PRÓFUN


Cadillac Seville STS

Eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing (Ljósmyndir (Photo courtesy): www.cadillac.com).

Nýir bandarískir bílar af dýrari gerð fóru að sjást á Íslandi vegna breyttra reglna um innflutning bíla árið 1996. Kominn var tími til að Íslendingar fengju að ráða því sjálfir hvort þeir keyptu frekar bandaríska bíla en japanska eða evrópska. Siðastliðin 15 ár hafa átt sér stað miklar og áhrifaríkar breytingar í bandarískri bílaframleiðslu, reyndar svo miklar að tala mætti um byltingu. Hönnun hefur breyst m.a. þannig að meiri áhersla hefur verið lögð á gæði og aksturseiginleika en áður. Áhrif þessarar byltingar fóru að skila sér á markverðan hátt strax upp úr 1990. Evrópski markaðurinn er varinn með tollmúrum fyrir bandarískum bílum. Því hafa bandarískir bílaframleiðendur komið upp verksmiðjum í Evrópu, t.d. Chrysler sem framleitt hefur bíla í Austurríki á annan áratug og GM sem nú er farið að framleiða Cadillac í Svíþjóð.

Cadillac STS 2005. Þessi afturhjóladrifni STS (sem einnig fæst með sítengdu aldrifi) er ólíkur þeim bandarísku bílum sem maður átti að venjast fyrir 10 árum - engu að síður heldur hann ýmsum sérkennum sínum.

Hugtakið gæði hefur breyst á meðal bandarískra bílakaupenda sem nú meta gæði bíla á aðra mælistiku en áður. Þótt verð á eldsneyti sé enn miklu lægra í Bandaríkjunum en t.d. í Evrópu skiptir sparneytni meira máli nú en áður - ekki síst ráða því sjónarmið umhverfisverndar. Í augum bandarísks bílakaupanda er stærð bíls þýðingarmeiri sem mælikvarði á öryggi en í augum bílakaupanda í Evrópu og þeir rökstyðja gjarnan þá skoðun sína með því að benda á opinberar tölur sem sýna að langflest dauðaslys í umferðinni verða á fólki sem ferðast í smábílum.

Vandaður frágangur og góð efni vega nú þyngra í mati bandaríkjamanns en krómlistar og hvítar dekkjahliðar; þægileg, látlaus en vel búin innrétting ásamt betri bólstrun vegur þyngra en en viðareftirlíking, stafrænir mælar, skærir litir og annað glingur. Nú eru gerðar kröfur um afl og snerpu samfara sparneytni en ekki einungis um stórar slagrýmistölur, háar hestaflatölur, dimmt hljóð og dekkjabrælu.

Staða bandarískra bíla á heimamarkaði hefur verið að styrkjast aftur eftir langt tímabil stöðnunar og samdráttar. Þótt útflutningur bandarískra bíla sé enn óverulegur, samanborið við selda bíla á heimamarkaði, hefur hann verið að aukast smám saman. Þó verður að hafa í huga að útflutningur hefur enn aðra merkingu; er nánast lúxus sem má gamna sér við þegar vel gengur en skiptir sáralitlu máli þegar á heildina er litið enda eru Bandaríkin stærsti bílamarkaður veraldar og ör endurnýjun veldur því að verð á notuðum bílum er sérlega hagstætt, ekki síst á bílum sem upphaflega voru dýrir og vel búnir. Þess vegna og vegna þess hve gengi dollars er lágt gagnvart krónunni geta kaup á vönduðum notuðum bílum, t.d. bílum á borð við Cadillac og Lincoln verið ótrúlega hagstæð.

Bilanatíðni bandarískra bíla hefur minnkað umtalsvert á sl. 15 árum eða svo. Niðurstöður kannana á reksturskostnaði mismunandi tegunda og gerða sem gerðar eru á vegum bandarísku neytendasamtakanna Consumers Union, sýna að bilanatíðni hefur farið minnkandi með hverju ári og sá bandaríski bíll sem hefur lægsta bilanatíðni, Saturn frá GM, stenst samanburð við það sem best gerist t.d. hjá japönskum bílum. Aukið öryggi bandarísku bílanna kemur fram í niðurstöðum kannana NHTSA (National Highway Traffic Safety Administration) á áekstrarþoli og vörn. Niðurstöðurnar eru birtar reglulega í tímariti bandarísku neytendasamtakanna ,,Consumer Report".

Árekstrarprófanir, sem framkvæmdar eru árlega í Bandaríkjunum á vegum NHSA, eru þær umfangsmestu sem gerðar eru í heiminum. Niðurstöður hafa sýnt m.a. að bandarískir bílar eru öruggari en evrópskir og japanskir bílar í sama verðflokki þar til komið er upp í stærstu lúxusbíla og að bandarískir bílar af stærri og stærstu gerð eru öruggustu bílar, miðað við verð, sem framleiddir eru og standa í því tilliti framar en talsvert dýrari evrópskir bílar svo sem Benz, BMW, Renault, Audi, Saab og Volvo. Þá er ástæða til að benda á að sparneytni bandarískra bíla hefur verið að aukast jöfnum skrefum undanfarna 2 áratugi. Nú eru stórir bandarískir bílar hlutfallslega sparneytnari en evrópskir bílar í sama stærðarflokki þrátt fyrir að slagrými véla í bandarísku bílunum sé yfirleitt meira.

FLAGGSKIPIÐ
Cadillac er enn flaggskipið á bandaríska bílamarkaðnum þótt keppinautum um kaupendur lúxusbíla hafi fjölgað. Af mörgum mismunandi gerðum er Cadillac Seville STS sá sem mesta athygli hefur vakið fyrir aksturseiginleika. STS er skammstöfun fyrir Seville Touring Sedan og STC fyrir Seville Touring Coupe. Þegar talað er um Cadillac sjá sumir fyrir sér heljarstóran dreka með 5 fermetra húddi og fjöðrun sem minnir á vatnsrúm á hjólum. En fyrsti Cadillac Seville STS, sem kom fyrst á markaðinn sem árgerð 1993 og hefur síðan komið í endurbættum og breyttum útgáfum (1996/2000/2004) er af allt öðru sauðahúsi en Cadillac fyrir þann tíma.

Seville STS var í fyrstu framdrifinn bíll. Og, samkvæmt opinberum tölum, mun enginn framdrifinn bíll hafa verið með jafn öfluga vél; en árgerð 1996 var 295 hö við 6000 sn/mín. Svo mikið vélarafl í framdrifnum bíl hefði gert hann nánast óhemjandi ef ekki hefði komið til tölvustýrð aflmiðlun/veggrip, þ.e. spólvörn. Þrátt fyrir þann búnað þótti sá STS aldrei alveg laus við ókosti framdrifsins í svo þungum bíl, ekki síst ef bilun varð í rafeindabúnaðinum. STS af árgerð 2005 er afturhjóladrifinn, fánlegur með tregðulæsingu en einnig fáanlegur með sítengdu fjórhjóladrifi og er þá tölvustýrð aflmiðlun á milli aftur- og framhjóla sem tryggir 40/60 % átak við eðlilegar aðstæður.

Cadillac Seville STS er fremur látlaus bíll í útliti, a.m.k. af Cadillac að vera þótt ákveðinn glæsileiki og vöndun leyni sér ekki. Íburður er ekki æpandi og ef til vill er hann meiri í vélbúnaði, fjöðrun, öryggisbúnaði og, að vissu leyti, í innréttingunni. Bíllinn er grindarlaus, 4ra dyra, 5 manna (4ra manna væri nær lagi), með skotti, vegur 2.013 kg (með V8-vél), er um tæpir 5 m á lengd, 1,84 m á breidd og með 2,96 m hjólhafi sem er mikið eða svipað og hjá lengstu gerð af BMW. Það segir ef til vill meira um stærð bílsins að botnskuggi hans er 9,2 fermetrar eða álíka og hjá BMW 740/750. (Árgerð 2000 af STS var með minna hjólhaf en þó stærri bíll sem nam um hálfum fermetra botnskugga).

Árgerð 2005. STS sem tók við af framdrifna bílnum er lengri á milli hjóla, styttri og með um hálfum fermetra minni botnskugga. STS er fánlegur með 255 ha V6-vél eða 320 ha Northstar V8.

Þrátt fyrir stærð, þyngd, vélarafl, en 32ja ventla V8-vélin er 320 hö við 6400 snm og með hvorki meira né minna en 441 Nm hámarkstog við 4400 snm, og snerpu er eyðsla þessa bíls 9,5-15,0 l/100 km samkvæmt sk. EPA-mælingu. Ég myndi giska á að meðaleyðsla í blönduðum akstri með hóflegri beitingu inngjafar væri um 13 lítrar. Snerpan er umtalsverð þegar stærð bílsins og þyngd er höfð í huga en hann er um 6 sek. frá kyrrstöðu í 100 km/klst jafnvel þótt drifhlutfallið sé 3,23. Kvartmíluna fer STS (óbreyttur) á um 15 sek og er þá á 150 km/klst. Hámarkshraðinn er takmarkaður með vélartölvu bílsins við 255 km/klst í þeim bílum sem seldir eru innanlands í Bandaríkjunum. Farangursrýmið er 390 l og bensíntankurinn tekur 76 l.

TÆKNIBÚNAÐUR
Cadillac Seville STS Northstar kostar, sæmilega búinn á bandaríska vísu frá 41 þús. dollara en sæmilega búinn um 50 þús. dollara. Það er um 25% hærra verð en á stóru japanska lúxusbílunum Lexus GS 300 sem er nokkru nettari um sig og léttari.

Í Cadillac Seville STS er umtalsverður nýr tæknibúnaður. Tölvutækni er lykilatriði í þessum bíl. Sjálfstæð fjöðrun er á öllum hjólum. Að framan eru McPherson gormaturnar en gormar
eru nú að aftan í stað þverfjaðrar sem var í eldri árgerðum. Demparar eru með rafstýrðri stillingu sem lýtur stjórn aðaltölvu bílsins. Fjöðrunin ,,skynjar" vegyfirborð og aksturslag, lagar sig sjálfvirkt að aðstæðum og leitast þannig við að ná hámarksöryggi og þægindum.

Hægt er að velja á milli tveggja fjöðrunar-prógramma; annars vegar er mjúk fjöðrun en hins vegar stinn. Sjálfvirkninni í fjöðruninni hefur verið breytt frá því sem var í fyrri árgerðum en þá skipti fjöðrunin sjálfvirkt um prógramm, úr mjúkri fjöðrun í stinna þegar áveðnum hraða var náð. Nú virkar kerfið þannig að fjöðrunin stinnist við snögga inngjöf
eða sé lagt snöggt á stýrið: Tilgangurinn er sá að tryggja sem best veggrip við mismunandi aðstæður. Fjöðrunin í Cadillac Seville STS er eins og tryggir Cadillac-kaupendur ætlast til að hún sé - mjúk við venjulegar aðstæður en breytist í stinna gefi aksturlag tilefni til. GM nefnir þetta ,,Magnetic Ride Control".

Tannstangarstýrið frá Saginaw er með hraðaháðri vökvaaðstoð. Það er fislétt þegar leggja þarf bílnum í stæði en þyngist þegar hraði eykst. Auk þess myndast kveðin miðjutregða við 50 km/klst sem eykur stöðugleika bílsins og rásfestu - sérkennilegt og tekur dálítinn tíma að venjast, sérstaklega ef tekið er rösklega af stað á ljósum en gefur ákveðna öryggistilfinningu með rásfestunni.

Sjálfskiptingin, sem er tölvustýrð, er af gerðinni GM Hydramatic 4T80E; en það er frekari tæknileg útfærsla á upphaflegu THM 700-4E sem er líklega besta sjálfskipting sem hönnuð hefur verið. Skiptingin er 4ra gíra með frekar lágum 1. og 2. gír en mun hærri yfirgír (4.) en áður eða 0,68. Drifhlutfall er 3,23 : 1.

EINSTÖK VÉL
Vélin í Cadillac Seville STS, GM Northstar 4,6 lítra V8 tók við af 4,9 lítra V8-vél 1996. Frá því Northstar-vélin kom, en hún er 32ja ventla og með tveimur keðjudrifnum ofaná liggjandi kambásum á hvoru heddi, hefur hámarksafl hennar verið aukið um 35 hö - úr 295 í 320 og hámarkstog um 35 Nm. Vélarblokkin er úr álblöndu með strokkslífum úr stáli. Heddin eru einnig úr álblöndu. Þjöppunarhlutfall er 10,3 á móti einum, hámarksaflið 320 hö við 6400 snm og hámarkstogi 441 Nm við 4400 snm. Hámarkssnúningshraði vélarinnar er 6600 snm (rauða strikið). Northstar-vélin, sem er með beinni innsprautun í ventilport, þykir merkileg vél. Snerpa, seigla, gangmýkt og sparneytni er sögð sambærileg eða meiri en keppinautar geta boðið. Vélin var upphaflega þróuð hjá Mercury Marine í Oklahoma en það er eitt dótturfyrirtækja GM (en ekki Ford eins og mætti ætla af heitinu) og hefur oft komið við sögu varðandi hönnun véla fyrir keppnisbíla.

