Porsche Carrera GT 2004

eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing.

Copyright © Leó M. Jónsson - öll réttindi áskilin.

Vilji snöggsoðnir bílasérfræðingar auglýsa sveitamennsku sína sérstaklega bera þeir PORSCHE fram upp á amerísku (eins og Hillbillies - þ.e. ,,Fjalla-Jónar") = ,,PORS". Hinir sem eru orðnir skólaðri bera það rétt fram sem ,,PORS-E" til að verða sér ekki til athlægis.

Ferrari gerði hér stuttan stans fyrr á árinu 2004 - en eins og hans var von og vísa komst eigandinn ekki á honum nema hálfa leið í Bláa lónið - því hann bilaði- að sjálfsögðu. Þar skilur á milli Ferrari og Porsche því Ferrari er hraðskreiðasta og dýrasta drasl í heimi - að mínum dómi. Mín skoðun er sú að Porsche sé best smíðaði sportbíllinn - og fyrir slíka dvergasmíð er umboðið í réttum höndum.

Það skyldi ekki gleymast að Porsche er hannaður og smíðaður sem keppnisbíll. Eftir að Porsche GT1 hafði sigrað 24ra tíma heimsmeistarakeppnina í þolakstri sportbíla í Le Mans í júní 1998, en það var 16. sigur Porsche-bíls í Le Mans, ákváðu stjórnendur Porsche að setja á markaðinn nýjan meiriháttar sportbíl sem byggður væri á Le Mans-keppnisbílnum og er það ekki í fyrsta sinn sem Porsche hefur þann háttinn á. Haustið 2000 var frumhönnun lokið. Carrera GT, eins og bíllinn nefnist, er öflugasti sportbíll sem framleiddur er og sem jafnframt stenst kröfur um öryggi og varnir gegn loftmengun beggja vegna Atlantshafsins.

Carrera GT er hreinræktaður handsmíðaður Porsche í fáum eintökum. Hann kostar nokkrar tugi milljóna og er með mörg séreinkenni tegundarinnar. Þó er hann í grundvallaratriðum frábrugðinn 911-bílnum. Carrera GT, sem er tveggja sæta með topp sem taka má af, er fyrst og síðast keppnisbíll með þeim búnaði sem þarf til að fást skráður sem sportbíll.

Til að enginn velkist í vafa um hvers konar tæki hér er á ferðinni skal bent á að 5,7 lítra V10-álvélin, sem er í miðjum bílnum og knýr afturhjólin, er 605 hestöfl og með 609 Nm hámarkstog við 5750 sn/mín. Vélin er án pústþjappna (turbó) en með tveimur slíkum færi vélaraflið líklega í um 1000 hö.

Snerpan frá kyrrstöðu í 100 km/klst. er 3,9 sek. Bíllinn er 9,9 sekúndur að ná 200 km hraða við botngjöf frá kyrrstöðu; er 4 sekúndur að auka hraðann úr 80 í 120 km/klst. í 5. gír og fer kvartmíluna á 11,4 sekúndum. Það sem er ekki síður athyglisvert er að bremsukerfið er nægilega öflugt til að þennan 1380 kg bíl má stöðva á yfir 100 km hraða á örfáum sekúndum sé bremsunum beitt að fullu. Enginn raðframleiddur sportbíll getur stöðvað á jafn stuttri vegalengd og þessi Porsche Carrera GT.

Áratuga-reynsla
Porsche hefur rúmlega 50 ára reynslu af því að smíða sportbíla sem geta unnið það þrekvirki að sigra í Le Mans í Frakklandi, á Nürnburg-hringnum í Þýskalandi og á Daytona-ströndinni í Flórída. Frægastir eru sigrar Porsche í Le Mans árið 1970 með 917-bílnum og svo í 10. skiptið sem var 1985 með 956-bílnum. Á þeim bílum og því sem Porsche hefur lagt til Formúlu 1 er Carrera GT byggður.

Snerilstyrkur er grundvallaratriði og forsenda stöðugleika hraðskreiðs sportbíls. Carrera GT er byggður með þetta atriði í huga. Allur burðurinn er í einu botnstykki sem gert er úr samlokuefni úr koltrefjastyrktu plasti. Efra boddíið er einungis klæðning, án burðs, til að mynda straumlínu. Vélin er í miðju bílsins. 6 gíra kassi og drif er sambyggt afturstellinu og liggur þversum aftan við vélina. 92ja lítra bensíngeymirinn er aftan við stólbökin fyrir framan vélina. Fjöðrunin er inni við lengdarmiðlínu bílsins; tvöfaldir langir klafar uppi og niðri halda hjólinu á sínum stað. Fjöðrunin er þannig að hana má setja upp og stilla sérstaklega t.d. fyrir ákveðnar aðstæður eða keppni. Með þessari hönnun verður þyngdarmiðja bílsins mjög lág og fjaðrandi þungi hjólanna minni. Árangurinn er afburða stöðugleiki, en hæð bílsins er ekki nema 116 sm, og veggrip sem næst hámarki. Staðsetning bensíngeymisins gerir það að verkum að þótt gangi á bensínið breytist þungadreifing ekki á milli fram- og afturhjóla. Athygli vekur að þessi 605 hestafla vél (við 8000 sn/mín) vegur einungis 210 kg. Rauða strikið á snúningshraðamælinum er við 8400 sn/mín.

Tölva stjórnar umfangsmiklum öryggis- og stöðugleikabúnaði. Hluti hans er sjálfvirk vindskeið sem rís við ákveðinn hraða og kemur í veg fyrir að bíllinn léttist of mikið að framan - en þetta er einungis einn þáttur af mörgum sem tryggja veggrip.

Hjólin eru verkleg, þeim er fest með einni lásró. Að framan eru 19" felgur með 265 mm breiðum dekkjum með 35-prófíl en að aftan 335 mm með 30-prófíl. Dekkin eru með sjálfvirkri þrýstingsgát. Leki loft úr dekki birtist viðvörun í mælaborði og má stöðva lekann á ferð. Til þess er beitt slökkvikerfi bílsins. Varahjól er því óþarft.

Vélbúnaður
Þessi V10-vél er með 68° samhalla. Hún er með 4 keðjuknúna kambása og 40 ventla með tölvustýrðu opferli. Þvermál sílindra er 98 mm og slaglengdin 76 mm. Stimpilstangir eru úr títaníum. Þjöppunarhlutfall er 12:1. Athygli vekur að vélin skilar 105,5 hestafla hámarksafli á hvern lítra slagrýmis. Tvö Motronic vélstýrikerfi sjá hvort um sína hlið vélarinnar. Eins og tíðkast í vélum keppnisbílum í Formúlu 1 er V10-vélin í Carrera GT með innbyggar rásir fyrir smurolíu og kælivatn þannig að ytri samsetningar eru í lágmarki. Þetta er gert til að girða fyrir leka. Smurolíukerfið er án pönnu en um hringrásina sjá 10 dælur. Smurolíugeymirinn er sambyggður gírkassanum og búinn sérstökum affroðara. Olíusía og kælivökvi endast bílinn.

10 sílindra 5,7 lítra (350 kúbika) V-vélin í Carrera GT er hönnuð sem keppnisvél. Sérfræðingar telja að með frekari breytingum megi auka afl hennar úr 600 í a.m.k. 1500 hö. Í staðalútfærslu nægja 600 hö til að koma þessum 1380 kg bíl í 100 km hraða frá kyrrstöðu á innan við 4 sek og í 200 km hraða á um 10 sek. Kvartmíluna fer bíllinn á 11,4 sek.

Sambyggt þverstæða gírkassanum er kúpling með tveimur plötum úr keramísku efni. Þvermálið er einungis 169 mm. Massi keramísku kúplingarinnar er 1/10 af massa venjulegrar kúplingar, sem annars þyrfti fyrir þennan bíl til að ekki kviknaði í henni við botngjöf. Keramíska kúplingin miðlar átakinu betur og án titrings. Öxlarnir í gírkassanum virka sem snerilfjaðrir - upp á þá snýst við fullt átak sem þannig mýkist og varnar því að ökumanni og/eða farþega sé rykkt úr hálsliðnum við botngjöf.

Öryggi til fyrirmyndar
Bremsurnar eru þær öflugustu sem sjást á bíl. Bremsudælur eru með 6 stimpla. Diskarnir, sem eru úr keramiki og með 380 mm þvermál, vega einungis um helming þess sem stáldiskar vega og endast margfalt lengur. ABS-læsivörn, skrikvörn (ASR) og veggripsstýring (TCS) eru sá hluti af tölvukerfi bílsins sem tryggir stöðugleika og öryggi. Carrera GT er búinn innbyggðri veltigrind (stálbogum), sérstökum styrkingum innan í hurðum, loftpúðum, skotstrekkingu á bílbeltum o.s.frv.

Græjur .........
Ökuljósin á Carrera GT eru sérkennileg, þetta eru póluð Bi-Xenon-ljós sem hafa þrefaldan ljósstyrk miðað við venjuleg halogen-ljós. Innréttingin er áberandi einföld en smekkleg. Engu að síður er í henni allur sá lúxusbúnaður sem býðst í bílum. Ekki verður það allt talið upp en geta má þess að fjölrása Bose-hljómflutningskerfið er með tveimur 100 ampera mögnurum, tveimur 25 lítra bassahátölurum í bílbotninum, 6 aðra hátalara ásamt tónmiðlun/jafnara.

Porsche Carrera GT er í augum margra efnaðra bílaáhugamanna, safnara og sérvitringa eftirsóknarvert stöðutákn en um leið góð fjárfesting. Það segir talsvert um gæði þessara bíla að 2 af hverjum 3 Porsche-bílum, sem smíðaðir hafa verið frá upphafi (1949), eru enn í fullri notkun.

Heimildir: Porsche Carrera GT. Edition: 01/2003. Útg. Dr. Ing. h.c. Porsche AG. Porscheplatz 1, D-70435 Stuttgart.

Aftur á aðalsíðu

Fleiri greinar um bíla

Netfang höfundar