Chevrolet Corvair af 2. kynslóð 1965-69:

Bar af öðrum amerískum bílum

Seinni grein eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing

Í fyrri greininni um Chevrolet Corvair hafði verið sagt frá kappakstursmanninum John Fitch en hann breytti beinskiptum 4ra gíra Corvair Monza af árgerð 1964 í fullvaxinn Gran Turisimo-bíl með endurbótum á vél, fjöðrun, stýrisgangi, bremsum og hjólabúnaði. Hann nefndi bílinn Corvair Fitch Sprint. Með léttmálsfelgum, radíaldekkjum, aukaljósum og litborða fékk Fitch Sprint auk þess ákveðinn einkenni og skar sig úr. Með því að bæta 2 blöndungum við þá tvo sem fyrir voru og lítilsháttar breytingu á kveikju jókst vélaraflið um ein 30 hö í 140. Bandarískum blaðamönnum, sem prófuðu Fitch Sprint, kom á óvart hve aksturseiginleikar bílsins voru góðir og hve skemmtilegur hann var sem sportbíll, sérstaklega þegar þess var gætt að Fitch Sprint kostaði liðlega 20% meira en upprunalegur 2ja dyra Corvair Monza. John Fitch, sem var kominn á efri ár 1964, hafði m.a. keppt á Jaguar, Mercedes-Benz og Ferrari, m.a. í keppnisliði Brigg Cunninghams, á helstu kappakstursbrautum Evrópu á árunum á milli 1950 og 1958. Hann vissi upp á hár hvers konar efniviður Chevrolet Corvair var. Fleiri áttu eftir að feta í fótspor hans. (1993 kom út bók í Bandaríkjunum með æfisögu John Fitch. Hún nefnist ,,Racing Through Life" og er eftir James Grinnell. Í 10. kafla bókarinnar segir John Fitch frá því þegar hann stofnaði fyrirtæki sitt í Falls Village í Connecticut til þess að setja á markaðinn breytingarbúnað og breytta Corvair sportbíla en efniðviðurinn var ,,fyrsti öðru vísi og áhugaverði bíllinn frá GM", eins og hann orðar það).

Þótt undirritaður ætti marga Corvair, á sínum tíma, átti hann ekki gangfæran Monza af árgerð 1964. Af lestri ýmissa greina um bílinn og eiginleika hans má sjá að mörgum, sem kynnst höfðu Corvair Monza af árgerð 1964, fannst merkilegast að bíllinn skyldi hafa verið framleiddur í Bandaríkjunum en ekki t.d. í Frakklandi.

2. kynslóðin af Corvair

Af ýmsum ástæðum, sem getið var í fyrri greininni (bók Ralp Naders og fjölmiðlafár), vakti frumsýning nýs og gjörbreytts Corvair þann 24. september 1964 ekki þá athygli sem bíllinn hefði átt skilið. Ekki bætti úr skák að þann 17. apríl 1964, tæpu hálfu ári áður hafði Ford Mustang með V8-vél verið frumsýndur - draumabíll hins ameríska Jóns Jónssonar, sem gaf blankan skít í sportlega aksturseiginleika ef línurnar voru í lagi og rétt hljóð úr púströrinu. Þá bætti það heldur ekki úr skák að framleiðandinn sjálfur (GM) hafði ákveðið að þetta yrði síðasta kynslóðin af Corvair. Það er því engin furða þótt salan ryki ekki upp úr öllu valdi.

Chevrolet Corvair 500 4d hard top 1965. Ódýrasta gerðin af 4ra dyra. Stílhreinn bíll sem gæti þess vegna hafa verið ítalskur og heitað Iso Quattroporte og kostað 10 sinnum meira. Ljósmynd: Collectible Automobile. Tveggja dyra Monza af árgerð 1965. Eigin þyngd var 1.220 kg en vélin gat verið 110, 150 eða 180 hö. Ljósmynd: Collectible Automobile.

 

Grundvallarhönnunin var óbreytt því vélin var aftur í bílnum og sjálfstæð fjöðrun á hverju hjóli. Vélin var í öllum aðalatriðum sú sama og í 1. kynslóðinni. Slagrýmið hafði verið aukið í 2,69 lítra (164 cid) og ýmsar smærri endurbætur höfðu verið gerðar á vélinni sem nú var fáanleg í 3 útfærslum, 110 hö með 2 blöndungum, 140 hö með 4 blöndungum og 180 hö með afgasþjöppu. Fjöðrunin að framan var lítið breytt klafafjöðrun. Að aftan var komið nýtt hjólastell sem var í aðalatriðum sama hönnun og afturhjólastellið í Corvette nema að því leyti fullkomnara að hjá Corvair voru gormar en ekki þverfjöður eins og í Corvette. Stærsti kostur þessa hjólastells er mjög lítil fjaðrandi vigt hjólanna og með mörgum liðamótum og drifsköftum, með hjörulið út við hjól og upp við drif, myndar lóðlína hjóls rétt horn með vegyfirborðinu án tillits til álags í beygju. Með þessu móti næst meira veggrip en með flestum ef ekki öllum öðrum afturstellum. (Ýmsir evrópskir bílaframleiðendur tóku upp sambærilega hönnun mörgum árum seinna, Porsche t.d. 1977 og Volvo um 1990).

Einn sá fallegasti

Á meðal þess sem vakti sérstaka athygli var að nýi Corvair var án gluggapósta á hliðum, bæði 2ja og 4ra dyra, sem gaf honum mjög sérstaka línu. Tímaritið Car & Driver hældi nýja Corvair, ekki síst fyrir útlitið, en í tímaritinu var því haldið fram að árgerð 1965 af 2ja dyra Corvair Monza Coupe væri ef til vill einn fallegasti nýi bíllin sem þá hefði komið á markaðinn í heiminum. Þótt yfirmanni hönnunardeildar GM, Bill Mitchell væri þökkuð frábær hönnunin, sem dró greinilega dám af því sem þá var að gerast í ítalskri iðnhönnun, var það Ron Hill sem hafði teiknað bílinn árið 1962 þegar fyrsta kynslóðin af Corvair seldist sem best. Staðreyndin er sú að hvaða ítalska hönnunarstofa sem var hefði mátt vera upp með sér hefði hún átt einhvern þátt í að skapa þessar línur og form.

Undirvagninn, þ.e. hjólastell og fjöðrun, höfðu Frank Winchell og Zora Arkus-Duntov hannað og, eins og áður var á minnst, var hann í öllum aðalatriðum sá sami og Z. Arkus-Duntov hafði þróað fyrir Corvette Sting Ray.

Vél úr árgerð 1960. Corvair-vélin var í öllum aðalatriðum óbreytt í 2. kynslóðinni að öðru leyti en að alternator kom í stað dínamós, slagrými jókst í 2,7 lítra og aflið í 110 og 140 hö. Á sama hátt og loftkældu vélarnar í VW-bjöllunni og Porsche var Corvair-vélin með öllu á og tekin í heilu lagi úr bílnum. Ljósmynd: Chevrolet. 180 ha vélin var búin einni afgasknúinni forþjöppu. Fáir raðsmíðaðir bílar áttu nokkurn möguleika í 180 ha Turbo-Corvair. Ljósmynd: Chevrolet.

 

Þótt salan tæki vissulega kipp, en af árgerð 1965 seldust 204.007 bílar, dró síðan jafnt og þétt úr henni með hverju árinu sem leið þar til yfir lauk en alls munu um 6.000 Corvair hafa verið framleiddir af árgerð 1969 en á því ári seldist rúmlega helmingur þeirra eða 3.103 bílar. Það er líklega ekki á margra vitorði að strax 1965 voru forgerðir að 3. kynslóðinni af Corvair smíðaðar þótt ekkert yrði af frekari þróun.

Breytt lína

Fyrsta kynslóðin af Corvair var boðinn í þrenns konar útfærslu; 500 sem var ódýrust, 700 (Deluxe) sem var nokkru dýrari og betur búin og 900 (Monza). Með 2. kynslóðinni, 1965, hvarf 700-gerðin en í hennar stað kom ódýrari gerð af 2ja og 4ra dyra Monza (Series 105) með 110 ha vél. Ódýrasta gerðin var áfram 500 (Series 101), 2ja og 4ra dyra með 95 ha vél sem staðalbúnað. Dýrari og betur búin gerð nefndist Corsa (Series 107) og var einungis 2ja dyra. Sá var með sama búnað og Monza en með mun vandaðra mælaborð, reyndar eitt það flottasta í amerískum bíl frá 7. áratugnum. Í Corsa var vélin ,,tjúnuð" og með 4 blöndunga í stað tveggja í Monza. Hámarksaflið var 140 hö.

1965 var ekki boðið upp á Spyder blæjubílinn en síðasta árgerðin af Spyder var 1964. Þess í stað var Corsa fáanlegur með 180 ha afgasþjöppuvél bæði Coupe og blæjubíllinn. Corsa-gerðin var einungis fáanleg af 2 árgerðum, 1965 og 1966. 1967 var síðasta árgerðin af 4ra dyra Corvair. Víða gætir misskilnings varðandi 2. kynslóðina af Corvair með 180 ha afgasþjöppuvélinni. 180 ha ,,túrbó-gerðin" var einungis fáanleg af árgerðum 1965 og 1966 og er það frekari staðfesting á því sem áður var nefnt að GM hefði dregið úr áherslu á Corvair frá og með 1965. Þess í stað tefldi það fram bílum, sem líklegri voru til að keppa um kaupendur við Mustang, svo sem Chevrolet Camaro og Pontiac Firebird sem birtust 1967.

Og þótt það sé ef til vill útúrdúr hér má nefna að afgasþjöppuvélarnar sem GM framleiddi fyrir Corvair með þjöppum frá TRW og síðar Rajay árin 1962-64 og 1965-66 voru um 50 þúsund talsins og því stærsta upplag sem um getur af turbo-vélum. Og því til viðbótar má nefna, til gamans, að einn þekktasti ,,Turbo-Guru" heims, Bandaríkjamaðurinn Hugh McInnes, sem skrifað hefur metsölubækur um ,,turbo-tækni" (,,Turbochargers" útg. HP-Books), á Corvair Corsa Turbo af árgerð 1965 sem hann þenur á kappasktursbrautum vestra um helgar með góðum árangri. Eins og við er að búast hefur Hugh McInnes ekki látið sér nægja upprunalega afgasþjöppukerfið heldur breytt því þannig að þjöppurnar eru tvær og hámarksaflið rúm 300 hö.

Sendibíllinn með gluggum, Corvair Greenbrier Sport Wagon, var framleiddur í síðasta sinn sem árgerð 1965, í grundvallaratriðum óbreyttur frá því hann birtist fyrst 1961 en með glæsilegri innréttingu og betur búinn.

Chevrolet Corvair Corsa 140 ha 1965. Þessi var með 4 blöndunga og heitari kambás, vandaðri innréttingu og betur búnu mælaborði. Jón Hermanníusson kaupmaður í Kópavogi átti svona hvítan bíl lengi en sonur Jóns mun eiga bílinn nú. Ljósmynd: Collectible Automobile. Einn af Corvair-bílum greinarhöfundar. Þessi var af síðustu árgerðinni 1969, fluttur inn rúmlega ársgamall 1971frá Vestur-Virginiu. Ljósmynd tekin 1974. Þessum bíl var ekið í tilraunaskyni á propangasi, um tíma árið 1977, löngu áður en methangas frá Sorpu var notað sem eldsneyti og löngu áður en hin makalausa pólitíska ,,vetnisdella" hófst. Ljósmynd: Leó M. Jónsson.

 

Á undan Volvo með bílbeltin

Corvair 1965 var einn fyrsti ameríski bíllinn sem var með bílbelti sem staðalbúnað. Af framleiddum Corvair 1965 var rúmur helmingur með sjálfskiptingu og rúmur þriðjungur með 4ra gíra beinskiptan kassa. Körfustólar voru staðalbúnaður í Monza og Corsa en 23% bílanna voru með framsætisbekk. 180 ha Corsa Turbo fór kvartmíluna á 18 sekúndum og 127 km/klst. Hámarkshraðinn var 181 km/klst.

Bæði Monza og Corsa skáru sig úr frá ódýrustu gerðinni með krómuðum hjólbogalistum. Annars var öllu krómi og ytra skrauti mjög stillt í hóf enda þykir 2. kynslóðin af Corvair einstaklega stílhreinn bíll.

Chevrolet Corvair Monza GT var einn af sýningarbílum GM . Hann var smíðaður 1962. Undirvagn var eins og í Corvair-fólksbílnum að öðru leyti en því að í stað gormafjöðrunar voru vindustangir og diskabremsur í stað skála. Túrbó-vélin var 250-270 hö. Ljósmynd: Chevrolet Division of General Motors.

Keppnisbíl

Á 8. áratugnum var Corvair af öllum árgerðum vinsæll keppnisbíll í Bandaríkjunum. Bílar af 1. kynslóðinni kepptu í rallakstri, sveitavega- og brautarkeppnum með mjög góðum árangri. Á meðal margfaldra sigurvegara var Doug Roe á breyttum Corvair Turbo af 1. kynslóð sem vann nánast hverja einustu keppni sem hann tók þátt í, Dick Griffin á 180 ha tjúnuðum 1964 Spyder vann sinn flokk á NHRA National Drags tvisvar í röð og Tom Keosababian hefur sett hvert hraðametið af öðru á Bonneville saltsléttunni, síðast í augúst 1974 þegar hann náði 272 km/klst á Corvair Corsa Turbo 1965 og þá er rétt að hafa í huga að þótt afgasþjöppurnar á vélinni séu tvær er slagrýmið einungis 2,69 lítrar.

Og hafi einhver haldið að áhuginn á Corvair hafi minnkað í Bandaríkjunum þá er það misskilningur. Corvair-klúbbar eru starfandi nánast út um allt. Varahlutaverslanir og framleiðsla á hlutum fyrir Corvair blómstra og um helgar sýna Corvair-eigendur bíla sína og margir þeirra taka þátt í aksturskeppnum af lífi og sál. Corvair hefur það m.a. umfram aðra bíla frá 7. áratugnum að vera jafn sparneytinn og með jafn litla mengun í útblæstri og smærri bílar sem framleiddir voru 2 áratugum seinna. Til að sannfærast um stöðu Corvair má slá upp leit á www.yahoo.com með Corvair eða Chevrolet Corvair sem leitarlýsingu.

Fyrri grein um Corvair

Netfang höfundar

Til baka á forsíðu