Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:
Honda Cicic 2006

Þeir sem fullyrða að allir bílar séu orðnir eins; engir skeri sig úr og varla hægt að greina tegundir sundur, hafa talsvert til síns máls - jafnvel þótt sumir franskir bílar séu þannig í laginu að ekki sé hægt að átta sig á því hvort þeir séu að koma eða fara. Ódýrari amerískir fólksbílar frá GM hafa t.d. verið svo staðlaðir í útliti að nánast enginn sjáanlegur munur hefur verið á Chevrolet og Buick s.l. 10 ár eins og þeir þekkja sem hafa notfært sér hagstæð kjör flugfélaga á bílaleigubílum í Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir stanslausar rokufréttir af stórkostlegum framförum í tækni og tæknibúnaði (en bensínvélin er í grundvallaratriðum jafn frumstæð og hún var fyrir 100 árum!); - sögur af tæknibúnaði sem jafnvel er fullyrt að taki fram fyrir hendur á bílstjóra áður en hann fer sér að voða; sjálfvirkni og alls konar þægindabúnaði (vantar bara að bílstjórinn sé vakinn á leiðarenda) er obbinn af venjulegum fólksbílum sláandi líkir þegar sest er undir stýri. Mesti munurinn er á verðinu og þjónustunni.

Nýr Honda Civic mun koma mörgum rækilega á óvart og gæti reynst bæði Ford Focus og VW Golf skæður keppinautur, a.m.k. er hann þegar orðinn það í nágrannalöndum.

Formúlan: Metsölubíll
Áratugum saman hafa svonefndir bílablaðamenn jarmað stanslaust um hina og þessa kosti sem þeir þykjast sakna í hverjum nýjum bílnum á fætur öðrum. Þegar bílaframleiðendur hafa reynt að koma til móts við kröfurnar hafa kaupendur jafn oft lítið viljað gefa fyrir þær. Stærstu bílaframleiðendur, svo sem VW og Ford, hafa fyrir löngu talið sig hafa pottþétta formúlu fyrir metsölubílnum, en hluti hennar er fólginn í auglýsingatækni samanber VW Golf og Ford Focus.

Hoggið á hnútinn
Það var kominn tími til að brjóta ísinn, a.m.k. að hrjóta í nýrri tóntegund, og það var Honda sem tók af skarið með nýjum Civic. Það mætti næstum skrifa "nýjum" með stórum stöfum og feitu letri því Civic af árgerð 2006 er fyrsti raunverulegi nýi bíllinn í þessum stærðarflokki í langan tíma - a.m.k. að mínu mati. Engu að síður þykist ég vita að Honda Civic muni fara fram hjá mörgum og af ýmsum ástæðum. Þótt fæstar séu þær bílnum að kenna mun sérkennilegt útlitið fæla margan íhaldsaman kaupandann frá - sumir þyrðu ekki að láta sjá sig á honum.

"Bíll unga fólksins"
Ekki er blöðum um það að fletta að Honda hefur tekið umtalsverða áhættu með nýjum Civic, jafnvel gagnvart tryggum Civic-aðdáendum sem talsverður hópur. Þessi Civic lítur út eins og hugmyndabíll á leið á alþjóðlega bílasýningu og við hlið hans er nýr Citroën eins og safngripur. Í Bretlandi, svo dæmi sé tekið, en bíllinn hefur vakið mikla athygli í sýningarsölum í miðborg London, hefur þessi magnaði Honda Civic skapað nýjan hóp kaupenda: Ungt fólk á hraðri uppleið.

Sumir munu þurfa að láta segja sér það tvisvar að japanskur bíll, en ekki franskur, veki sérstaka athygli fyrir djarfa hönnun.

Og nægi ávalar útlínurnar - egglagið ekki til að hneyksla þá sem eru gamaldags (eða fæddir gamlir) mun innréttingin, mælaborðið duga vel til þess - bara baklýsing mælanna er eins hjá geimverum í tölvuleikjunum.

Snjallar hugmyndir
Japanir hjá Honda sýna að Frakkar hafa ekki lengur einkarétt á framúrstefnulegum hugmyndum í bílahönnun. Sem dæmi um snjalla hönnun í Civic má nefna hraðamælinn sem horft er í gegn um, stýrishjólið og stillingar þess; bensíngeyminn sem er undir framstólunum (eins og í Jazz) - en rannsóknir hafa sýnt að þar er minnst hætta á að hann geti orðið fyrir hnjaski; takkar og stjórnbúnaður sem að lögun, virkni og staðsetningu auka þægindi bílstjórans í stað þess að fullnægja kröfum um samhverfu í stíl, stórir stillihnappar sem venjulegt fólk getur fundið og jafnvel lesið á o.fl. o.fl. Bara það eina atriði að bílstjórinn skuli geta stillt loftræstingu/hitun fyrir sig með einum hnappi en farþegi í framsæti valið aðra stillingu fyrir sig með öðrum hnappi, segir meira en langt mál, en til að fá slíkan búnað hefur þurft að kaupa miklu dýrari bíl, t.d. Cadillac eða Benz, fram að þessu.

