Leó M. Jónsson
vélatæknifræðingur

Edelbrock Performer blöndungar
Helstu undirstöðuatriði

Að hluta er þessi grein íslensk þýðing á helstu atriðunum í leiðbeiningarbæklingi á ensku (Owner's Manual) sem fylgir hverjum Performer blöndungi frá Edelbrock. Við þýðingu mína hef ég bætt við ýmsu sem ætla má að skýri betur ýmis atriði varðandi uppsetningu blöndungsins fyrir mismunandi vélar og mismunandi notkun. Í bæklingnum á ensku eru töflur og skrár sem vísað er til í þessari grein auk annarra upplýsinga sem lesandi er hvattur til að kynna sér (hér eftir vísað til sem ,,bæklingsins"). Þessir blöndungar eru seldir af Bílabúð Benna.

Ég fjalla hér um Edelbrock blöndunginn sem tilheyrir ,,Performer Series". Hann er að stofni til sá sami og upphaflegi Carter AFB (AFB= Aluminium Fuel Bowl) en hann tilheyrði ,,Competition Series" og var frumbúnaður á ýmsum öflugri bílum svo sem Mopar 426 Hemi, 409 Chevrolet, Pontiac GTO, Corvette o.fl.
Sá Edelbrock blöndungur sem hér um ræðir er framleiddur af Weber á Ítalíu í 7 mismunandi gerðum sem allar byggjast á sömu grunnhönnun, en 3 þeirra eru algengastar; 1404 (500 cfm), 1405 (600 cfm) og 1407 (750 cfm).

Margt í þessum texta á við eins við aðra blöndunga en Edelbrocjk. Ég vil sérstaklega vekja athygli á bandarískri gerðarmerkingu blöndunga eftir hámarksloftflæði í rúmfetum/mín (cfm): hér 500, 600 og 750 cfm. Sem dæmi þá skilar 750 cfm blöndungur á 5 lítra vél minna afli en 600 cfm blöndungur. Í stað þess að einblína á loftmagnið ætti að huga að lofthraðanum í kverkinni: Því víðari sem hún er því minni verður lofthraðinn og því meiri snúningshraða þarf vélin til að blöndungurinn virki eðlilega. Loftflæði blöndungs í rúmfetum/mín er því ekki mælikvarði á mögulegt afl vélar í bíl fyrir venjulega notkun. (Sjá ,,Stór blöndungur - lítill blöndungur). Í þessu efni ræður notkun bílsins miklu um val blöndungs, þ.e. fyrir daglegan akstur (+ spyrnur) eða til keppnisnotkunar.

Undirstöðuatriði: Fjórgengisbensínvélin með neistakveikju brennir blöndu af bensíni og lofti. Loftinu stjórnar bílstjórinn með inngjöfinni. Bensíni er blandað saman við innsogsloftið með blöndungi. Blöndunin verður í ákveðnu hlutfalli sem nefnist Loft á móti Bensíni, eða L/B-hlutfallið (A/F á ensku). Hlutfallið er reiknað eftir þyngd Þannig er blanda af 12 kg af lofti á móti 1 kg af bensíni með hlutfallið 12:1 eða algengara L/B = 12. (A/F = 12).

Þrátt fyrir að bensínvélar séu mjög ólíkar að gerð og stærð eiga þær allar sameiginlegt að þurfa svipaða blöndu (L/B) til að skila hámarksárangri. Bensínvél sem náð hefur eðlilegum vinnsluhita getur gengið á eftirfarandi blöndum af lofti og bensíni:

L/B hlutfall Einkenni

5 Hámarkssterk blanda: Lélegur bruni, gengur varla.

6-9 Alltof sterk blanda: Sótmettaður útblástur, aflleysi.

10-11 Mjög sterk blanda: Einstaka forþjöppuvélar ganga á þessari
blöndu á fullri gjöf til að koma í veg fyrir seinkveikjun (detonation).

12-13 Sterk: Hámarks afl: Vél án forþjöppu á botngjöf.

14-15 Ákjósanleg: Við hlutfallið 14,6 er, fræðilega séð, fullkomnastur bruni þar sem ekkert súrefni né óbrunnið bensín er í útblæstri. Hagkvæm blanda fyrir akstur með miðlungs inngjöf og hóflegum spyrnum.

16-17 Veik: Mest sparneytni en á mörkunum að vera nothæf blanda, sérstaklega ef vélin er búin EGR-loka (púst-hringrás).

18-19 Mjög veik: Oftast mörkin þar sem vélin hættir að geta gengið eðlilega.

20-25 Alltof veik: Áhrifin geta verið mismunandi eftir vélum (gangi vél á þessari blöndu er hætta á ferðum því þá er hún farin að brenna fleiru en eldsneytinu, kertum, áli úr heddinu og jafnvel ventilhausum).

Þótt vélar gangi á blöndu sem er að hlutfalli frá 5 og upp í 25, er hagkvæmasta blöndunarhlutfallið fyrir venjulega bensínvél á fremur þröngu sviði (sjá mynd nr. 1 ) eða um 12,5 fyrir vél sem er keyrð á botngjöf og 14,0-15,5 fyrir vél í venjulegum akstri. Þeir sem beita vél fyrst og fremst á miðbiki snúningshraðasviðs nota blöndunarhlutfallið 13,5-14,0. (Fræðilega séð er L/B-hlutfallið 14,6 það sem gerir fullkominn bruna mögulegan og nefnist ,,stósíómetríski punkturinn" í efnafræði. En vegna þess hve vélar geta verið mismunandi og bensín af mismunandi gæðum gildir talan 14,6 tæplega í raunveruleikanum).

,,Stór blöndungur" - ,,lítill blöndungur"

Flokkun blöndunga er hvorki eftir stærð né afköstum heldur eftir því hvað þeir geta gleypt mikið magn lofts við botngjöf. Mælikvarðinn er CFM (Cubic Feet per Minute = rúmfet á mínútu). Mörgum hefur orðið hált á því að gefa sér fyrirfram að sá blöndungur sem hefur hæstu CFM-töluna hljóti jafnframt að gefa mest afl. Þetta er misskilningur. Það sem skiptir höfuðmáli er að réttur lofthraði myndist í blöndungshálsi þegar inngjafarspjaldið opnar fyrir soggeinina. Sé hálsinn of víður (of há CFN-tala) verður lofthraðinn ekki nægur til að blöndunarkerfið virki. Afleiðingin verður aflleysi og eyðsla í venjulegri notkun en raunverulegt afl myndast ekki fyrr en við mikinn snúningshraða vélar og eðlilegar tökur nást ekki nema lausagangur sé um og ofan við 3000 sn/mín. Þetta er t.d. það sem myndi gerast væri 780 CFM-blöndungur settur á óbreytta 5 lítra vél. Sú vél skilaði miklu meira afli í venjulegum akstri með 600 CFM-blöndungi.

SKÖMMTUNAR- OG BLÖNDUNARKERFIN

Eldelbrock blöndungurinn er með 3 aðalkerfi sem blanda lofti og bensíni saman: Lausagangskerfið, Fyrsta stigs kerfið og Annars stigs kerfið. Skilningur á því hvernig þessi kerfi vinna auka möguleikana á því að þér takist að aðlaga blöndunginn að þörfum vélarinnar.

Lausagangskerfið sér vélinni fyrir öllu eldsneyti í lausagangi. Það myndar jafnframt yfirgang frá lausagangi yfir í inngjöf og við inngjöf en þó í minnkandi mæli eftir því sem inngjöf er aukin. Stilling lausagangs er mikilvæg bæði til að hafa hann jafnan við eðlilegan snúningshraða og til að koma í veg fyrir hik við snögga inngjöf. (Aðalkerfin þrjú eru sýnd á mynd nr. 2) Sog í soggrein dregur bensín inn í lausagangskerfið með hjálp rásanna tveggja, stilliskrúfurásarinnar (8) og millirásarinnar (7). Bensín í flothólfinu fer í gegnum aðalrásina með nálarleggnum (1) og inn í aðalhólfið (2). Bensínið fyrir lausaganginn sogast í gegn um kverkina á enda lausagangsrásarinnar (3) sem er koparhulsa og upp hana að 1. lausagangsloftrásinni (4) sem einnig er úr kopar en þar blandast bensínið lofti. Blandan fer síðan um kverk í lausagangsrásinni (5) - en það er gat sem gegnir því hlutverki að auka flæðishraða þannig að bensínið blandist loftinu betur. Þá fer blandan um lausagangsloftrás nr. 2 (6). Blandan fer áfram um rás í blöndungshúsinu yfir í millirásina (7) og í stilliskrúfurásina (8). Millirásin (7) skammtar lofti þegar inngjafarspjald er lokað en eftir því sem spjaldið opnast (með lausagansstillingu) dregur soggreinin bensínblöndu úr rásinni fyrir lausagang. Lausagangsskrúfan stillir magn bensínblöndu í lausagangi og er einungis notuð til að stilla hlutfall bensínblöndunnar í lausagangi (CO-stilling m.a.).

Fyrsta stigs kerfið: Um leið og inngjöf er beitt tekur þetta kerfi við af lausagangskerfinu og sér vélinni fyrir vaxandi magni bensínblöndu eftir inngjöf og sogi í soggrein (yfirlappar lausagangskerfið í fyrstu).

Bensín sogast gegnum fyrsta stigs kerfið (mynd 3) vegna þrýstingsfalls sem er í hlutfalli við lofthraðann í hálsi blöndungsins (stöðu inngjafarspjaldsins) og þess aukna flæðishraða sem aðalkverkin (Main ventury 1 á mynd nr. 3) og skotkverkin (Boost ventury 2 á mynd nr. 3) mynda. Þetta þrýstingfall (eða sog) er leitt inn í kerfið með spíssnum (3), koparhulsu sem tengist skotkverkinni (2) að innanverðu.

Bensínið verður að fara í gegnum þrenginguna í aðalrásinni (4) og um aflnálina (5). Nálin, sem er kónísk, gengur í gegnum kverkina (sætið) og skammtar bensíni í mismunandi magni eftir því hve mikið hún dregst upp og sígur niður.

Um aðalrásina fer bensínið niður í inngjafarrásina (2 á mynd nr. 2) og sogast upp í blöndunarhulsuna (6 á mynd nr. 3). Þessi hulsa (nefnist Emulsion Tube eða Primary Well Tube á ensku) blandar lofti enn frekar við bensínið þannig að blandan freyðir og verður að úða. Loftið fær blöndunarhulsan frá aðalöndunarpípunni (7) efst í blöndungnum. Bensínúðinn fer síðan inn í skotkverkina (2) að ofanverðu um spíssinn (3) og þaðan inn í soggreinina.

Magn bensíns í Fyrsta stigs kerfinu er í réttu hlutfalli við loftflæðið; aukist loftflæðið í hálsi blöndungsins, annað hvort vegna aukinnar inngjafar eða aukins snúningshraða vélarinnar við óbreytta inngjöf - eykst eldsneytisgjöfin í réttu hlutfalli.

Þegar vél erfiðar, t.d. þegar gefið er rösklega inn, þarf vélin sterkari blöndu. Þessi styrking blöndunnar er gerð með tveimur afllokunum (nál og kverk mynd nr. 4). Þeir virka þannig að undir áföstum stimpli þeirra er sográs (8 á mynd nr. 3). Undir stimplinum (9) er gormur (10). Þegar sog er mikið í soggreininni (lítið álag) sogast stimpillinn niður og þrýstir gorminum saman. Þá er sverasti hluti kónísku nálarinnar í sætinu í flothólfinu og nánast ekkert bensín fer um kverkina. Sé gefið snögglega inn minnkar sogið undir stimplinum og gormurinn þrýstir honum upp. Við það opnar nálin kverkina og aukið magn bensíns flæðir inn í aðalrásina. Með þessu móti myndast mjög virk viðbragðs- og álagsstýring sem virkar einungis þegar hennar er þörf (sparneytni). Oddhvassi hluti nálarinnar nefnist styrkingarþrepið en sverari hlutinn ofar veikingarþrepið. Heitin skýrast af lögun nálarinnar og hreyfingu hennar upp og niður.

Þegar sogið er lítið, vegna mikillar inngjafar t.d. við meira en hálfa botngjöf (a heavy part-throttle) eða botngjöf (WOT = Wide Open Throttle), er gormurinn (10) undir stimplinum (9) fær um að þrýsta honum upp í efstu stöðu og nálin færist um leið upp úr kverkinni þannig að sem mest bensín flæði með henni. Þetta ástand nefnist Aflháttur (Power Mode Staging) og gefur sterka L/B-blöndu fyrir hámarksátök. Þá er nálin neðst á styrkingarþrepinu. Í framhaldi af þessu má ljóst vera að því stífari sem gormurinn er undir stimplinum þýðir sterkari verður blandan við inngjöf.

Annars stigs kerfið: Kerfið er sýnt á mynd nr. 5 í enska bæklingnum. Þetta inngjafarkerfi virkar einungis þegar aftara hólf blöndungsins, sem er með 2 hálsa, er með opin inngjafarspjöld en það þýðir að loftspjöldin (2) fyrir ofan þau hafa opnast. Loftspjöldunum er haldið í jafnvægi (lokuðum) með þyngdarklossum. Skapi inngjöf nægilega mikið loftflæði í aftari hálsunum þvingast loftspjöldin, þyngd klossanna yfirvinnst, þau opnast og annars stigs kerfið verður virkt.

Annars stigs kerfið, eftir að það kemur inn, vinnur á sama hátt og Fyrsta stigs kerfið; sog myndast vegna aukins loftflæðis í hálsunum. Sogið við annars stigs skotkverkina (3) fer inn í kerfið um annars stigs spísinn (4).

Eldsneyti flæðir um annars stigs aðalkverkina (5) og yfir í soggreinina um annars stigs blöndunarhulsuna (6). Þar blandast bensínið lofti en hulsan er alsett litlum götum sem gera það að verkum að blandan freyðir og verður að úða. Loftið fær blöndunarhulsan frá annars stigs loftrásunum (7). Loftrásirnar eru tvær; ein þrýstir lofti að hulsunni utanverðri en hin inn í hulsuna á bak við spíssinn. Blandað eldsneytið fer nú upp eftir rás og um annars stigs spíssinn og út og um annars stigs skotrásina (3).

Önnur inngjafarkerfi
Til viðbótar Fyrsta og Annars stigs kerfunum eru 2 hliðarkerfi sem einnig taka þátt í inngjöf. Þau eru Annars stigs millikerfið (mynd nr. 6) og viðbragðsdælukerfið (mynd nr. 7).

Annars stigs millikerfið
Þegar aftari hólf blöndungsins eru um það bil að verða virk er loftflæðið í aftari hálsunum mjög lítið. Af því leiðir að sogið er ekki nóg við annars stigs spíssinn til að hann gefi frá sér eldsneyti. Til að koma í veg fyrir að of veik blanda myndist nákvæmlega á þessu yfirgangstigi (sem myndi valda koki eða dauðum punkti) við ákveðna inngjöf, er nauðsynlegt að styrkja blönduna með því að bæta við bensíni þar til aftari hólfin verða fullvirk.

Þetta er gert með því að hafa lítinn spíss (2 á mynd nr. 6) rétt undir brúninni á loftspjaldinu (1) Sogið í hálsinum meðfram brún loftspjaldsins nægir til að draga eldsneyti út úr spíssnum. Það eldsneyti fær spíssinn frá annars stigs aðalkverkinni (3) og um annars stigs aðalrásina undir henni og upp í gegn um aukablöndunarhulsuna (4) og út um spísinn (2). Alltaf er loftrás (5), annað hvort ofarlega í blöndunarhulsunni eða sem sjálfstæð koparkverk.

Flæðið í millikerfinu er nóg til þess að koma í veg fyrir of veika blöndu rétt áður en aftari hólfin opna. Þegar loftspjaldið opnast frekar vegna aukins loftflæðis minnkar gjöfin frá millikerfinu en flæði bensíns frá Annars stigs kerfinu tekur við og eykst þó þannig að L/B-hlutfall helst stöðugt.


Viðbragðsdælan

Þegar gefið er snöggt inn eykst loftflæðið gegn um vélina um leið. Bensínið, sem er mun eðlisþyngra en loftið, er svifaseinna. Það leiðir til þess að á því andartaki sem gefið er inn er bensínblandan veik - vélin hikstar, kokar eða jafnvel drepur á sér. Við þessar aðstæður þarf að styrkja blönduna tafarlaust. Það er gert með mekanískri dælu sem er óbeint tengd inngjafarásnum og sem spýtir ákveðnu magni af bensíni inn í hálsa blöndungsins (mynd nr. 7). Edelbrock blöndungurinn er með stimpli sem dregur bensín inn í viðbragðsdæluhólfið meðfram stimpilþéttingunni (1 á mynd nr. 7) á uppslaginu, þegar inngjafarspjald lokar, þannig að hólfið er alltaf fullt og tilbúið. Við næstu inngjöf vendir stimpilþéttingin og þrýstir bensíni um annan loka inn í hálsinn. Lokinn er með kúlu sem þyngd er með stykki úr kopar (2). Spíssar viðbragðsdælunnar (3) spýta bensíninu inn í hálsa fyrsta stigs kerfisins (fremri hólfin).

Eins og áður sagði er stimpill viðbragðsdælunnar ekki beintengdur inngjöfinni heldur þrýstir gormur (4) á stimpilinn þannig að áhrif viðbragðsdælunnar vara lengur en sem nemur hreyfingu inngjafarinnar. Edelbrock Performer blöndungurinn er með viðbragðsdæluarmi með 3 íkrækjum (götum). Hægt er að stilla magn viðbragðsdælunnar með því að velja rétt gat fyrir teininn. Þetta er skýrt betur í kaflanum um stillingu viðbragðsdælunnar.

ANNAR BÚNAÐUR

Virkni Edelbrock blöndungsins ræðst af ýmsum öðrum búnaði. Þar skipta mestu máli bensíndælan og lofthreinsarinn.
Bensíndælan: Algenga gangtruflun má rekja til of mikils þrýstings frá bensíndælu. Til er þrýstingsstillir frá Edelbrock (nr. 8190) sem setja má á lögnina milli dælu og blöndungs. Þrýstingur ætti aldrei að vera meiri en 5,5 psi. Gæta verður þess að bensíndælan sé nægilega afkastamikil, þannig ætti þrýstingur við botngjöf aldrei að fara niður fyrir 2 psi. (Algeng gangtruflun vegna of mikils þrýstings, t.d. umfram 6 psi, er þegar vélin drepur á sér í krappri beygju eða þegar stöðvað er snögglega og stigið á kúplinguna). Einnig er mikilvægt að nota hólksíu á bensínlögnina á milli dælu og blöndungs (t.d. Edelbrock nr. 8873).
Lofthreinsarinn: Edelbrock blöndungurinn er hannaður með tilliti til ákveðinnar stærðar af Edelbrock lofthreinsara (14" x 3") í Signature-línunni. Hann virkar með öllum lofthreinsurum af staðalgæðum og svipaðri stærð. Þótt Edelbrock blöndungurinn sé ekki sérstaklega næmur fyrir mismunandi lofthreinsurum eru nokkur atriði sem hafa ber sérstaklega í huga:

Vél ætti aldrei að nota án lofthreinsara í venjulegri umferð eða þar sem ryk er. Loftun flothólfs blöndungsins er innan lofthreinsarans. Sé hann ekki til staðar getur ryk og önnur óhreinindi borist í flothólfið og stíflað rásir blöndungsins sem leiðir til gangtruflana og óþarfa eyðslu.

Stillingu lausagangs á alltaf að framkvæma með lofthreinsarann á. Hafa ber í huga að með mörgum tegundum lofthreinsara mælist blandan veikari með lofthreinsaranum en án hans.

Stór 14" x 3" opinn lofthreinsari (sía með botni og loki) svo sem Edelbrock Elit-línan eða Signature-línan auk Pro-Flo-lofthreinsara veita nánast ekkert loftviðnám. Tilraunir hafa sýnt að loftflæðið í gegn um þá er nánast óskert. Áhrifin á L/B-hlutfallið og blöndunarferlið er því nánast ekkert. (Með blöndunarferli er átt við uppsetningu skömmtunarkverka, aflnála og viðbragðsstýringar en allt er þetta breytanlegt í Edelbrock blöndungnum og fæst sérstakt breytingasett með mismunandi stærðum lykilhluta til að aðlaga blöndunginn vél eða ákveðnum kröfum).

Opinn 10" x 2" lofthreinsari orsakar mælanlega skerðingu á loftflæði en hefur hins vegar lítil sem engin áhrif á L/B-hlutfallið og blöndunarferlið.

Lofthreinsarar minni en 10" x 2" teppa loftflæði til blöndungsins og hafa veruleg áhrif á L/B-hlutfallið og blöndunarferlið. Blandan við botngjöf mun t.d. verða of veik og veikjast eftir því sem snúningshraði vélarinnar eykst.

Sé bíllinn notaður á tvennan hátt, t.d. fyrir venjulegan akstur með lofthreinsara og í keppni án lofthreinsara getur verið þörf fyrir tvö mismunandi uppsett blöndunarferli. Sé notaður lítill lofthreinsari í venjulegum akstri og blöndungurinn settur upp fyrir botngjöf með honum skyldi það ekki koma á óvart að blandan verði of sterk þegar lofthreinsarinn er tekinn af. Því kann að vera þörf fyrir öðru vísu uppsett blöndunarferli (kverkar, nálar, gormar, viðbragðsdælugat) eigi vélin að skila fullu afli við botngjöf án lofthreinsarans.

Skýla skal opi blöndungsins ef hann er notaður án lofthreinsara þannig að loft streymi ekki lárétt yfir blöndungsopið (húddlaus bíll eða með inntaksopi á húddi). Láréttur loftstraumur yfir opnum blöndungnum getur dregið úr virkni hans með Því að breyta sogi í hálsinum. Þessu er ekki hægt að mæta með breytingum á blöndunarferlinu þar sem L/B-hlutfallið mun stöðugt breytast eftir því hvort hraðar eða hægar er ekið.

2. UPPSETNING BLÖNDUNGS
Áður en lengra er haldið skal ganga úr skugga um að blöndungurinn sé settur rétt á og í samræmi við leiðbeiningarnar sem fylgja honum (Carburator Installation Instructions).

UPPSETT BLÖNDUNARFERLI

Edelbrock Performer blöndungurinn er hannaður með það fyrir augum að auðveldlega megi breyta honum og aðlaga mismunandi vélum og notkun. Allar breytingar og stillingar má framkvæma án þess að losa blöndunginn af soggreininni og algengustu breytingarnar má gera á innan við 5 mínútum án þess að opna þurfi flothólfið.

Til að auðvelda uppsetningu blöndungsins er að finna blöndunarferlistöflur í enska bæklingnum (Calibration Reference Chart) fyrir hverja einstaka gerð af Edelbrock Performer blöndungnum. Þessar töflur (bls. 18-21 í enska bæklingnum) eru settar saman af tveimur hlutum; Sem dæmi sýni ég Blöndunarferlistöflu fyrir 1405 (tafla A) og tein/kverka-tilvísunarskrá fyrir 1405 (tafla B). (Ath. Margir tala um nálar þegar þeir eiga við kverkar. Kverkarnar eru mismunandi víðar og númeraðar).

Þegar upplýsingar um uppsetningu blöndunarferlis hafa verið lesnar er næsta skrefið að skoða blöndunarferlistöfluna (A) fyrir þá gerð blöndungs sem um er að ræða. Ákveða þarf hvort blandan skuli vera í sterkari eða veikari kantinum á ferð (Cruise Mode) og eins við inngjöf (Power Mode). Veldu númerið sem er næst skurðarlínum ferðar- og inngjafarsviðs. Til að lýsa þessu betur má nefna að skipti afl meira máli en sparneytni á ferðahraða er valin sterkari stilling (Rich). Um leið er stillingin fyrir inngjöf takmörkuð, eins og sjá má á töflu A, en nauðsynlegt er að halda sig innan efri og neðri skálínanna (athugið að sérstök tafla er fyrir hverja gerð blöndungs og tafla A á einungis við gerð 1405). Þegar viðeigandi númer er fundið er farið í töfluna á síðunni á móti en þar er að finna upplýsingar um kverk (Main Jet), skömmtunarnál (Metering Rod) og í ysta dálknum hægra megin er þess getið hverju þurfi að breyta. (Í okkar dæmi, tafla B fyrir gerð 1405).

Dæmi: Blöndungurinn er Edelbrock Performer 1405, 600 CFM. Tafla A og B gefa til kynna flæðistöluna fyrir hverja gerð). Þú hefur ákveðið (eftir að hafa lesið allar leiðbeiningarnar) að velja 1 stigs veika blöndu á ferð og 2 stigs veika blöndu við inngjöf. Á töflu A fyrir 1405 sérðu að línurnar skerast í punkti 21. Þetta er tilvísunarnúmerið fyrir blöndunarferlið (uppsetninguna) en hana sérðu á töflu B (aðalkverk og aflnál). Tafa B fyrir gerð 1405 segir að nota skuli aðalkverkar nr. 0.098 og aflnál 0.070 x 0.052.

Í töflu C er að finna upplýsingar um kverkarnar í aftari hólfunum (Secondary metering). Í miðri töflunni er númerið á kverkinni sem er í blöndungnum (frá framleiðanda) en til vinstri handar eru kverkar sem veikja blönduna en til hægri þær sem styrkja hana. Þessum kverkum þarf ekki að breyta nema verið sé að setja blöndunginn upp fyrir botngjöf (WOT = Wide Open Throttle).

Eftir höfðinu dansa …

Það segir sig sjálft að þótt Edelbrock Performer blöundungurinn sé meistarasmíð þá breytir hann ekki kveikjustillingu, þéttir ekki leka ventla né endurnýjar ónýt kerti. Því er mikilsvert að yfirfara kveikjukerfið og sjá til þess að það sé í fullkomnu lagi og kveikjutími rétt stilltur áður en farið er að eiga við blöndunginn. Ný loftsía, bensínsía og ný smurolía er einnig trygging fyrir því að vélin vinni eðlilega með nýjum blöndungi.

Aðvörun: Yfirfylling blöndungs getur átt sér stað eftir ísetningu. Ástæðan getur verið óhreinindi og/eða slönguafskurður sem kemur í veg fyrir að flotholtslokinn setjist eðlilega. Hver Edelbrock Performer blöndungurinn er prófaður gagnvart bensín- og loftleka áður en hann fer frá framleiðanda. Yfirfylling er því mjög sjaldgæf. Engu að síður er ástæða til varkárni vegna eldhættu sem getur skapast. (sjá frekari leiðbeiningar í enska bæklingnum á bls. 10. Þar eru einnig leiðbeiningar um varahluti og um aðferðir við skipti á kverkum og aflnálum/gormum).

LAUSAGANGSBLANDAN

Á Edelbrock Performer blöndungnum eru venjulegar stilliskrúfur (9 á mynd nr. 1) fyrir blöndu í lausagangi. Sé skrúfunni snúið réttsælis (inn) veikist L/B-blandan en styrkist sé skrúfunni snúið rangsælis (út). Loftmagnið/loftspjaldið er stillt með skrúfu á inngjafargafflinum (lausagangshraðinn).

Lausagangsstilling:

1. Gangsetjið vélina og látið ná vinnsluhitastigi
2. Hafið lofthreinsarann á
3. Stillið snúningshraða lausgangs (t.d. samkvæmt fyrirmælum bílaframleiðanda).
4. Stillið blönduna öðru megin þar til snúningshraði eykst ekki meir. Skrúfið ekki lengra út umfram þau mörk.
5. Ef stillingin í lið 4 jók snúningshraðann um meira en 40 sn/mín endurstillið þá lausagangshraðann með gaffalskrúfunni.
6. Stillið blönduna á hinni hliðinni á sama hátt og í lið 4 til að ná hámarki snúningshraða.
7. Endurstillið lausagangshraðann.

8. Fínstillið blönduna með báðum skrúfunum þar til mestum snúningshraða er náð.
9. Stillið blönduna veikari (réttsælis/inn) jafnt á báðum þannig að snúningshraðinn lækki um 20 sn/mín.
10. Endurstillið lausagangshraðann með skrúfunni á inngjafargafflinum þar til æskilegum snúningshraða er náð. (Sjálfskiptur bíll: Athugið, handbremsa á , Skipting í D og aðalljós kveikt).

Þessi lausagangsstilling sem hér hefur verið lýst á að gefa jafnastan lausagang með veikri blöndu (sparneytni). Sé blandan styrkt mun það hvorki bæta lausaganginn né auka afl - hins vegar væri slík stilling líkleg til að sóta kertin.

Kambás með lengdri opnun ventla
Sé vélin með ,,heitan" kambás getur hún þurft hraðari lausagang en ella. Afleiðingin getur orðið leiðinlegur, ójafn lausagangur. Eftirfarandi ráð geta dugað við þessu:

Stillið kveikjutímann eins fljótan í lausagangi og framast er unnt. Sé kveikjan búin sogflýti ætti að tengja sogslönguna beint við soggreinina eða í hægri sogstútinn á fæti blöndungsins. Sé ekki unnt að nota sogflýtingu af einhverjum ástæðum ætti að breyta mekanísku flýtingunni í kveikjunni þannig að hún komi öll inn seinna þannig að hægt sé að nota sem fljótasta stillingu á kveikjunni sjálfri. (Hér skal bent á að með MSD-kveikjustýringu er hægt að breyta kveikjutíma um 20° með því að styðja á hnapp inni í bílnum. Þannig má auðvelda gangsetningu heitrar vélar með 20° seinkun).

Mældu sogið í greininni við lausagang. Sé það minna en 7" Hg eru talsverðar líkur á því að aflstimplarnir í blöndungnum séu ekki í neðstu stöðu (gormurinn lyfti þeim upp) og því sé lausagangsblandan of sterk. Sé þetta tilfellið má laga það með því að nota linari gorma undir stimplana (gormarnir eru litarmerktir sjá töflu D - appelsínuguli gormurinn er t.d. linari en sá bleiki).

Með sumum kambásum (,,köldum") getur lausnin verið þveröfug, þ.e. að nota stífari gorma t.d. bleika eða silfurlita. (Á bls. 14 í enska bæklingnum er tafla sem sýnir hvaða litur á gormum er í hverri gerð blöndungs frá framleiðanda). En í þessu efni gefst gamla aðferðin oft best; að prófa sig áfram.

UPPSETNING FYRIR BOTNGJÖF/HÁMARKSAFL

Öruggasta og auðveldasta leiðin til að setja blöndung upp fyrir hámarksafl við botngjöf er að nota afl/bremsu-mæli (Dynamometer). Slík tæki hafa ekki verið á hverju strái hérlendis en hjá Tækniþjónustu Bifreiða að Hjallahrauni 4 í Hafnarfirði er nú hægt að fá slíka þjónustu, þ.e. mælingu samhliða breytingum með mælingu fyrir og eftir breytingu. Ef aflmæli er ekki til að dreifa þá er bara að finna heppilega og örugga braut (t.d. kvartmílubraut) til að prófa sig áfram og ef ekki eru betri mælitæki til reiðu verður skeiðklukka að duga.

1. Veldu snúningshraðasvið vélarinnar þar sem aflið er mest. Venjulega er það 50% af hámarkssnúningi. Dæmi: Ef vélin skilar góðum krafti upp að 5000 sn/mín er aflsviðið 2500 - 5000 sn/mín. Sé krafturinn ómældur upp að 6500 sn/mín er aflsviðið 3500 - 6500 sn/mín skynsamlegt val. Ástæða er til að vara við því að ákveða hámarkssnúning of mikinn.

2. Spyrntu með botngjöf frá snúningshraða sem er 1000 sn. lægri en neðri mörk aflsviðsins og upp í nokkrum hundruð snúningum ofar mörkunum. Dæmi: botngjöf við 1500 snúninga og gjöf sleppt við 5200 sn/mín. Tímamældu snerpuna með skeiðklukku á þessu ákveðna bili. Endurtaktu þessa prófun nokkrum sinnum með mælingu þannig að þú hafir trúverðugt meðaltal sem jafnar út áhrif af halla eða með/mótvindi.

3. Farðu í blöndunarferlistöfluna (Primary Metering) fyrir þína gerð af blöndungi. Finndu þá uppsetningu sem gefur sterkasta blöndu án þess að skipta þurfi um kverk - einungis skipti á aflnál. Þessi uppsetning er sennilega 2. stig styrkingar (8% sterkari blanda sjá töflu C).

4. Skiptu um aflnálar. Endurtaktu spyrnuprófið og mælingarnar. Láttu það ekki koma þér á óvart þótt engin breyting verði mælanleg.

5. Berðu saman árangurinn af þessum tveimur prófunum, þ.e. með 2 mismunandi uppsetningum og taktu mið af eftirfarandi:

Tilfelli 1. Snarpari en upprunalega uppsetningin
Skiptu um kverkarnar í aftari hólfunum og veldu 2 stigum sterkari. Spyrnuprófaðu á sama hátt og áður.

· Ef árangurinn úr 3. spyrnuprófuninni er sá sami og úr þeirri nr. 2 ertu búinn að ná þeim árangri sem náð verður.

· Ef árangurinn úr 3. spyrnuprófinu er lakari en úr nr. 2 skaltu skipta kverkunum út í bæði fremri og aftari hólfunum með 1. stigs kverk. Þ.e. 0.098 í aftari hólfunum og næstu stærð fyrir ofan þá sem fyrir er í fremri hólfunum. Og þá nærðu tæplega lengra í að auka afl við botngjöf.

Sé árangur úr prófun nr. 3 hins vegar betri en úr nr. 2 skaltu skipta kverkunum út í bæði fremri og aftari hólfunum fyrir stig 3 sterkari. Haltu áfram að stækka kverkarnar (styrkja blönduna) um 1 stig í senn þar til engin breyting er mælanleg eða minni árangur. Notaðu þær kverkar sem gáfu bestan árangur eða breyttu honum ekki til hins lakara. Þannig ertu með aðra af tveimur ,,sterkum" uppsetningum sem skila góðu afli.

Tilfelli 2. Slakari en upprunalega uppsetningin
Skiptu yfir í 1. stigs veika kverk í bæði fremri og aftari hólfin. Spyrnuprófaðu síðan nokkrum sinnum og skráðu niðurstöður.

Sé árangur óbreyttur skiptu þá aftur yfir í upprunalegu kverkarnar.

Sé árangur betri en með upphaflegu uppsetningunni skiptu yfir í 2. stigs veika kverk í fremri og aftari hólfum. Haltu áfram að veikja blönduna um 1 stig í senn þar til afl minnkar eða engin breyting er mælanleg. Settu þá í kverkar sem gefa 1 stigi strekari blöndu þannig að þú sért með sterkari uppsetninguna af tveimur sem gefa sama afl.

Tilfelli 3. Upprunalega uppsetningin best
Sýni mælingarnar og tilraunirnar sem þú hefur gert til að ná hámarksafli við botngjöf að upprunalega uppsetningin, sú sem byrjað var með, gefur mestan árangur - skaltu ekki láta það koma þér á óvart. Skiptu yfir í upprunalegu uppsetninguna samkæmt töflu C. (Ath. aftast í enska bæklingnum er eyðublað til að skrá hverja einstaka uppsetningu, sé eyðublaðið útfyllt, þ.e. skipulega að prófunum staðið, verður árangur meiri og fyrirhöfnin minni). Enn minni ég á að tafla C gildir fyrir gerð 1405 í bæklingnum sem fylgir blöndungnum eru sambærilegar töflur yfir aðrar gerðir.

UPPSETNING FYRIR VENJULEGAN AKSTUR

(Með venjulegum akstri er átt við það sem framleiðandinn nefnir ,,Part- Throttle").
Edelbrock Performer blöndungurinn er að því leyti frábrugðinn mörgum öðrum að aflnálakerfið (Metering rod system) gerir kleyft að setja upp rétt blöndunarferli fyrir venjulegan akstur án þess að uppsetningin fyrir botngjöf, sem áður hafði verið valin, breytist. Í venjulegum akstri er um tvenns konar aksturslag að ræða:

Á ferð (Cruise Mode)
Sé um einhverjar hömlur, hik eða dauða inngjafarpunkta að ræða við breytta inngjöf á stöðugri ferð, t.d. við framúrakstur, er ástæðan oftast sú að blandan er of veik eða of sterk vegna of stífra gorma undir stimplum afllokanna (þó oftar vegna of veikrar blöndu). Farið í blöndunarferlistöfluna (Calibration Reference Chart) fyrir viðkomandi gerð af blöndungi, og í ,,Cruise Mode" og setjið 1 stigi sterkari aðalkverkar í stað þeirra sem eru í samkvæmt töflunni. (Í okkar tilfelli tafla A fyrir gerð 1405). Ef vandamálið minnkar en hverfur ekki alveg, gangið þá skrefi lengra og setjið kverkar fyrir 1 stigi sterkari blöndu og haldið áfram á þeiri braut þar til vélin tekur eðlilega við sér. Blöndunarfelistafla A gefur til kynna (númer sem sem vísar til töflu B) rétt val á kverkastærð og aflnálum. Taflan er leiðbeinandi - ef til vill getur þú fundið samsetningu sem virkar betur í ákveðnu tilviki.

Sé vinnslan góð við litla gjöf á ferð, skaltu prófa að velja kverk fyrir 1 stigs veikari blöndu. Ef ekkert bólar á aflleysi, hiki eða hnökrum skaltu ekki hika við að velja kverk fyrir enn eins stigs veikari blöndu og áfram þar til breyting verður á - þá bakkarðu um 1 stig þ.e. styrkir blönduna. Mikilvægt er að blandan sé ekki of sterk í venjulegum akstri - veikari blanda án vandamála skilar mestri sparneytni auk þess sem minni hætta er á að kertin sótist. Þú getur bókað að fyrir tímann, sem þú gefur þér til að pæla í þessu og ná þannig hámarkssparneytni, hefurðu mjög hátt tímakaup. Einn lítri af bensíni sem sparast á hverja hundrað km spara þér 9-10 þús. kr. á ári sé bílnum ekið um 10 þús. km.

Gefið í (Power Mode)
Viðbragð þegar gefið er í á miðlungs ferð (þegar lítið sog er í soggreininni, t.d. minna en 5" Hg á sogmæli) er fengið samkvæmt ,,Power Mode" á blöndunarferlistöflu (töflu A) fyrir viðkomandi gerð af blöndungi. Forðist að setja þetta blöndunarsvið vélarinnar upp með of veikri blöndu. Afleiðing þess verður neistabank (detonation/seinbruni) sem getur brennt stimpilkolla, ventilhausa og kerti. Séu einhver merki þess að blandan sé of veik á þessu sviði (hik, aflleysi, bank og hnökrar) ætti að styrkja hana tafarlaust með a.m.k. kverk fyrir 1 stigi sterkari blöndu - en sterkari blanda kemur í veg fyrir of mikinn hita í brunahólfum.

Uppsetning: Viðbragð
Eins og áður var lýst stjórna stimplar aflnálunum. Stimplunum er haldið í neðstu stöðu með sogi en þá er sverasti hluti nálarinnar í bensínkverkinni þannig að minnst bensín kemst í gegn. Undir stimplinum er gormur sem hjálpar stimplinum upp þegar sog minnkar við inngjöf en þá gengur nálin upp þannig að grennri hluti kónsins er í kverkinni og meira bensín kemst í gegn. Blöndungurinn kemur frá framleiðanda með gormi sem gefur sterka blöndu við sog upp á 5" Hg (appelsínulitur gormur). Eftir því sem sogið mælist meira því stífari þarf gormurinn að vera undir stimplinum (sjá töflu D) - ólitaði gormurinn (plain) er stífastur) og gefur þannig mest viðbragð við snögga inngjö þ.e þoli vélin það en kæfi ekki á sér.

Gangi vélin illa eða hikar þegar inngjöf er aukin frá miðlugsgjöf en lagast þegar gjöf eykst meira, má laga það (veikan punkt) með stífari gormum undir stimplunum. Bestur árangur næst þegar gormur er valinn á grundvelli sogmælingar, með sogmæli, en sé hann ekki fyrir hendi byrjar maður að prófa stífasta gorminn til að sjá hvort vandamálið hverfur. Ef það gerir það prófar maður einu stigi linari gorm og þannig stig af stigi þar til vandamálsins verður vart á ný - þá er skipt yfir í þann gorm sem var næst á undan (stífari).

Bæti stífari gormur ekki ástandið er orsökina að finna í röngu blöndunarferli (L/B-hlutfallið) annað hvort í uppsetningunni fyrir ,,Á ferð" (Cruise Mode) eða ,,Gefið í" (Power Mode). Notaðu blöndunarferlistöflu (A fyrir 1405) fyrir viðkomandi gerð af blöndungi til að skoða þá möguleika og velja aðra uppsetningu.

UPPSETNING FYRIR TORFÆRU

Uppsetningin fyrir ,,Power Mode" eða fullt afl gildir fyrir torfæruakstur. Hins vegar fylgir torfæruakstri hliðarhalli sem getur orsakað yfirfyllingu blöndungsins séu ekki geraðr sérstakar ráðstafanir. Hjá Bílabúð Benna fást plaststykki sem nota má til að loka rásinni á milli hægri og vinstri flothólfa. Með því móti flýtur ekki úr öðru hólfi yfir í hitt í hliðarhalla og hætta á að blöndungurinn yfirfylli sig er þá nánst úr sögunni. Innsprautukerfi er ekki nauðsynlegt í torfæru - Edelbrock Performer með réttum búnaði er miklu ódýrari lausn.

INNSTILLING VIÐBRAGÐSDÆLU

Ef vart verður við hik við inngjöf eða að vélin drepur á sér við snögga inngjöf án þess að ástæða sé til að ætla að það sé vegna uppsetningar með of veikri blöndu (blöndunarferlistaflan) eða að vandamálið hafi verið til staðar án breytingar þegar verið var að setja blöndunginn upp, berast böndin að viðbragðsdælunni. (Of sein kveikja eða of lítil sogflýting (ef hún er stillanleg) getur einnig verið orsökin). Á viðbragðsdæluarminum eru 3 göt. Prófaðu að færa teininn einu gati ofar (nær blöndungnum). Við það eykst slaglengd viðbragðsdælustimpilsins og vélin fær meira magn og sterkari blöndu við snögga inngjöf. Versni ástandið við þessa aðgerð en lagast við að setja linari gorm undir stimpla aflnálanna (tafla D) þýðir það ekki að vandamálið hafi verið leyst (því vélin skilar ekki endilega hámarksafli þótt hún koki ekki við inngjöf) heldur að uppsetningu blöndungsins megi bæta. Þá ætti að pæla meira í töflu A.

STILLING FLOTHOLTA

Nýr blöndungur er næstum undantekningarlaust með rétta stillingu flotholta, þ.e. hæð/stöðu (level) og fall (drop). Þurfi hins vegar að endurstilla hæð/stöðu flotholtanna skal gera það með pakkninguna á lokinu. Hvolfið lokinu og mælið fjarlægðina á milli pakkningarinnar og flotholtsins fjærst löminni. Þessi fjarlægð á að vera 11,1 mm (7/16") og nefnist flotholtsstaða. (myndir nr. 8 og nr. 9). Staðan er stillt með því að beygja lömina á flotholtinu. Flotholssfallið, mælt með lokið upp og flotholtið niður, á að vera 31,7 mm (1 ¼"), þ.e. frá pakkningu og niður á flotholtið fjærst löminni. Stillingin er gerð með því að beygja flipann aftan á flotholtslöminni. Varist að þrýsta ekki flotholtslokanum (nálinni) í botn þegar hæð/staða flotholtsins er mæld - það á að liggja óþvingað á lokanum. Gætið þess einnig að flotholtin séu bæði nákvæmlega eins stillt.

STILLING INNSOGS

Stilling innsogsins er sýnd á myndum nr. 10 og nr. 11. Stillingin er gerð með kaldan blöndung. Edelbrock Performer blöndungurinn er fáanlegur með handvirku innsogi eða sjálfvirku (rafknúnu). Rétt stillt sjálfvirkt innsog: Þegar vélin hefur hitnað og innsogsspjaldið hefur rétt sig upp á að vera 2,5 mm bil á milli brúnar spjaldsins og blöndungshússins (C á mynd nr.10). Stilling er gerð með því að beygja teininn (B á mynd nr. 10).
Lausagangur á innsogi er stilltur með skrúfu (A á mynd nr. 11). Stillið skrúfuna þannig að endi hennar sé á milli hakanna á kambinum, lokið inngjafarspjaldinu með fingri án þess að þvinga það. Í þessari stöðu á bilið á milli brúnar inngjafarspjaldsins og blöndungshússins að vera rétt innan við 1,2 mm. Stilling er gerð með því að beygja teininn (D á mynd nr. 11).

Algeng stilling snúningshraða á upphitunartíma er 1500 sn/mín. Til að ná þeim snúningshraða má nota stilliskrúfuna á meðan vélin gengur köld.

Rafstýrða innsogið virkar í ákveðinn tíma. Lengd þess tíma ræðst af því hvernig lokið er stillt. Efst á því eru mælistrik. Skrúfurnar eru losaðar og lokinu snúið réttsælis til að lengja innsogstímann en rangsælis til að stytta hann. Til að ganga úr skugga um að rafknúið innsog sé rétt stillt er lofthreinsarinn tekin af þegar vélin hefur náð eðlilegum vinnsluhita. Skrúfurnar á plastlokinu eru losaðar og lokinu snúið þar til inngjafarspjaldið er í lóðréttri stöðu (fullopið). Hafa ber í huga að innsog þarf að stilla öðru hverju, stilling að sumri til hentar ekki að vetri til.

LOKAORÐ

Ég hef hér fjallað um uppsetningu og stillingar á Edelbrock Performer blöndungnum fyrir venjulegan akstur. Í enska bæklingnum sem fylgir blöndungnum er lítillega fjallað um blöndunginn þegar hann á að nota í keppnisbílum, með mismunandi tegundum eldsneytis og með forþjöppu. (bls. 16 og 17). Þá er rétt að minna á að sérstakar ráðstafanir þarf að gera til þess að Edelbrock Performer blöndungurinn henti í jeppum sem aka í miklum hliðarhalla t.d. á fjöllum. Einföld aðgerð kemur í veg fyrir að bensínið geti flotið á milli hólfa og út úr öðru þeirra og niður í hálsinn (yfirfylling). Sé um slíkt að ræða er notandanum bent á að hringja í síma 590 2000 og ræða málið við starfsmenn Bílabúðar Benna og vitna í þessa grein sem þeir eiga að þekkja til.


_______________________________________________________

Vefsíða Leós ®
http://www.leoemm.com
Netfang höfundar