Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur skrifar um Porsche Cayenne:

Lúxusjeppi - sportbíll - torfærutröll

Porsche er þekktast fyrir smíði hreinræktaðra sport- og keppnisbíla. Árangur sportbíls ræðst af samspili vélarafls og aksturseiginleika. Lykilatriðið er veggrip. Um hálfrar aldar skeið hafa tæknimenn Porsche unnið að því að þróa tækni sem gerir kleift að tryggja hámarksveggrip bíls við ólíkar aðstæður. Með fjórhjóladrifi með tölvustýrðri aflmiðlun og mismunardrifslæsingum, gripstýringu, spólvörn, þaulhugsaðri fjöðrun og gríðarlega öflugum bremsum hefur Porsche skapað aksturseiginleika sem gera kleift að beita 500 hestafla vél í 911-sportbílnum sem vegur innan við 1600 kg. Lykilatriðið er veggrip.

Cayenne Turbo er stór bíll, hjólhafið er 2,855 m og eigin þyngd 2355 kg. Stærðin leynir á sér, t.d. er breidd bílsins 1,93 m.

Þessari sömu tækni beitir Porsche til þess að sameina kosti sportbíls og lúxusjeppa: Veggrip Cayenne-jeppans er með hreinum ólíkindum og gerir hann að einum öruggasta lúxusbíl á markaðnum. Sömu eiginleikar gera Porsche Cayenne jafnframt að torfærutrölli. Tæknin er útpælt samspil drifbúnaðar sem miðlar átaki með tölvustýrðum mismunardrifslæsingum, spólvörn og fjöðrun sem á sér líklega enga hliðstæðu í bíl. Með þessum búnaði er unnt að beita gífurlegu vélarafli bílsins með hámarksveggripi í torfærum. Geta Cayenne er undrunarefni - það er engu líkara en að þessi öflugi sportbíll sé á beltum í torfærum þótt hann sé á venjulegum hraðbrautardekkjum. Í Cayenne má beita driflæsingum bæði handvirkt og sjálfvirkt sem gerir ökumanni kleift að nýta vélaraflið til hins ítrasta.

Sjálfvirkar jafnvægisslár
Þá eru jafnvægisslár fram- og afturfjöðrunar með vökvaknúnum úrslætti þannig að þær má aftengja til að auka slaglengd fjöðrunarinnar og auka þannig veggrip hjólanna. Jafnvægisslárnar er ekki hægt að aftengja nema í lága drifinu. Þegar skipt er yfir í háa drifið og bíllinn nær 50 km hraða tengjast jafnvægisslárnar sjálfvirkt til að auka stöðugleika bílsins.

Reyndir jeppamenn vita að titringur getur dregið úr gripi hjóla í torfærum. Ein skýringin á því hve þessi stóri Porsche lúxusjeppi er duglegur í torfærum er mýktin - silkimjúkur gangur vélarinnar og seigt, mjúkt og hnökralaust átak drifbúnaðarins á sinn þátt í þessum eiginleikum.

"Alvörujeppi" með lágt drif
Lága drifið í Cayenne er með niðurfærsluna 2,7 : 1 sem er um þriðjungi meira en algengt er í jeppum. Þá er Cayenne fyrsti lúxusjeppinn með 6 gíra Tiptronic sjálfskiptingu með læsanlegri túrbínu. Með Tiptronic getur ökumaður handskipt milli gíra þegar honum sýnist. Tiptronic skiptingin er þannig hönnuð að bíllinn ,,lærir" aksturslag ökumannsins og stillir skiptipunktana eftir því. Með Tiptronic virka hefur ökumaðurinn jafnframt rafknúna beinskiptingu eins og í Formula 1 keppnisbíl. Skiptirinn er á stýrinu og þarf ökumaður ekki annað en að ýta á + eða - til að skipta upp eða niður. Tiptronic sjálfskiptingu stjórnar tölva og notar til þess ýmsar breytur svo sem snúningshraða vélar, álag, spólvörn o.fl. til þess að tryggja hámarksveggrip og bestu aksturseiginleika við ólíkar aðstæður. Bremsukerfið í Cayenne er öflugra en í nokkrum öðrum sportjeppa á markaðnum.

