Chevrolet Captiva 2007

Nýr sportjeppi (jepplingur).
Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur.
(Reynslan: Sjá viðbót
aftast í þessri grein)

Chevrolet Europe
Undanfarin ár hefur orðið tíðrætt um "innrás'' suður-kóreanskra bílaframleiðenda á alþjóðlegan bílamarkað, stóraukna samkeppni sem af henni hefur leitt og um ýmsa erfiðleika, sem rótgrónir alþjóðlegir og evrópskir bílaframleiðendur hafa þurft að glíma við og rekja m.a. til erfiðrar samkeppnisstöðu. General Motors hefur brugðist við þessu með því yfirtaka eina stærstu og fullkomnustu bílaverksmiðju Suður-Kóreu, GM DAT - einnar milljón fermetra tæknivirki skammt frá Seoul, og framleiðir þar Chevrolet-bíla, sem eru sérstaklega hannaðir fyrir evrópska markaðinn (annar slíkur er Chevrolet Tosca sem einnig er fjallað um í Bílaprófunum Vefsíðu Leós). Þeir sem fylgjast með alþjóðlegum bílaiðnaði telja að með vaxandi umsvifum í Kína stefni GM að því að verða stærsti bílaframleiðandi Asíu.

Chevrolet Captiva sportjeppinn er fremur „hávaxinn’’. Vélin er þverstæð 150 ha dísilvél með öragnasíu. Drifið er á framhjólun og ölum hjólum þegar á þarf að halda.

Chevrolet Europe er nýtt fyrirtæki sem annast markaðssetningu nýrra bíla og skipuleggur þjónustu á evrópska markaðnum; - evrópskt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Sviss. Chevrolet Captiva er nýr sportjeppi byggður á sameiginlegri grunnhönnun GM (Theta), hjólbotn með sjálfstæða fjöðrun á hverju hjóli, framhjóla- og/eða fjórhjóladrif og þverstæða vél en þessa grunnhönnun má útfæra fyrir bíla sem annars eiga lítið annað sameiginlegt. Kostur grunnhönnunar með þessum hætti er að framleiðandi getur byggt ólíka bíla á þrautreyndu burðarvirki sem undirstöðu og með því tryggt gæðin, m.a. með lægri bilanatíðni. Til upplýsingar fyrir þá sem pæla alvarlega í tæknimálum bíla má nefna að Theta-hönnunin er unnin að mestu leyti af tæknimönnum Suzuki og 7 manna Suzuki XL-7 er byggður á þessari sömu grunnhönnun og Chevrolet Captiva. (Ég hef séð þann misskilning á prenti að Suzuki XL-7 sé lengri gerð af Grand Vitara. Það er rangt - þetta eru tveir ólíkir bílar. Án þess að fara út í þá sálma bendi ég aðeins á að Suzuki Grand Vitara, sem er með hátt og lágt drif, er með vélina langsum en Suzuki XL-7 með vélina þverstæða).

Verðugur keppinautur
Bílabúð Benna kynnir nú nýja Chevrolet Captiva sportjeppan sem jafnframt er fyrsti sportjeppinn sem Chevrolet setur á markaðinn í Evrópu og jafnframt fyrsti Chevrolet-bíllinn fyrir Evrópsk markaðinn með dísilvél. Markaðurinn fyrir sportjeppa, sem er aldrifsbíl án niðurfærslu í millidrifi (þ.e. án lágs drifs), er umtalsverður enda fellur þessi gerð bíls vel að algengum lífsstíl. Af því leiðir að samkeppni er með harðasta móti. Viðtökur á meginlandi Evrópu hafa verið góðar og ef dæma má af umsögnum þekktustu bílatímarita á borð við "Auto Express'' í Bretlandi (www.autoexpress.co.uk) og "Auto-Presse'' í Þýzkalandi (www.auto-presse.de), sem m.a. segja, eftir skoðun og prófun, að með Captiva hafi Chevrolet hitt beint í mark - með útliti, eiginleikum, búnaði, frágangi og verði. Því má búast við að Chevrolet Captiva verði áberandi í toppbaráttunni hérlendis.

7 manna sportjeppi
Captiva er á meðal stærri sportjeppa enda fáanlegur með sætum fyrir 5 eða 7 manns. Hann er nokkru stærri en Honda CR-V og 8,5% stærri en Ford Escape (botnskuggi). Lengdin er 4,63 m og breiddin 1,85 m. Captiva er byggður sem grindarlaust burðarbúr á berandi hjólbotni; með sjálfstæða gormafjöðrun á hverju hjóli og vélina þverstæða. Captiva er sterkbyggður Chevrolet-sportjeppi með innréttingu sem er útfærð til að henta umsvifum nútímafjölskyldu með börn, m.a. með sætum fyrir allt að 7 manns. Búnaðarstig eru LS og LT.

Chevrolet Captiva er „eðlilegur að aftan’’ eins og einn ágætur bílaskrifari orðaði það og hefur þá sjálfsagt haft í huga hina forljótu afturhluta amerísku GM-sportjeppanna (Pontiac Aztek og Buick Rendezvous). Captiva er hins vegar hinn glæsilegasti - afturhlutin minnir jafnvel á Porsche Cayenne. Bakkviðvörun fær boð frá skyjurum í afturstuðaranum.

Ný dísilvél - nýr tæknibúnaður
Captiva er búinn nýrri dísilvél sem jafnframt er fyrsta Cherolet-dísilvélin á evrópska markaðnum. Vélin sem er 2ja lítra, 4ra sílindra með yfirliggjandi kambási er búin tölvustýrðri háþrýstri innsprautun frá forðagrein (forðagrein er þýðing mín á "common rail'' sem einhverjir, sem líklega hafa aldrei fengist við viðgerðir á dísilkerfum, hafa þýtt sem "samrás'' og sem mér finnst villandi). Við dísilvélina er pústþjappa með breytilegu þjöppurými en sá búnaður kemur í veg fyrir þjöppuhik og eykur snerpu. Við pústþjöppuna er millikælir. Eitt af því sem er merkilegt við þessa dísilvél er að hún er með sérkælikerfi fyrir heddið sem jafnframt sér miðstöðinni fyrir hita. Fyrir bragðið er miðstöðin fljótari að ná upp hita eftir kaldstart en dæmi eru um í öðrum sportjeppum.

Önnur nýjung er að þessi Chevrolet-dísilvél, sem er hönnuð og framleidd í samvinnu Detroit Diesel og ítalska VM Motori en dísilvélar frá þeim hafa um árabil verið í Jeep Cherokee, evrópskum Ford-fólksbílum o.fl, er með öragnasíu í útblæstri og er það staðalbúnaður (innifalinn í verði bílsins). Öragnasía (PM-filter) hreinsar efnisagnir úr útblæstri og eyðir mengun, sem kann að vera í útblæstri dísilvélar umfram bensínvélar - að öðru jöfnu. Nýjustu dísilvélar hafa verið fáanlegar með öragnsíum fyrir aukagjald og búnaðurinn þótt dýr. Með öragnasíu sem staðalbúnaði er útblástur Chevrolet Captiva dísil hreinni en flestra 2ja lítra bensínvéla.

Glæsilegur - töff - praktískur
Chevrolet Captiva á að sameina sportlega eiginleika jeppa, hagkvæmni fólksbíls og rými fjölnotabíls. Áberandi stór hjólop og stór hjól (allt að 18" felgur) og ávöl þaklínan gefa bílnum sterklegan stíl sem sportjeppa. Áberandi framljósin, innfelld stefnuljós í spegla og dálítið ruddaleg loftinntök fremst á frambrettunum ásamt þoku/dreifiljósum í framstykkinu og hlífum undir aftur- og framstuðara - gefa ákveðnar vísbendingar um sterka byggingu.

Að öðru leyti er útlitið ferskt, stílhreint og laust við línur, brot eða lögun sem líkleg er til að fara í taugarnar á einhverjum en þó án þess að vera sviplaust eða látlaust - þetta er glæsilegur bíll sem ef til vekur meiri athygli vegna þess hve hann er "hávaxinn''.

Skynsamlegur drifbúnaður
Chevrolet Captiva er búinn fjórhjóladrifi sem er til taks þegar á þarf að halda. Til að tryggja sparneytni er drifið á framhjólunum í venjulegum akstri við eðlilegar aðstæður. Með sjálfvirkum búnaði er afli miðlað til allra hjóla þegar tekið er af stað upp brekku, á hálum vegi, í kröppum beygjum og við vagndrátt. Sjálfvirka drifstýringin (TOD = Traction On Demand) notar boð frá nemum um snúningshraða hjóla til að miðla allt að 50% átaks til afturhjólanna þegar aukins veggrips er þörf. Þessi aflmiðlun er þrepalaus og ökumaður verður hennar ekki var að öðru leyti en að bíllinn verður stöðugri og duglegri sé eitthvað að færð.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi innrétting þætti glæsileg í BMW, Audi eða Benz. Ekki einungis er frágangurinn og handbragðið einstaklega vandað heldur er allt efni og litir valið af smekkvísi og augljóst að gæðakröfur eru miklar. Annað sem mér finnst áberandi er að hér er ekki á ferðinni hin púkalega nytjahyggja sem mér finnst svo oft einkenna innréttingu þýskra bíla, t.d. Volkswagen.