INNRÉTTING OG RÝMI
Þyki einhverjum sem Cadillac Seville STS sé í látlausara lagi hvað útlitið varðar verður það varla sagt um inréttinguna. Hún er eins og best gerist í Cadillac. Mælar eru hringlaga með venjulegum vísum, skýrir og á ,,réttum" stað í mælaborðinu auk þess sem sérstakur ljósstafaskjár birtist í framrúðunni vinstra megin með ýmsum upplýsingum sem varða akstur og öryggi; öll stjórntæki eru einföld og þægileg. Sjálfvira hraðastillingin sér jafnframt um að halda eðlilegu bili á milli bíla. Þótt sætin sýnist ef til vill slétt og maður gæti af því ætlað að þau væru hörð og hál er það ákveðin sjónhverfing - skinnáklæðið er látlaust en mjúkt og hæfilega stamt og sætin þægileg. Bílbeltin eru, sem betur fer, eins og við eigum að venjast, en ekki einhverjar ,,snörur" sem dragast sjálfkrafa á mann með hurðinni eins og var í sumum bandarískum bílum fyrrum. Innréttingin er bæði áberandi vönduð og glæsileg og bíllinn búinn öllum þeim búnaði sem nú er fáanlegur til að auka öryggi.

Rafeindabúnaður er mikill eins og við er að búast í Cadillac. Sérstakur ljósstafaskjár birtist í framrúðunni með upplýsingar sem stuðla að auknu öryggi, t.d. sést stilling útvarps/disktækis. Hraðastillirinn sér jafnframt um að halda hæfilegu bili á milli bíla.

AKSTURSEIGINLEIKAR
Það er eiginlega til lítils að reyna að lýsa því hvernig er að aka þessum bíl. og það er beinlínis villandi að tala um aksturseiginleika eins og gert er þegar venjulegir vísitölubílar eiga í hlut - þetta er einfaldlega annar heimur með önnur viðmið. Þennan bíl þarf einfaldlega að upplifa. Tækniupplýsingar hér á undan gefa ákveðna vísbendingu um hvers konar bíl er um að ræða, þ.e. glæsilegan, hraðskreiðan og voldugan lúxusfólksbíl - bíl sem vekur hvarvetna athygli og sem er meiriháttar tæki að keyra. Manni finnst óneitanlega dálítið ótrúlegt að stór hópur bandarískra bíleigenda skuli vera svo góðu vanur að taka þægindi þessa Cadillac sem sjálfsagðan hlut - en það er nú engu að síður staðreynd sem okkur vísitöluþrælunum gengur mismunandi vel að skilja.

Hinu er ekki að leyna að aksturseiginleikar þessa bíls, sé reynt að gera þeim einhver skil, skila sér ekki að öllu leyti í borgarumferð; heimaslóðir hans eru frekar á hraðbrautum. Þeir sem hafa kunnað að meta eldri og stærri Cadillac munu líklega sakna ákveðinna eiginleika í þessum bíl. Þeir finna þá frekar í eldri Fleetwood Brougham (gamla vatnsrúmið á hjólum). Fjöðrunin í STS, á hraða umfram 70 km/klst, er frekar stinn, t.d. álíka og í Benz af svipaðri stærð. Hliðarhalli í beygjum er hverfandi. Hreyfingar bílsins, nema þegar ekið er hægt, eru líkari þeim sem einkenna dýra evrópska fólksbíla en bandaríska - það sem gerir bílinn hins vegar ólíkan flestum evrópskum bílum er nánast algjör skortur á öllu hljóði sem maður tengir ósjálfrátt bíl og akstri.

Til þess að hægt sé að hemja eldri framdrifna STS við botngjöf er framdrif hans búið sérstakri tölvuvirkri álagsmiðlun og spólvörn. Væri hún ekki til staðar rifi bíllinn af manni stýrið og æddi út um víðan völl. Þrátt fyrir átaksmiðlunina í þeim bíl, sem er virk á minni hraða en 90 km/klst og dregur úr togi vélarinnar, var eins gott að vera viðbúinn og halda fast um stýrishjólið þegar stigið var rösklega á inngjöfina. Þegar eldri STS er tekinn af stað með tilþrifum, er tilfinningin líkust því að manni sé skotið af stað með risa-teygjubyssu. Þó er það ekki nema helmingur upplifunarinnar því þá fyrst tekur nú í hnúkana þegar hámarkstog vélarinnar verður skyndilega virkt eftir að skiptingin er komin í 2. gír. Áður en maður veit hvaðan á mann stendur veðrið, án hávaða, án vindgnauðs og án brunalyktar, hefur bíllinn náð flugtakshraða algengra einkavéla og maður fer að velta því fyrir sér hvort brautin endist til að hætta megi við flugtakið. Sem betur fer er bremsukerfið í Cadillac firna öflugt og veitir ekki af.

Í fljótu bragði mætti ætla að skinnklædd sætin séu bæði slétt, hál og hörð en það er bara sjónhverfing. Konunglega fer um mann undir stýri og vel er séð fyrir þægindum farþega, m.a. með sjálfstæðu upphitunar- og kælikerfi aftur í bílnum.

Í nýrri gerðinni af afturdrifna STS eru viðbrögðin öðru vísi og nánast eins og Bandaríkjamenn eru vanir í afturhjóladrifnum bílum - meira að segja heldur fjórhjóladrifni bíllinn stórum hluta hefðbundins karakters bandarísks bíls, t.d. varðandi viðbrögð við snöggri inngjöf þótt bíllinn sé áberandi rásfastur. Í akstri hefur maður ákveðna tilfinningu fyrir því hve þungamiðja bílsins liggur lágt þrátt fyrir að hjólin séu stór (225/60ZR-16). Maður hefur ekki ekið þessum bíl lengi þar til ljóst verður að þessi 4,6 lítra Northstar-vél er lygileg meistarasmíð. Hún liggur þversum í húddinu og hallar fram á við. Hún mun hafa birst fyrst í sportbílinum Cadillac Allanté sem GM hætti við fyrri nokkrum árum.
Þjöppunin er há, 10,3 :1 og innsprautukerfið er flóknara en í öðrum vélum frá GM. Í vélinni eru stimpilstangir úr þrykktu stáli, 4ra bolta höfuðleguklossar og fleira sem algengara er að finna í keppnisvélum.

Bosch-drifstjórnin (ASRIIU) í fjórhjóladrifna bílnum er merkilegt fyrirbrigði. Hún vinnur í þrepum og tekur til fleiri hluta en ABS-bremsanna: Í fyrsta þrepinu breytir kerfið kveikjutímanum til að draga úr togi vélarinnar; í öðru þrepinu dregur kerfið úr eldsneyti til allt að 5 sílindra (eftir þörfum). Sé þá enn hætta á spólun beitir kerfið ABS-bremsunum til að miðla átaki á milli fram- og afturhjóla.

Úr þessu öllu verður álagsstýring með spólvörn og þótt hún sé fullvirk og skili hlutverki sínu til hins ýtrasta hefur hún engin merkjanleg neikvæð áhrif á eiginleika bílsins - hún er
,,ósýnileg" og á sinn þátt í því að búa bílinn sömu eða betri eiginleikum og viðbrögðum sem hinn almenni bandaríski bíleigandi er vanur. Þegar öllu er á botninn hvolft er ég ekki frá því að þá eiginleika muni t.d. Þjóðverji, vanur stórum Benz og BMW, kunna að meta, ekki síst vegna þess hve þessi 2ja tonna Cadillac er sparneytinn í venjulegum akstri.
---------------------------


Cadillac Seville STS er látlaus bíll af bandarískum lúxusbíl að vera. Í honum er meiri lúxusbúnaður og sjálfvirkni en í flestum fólksbílum. Sjálfvirki hraðastillirinn heldur jafnframt föstu bili í næsta bíl, jafnvel hnakkapúðarnir eru rafstilltir og stilling þeirra geymd í tölvuminni. Í bílnum er 400 vatta Bose hljómtæki/diskaspilari og 12 hátalarar. Hljómtækin, sem má efla enn meira með viðbótareiningum, eru hluti af fjarstýrðu þjófavarnarkerfi.


Þægileg sæti eins og vera ber í Cadillac Seville STS. Í afturrýminu er sérstök miðstöð/kælikerfi sem farþegi getur stillt að vild. Í bílnum er meiri rafeindabúnaður en í flestum öðrum bílum. Ekki er hægt að opna dyr innan frá fyrr en bíllinn hefur stöðvast.
Stillingar framstóla og spegla (úti og inni) má forrita þannig að ákveðið númer, sem slegið er inn í tölvu bílsins, ráði stillingu. Miðstöð og kælikerfi er með sérstaka forritanlega tölvu með minni. Skottið opnast með fjarstýringu og lokast sjálfkrafa (þarf ekki að skella því). Fjarstýrð gangsetning er innifalin í aðgangskerfinu sem jafnframt er þjófavörn.

GM Northstar V8 er ólík öðrum vélum sem verið hafa í Cadillac. Það er ef til vill tímanna tákn að GM ábyrgist að Northstar-vél þurfi ekkert viðhald, annað en smurolíuskipti, fyrstu 160 þús. km. Bæði vél og bíll eru nánast hljóðlaus. Þrefaldar dyraþéttingar verka jafnframt sem hljóðdeyfar.

 

Til baka

Aftur á aðalsíðu