Sportbíllinn AC Cobra

Breska fyrirtækið Auto Carriers varð til árið 1904 þegar tæknifræðingurinn John Weller hóf samstarf við slátraran John Portwine um framleiðslu á þriggja hjóla vélknúnu sendiferðahjóli. Heiti fyrirtækisins var breytt 1922 í AC Cars Ltd. og aftur 1927 í AC (Acedes) Ltd. 1929 fór allt saman á hausinn og bílaframleiðslu AC var hætt. Vorið 1930 keyptu bræðurnir William og Charles Hurlock, bílasalar í Brixton, fyrrum fasteignir AC í bænum Thames Ditton og hugðust nota þær sem geymslur. Fyrrum starfsmaður AC setti saman einkabíl handa William úr AC-afgangshlutum. Sá reyndist svo vel að bræðurnir réðust í að koma bílaframleiðslunni aftur af stað og kynntu hana m.a. með þáttöku sinni í rallakstri þar sem þeir náðu góðum árangri.

1951 var AC gert að hlutafélagi á almennum markaði. Árið 1953 kynnti lítt þekktur breskur tæknifræðingur, John Tojeiro, stjórnendum sportbíl sem hann hafði hannað og smíðað. Sá bíll þótti um margt merkilegur á sínum tíma; með grind úr rörum, þverfjaðrir sem mynduðu sjálfstæða fjöðrun fyrir hvert hjól, boddí úr áli (eins og Ferrari) og 2ja lítra Bristol-vél. Ágæti þessarar hönnunar skilaði bílnum fyrstum í mark í hverjum kappakstrinum á fætur öðrum. AC keypti framleiðsluréttinn af Tojeiro, réði hann til starfa, nefndi bílinn Ace og framleiddi í einni og annarri mynd fram á 7. áratug 20. aldar.

Ace vann 2ja lítra flokkinn á Le Mans 1957 og SCCA-keppnina í Bandaríkjunum öll árin 1957-1961. Sú frammistaða varð til þess að kjúklingabóndinn, fyrrum reynsluflugmaður, kappakstursmaðurinn og Aston Martin-reynsluekillinn Caroll Hall Shelby frá Texas, fékk augastað á bílnum og tókst að fá stjórnendur hjá Ford til að samþykkja að leggja til V8-vél til að nota með Ace-undirvagninum. Af því fyrirtæki er talsverð saga.

Rekstur AC gekk ýmist vel eða illa í Bretlandi. Árið 1966 kom AC 428 GT, stór lúxussportbíll með 7 lítra Ford V8-vél og boddí hannað af ítalska Frua. 80 slíkir bílar voru framleiddir á 7 árum en orkukreppan upp úr 1973 gerði út af við hann eins og marga fleiri eyðslufreka bíla. AC var selt til Skotlands sem liður í ,,byggðastefnu-verkefni" en þar fór allt til andskotans og 1985 var AC endanlega úr sögunni.

En aftur að Shelby kjúklingabónda: Hugmynd hans var að sameina í einum bíl góðan breskan undirvagn og öfluga, ódýra ameríska vél. Þótt Ace-sportbíllinn breski hefði náð góðum árangri í kappakstri reyndist hann ekki vera jafn góður og Shelby hafði búist við. Bíllinn hafði vissulega staðið vel að vígi tæknilega, miðað við það sem gekk og gerðist með breska sportbíla upp úr 1950, en Shelby taldi sig þekkja frábæra sportbíla-undirvagna Breta. Sannleikurinn er hins vegar sá að hefði Aston Martin ekki verið of upptekið til þess að geta gengið til samstarfs við Shelby, þegar hann leitaði til þess, hefði hann áreiðanlega ekki valið Ace-bílinn.

Nýja Ford V8-vélin (260-289-302) var vissulega ný, einstaklega vel heppnuð og fersk. En undirvagn Ace-bílsins hafði einfaldlega dagað uppi - hvernig átti annað að vera þar sem upprunalega hönnun Tojeiro frá því fyrir 1950 byggðist á þverfjöðrum úr píslinni Fiat Topolino? Þótt fjöðrunin dygði í keppnisakstri stóðst hún engan vegin þær kröfur sem gerðar voru til sportbíla árið 1960 - hvorki varðandi fjöðrun né aksturseiginleika.

En þrátt fyrir þessi mistök varð stuðningur stórra karla hjá Ford, sérstaklega þeirra Lee (sem reyndar hét Lido að fornafni) Iacocca og Don Fray, til þess að Shelby lagði ekki árar í bát. Samningar tókust um að AC endurhannaði undirvagn bílsins fyrir nýju Ford V8-vélina, framleiddi undirvagninn og boddíið, Ford leggði til vélar og drifbúnað en bíllinn skyldi settur saman í Bandaríkjunum á vegum Shelby. Jafnframt var um það samið að fyrirtækið Shelby American myndi selja bílinn í Bandaríkjunum og skyldi hann nefnast Cobra.

Fyrir AC var þetta draumur í dós þar sem það fékk leyfi til að nota Ford V8-vélar í þá sportbíla sem það kynni að framleiða í eigin nafni og hefði getað skapað því bjarta framtíð hefði ekki almenn vesöld í breskum iðnaði orðið því sem fleirum að fótakefli.

Ace-undirvagninum var breytt. Sporvíddin var aukin, röragrindin gerð stífari; notaðar öflugri þverfjaðrir og ýmsu breytt til að þessi stóra V8-vél kæmist fyrir. Fyrsti Cobra-bíllinn kom á götuna 1962. Sá var með 260-V8-vél (4,26 lítrar) og nefndist MkI. Af þeirri gerð voru framleiddir 75 bílar. Þessi Cobra vakti strax mikla athygli vegna gríðarlegs afls og getu. Og hraðskreiður var hann; - náði 314 km hraða sem þótti ofboðslegt á þessum tíma enda léku það fáir eftir aðrir en hreinræktaðir kappakstursbílar.

Næstu Cobra-bílarnir voru með stærri vél, 289-V8 (4,73 lítra), hún var sögð 270 hö og 370 eftir að Shelby hafði tjúnað hana. Bæði Cobra MkI og MkII voru rosalegir sportbílar sem voru í aðalhlutverki hvar sem þeir birtust enda segir sig sjálft að bíll sem vegur um 1000 kg og er með um 300 ha vél er ekkert blávatn - enda var ekkert á götunum sem átti möguleika á móti Cobra og það fengu bæði Ferrari og Corvette að þreifa á í kappakstri bæði í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu árin 1965-1968 og aftur 1973. Frægastur varð þó Cobra fyrir að vinna alþjóðlega (FIA) GT-meistaratitilinn af sjálfum Enso Ferrari og vakti sá rassskellur mikla athygli.

Megi trúa opinberum tölum frá Shelby American voru 1070 Cobra framleiddir. Sjálfur telur Caroll Shelby Cobra MkII-bílinn með 289-vélinni best heppnaðan - hann á reyndar sjálfur, prívat og persónulega, fyrsta og síðasta bílinn í MkII-rununni. Þótt MkIII nyti þess að vera með endurbættan undirvagn, m.a. gorma í stað þverfjaðranna og öflugri hjólfestingar (klafa uppi og niðri við hvert hjól), reyndist aukin þyngd stærri 7-lítra vélarinnar (427 cid úr Ford Galaxy) rýra eiginleika bílsins sem ekki þótti jafn skemmtilegur og MkII. Til þess að ráða bót á þessu setti Shelby saman endurbættan bíl sem hann nefndi Cobra Daytona og voru 6 slíkir bílar framleiddir 1965.

Ýmsar smærri útlistbreytingar urðu á Cobra svo sem stærri hjólbogar, stærra grill o.fl. Þó hélt bíllinn sínum upphaflega stíl og útlitshönnun allan þann tíma sem Shelby framleiddi gripinn. Þessi merkilegi sportbíll sem nefnist einfaldlega Cobra (hvorki AC Cobra né Shelby Cobra eins og sumar eftirlíkingar en af þeim er mikið úrval) og ekkert annað en Cobra ef frá er talið afbrigðið Cobra Daytona. Bíllinn er upphaflega útlitshannaður af John Tojeiro og er af þeirri gerð sem nefnist ,,barchetta" á Ítalíu (aðrir frægir bílar þessarar gerðar 1953-1956 voru t.d. Jaguar D-Type og Ferrari Monza 750). Breytingin sem gerð var á Ace-bílnum fyrir Shelby upp úr 1960 var hönnuð hjá AC í Bretlandi.

Það segir heilmikið um Cobra sportbílinn að þótt hann hafi komið á markaðinn 1962 er enn verið að keppa á honum í sportbílakappakstri og hann virðist hafa í fullu tré við 30-40 árum yngri tæki.

Copyright © Leó M. Jónsson

Netfang höfundar

Fleiri greinar um bíla

Greinar um prófanir nýrra bíla

Aftur á forsíðu