Undirvagn, bremsur og stýri
Fjöðrunin er sjálfstæð á hverju hjóli með McPherson-gormaturna að framan en að gorma að aftan og 4ra liða hjólarma. Diskabremsur eru á öllum hjólum með nýjustu gerð af ABS-læsivörn. Í dísilbílnum fá bremsurnar mjög öflugt hjálparátak frá stýrisvélardælu (hydro-booster). Stýrisvélin er tannstöng með vökvaaðstoð.

Öryggisbúnaður
Sjálfvirkur stöðugleikabúnaður (ESP) er staðalbúnaður í Captiva. ESP dregur úr hættu á að óhöpp eða ógætilegur akstur valdi útafakstri eða veltu. ESP virkar þannig að tölva nemur boð frá snúningsskynjara hvers hjóls, frá stöðunema stýris og frá flóttaaflsnemum og notar þessi boð, ásamt því að beita vélinni, á sjálfvirkan hátt til að draga úr hættu á að bíll skriki til á vegi. Í akstri sést á gaumljósi hvenær ESP er að verki.

Annar búnaður (DCS = Descent Control System) sem eykur öryggi þegar farið er niður í móti, t.d. á bröttum vondum vegi eða með eftirvagn, er sjálfvirk hömlun sem heldur bílnum á jöfnum hraða án tillits til inngjafar eða álags. Þá má nefna veltivörn (ARP) en það er tölvubúnaður sem notar boð frá stefnunemum og snúningsskynjurum hjóla til að beita bremsum á sjálfvirkan hátt til að koma í veg fyrir að bíll missi jafnvægið á ferð og velti. Sérstakur öryggisbúnaður (FBS) tryggir að hægt sé að stöðva bílinn þótt bremsur hafi yfirhitnað. Til að varna því að eftirvagn rýri rásfestu bílsins er sérstakur tölvubúnaður (TSA).

Enn annar öryggisbúnaður í Chevrolet Captiva eru 3ja punkta bílbelti með sjálfvirkri höggstrekkingu fyrir öll sæti og auk þess sérstakur slökunarbúnaður á beltum framstóla sem virkar eftir strekkingu/högg og minnkar hættu á meiðslum. Við ákveðið högg og eftir stefnu þess - og innan örfárra þúsundustu brota úr sekúndu, spretta upp/út allt að 6 öryggispúðar til varnar bílstjóra og farþegum; fyrir framan og í hliðum framstóla og niður úr hliðum þaks við fram- og aftursæti. Þá vekur athygli að í þessum bíl eru þykkbólstruð svæði neðan á mælaborðinu sem ætlað er að minnka hættu á hnjámeiðslum við árekstur. Sérstakur búnaður varar við fyrirstöðu fyrir aftan bílinn með hljóðmerkjum þegar bakkað er.

7 manna Chevrolet Captiva með aftari sætaraðirnar felldar. Til viðbótar má fella farþegastólinn fram. Vegna þess hve bíllinn er langur og „hátt til lofts’’ og vegna þess hve afturhleraopið er stórt er flutningsrýmið ótrúlega mikið. Einnig hér er frágangur innréttingarinnar áberandi vandaður.

Rými og búnaðarstig
Chevrolet Captiva er með stærstu sportjeppum. Breiddin (1,85 m) lumar dálítið á sér vegna þess hve bíllinn er hátt byggður (1,72 m) og auk þess með þakboga. En dyljist stærð bílsins utanfrá er hún hins vegar áberandi þegar inn í hann er komið. Í því efni er sjón sögu ríkari enda oft erfitt að lýsa stærð og þægindum rýmis á prenti. En nokkrar staðreyndir ættu þó að tala sínu máli: Breidd í axlarhæð í fremri tveimur sætaröðum er 1455 mm sem er með því allra mesta sem gerist í þessum flokki bíla. Fótarými, einnig samkvæmt alþjóðlegum málstaðli, er 1035 mm að framan og 940 mm hjá farþegum í aftursæti. Það er einnig með því allramesta sem gerist í þessum flokki bíla.

Captiva er útfærður í tveimur mismunandi búnaðarstigum, LS og LT. Athygli vekur hve LS-gerðin er ríkulega búin svo sem með rafknúnar rúðuvindur (einnig rúðu í afturhlera sem auk þess má fjarstýra), fjarstýrðar samlæsingar, rúðuþurrkubil sem ræðst af hraða bílsins, þakrekka og vandað útvarp/hljómflutningstæki með MP3-tengi og 6 hátölurum.

Dýrari LT-gerðin hefur auk þess 17 eða 18 tomma sportfelgur, leðurklætt stýrishjól, fleiri stillingar á stýri, armhvílur, geymslutrog undir bílstjórastól, 8 hátalara (4x45 wött), innbyggðan diskrekka fyrir 6 diska og sjálfvirka hleðslujöfnun. Leðurklæðing fæst sem sérbúnaður en þá er verðið komið yfir 4 milljónir.

Innrétting
Chevrolet Captiva er einnig glæsilegur að innan. Ekki einungis er mælaborð og innrétting stílhrein og nútímaleg heldur er efnið vandað og frágangur sérstaklega vandaður og fallegur. Í innréttingunni eru ýmis praktísk atriði sem gera bílinn auðveldari í notkun. Nefna má sem dæmi að miðjustokkurinn, sem er sambyggður mælaborðinu að framan heldur ekki áfram aftur fyrir framstólana - atriðið sem eykur þægindi - fara má á milli framstóla án þess að opna bílinn.

Sé bíllinn valinn með þriðju sætaröð (fyrir 7) má fella þau 2 sæti að öllu leyti niður í gólfið. Sé bíllinn hins vegar valinn með sætum fyrir 5 eru 2 drjúg (lokuð) geymsluhólf í afturgólfinu í stað öftustu sætanna.

5-sæta Captiva er með 465 lítra farangursrými aftan við aftursæti og því má loka með rennihlíf og í 5-sæta bílnum eru net í afturgólfinu til að hemja hluti (t.d. innkaupapoka). Sé aftari sætaröðin felld myndast 930 lítra flutningsrými (farþegastóll fram í felldur fram).

Mælar - stjórntæki- búnaður
Eins og tíðkast í tölvuvæddum bílum er Captiva búinn ýmsum handhægum hjálpartækjum ásamt öllum nauðsynlegustu mælum og gátbúnaði. Þessi þægindabúnaður mun þó koma mörgum á óvart í sportjeppa á þessu verði.

Nefna má loftkælikerfi (frystiþjöppukerfi) sem er staðalbúnaður í báðum gerðum ásamt firna kraftmiklu upphitunarkerfi sem blæs um stokka í gólfinu til fótarýma aftur í bílnum. Í LT-gerðinni er þetta upphitunar- og loftkælikerfi auk þess tvískipt og heldur völdu hitastigi á hvoru kerfi (hægri eða vinstri) á sjálfvirkan hátt. Vegna þess hve einangrunin er efnismikil í bílnum innanverðum skilar kraftmikið hljóðið frá 6-8 hátölurum hljómkerfisins, en miðverk þess er innbyggt í miðjustokkinn, áhrifum sem ekki er hægt að lýsa - einungis finna/heyra.

Er hann raunverulega 7 manna - eru þetta ekki bara einhver „hundasæti’’ sem má nota fyrir krakka í styttri ferðum? Hér má sjá að aftasta sætaröðin í 7-manna Captiva er ekki einhver sjónhverfing eða málamiðlun. Fullorðnir þyrftu ekkert að kvarta undan þessum sætum í öftustu röðinni þótt þau séu ekki jafn þægileg og þau í miðröðinni. En sjón er sögu ríkari ......

Hljómtækjum og hraðastilli er stjórnað með hnöppum sem eru innfeldir í hallastillanlegt stýrishjólið (sem fá má jafnframt með aðdragsstillingu sem sérbúnað). Tölva sýnir meðaleyðslu og ýmsan útreikning varðandi eldsneyti og akstur.

Af öðrum þægilegum atriðum (geta farið eftir búnaðarstigi) , má nefna áttavita, mæli sem sýnir útihitastig, regnskynjara sem gengsetur þurrkur, innispegil sem með sjálfvirkri blinduvörn, hitun í framrúðu fyrir þurrkublöð o.fl.

Afköst og eldsneytisnotkun - akstur
Chevrolet Captiva er fáanlegur með 5 gíra sjálfskiptingu eða handskiptingu. Hérlendis verður staðalgerðin með dísilvél og sjálfskiptingu. Skiptingin er 5 gíra frá Aisin-Warner í Japan (sama og Volvo notar í dýrari gerðum). Þetta er sjálfskipting með "Tiptronic'' sem þýðir að hægt er að handskipta með því að styðja á takka. Einnig má velja ýmis prógrömm eftir aðstæðum svo sem fyrir sportlegan akstur, sparakstur, vetrarakstur (fjórhjóladrif með spólvörn) og auk þess sérstakt dráttarprógramm (tengt TSA).

150 ha tórbódísilvélin er með 320 Nm hámarkstogi við 2000 sn/mín. Hún skilar þessum 1760 kg bíl áfram með 7,4 - 7,6 lítrum á hundraðið. Þrátt fyrir svo hógværa eyðslu er meiri snerpa í sjálfskiptum Captiva með dísilvél en margur hyggur, eða 10,6 sek frá kyrrstöðu í 100 km/klst - þar munar mest um inntaksstýringuna (breytilegt þjöppurými) á pústþjöppunni. Hámarkshraði er um 190 km/klst.

Eins og við er að búast hjá bíl sem er sérstaklega hannaður fyrir evrópska markaðinn er fjaðrakerfið í stinnara lagi - en hérlendis eru bíleigendur fyrir löngu orðnir vanir því - ekki síst með bættum vegum. En Chevrolet Captiva þolir vel að vera tekinn til kostanna á grófari malarvegi - mér kæmi ekki á óvart þótt aksturseiginleikar hans sem jafn góðir eða betri en hjá MMC Outlander og er þá miklu til jafnað.
----------------------------------------------------------------

Reynslan af Captiva
Um þetta leiti eru 3 ár síðan fyrstu Captiva-bílarnir komu á markaðinn. Þeir eigendur sem haft hefur verið samband við eru ánægðir með bílinn - hann þykir ljúfur í akstri og lipur. Einhverjir hafa látið blekkjast af eyðslumælinum í mælaborðinu, en hann sýnir eyðslu á stað og stund, t.d. 16 lítra á hundraðið þegar tekið er af stað á ljósum. Það er fullkomlega eðlilegt og sami bíll er yfirleitt með meðaleyðslu í blönduðum akstri í kringum 10 lítra og undir 9 á þjóðvegi. Bílar úr einhverjum sendingum virðast vera með þynnra lakk en aðrir, komið hafa fram lakkskemmdir á afturhlera og felgum, auk þess sem afturhleralæsingin (handfangið að utanverðu) hefur stirðnað og þolinmóðurinn ryðgað. Þá hafa alternatorar gefið sig - en þeir eru af þeirri gerðinni sem slá út og fríhjóla þegar geymir er fullhlaðinn (búnir bendix). Framleiðandinn hefur bætt þessi atriði sem verksmiðjugalla. Verksmiðjuábyrgð gildir 3 ár eða 100 þúsund km. Slithlutir svo sem bremsubúnaður, reimar, perur, spindilkúlur, stýrisendar og pústkerfi eru undanskilin ábyrgð. Bremsuklossar í Captiva endast um 45 þús. km. Þar til fyrir skömmu fengust bremsuklossar hvergi nema hjá umboðinu. Þar kostuðu klossasett fyrir fram- og afturhjól, sem oft þarf að endurnýja samtímis, kosta samtals kr. 57.125.- (í október 2008); framklossarnir kr. 34.965.-. kr. og afturklossarnir kr. 22.160. Frómt frá sagt þá er þetta gríðarlegt verð fyrir ekki merkilegri varahluti en bremsuklossa og sé þetta vísbending um hve mikið „Hafliði allur’’ myndi kosta (einnig í aðra Chevrolet-bíla frá S-Kóreu) lýst mér, satt best að segja, ekki á blikuna!
Aths. Eftir að þessi málsgrein birtist lækkaði umboðið verðið á bremsuklossum í Captiva. Þar kosta þeir núna, 6. október 2008, kr. 21.
300.- að framan en kr. 14.900.- að aftan eða samtals kr.36.200.-
Nú, 6. október 2008, fást bremsuklossar í Chevrolet Captiva hjá Stillingu (a.m.k. í Reykjavík) og munu kosta þar um kr. 8.000.- að aftan og kr. 16.000.- að framan eða samtals um kr. 24.000.-
Frá því byrjað var að skrifa þessa viðbót hafa bremsuklossar í Captiva lækkað úr kr. 57.125 niður í kr. 24.000.- (ef við gefum okkur að gæðin séu sambærileg hjá umboðinu og hjá Stillingu!

Aðrar bílaprófanir

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar