Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.

Brotajárn nr.9

© Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur. Öll réttindi áskilin.
(Spurningar sem borist hafa frá lesendum Vefsíðu Leós (www.leoemm.com) og Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur hefur svarað með netpósti ).

Spurningar og svör við bréfum sem bárust á tímabilinu 1. maí til 1. sept. 2004.

Spurt: Ég verið að velta því fyrir mér að setja spoiler aftan á bílinn minn (Volvo 240), og jafnvel einvherjar fleiri útlitsbreytingar. Ég er ekki að tala um ein- hver skemmdarverk eins og er verið að gera við Corollurnar, heldur eitthvað líkt því sem að verksmiðjan gerði. Því miður virðist vera erfitt að nálgast svona spoilera hér á Íslandi og ég hef ekki efni á að vera að panta þetta þannig að ég var að vonast að það væri hægt að nota spoiler af t.d W124 Bens eða einhverjum öðrum bílum. Þá kem ég að stóra málinu, getur spoiler haft neikvæð áhrif á bílinn, þ.e. að bensíneyðsla aukist eða eitthvað verra? Skiptir þá hallinn á spoilernum máli? Einnig hef ég verið að velta því fyrir mér hvort að munur sé á bensíninu sem er selt á "ódýru" stöðvunum eða þessu sem að "dýrari" stöðvarnar eru að selja? Ég vil meina að bensíneyðsla hafi minnkað hjá mér eftir 3 tanka af V-power. Getur verið að t.d. hjá Orkunni vanti bætiefni? Eða er þetta allt sama bensínið fyrir utan mun á oktanatölu? Og er meiri kraftur í afvgas 100LL flugvélabensíni? Mótorinn hjá mér, B230K með blöndung má taka bæði blý og blýlaust bensín þannig að ætti vélin ekki að ráða við bensínið án vandræða og fá meiri kraft?

Svar:
Þú getur notað spoiler af öðrum bílum aftan á Volvo 240. Eina sem þú þarft að hafa í huga er að hallinn á skottlokinu á þeim bílum sé svipaður, þ.e. nánast lárétt skottlok og lóðréttur bakhluti. Þá getur spoilerinn einungis minnkað vindviðnámið og eyðsluna auk þess að gera bílinn stöðugri á meiri hraða og koma í veg fyrir að aurleðja sogist upp á afturljósin. Það getur vel verið að eithvað aukaefni sé í V-Power (af einhverjum ástæðum er það dýrara). Hins vegar er bensínið á öllum stöðvunum úr sömu flutningsskipum og af sömu gerðum hvort sem er á þjónustu eða sjálfsafgreiðslustöðvum. Flugvélabensín er ekki kraftmeira. Hins vegar er oktantala þess yfir 100 sem þýðir að sjálfsíkveikjumörkin eru við hærri þjöppunarhlutfall. (Flugvélar eru ekki búnar mengunarvarnarbúnaði og auk þess inniheldur loftið minna af súrefni þegar flogið er hátt yfir jörðu). Bensín með of háa otantölu getur eyðilagt venjulegar bensínvélar. Prófaðu að setja hálfan brúsa af ísvara út í næsta tank á Volvonum - þú gætir fundið mun þegar hann er búinn.

Spurt: Sæll ég er með Mözdu 323 4+4 árgerð 83. Eftir langkeyrslur kemur stundum hik í ganginn og getur það líst sér þannig að hann hikar á ljósum þegar tekið er af stað eða gangi hraðar. Þetta gerist ekki mjög oft. Er einkvers konar innsog í inspýtingunni sem gæti verið að detta á? Ég man eftir að það var einhvertímann stybba af útblæstrinum þegar þetta gerðist.

Svar: Þetta getur nú verið dálítið snúið með þessa lýsingu á biluninni. Þessi kerfi þarf að bilanagreina eftir ákveðnum verklagsreglum. En þú getur byrjað á að útiloka ákveðna hluti: 1. settu ísvara í bensínið. 2. taktu kveikjulokið af og skoðaðu að innanverðu. Sé mikil útfelling á töppunum skaltu endurnýja það eða hreinsa. Rakaverðu kveikjulokið eftir hreinsun með Kveikjuþétti frá BN Autoparts (úðabrúsi sem fæst í Bílanausti). Í innsprautukerfinu eru 2 hlutir sem gætu valdið þessu - fljótt á litið: A. Kaldræsilokinn (þekkist á 2 rafleiðslum og einni grannri bensínleiðslu frá deilinum). Rafleiðslurnar liggja frá lokanum í hitaskynjara (pung) í vatnsganginum. Þegar kaldræsiloki lekur geta áhrifin orðið þau sem þú lýsir. Þú færð svona loka á partasölu. Prófaðu að skipta um hann. B. Jöfnunarlokinn (þekkist á tveimur loftslöngum, önnur liggur frá lokanum í soggreinina framan við inngjafarspjaldið en hin í soggreinina aftan við inngjafarspjaldið). Séu þessar slöngur lélegar getur falskt loft sogast inn með þeim og orsakað svona gangtruflun. C. Í þriðja lagi getur bensíndælan verið að stríða þér - þegar rafmagns-bensíndæla í þessum kerfum byrjar að gefa sig getur það lýst sér með gangtruflunum sem koma og fara.

Spurt: Ég hef hef heyrt að það þurfi að vera einhver ákveðin mótstaða í pústkerfinu sjálfu til að aflið nýtist sem best, aðrar segja að hámarksafl náist ef maður er ekki með neitt pústkerfi. Það væri gaman að fá að vita hvernig þetta virkar.

Svar: Þetta er á einhverjum misskilningi byggt. Hér áður fyrr voru bílar til sem höfðu tvígengisvél (Saab, Trabant o.fl.) og til þess að innsogs- og útblásturskerfi þeirra virkuðu fullkomlega þurfti að vera ákveðið viðnám í pústkerfinu enda voru tvígengisvélar hlutfallslega eyðslufrekari en bensínvélar. Í venjulegum fjórgengis-bensínvélum minnkar viðnám í pústkerfi afl vélarinnar enda er viðnámið einungis haft til að deyfa hljóð. Í mikið tjúnuðum 8 sílindra V-vélum getur við vissar aðstæður þurft að bergðast við mótþrýstingi í pústi vegna svokallaðrar yfirlöppunar ventla. Það er gert með pústflækjum. Mest afl fæst út úr venjulegri bensínvél án pústkerfis - án pústgreinar. Það er hins vegar ekki framkvæmanlegt vegna þess að þá kviknar í öllu sem er næst vélinni.

Spurt: Það eru nú orðinn nokkur ár síðan ég hafði samband við þig, en þá hjálpaðir þú mér með ráð í sambandi við 5.7 L Olds díiil vél sem ég var með í Blazer og reyndist vel..Sá bíll stendur nú í geymslu og er svo gott sem ryðgaður utan af vélinni, en hún gengur enn. En nú á ég ´92 Suburban sem er aðeins að stríða mér. Hann er með 350 TBI bensín vél. Hann hefur tekið upp á því að sýna smá hik í viðbragði þegar tekið er af stað í ca 800-1200 rpm. Bíllinn gengur fínan hægagang í ca 500 rpm, dettur fínt í gang og hefur gott upptak ofan 1200 rpm og gott tog. Nýlega dró ég þunga kerru norður á land og hann sýndi ekkert hik upp langar brekkur þannig að ég hef afskrifað bensíndælu og síu vandamál. Það er enginn bilanakóði þannig að ekki virðist vera alvarlegt skynjaravandamál, þó skipti ég um O2 sensor en það breytti engu. Ég hef líka sett STP fuel injector cleaner í bensín, tekið úr TPS skynjara og skoðað og spray´að með smá WD 40, tekið úr Idle solenoid og hreinsað með Carb cleaner og lyft upp handvirkt og liðkað með WD 40 og olíu EGR valve, hann var þó liðugur fyrir. Skipti um og setti ný Autolite kerti í. Útihitastig virðist engin áhrif hafa en þó finnst mér hann verri ef ég hef stoppað og mótorinn er enn heitur þegar ég fer af stað, þessvegna grunaði mig kannski röng skilaboð frá O2 sensor og þetta væri blönduvandamál. Að sjálfsögðu hef ég líka leitað hvort hann dragi falskt loft og get ekki fundið það. Bíllin er reyndar aðeins skárri nú en fyrir ca mánuði síðan, en ekkert af þessu sem ég gerði get ég tengt við að hann hafi skánað, nema kannski að STP injector cleaner hafi verið að vinna yfir tíma, nú er sú tankfylli að verða búin sem ég setti það á, blandaði einum brúsa í ca 130 ltr. Þetta er samt pirrandi, sérstaklega ef maður er nettur á gjöfinnni og er að færa sig til á stæði o.þ.h. Nú er ég orðinn ráðalaus og sé fram á að verða að fara að prófa að setja í nýjan TPS, EGR og Idle solenoid til að prófa mig áfram. Ég set líka injector cleaner í næsta tank.
Hefur þú einhver ráð ?

Svar: Þetta hljómar svo sem nógu einfalt. Engu að síður getur ,,Flat spot" verið eitt það snúnasta sem maður lendir í með svona vél. Stundum er ástæðan einfaldlega raki í bensíni (sem STP-efnið eyðir ekki) og getur ísvari og einn tankur leyst málið. Sogleki getur verið lúmsk orsök, bilaður vacuum-modulator á sjálfskiptingu getur m.a. valdið honum. Í einu tilviki sem ég man eftir olli lág spenna á rafgeymi (léleg sambönd) veikum neista í lausagangi sem svo orsakaði hik við inngjöf. Útfelling innan í kveikjuloki getur haft svipuð áhrif í þessu HE-kveikjukerfi og í því skiptir kertabil meira máli en í öðrum kerfum - er yfirleitt 1.2-1.5 mm. Í þínu tilviki myndi ég byrja á að láta tjékka á EGR-lokanum - þegar hann lokar ekki (slappur eða ónýtur gormur) verða gangtruflanir ekki ólíkar þessum.

Spurt: Ég er að vandræðast með notaða Kemppi-rafsuðuvél sem ég keypti: Þetta er blandgasvél með alls konar stillingum. Ég hélt að ég kynni sæmilega að rafsjóða (hef t.d. soðið með pinnavél án erfiðleika) en það virðist vera alveg sama hvað ég geri með Kemppi-vélinni - annað en að hlaða rafgeymi - að það verður ekkert nema fret og fruss og suðan eins og hraun. Ég er með nýja rúllu af 0,6 mm vír og réttan spíss. Hver getur orsökin verið?

Svar: Af lýsingunni að dæma ertu með gamla (15 - 20 ára) Super Kempomat-vél. Það á ekki að vera neitt að þessum vélum en þær eru m.a. gerðar fyrir 220 volt og venjulega húslögn (16 ampera öryggi) og því hentugar í bílskúrum. Ef við gefum okkur að þú kunnir að rafsjóða (ég treysti mér ekki til að kenna rafsuðu skriflega) og að rafsuðuvélin sjálf sé í lagi dettur mér fernt í hug: Í fyrsta lagi: Sé hleðslutæki fyrir rafgeyma í vélinni þarf að flytja stýritengilinn á milli, frá hleðslustýringunni og í rafsuðustýringuna áður en rafsuða hefst - gleymist þetta virka stillingarnar ekki fyrir spennu og mötun, vélin sýður samt en illa. Í öðru lagi: Röng grunnstilling. Til að handvirku stillingarnar fyrir spennu og mötun, framan á vélinni sjálfri, virki þarf að snúa valhnappnum í botn rangsælis þannig að hann vísi á strikin sem liggja að stillihnöppunum. Í þriðja lagi: Lélegt jarðsamband. Of slappar klemmur fyrir jarðtengingu eyðileggja fleiri suður en margan grunar. Notaðu ekki gormklemmu heldur spennta klemmu (Wisegrip) fyrir jörð, nægilega sveran jarðkapal og ekki of langan. Í fjórða lagi: Óvirkt hjúpgas. Utan um spíssinn er hulsa. Hlutverk hennar er að mynda varnarhjúp umhverfis suðubráðina með blandgasinu (stillt á 10 l/mín). Sé þéttihringur hulsunnar ekki í lagi blæs upp með henni og hjúpurinn virkar ekki. Sé hulsan sjálf brunnin, jafnvel þannig að brún hennar nemi við odd spíssins myndast enginn hjúpur og suðan verður ónýt. Þessa hulsu þarf að endurnýja reglulega þannig að rétt bil sé frá neðri brún hennar og upp í spíssinn.

Spurt: Mig langar að spyrja þig um nokkuð sem hefur bögglast fyrir mér þó nokkuð lengi. Það er all algengt þegar bílaumboð eru að segja frá nýju bílunum sínum að meðal þess sem talið er upp sem sérstkir kostir við gripinn er að undir honum séu 13, 14 eða 15 tommu felgur. Þessar upplýsingar má einnig sjá í auglýsingum um notaða bíla. T.d. smáauglýisingum DV. Ég verð að játa að ég skil alls ekki um hvað málið snýst. Eru þetta bara svona almennar upplýngar, rétt sem aðrar staðreyndir um bílinn? Ef svo er þá er auðvitað ekkert sem þarf að skilja frekar. Bíllinn er á 15 tommu felgum og þá veit ég það. Eða er í raun verið að segja manni eitthvað allt annað en orðin í tjá? Mér hefur dottið í hug að þetta sé aðferð til að segja mér (lesendanum) að bíllinn sé á "lágdekkjum". Það finnst mér þó vera hæpið. Það er varla almennur kostur við fjölkyldubíl ef hann er með slík hraðakstursdekk sem staðalbúnað. Mér hefur líka dottið í hug að það sé verið að benda á að þessi tiltekni bíll sé á ansi stórum hjólum, sem hlýtur þá eð vera kostur sem vert er að hampa. Ég sem sagt skil ekki hvað það er sem skiptir máli sem þarna er verið að koma á framfæri. Mér hefur líka sí svona dottið í hug að þetta bögglist fyrir fleirum. Getur þú gefið mér skýringu?

Svar: Stór hjól eru minna næm fyrir ójöfnu yfirborði en lítil. Þess vegna voru stór hjól, þ.e. bæði stórar felgur og stór dekk undir Rolls-Royce - reyndar líka undir Volvo. Hins vegar byrjuðu stóru felgurnar, á þeim bílum sem nú tíðkast, með ABS-læsivörninni. Til að hún virki nægilega vel á hraðskreiðari bílum þarf bremsudiska með meira þvermál (meiri flöt) og þeir verða að vera á öllum 4 hjólum. Af því leiðir að felgur þurfa að hafa meira innra þvermál til að rýma diskinn. Þá kemur upp vandamál vegna þess að hjólskál rúmar ekki nema ákveðið heildarþvermál hjóls. Með stærri felgu er því notað dekk með lægri prófíl til að hjólið rúmist í hjólskálinni og taki ekki út í. Mörgum hönnuðum þótti hjól með mjög lágum dekkjum óprýða bíla. Til að hafa áhrif á almenningsálitið var því markaðsdeildum bílaframleiðenda falið að ,,selja" þetta útlit. Þær völdu að gera þetta að stæl; láta sem lægst dekk vera ,,töff". Og að venju dönsuðu idjótin með (því af þeim er nóg framboð) og nú er svo komið að þeir heimskustu (sem oft skortir jafnframt allt nema fé) telja það ,,mest töff" að hafa sem stærstar sportfelgur og dekkin svo þunn að engu líkara sé en að ekið sé á felgunum berum. Þótt með þessu verði bíllinn nánast ókeyrandi - jafnvel stórhættulegur - er það aukaatriði: Það er ,,lúkkið" (og bassinn í græjunum) sem skiptir máli. Því má bæta hér við, að til að reikna út heildarþvermál hjóls er notuð eftirfarandi aðferð, tek sem dæmi dekkjastærð 245/50ZR17: 245 er breidd sólans í mm. 50 er prófíllinn = hæð dekks frá felgubrún er 50% af breidd sólans. Z er hraðamerking (dekkið þolir meira en 210 km/klst - það þykir idjótunum flottast þótt þeir viti ekki að því meiri hraða sem dekk þolir, því klístraðra er gúmmíið í sólanum og því skemur endist mynstrið - þannig má ná af þeim miklu meiri peningum en fólki með eðlilega greind). R þýðir að þetta sé radialdekk, þ.e. að strigalögin liggi þversum í burðarlagi sólans. Þvermál hjóls er tvisvar sinnum hæð dekksins + þvermál felgunnar. Hæð dekksins frá felgubrún er 245 x 0,5 = 122,5 mm. Þvermál felgunnar er 17 tommur sinnum 25,4 = 431,8 mm Þvermál hjólsins er þá: 122,5 + 431,8 + 122,5 = 676,8 mm.

Spurt: Ég er að velta fyrir mér að kaupa Renault Megane Scenic árg. 2000. Veist þú um bilanatíðni í þeim bílum eða einhvern veikleika? Ég á WV passat árg. 1997 og ég lenti í að þurfa að skipta um spyrnurnar og það var mjög dýrt, hef síðan heyrt að þetta sé algeng bilun í þessum bílum. Vil helst ekki lenda í þessu aftur. Veist þú hvort hægt sé að nálgast þessar upplýsingar á netinu.þ.e bilanatíðni í bílum?

Svar: Ég þekki ekki til bilanatíðninnar hjá Megane sérstaklega en átti Renault Clio í 10 ár og ók honum 250 þúsund km og er hann besti og hagkvæmasti smábíll sem ég hef átt um dagana. Upplýsingar um bilanatíðni er, að mínu mati, lítið að marka. Sem dæmi þá er iðulega ruglað saman athugasemdum/ábendingum og bilun við skoðun en athugasemd er allt annað en bilun. Renault er mest seldi innflutti bíllinn á stærsta og kröfuharðasta bílamarkaði Evrópu, Þýskalandi, en þar seljast t.d. 2 Renault á móti hverjum Toyota. Það segir mér mest um gæðastig þessara bíla. VW hefur fengið orð á sig fyrir að vera bilanagjarn og dýr í viðhaldi í seinni tíð. Það sem mestu máli skiptir er að viðkomandi notaður bíll hafi fengið reglubundið forvarnarviðhald (þjónustuskoðanir) hjá til þess bæru verkstæði (umboðsverkstæði) og að bílnum fylgi þjónustubók sem staðfesti það. Þjónustubók sem kvittuð er af smurstöð er ekki fullnægjandi. Á ábyrgðartíma bíla þarf að vinna ýmis forvarnarverk, svo sem að endunýja kælivökva, bremsuvökva, reglubundin smurning/olíuskipti o.fl. sem kemur í veg fyrir dýrar bilanir eftir að ábyrgð er fallin úr gildi, en ábyrgð er minnst 2 ár frá skráningardegi. Hafi þetta reglubundna viðhald ekki farið fram eru auknar líkur á að bíllinn geti orðið dýr í rekstri. FÍB auglýsti einhvern tíman einhverja upplýsingaþjónustu varðandi notaða bíla en mér kæmi ekki á óvart að það væri annað hvort hætt því eða að upplýsingarnar séu lítils virði. Sænsku neytendasamtökin eru með einhverja upplýsingaþjónustu af þessu toga www.nybilguiden.konsumentverket.se og þá undir liðnum Begbilguiden - en eins og áður sagði er sjaldan mikið á slíku að græða. Það er bara gamla sagan í fullu gildi - hvaða meðferð hefur bíllinn fengið. Skráningarferill bílsins (fjöldi eigenda og hvaða eigendur) og gild þjónustubók segir töluvert. Hafi tryggingafélag átt bílinn og/eða þjónustubókin ,,týnd" (bílaleigubíll) skaltu forða þér hið bráðasta.

Spurt: Þakka góð svör við fyrri póstum. Nú er ég mikið að spá í nýja bíla og þá Ford Fiesta eða eitthvað svipað (stærð og verð). Hef líka skoðað Seat Ibiza og virðast þeir allnokkuð góðir. Hef líka verið að gæla við Renault Clio. Það sem dregur úr áhuga á honum er sú vitneskja að hann hefur verið eins í grundvallaratriðum í nokkur ár og mætti segja mér að örstuttu eftir að ég væri kominn á slíkan kæmi ný og gjörbreytt lína (sbr. hressilegar breytingar á Mégane). Hef lítillega skoðað Mazda 2. Virðist mjög rúmgóður, en kannski ekki sá al fallegasti af þessum nýju bílum. Nú í janúar eru flest umboðin með verðlækkanir og því virðist kjörið að skella sér á eintak. Þætti vænt um ef þú hefðir svona í handraðanum einhverja punkta sem þú kannt að hafa rekist á við lestur eða prófanir. Það sem ég hef kannað einna best eru Ford Fiesta og Seat Ibiza, báðir 5 dyra. Með metallakki, ABS, loftkælingu, fjarstýrðum hurðalæsingum og CD spilara kostar Ford Fiesta Trend (1,4i 16v - 80 hp - 124 nm/3500) 11.900 evrur Seat Ibiza Stella (1,4 16v - 75 hp - 126 nm/3800) 12.500 evrur Mazda 2 (ca 75 hp) 12.300 evrur Þótt mér lítist mjög vel á Fiestuna verð ég að viðurkenna að mér fannst aðeins vanta upp á að vel fari um vinstri löppina í henni - Seatinn hafði þarna vinninginn. Hins vegar þykist ég einhvers staðar hafa lesið að Fiestan væri verðugur litli bróðir Fócussins og er ekki leiðum að líkjast. Opel Corsa hefur verið í myndinni, en mér virðist hann helst til lítill og gæti líka ímyndað mér að núverandi lína detti fljótlega út. Svo er spurning hvort maður á eitthvað að líta á Kóreubílana, en maður hefur heyrt frekar misjafnar sögur af þeim (eins og þar séu fleiri mánudagsbílar á ferðinni). Kannski er Hyundai Atos stórsniðugur? Ef þú hefur tíma og nennu að deila einhverjum hugleiðingum með mér væri það vel þegið og ef einhverjar ábendingar gætu skipt sköpum varðandi valið. Að ég tali ekki um ef þú leggur áherslu á að ég kíki á einhverjar tegundir sem ég hef ekki nefnt (Citroen C3, Fiat Panda, etc.) Og ekki verra ef þú veist um einhverja(r) vefsíðu(r) sem fjalla um nýja bíla, kosti þeirra og galla og jafnvel samanburð milli sambærilegra bíla. Þú hefur kannski lesið á milli línanna að ég hallast töluvert að Fiestunni, en það er aðallega tilkomið að ég á eina árg. 1992 (1.3 m/blöndungi - 60 hp) og hef átt í rúm tvö ár og hefur reynst vel (algjör hraðbrautavargur - náði 170 km/h og klettstöðugur). Því væru punktar; jákvæðir jafnt sem neikvæðir um þessa nýju sérstaklega vel þegnir. Með fyrirfram þökk, Sveinn Arnar Nikulásson. P.S. Er búsettur á Spáni (það væntanlega skýrir tal um evrur, hraðbrautir og Seat).

Svar:
Ég hef verið að draga mig út úr umfjöllun um nýja bíla undanfarin 2 ár og ákvað að hætta afskiptum af þeim málum frá og með nýliðnum áramótum. Ástæðan er einfaldlega sú að það er ekki hægt að vinna með stuttbuxnaliðinu sem hefur verið að bítast um þessi íslensku bílaumboð, sem eru ýmist á leið í gjaldþrot eða nýbúið að forða frá gjaldþroti. Búseta þín á Spáni hlýtur að hafa töluverð áhrif á val á nýjum bíl. Hér heima dytti engum í hug að kaupa Seat (eftir vonda reynslu af þjónustu Heklu) en á Spáni er auðvitað þjónustan í lagi. Hins vegar hefur VW fengið orð á sig fyrir háa bilanatíðni og dýrt viðhald sl. 10 ár. Það er örugglega ekki að ástæðulausu hve Ford Focus, Fiesta og Mondeo seljast vel - maður fær talsvert mikið fyrir peningana í þessum bílum. Sé Fiestan hraðbrautavargur er Clio ekki síðri - það er ekki langt síðan ég ók Clio 1400 af árgerð 2002 frá Frankfurt og suður í Bæjaraland, ók þar þvers og kruss um Alpana og síðan aftur til baka til Kaupmannahafnar. Það sem Þjóðverjinn sér við Clio (og Renault yfirleitt) er fyrst og fremst frábærir aksturseiginleikar, ekki síst á hraðbrautum. Það er engin tilviljun að Renault er mest seldi innflutti bíllinn á þessum stærsta og kröfuharðasta bílamarkaði Evrópu, Þýskalandi (og landanum gengur erfiðlega að skilja að Þjóðverjar kaupa tvöfalt fleiri Renault en Toyota). Samanburður á Golf og Clio er t.d. sláandi - Clio er mun betur hljóðeinangraður, bæði vélarhljóð og veghljóð, sem sérstaklega ber á í akstri á hraðbrautum, hann fer t.d. í 180 km/klst. Af Kóreubílum ber Hyundai af - þeir hafa verið að vinna sig upp í gæðum taktvisst sl. 5-7 ár og náð athyglisverðum árangri. Mazda hefur alltaf verið vandaðasti japanski bíllinn að mínu áliti. Hins vegar mun framleiðandinn vera kominn að fótum fram og margra ára erfiðleikar gætu hafa sett sitt mark á bílana - en ég hef ekkert fyrir mér í því og hef ekki skoðað Mazda sérstaklega - ek hins vegar sjálfur á amerískum Mazda 626 sem er meiriháttar bíll. Það er ein bresk vefsíða sem mér hefur fundist bera af í umfjöllun um nýja bíla. Sláðu inn leitarorðinu Honest John á Google.

Spurt: Ég var að spá aðeins ég er að pæla í að kaupa mér mmc lancer 98 4x4 ek 101þ sem lítur mjög vel út og allt það en málið er að bíllinn fór eitt sinn veltu en það var skipt um allt sem skemmdist og bíllinn lagaður á verkstæði og meira að segja var hann mælur upp til að athuga með skekkju sem var enginn en ég var bara að pæla er manni óhætt að kaupa svona tjónabíla ég fæ þennan bíl á 350þ stgr útaf því að hann er tjónabíll en gangverðið á svona bíl er á milli 750-850þ hvað segir þú á ég að skella mér á hann eða ekki ég er svona smá efins útafþví að hann er tjónabíll en ber þess samt ekki merki.

Svar: 400 þúsund króna afsláttur er heilmikið en vekur spurningar. Tjékkaðu á því hver greiddi viðgerðina eftir veltuna. Hafi það verið tryggingafélag er áhætta þín minni en ef eigandi bílsins hefur borið tjónið og látið gera við bílinn. Einnig skiptir máli hve mikið bílnum hefur verið ekið síðan hann valt. Hafi honum verið ekið t.d. 100 þúsund km. bendir það til að viðgerðin hafi verið unnin á faglegan hátt, ef hins vegar eru 5000 km síðan bíllinn valt skaltu vera á varðbergi.

Spurt: Ég er að skoða jeppa þessa dagana og hef ég aðallega verið að skoða MMC,Galloper og Musso. Ég hef alltaf haft áhuga á Amerískum bílum og sá CHEVROLET TAHOE LS 1995 keyrðan 160 þ.km með 5.7 lítra vél og
sjálfskiptur. Það sem mig langaði að spyrja þig að er, hvort það sé vitleysa að fá sér svona bíl, sem sagt hvort þetta sé að bila meira en þeir japönsku og líka hvort eyðslan í svona bílum sé "alltof" mikill. Ef
þú finnur tíma til að svara þessu þá væri það vel þegið.

Svar: Það er ekkert að bílnum. Eyðslan er lítil miðað við stærð bíls og vél. Vandinn er hins vegar sá að það er nánast ómögulegt að losna við svona bíla hérlendis vegna fordóma gagnvart amerískum bílum og vegna þess að braskarar (flóðhestar) hafa verið að flytja inn vatnstjónaða ameríska bíla í stórum stíl sem hafa verið til ótrúlegra vandræða (enda afskráðir sem ónýtir í USA).

Spurt: Ég vill byrja á því að hrósa þér fyrir frábæra skriffinsku! Þú hefur skrifað mjög marga góða bíla pistla sem ég hef haft gaman að lesa. En ég er í smá vandræðum með bílinn minn. Það er Subaru Justy 1991 módel. Þetta er 1.200 cm2 3 cyl 9 ventla vél með sjálfvirku-innsogi. Þannig er mál með vexti að bíllinn vill ekki ná upp snúning, fyrst um sinn þegar hann er ískaldur. Það tekur mig alltaf 2-3 tilraunir að koma honum almennilega í gang. Svo er bílinn að eyða nokkuð miklu (10-12 lítrum á hundrað kílómetra) með sparakstri næ ég 10 á 100km! Eftir nokkra mín akstur er bíllinn kominn á fullt innsog, eða um 1500 rpm. Þegar bílinn er hálf-heitur, þá fer innsogið beint í 1500-1700 rpm. Ég er búinn að skipta um helst hluti í kveikjunni og nýr rafgeymir er í honum. Kertaþræðir eru um 35.000 km/4 ára gamlir. Þess má geta að bíllinn rýkur í gang alltaf, en "deyr" fljótlega. Ég vill ekki fæða hann bensíninu því þá er erfiðara að stara honum ef ég "missi" hann út. Í dag hreinsaði ég blöndunginn og brunahólfin þrjú með RadeX, það gerði ég samkvæmt leiðbeiningum aftan á brúsanum. Ég er líka búinn að prófa fullt af öðrum hreinsiefnu og Vpower. En eyðslan og vandamálið er alltaf til staðar. Best er að bæta því við, þegar ég gef bílnum snarpt inn þegar hann er heitur og sleppi svo alveg gjöfinni. Þá sprengir hann út úr pústinu, þessi sprenging er ekkert rosalega hávær, en nóg til þess að fólk taki eftir henni. Hverju mælir þú með að ég geri í þessu máli? Hvorttveggja eyðslunni og kaldræsingunni.

Svar: Þegar sprengingar verða í pústkerfinu er það vegna þess að þar er óbrennt eldsneyti. Ástæðan fyrir því að óbrennt eldsneyti kemst út í pústkerfið er ófullnægjandi bruni. Ástæða hans er annað hvort of sterk blanda eða of veikur neisti. Hvort tveggja getur valdið erfiðleikum við gagnsetningu og gangtruflunum. Byrjum á bensínblöndunni: Tepptur lofthreinsari getur valdið of sterkri blöndu. Vatn í bensíni getur valdið því að það fer óbrennt út í pústgreinina (prófa ísvara saman við bensín). Sogleki - einhver leki í soggrein eða í slöngum sem koma á soggreinina/blöndunginn - getur valdið of sterkri blöndu. (Tékkaðu allar loftslöngur sem koma á soggreinina og gakktu úr skugga um að soggrein og blöndungur séu ekki laus á boltunum). Sjálfvirkt innsog í ólagi - fer ekki af eftir að vél er orðin heit (kannaðu stöðu inngjafarspjaldsins þegar vélin gengur heit - það á að vera galopið). Neistakerfið: Kveikja of sein. (Kveikjulokið og hamar eru væntanlega í lagi). Ónýtir (nýir eða nýlegir) kertaþræðir. Sumar tegundir kolþráða eru ónýtir nýir. Séu kertaþræðirnir af tegundinni HotWire skaltu fleygja þeim. Notaðu kertaþræði frá BOSCH. ND kerti (Nippo Denso): Þau ND kerti, sem voru seld hérlendis í kringum 1990 virtust ekki virka (nema þau sem komu sem frumbúnaður í Toyota, kertin virtust ekki þola að blotna og hafa verið til ótrúlegra vandræða. Notaðu NGK. Gæti verið vegna lélegs háspennukeflis.

Spurt: Ég vil byrja á því að þakka fyrir frábær skrif þín á sínum tíma í Bílablaðið Bílinn sem ég var áskrifandi að. Það var mikill missir þegar það blað hætti að koma út og því var það sérstök ánægja að finna þessa síðu sem þú ert með hér á netinu. Ég hef verið að lesa greinarnar þínar þar og það er frábær lesning og þá sérstaklega greinarnar um gömlu jeppana og bílana (Willys, Land Rover, Gipsy, GAZ ofl.) og reyndar einnig greinarnar um nýju jeppana og bílana sama hvort þar er fjallað um Skoda eða Porsche. Ég er alls ekki sammála því að ekki eigi að skrifa um gömlu austantjaldsbílana (Sbr.,,Hvers vegna ertu að skrifa um þetta andskotans austantjaldsdrasl........") þeir bílar eiga sér sögu eins og aðrir bílar og þeir voru/eru hluti af okkar bílaflota (voru t.d. stærri hluti en Benz) og þar með stór hluti af okkar bílasögu. Það er því afar ánægjulegt að sjá greinar um þá hér þó svo að gæði bílanna hafi kannski verið ansi misjöfn á sínum tíma. En kannski er það einmitt það sem gerir lesningu um þá svo skemmtilega því þó ekki sé maður mjög gamall þá man maður eftir sumum af þessum bílum og einkennum þeirra og í dag eru allir bílar orðnir nánast eins, varla nokkur sérviska,sérkenni eða sérþarfir. En þá að vandamálinu, þannig er mál með vexti að ég á Mitsubishi Pajero af árgerð 1991 þ.e.a.s. gerðin sem kom ný 1992 og var óbreytt til 1996 (var reyndar nánast óbreytt til c.a. 2000) og er bíllinn með V6 3000 bensínvélinni. Bílinn er búið að keyra u.þ.b. 170 þús.km og keypti ég hann í maí 2003. Fljótlega fór að bera á hvimleiðu vandamáli en það lýsir sér þannig að þegar bílnum er ekið af stað úr kyrrstöðu þá eru gangtruflanir og hik í vélinni sem hverfa yfirleitt þegar hún nær hærri snúning. Ég er búinn að skipta um loftsíu og bensínsíu en er reyndar ekki búinn að skipta um kerti, þræði eða kveikjulok. Vélin gengur nokkuð góðan hægagang (það er reyndar smá fret í henni í hægagangi ef hlustað er eftir því) og á keyrslu er bíllinn fínn, engar gangtruflanir og enginn aflmissir. Ég er að velta fyrir mér hvað er að hvort um kveikjuvandamál sé að ræða sem leysist með því að skipta um kerti, þræði og lok eða hvort um eitthvað annað gæti verið að ræða. Gaman væri að heyra þitt álit. PS. Mér sýnist að eyðslan í blönduðum akstri sé um 17-18 lítrar. Þetta er stutti bíllinn (3ja dyra) og á 32 tommu dekkjum. Það er reyndar er bilaður hjá mér bensínmælirinn en þetta ætti samt að vera nokkuð nákvæm tala. Hvaða helstu leiðir eru til að auka afl þessara véla (tölvukubbar?) og veistu hvernig þær hafa reynst ?

Svar: Ástæðan fyrir því að ég spurði um eyðsluna er sú að þegar kveikjukerfið er í ólagi (daufur neisti) eykst eyðslan verulega (25 lítrar og yfir). Sé eyðslan ekki óeðlileg myndi ég telja að líklegasta skýringin á hiki við inngjöf og gangtruflun sé vegna loftflæðiskynjarans í loftinntakinu á vélinni. Þessir skynjarar hafa bilað talsvert í Pajero með þessa vél. Stundum nægir að lofthosan frá inntaksopi að skynjara sé lek - jafnvel smágat getur valdið truflun - gatið minnkar og stækkar með hreyfingu vélarinnar. Veiki punkturinn í þessari vél (þetta er sama 3ja lítra V6-vélin og hefur verið í Chrysler-bílum í langan tíma en með öðru vélstýrikerfi) er tímareimin. Taktu enga áhættu með hana. Ég þekki ekki til tölvukubba fyrir Mistubishi vélina (þeir passa ekki úr Chrysler). Skynjarinn nefnist á ensku: Air mass sensor. Það þarf sérstakt tæki til að mæla ástand skynjara sem ekki er alveg ,,dauður". Svona skynjara gætirðu jafnvel fengið á partasölu sértu heppinn. Byrjaðu á að skoða vandlega loftbarkann (hosuna) leki á milli soggreinar og skynjara er algengur. Notaðu ekki Nippo Denso (ND) kerti - þau geta valdið gangtruflunum jafnvel ný og eru iðulega ónýt ef þau hafa blotnað. Notaðu NGK eða Bosch.

Spurt: Ég er með Range rover 82 módelið með þessum leiðinda tveggja turna drasli(þegar maður kann ekki á það). Ég ætla að fara út í það að setja venjulegan blöndung og er búin að gróf vinna millihedd en mig vantar að vita hvort þú getir sagt mér hve stóran ég þarf. Hvort ég þarf tveggja hólfa eða fjagra og hvað flæði í gegn sé hentugast (500,600,700 týpan) eða kanski bara eithvað allt annað. Þar sem þú ert nú víðlesin og fróður maður datt mér í hug að þú gætir haft einhverja heimildir í bakhöndinni. þetta er þessi litli áttagatamotor man aldrei hvað hún er skráð 2,6 lítra eða eithvað svoleiðis þú hlýtur að kannast við þetta.

Svar: Þetta er lítil amerísk álvél upphaflega frá Buick (3,5 lítra) og því hætt við að menn setji of stóran amerískan blöndung á hana (400 cfm gæti ég trúað að væri hámark). Ég þekki hins vegar ekki þessa breytingu. Hins vegar eru Bretar vanir öllu svona - þar fást millihedd og alls konar blöndungar fyrir Rover 3,5 lítra, eins og þeir kalla þessa Buick-vél. Þú færð breska tímaritið ,,Street Machine" í bókabúð - þar eru auglýsingar yfir svona dót.

Spurt: Mig fýsir að vita hvort þú hefur skoðun a Peugeot diesel vélum. Það er verið að spá í einn Peugot 306 XS diesel ´'98 ekinn 95 000 Km. Það hræðir svolítið að þrátt fyrir ekki meiri akstur en þetta er búið að taka upp í honum vélina. Raunar fylgdi ekki sögunni hvað það þýddi (vélarupptekt getur þýtt allan fjandan úr munni fólks eins og þú sjálfsagt veist manna best). Því er spurningin; hafa þessar vélar slæmt orð á sér.

Svar: Næst á eftir Isuzu framleiðir Peugeot flestar dísilvélar fyrir bíla í heiminum. Þær eru í alls konar bílum og betur þekktar undir nafninu Indénor - taldar með bestu dísilvélum sem völ er á. Það eru til snillingar sem geta eyðilagt allar vélar (næstum fyrirhafnarlaust með heimskunni einni saman). Það kann að vera mínus að búið sé að fást við vélina - hvaða fúskari sem er virðist treysta sér til að taka upp dísilvél - en það er annað mál.

Spurt: Ég er að fara setja beisli og tengi undir bílinn hjá mér og mig vantar teikningu hvernig á að tengja þetta svo að það virki allt rétt á tjaldvagninum í sumar... vona að þú búir yfir einhverjum upplýsingum sem koma að gagni. Farðu á vefsíðu Wurth (www.wurth.is) þar eru tengimyndir fyrir mismunandi tengla.

Svar: 7-póla kerrutengill:
L : Gul Vinstra stefnuljós að aftan
54g : Blá Inniljós í hjólhýsi (bakkljós) eða þokuljós að aftan
31 : Hvít Jarðtengi (stell)
R : Græn Hægra stefnuljós að aftan
58L : Svört Vinstra afturljós
58R : Brún Hægra afturljós
54 : Rauð Bremsuljós

Spurt: Ég er að spá í Benz með 4,2 vél '94 model (420 E), hvernig vélar eru þetta, eru þær 8 sílindra og eru þetta endingargóðar vélar? Ég sá einn sem er ekki ekinn nema 130þ. km. sem er ekki mikið fyrir 10 ára gamlan bíl. Hvað geturðu sagt mér um eyðslu - vélin er um 270-290 hestöfl er það ekki? Þakka fyrir mig.

Svar: Ein besta V8-álvélin í bíl. Í lagi (í langa bílnum 420SEL) er eyðslan 13-15 lítrar. 3,8 og 4,2ja lítra V8-vélarnar eru nýrri hönnun og mun þróaðri en 2,8 lítra 6 sílindra vélarnar sem eru mun eyðslufrekari (öfugt við það sem margir halda). Þetta á við stóru ,,alvöru" Benzana fram að 1992 með W126 boddí. Þeir bílar sem þá tóku við, þ.e. hönnunin sem stundum er kölluð ,,alþjóðlegi leigubíllinn" (W124 og W140) eru ekki eins spennandi að mínu mati - bæði flatir og ljótir/mattir - en vélarnar ættu að vera jafn góðar.

Spurt: Ég keypti nýlega G. Cherokee Laredo árg. 2001 sem ég flutti inn notaðan frá USA, mig langaði að leita álits þíns á hvort ryðverja ætti bílinn allan alveg, bara undirvagninn eða ekki neitt þar sem skiptar skoðanir eru um það hjá eigendum svona bíla um hvað eigi að gera eða hvað þurfi.

Svar: Mín skoðun er sú að því minna sem þú gerir því minna ryðgi bíllinn. Þetta íslenska ryðvarnarkjaftæði er fyrir löngu orðinn meiriháttar brandari - ryðvörnin hefur nánast ekkert gildi nema til þess að skapa einhverjum ídjótum vinnu og tekjur og til eyðileggja verksmiðjuryðvörnina. Það eina sem ég myndi geri (en hef ekki þurft enn) við mína bíla er að úða þykkri smurolíu einu sinni á ári á undirvagninn - sérstaklega til að verja hann gegn raka og salti þegar bíll stendur óhreyfður hér í saltpæklinum á Suðurnesjum. Aðalatriðið er að halda þessu hreinu.

Spurt: Ég á í smávæiglegum vandræðum með Corsuna mína sem er '95 árg (1,4i stendur aftan á henni ef það hjálpar). Málið er það að ég setti í hann kraftsíu fyrir tæpum tveimur árum og hafa stöðugar gangtruflanir verið í honum, sérstaklega á veturna, síðan. Vinur minn benti mér á að það gæti verið vegna þess að vélin næði ekki að losa það loft sem hún tæki inn þar sem ég er ennþá bara með orginal pústið. Þá er spurning mín sú hvort lausn vandans væri stærra púst eða flækjur eða eitthvað svipað og er þá eitthvað sem þú mælir sérstaklega með? Reyndar voru smá gangtruflanir í honum áður en sían kom en þær hafa margfaldast síðan ég keypti síuna og sem dæmi þá á hann það til að drepa á sér þegar ég er að leggja í stæði, með kúplinguna niðri. Svo er annað vandamál, bremsurnar. Ég veit ekki alveg hvernig á að lýsa því en það er eins og þær séu of "mjúkar" þ.e. ekki nógu snöggar eða skarpar. T.d. hugsa ég að ef krakki hlypi fyrir bílinn myndi ég líklegast
keyra yfir hann og alla fjölskyldu hans áður en ég næði að stoppa. Ég er nýbúin að skipta um klossa og borða og allskonar svoleiðis en ekkert breytist en samt fékk ég skoðun á hann, án athugasemda í janúar. Dettur
þér eitthvað í hug?

Svar: Mér finnst afar ólílkegt að gangtruflanir hafi eitthvað með loftsíu að gera (ég reikna með að þú eigir við loftsíu með ,,kraftsíu") en að það sé frekar tilviljun að þær hafi byrjað upp úr síuskiptunum. Gangtruflanir geta stafað af því að vatn hafi safnast í bensíngeyminn (prófaðu að setja slurk af ísvara í næstu áfyllingu), hálfstíflaðri bensínsíu, lélegur kertaþráðum, kertum o.s.frv. Það hefur komið fyrir að ónýt bremsuslanga við eitthvert hjólið hafi valdið því að ástigið mýkist, eins og loft sé í bremsukerfinu en oftast er þetta vegna leka - og hann þarf ekki að vera meiri en svo að erfitt sé að koma auga á hann. Sé bremsuslanga ónýt geturðu lent í því að bremsurnar fari allt í einu af bílnum. Ráðlegg þér að fara sem allra fyrst á almennilegt verkstæði,lýsa þessu og fá gert við bremsurnar (bíllinn er hættulegur) og gangtruflunina.

Spurt: Ég hef lesið greinar eftir þig í bílablaðinu "Bíllinn" og svo hér á síðunni þinni og langar til að biðja þig að taka meira saman um pústkerfi. Ég hef lesið bækur og blöð og það eru allir sammála um það að rétt púskerfi skili ódýrustu hestöflunum en það eru ekki allir sem hlusta. Mér finnst sorglegt þegar menn eru að taka ný rýðfrí púskerfi undan bílum og setja eithvað 3" í staðin, ég er ekki sanfærður um að það gefi afl. Er ekki hægt að setja saman formúlu fyrir bensín- og díselvélar um hvað eigi að vera svert púst rör miðað við snúningshraða og slagrými vélar. Þarf ekki einnig að taka tillit til hita pústsins. Best væri ef einnig væri eithvað um beygjur á púströri í þessu. Með þessu gæti maður séð hvað reiknað þvermál pústsins á að vera og spáð í hvað minnka megi viðnámið mikið. Hljóðkútur er eitthvað sem gefur viðnám í pústkerfum og ekki á að sleppa en vanda valið.

Svar: Sjálfsagt má skrifa um þetta eins og annað. Það eru ákveðnar formúlur notaðar til að reikna út nauðsynlegt flæði í pústkerfi dísilvéla og eru þær einfaldar. Það sem flækir málið varðandi bensínvélina eru mótverkandi þrýstingspúlsar næst heddinu sem skapast vegna yfirlöppunar opnunar inn- og útventla (þetta vandamál er ekki fyrir hendi í dísilvél vegna þess að þar er ekki sog eins og í bensínvél). Flækjur leysa hluta af því vandamáli (í bensínvél en gera ekkert gagn í dísilvél) og reyndar er fjallað um það í grein á vefsíðunni (Tæknimál: Um vélar skiptingar, tjúnun o.fl.).

Spurt: Varðandi sídrif, eru sídrif með mismunandi virkni eftir tegundum, þ.e. hvort það er í bíl með millikassa eða án millikassa og hvort gæði þess fari eftir verði bílsins. þætti vænt um ef þú gætir bent mér á einhverjar greinar.

Svar: Skýringargrein um mismunandi fjórhjóladrif er í gagnasafninu ,,Brotajárn" á vefsíðunni minni t.d. í sambandi við hvort draga má bíl eða ekki. Enn sem komið er er efnið óflokkað svo menn verða að hafa fyrir því að leita. Öll sídrif byggja á millikassa eða millidrifi. Hins vegar er ekki hátt og lágt drif í öllum millidrifum. Millidrif getur verið sambyggt gírkassa. Mismunandi útfærslur á sídrifum eru margar: Amerískir bílar ( einnig Land Rover Discovery, Range Rover og Lada Sport) eru margir með s.k. Quadratrac en þá er bíllinn alltaf í fjórhjóladrifi um mismunardrif. Því mismunardrifi í millikassanum má læsa til að fá jafnt afátak á fram- og afturhjól. Subarau er með tvenns konar sídrif, annars vegar það sem fylgir sjálfskiptingunni og er með tölvustýrðri aflmiðlun á milli fram- og afturhjóla en hins vegar með beinskipta bílnum sem er með hátt/lágt drif en þar er notuð seigkúpling fyrir aflmiðlunina. Mitsubishi, Mazda og Toyota eru með þriðju útfærsluna af sídrifi í station- og fólksbílum. Það er dálítið misvísandi að tala um gæði svona búnaðar: Í fyrsta lagi hef ég ekki vitneskju um annað en að þessi drifkerfi séu nægilega sterk. Það kann að vera að viðnám í þeim sé mismunandi mikið (mismunandi eyðsla) en fyrst og fremst er hönnun þeirra miðuð við að auka akstursöryggi (ekki torfærugetu) í þeirri notkun sem framleiðandi telur að algengust sé fyrir viðkomandi bílgerð.

Spurt: Ég þakka góð svör og ég kíkti á ,,Honest John" á netinu. Niðurstaðan var sú að ég fékk mér Ford Fiesta Ghia 1,4i á 12.000 evrur sléttar (það var einhver bílaskríbentinn á netinu sem sagði Fiestu mesta "Fun to drive" smábílinn sem hann hefði kynnst). Það sem kom mér mest á óvart við verðsamanburðinn að
hann var um 500 evrum ódýrari en sambærilegur Skoda! Nú eru næstum liðnar fjórar vikur síðan ég fékk bílinn afhentan og er þegar búinn að keyra um 1600 kílómetra. Ætlaði ég fyrir löngu að vera búinn að skrifa og spyrja hvort það væru einhver sérstök atriði sem hafa ber í huga þegar maður er að keyra nýjan bíl - tilkeyrsla (hámarkshraði - hámarkssnúningur á vél - hversu lengi o.þ.h.). Ég hef haft mörkin við 4000 snúninga - þ.e. um 140 km/klst sem hámarkshraða (keyri mjög mikið á hraðbrautum). Kannski er tilkeyrsla eitthvað sem viðhafa þurfti í gamla daga og kannski óþarfi í dag?

Svar: Það er góð pólitík að hlífa vél við miklum snúningi fyrstu 3000 km og skipta þá um smurolíou og síu. Þá eru öll aðskotaefni væntanlega búin að skila sér í olíuna/síuna. Eftir það er bara að passa uppá reglulegt eftirlit/þjónustu samkvæmt bókinni. Margir framleiðendur mæla með mjög dýrri smurolíu til þess að geta pressað millibil á milli smurolíuskipta upp undir og yfir 10 þús. km. Með því móti fær viðkomandi bílgerð lægri ,,förgunarvísitölu" og bílaframleiðandinn safnar færri ,,mengunarstigum". Bíleigandinn fær hins vegar að taka áhættuna af því að vélin sé orðin slitin um það leiti sem ábyrgðinn er útrunnin. Ég myndi skipta um smurolíu og síu á 7500 km fresti við þínar aðstæður.

Spurt: Ég á Econoline E-150 6cyl 4,9l,ég keypti fyrir ári síðan. Fyrrverandi eigandi hafði keyrt hann með spíss sem lak og fékk bensín í smuroliuna og skemmdi vélina. Þegar ég fékk hann þá tók ég vélina úr bílnum og gerði hana upp sem var nú svo sem ekki mikið mál, síðan sneri ég mér að eldsneytiskerfinu til að ég myndi ekki lenda í sömu vandræðum og fyrri eigandi. Ég tók tankinn úr bílnum og hreinsaði hann skipti einnig um bensíndæluna síðan blés ég út allar bensínlagnir skipti um háþrýstidæluna og alla spíssa. Ég var varla búinn að setja bílinn í gang þá varð ég var við bensín í oliunni kom í ljós að það lak spíss ég bar saman nýa spíssinn og gamla og númerin á þeim krossast hjá söluaðilanum sem er Napa online eini munurin á þem er að nýi spissinn mælist 16,7 ohm en gamli 15,2 ohm. Þegar ég set gamlan með nýu spissunum vill hann ekki virka? Þegar ég tók gömlu spíssana úr varð ég var við krisstalla í þeim ég myndi lýsa þessu einsog gróft salt. Nátturulega fæ ég ekki almennilegan gang í bílinn á meðan þetta ástand er vonandi hefurðu einhverja hugmynd eða ráðgjöf.

Svar: Ekki er auðvelt að átta sig á þessu út frá lýsingunni einni - svona bilanir eru þess eðlis að þær þarf að greina með útilokunaraðferðinni en það krefst ákveðinnar þekkingar. Þú minnist ekki á það hvort þú hafir skipt um bensínsíuna (hún er í grindinni bílstjóramegin við skiptinguna) - stífluð bensínsía getur haft þessi áhrif (t.d. kristallamyndun). Til þess að greina þessa bilun þarf m.a. að mæla þrýsting - það hefur komið fyrir í þessum kerfum að þrýstijafnarinn stíflist en við það hækkar þrýstingurinn á spíssana sem þá vilja bila, oft einn til að byrja með. Ef þetta er sami spíssinn sem er að klikka aftur og aftur - þ.e. á sama sílindra gæti orsökin verið útleiðsla á milli víra, skemmdur vír (skammhlaup sem er nóg til að eyðileggja spíss).
Kannaðu þetta og hafðu samband aftur ef eitthvað kemur út úr þessu.

Spurt: Ég var að spá aðeins hvort að röng hersla á höfuðlegubökkum geti ekki leit að sér máttleysi og það að legur fari mjög fljótt. Þetta er fjögurra bolta 350 vél og þegar ég var að losa höfuðlegubakkana þá voru ytri boltarnir svo gott sem lausir en innri boltarnir mjög vel hertir! Samt fannst mér vélinn ekki vera þung í gang, reyndar var hún nánast alltaf sett í gang innan dyra, en það var þónokkuð þungt að snúa henni og var það ekki gert nema með góðu skafti.

Svar: Sveifarás í réttum legum með rétt herta legubakka er leikandi laus - nánast hægt að snúa honum með handafli einu. Algengustu mistök við samsetningu á 350 4ra bolta Chevrolet er að ekki er tékkað á aflögun bakkanna áður en þeir eru notaðir. Oft eru legubakkarnir aflagaðir (ekki hringlaga), sérstaklega ef vél hefur náð að yfirhitna einu sinni eða oftar - stundum þarf meira að segja að höfuðlegubora sveifarhúskanalinn sjálfan til að laga þetta en þá er blokkin snúin. Vélaverkstæðið Egill er með tæki til að mæla bakkana og höfuðlegubora blokkir. Byrjaðu að tjékka á þessu. Notaðu síðan Plastigauge við samseningu til að mæla bil og hertu nákvæmlega samkvæmt uppgefnum upplýsingum og með vönduðum átaksmæli.

Spurt: Mín vandræði stafa af því að ég er búinn að týna tölvukubbnum(code) úr lyklinum á bílnum mínum. Hann er af gerðinni Alfa Romeo 156 2000 ´00. Málið er að nýr lykill er (eða var ?) í pöntun hjá umboðinu en nú er búið að loka (innsigla) umboðinu og enginn svarar í símann! Hefur þú einhver ráð handa mér við koma bílnum í gang? Ég á lykilinn sjálfan en ekki tölvukubbinn og get því ekki startað honum.

Svar: Ráðlegg þér að byrja á að tala við lyklasmiðinn á Laugavegi 168 - þeir smíða lykla með tölvukubb (gerðu það m.a. fyrir mig í Mazda - ég var að vísu með lykil í lagi). Ef þeir geta ekki ráðlagt þér neitt eða hjálpað er ekki un annað að ræða en að snúa þér til danska Fiat/Alfa-umboðsins og fá þá til að bjarga málinu (það verður ekki ódýrt).

Spurt: Ég var að skoða pistilinn um bestu kaup í notuðum bílum, og staldraði þar við verksmiðjugalla í Golf. Ástæða þess er sú, að ég seldi bíl á árslok 2003 og tók uppí Golf station árg. 98. Þann bíl seldi ég svo í byrjun febrúar. Ég og kaupandi vorum sammála um að kúplingin væri að gefa sig, og slegið var af kaupverðinu. Nú er pabbi konunnar sem keypti bílinn að hamast í mér og segir að gírkassinn sé gallaður og vill fá einhverjar bætur frá mér. Þekkir þú til einhverja galla af þessari tegund í Golf? Bíllin var ekki ekinn nema 75þús.

Svar: Ég þekki ekki nógu vel hvers eðlis þessir gallar hafa verið nákvæmlega - þeir munu fara eftir verksmiðjunúmerum og geta verið mismunandi eftir búnaðarstigi. Ég ráðlegg þér að leita til VW-þjónustustjórans hjá Heklu og kanna málið með þennan ákveðna bíl (VIN = verksmiðjunúmer). Yfirleitt er reglan sú að komi galli ekki fram á ábyrgðartíma bíls sem er með gilda þjónustubók (ábyrgðartími er yfirleitt 3 ár /100 þús. km.), telst ekki vera um bótaskyldan galla að ræða (nýrri lög um Neytendakaup kunna að breyta þessu með sk. 5 ára undantekningu- spurðu um það hjá Neytendastofu).

Spurt: Ég er með gamlan Subaru Justy sem ég hef átt í vandræðum með gangsetningu þegar ég er búinn að keyra hann lengi c.a. 30-60 mín. og drep á honum og ætla svo að setja hann strax aftur í gang þá er eins og hann sé rafmangslaus en ef ég læt hann bíða í eitthvern tíma 10-20 mín þá fer hann í gang, eins er allt í lagi með styttri ferðir innanbæjar þá get ég sett hann í gang strax aftur ef ég drep á honum. Þegar hann fer ekki í gang þá get ég gefið honum start og þá fer hann strax í gang. Dettur þér eitthvað í hug hvað gæti verið að ?

Svar: A. Sambandleysi getur verið á rafgeymasamböndum - tékkaðu alla 4 endana. Alternatorinn getur leitt út í gegnum sig (ónýt díóða) B. Mjór vír liggur frá svissnum og í startpunginn á startaranum (flatur renniskór). Tengingin á startpunginn getur verið laus eða óhrein (spanskgræna). C. Kveikjan getur verið rangt stillt eða laus (of fljót). D. Háspennukeflið gæti verið ónýtt (ef það er svo heitt viðkomu eftir eina bæjarferð að þú getur ekki haldið utan um það - er það ónýtt). Ónýtt háspennukefli lýsir sér oft sem erfið gangsetning á heitri vél. Skoðaðu þetta í þessari röð. (Svo skaltu ekki útiloka þann möguleika að rafgeymirinn geti verið ónýtur - eða hleðslan í ólagi).

Spurt: Ég er með smá vandamál í Pajero 2,8 '97. þannig er mál með vexti að þegar gangsetning fer fram að morgni dags eða þegar bíllin er búin að standa yfir nótt , (ekki endilega í frosti - setti í gang í fyrradag í 7° hita ) bíllin fer strax í gang en gengur eins og hann nái lofti inn á eldsneytiskerfið þannig gengur hann í einhverjar sekúndur. Búið er að skipta um glóðarkerti, spíssadísur, olíusíu, ásamt a.t.h rofa aftan á olíuverki fyrir affall af spíssum. Þjöppun og ventlabil er eðlilegt einnig er búið að athugað hvort þessir nýu hlutir starfi eðlilega. Væri alsæll ef þú kæmir með einhverja hugmynd. P.S. kannski ekki smá vandamál.

Svar: Af lýsingunni að dæma þá nær kerfið að draga inn loft einhvers staðar - eins og þú réttilega ályktar. Einu tilviki man ég eftir sem lýsti sér ekki ósvipað þessu (það var ef ég man rétt í Isuzu Trooper dísil - hver veit nema sá sé með svipað síukerfi). Í lokinu sem eldsneytissían er skrúfuð í er málmþynna sem virkar eins og einstefnuloki þannig að ekki renni til baka í eldsneytisgeyminn. Undir þessa málþynnu hafði komist hrosshár - það nægði til að vélin lét eins og þú lýsir.

Spurt: Mig langar að spyrja þig hvort að þú hafir eitthvað heyrt um hvernig Nissan Almera hafi reynst. Ég var að kaupa mér Nissan Almera árgerð 1998 með 1.6 l vélinni og sjálfskiptur, hann er vel með farinn og lítur vel út, ekinn 88 000 km en ég hef lítið heyrt af þessum bílum. Ég var í nærri sjö ár með Nissan Sunny árgerð 1993 sem reyndist vel, sérstaklega vélin. Er þetta e.t.v sama vélin í þessum bílum? Þessi vél virðist vera svipuð en er þó með meiri hestaflatölu en vélin í Sunny en báðar eru með beina innspýtingu. Er reynslan af þessum 16 venta vélum góð? Ég var líka að velta fyrir mér hvort að yfirgírinn á sjálfskiptingunni sé eitthvað sem að eigi að vera alltaf á eða bara þegar ekið er utan bæjar. Ég hef átt all nokkrar bíla um ævina, fjóra Volvoa, 264GL árg 1976, 244GL og 245GL árg 81 og 82, Volvo 740GLE árg 1986 eina Toyotu Tercel 4x4, Benz jeppa árgerð 1983 sem að var algjör martröð og hafði fasta viðkomu í Ræsi, svo ók ég í fimm ár á stórum og voldugum Ford Scorpio með V6 vél sem að var ódrepandi og loks í sjö ár á Nissan Sunny 4x4 árgerð 1993 sem að aðeins ryðið var að leggja af velli. En núna er ég sem sagt komin á Almeruna og væri gaman að heyra hvað þér finnst um hana. Það sem er mest skemmtilegt við þessa síðu þína er að þú skrifar á svona alþýðumáli ef að ég má orða það svo.

Svar:
Nissan Almera er í stórum dráttum sami bíll og Sunny nema með stærra boddí. 1600, 16 ventla -vélin er sú sama og er í Sunny; reyndar sama vél, og verið hefur lengi í Nissan en nú með nýrri gerð af innsprautun. Þetta eru níðsterkir bílar og með vélbúnað sem nánast gengur endalaust sé umhriðan í lagi. Yfirgírinn í sjálfskiptingunni á að vera á en er hins vegar tekin af til að hlífa vélinni við álagi, t.d. upp brekkur og þegar auka á hraða við framúrakstur.

Spurt: Ég er að velta fyrir mér að fá mér dísel fólksbíl td BMW 525 TDS, VOLVO V70 DÍSEL TURBO, Benz eða eitthvað annað. Er eitthvað sem þú veist um sem ég þarf að varast varðandi þessa bíla. Ég var með Peugeot 306 2,0 turbo díesel á Spáni frir tveimur árum, hann kom mér verulega á óvart passlega
sprækur og eyðslan mjög lítil.
Svar: Ef ég ætlaði að kaupa mér dísilfólksbíl myndi ég velja Peugeot 406 (eins og atvinnubílstjórarnir gera). Þetta er einn þægilegasti og liprasti stóri dísilbíllinn á markaðnum og verðið mjög hagstætt vegna fordóma. Eini mínusinn er umboðið (sama og Honda) sem er m.a. þekkt fyrir hátt verð á varahlutum - en það er reyndar sama sagan með Volvo-umboðið. BMW 525TDS er frábær bíll en dýr í samanburði við t.d. Peugeot 406 - þú færð 406 hlaðinn aukabúnaði fyrir sama og ,,fokheldur" 525 kostar. Vandinn er bara sá að það er ákaflega lítið framboð á notuðum Peugeot 406 dísilbílum.

Spurt: Mig lagnar að spyrja þig, veist þú hvaða kerti er best að nota í Range Rover árg. 1984? Kveðja,

Svar: Bosch W175T30 eða NGK BP6ES. Tjékkaðu bilið á öllum nýjum kertum áður en þú setur þau í (það getur verið mismunandi): Það á að vera 0,8 mm í Range Rover V8 1984.

Spurt: Mig langar til að athuga hvort þú getir gefið mér hugmynd um hvað getur hrjáð bílinn minn. Þetta er Pontiac Trans Sport árg. 1991 með 3,1 vél V6 og sjálfskiftur. Vandamálið er að þegar ég hef ekið honum etv. 20-30 km. eða þegar hann er búin að ná fullum vinnsluhita þá byrja fyrst gangtruflanir og eftir það ef ég þarf að stöðva eða draga verulega úr hraða þá drepur hann á sér. Hann fer samt strax í gang þegar honum er startað en drepur strax á sér þegar hann er settur í gírinn, Þar sem þetta er minn fyrsti sjálfskifti bíll hef hef ég enga þekkingu á þessu. Mér rennur þó í grun að e.t.v. sé kælingu á sjálfskiftingunni ábótavant. Ég veit að komið er að því að skifta um kerti kertaþræði og þessháttar en geri samt ekki ráð fyrir að það sé málið. Kælingin á vélinni virðist vera í lagi bæði vatn og vifta þannig að mér dettur í hug þetta með kælinguna á skiftingunni. Mér þætti vænt um að þú myndir gefa mér hugmynd þó það sé e.t.v. erfitt eftir þessa lýsingu. Málið er að ég get ekki farið með hann á verkstæði nema hafa einhverja hugmynd um kosnaðinn og hvort ég ráði við hann. Með von um að þú getir séð þér fært að svara mér.

Svar: Þegar þessir bílar eiga í hlut (með tölvustýrðu vélkerfi) segja lýsingar á gangtruflunum nánast ekkert um hver geti verið orsökin - eru einungis lýsing á afleiðingum. Til þess að laga þetta þarf bilanagreiningu með til þess gerðum tölvubúnaði. Af lýsingunni að dæma er bilunin í vélstýrikerfinu - inngjafarstöðunema eða súrefnisskynjara. Mér finnst hins vegar nánast engar líkur á að þetta hafi neitt með sjálfskiptinguna að gera - ástæðan fyrir því að vélin drepur á sér þegar sett er í gír er ekki sjálfskiptingunni að kenna heldur einfaldlega að bilun í vélstýrikerfinu veldur því að vélin þolir ekki aukið álag í lausagangi. Þú átt að geta fengið bilanagreiningu á verkstæði fyrir ákveðið verð og getur sett fyrirvara um að þú viljir ekki að viðgerð fari fram nema með þínu samþykki. Besta verkstæðið til að fást við þennan bíl er Skipting í Keflavík - þeir hafa þekkinguna og búnaðinn (Völlurinn). Aðeins ein viðbót: Ég hafði næstum gleymt einu atriði sem tengist þessari vél og þessari skiptingu í Pontiac: Nokkuð algeng bilun hefur orðið í sjálfskiptitúrbínunni í þessum bílum þannig að svokölluð túrbínulæsingin festist á - og þá verða áhrifin nákvæmlega eins og þú lýsir. Í þeim tilfellum hefur orðið að skipta um túrbínuna. Það er talsvert verk sem þú mátt reikna með að geti kostað þig frá 75 - 100 þús. kr.

Spurt: Ég er að leita mér að jeppa og ég fann Ssanyong Family á mjög góðu verði. Það sem ég var að spá er hvort hægt sé að fá varahluti í þessa bíla með góðu móti og eru þetta ekki bara ágætistu bílar? Ég veit um mann sem keyrir í Rvk. á hverjum degi á svona bíl og hann er búinn að keyra hann yfir 200.000 km og það hefur ekkert verið átt við vélina sem flokkast ekki undir eðlilegt viðhald. það væri flott ef þú hefðir einhverjar upplýsingar um þennan bíl.

Svar: Því miður hef ég engin kynni haft af þessum eldri bílum frá SsangYong - þeir eru ekkert skyldir Musso nema sami framleiðandi - mun vera nær því að vera eldri gerð af Isuzu og því ekki óþekktur vélbúnaður. SsangYong þekki ég hins vegar talsvert til og að góðu einu. Þar sem þessir ákveðnu SsangYong-bílar voru fluttir inn framhjá umboðinu og hafa aldrei verið fluttir inn af því - er engin skipulögð þjónusta fyrir þá af þess hálfu - hvorki varðandi varahluti né viðgerðir. Umboðið mun hins þjónusta þessa bíla og panta hluti sé um það beðið. Það skýrir ,,mjög gott verð" á bílnum. Sé verðið mjög lágt er áhættan að sama skapi lítil. Hins vegar bendi ég þér á að nú er hægt að gera mjög góð kaup í notuðum Musso (vegna gríðarlegs framboðs á notuðum jeppum). Þú getur t.d. reynt að gera 600 þús. kr. tilboð í Musso sem er verðlagður á 1100 þúsund og það er eins víst að þú færð hann.

Spurt: Hvernig er með nýju 6 lítra díselvélina hjá Ford. Heyrði talað um það að verið væri að innkalla þá bíla í USA sem væru með þeirri vél. Hvað er það sem er í gangi þar?

Svar: Það sem ég veit er í stuttfréttunum á aðalsíðu vefsíðunnar minnar . Auk þess er tengill aftast í greininni um Ford F250. Vélin virðist vera alvarlega gölluð af frásögnum af trukka-spjallrásum í USA að dæma - en það kemur einnig fram í grein í tímaritinu Trailer Life (sem áðurnefndur tengillinn vísar á) að Ford sé að endurkaupa bílana og að þetta sé verulega ,,vont mál". (Bara svo það sé á hreinu - ég ók þessum bíl um 4000 km í Bandaríkjunum seint í fyrrahaust (2003) - og vélin sló aldrei feilpúst - malaði eins og köttur og spyrnan var eins og í Porsche Turbo).

Spurt: Ég var að kaupa 1977 módel af 911 sem þarfnast lítillar lagfæringar en mér skylst að Bílablaðið bíllinn hafi skrifað um þennan bíl. Hann hefur lent í óhöppum í gegnum tíðina en síðustu tvö árin hefur hann farið í endurnýjun lífdaga og nú er svo komið að aðeins þarf að ljúka verkinu.
Ég er hinsvegar mjög forvitinn og fýsir í upplýsingar um sögu þessa bíls. Hann er með "widebody" kitti sem er búið að vera á honum í mörg ár og er svartur í dag. Upprunalega var hann gulur (sítrónugulur) svo rauður. Mér skylst hann hafi veirð í eigu bónbræðra í Keflavík þegar hann var rauður og það er líklega á þeim tíma sem hann var í tímaritinu Bílnum. Mín áform eru að sprauta bílinn í upprunalega gula litnum og taka þetta "widebody" kit af honum, setja venjuleg Turbolook bretti á hann að aftan og setja hann á rétta felgur. Reyndar kemur til greina að sprauta hann bláan eða jafnvel hvítann, en ég hallast samt að upprunalega litnum. Ef þú gætir veitt mér einhverjar upplýsingar (jákvæðar og neikvæðar) væri ég afskaplega þakklátur.

Svar: Ég man eftir nokkrum af þessum bílum sem ég var að gera við fyrir Pétur og Pál á árunum fyrir 1990. Sævar Sverrisson (Bóni) í Keflavík átti nokkra. Ég man m.a. eftir þessum eldrauða 1977 og þessum vírauða 1980 (sem reyndar var upphaflega stálblár). Sá eldrauði (þinn) var af nákvæmlega sömu gerð og bíll sem ég hafði haft til umráða um tíma í Svíþjóð þegar ég var m.a. að vinna við Porsche fyrir keppnishald. Mismunurinn var sá að bíllinn sem ég ók var óbreyttur og óslitinn en þessi rauði bíll Sævars var mixaður með turbo-útlit úr plasti sem var illa unnið og bíllinn auk þess niðurnýddur og gatslitinn. Sá vínrauði 1980 var hins vegar óslitinn og ekta 930. Þann bíl hafði Árni Möller á Selfossi átt fyrstur, þá Bjarki Þór Vilhjálmsson veitingamaður sem keypti hann 1992 og Sævar 1993. Hvað svo varð af honum veit ég ekki. Sem betur fer er Porsche 911 gríðarlega vel hannaður og sterkur bíll. Það er hægt með réttum hlutum og þekkingu að endurbyggja svona bíl þannig að hann verði næstum eins og nýr. En því miður virðist bæði þekkinguna og handbragðið vanta hérlendis - hér eru jafnvel landsfrægir draslarar og fúskarar sem titla sig ,,Porsche-sérfræðing" en gætu ekki komið bíl saman þannig að hann dygði hálfan hring í brautarkeppni - undanskil þó Guðberg Guðbergsson sem ég þekki að góðu einu. Vona að þér hafi tekist að byggja bílinn rétt upp. Af myndinni að dæma er hann fallegur - en þeir eru það nú flestir 911-bílarnir á ljósmyndum.

Spurt: Ég á við heldur leiðinglegt vandamál að stríða í sambandi við smurþrýsting í 7,3 lítra diselnum mínum. Þegar hún er köld þá sýnir hún nokkuð eðlilegann þrýsting og í keyrslu ( heit ) þá er þrýstingurinn ca 2,8 - 3 kg. Hinsvegar ef ég slæ af eða læt hana ganga lausagang þá steinfellur þrýstingurinn um leið niður fyrir kílóið. Ég lét smurmæli í bílinn í dag, mæli sem segir mér hvað er að gerast, þannig að ég get séð nokkuð nákvæmlega hver þrýstingurinn er hverju sinni. Það skondna er að ef maður horfir á mælinn þá má sjá nákvæmlega á nálinni hvað ég er að gera með fætinum á olíugjöfinni. Um leið og ég gef í þá lyftist nálin og sömuleiðis ef ég slæ af þá sígur hún. Þetta er ef mótorinn er heitur en það ber minna á þessu þegar hann er kaldur. Nú veit ég um fleiri 7,3 og 6,9 sem láta nákvæmlega eins og það segja allir að þetta sé bara svona og við því sé ekkert að gera en ég er ekki alveg til í að kyngja því. Að mínum dómi er mótor með svo lágan sem engann smurþrýsting ekki í lagi en mér finnst hinsvegar undarlegt að þessir 7,3 og 6,9 séu allir eins bilaðir og bara notaðir svona. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort smurdælan sé bara svona mikið drasl að þær klárist allar, eða hvort knastáslegur í þessum mótorum séu svona viðkvæmar eða hvort að gormurinn í framhjáhlaupsventlinum í smurdælunni sé svona slappur. Það er nú ekki sniðugt að láta bíl ganga mikin lausagang en ég vil eiga þann möguleika og geta notað hann óhræddur og sömuleiðis vil ég geta stoppað á gatnamótum án þess að þurfa að standa á gjöfinni til að halda smurþrýstingi yfir ,amk, kílóinu. Mér þætti vænt um ef þú hefðir einhverjar upplýsingar um þetta að veita mér aðgang að þeim og sömuleiðis hvaða olía á að vera á overdrive skiptingunni í Econoline 91.

Svar: Það er margt líkt með smurkerfinu í bílvél og blóðrásinni í mannslíkamanum - þrýstingur verður að vera hóflegur, hvorki of hár né og lágur. Þessar Ford dísilvélar (sem eru reyndar Navistar-vélar framleiddar af International Harvester sem Ford á) eru ekki nein fínsmíði. Legubil getur verið það mikið að þær halda illa smurþrýstingi í lausagangi. Í þínum sporum myndi ég ekki hafa neinar sérstakar áhyggjur af þessu úr því mælanlegur þrýstingur er í lausagangi - það er ekki fyrr en nálin sest á núllið í lausagangi sem gamanið kynni að kárna. Af lýsingu þinni að dæma er smurolídælan í fínu lagi. Framhjáhlaupslokinn hefur ekkert með lága þrýstinginn að gera. Ráðlegg þér að nota ódýra smurolíu (t.d. Comma Eurodiesel 15W40 og FRAM-síu, en hvort tveggja færðu í Bílanausti) og skipta oftar - t.d. um olíu/síu á 5000 km fresti. Á AO-Ford skiptinguna ´að nota Dextron II eða sérstakan vökva merktan FORD CJ.

Spurt: Golf 1996 2.0 5 dyra. Þegar bíllinn minn er stopp í hægagangi get ég ekki snúið dekkjunum (beygt), kemur ískur, fór síðan núna út og startaði bílnum og gat snúið dekkjunum en það heyrðist einhvað hljóð þegar ég var að snúa þeim eins og einhvað var að vinna undir húddinu, en þetta hljóð virkaði sem gott hljóð.

Svar:
Tjékkaðu reimina á vökvastýrinu. Sé hún í lagi gæti vökvastýrisdælan verið ónýt.

Spurt: Ég sendi þér tölvupóst fyrir nokkru þar sem ég spurði þig um eyðslu og eitthvað svoleiðs. Síðan þá hef ég keypt mér einn '95 árgerð af Grand Cherokee Orvis V8 og er bara mjög ánægður. Var þó að velta fyrir mér hvort þú vissir eitthvað um hvað væri hægt að gera til að minnka eyðsluna. Ég var að velta fyrir mér hvort það væri hægt að breyta pústinu að einvherju leyti sem myndi minnka bakþrýsting? Eða hvort ég ætti að losa mig við hvarfakútinn?

Svar:
V8-vél í fjórhjóladrifsbíl eyðir miklu bensíni (um 20 lítra í bæjarakstri) - framhjá því verður ekki komist (og ef ég man rétt þá varaði ég þig við því). Þú getur haldið eyðslunni í lágmarkð á tvennan hátt; annars vegar með sparakstri (einfaldast að lýsa honum þannig að þ.ví minna sem þú þarft að nota bremsurnar því minna eyðir bíllinn) en hins vegar með því að hafa vél og bíl í lagi. Réttur þrýstingur í dekkjum getur t.d. minnkað eyðslu jeppa um 8-10%. Léleg dekk geta aukið eyðslu um 25%. Vélin þarf að vera vel smurð (7500 km á milli olíu/síuskipta). Neistinn þarf að vera í lagi (kerti, þræðir) og öndun vélarinnar fullvirk (loftsía). Hvarfakútinn skaltu ekki fjarlægja - það myndi einungis valda því að bíllinn fengi athugasemd í skoðun. Þegar kemur að endurnýjun pústkerfisins skaltu leita ráða hjá einhverju sérhæfðu pústþjónustufyrirtæki - þau selja hljóðkúta með minna viðnámi.

Spurt: Ég á Toyotu Hilux jeppa árgerð 1998 2.4 turbo dísil. Hann er á 33" dekkjum og er keyrður um 90.000 km. Ég er þokkalega ánægður með kraftinn í honum en er samt að spá í það hvernig auka má þann kraft með litlum tilkostnaði t.d. með sverara púströri og millikæli. Eins langar mig til að vita það hvort það þurfi eitthvað að hreifa við olíuverkinu þó að maður bæti þessum hlutum í bílinn og eins hvort að það sé einhver hætta á því að bíllinn fari að vera með meiri læti eða fari að bræla meira út úr sér þegar að búið er að eiga svona við bílinn.

Svar:
Ódýrasta aflaukningin sem þú getur fengið er að setja á inntakið eins stóran millikæli og þú getur komið fyrir með sæmilegu móti. Misminni mig ekki á flæðisþvermálið í pústinu á '98 árgerðinni að flytja það sem pústportin skila. Það þýðir að aukir þú flæðið inn á vélina um 10%-15% með millikælinum þarftu púst með 20% meira flatarmáli þverskurðar - það þýðir að sértu með 1 og treikvart púst þarftu að stækka það í 1 og 7/8 eða fara í 2 tommur. Láttu samt ekki plata þig til að kaupa pústflækjur - því þær gera ekkert gagn í díslvél (það er engin yfirlöppun til að laga með pústflækjum eins og í bensínvél - og sölumenn sem halda einhverju öðru fram hafa einfaldlega ekki nægilega þekkingu á hlutunum). Þú skalt ekkert hreyfa við olíuverkinu til að byrja með. Sjáðu hvernig vélin bregst við millikælinum og farðu svo í auknar framkvæmdir með hliðsjón af því. Væntanlega verða þær engar nema olíuverk og spíssar séu komin á tíma fyrir endurbyggingu sem þá mun koma í ljós.

Spurt: Hyundai Starex sama módel og er mjög óánægður með vinnsluna í bílnum hann er kraftlaus og seinn að ná ganginum eftir gangsetningu 15-30 sek. Það er búið að skifta um loft- og olíusíur. Þessi bíll er árg.1999 ekinn 108 þús. hann er á 30" dekkum. Þau eru búin að eiga þennan bíl í 6 mánuði en hann hefur alltaf verið svona í þeirra eigu . Þetta uppgötvaðist ekki fyrr enn hann prufaði eins bíl. Hann fór með bílinn í tölvu tölvan sagði vera bilaðan skynjara við túrbínu en það virtist ekki breyta þótt gert væri við það. Stundum fer bíllinn ekki í gang fyrr en eftir nokkrar tilraunir, en það er ekki búið að athuga glóðarkerti það ætti vísu ekki að koma kraftleysi við. Bíllinn er með þetta 16 lítra á hundraðið og fer ekkert neðar en það. Hefur þú einhverja hugmynd ?

Svar: Af þessari lýsingu að dæma myndi ég tjékka á forhituninni (glóðarkerti eða forhitunarstýring í ólagi). Eyðslan og kraftleysið gæti einnig verið vegna fyrirstöðu í pústkerfi - ónýtur hvarfakútur - samanbrotið rör, föst pústþjappa - óvirkur millikælir.

Spurt: Ég er búin að eiga Musso ´97 E-23 bíl í þó nokkurn tíma.Hann var fluttur inn frá Þýskalandi árið 2000 þá ekin 40.000 en er ekin 71.000 í dag. Hann er á 33 tommu dekkjum og það er alltaf talsverður titringur upp í stýrið, ég lét bifvélavirkja kíkja á hann og hann segir að það sé í lagi með stýrið . Getur þú ráðlagt mér eða gefið mér einhverjar hugmyndir hvað ég get gert?
Með fyrirfram þökk, Stefán. P.S: Að öðru leyti er bíllinn eins og nýr.
Svar: Sé stýrið í lagi er bara tvennt sem getur orsakað titring sem leiðir upp í stýrishjólið (þegar búið er að útiloka slit). Líklegasta skýringin er ójafnvægi (blýlóð dottið af ) eða hjólin hafa verið jafnvægð í illa stilltri vél (það er heldur ekki sama hvernig dekk er jafnvægt - það er hægt að vinna það verk illa eins og önnur). Láttu tékka framhjólin. Stundum geta klossar staðið fastir í bremsudælum framhjóla og orsakað þannig titring í stýri - fremur sjaldgæft en kemur þó fyrir standi bílar lengi.

Spurt: Ég var að lesa greinar á síðunni hjá þér, og rakst þá á þessa málsgrein; "Eðlis síns vegna þarf að endurnýja smurolíu á dísilvél oftar en á bensínvél. Mín reynsla er að 5000-7500 km millibil tryggi hámarksendingu dísilvélar. Mín reynsla er jafnframt sú að hagkvæmara sé að nota ódýra smurolíu (t.d. Comma) og endurnýja hana oftar en dýrari olíu og sjaldnar." Nú er BMW 750 árgerð '90 bifreið í rekstri á mínu heimili, og uppgefin olía á hann er Mobil 1. Þegar þú talar um að hagkvæmara sé að nota ódýrari smurolíu, hversu ódýrt má fara í þessum efnum? Þessi spekulering vaknaði ekki af nísku, heldur hvað vélaframleiðandinn er að spá, Þolir vélin td olíuna í grænu brúsunum frá esso (minnir að hún heiti ultron og sé 5W/40 eða eitthvað slíkt)? Þess ber að gæta að ég þekki nánast bara 'skalana' hjá Esso, en ekki hinum félugunum.

Svar: Könnun sem Bandarísku neytendasamtökin stóðu fyrir í New York fyrir nokkuð mörgum árum en þá voru 500 Yellow Cab leigubílar látnir nota mismunandi smurolíu undir eftirliti í ákveðinn tíma sýndi eftirfarandi niðurstöðu: Enginn mælanlegur munur reyndist vera á sliti bílvélanna eftir því hvort á þær væru notuð ódýrasta eða dýrasta smurolían. Syntetísk smurolía (dýr) gerði ekkert gagn umfram venjulegustu (ódýrustu) smurolíuna. (Ekki eitt einasta svokallað ,,bætiefni", sem einnig var prófað í þessari könnun, reyndist gera minnsta mælanlega gagn). Það sem skipti máli var að skipta reglulega um smurolíu og láta hana ekki mettast af óhreinindum. Ég hef notað Comma smurolíu á alla mína bíla síðastliðna 3 áratugi því hún er ódýrust og aldrei lent í neinum vandræðum. Ég myndi nota XT 2000 frá Comma á þennan BMW og skipta á 5000 - 7500 km fresti um olíu og síu. Bílaframleiðendur gera alls konar samninga við smurolíuframleiðendur - þeir mæla með t.d. Mobil ! og fá í staðinn 10% lægra verð á þeirri smurolíu sem þeir kaupa og er á nýjum bíl þegar hann er afhentur.

Spurt: Sæll og takk fyrir góða og mjög svo fróðlega síðu. Mér datt í hug að leita ráða hjá þér. Ég er og hef alltaf verið mikill bíladellukarl og tel mig alls ekki vera "grænn" þegar kemur að bílum en nú klóra ég mér bara í hausnum. Málið er að ég keypti mér bíl fyrir stuttu, en það er Mitsubishi Sigma árg 93 ( eða 92 ) Þetta er V-6 , 3000 vél 24 ventla, skráð 205 hö og þetta er sjálfskipt. Mér finnst vera óeðlilega mikið ventlaglamur í honum og mér hefur fundist vera kveikjuglamur í honum líka, séstaklega þegar ég er að setja í gang og einnig þegar ég gef honum snökkt inn. Sumir "snillingar" eða þeir sem segjast vita flest segja að það geti ekki verið kveikjubank því það sé ekki kveikja í þessari vél, allavega ekki þessar venjulegu kveikjur eins og maður þekkir. Bíllinn var ágætur þegar ég keypti hann (í feb síðasta) en það fór pústið í honum og mér fannst þetta vesen byrja þá. Ég fór og lét Bjarkar smíða nýtt púst en ég er að spá hvort geti verið að þessi púst sensor hafi ruglast og ruglað tölvunni ? Ég er búinn að fara á flest verkstæði hér í Keflavík en það segist enginn geta sagt neitt eða hvað þá stillt bílinn. Áttu einhver góð ráð handa mér?

Svar: Mér finnst ólíklegt að þú hafir verið að kaupa vandamál - þetta er mjög vandaður bíll. Kveikjubank getur vissulega verið í þessari vél - það hefur ekkert með hefðbundna kveikju að gera - þetta hljóð getur verið vegna þess að svokallaður ,,knock-sensor" eða bankskynjari sé ekki virkur eða ,,ruglaður" vegna banks t.d. frá úrbræddri legu en þá leitast bankskynjarinn við að flýta kveikjtímanum með tilheyrandi ,,ping-hljóði". Ventlaglamur, ef það er það sem þú heyrir, gæti einnig orsakast af biluðum ,,knock-sensor" vegna þess að þá verður tíminn á vélinni rangur. Hafi truflunin byrjað eftir pústviðgerð er til í dæminu að súrefnisskynjari í pústinu sé óvirkur, ótengdur eða sambandsleysi á honum - óeðlileg eyðsla ætti að fylgja því. Farðu með bílinn í umboðið (Heklu) og fáðu bilanakóðana lesna.

Spurt: Bíllinn minn lekur rafmagni ef ég get orðað það svoleiðins. Ef að hann stendur kyrr í meir en 1 sólahring er hann rafmagnslaus. Hann er frekar gamall þeas bíllinn árg '85 og hefur staðið án númera í allan vetur. Seinasta sumar var allt í lagi en nú lekur af honum. Geturðu nokkuð giskað á hvað er að?

Svar: Sé rafgeymirinn ekki ónýtur bendi ég á að algengasta útleiðslan er í gegnum alternatorinn - þá er ónýt einstreymisloka (díóða) í spennustillinum. Þeir mæla það fyrir þig hjá Max 1 eða einhverju bílaverkstæði.

Spurt: Ég er með Pajero '91 V-6 3000 Það er einhver skynjari eða heili sem stillir hægaganginn í bílnum og er alltof dýr Spurningin er: Er einhver lausn, þannig að ég þurfi ekki á honum að halda?

Svar: Þú átt væntanlega við inngafarstöðunemann (TPS-sensor). Án hans gengur vélin ekki eðlilega sem þýðir að ekki er um neina aðra leið að velja. Hins vegar er til í dæminu að þú getur fengið þennan skynjara á bílapartasölu - það er a.m.k. þess virði að reyna.

Spurt: Mig langar að forvitnast hjá þé hvort þú þekktir eitthvað til dísilvélanna í Cherokee-jeppanum þ.a.e.s 2.5 lítra VM-vélin? Veit að það hafa verið hedd vanda mál á þessum vélum en hef ekki heyrt annað slæmt um þær. Þakka þér einnig fyrir góða síðu og góða pistla þó svo að ég sé 4x4 félagsmaður og aki um á breyttum bílum þá fannst mér pistillinn um breytingar bara ansi góður. Er vélstjóri og breyti mínum bílum sjálfur og reyni eftir fremsta megni að vanda til verka en sumt af því sem maður sér og er með skoðun sýnir að menn komast upp með ansi margt - eiginlega hvað sem er og alskonar misvandaðir menn að störfum við þetta.

Svar: Þessi 4ra sílindra dísilvél í Cherokee (sem er upphaflega frönsk/ítölsk) hefur reynst ágætlega hjá sumum en illa hjá öðrum. Það er bara gamla sagan - sumir kunna með dísilvél að fara en aðrir ekki. Ég myndi ekki þora að kaupa gamlan Cherokee með þessari dísilvél nema svo ólíklega vildi til að ég þekkti alla sögu bílsins. Merkilegt með þá háværustu hjá f4x4 að þeir virtust ekki mega vera að því að les greinina mína áður en þeir ruku til og jusu yfir mig óhróðri og fúkyrðum - kveikurinn í þeim var ótrúlega stuttur - vita líklega upp á sig sökina; ég var nefnilega ekki, eins og þeir sjá sem lesa greinina, að agnúast út í breytta jeppa yfirleitt, heldur út í ,,ofvaxna" jeppa þeirra sem aldrei virðast geta farið eftir reglum (sem ekkert eftirlit virðist vera með).
En einhver varð að ýta við þessum greyjum - þótt þeir eigi bágt.

Spurt: Ég er að breyta Nissan Double Cab 2,5 dísel, hvaða drifhlutföll hentar að nota 36" dekk, og hvar fást þau? Með fyrir framm þökkum fyrir svar.

Svar: Bendi þér á að tala við sérfróða menn hjá fyrirtæki sem heitir Fjallabílar, Stál og Stansar á Vagnhöfða. Þeir gætu átt hlutföll og vita örugglega hvaða hlutfall hentar þér. Hins vegar hefur verið erfitt að fá breytingarhluti í þennan bíl nema á himinháu verði hjá umboðinu.

Spurt: Sæll Leó. Ég hef hugsað mér að taka fjaðrabúnaðinn undan Ford Econoline húsbíl sem ég á árgerð 1989, og smíða stífufjaðrabúnað og gorma og dempara. Þarf ég eitthvað að fá einhverjar heimildir eða leyfi fyrir því eða er einhver reglugerð kanski til um hvernig þetta á að vera framkvæmt. Hvar fæ ég notaðar fjaðrir undir svoleiðis vagn annars?

Svar: Það gilda ákveðnar reglur um svona breytingar. Hafðu samband við Frumherja (Bifreiðaskoðun) á þínu svæði og fáðu upplýsingar hjá þeim (þær voru til á prenti). Fjaðrir færðu ef til vill á partasölu - og þá undan Ford F-250/350 pikköpp - en það getur þurft að leita talsvert að þeim.

Spurt: Það fór hjá mér vatnlás í Legacy '91 og ég bjóst við að það yrði auðvelt að skipta um hann en þá komst ég að því vatnslásinn var undir vélinni , við hliðina á vatnsdælunni. Er ekki vanalega vatnslásinn hafður ofan á vélinni því þegar vatnið hitnar þá þenst það út, þrýstingur eykst og það leitar upp. Eða skiptir engu máli hvar hann er staðsettur og er svona fyrir komulag á fleiri bílum? Með kveðju,

Svar: Þessi staðsetning er einkennandi fyrir flötu vélina í Subaru - vatnskerfið í blokkinni er lægra en í öðrum bílum - enda þyngdarpunkturinn mjög lágt í vélinni (sem er einn af kostum bílsins eins og lýst er í greininni um Subaru Impreza á vefsíðunni minni undir Bílaprófun).

Spurt: Strákurinn minn á gamlan Volvo 480 ES (árg 87) og fyrir nokkrum dögum slitnaði tímareim í vélinni þegar hann var á akstri. Bíllinn drap á sér en ekki með neinum stórum hávaða og vélin virkar laus o.s.fv. Spurningin er þessi: Eru líkur á að eitthvað meira hafi skemmst en reimin? Er mikið mál að skipta um reim og hvað er það sem þarf að hafa í huga?

Svar: Ef þú ert rosalega heppinn hefur vélin ekki skemmst (stimplar og ventlar ekki rekist saman - þótt vélin sé nú laus þarf það ekki endilega að þýða að hún sé óskemmd - það þarf þjöppumælingu/þrýstingsmælingu með sérstökum áhöldum til að ganga úr skugga um það þegar reimin er slitin). Ef þú kaupir tímareimina í Vélalandi geturðu fengið með henni ljósrit af tímamerkjunum - þá er þetta ekki flókið verk fyrir bifvélavirkja eða vanan mann.

Spurt: Mig langaði að spyrja þig um Ford Fairmont bíla sem seldir voru hér um og fyrir 1980. Ég á einn slíkan sem er að ég held árgerð 1978 og langar að gera hann upp. Það sem helst háir honum er að hann stóð í ein 5-6 ár í túni og er botninn því alveg að hverfa. Kramið virðist þó ekki vera ónýtt, því eftir þessa 5 ára stöðu var nóg að setja á hann bensín og gefa honum start og svo bara keyra!!! Ég hef þó lítið hreift hann, sett hann í gang svona 2var á ári eða svo núna í ein 3 ár. Þessi bíll er að ég held með 6cyl. Línuvél (kannski 3,3 lítra??) og sjálfskiptingu. Ég var að spá í hvort þú hefðir skrifað eitthvað um þessa bíla eða hvort þú vissir hvernig þeir hafa reynst, kramið þeim ofl. Einnig væri gott á fá ábendingar um hvernig væri best að standa að því að gera við botninn á honum (boddýið er að mestu heilt og óryðgað. Eru einhverjir sem taka að sér slíka endursmíði? Allur fróðleikur um þessa bíla er vel þeginn. Kveðja,

Svar: Einhvern tíman skrifaði ég um þennan Fairmouth - mig minnir að það hafi verið í sambandi við sögu Ford-fyritækisins. Greinin mun hafa birst í Bílnum - ég man ekki í hvaða tölublaði enda eru eldri tölublöðin nánast alveg ófáanleg. Þessir bílar komu fyrst 1977, muni ég rétt, þeir voru töluvert keyptir af leigubílstjórum hérlendis og þóttu standa sig mjög vel. Fairmouth var einn af mestu sölubílum Ford enda kom hann eins og af himnum sendur upp úr orkukreppunni í Bandaríkjunum á síðari hluta 8. áratugarins. Varðandi botninn - þá er úr vöndu að ráða. Bæði er að þetta er mikil vinna sem krefst ákveðinnar færni og getur því orðið dýr. Í Bandaríkjunum eru fyrirtæki sem framleiða svona hluti og selja, t.d. botna sem oftast eru í 6 sjálfstæðum hlutum. Auðveldast er að hafa upp á slíkum fyrirtækjum á Netinu/Yahoo <Ford Fairmouth Parts> eða <Older Ford Parts) en bandaríska tímaritið ,,Classic Auto Restorer" birtir m.a. auglýsingar frá ýmsum sem framleiða boddíhluti í eldri ameríska bíla. Í þínum sporum myndi ég tjékka á Fairmouth-klúbbum í Bandaríkjunum og kann hvort þar sé einhverja aðstoð að fá eða upplýsingar. Settu eftirfarandi leitarlýsingu inn á Yahoo <Ford Fairmouth Clubs> og sjáðu hvað kemur upp.

Spurt: Takk fyrir frábærar síður um bílamál. Ég er með gamlan Ford Econoline 350 húsbíl 4x4 á 38" dekkjum. Þessi bíll er með gömlu 5 lítra 6-cyl vélinni og er að eyða ca. 25 lítrum á hundraðið á langkeyrslu (ég held að drifhlutföll séu 4.29 eða nálægt því). Mig langar að setja í hann díselvél, og fékk fyrir stuttu síðan Nissan SD33 díselvél fyrir lítið. Þessi vél er án túrbínu. Margir "sérfræðingar" hafa sagt að þetta sé allt of lítil vél í þennan bíl. Hver er þín skoðun á því? Er hægt að setja túrbínu á þessa vél og auka þannig aflið? Ég setti vélina í gang á gólfinu hjá mér, og gengur hún þokkalega, allavega í hægagangi. Veistu hverskonar olíuverk er á þessari vél? Ég gaf henni inn með því að hreyfa bara spjaldið í loftinntakinu, er olíuverkinu stýrt mað vacum?

Svar: Þessi vél var til með afgasþjöppu í Patrol frá og með 1985 (SD33T). Vandamálið er að SD33 var 95 og 100 hö eftir útfærslu en með túrbó jókst aflið einungis í 115 hö. Sjálfsagt mætti auka aflið enn meira með millikæli og stærri túrbínu en það verður mjög kostnaðarsamt. Það verður ekki frá því komist að Econoline með þessari 3246 rsm dísilvél yrði aflvana sleði sem lítið gaman verður að ferðast á. Við þessa vél er bara venjulegt Nissan-olíuverk en inngjöfinni er að hluta stýrt með loftspjaldinu.

Spurt: Ég vil byrja á því að hrósa þér fyrir síðuna þína (www.leoemm.com). Ég les hana reglulega og finnst hún er bæði skemmtilega og fræðandi. Það sem ég vildi spyrja þig um er hvort og þá hvernig er hægt að bæta hljóðeinangrun í Subaru Impreza (eða bara almennt í bílum) til að losna við vind- og veghljóð. Geturðu gefið mér einhver ráð eða bent mér á einhverjar síður þar sem fjallað er um þetta efni?

Svar: Varðandi hljóðeinangrun í Impreza þá vandanst nú málið. Ákveðið vélar- og veghljóð er innbyggt í bílinn - það telst ómissandi hluti af sportlegum eiginleikum bíla í þessum flokki. Ég hef hlustað á nokkra fyrirlestra hjá bílaframleiðendum um þetta fyrirbrigði - en ,,hávaðinn" er hluti af markaðssetningu sportlegs bíls.
Veghljóð er hugsanlega hægt að minnka eitthvað með því að velja mýkri dekk. Þau eru yfirleitt með hærri prófíl sem mörgum eigendum Impreza mun líklega ekki þykja eftirsóknarvert. Vindhljóð er stundum hægt að minnka með því að fá kunnáttumann til að stilla hurðir þannig að þær falli betur í karmana. Í Bílanausti og víðar fást hljóðeinangrandi tjörumottur með lími á annarri hliðinni (BN vörunr. 591 100202). Séu þær lagðar í botn bílsins í farþega- og farangursrými (undir teppin) má gera ráð fyrir talsvert minna boddíhljóði. Þessar mottur eru gerðar til að liggja láréttar en límið er hins vegar ekki nógu sterkt til að hægt sé að nota þær í hliðar og neðan á þak. Slíkar mottur gætu verið til hjá Olíufélaginu (Teroson).

Spurt: Ég las einhverstaðar á síðunni hjá þér að maður gæti fengið gormaklemmur í Bílanausti til þess að lækka bílinn, gætirðu nokkuð gefið mér aðeins meiri upplýsingar um þessa klemmur. Þ.e.a.s hvernig þær hafa reynst, hvort þetta sé sniðugt (ég er með 91' módelið af 230e Benz), hvort það þurfi að taka gorminn
undan og einnig verðið á þessu.

Svar: Þessar klemmur voru til í BN (frá sænsku fyrirtæki) - ég notaði þetta einu sinni en fannst þessar klemmur vera hálfgert drasl. Það þurfti ekki að taka gorminn undan. Þetta eru bara formaðir klossar úr galvanhúðuð stáli með tveimur 8 mm boltum sem skrúfa klossan saman og þar með gorminn. Nú býður BN hins vegar lækkunarsett með gormum og stillanlegum dempurum frá Koni í ýmsar gerðir bíla á góðu verði (sérpantað - talaðu við Tryggva sölumann). Þeir geta flett upp fyrir þig settinu í Benz og sagt þér hvað það lækkar bílinn mikið.

Spurt: Ég er tiltölulega nýbúinn að flytja inn amerískan bíl frá USA. Ég las á heimasíðu þinni ýmislegt um ryðvörn og allt það en ekki sá ég álit þitt á bílum sem hafa ekkert verið ryðvarðir. Minn bíll er óryðvarinn en eins og nýr að neðan vegna þess að ekkert salt og vesen hefur komið nálægt honum. Hvað finnst þér að ég ætti að gera? Ryðverja hann á ryðvarnarstöð, láta sprauta notaðri mótorolíu undir allan bílinn eða sleppa þessu alveg?

Svar: Ég fékk nýjan amerískan Mazda 626 frá USA 1998. Hann var með verksmiðjuryðvörn og óvarinn botn að öðru leyti. Af fenginni reynslu lét ég ekki ryðverja hann hér heima. Núna í vor, eftir að hafa notað þennan bíl í rúm 5 ár, skoðaði ég botninn og sprautaði sjálfur efni sem nefnist Gravitex og fæst i Bílanausti á þá staði undirvagnsins sem sjá mátti að orðið höfðu fyrir steinkasti - það voru 4 afmarkaðir blettir - annað var eins og það var þegar bíllinn var nýr. Ég er sannfærður um að hefði ,,íslenskri" ryðvörn verið sprautað á botn þessa bíls í upphafi hefði hann verið byrjaður að ryðga. Mín reynsla/skoðun er að ryðvarnarstöðvarnar láti okkur borga fyrir að stytta endingu bíls með hjálp einhverra ,,smart-arses" (snilldarbora ?) hjá umboðunum.

Spurt: Ég er búinn að vera nokkuð lengi hjá þér á póstlista ( reyndar vinnu mailið mitt juniushjánordural.is ) og fylgst reglulega með skrifum þínum á heimasíðunni. Nú er svo komið að 2.8 vélin í Patrolnum mínum var að gefa upp öndina. Eins og hjá flestum öðrum er ekki mikill áhugi hjá mér að endurbyggja þá vél vegna þess að mig langar í meira afl í bílinn. Nokkrum kostum hef ég verið að velta fyrir mér. Í fyrsta lagi langar mig mest í 4.2 Patrol vél , en hún er alls ekki auðfundin. Annar draumur er að setja niður 4.2 Toyotu vél. Þær er nokkuð auðvelt að fá en verðið er ekki manneskulegt þó vélin sé komin á þriðja hundrað þúsundið, einnig eru þær að vinna á mun lægri sn. en Patrol vélin og yrði ég því væntalega að hækka aftur hlutföllin í bílnum. Þriðji kosturinn er að fara jafnvel í gömlu 4.0 L Túrbó Toyotu vélina sem kom síðast í LC 60 bílnum og er hægt að fá þær á skaplegu verði . Síðan fjórði kosturinn 6.5 GM með 4L80 skiptingu + allt rafkerfi ( IB á Selfossi treysta sér ekki lengur til að flytja þær inn sökum aldurs og því erfitt að nálgast þær), eða 6.2 GMC. Þar veit ég að þú ert mikill þekkingarbrunnur.Hægt er að fá mikið af þeim vélum fyrir lágt verð hér á landi til að endurbyggja.Flestir sem ég tala við hér á landi taka bakföll þegar ég minnist á þennan kost og tala jafnvel um 400.000 við að endurbyggja vélina og þá sé eftir skipting og túrbína og vera samt sem áður með gamlan hlunk sem ekkert vinnur. Er þetta virkilega tilfellið ? Ef ekki er einhver sérstök árg. eða týpa af 6.2 sem ég á að leita af. Þar sem ég er sjálfur vélfræðingur og hef unnið mikið við vélar reikna ég að alla vinnu framkvæmi ég sjálfur nema það sem framkvæma þarf í vélum ( bora , plana ) Gaman væri að fá ráðleggingar við eitthvað af þessum pælingum mínum.

Svar: Ég myndi gleyma 6.2ja lítra GM-vélinni í þínum sporum - hún er einfaldlega orðin úrelt auk þess sem það er rétt sem þér hefur verið bent á að verðið á hlutum í hana er mjög hátt. 6.5 vélin er ekki mikið skárri kostur núorðið - en þó myndi ég telja tíma betur varið í að endurbyggja 6,5 heldur en 6.2ja lítra - og þá fyrst og fremst vegna þess að 6,5 lítra vélin er bæði sparneytnari og með mun minni mengun í afgasi (en nú á að fara að mæla það í skylduskoðun). Þótt ótrúlegt sé er Oldsmobile 5,7 lítra dísilvélin af síðustu gerðinni (DX) langbest af þessum dísilvélum frá GM en hún er nánast ófáanleg núorðið og gengur einungis með sjálfskiptingu og þá þarf 350-Olds-skiptingu/túrbínuhús sem getur orðið enn erfiðara að finna. Ástralir hafa notað miklu öflugri (orginal) dísilvélar í LandCruser og Patrol en aðrir. Það hefur eitthvað með þeirra mengunarreglur að gera. Ég veit til þess að bresk fyrirtæki hafa selt sams konar vélar og hef m.a. séð LandCruiser í Bretlandi sem var með slíka vél - gott ef það var ekki 180 ha 4,6 lítra túrbó. Mat á dísilvél er breytt frá því sem áður var; nú skiptir sparneytnin miklu meira máli en áður þar sem búið er að samþykkja frumvarp fjármálaráðherra um niðurfellingu dísilskattsins um mitt næsta ár (grein um það á vefsíðunni minni). Maður þarf eiginlega að stokka upp á nýtt - ég er ekki nægilega klár á því hvernig hinar og þessar vélar koma út eftir að sparneytnin er orðin ein af megin-breytunum - veit reyndar ekki hvort nokkrar upplýsingar eru aðgengilegar um það atriði eins og stendur. Í þínum sporum myndi ég byrja á að skoða vefsíður Ástralana (og breskra fyrirtækja). Myndi byrja á að nota leitarstrengi á Yahho
truck.au
patrol.au
offroad.au
truck.co.uk
patrol.co.uk
Þá getur þú prófað þessar vefsíður:
www.motsons.com.au/turbo/PatrolTD42.asp
www.4wdworld.com.au/newproducts/diff.htm
www.nissanpatrolclub.org/
o.s.frv og sjá hvers þú verður vísari. Vona að þetta hjálpi þér eitthvað áleiðis.

Spurt: Var að velta fyrir mér varðandi dempara mál. Vonast til að þú getir ausið að visku brunni þínum. Þannig er mál með vexti að ég á Musso jeppa sem ég skipti um dempara á í fyrra. Setti Bilstein dempara að framan en orginal musso dempara að aftan en málið er að þegar ég er búinn að pakka í bílinn þremur strákum og konunni + farangri J Þá halda dempararnir ekki almennilega við eða þar að segja ég er alltaf að slá bílnum niður. Ég ætla að kaupa mér nýja dempara að aftan með hverju mælir þú.

Svar: Það er ekki dempurunum að kenna að slær saman - annað hvort eru samsláttarpúðarnir ónýtir eða gormarnir ekki nægilega stinnir.

Spurt: Myndir þú ráðleggja mér að láta EKKI endurryðverja Nissan Almera '98? Ég hef átt bílinn frá upphafi og ekið honum um 40 þ kílómetra (ekta konubíll!). Var að láta laga lakkið á honum og ætlaði næst að láta endurryðverja -- en sá þá greinina þína og er því orðin tvístígandi. Með kærri kveðju og von um ráðleggingu,

Svar: Í þínum sporum myndi ég spara mér útgjöld vegna endurryðvarnar. Ef þú hugsar sæmilega um lakkið (þrif og bón) er það virkari ryðvörn - því flestir þessir bílar ryðga utanfrá vegna lakkskemmda en ekki innanfrá eins og áður var.

Spurt: Mig langar að forvitnast hvort sé hægt og hvað það er þá mikið mál að breyta Ford Econoline sem er bara með afturdrifi í 4 x4? Bílinn er árg. 1986 og er með sjálfskiptingu og díselvél.

Svar: Það er mikið mál, krefst þekkingar og færni, hellings af hlutum og tíma.
Fyrirtækið Trans-Axle of Colorado (finnur það á Netinu með því að nota Yahoo-leitarvélina) selur breytingasett sem inniheldur alla hluti, með eða án Dana 44 framhásingar og millikassa. Settinu þeirra fylgir vinnulýsing.

Spurt: Er rétt að nota tvígengisolíu (u.þ.b 0,5 lítra ) í dísiloliuna fyrir dísillbíla?

Svar: Nei þetta eru dæmigerðar kerlingabækur. Af því eru engin mælanleg áhrif önnur en aukin mengun í útblæstri.

Spurt: Getur sagt mér hvernig hleðsluljósið er tengt í Toyotu Corollu 90? Það logar endalaust en hleðslan er góð 14,3 -4 volt. Er það er tengt inná hleðslustillinn og hvar er hann að finna?

Svar: Straumstillirinn er innbyggður í alternatorinn - rafeindabúnaður sem innfelur stýringu fyrir hleðsluljósið. Þú færð þessa einingu í Bílanausti/N1 eða hjá Bílarafi í Hafnarfirði en Bílaraf lagar þetta fyrir þig ef þú tekur alternatorinn úr og ferð með hann til þeirra.

Spurt: Nú vantar mig smávægilegar upplýsingar um sjálfskiptinguna í Explorer 1991 sem ég á. Þetta er fjögurra þrepa skipting og ég þurfti að taka pönnuna undan og eins og gefur að skilja þá mun ég skipta um olíu á henni. Einhvern tíman þá átti ég Econoline með overdrive skiptingu og á hana þurfti spes ATF olíu frá Ford. Spurningin er hvort það sé eins með Explorer skiptinguna eða má ég nota einhverja aðra ATF olíu t.d. Esso ATF D 3 ?

Svar: Á þessa Ford-skiptingu er notaður vökvi af gerðinni Dextron II eða Ford CJ.

Spurt: Ég á VW Polo árg. 99, sjálfskiptan. Mér finnst stundum eins og hann sé lengi að skipta sér niður þegar ég er keyri í einhvern halla eða upp brekkur. Veistu nokku hvað gæti orsakað það?

Svar: Í fljótu bragði dettur mér þrennt í hug:
A. Inngjöfin stýrir niðurskiptum - það gæti þurft að endurstilla inngjafarbúnaðinn.
B. Niðurskiptingu í sumum árgerðum af bílum með ZF-sjálfskiptingu er stjórnað að hluta með undirþrýstingi í soggrein vélarinnar, þegar sogið minnkar við það að vélin erfiðar eða snúningshraði hennar minnkar virkar það á loka í skiptingunni sem við það fer í lægri gír og síðan aftur upp í hærri gír þegar sogið eykst á ný. Frá soggreininni er plastslanga/grannt rör í þennan loka á sjálfskiptingunni. Sé leki í þeirri lögn getur það verið orsökin. Það tekur mjög skamman tíma á verkstæði að ganga úr skugga um hvort sogleki sé ástæðan.
C. Gæti verið komið að því að endurnýja þurfi vökvann á skiptingunni og að sía í henni sé orðin teppt. Það sést á því hvort vökvinn sé farinn að dökkna - sé hann í lagi er hann áberandi rauður á litinn - annars brúnn/dökkbrúnn/svartur.

Spurt: Ég á gamlan SAAB 900 sem ég hef verið að gera upp að undaförnu. Hann var orðinn töluvert ryðgaður svo ég og komst að þeirri niðurstöðu að sjálfsagt væri best að skera það ryð burt sem komið var og bæta með nýju efni. Þetta var 1,2 mm rafgalvaníserað efni sem ég valdi. Nú er svo komið að allar helstu boddýviðgerðir eru á lokastigi og bíllinn fer svo í málningu vonandi fyrir áramót. Ég hef spurt marga álits á því hvað þeir myndu nota til ryðvarnar og ég held að svörin hafi verið jafn mismunandi og mennirnir sem ég ráðfærði mig við voru margir. Sumir segja t.d. Tectyl það eina sem eitthvað vit er í. Aðrir hafa bent mér á efni sem er alltaf ,,klístrað”, þornar sem sé ekki á en hefur mikla viðloðun. Eftir að hafa lesið greinina þína um ryðvarnir bifreiðaumboða og ryðvarnarskála hér á landi þótti mér vænlegast að leita ráða hjá þér. Hvað mundir þú ráðleggja mér að nota eftir svona mikla yfirhalningu ? Ennfremur spyr ég hvort ráðlegt sé að setja zink spray á fleti sem leggjast eiga saman til dæmis áður en bretti eru punktsoðin? Er eitthvað vit í að nota efni sem nefnist rust converter á staði þar sem einungis er yfirborðsryð þ.e þegar til lengri tíma er litið ? Að endingu vil ég þakka fyrir áhugavekjandi og skemmtilega síðu.

Svar: Greinin mín fjallar um ryðvörn bíla sem eru ryðvarðir á framleiðslustigi. Þegar um endursmíði gamalla bíla er að ræða gilda aðrar reglur. Ég get bara sagt þér frá minni reynslu - en ég hef m.a. lent í því að hafa endursmíðað gamlan Volvo að miklu leyti og hafa síðan þurft að horfa upp á hann stórskemmsat vegna rangra og lélegra efna. Í fyrsta lagi þarf að loka og þétta allar suður og samskeyti með til þess gerðu kítti ofan á til þess gerðan grunn (suðukítti frá Teroson hefur reynst mér best). Ég hef reynt að sandblása alla fleti sem hægt er að komast að og strax á eftir grunnað þá með tveggja þátta epoxy- eða ætigrunni (Glasurit 283-150 sem þarf að umgangast með gætni því þetta er eitrað efni) - á markaðnum er alls konar grunnmálning og mest af henni er lélegt drasl. Ætigrunninum þarf að loka með þéttigrunni (Sealer) og síðan með lakki. Á undirvagninn hef ég notað svart tveggja þátta Epoxy-undirvagnslakk frá DuPont, 3 yfirferðir. Þetta efni seigherðist með raka og ofan á það borgar sig ekki að setja neitt annað efni. Innan í holrými set ég vaxefni sem ekki rennur við hita (t.d. Wax Seal frá Comma) og það skiptir miklu máli að þessu efni sé úðað með til þess gerðum tækjum en ekki bara sprautað á eða penslað. Ég hef vonda reynslu af Tectyl og botna hreinlega ekkert í því efni - hef aldrei komið auga á þá ryðvörn sem það á að skapa.

 

Aftur á aðalsíðu