Gírstöngin er nýstárleg en útpæld hönnun eins ýmislegt annað í þessum bíl. Speglarnir eru sérstaklega gerðir til þess að auðvelt sé að bakka bílnum í þröng stæði - hvers vegna eru ekki svona speglar á öllum bílum? En sjón er sögu ríkari - farið og skoðið þ.e.a.s. hafi umboðið bein í rófunni til að hafa bíl til sýningar - en þeir eru, þegar þetta er skrifað í febrúar 2006, enn með gamla Civic á vefsíðunni sinni (maður hefur stundum velt því fyrir sér hvort raunverulegt Honda-umboð sé á Íslandi eða bara útibú frá danska Honda-umboðinu!).

Vélbúnaður
Velja má á milli þriggja véla. Allar eru með yfirliggjandi kambás (tímakeðju). 1,4 lítra vélin (1.4i-DSI) er 83 hö við 5700 sn/mín. 1,8 lítra vélin (1.8i-VTEC) er 140 hö við 6300 sn/mín. Dísilvélin, en hún er 2,2ja lítra (2.2i-CFTI) er 140 hö við 4000 sn/mín. Hámarkstogið er 340 Nm við 2000 sn/mín. Þessi dísilvél þykir með þeim bestu á evrópska markaðnum. Hún er þýðgeng, eyðslan (5 dyra bíll) er rúmir 5 lítrar á hundraðið, CO2 í útblæstri er 143 g/km sem er sambærilegt við það sem best gerist. Af einhverjum ástæðum draga mörg bílaumboð lappirnar varðandi dísilvélar - enda má segja að einstakur þursaháttur stjórnvalda sé ekki beinlínis til að hvetja til fjölgunar dísilbíla - hvað sem líður öllu kjaftæðinu um mengunarvarnir!

Handskipting er 6 gíra og er fáanleg með öllum þremur vélunum. Með bensínvélunum er hægt að fá gírkassa með rafeindastýrðri sjálfvirkri kúplingu - hálfsjálfskiptingu sem Honda nefnir "I-Shift". Gírskiptingu má hafa sjálfvirka eða stjórna með hnöppum á stýrishjólinu. Þetta virðist eiga að vera einhvers konar málamiðlun gagnvart lífseigum fordómum um sjálfskiptingu á evrópska markaðnum - en Bretar t.d. virðast enn vera þeirrar skoðunar að sjálfskiptingar hafi ekkert þróast tæknilega síðan á tímum PowerGlide í amerískum Chevrolet upp úr 1950. Allar götur frá gamla SaxoMat-draslinu um 1965 hefur svona rafknúinn kúpling reynst illa, samanber Toyota Corolla o.fl.

Betri rýmisnýting
Með eldsneytisgeyminn undir framstólunum skapast möguleikar á miklu betri nýtingu rýmis aftur í bílnum. Með því að fella setur aftursætis upp að hliðunum myndast t.d. mikið rými í miðju bílsins með sléttum botni en það er einungis einn af mörgum möguleikum.

Innréttingin er 10 árum á undan tímanum og rýmisnýting einstök.

Maður situr hærra í þessum nýja Civic en í þeim eldri. Inn- og útstig er einnig auðveldara. Sætin eru með dýpri setum og betri bólstrun. Þetta er þægilegur 4ra manna bíll en, eins og flestir aðrir í þessum flokki, óþægilegur fyrir 3 fullorðna aftur í. Þæginda og öryggisbúnaður er eins og best gerist í þessum flokki bíla.

Eiginleikar - stærð
Aksturseiginleikar nýja 5d Civic myndu fremur teljast þægilegir en sportlegir. Tveggja dyra bíllinn er fáanlegur með "sportpakka" og auk þess má kaupa aflaukningu sem gerir hann að meiriháttar spyrnutæki.

Nýi Honda Civic er af sömu stærð og VW Golf. Hjólhafið er 2330 mm, þvermál snúningshrings 10,2 m, farangursrými 485/1352 lítrar , eigin þyngd rúm 1200 kg og mesta dráttargeta 1500 kg (dísill). Dísilbíllinn er sprækastur (8,3 sek 0-100) og hraðskreiðastur 202 km/klst. Verðið geri ég ráð fyrir að verði svipað og á dýrari VW Golf, sitt hvoru megin við 2 mkr. eftir gerðum.

Honda hefur alltaf þótt gangöruggur bíll og bilanatíðni hans er með því lægsta sem gerist. Hins vegar er ástæða til að geta þess að í könnunum á varahlutaverði, en þær eru gerðar m.a. af FÍB, hafa varahlutir í Honda verið dýrari en gengur og gerist (dýrastir samkvæmt könnunum Bílsins á sínum tíma). Varðandi varahlutaverðið er ástæða til að benda á að þörf fyrir varahlutaþjónustu hefur minna með bilanatíðni að gera en margur áttar sig á - óhöpp (árekstrar o.fl.) skapa þörf fyrir varahluti og það er ekki alltaf sem tryggingafélag greiðir fyrir þá. Ágætt dæmi um hátt verð á varahlutum í Honda, sem hefur ekkert með bilanatíðni að gera, er að ein pera í framljós á þessum Civic kostar 20 þúsund krónur (nú í febrúar 2007) - já þetta er ekki prentvilla - peran kostar 20 þúsund krónur - og svo hafa Volvo-eigendur orðið fyrir vægu áfalli þegar þeir hafa þurft að borga 8 þúsund krónur fyrir framljósaperu - þeir dyttu niður dauðir ef þeir ættu Honda!

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar