegar horft er á hliðina á hinum stóra 4ra dyra Excellence sést varla móta fyrir samskeytum hurða og karma.

1962 kom endurhannaður Facel Vega II og verulega endurbættur, lægri, breiðari, með minna sveigðri framrúðu, tvöföldum lóðréttum aðalljósum, með diskabremsum, styrktri fjöðrun og miklu öflugri vél. Facel Vega II var síðast smíðaður af ágerð 1964.

1962 kom endurhönnuð gerð af bílnum, Facel Vega II. Síðasta árgerðin var 1964 með 400 ha Chrysler Hemi V8. Þessi lúxusfólksbíll skaust kvartmíluna á 15,4 sek. Ljósmynd: Collectible Automobile V2/No. 4 1985.

Til að gefa gleggri mynd af því hvers konar tæki þessi bíll hefur verið 1964 eru eftirfarandi atriði: Facel Vega II með 400 ha Chrysler Hemi V8, eins og hann var afhentur eiganda, fór kvartmíluna á 15,4 sek. Hann var 17 sek. að ná 200 km hraða frá kyrrstöðu við botngjöf. Hann náði 238 km hraða á 1600 metrum. Aksturseiginleikar, sérstaklega eftir að sjálflæsandi mismunardrif var fáanlegt voru, að mati manna á borð við Bernard Cahier, sem lengi reynsluók bílum fyrir tímaritið ,,Sports Car Graphics" og prófaði Facel Vega II 1962 á Motnléry-brautinni í Frakklandi, algjörlega einstakir og fram úr skarandi, sérstaklega var hann hrifinn af því hve bíllinn lá vel og var öruggur á miklum hraða í kröppum beygjum.

Í Bandaríkjunum var eini teljandi markaðurin fyrir Facel Vega I og II, ef hægt er að tala um markað fyrir svo dýran bíl. Til marks um hve dýr þessi bíll var má nefna að 1964 var Facel Vega dýrari en Rolls Royce, dýrari en dýrasti Mercedes-Benz 300 SL með ,,mávavængjarhurðunum", 4000 dollurum dýrari en Jaguar XK140 og 1000 dollurum dýrari en dýrasta gerðin af Cadillac Eldorado Seville Coupe.

Ríkasta og frægasta fólkið átti Facel Vega. Á meðal þess voru leikararnir Danny Kaye, Ava Gardner, Joan Collins, Tony Curtis, Joan Fontaine og Francois Trauffault, listamenn á borð við Pablo Picasso, popparar á borð við Ringo Starr, kóngurinn í Marókkó, forseti Mexikó og olíufurstar Saudi-Arabíu. Franska Nóbelskáldið Albert Camus (Nóbelsverðlaunin 1957) lét lífið í Facel Vega á 48. aldursári, en hann var farþegi í bíl útgefanda síns sem lenti útaf á miklum hraða og rakst á tré (í janúar 1960).

Dýr og afdrifarík mistök .....

Það er útaf fyrir sig stórmerkilegt að jafn fær maður á sviði bíla og bíltækni og Jean Daninos skuli hafa gert þau reginmistök sem urðu bílasmíði Facel að falli og reyndar leiddi til þess að fyrirtækið varð gjaldþrota. Daninos leitaði leiða til þess að renna styrkari fjárhagslegum stoðum undir bílasmíðina. Eðlilegt var að kanna þann möguleika að smíða minni og ódýrari Facel-bíl sem unnt væri að selja í stærra upplagi. 1959 sýndi Facel slíkan bíl sem það nefndi Facellia. Bíllinn var vel heppnaður hvað útlitið varðaði og var vel tekið og hófst smíði hans 1960.

Ef til vill hefur Daninos farið eins og fleirum, að vanmeta þá gríðarlegu þekkingu sem býr að baki fjöldaframleiddum bandarískum bílvélum. Þótt þær líti út fyrir að vera einfaldar verður það ekki skýrt með öðru en tækni að 400 ha Chrysler Hemi V8-vél hafi jafn mjúkan gang, jafn mikið afl og jafn mikla endingu og raun ber vitni. Margir gera sér ekki grein fyrir að 75% af tækninni að baki þessum vel heppnuðu bandarísku vélum er efnisþekking og tækni í meðferð málma.

Tæknimenn Pont-a-Mousson höfðu hannað og framleitt frábæran beinskiptan gírkassa fyrir Facel og virðast þar með hafa slegið því föstu að þeim yrði ekki skotaskuld úr að hanna og framleiða 4ra sílindra vél með tveimur ofanáliggjandi kambásum fyrir þennan minni Facellia. Frá því er skemmst að segja að annað eins drasl fyrir bílvél hefur varla sést - hún hafði ekki náð 1000 km akstri þegar hún bókstaflega hrundi auk þess sem hún var einstaklega gróf og hávær. Í ljós kom að efnishönnun var verulega áfátt, kælikerfi blokkarinnar var ófullnægjandi auk annarra hönnunargalla. Ekki varð það til að gera ástandið viðráðanlegra að Facillia var ekki ódýr frekar en aðrir Facel-bílar. Hann kostaði í Bandaríkjunum 5700 dollara 1961 en þá mátti fá þar MGB fyrir fyrir 2500 dollara. Facillia-bílarnir komu flestir aftur í hausinn á Daninos og félögum.

Jean C. Daninos var lágvaxinn. Af hlutföllunum má sjá hve lágt byggður Facel Vega HK 500 var. T.h. sést innréttingin í hinum annars illa heppnaða Facellia.

Það sem átti að styrkja fjárhag fyrirtækisins varð banabiti þess - kostnaður hlóðst upp sem aldrei fyrr. Ýmsar leiðir voru reyndar til að forðast gjaldþrot en engar dugðu. Daninos var vikið til hliðar sem aðalstjórnanda, skiptaráðandi tók við, nýir aðilar reyndu fyrir sér; Facillia var endurbættur (Facillia F2), í stað ónýtu vélanna frá Pont-a-Mousson voru keyptar B18-vélar frá Volvo (Facel III) , sem reyndust auðvitað vel og síðar 6 sílindra vélar frá Austin (Facel 6), sem reyndust ekki jafn vel. Ekki reyndist unnt að fá fjárfesta til að leggja fyrirtækinu til aukið hlutafé, enda höfðu þeir þegar tapað verulega á því og 10 júlí 1962 samþykkti stórnarfundur, gegn bókuðum mótmælum Daninos, að Facel skyldi gefið upp til gjaldþrotaskipta. Þar með lauk einum af stórmerkilegum köflum í franskri bílasögu.

það er af Daninos að segja að hann var enn á besta aldri (56) og sérþekking hans eftirsótt. Hann flutti frá París til Cannes þar sem hann starfaði sem ráðgjafi í tæpa 2 áratugi og lést þar í hárri elli árið 2001.

Ágrip af sögu merkilegra sportbíla

Saga Chevrolet Corvette

Stuttfréttir úr bílaheiminum

Aftur á forsíðu

Netfang höfundar