Gripstjórn og læsingar
Lága drifið er valið með rofa við hlið gírstangar. Í lága drifi virka nokkur kerfi samtímis: Gripstjórnin (PTM = Porsche Traction Management) velur sjálfvirkt viðeigandi gír og stýrir driflæsingum með til þess gerðu forriti. Í Cayenne Turbo breytir gripstýringin ABS-læsivörn, spólvörn og loftfjöðrun fyrir torfæruakstur um leið og lága drifið er valið. Porsche er fyrstur bílaframleiðenda til að bjóða samstætt kerfi af þessari gerð - þ.e. drifstýringu fyrir torfæruakstur þar sem sjálfvirkni kemur í veg fyrir mistök.

Sé torfæra slík að eitt eða fleiri hjól eru á lofti beitir drifstýringin læsingum fjórhjóladrifsins þannig að bíllinn stöðvast ekki - hann hefur alltaf veggrip á einhverju hjólanna svo fremi þau séu ekki öll á lofti samtímis. 100% millidrifslæsinguna má setja á með því að styðja öðru sinni á lágadrifshnappinn. Og eins og áður var nefnt má beita loftfjöðruninni í Cayenne Turbo til að ná enn betra gripi í torfærum.

Slaglengd fjöðrunarinnar er meiri í Cayenne en öðrum jeppum. Hæð undir lægsta punkt er 27,3 sm þegar fjöðrunin er í efstu stöðu.

5,6 sek í 100
Sérstök mismunardrifslæsing er fáanleg fyrir afturdrifið. Sú læsing er merkileg að því leyti að hún getur bæði verið sjálfvirk eða með handvirku vali - ökumaður getur valið mismunandi mikla læsingu eftir því sem hann telur hentugast, þ.e. allt að 100%. Til að læsa afturdrifi 100% þarf ökumaðurinn að styðja á lágadrifshnappinn þrisvar. Með afturdrifið læst að fullu er girt fyrir að nokkurt hjólanna geti spólað hvort sem veggrip þess er mikið, lítið eða ekkert. Til að auka stöðugleika bílsins í akstri á hálum vegi beitir tölva driflæsingu afturdrifsins á sjálfvirkan hátt t.d. 60%.

Ástæða er til að taka það fram að Porsche Cayenne, sem er af tveimur grunngerðum; S með V6 340 ha vél og Turbo með V8 450 ha vél, er með mismunandi drifbúnaði og mismunandi fjöðrun eftir því hvað kaupandinn velur og eftir því hvor gerðin er valin. Þannig má segja að hvern Cayenne getir kaupandi fengið klæðskerasaumaðan að eigin óskum.

Cayenne (eins og VW Touareg) er hannaður af Porsche. Cayenne er framleiddur að miklu leyti af Volkswagen en tölvu- og öryggisbúnaður er frá Porsche. Eftir að hafa séð grind og yfirbyggingu Cayenne framleidda í verksmiðjum VW í Bratislava í Slóvakíu hefur sú skoðun undirritaðs styrkts, að ,,íslensk ryðvörn" ofan á þá vönduðu tæringarvörn, sem þessir hlutir fá á framleiðslustigi, geti einungis verið til skaða.

Cayenne Turbo V8 er með tveimur pústþjöppum. Geti einhver jeppi á markaðnum státað af sambærilegri torfærugetu leikur hann það varla eftir að fara á 266 km hraða á hraðbrautum Evrópu án þess að hljóð inni í bílnum mælist meira í BMW 750. Hámarkstog er 620 Nm á öllu bilinu frá 2250 og upp í 4750 sm. Eyðsla 450 ha Cayenne Turbo er um 18 lítrar í borgarakstri, um 13 lítrar í lengri akstri en meðaleyðsla í blönduðum akstri er 15,6 lítrar. Dráttargeta er 3500 kg.

Porsche Cayenne: Loftfjöðrunin

Loftfjöðrun með sjálfvirkri og handvirkri hæðarstillingu
Cayenne S má sérpanta með loft/gorma-fjöðrun sem hins vegar er staðalbúnaður í Cayenne Turbo.

Með loftfjöðrun má hækka bílinn þegar þess gerist þörf og vegna sjálfvirkni breytist veghæð ekki þótt bíllinn sé hlaðinn. Og loftfjöðrunin gerir meira. Hún gefur bílnum aukna aksturseiginleika og eykur öryggi með því að lækka bílinn á sjálfvirkan hátt í ákveðnu hlutfalli af hraða.

Loftfjöðrunin hefur 6 hæðarstillingar. Sjálfvirk hæðarstilling er með 116 mm svið.

· Við venjulegar aðstæður er veghæð bílsins 217 mm (mælt samkvæmt DIN-staðli).
· Sé stillt á ,,Hleðslu" lækkar bíllinn - veghæðin minnkar um 60 mm í 157 mm. Sú veghæð á sér einungis stað þegar bíllinn stendur kyrr en hún auðveldar hleðslu. Um leið og ekið er af stað hækkar bíllinn og veghæðin verður 217 mm.
· Sé stillt á ,,Lága stöðu" lækkar bíllinn um 27 mm frá venjulegri veghæð og er þá með sambærilega aksturseiginleika og hreinræktaður sportbíll. Vindviðnám minnkar og fjöðrunin er stinnari þannig að stöðugleiki bílsins á miklum hraða verður meiri. Sé þessi staða valin lækkar bíllinn sjálfkrafa þegar hann nær 125 km hraða.
· Sé stillt á ,,Mjög lága stöðu" lækkar Cayenne sjálfkrafa um 11 mm til viðbótar (í 179 mm veghæð) þegar hann nær 210 km hraða.
· Sé bílnum ekið í torfærum má stilla fjöðrunina á ,,Háa stöðu" en þá eykst veghæðin um 26 mm (í 243 mm). Sú staða er einungis möguleg á innan við 80 km hraða.
· Með því að stilla fjöðrunina á ,,Hæstu stöðu" eykst veghæð bílsins um aðra 30 mm (í 273 mm). Sú staða er einungis möguleg á innan við 30 km hraða.

Tannstangarstýrið með vökvaaðstoð er hraðanæmt - miðjutregðan eykst með auknum hraða og það finnst greinilega í stýri. Til að auka þægindin breytist stýrið í ,,léttstýri" þegar því er beitt á mjög litlum hraða eins og þegar lagt er í stæði.

 

Porsche Cayenne er stór og rúmgóður en leynir á sér; um 4,8 metrar á lengd og rúmlega 1,9 metri á breidd. Hjólhafið er 2,85 m.
Til frekari glöggvunnar á stærð má nefna að botnskuggi Porsche Cayenne er 9,21 fermetri.
Botnskuggi Porsche Cayenne er 9,22 fm

Til frekari glöggvunnar má hafa botnskugga nokkurra jeppa:
Musso 8,67 fm
Landcruiser 100 9,48 fm
MMC Pajero 8,99 fm

Cayenne Turbo fer Norðurbrautina á Nürburg-hringnum á innan við 9 mínútum sem er um 30 sek. skemmri tími en hjá BMW X5 4.4i.

Í Cayenne er mjög rúmt um 5 manns. Farangursrými er 540 lítrar og má breyta í 1770 lítra flutningsrými með því að fella aftursætið sem er tvískipt í (65/35). Gólf flutningsrýmis er rennislétt. Afturhlerinn, sem opnast upp, er auk þess með opnanalega rúðu sem auðveldar aðgengi.

 

Porsche Cayenne: V8-vélin
450 ha V8 Twin Turbo-vélin í Cayenne að öllu leyti úr áli, vatnskæld með 90° blokkarhorni. Vélin skilar 100 hö og 137 Nm á hvern lítra slagrýmis - svo notaður sé mælikvarði vélahönnuða.

Smurkerfið er án biðu (dry sump) sem tryggir fullkomna smurningu án tillits til stöðu bílsins, t.d. þegar ekið er lengri tíma í miklum halla. Vélstýrikerfið (Motronic ME 7.1.1) er með innbyggt bilanagreiningarkerfi. Kveikjulaust neistakerfi og bein tölvustýrð insprautun heldur afgasmengun innan marka sem taka gildi 2007.

Heddin eru kapituli út af fyrir sig; 4 ventlar fyrir hvern sílindra og tveir kambásar í hvoru heddi. Heddin eru í tveimur sjálfstæðum hlutum; sá neðri inniheldur brunahólf, ventla, spíssa, kerti og kælivatnskápu en sá efri er með olíukælda kambásana. Kostur: Jafnari varmaþensla og auðveldara viðhald.

Kambar útventlanna eru innbyrðis með mismunandi form sem mýkir ganginn, eykur afl og sparneytni. Útventlar eru með sódíum-kælda hausa.

Kambásar sogventla breytast sjálfvirkt og stýra opnun ventlanna þannig að jafnt flæði sé inn í brunahólf hvert sem álag er og hver sem snúningshraðinn er. Árangurinn er m.a. mjög lítil afgasmengun.

Bremsur
Það gefur augaleið að jafn öflugur sportbíll í flokki lúxusjeppa og Porsche Cayenne þarf sérlega öflugar bremsur. Í því efni er heldur ekki komið að tómum kofanum því Cayenne er með 18" loftkælda diska að framan (um 50% meira þvermál en í flestum lúxusjeppum) og 17" diska að aftan - einnig loftkælda. Bremsudælur að framan eru úr hertu áli með 6 stimplum en 4 stimplum að aftan. Tölvustýrð ABS-læsivörn með þessum búnaði þýðir að stöðvunarvegalengd þolir samanburð við sportbíla sem hlýtur að teljast óvenjulegt þegar svo stór lúxusjeppi sem Cayenne á í hlut.

Lúxusbúnaður
Öryggis- og innstigsljós eru í öllum dyrum auk fótrýmislýsingar. Aðgengisljós eru innbyggð í baksýnisspeglana. Hanskahólfið (lýst) fæst með sérstakri kælingu. Tvöföld sólskyggni eru báðu megin fram í. Fá má regnnema til að stjórna rúðuþurrkum sjálfvirkt. Á nokkrum stöðum inni í bílnum eru rafmagnsúttök (6 stk.) fyrir hleðslutæki síma, fartölvur, leikjatölvur, rakvél o.þ.h.

Baksýnisspegla er hægt að fella að hliðum með því að styðja á hnapp og bæði bensínáfylling og afturhleri er opnaður með fjarstýrðum raflæsingum.

Listinn yfir valbúnað er mjög langur. Aðeins nokkur dæmi:

Á meðal valbúnaðar Cayenne er þakbogakerfi sem gerir kleift að flytja eitt og annað tryggilega fest á þakinu svo sem skíði, reiðhjól, brimbretti, seglbretti, kajaka, lokaðan flutningskassa, svo eitthvað sé nefnt.

Þaklúgan er er rafknúin og henni má halla. Lúgunni er stjórnað með snerilhnappi auk þess sem velja má ákveðnar fyrirfram þekktar stillingar. Fjarstýrðar samlæsingar fást með gangsetningarhnappi.

Lúxusinnréttingin í Cayenne er m.a. hönnuð í ákveðnum litasamstæðum sem velja má úr. Sé valin leðurklæðning (mjúkt leður) fylgir leðuráfella á mælaborði, miðjustokki og hurðaklæðningu. Framstólar eru rafstilltir (12 mismunandi stillingar sem einnig má hafa í tölvuminni). Bæði fram- og aftursæti fást með fjölstiga hitun. Leðurklætt þriggja rima stýrishjólið fæst með innbyggðum stjórnhnöppum t.d. fyrir hljómflutningstæki, hraðastilli og farsíma - en Cayenne er fáanlegur með innbyggðu farsímakerfi. Auk þessa má fá stýrishjólið með upphitun tengdri sætishituninni.

Cayenne er fáanlegur með áttavita í mælaskjá og mælaborðstölvu (litskjá) í mismunandi útfærslu t.d. með vegalengdareikningi, leiðsögukerfi (GPS), stjórnun hljómtækja/diska, til að sýna stöðu innbyggðs bilanagreiningarkerfis og til að fylgjast með þrýstingi í dekkjum og sjálfvirku dekkjaþéttingarkerfi. Velja má á milli mismunandi hljómkerfa í hæsta gæðaflokki en 10 hátalarar með 4x18 w magnara eru innbyggðir í innréttinguna (sinusodial).

Sérstakt viðvörunarkerfi fæst sem bæði sýnir og gefur hljóðmerki til að draga úr hættu á að reka bílinn utan í þegar bakkað er.

Cayenne er með gríðarlega öflugt miðstöðvarkerfi. Því til viðbótar má fá sjálfvirkt loftkælikerfi (loftslagskerfi) og ennfremur aukamiðstöð með forritanlegri fjarstýringu (t.d. til að hita upp vél, innanrými og rúður t.d. 10 mín. fyrir gangsetningu). Þá eru allar rúður úr sérstöku lituðu varmaeinangrandi öryggisgleri til að takmarka hitun frá sólarljósi.

 

PORSCHE CAYENNE: ÖRYGGI
PTM-kerfið má skoða sem nýja kynslóð fjórhjóladrifs. Það hefur afgerandi áhrif á aksturshátt Cayenne á hverri stund og stað. Tölvustýrðri læsingu í millidrifi og læsanlegu mismunardrifi í afturhásingu (hvort tveggja valbúnaður) er stjórnað með boðum frá nemum - boðum sem gefa til kynna hraða bílsins, stefnutregðu, stýrisbeitingu og stöðu inngjafar. PTM-kerfið reiknar út og beitir þeim driflæsingum sem gefa fram- og afturhjólum mest veggrip í hverju tilviki. PTM-kerfið beitir tölvustýringu til að tryggja stöðugleika og öryggi við ólíkustu aðstæður, t.d. þegar skipt er um akrein á fullum hraða, á hálum vegi eða þegar ekið er í snjó.
Þessi tækninýjung þýðir m.a. eftirfarandi:

· Hámarks stöðugleiki og veggrip án tillits til ástands yfirborðs vegar.
· Öruggari stjórn þar sem sjálfvirk tölvustýrð millidrifslæsing girðir fyrir undirstýringu.
· Öruggari stjórn á miklum hraða vegna millidrifslæsingarinnar.
· Meiri rásfesta og betra veggrip vegna millidrifslæsingarinnar.
· Meira veggrip með því að seigstýra driflæsingu áður en hjól spólar.

Annað tölvukerfi, ,,Porsche Stability Management", PSM-kerfið (staðalbúnaður) vinnur með PTM-kerfinu. PSM-kerfið tekur hins vegar ekki í taumana fyrr en nálgast ystu mörk stöðugleika bílsins. PSM-kerfið heldur utan um önnur kerfi svo sem ABS-læsivörn, spólvörn og driflæsingar og getur þannig numið þá krafta sem verka á bílinn og valda t.d. undir- eða yfirstýringu (hliðarskriði). Þegar hætta er á að bíllinn missi jafnvægi, veggrip eða rásfestu tekur PSM-kerfið fram fyrir hendur bílstjóra og stýrir driflæsingum og bremsum hvers einstaks hjóls þannig að veggrip og jafnvægi sé tryggt.

Þriðja tölvukerfið, ,,Porsche Active Suspension Management" , PASM-kerfið (til viðbótar loftfjöðrun, hvort tveggja valbúnaður í Turbo) gegnir því hlutverki að draga úr lóðréttum hreyfingum og halla bílsins í akstri við allar aðstæður. Auk þess að gera bílinn þægilegri þýðir aukinn stöðugleiki í akstri aukið veggrip og þar með öryggi.

Ökuljós eru þýðingarmikill öryggisbúnaður. Í því efni er Cayenne einnig fremstur í flokki með þá fullkomnustu gerð ökuljósa sem nú er völ á: Bi-Xenon með H7 perur fyrir lágan geisla, H7 fyrir háan geisla og H7 fyrir aukageisla. Bæði sprauta og þurrka er á framljósum.

Bensíngeymir Cayenne er úr níðsterku, eðlisþungu polyethylen-plasti. Hann er framan við afturhjól og sérstaklega varinn með hlífum. Eldsneytiskerfið er búið sjálfvirkum útsláttar- og lokabúnaði sem lýtur sömu stjórn og öryggisloftpúðar bílsins og kemur í veg fyrir að bensín geti flætt út vegna óhapps. Auk þess þess rýfur það sjálfkrafa straum frá rafgeymi og alternator blási púðarnir upp.

3ja punkta bílbelti í öllum 5 sætum eru búin sjálfvirkri strekkingu við högg. Sem valbúnað má fá lásana fyrir ytri beltin (4) með sjálfvirkri strekkingu/slökun til að draga úr áhrifum hliðarhöggs.
Axlarhæð allra belta og hæð allra höfuðpúða er stillanleg.

Auk innbyggðrar árekstrarvarnar í hliðum og fram- og afturhlutum er Cayenne með 6 öryggis-loftpúða sem staðalbúnað; fyrir bílstjóra og farþega í framsæti, 2 loftpúða innbyggða í hliðar framstóla auk tveggja yfirpúða sem uppblásnir ná á milli fremsta og aftasta dyrastafs hvoru megin.

Innréttingin er ein sú glæsilegasta og Porsche-handbragðið áberandi. Farangursrými er 540-1770 lítrar.

 

 

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar