Leó N. Jónsson vélatæknifræðingur:
Nýr Explorer 2006

Ég hef haldið því fram að jeppar frá Ford séu meiri trukkar en jeppar frá GM og að jeppar frá GM séu meiri fólksbílar en trukkar og á þá við ameríska bíla. Til að skýra þetta frekar mætti segja að þeir sem sækjast eftir þægindum frekar en sterkri byggingu ættu að fá meiri við sitt hæfi með fjórhjóladrifsbíl, jeppa eða pallbíl, frá GM frekar en Ford. Eins og gengur er um málamiðlun að ræða: Fólksbílaeiginleikar GM-palljeppanna eru m.a. fengnir með fjöðrun og stýrisgangi sem eru líkari því sem gengur og gerist í fólksbílum. Hjá Ford er undirvagninn hins vegar eins og við er að búast í vinnubíl (þó ekki án undantekninga). Þeir sem hafa sett stærri dekk (33ja eða 35 tommu) undir nýlegan GM palljeppa af stærri gerðinni hafa fljótt komist að því að undirvagninn (slithlutir) virðist ekki vera hannaður fyrir það aukna álag sem fylgir stærri dekkjum.

Ford Explorer af árgerð 2006 er nýr bíll og verulega endurbættur þótt varla sé um byltingu í útliti að ræða. Nýi Explorer kostar einni milljón minna en LandCruiser sem er 7% minni bíll (botnskuggi).
Í nýja Explorer er flutningsrýmið, með aftursætið fellt, 2486 lítrar og með nánast slétt gólf.

Undantekning
Nýr Ford Explorer er að vissu leyti undantekning frá þessari reglu, ef reglu skyldi kalla. Ford Explorer birtist fyrst 1990 sem árgerð 1991 en fyrsta kynslóðin var með heila afturhásingu. Í nærri einn og hálfan áratug hefur Explorer verið metsölubíll í Bandaríkjunum og flestir bílanna með drifið einungis á afturhjólunum, þ.e. án millikassa. Önnur kynslóðin eins og sú þriðja, sem nú er komin sem árgerð 2006 (einhver vildi meina að þetta væri 4. kynslóðin - en ég kannast ekki við það), er með klafafjöðrun að aftan. Metsala á Explorer er ákveðinn mælikvarði á færni tæknimanna hjá Ford í því að hanna og framleiða trukka en leitun er að þægilegri ferðabíl en Explorer.

Nógu mikið járn
Hérlendis hafa margir efni á að kaupa og eiga 4-5 milljón króna jeppa, eins og blasir við hvert sem litið er. Ástæðan fyrir því að Ameríkanar kaupa Ford Explorer eru ekki jeppaeiginleikar hans heldur ytri stærð, þyngd, innra rými, þægindi og, núorðið, sparneytni. Mér hefur sýnst val margra Ameríkana ráðast af því hve sterk grind sé í bíl af þessari stærð og hve vel hún og framstykkið þoli árekstur. "Járnið fyrir framan" virðist skipta þá meira máli en hátæknilegur öryggisbúnaður. Árekstrarpróf á vegum NHTSA, en það er nefnd sem fer með öryggismál á þjóðvegum í Bandaríkjunum, þar sem Explorer fékk hæstu einkunn ár eftir ár fyrir mest árekstursþol, mælt í áverkum á bílstjóra og farþega í framsæti, tryggði söluna.

Sama hér?
Margt bendir til að sama sé uppi á teningnum hérlendis; að Íslendingar kaupi jeppa fyrst og fremst til að auka öryggi sitt í umferðinni, hvort sem sú aukning er ímynduð eða raunveruleg en gildið sem stöðutákn komi því næst í röðinni. Afstaða jeppaeigenda til umhverfisins virðist vera sú að setja öryggið á oddinn (eins og með nagladekkin). Sé þetta rétt ályktað fæst bæði mikið öryggi og mikill bíll fyrir peningana í þessum nýja Ford Explorer af 3. kynslóð, sem er nýr bíll en ekki einungis andlitslyfting; grindin er ný, fjöðrun og stýrisgangur hefur verið endurbættur, t.d. með álagsnæmu aflstýri þannig að leikandi létt er að leggja þessu volduga tæki; innréttingin er betur útfærð og vandaðri en í árgerð 2005 (2. kynslóðin) og síðast en ekki síst er þessi Explorer enn þægilegri ferðabíll en sá eldri og er þá miklu til jafnað.

Eitt af þeim atriðum sem gert hafa Ford Explorer að slíkum metsölubíl í Bandaríkjunum sem raun ber vitni er einstaklega vel útfærð og einföld innrétting - hér eru allir hlutir einfaldir og á sínum rökrétta stað (engar ,,franskar kúnstir" eða gestaþrautir).

Sparneytni er afstæð
Sparneytni bíls er afstæð, t.d. er álitamál hvor sé sparneytnari 7 manna 2ja tonna Explorer sem eyðir 12 lítrum á hundraðið eða 4ra manna smábíll sem vegur tonn og eyðir 6 lítrum. Eyðslan er hins vegar mælanleg í lítrum og peningum. Með 4ra lítra 210 ha V6-vél og 5 gíra sjálfskiptingu er Explorer nægilega aflmikill til að vera þægilegur í borgarumferð. Viðbragðið er um 9 sek. 0-100 km/klst. Vélin er þrautreyndur vinnuhestur, sem verið hefur áratugi í jeppum og pallbílum frá Ford (12 ventla vél); þýðgeng, hljóðvær, viðbragðsgóð og sparneytinn. Meðaleyðsla samkvæmt EPA-mælingu, en sú mæling er staðlað viðmið sem nota má við samanburð á bílum (raunveruleg eyðsla fer eftir aðstæðum, aksturslagi, hleðslu o.fl.), er 15,5 lítrar í borgarakstri og 11,6 á þjóðvegi.

Samkeppnin skilar sér …..
Nýi Ford Explorer ber greinileg merki harðnandi samkeppni á markaði fyrir þessa ákveðnu gerð bíla. Verðið hefur lækkað umtalsvert um leið og gæðin hafa verið aukin. Frágangur er betri, bíllinn betur hljóðeinangraður og meiri búnaður innifalinn. Nú er bara að sjá hve lengi verðið verður svona hagstætt. Ekki þarf að taka það fram að hérlendis er Explorer fjórhjóladrifinn með hátt og lágt drif. Millikassinn er rafskiptur. Staðalbúnaður er 5 sæti en bílinn má einnig fá með sætum fyrir 6 eða 7. Þriðju sætaröðina er hægt að fá með rafknúnum fellibúnaði (sérbúnaður) en séu aftari sætaraðir felldar myndast gríðarlegt flutningsrými með nánast sléttu gólfi.

Samanburður
Athyglisvert er að bera nýja Explorer saman við metsölujeppann hérlendis, Toyota LandCruiser (minni bílinn) með 39 hö öflugri V6-bensínvél og 5 gíra sjálfskiptingu en sá kostar einni milljón kr. meira en Explorer. Tölurnar í svigum gilda fyrir LandCruiser. Explorer vegur 2000 kg (1950), heildarlengdin er 4912 mm (4810), breiddin 1872 mm (1790) og dráttargetan mest 2680 kg (2800).

Ford Explorer er næstum 7% stærri bíll en LandCruiser, með botnskugga 9,19 fermetra á móti 8,6. Stærðarmunurinn á bílunum er þó mun meiri að innanverðu en utanverðu sem sést m.a. á því að farangursrýmið í 5 sæta Explorer er 1320 lítrar en 403 lítrar í LandCruiser og þegar aftursætið hefur verið fellt niður í Explorer er flutningsrýmið 2486 lítrar en 1350 lítrar í LandCruiser.

Ford Explorer er með sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum en LandCruiser með heilli afturhásingu. Innifalið í verði ódýrustu gerðarinnar af Explorer (XLT) er talsvert mikill búnaður, m.a. ABS-kerfi með átaksmiðlun, veltistýri, tölvustýrt fjórhjóladrif, hallastýrð veltivörn og loftkælikerfi fyrir utan öryggisbúnaðinn, sem er, eins og við er að búast í amerískum jeppa, af fullkomnustu gerð.

Égf efast ekki um að Toyota LandCruiser sé merkilegur bíll enda er yfirleitt vel látið af honum. En að hann sé betri en allir aðrir jeppar á markaðnum og að það sé skýringin á vinsældum hans hérlendis fæ ég einfaldlega ekki skilið. Mér finnst t.d. alltaf jafn einkennilegt að sjá hvernig blaðamenn hérlendis fjalla um LandCruiser en þau skrif eru yfirleitt hástemmdar lýsingar og lofræða sem samræmist ekki umfjöllun um þennan ákveðna bíl í erlendum blöðum eða tímaritum og nægir að benda á umfjöllun í þýskum bílablöðum því til sönnunar. Við virðumst einfaldlega hafa tekið álíka ástfóstri við Toyota og Danir við Citroën en það fyrirbrigði mun einnig vera einstakt. Með þessu er ég ekki að segja að Toyota LandCruiser standi ekki fyrir sínu - ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að hann sé ofmetin og því of dýr miðað við eiginleika og gæði - mér finnst t.d. mun ódýrari Musso bæði þægilegri og betri jeppi (þótt það þyki ekki jafn fínt að láta sjá sig á honum - en það sýnir bara hve snobbið er dýrt).

 

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar