Ford E350 Cargo XL
eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing

Þegar sendibíll er framleiddur óbreyttur í grundvallaratriðum í 16 ár hlýtur hann annað hvort að vera mjög góður til sinna nota eða úreltur. Ford Econoline hefur breyst talsvert í útliti síðan hann kom með sjálfstæðri framfjöðrun upp úr 1990 en breytingar hafa ekki orðið neinar meiriháttar nema þær sem orðið hafa á vélunum eins og í öðrum Ford vinnubílum og jeppum. Og ekki er þessi vinnuþjarkur úreltur - svo mikið er víst.

Vinsældir Ford Econoline 150/250/350, eða E350 eins og sá nefnist sem hér er til umfjöllunar, eru meiri en flestra annarra sendibíla og gildir það jafnt um tvíhjóladrifs- sem fjórhjóladrifsbílinn. Ástæðurnar eru fleiri en ein og fleiri en tvær. Þeir sem þekkja þessa bíla eru yfirleitt sammála um að þeir seú einstaklega þægilegri við okkar aðstæður, ekki síst úti á landsbyggðinni; - þetta eru engar láglendispútur enda með 6 lítra V8-dísilvél (vélinni er lýst nákvæmlega í grein um Ford F250 Pickup í kaflanum BÍLAPRÓFANIR).

Vinnuþjarkur í sérflokki. 325 ha PowerStroke dísilvél og sjálfskipting. Sæti fyrir 2 farþega auk bílstjóra. Þennan bíl selur IB á Selfossi fyrri svipað verð og nýjar evrópskar láglendispútur kosta með 2,2ja lítra dísilvél !!

Þeir sem þurfa sendibíl til að flytja vörur á misgóðum vegum og í fjalllendi eins og fyrir vestan, norðan og austan ættu að kunna að meta kosti Ford E350 með 325 ha PowerStroke dísilvélinni. IB á Selfossi hefur verið að flytja þessa bíla (afturhjóladrifna) inn frá Kanada lítið ekna af árgerðum 2005 og 2006 fyrir um 3 mkr. Þeir bílar eru betur búnir en þeir sem seldir eru á bandaríska markaðnum (XL með ýmsum útlitsbúnaði, rafknúnum rúðum ofl.).

Burðargetan með venjulegu 350 gluggalausu húsi (2 farþegar auk bílstjóra) með aftur- og hliðardyrum er um 2 tonn. Eigin þyngd er um 2,8 tonn og dráttargeta um og yfir 3 tonn. Flutningsrýmið er 7245 lítrar.

Aflmikill og sparneytinn vinnu/flutningsbíll sem þolir fulla hleðslu og íslenska fjallvegi.
Með seiglæstu mismunardrifi (hlutfall 3,73) eða 100% læsingu (ARB) er hann fær í flestan sjó á 245/75 R16 dekkjum.

* Árni Brynjólfsson rennismiður í Hafnarfirði á lítið notaða hjólastólalyftu fyrir svona bíl sem hann vill selja á hálfvirði (325 þús. kr.) Lyftan er með öllum búnaði og í upphaflega kassanum.

Heildarlengdin er 5,4 m. Breiddin 2,05 m (f. utan spegla), hjólhafið 3,5 m og hæðin 2,14 m á 16" felgum. Breidd gólfsins á milli hjólskálanna er 1,34 m. Þvermál snúningshrings er tæpir 12 metrar.

Að framan eru tvöfaldir I-bitar með klöfum og gormum (sjálfstæð fjöðrun). Að aftan eru blaðfjaðrir. Vökvastýri (snekkjumaskína), bremsur með diska að framan en skálar að aftan og ABS.

Aðrar bílaprófanir

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar