Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.

Brotajárn nr.8

© Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur. Öll réttindi áskilin.
(Spurningar sem borist hafa frá lesendum Vefsíðu Leós (www.leoemm.com) og Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur hefur svarað með netpósti ).

Spurningar og svör við bréfum sem bárust á tímabilinu 1. jan til 1. maí . 2004.

Spurt: 'Eg á Hyundai Coupe 1.6 og mig langar að auka snerpuna. Ég hef hugsað mér að fá mér K&N filter (eða eitthvað álíka), Tölvukubb hjá Superchips.is og jafnvel flækjur. Hvað mundir þú ráðleggja mér að gera til að auka hestöflin úr 115.6 í svona 130-140 ekki slæmt ef það væri hærra =). Í sambandi við flækjurnar og opið púst er ég ekki mjög hrifin að hafa það þannig að maður geti ekki hlustað á tónlist fyrir háfaða semsagt hverju má maður ekki henda í burtu til að fá ekki alltof mikin háfaða. Ég er sona hrifnari af því að hafa hljóðið smooth eða hvað sem maður á að kalla það. Hvað finnst þér um Shell V-power bensínið er þetta vitleysa eða er maður eitthvað að græða á því.


Svar: Ég myndi ráðleggja þér að skipta um bíl. Skoðaðu vefsíður þessra fyrirtækja í Bretlandi og Þýskalandi sem eru í þessum bransa (performance chip, engine tuning, power tuning, power accessories) þá sérðu hve lítið er til í fyrir þessa 1600-vél og um leið hvað boðið er fyrir aðra algenga bíla. Ég er smeykur um að það eina sem standi þér til boða fyrir þessa 1600-Hyundai-vél sé betri loftsía og víðara púst. Ég er þeirrar skoðunar að margir hafi drepið sig og fleiri á of karftlitlum bílum heldur en á of kraftmiklum. Þessi 1600 vél í Hyundai er upphaflega hönnuð af Mitsubishi. Þetta er fín vél svo langt sem hún nær en býður ekki upp á mikla möguleika vegna þess hve hún er slagstutt. Öll aflaukning sem næðist yrði með auknum snúningshraða. Honum eru ákveðin takmörk sett auk þess sem kælikerfi bílsins er ekki hannað fyrir mikið meira álag. Strax og komið er í 1,8 eða 2,0 lítra slagrými aukast hins vegar möguleikarnir. Varðandi V-Power bensínið þá hef ég prófað það og ekki fundið neinn mun nema á útgjöldunum.

Spurt: Mig langar til þess að spyrja þig um það hvar sjálvirki opnunabúnaðurinn er staðsettur í bílnum mínum (Daewo Nubira). Kerfið læsti mig úti þegar ég var að skafa af rúðunum en opin hliðarrúða bjargaði málinu. Það henti mig að rafhlöðurnar tæmdust og ég dró um tíma að skipta um þær. Viti menn sendirinn virkar vel en ekkert gerist þegar ég sendi boðin. Þeir mældu sendinn og var hann í lagi. Hvað getur þetta verið?
Svar: Búnaðurinn er í húddinu, sennilegast á hvalbaknum í þínum bíl. Tvær ástæður kunna að vera fyrir þessu, annars vegar sú að búnaðurinn hafi læst sér (öryggisráðstöfun) vegna lágrar spennu á rafhlöðum en hins vegar sú að einn eða fleiri læsingarmótorar séu stirðir (jafnvel ónýtir). Byrjaðu á að endurræsa búnaðinn. Það er gert á þennan hátt (muni ég rétt tegund fjarstýringarinnar í þinum bíl): Svissaðu á og af þrisvar í röð. Svissaðu á og haltu inni öðrum hnappnum á fjarstýringunni (opnun eða lokun)í nokkrar sekúndur.
Þá á kerfið að verða virkt á ný. Hafi þetta engin áhrif er búnaðurinn líklega ónýtur - þetta er yfirleitt ítalskt eða pólskt drasl sem hefur verið til vandræða í mörgum tegundum bíla og sumt af þessu hefur verið mixað í bílana hérlendis hjá umboðunum og yfirleitt reynst illa. Sé þetta ónýtt getur þú látið aftengja búnaðinn þannig að ekki sé hætta á að hann læsi þig úti.

Spurt: Ég er með fyrirspurn varðandi rafkerfi. Ég er að smíða nýtt rafkerfi í bílinn minn. Rafkerfið er 12 volt. Ljóskastari sem er 100 wött 12 volt þarf straumstyrk upp á 8,33 amper. Þá kemur spurningin hvað þarf ég stórt öryggi fyrir kastarann? 10 amper? og er þá nóg að vera með vír sem er 1,5 kvaðrat?

Svar: Mér sýnist þetta geta gengið, þ.e. 1,5 kvaðrat fyrir einn 100 vatta kastara og með 10 ampera öryggi. Þó er rétt að hafa eftirfarandi í huga:
A. Jarðsamband kastara á að vera eins stutt og mögulegt er.
B. Til að stytta straumleiðslu (kraft)sem mest á að nota straumloku (relay)
C. Til öryggis vegna þess hve margir þekkja ekki mælieininguna ,,kvaðrat": Leiðsla sem er 1,5 kvaðröt er með leiðara sem er 1,8 mm þvermáli. Yfirleitt er 1,5 kvaðrata leiðsla um 3 mm að ytra þvermáli (að einangrun meðtalinni).
D. Við ákvörðun á stærð öryggis er notuð sú þumalfingursregla að deila með spennunni (V) upp í aflið (w). Í þínu tilfelli 100/12 = 8,33 amper. Öryggið þarf að þola aðeins meiri straumstyrk. 10 amper er hæfilegt. Sé öryggi of stórt, t.d. 15 eða 20 amper er hætt við að leiðslur nái að hitna talsvert áður en það brennur sundur og því er ekkert ,,öryggi" fólgið í of stóru öryggi.

Spurt: Ég var að kaupa mér gamlann Bens 190E árg 1985. Hann er keyrður 240þús og ég tók ekki eftir svörtum reyk sem kom út úr pústurrörinu þegar ég gaf mikið inn, fyrr enn ég ók á eftir honum á leiðinni norður. Hann fékk samt skoðun fyrir 04 fyrir stuttu síðann. Þegar SVARTUR reykur kemur hvað er þá að?
Hvað er hægt að gera til þess að laga það? Og hvað mundi það kosta?

Svar: Svartur reykur þýðir einfaldlega að í afgasinu er hálfbrunnið eldsneyti (sót). Eitthvað er að vélinni sem gerir það að verkum að hún brennir ekki eldsneytinu fullkomlega við inngjöf. Málið virðist ekki vera mjög alvarlegt þar sem hún virðist ráða við að brenna eldsneytinu nægilega vel í lausagangi (skoðunin). Gefum okkur að smurolían á vélinni sé nýleg og sæmilega hrein og að það sé því ekki orsökin fyrir svarta reyknum (sótmettuð, of gömul, smurolía getur haft þessi áhrif). Byrjaðu á að skoða loftsíuna - hreinsaðu hana eða endurnýjaðu. Bensínsíuna í þessum bílum (Bosch) á að endurnýja á 20-25 þús. km. fresti. Taktu kveikjulokið af og skoðaðu það að innanverðu. Sé áberandi útfelling á töppunum innan í lokinu borgar sig að skipta um kertin, kveikjulokið og hamarinn. Upprunalegir Benz-kertaþræðir (með stálhólkunum sem koma á kertin) endast oft bílinn og ætti ekki að þurfa að skipta um þá nema þeir séu sjáanlega skemmdir. Spíssarnir geta verið orðnir lélegir. Áður en þú endurnýjar þá skaltu setja brúsa af Injector Magic (frá Comma sem fæst í Bílanausti)í tvær tankfyllingar í röð. Ef þú ert heppinn minnkar reykurinn.

Spurt: Ég á Bens 190E, gamlan jálk. Málið með hann er það að hann er sjálfskiptur og hún er farinn að höggva svolítið þegar hann skiptir sér niður, eins þegar ég set í R-ið. Þegar ég svo set hann í P eða N-ið að þá er eins og sjálfskiptingin slíti ekki drifinu frá vélinni og gammli 190 byrjar að renna af stað, nema í P-inu nátturulega þar sem hann stöðvast. Spurninginn sem áhyggjufullur eigandi spyr þig, hlýtur þá að hljóða einhvernvegin svona: Er sjálfskiptingin að bræða úr sér, gefast upp eða vantar bara olíu á hana?

Svar: Benz-skiptingar eru mjög viðkvæmar gagnvart vökvamagni. Vanti hálfan lítra á skiptinguna getur hún látið svona. Sé hálfum lítra of mikið á skiptingunni geta skiptipunktar ruglast. Mjög mikilvægt er að mæla vökvann rétt. Það á að gera með heita vél og skiptingu, vélina í lausagangi og skiptinguna í P. Vissara er að mæla a.m.k. þrisvar áður en kvarðanum er treyst. Sogleki í lögn frá heddi að skiptingu getur orsakað svona högg. Lausagangshraði á að vera 750 - 800 sn/mín í P og N, gangi vélin hraðar skríður bíllinn í D. Högg í driflínu eru oftar vegna slitins hjöruliðs en sjálfskiptingar. Sérstök stilling er á inngjafarstöng sem tengist loka í sjálfskiptingunni með annarri stöng (kick-down). Röng stilling getur orsakað truflanir. Mæli þó ekki með að þú eigir við þá stillingu hafi ekkert komið fyrir inngjafarkerfið - þetta breytir sér ekki af sjálfsdáðum.

Spurt: Þetta er ég aftur Guðmundur Bens 190E eigandi. Ég var að keyra 15 km leið og fljótlega byrjaði olíuljósið að kvikna og logaði á því þangað til ég stöðvaði og drap á vélinni. Ég fór og athugaði olíuna sem var alveg nóg á henni en svolítið ljót. Ég prófaði að starta því jálkinum aftur og það var ekkert ljós, svo ég lagði aftur af stað og eftir smátíma fór það að skina aftur og í þetta sinn stöðvaði ég Bensinn og beið í nokkrar sekúndur og þá hvarf ljósið. Þetta skeði aftur 2-3var þangað til ég náði heim. Þess má geta að í Bensanum er einnig olíuþrýstingsmælir og hann sýndi alltaf fullan þrýsting, vélinn var ekki að ofhitna eða annað athugavert. Er ljósið bilað?
Svar: Skiptu um smurolíuljósrofann og endurnýjaðu smurolíuna og síuna.

Spurt: Ég var að velta því fyrir mér hvort ég gæti fengið ráðleggingar í sambandi við Porsche 944 árg 1985, vél 2,5 l. Málið er að bíllin fer að ganga illa þegar hann er orðinn heitur og drepur á sér á endanum og fer ekki gang fyrr en hann er orðinn vel kaldur þá hikstar hann aðeins og sótar heil ósköp í smá stund síðan byrjar sama vesenið þegar hann er orðinn heitur. Kertin eru ný, hamar og lok er nýtt, loftsían, bensínsían eru ný, bensíndælan virkar vel. Ef þú hefðir einhverja hugmynd hvað gæti verið að þá þætti mér vænt um að fá

Svar: Sé bíllinn framleiddur seinni hluta ársins 1985 er vélstýrikerfið af gerðinni Motronic frá Bosch. Til að finna svona bilun þarf að lesa bilanakóða vélstýrikerfisins með sérstakri tölvu sem umboðið á og líklega einnig Tæknimiðstöð bifreiða í Hjallahrauni í Hafnarfirði. Hafirðu ekki tök á að fá bilanakóðana ælesna skaltu prófa annað háspennukefli sömu gerðar og sjá hvort það breytir einhverju. Þegar háspennukeflið gefur sig (sem er frekar sjaldgæft í Porsche) lýsir það sér sem gangtruflanir eftir að vélin (keflið) hefur hitnað þótt keflið virki þegar það er kalt. Hafi keflið hitnað svo mikið eftir eina akstursrispu með hæfilegum inngjöfum að þú getur ekki haldið utan um það með berum höndum er það ónýtt.

Spurt: Spurt: Oddur Sigurðsson heiti ég og ég er svona "áskrifandi" af síðunni þinni. Mér datt svona í hug að e.t.v. gætir þú bent mér á hvort einhver glóra er í því sem ég er að spekulera. þannig er að ég á Pontiac Trans Sport með 3,1 vél árg. 1991. hann er sjálfskiftur og vandamálið sem ég er að glíma við er smit frá skiftingunni, ekki mikið en það safnast niður á bita og er ansi sóðalegt sérstaklega þegar rignir. Ég fer reglulega með bílinn í "smur" og þeir segja mér að þetta sé ekkert til að tala um.(ég er ekki sammála). Nú er spurningin.. er eitthvað efni sem ég get sett í sjálfskiftivökvann sem þéttir þetta svo að ég þurfi nú ekki að fara út í einhverja verkstæðisvinnu.

Svar: Til öryggis skaltu láta hreinsa vél og skiptingu að neðan með háþrýstiþvottatæki. Sumar smurstöðvar bjóða slíka þjónustu. Þá ætti að vera auðveldara að sjá hve lekinn er mikill og hvaðan hann kemur. Leka og jafnvel bara smit, frá sjálfskiptingu ætti að taka sem aðvörun og láta kanna hvað valdi - að öðrum kosti getur tjónið orðið snögglega og mikið. Í Bílanausti hefur verið til efni til að setja saman við sjálfskiptingarvökva til að stöðva leka.

Spurt: Ég er í vandræðum með gamlan Suzuki Svift. Það eru gangtruflanir í vélinni. Þetta lýsir sér þannig að þegar ég set bílinn í gang á morgnana þá gengur hann á eðlilegum snúnigi fyrst um sinn en svo eftir skamman tíma fer hann að drepa á sér. Ég hef þurft að gefa honum mikið inn og halda snúningnum háum þar sem hann fellur reglulega niður um c.a. 2000 snúninga en tekur svo aftur við sér. Bíllinn stóð um daginn í nokkra daga óhreyfður og þegar ég setti hann aftur í gang þá gekk hann furðuvel í lengri tíma en venjulega en tók svo að hjökta á sama máta. Ég er búinn að skipta um kerti í honum og skipta um bensínsíu. Það kom reyndar á daginn að það var óvanalega mikið vatn í bensínsíunni. Ég setti örlítinn ísvara í bensínið og hef þar að auki prófað að bæta Redex í bensínið og sprauta því beint inn í blöndunginn en ekkert hefur gagnast. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort þetta geti verið eitthvað í rafkerfinu þar sem mér fannst ég heyra miðstöðina falla í snúningi á sama tíma og vélin þegar ég var með fullan blástur. Gæti þetta verið háspennukeflið eða eitthvað því um líkt? Eða fær hann ekki nóg bensín af einvherjum orsökum? Í lausagangi þá er vel hægt að gefa honum hressilega inn og því fær hann greinilega bensín en hjöktir engu að síður. Bíllinn er sjálfskiptur og ég hef reyndar líka verið í örlitlum vandræðum með skiptinguna. Hún fór að snuða um daginn eins og einhver hjól eða diskar næðu ekki gripi. Ég lét skipta um olíu og síur í skiptingunni og hún batnaði til muna við það og er hætt að snuða en bíllinn er óvanalega lengi að ná upp hraða og í brekkum er hröðunin afar lítil og skiptir þá engu máli hversu mikið ég stíg á bensínið. Í bakkgír tekur bíllinn þó vel við sér og snerpan er eins og hún á að vera. Mér fannst eins og þetta snuð um daginn væri rétt framan við bensínfetilinn eða eins og "undir fótunum" að minnsta kosti fann ég titringinn þar. Mér þætti afar vænt um ef þú gætir varpað einhverju ljósi á þetta sem fyrst ef þú hefur tök á.

Svar: Fjórar ástæður sýnast koma til greina: - Óvirkt innsog (stirt, fer ekki á eða fer ekki af) Taktu lofthreinsarann af og skoðaðu innsogsspjaldið þegar vélin er köld/heit. - Sogleki. Einhver slanga sem tengist soggreininni, t.d. kveikjuflýting eða sogstýring á sjálfskiptingu, gæti lekið. Skoðaðu allar slöngur og tengingar þeirra. Sogleki gæti skýrt gangtruflun og slakt viðbragð sjálfskiptingar (niðurskipting við inngjöf er sogstýrð). - Veikur neisti. Oftast er það kveikjulokið sem veldur, stundum hamarinn. - Lek bensínleiðsla frá bensíngeymi (sundurryðgað rör) - bensíngeymar í þessum bílum ryðga þannig að göt myndast á efri hlutanum og vatn kemst þá leið í bensínið. (Háspennukefli bilar venjulegast þannig að gangtruflanir verða þegar heit vél erfiðar en allt er eðlilegt á meðan keflið er kalt).

Spurt: Ég er með MMC Pajero 1992 nýrra útlitið og sjálfskiftan,eru nokkur vandkvæði að nota vél ú gallhopper (2500cc)? Vélin í mínum er ekinn 255000 km.Er búinn að bjóða margoft í tjónaða Pajero og Gallhopper en hugsa að gæðingar trygginga hneppi altaf hnossið. En get fengið frá Bretlandi vél úr Pajero fyrir ca 80 000 kr. Ég var búinn að spyrja þig um viðgerðar bækur en hef talað við Bílanaust þeir geta ekki útvegað þær. Hvað á vél í Pajero að þola mikin akstur? Vona að það sé ekki fyrirhöfn að svara mér.

Svar: Ef þú ert með 105 ha (2476 rsm slagrými) vélina sem kom í 1986 árgerðinni þá er hún af gerðinni 4D56T. Mig grunar að það sé eldri týpa af vél í Gallopher, sú sama og í L200/L300 en sú er af gerðinni 4D55T, 2346 rsm slagrými) og ekki nema 70 hö. Ég myndi telja 250 þús. km mjög góða endingu því þetta eru litlar vélar í þungum bíl. Sé heddið í lagi (ósprungið)og bíllinn heillegur teldi ég athugandi að endurbyggja vélina með útborun og nýjum stimplum, renndum sveifarási og nýjum legum, endurbyggðu heddi, nýrri tímakeðju, uppteknu olíuverki og spíssum. Þú færð flesta hluti í vélina í Vélalandi. Vél frá Bretlandi fyrir 80 þúsund hlýtur að vera ,,Short block" þ.e. vél án hedds. Mér finnst ótrúlegt ef ekki er hægt að panta viðgerðarbók fyrir Pajero/Montero á vefsíðunni www.haynes.com eða frá www.amazon.com en það getur verið að bók um þína 4ra sílindra dísilvél verði að vera yfir L200-pickup eða L300 sendibílinn af árgerð '91 eða yngri en L200 var seldur í Bandaríkjunum með 4D56T-vélinni.

Spurt: Ég hef oft verið að lesa mjög fróðlegar greinar á vefnum þínum. Núna síðast á Mitsubishi
Outlander síðunni. Þar í kaflanum um vélina talar þú um að framleiðendur séu að friða þá sem telja vélarnar sem um ræðir mátlausar. Alveg er ég sammála því sem kemur fram í greininni um 150 hö við 6000 snúninga í Honda CRV. Að láta vél snúast 6000 snúninga í sjálfskiptum bíl er frekar erfitt í D stillingu. Kannski upp 14% bratta brekku sem er nokkrir KM að lengd. En markmiðið með þessu bréfi er nú reyndar að spyrja þig ef ég mætti hvort þú sért sammála þeirri skoðun að sama vél hennti ekki við beinskiptan bíl og og sjálfskiptan. Ég myndi ætla að það þyrfti að hafa meira tog og hestöfl á lægri snúninghraða til þess að vélin virki vel við sjálfskiptingu í öllum venjulegum akstri. Og að vélin í sjálfskiptum bíl vinni að jafnaði á mun minna snúningssviði og því henti ekki sama vélin. Í venjulegum borgarakstri hefur maður gírstöngina bara í D og ekur af stað. Ég á sjálfur Ford Escort 1600 (130nm við 3000 sn) með CTX reimaskiptingu og er alltaf jafn óánægður
með venjulegar sjálfskiptingar sökmum seinlegar viðbragðsflýti og hversu máttlausir bílar með venjulegum sjálfskiptingum eru miðað við Escortin. Ek mikið sjálfskiptum Honda CRV 1998 með 127 HÖ vél (við 6000 sn auðvitað) og finnst alltaf að það vanti slatta af togi og hestum til þess að Hondan sé eitthvað svipað í viðbragði og Escortin. (Escort 950 KG , Honda 1415 kg) Til að gæta fyllstu sanngirni er Escortin með um 10,4 kg á hvert hestafl á meðan Hondan er með fleiri kíló eða 11,1 kg, (birt án ábyrgðar og með fyrirvara um prentvillur, þetta með kgin).

Svar: Þetta er rétt ályktað hjá þér í sambandi við vélarnar. Því minni sem slagrými vélar er því verr hentar hún með sjálfskiptingu. Stærri vélar, 1600 og yfir geta hentað ágætlega með nýrri gerðum venjulegra sjálfskiptinga í léttari bílum en þá er í þeim annar kambás en í sömu vél fyrir beinskiptan kassa - kambás sem skilar hámarkstogi vélarinnar fyrr við inngjöf. Vandinn við sjálfskiptan Honda CRV er einfaldlega sá að vélin er of lítil fyrir sjálfskiptingu í svo þungum bíl. Það sem ég er að benda á í greininni um Outlander er að í Bandaríkjunum er það einfaldlega lenska að telja allar vélar, sem eru með minna en 3ja lítra slagrými, kraftlausar pútur og því falla sumir blaðamenn, sem þýða amerískar greinar af netinu, í þessa gryfju.

Spurt: Smári heiti ég og er eigandi af einni Mözdu 323 ´92 4WD 1,8 Sedan og ætlaði bara að forvitnast að gamni því ég var að skoða síðuna þína. Það fer að koma að demparaskiptum að framan og vegna þess að þetta er fjórhjóladrifsbíll þá fást demparar ekki nema í umboði og á einum öðrum stað, sem ég man ekki hver var, en þar voru þeir dýrari og því var ég að velta fyrir mér hvort þú vissir um einhverjar síður eða aðra aðila sem ég get hugsanlega fengið þá ódýrari eða betri gerðir. Svo setti ég hann á 15´´ felgur í vor, 195/60, og að beygja er allt í lagi en ef að einn eða fleiri sitja afturí þá rekst hann uppundir t.d. ef ég er að fara yfir hraðahindrun. Er það kannski vegna þess að demparar eða gormar séu farnir að slappast? Það var skippt um þá í 150.000 og er hann keyrður 208.000. Hvort að sé hægt að gera hann eitthvað stífari að aftan. Maður niðrí Ræsi sagði að gormarnir gætu verið af framhjóladrifsbíl en var ekki viss. Passa þeir nokkuð á 4WD? Svo að lokum, það hafa verið að aukast gangtruflanir í honum sem lýsa sér þannig að hann er alltaf að detta niður í snúning í hægagangi. Pabbi minn er laginn við bíla en gat ekki fundið út hvernig ætti að laga þetta. Maður sem ég talaði við sem sdillir bíla hann talaði um bensínblönduna. Það eru ný kerti og þræðir í honum og er nýbúinn að fara í genum kveikjuna. langar nefninlega að basla við það sjálfur við að stilla hann ef þú getur leiðbeint mér. Með fyrirfram þökk fyrir svar.

Svar: Það eru fleiri en þú í vandræðum vegna dempara í Mazda 4WD - reyndar eru eigendur Lancer 4WD í sömu vandræðum. GS-varahlutir hafa stundum verið ódýrari og þeir hafa oft átt dempara sem aðrir eiga ekki. Svo er ekki alveg vonlaust að þú fáir nothæfa dempara á partasölu þótt það geti tekið tíma að leita þá uppi. Þú getur fengið upphækkunarklossa til að setja ofan á gormana. Þeir fást hjá málmsteypunni Hellu í Kaplahrauni 5 í Hafnarfirði. Upphaflegu dekkin undir þessum bíl vou með 575 mm þvermáli. Þvermál 195/60 15 er 615 mm svo það er ekki ástæða þess að bíllinn tekur niðri á hraðahindrunum, annaðhvort eru gormarnir of slappir eða að 15 tommu dekkin taka út í hjólskálarnar. Oftast þegar snúningshraði vélar breytist án þess að hreyft sé við inngjöfinni er það vegna sogleka. Skoðaðu vel allar slöngur sem geta verið á soggreininni og einnig hvort soggreinin geti verið laus á heddinu eða eitthvað á soggreininni sem gæti lekið og dregið falskt loft.

Spurt: Ég á BMW 750 ´92, þegar hann er settur í gang kaldur kemur ventlaglamur sem varir í c.a. 5 mín. Ég skipti nýlega um olíu en það hafði ekkert að segja. Er til bætiefni sem gæti losað um tregðu í olíurásum eða undirlyftum. Ég hef heyrt um menn sem hafa sett sjálfskiptiolíu á vélar og "losað" þannig um stíflur.

Svar: Ekki er hægt að útiloka að ventlaglamrið geti verið vegna slits - þ.e. að olíuþrýstingurinn í vélinni sé ekki nægilega hár til að fylla slitnar undirlyftur nógu fljótt. Vökvaundirlyftur slitna þannig að þær ,,blæða" þegar drepið er á vélinni Þetta með sjálfskiptiolíuna (að blanda 1 lítra saman við nýja snurolíu) hef ég ráðlagt þegar undirlyftur eru stíflaðar (en ef til vill lítið slitnar) vegna trassaskapar en þá tikka þær stöðugt - einnig eftir að vélin hefur náð vinnsluhita (t.d. Subaru). Í V12-vélinni í BMW er þetta allt annað kerfi - varla hægt að tala um að í henni séu vökvaundirlyftur eins og tíðkast í vélum með undirlyftustangir - þetta eru eins konar vökvademparar eins og tíðkast í flestum vélum með ofanáliggjandi kambási. Ég ráðlegg þér að tala við BMW-mann á verkstæðinu hjá B&L til öryggis þannig að þú fáir það staðfest að ,,glamur" sé ekki vísbending um að einhver meiriháttar bilun sé í uppsiglingu í vélinni. Fáirðu það staðfest að þetta sé ,,undirlyftuglamur" skaltu byrja á að prófa aðra smurolíu og sjá hverju hún breytir - prófaðu syntetíska smurolíu með vítt seigjusvið t.d. 5W/40 t.d. Esso Ultron. Þetta er dýr olía en hverfi ventlaglamrið fyrr eða minnki með henni myndi ég ekki hafa miklar áhyggjur af þessu en endurnýja smurolíu og síu á vélinni á 7000 km fresti. Ástæða er til að benda þér á að fylgjast mjög vel með því að smurolíusía af réttri gerð sé sett á vélina á þeirri smurstöð sem þú skiptir við. Þessi vél þarf smursíu með sérstökum bakstreymisloka sem kemur í veg fyrir að hún tæmist t.d. yfir nótt. Á smurstöðum er stundum verið að selja ódýrar síur og þær taldar passa ef gengjurnar eru þær sömu og ummálið svipað. Til öryggis skaltu kaupa þínar síur sjálfur, annað hvort í umboðinu eða FRAM-síu í Bílanausti fyrir þessa ákveðnu vél.

Spurt: Ég á Porsche 911 3.0L af árgerð 1982. Bíllinn er í fínu lagi og ég er mjög ánægður með hann nema að einu leyti. Það er alltaf bensínlykt í honum eftir einhverja keyrslu bæði þegar hann er í gangi eða í stæði. Samt er ekki hægt að sjá neinn leka og engan bensínpoll undir bílnum - bensínlyktin virðist koma inn í bílinn með miðstöðinni og er mjög pitrrandi. Ég finn engan mun á eyðslunni. Hvað getur þetta verið og hvernig á að laga það?

Svar: Porsche og fleiri fóru að nota rör úr etthylen-plasti (svört) í stað stáls í bensínleiðslur upp úr 1980. Tengjum úr álblönduðu stáli er þrykk í enda plaströranna og klemma krumpuð á til öryggis. Með árunum víkka endar plaströranna þannig að tengið losnar innan í rörendanum. Sé þetta los nógu langan tíma tærist stáltengið innan í plaströrinu þar til göt koma á það, venjulega undir klemmunni. Utanfrá er ekki hægt að sjá neitt athugavert við rörið eða tengið þótt lekinn sjáist oftast sé þrýstingur á lögninni. Oftast er hægt að ganga að þessum leka á tengjum bensínsíunnar eða á bensíndælunni. Þetta vandamál er ekki algengt. Ástæðan er sú að þessi rör eru endurnýjuð með ákveðnu millibili í Porsche-bílum sem hafa verið í reglulegu viðhaldseftirliti hjá viðurkenndu umboði. Eðlilegast er að endurnýja þessar bensínleiðslur með nýjum frá Porsche. (Flinkir menn geta þó lagfært þessi tengi með ýmsum aðferðum séu nýjar leiðslur ekki fyrir hendi). Það getur tekið smátíma áður en bensínlyktin hverfur alveg eftir viðgerðina. Helsta ástæðan er sú að allur vökvaleki (bensín, smurolía eða annað) í vélarrúmi eða nærri því veldur því að loftið sem miðstöðin dregur lyktarmengast. Því er svo mikil áhersla lögð á að halda loftkældri vél og vélarrými sem hreinustu.

Spurt: Ég á Hyundai (H1) '98. Keyrður 65.000 þús. Ég er farin að heyra vel í stýrisreim, hvað getur skeð ef að ég kemst ekki á verkstæði í tæka tíð til að skipta og hún slitnar á meðan? Getur verið að þær séu tvær?

Svar: Það gerist ekkert annað en að reimin slúðrar, bráðnar og slitnar - bíllinn verður þungur í stýri. Það er einungis ein reim sem knýr stýrisdæluna.

Spurt: Ég þakka þér kærlega fyrir fróðlega grein um Cherokee jeppa en ég er að leita að góðum jeppa fyrir gott verð. Mig langar að spyrja þig um hvort 4,7- 8 cyl. vélin komi ekki best út í eyðslu. Með fyrirfram þökk,

Svar: Nei 4ra lítra 6 sílindra línan kemur betur út - 360 (5,9) AMC-vélin hefur t.d. alltaf verið eyðsluhákur. Séu báðir bílar sjálfskiptir og í fullkomnu lagi eyðir V8-360 vélin 22 lítrum á hundraðið en 6 sílindra vélin 14,5 lítrum. Hins vegar þekki ég ekki þessa minni V8-vél 287 kúbika (4,7 lítra).


Spurt: Mér datt í hug hvort þú vissir um einhvern vef þar sem hægt er að komast yfir teikningar af fjöðrunar- og hjólakerfi Landrover.

Svar: Ef þú átt við gormafjöðrunina þá birti ég myndir af henni (partamyndir) í Bílnum á sínum tíma. Hins vegar eru bæði Bretar og Ástralir með margar vefsíður þar sem fjallað er um Land Rover á tæknilegan hátt. Ef þú notar leitarorðin LAND ROVER UK eða LANDROVER AU ættirðu að verða einhvers vísari. Ef þú þekkir einhvern sem hefur safnað Bílnum þá eru þessar myndir í 3. tbl. 1997 (m.a. grein um Defender 110 á bls. 34) og á vefsíðunni minni http://www.leoemm.com/defender.htm

Spurt: Ég var að kaupa Peugeot 605, árg 1992, ekinn rúma 170 þús km. Þetta er V-6, 3ja lítra, sjálfsk. bifreið. Fyrri eigandi sagði heddið hafa verið tekið af í vor v. gangtruflana og þá var tímakeðja endurnýjuð. Því miður fylgdu bílnum engar bækur eða viðhaldsgögn. Ég var að panta bók um bílinn, en þarf væntanlega að bíða eftir henni. Þarf því að ath. hvort Bernhard geti útvegað upphaflegu handbókina o.s.frv, en langaði að vita hvort þú gætir sagt mér eitthvað um ventlastillingar, rétta olíu, og hversu mikið mál er að skipta um síu í sjálfskiptingunni. Eru einhverjir þekktir veikleikar í vél og skiptingu?

Svar: Þessa sömu 2975 rsm vél notar Citroen í XM - hún er afleiða 2,8 lítra V6-vélarinnar sem Peugeot, Citroen og Volvo hönnuðu sameiginlega og notuðu fyrir 1990. Bókin um Volvo 780 gæti nægt þér í samabndi við vélina - hún gæti verið til í Bílanausti (frá Haynes). Eins og aðrar vélar með álhedd hefur trassaskapur oftast valdið ótímabærri eyðileggingu - kælivökvinn hefur ekki verið endurnýjaður á 2ja ára fresti. Allur kælivökvi súrnar með aldri og þá hefst tæring sem veldur því að heddpakkning gefur sig og oft heddið um leið vegna yfirhitnunar. Skipta á um smurolíu og síu á 5000 km fresti og fylgjast með því að öndunarkerfið á ventlalokunum virki (þarf að hreinsa reglulega og ganga úr skugga um að PCV-loki virki og soglagnir séu ekki tepptar). Sé þessu viðhaldi sinnt eiga ekki að vera nein vandamál með þessa vél. Á milli yfirliggjandi kambásanna og ventlanna eru vökvademparar. Ventlastilling er því óþörf en tikk getur myndast vegna slits á kömbum (sem verður yfirleitt vegna þess að öndun hefur teppst) og á að vera hægt að mæta því að einhverju leyti með plötum af mismunandi þykkt (þær gætu fengist í Vélalandi). Sjálfskiptingin er 4ra gíra með túrbínulæsingu. Hún er frá ZF (þýsk). Þú þarft að endurnýja síuna og vökvann á henni á 60 þús. km fresti. Það er ekki nóg að taka pönnuna undan við síuskiptin (eins og gert er á sumum smurstöðvum) heldur þarf sérstök tæki til að dæla út vökvanum úr túrbínu og innri rásum skiptingarinnar en nokkrar smurstöðvar (Klöpp) og sjálfskiptingaverkstæði (Skipting í Keflavík) hafa slík tæki. Það eru engir veikir punktar í þessum sjálfskiptingum - þær eru oftast eyðilagðar með trassaskap og/eða vankunnnáttu við viðhald. Ég nota ódýra smurolíu frá Comma (XT 2000) og FRAM-síur á mína bíla. Það er skynsamlegra að mínu viti að kaupa ódýrari olíu og endurnýja hana á 5000 km fresti heldur en dýrari (meira auglýsta) olíu og nota hana lengur.

Spurt: Veistu hvort það sé hægt að fá læsingar í Súkkur, Vitara og eða Grand
Vitara?

Svar: Margir hafa skipt um hásingar undir þessum bílum fyrst og fremst til að auka sporvíddina og stöðugleikann en um leið hefur verið auðveldara að fá læsingar. Hins vegar eru til læsingar, m.a. frá ARP í Súkkur. Skoðaðu þessa vefsíðu: http://www.rocky-road.com/sidekick.html

Spurt: Ég er að skipta um tímareim og ballansreim í Porsche 944 árg. 1985 með 2,5l vél, og mér var sagt að ég þyrfti sérstakt mælitæki til að mæla strekkinguna á tímareiminni, ég fann svona tæki á netinu, en það kostar um 600 dollara (of dýrt fyrir mig). 1 ) Er ekki hægt að strekkja tímareimina án þess að hafa mælitækið. (ég hef skipt um reimar á mörgum bílum án vændræða og ekki verið með neitt mælitæki) Ef þú hefur upplýsingar um hvernig og hvort hægt er að skipta um tímareimina án þess að hafa mælitækið þá þætti mér vænt um að heyra frá þér.

Svar: Ég hef engar sérstakar reglur í þessu sambandi - ég hef ekki þurft mælitæki við svona verk en maður þarf að kunna til verka. Aðalmálið er að tímareimin sitji rétt áður en hún er strekkt (og auðvitað að tíminn sé réttur á vélinni). Ráðlegg þér að fá einhvern vanan bifvélavirkja með þér í þetta verk. Reimin á jafnvægisásunum er minna mál en þó þarf að ganga úr skugga um að legurnar á efri ásnum séu í lagi (ekkert slag). Mér kæmi ekki á óvart þótt Guðbergur Guðbergsson (hann er nú Remax-fasteignasali) ætti svona mælitæki.

Spurt: Ég hef áður sent þér fyrirspurnir, þá var það vegna Buicks Century árg:1987 er ég átti, en ég varð fyrir því óhappi að keyrt var inn í hliðina á honum, og hann skemmdist það mikið að ég lét tryggingafélagið greiða mér hann út, þó svo að ég hafi að sjálfsögðu ekki nánda fengið sannvirði fyrir bílinn miðað við það sem að ég var búinn að gera fyrir hann, og var það á meðal búinn að skipta um tímagírinn í honum og allt sem að honum tengdist, einhverra hluta vegna klikkaði hann í þessum blessuðum Buick Century, 3.8 lítra vél, alveg upp úr þurru, þe.a.s. að ég hafði ekki orðið var við eitt eða neitt, eins og gangtruflanir eða annað sem að benti til að þetta væri að gefa sig! Nú málið er að ég keypti mér annan amerískan bíl, Oldsmobil Regancy Brougham 98, árg 1989, og er hann einnig með 3.8 lítra vel!! Ég hef tekið eftir því að þegar að ég er að starta honum í gang, að þá er eins og að á startinu sé eins og vélin snúist hægt og allt að því hiksti en hann fer alltaf í gang og eftir það að þá malar hann eins og köttur, og er varla að maður finni að vélin sé í gangi, þannig að samkvæmt því virðist ekki vera neitt stillingar vandamál, "að mínu viti"? Heldur þú að þetta geti verið merki um að tímagírinn gæti verið að gefa sig, vegna þess hvernig hann er á startinu, (sama heitur og kaldur!!) Það er búið að keyra þessa vél rúmlega 225.000 km, sem að er nú ekki mikið "að mínu viti" á amerískum bíl, en það segir kannski ekki allt, því að þegar að þetta skeði með Buickinn þá var nú aðeins búið að keyra hann rúmlega 60.000 mílur, eða um 100.000 km! Ég heyri vonandi fljótlega frá þér um hvað þér gæti sýnst að þetta gæti verið!

Svar: Tímagírinn hlýtur að hafa verið gallaður í Buick bílnum. Sé kveikjutíminn stilltur þannig að neistinn sé í fljótasta lagi getur slappur rafgeymir valdið því að vélin slær til baka í starti. Önnur ástæða getur verið slit í startara sem veldur því að ankerið tekur út í belgvöfin. Prófaðu fullhlaðinn geymi sem mælist með pólspennu um 13 volt. Ef startið verður eðlilegt er ástæðan kveikjustilling og rafgeymir. Ef ástandið er óbreytt skaltu skoða geymasambönd frá geymi til startara og einnig grennri leiðsluna sem kemur á segulrofann á startaranum. Séu leiðslur í lagi skaltu fá startarann álagsmældan á verkstæði. Þá kemur í ljós hvort hann er að stríða þér.

Spurt: Sæll Ég er með Ford 351 vél ég veit ekkert hvaða týpa eða árgerð þetta er Hvernig get ég komist að þessu öllu? Er ekki einhvert serial númer á henni?

Svar: Það getur verið fjandi snúið því þessar vélar eru orðnar gamlar og oft mikið búið að fást við þær sem þýðir að á þeim eru ekki allir hlutir upprunalegir - og stundum skortir mann hugmyndaflug til að láta sér detta í hug það sem sumir fúskarar gera við vélar. Ég kann enga pottþétta aðferð og hef aldrei grætt neitt á steypumerkjum í Ford-heddum - það virðist vera eintóm ,,steypa". Oftast má sjá það á rokkerörmunum hvort um Windsor (slappari) útgáfu eða Cleveland (sprækari) er að ræða. Blokkin er sú sama og hálfri tommu dýpri en 302. 351 Windsor og fyrstu árgerðirnar af 302 eru með rokkerörmum úr steypustáli og er stundum rauf í þeim af framan þar sem þeir ýta niður á ventilinn. Cleveland er með rokkerörmum sem eru pressaðir úr stálplötu. Stundum en ekki alltaf eru ventlalokin á Cleveland köntuð með bolta að framan og aftan en lokin ávalari á Windsor og ekki boltar á rúnaða hlutanum að framan og aftan. 351-vélin er með 4ra tommu stimplum. Hún kom fyrst 1969. Munurinn á henni og 302, sem kom 1968, er að slaglengdin er hálfri tommu meiri 3,5" og blokkin hærri sem því nemur.

Spurt: Ég hef einu sinni áður leitað ráða hjá þér og fékk mjög skír svör, kærar þakkir. Hvað ber að hafa í huga ef bíl er lagt í lengri tíma (1/2 ár)? Ég er með BMW 750 ´92.

Svar: Endurnýjaðu smurolíu og síu á vélinni. Sé kælivökvinn orðinn eldri en 3ja ára skaltu endurnýja hann. Settu byggingaplast undir bílinn. Troddu einhverju í loftinntakið á lofthreinsaranum. Aftengdu geyminn. Annað þarf ekki.

Spurt: mig langar að spyrja hvaða demparar séu bestir undir breyttan Jeep Wrangler búið er að smíða undir hann gormakerfi undan Range Rover. Ég sækist eftir að bíllin sé mjúkur og fjaðri vél, nú er undir honum Gabriel demparar stilltir á mýkstu stillingu, hann er ágætur á götum borgarinnar, en ef ekið er um ójöfnur, (þvottabretti) er ekki verandi í bílnum vegna hristings. Ég prófaði að taka demparana úr sambandi þá varð hann dúnmjúkur, þannig að þetta er ekki gormarnir að ég held.

Svar: Þetta er algengt vandamál sem fylgir breytingum/hækkun - stundum er það heimatilbúið og skapast vegna þess að menn nota grjótharðar litfagrar plastfóðringar í stað þess að nota venjuleg svört og púkó demparagúmmí. Ég reikna með að þú hafir gengið úr skugga um að slaglengd demparanna sé nægileg fyrir bílinn eftir breytinguna. Stillanlegir demparar leysa oft ekki málið í breyttum jeppa - þeir eru oft of stífir. Hentu úretan-fóðringunum (ef þú ert með þær). Mældu slaglendina sem demparinn þarf að hafa og leitaðu að sem sverustum dempara með þá slaglengd og réttu endana - mér þætti líklegast að þú fengir þá hjá GS-varahlutum.

Spurt: Ég á Golf sem er með skálar að aftan, og þetta hljóð er frekar ný komið. Þegar ég sleppi bremsunni(petalanum) upp þá kemur svona ískur en samt ekki bremsu ískur. Þetta hljóð kemur úr skálunum. Þetta kemur líka þegar ég sleppi handbremsunni. Það skiptir ekki máli hvort ég sé stopp eða á ferð þá
kemur þetta hljóð samt. Hljóðið kemur þegar ég er búinn að bremsa svo á leiðinni þegar ég sleppi bremsunni kemur hljóðið.

Svar: Prófaðu að rífa nokkrum sinnum í handbremsuna um leið og þú bakkar. Stundum er það allt sem þarf.

Spurt: Ég er með Toyota Avensis 1600 sem er tæplega 4 ára gamall og ekinn rétt um 70.000 km. Þessi bíll hefur reynst vel þá mánuði sem ég hef átt hann. En vandamálið er að hann brennir mikilli olíu. Hann brennir ca 1 lítra á hverja 2000 km. (hálfur á 1000) sem mér finnst of mikið miðað við Toyota Carina E sem ég átti og var ekinn vel yfir 200.000 og hreyfði olíu mjög lítið. Nú var sett á bílinn Bell-Aid hreinsiefni en bruninn virðist ekki
vera að minnka (sett á hann fyrir 2000 km). Það sem ég er að hugsa, ef þetta eru einhverjar ventafóðringar eða eitthvað svoleiðist, er það þá ekki framleiðslugalli? Ég vil helst ekki þurfa að fara út í einhverjar dýrar framkvæmdir með nýlegan bíl meðan að gamli bíllinn bilaði aldrei. Hvað telur þá líklegast með ábyrgð á þessum bíl (3 ár eða 100.000 km, hvort sem kemur fyrst) það er smurbók í mínum bíl og hann hefur verið í góðu viðhaldi. Er þetta eðlilegt með svona nýlegan bíl?

Svar: Toyota vélarnar hafa enst vel og svona vandamál eru sjaldgæf. Líkleg skýring getur verið ill meðferð eða trassaskapur (ekki skipt um smurolíu í lengri tíma). Hafi ekki fylgt þjónustubók eða smurkort með bílnum má gera ráð fyrir að smurolíuskipti hafi verið trössuð.(Sé um fyrrum bílaleigubíl að ræða hefur þjónustubókinni verið fleygt - bílasalar segja þá oftast að hún hljóti að hafa týnst eða orðið eftir hjá fyrri eiganda og ekkert mál sé að útvega hana - hún kemur auðvitað aldrei í leitirnar). Verksmiðjuábyrgð gildir 100 þús. km eða 3 ár hvort sem kemur fyrr. Verksmiðjuábyrgð er skilyrt með því að færðri, stimplaðri og gildri þjónustubók sé framvísað - en hún á að sýna að viðurkennt þjónustuverkstæði (fyrir Toyota) hafi framkvæmt þjónustuskoðun og smurningu á bílnum samkvæmt skilmálum verksmiðjuábyrgðar. Smurstöð er í fæstum tilvikum gildur þjónustuaðili gagnvart verksmiðjuábyrgð. Þú getur gengið úr skugga um hvort olíubrennslan er vegna ventlaþéttinga eða stimpilhringja. Keyptu STP Oil Treatment í Bílanausti eða á bensínstöð. Þetta er sýrópslegur seigur vökvi. Þú skalt hita hann á miðstöðvarofni í klst. áður en þú hellir honum saman við nýja smurolíu á vélinni. Minnki smurolíubrennslan mælanlega næstu 1500-2000 km eru stimpilhringirnir/sílindrar slitnir og ástæðan fyrir því er ill meðferð. Verði lítil sem engin breyting bendir það til að þéttingar á leggjum sogventlanna séu ónýtar. Sé það rétt að bíllinn sé ekki meira ekinn gætu ventlaþéttingarnar hafa skemmst vegna yfirhitnunar.

Spurt: Í kjölfar greinar þinnar um tjaldvagna og sjálfskiptingar: Ég er með Range Rover Vouge S, '92 sjálfskiptan. Sé bílnum gírað niður úr D í 3, og þaðan í 2, t.d. niður brekkur, er það svo að bíllinn heldur ekki neitt við í 2. gír - bara fríhjólar. Hins vegar skiptir hann sér alltaf upp úr 1, í 2 í 3 og svo D noti ég handskiptinguna. Bílinn fékk ég í maí sl. og var tjáð að vel hefði verið hugsað um hann. Sjálfskiptivökvinn var hins vegar kolsvartur þegar ég lét athuga hann og skipta um síuna í sjálfskiptingunni. Á verkstæðinu sem annaðist það var talið að e.t.v. gæti þessi vandi með 2. gír leyst með nýrri olíu og síu. Nú er nokkuð um liðið, en ekkert er að sjá neinn bata. Hvað gæti þurft að gera?

Svar: Líklegasta orsökin er fastur renniloki í ventlahúsinu eða stífla í rásum að s.k. ,,servói" . Stundum losna svona stíflur, sem stafa af óhreinindum (trassaskap) við það að skipta um vökva - en í þinu tilviki hefur það ekki verið nóg - en samt þess virði að reyna. Vandinn er sá að oft þegar sagt er að búið sé að skipta um vökva á sjálfskiptingu hefur einungis verið skipt um tæplega helming hans, þ.e. vökvann sem er í pönnunni og lekur af þegar hún er tekin undan. Á sjálfskiptingarverkstæðum, og einstaka smurstöðvum, er búnaður sem tæmir einnig vökvann úr ,,túrbínu" og ventlahúsi - en það er rétta aðferðin. Því miður orsaka óhreinindi í vökva oft stíflur sem engin leið er að losa öðru vísi en að taka sjálfskiptinguna sundur stykki fyrir stykki og eru því oft dýrar viðgerðir.

Spurt: Ég á Grand cherokee ' 94, V8 5,2. Í skoðun mældist CO 0,5 % sem skoðunarmaðurinn sagði mér að væri of mikið þeir eiga að vera 0,1-0,2 % sagði hann. Þar sem ég bý úti á landi og á ekki heimangengt í bæinn til að láta Ræsi kíkja á hann þá hef ég verið að velta fyrir mér hvað geti verið að. Tölvan meldar ekki "code 21" fyrir bilaðann oxigen sensor en þess má geta að ég talaði við þá hjá Ræsi og var mér sagt að líkleg skýring væri bilaður oxigen sensor og var mér sagt að tölvan myndi þá koma með meldingu ef svo væri. Annað; þegar vélin nær 2000 snúningum drynur mikið í vélinni en hættir jafnskjótt og vélin fer yfir 2000 snúninginn og er þetta óháð í hvaða gír bíllinn er í. Mér hefur fundist bíllinn afllítill þegar hann er kaldur. Annars gengur vélin mjúkt, jafn gangur í lausagangi. Er möguleiki að þetta hafi eitthvað með EGR valve að gera, ég prófaði aftengja EGR transducer inn á EGR valve og dældi lofti með handpumpu inn í staðin, samkvæmt leiðbeiningum úr Haynes, og átti þá vélin að hiksta en svo var ekki. Er möguleiki að hann sé fastur þrýstingur frá pumpunni féll ekki heldur? Aannað má ég rífa hvarfakútinn úr, hef heyrt að þar fari 20hp til einskis?

Svar: Því miður er ómögulegt að segja hvað geti valdið 0,3 % hækkun á CO hjá þessari vél - það geta verið margar mismunandi ástæður fyrir því og eina leiðin er að bilanagreina vélina með til þess gerðir tölvu. Þó er eðlilegt að grunur vakni um of veikan neista (kerti og kertaþræðir). Óhrein loftsía getur hækkað CO - það getur reyndar óhrein smurolía líka gert. Hluti af kolmónoxíðinu í afgasinu hverfur fyrir tilstilli hvarfakútsins - þitt vandamál leysist því ekki við að fjarlægja hann, sem auk þess er lögbrot. (Hvarfakúturinn gæti hins vegar verið ónýtur - mulningur í honum og því hálftepptur sem gæti skýrt drunurnar og aflleysið). Varðandi EGR-lokann þá gegnir hann því hlutverki að koma í veg fyrir að of mikill hiti myndist í brunahólfinu og um leið kemur hann í veg fyrir að nituroxíð myndist í afgasinu. Vélar með álhedd eru viðkvæmar fyrir auknum hita í brunahólfum og því er mikilvægt að EGR-lokinn sé virkur og ekki mælt með því að aftengja hann og blinda eins og brögð munu vera að. Þú getur hins vegar gengið úr skugga um hvort EGR-lokinn sé lekur með því að blinda (loka) rásinni undir honum með plötu tímabundið. Þegar EGR-loki lekur fylgja því yfirleitt gangtruflanir.

Spurt: Ég á miðaldra bíl sem þarfnast töluverðra olíuábóta milli olíuskipta. Þetta er kannski svona 1 lítri á mánuði. Nú hef ég aldrei orðið var við leka frá vélinni, þannig að sú skýring sem liggur beinast við er olíubrunni. Ekki er þó um bláleitan útblástur að ræða og ekkert olíusmit er á kertum. Eru fleiri algeng einkenni olíubruna? Í þokkabót virðist sem olíuþrýstingsgaumljósið sé bilað, það hefur í það minnsta aldrei logað þó svo vantað hafi nokkra lítra af olíu á vélina. Skömmu eftir að ég keypti bílinn varð vart við aukinn hávaða frá vélinni, reyndar hljómaði hún nákvæmlega eins og dísilvél. Athugaði ég þá olíumagnið, kvarðinn var skraufþurr og ég þurfti bæta á hátt í 3 lítrum áf olíu, en vélin tekur um 3,5 lítra! Er nokkuð annað en olíubruni sem getur skýrt þetta? Bíllinn sem um ræðir er 1995 Opel Astra 1600 16V, ekinn 127þ.

Svar: Eftir lýsingum að dæma er búið að eyðileggja vélina með því að keyra hana olíulausa. Þá er nokkuð ljóst að peran í olíuljósinu er ónýt, olíuljósrofinn ónýtur eða ótengdur. Af lýsingu að dæma er þetta slitin vél og allar líkur á að sílindrar og stimpilhringir séu slitin og að það valdi mestu um olíubrennslu. Önnur leið fyrir smurolíuna til að hverfa er með leggjum innventlanna og inn í brunahólfið. Á ventlunum (innan í gormunum) eru þéttingar sem oft eyðileggjast þegar vél yfirhitnar.
Í þínu tilviki virðist borga sig að láta gera við olíuljósið og bæta 1 lítra við á mánuði. Stundum minnkar olíubrennsla sé STP Oil Treatment bætt út í nýja smurolíu. Þetta er sýrópslegur vökvi sem þarf að hitna á miðstöðvarofni í hálftíma áður en honum er hellt saman við smurolíuna - þú færð það efni í Bílanausti og á mörgum bensínstöðvum.

Spurt: Sæll Leó og þakka þér fyrir fræðandi og áhugaverða síðu. Nýlega setti ég 16 ventla túrbó vél í SAABinn minn (900 GLE '83). Sú vél er, eins og þú kanski veist sem gamall SAAB eigandi, 175 hö með stimpilþjöppu 9:1 og forþjöppun upp á u.þ.b. 0,8 bör. Í stað upprunalega millikælisins notaði ég stærri millikæli úr SAAB 9000, og kom ég honum fyrir framan við vatnskassan. Skemmst er frá því að segja að ég var mjög ánægður með þessi skipti, enda var bílinn áður með 8 ventla vél án forþjöppu (reyndar skipti ég líka út gömlu þriggja þrepa Borg Warner sjálfskiptingunni fyrir 5 gíra beinskiptingu, og kann að vera að stór hluti akstursánægunnar hafi komið þaðan). En eins og við var að búast þá fór vélin að leka olíu hér og þar (þetta var í fyrsta skipti sem ég setti saman vél), og er ég því búin að taka vélina aftur úr bílnum og er að þétta hana með nýjum pakningum. Og þar sem ég er með vélina í pörtum á gólfinu fór ég aftur að gæla við hugmynd sem hefur verið að gerjast með mér um nokkurt skeið. En það er að fara heldur sjaldfarna leið í að tjúna túrbó vélina og hækka stimpilþjöppuna í 10,1:1 með því að setja í hana stimpla úr n/a SAAB vél (hér má sjá mynd af turbó og n/a stimplum úr SAAB vél hlið við hlið:
http://www.hi.is/~thmj/myndir/pistons_turbo_vs_na.jpg).

Mér er vel ljóst að með þessu eykst hætta á véla banki verulega og væri nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir það. Túrbó lausu vélarnar komu með 3,0 bara bensínþrýstings regulator, á meðan túrbó vélarnar voru ýmisst með 2,6 eða 2,8 bara. Með því að skipta yfir í 3,0 bara regulator væri ég búinn að tryggja aðeins aukið bensín magn og þar með ríkja blönduna nokkuð. Einnig er millikælirinn nokkuð öflugri en sá sem
upprunalega kom með vélinni og ætti því að hjálpa nokkuð til líka. Þá er vélin búin APC (automatic performance control) tölvu sem stýrir forþjöppuþrýsting með tilliti meðal annars til vélabanks (takmarkar
þrýstinginn við "waste gate" þrýsting (u.þ.b. 0,35-0,4 bör ef hún skynjar eitthvað bank). Það sem háir mér mest í þessum pælingum er að ég hef engan fræðilegan bakgrunn í sprengihreyflum og geri mér því ekki grein fyrir því hvort þessar breytingar sem ég hef nefnt séu nálægt því að ver nógar til að dæmið gangi
upp, eða hvort mun meira þurfi til. T.d. miklu meira bensín flæði en ég hef gert ráð fyrir; enn meiri kælingu, t.d. með vatnsinnspýtingu. Því langar mig að spyrja þig álits á þessum pælingum. Í stuttu máli sagt: Er eitthvað vit í þessu?
P.s. Ástæða þess að mig langar að hækka stimpilþjöppuna í stað þess að hækka forþjöppuþrýstinginn eins og flestir gera, er sú að ég er ekki að leita eftir miklu hámarks afli heldur langar mig að gera SAABinn sprækan og
skemmtilegan götubíl en ekki að neinum keppnisbíl.

Svar: Ástæða lekans getur verið óvirk eða stífluð öndun á vélinni - Sabinn er eins og Benz - ef öndunin teppist þrýstist olía út með öllum pakkningum. Það eru engin fræði sem hægt er að nota til að sjá nákvæmlega fyrir hvað gerist þegar vél er breytt með verulegum frávikum frá upprunalegri uppsetningu - það er ekkert annað að gera en að prófa sig áfram. Hins vegar líst mér ekki á að nota hærri þjöppunarhlutfall en 9:1 með afgasþjöppu í Saab (né öðrum vélum yfirleitt fyrir venjulega notkun), smeykur um að þú munir lenda í vandræðum vegna ,,detonation" sem er ekki bara illleysanlegt vandamál heldur líklegt til að eyðileggja vélina fyrir þér á skemmri tíma en þig órar fyrir. Í þínum sporum myndi ég kanna hvort þau fyrirtæki séu enn í gangi í Bretlandi (og á netinu) sem seldu breytingarsettin fyrir 450 ha turbo-útgáfuna af Saab 900 sem ég sagði frá í Bílnum á sínum tíma.

Spurt: Sonur minn á Volvo 460 GL árg. 1993 með 2000 vél. (Renault) Bíllinn er ekinn 107.000 km. Hann er ansi frekur á olíuna og lætur nærri að hann fari með hálfann lítra á fullan tank af bensíni. Hann reykir ekki við eðlilegan akstur. (Ekki nema ef strákurinn gefur mikið bensín og lætur hann snúast. Ég hef reyndar ekki séð það sjálfur.) Hann var þjöppumældur í sumar og virtist þjappa ágætlega. Það var gert vegna þess að hann hefur nokkrum sinnum verið að stríða okkur þ.a. hann bleytir kerti og þarf þá að þurrka þau upp og hreinsa. Ég hef reyndar grun um að háspennukeflið eigi hlut að máli þar því eftir að hafa farið yfir samböndin á því, þar sem það leggst ofan í kveikiheilann (Renault háspennukefli), þá var bíllinn í lagi í nokkrar vikur. Hvað gæti valdið þessari miklu olíueyðslu? Kveðja,

Svar: Álhedd tærast vegna súrnunar kælivökvans. Það er ástæðan fyrir því að nauðsynlegt er að endurnýja kælivökvann á 2ja ára fresti. Álhedd geta tærst þannig að smurolía sem fer upp í legur kambássins lekur út í vatnsganginn eða út úr heddinu vegna tæringar í pakkningarfleti heddpakkningarinnar. Sé ekki um leka að ræða eru yfirleitt 2 ástæður fyrir smurolíunotkun: Í fyrsta lagi: Þéttingar (plasthettur) á leggjum innventla ofan á ventilstýringum gefa sig yfirleitt eftir 5-6 ár (jafnvel fyrr hafi vél einhverju sinni náð að yfirhitna). Í öðru lagi: Slit í sílindrum og/eða stimpilhringjum. Stundum má ganga úr skugga um hvort stimpilhringjum sé um að kenna með því að blanda saman við smurolíuna efni sem kallast ,,STP Oil Treatment". Minnki olíunotkunin næstu 1000 km eftir það hefur verið sett á berast böndin að stimpilhringjunum (olíuhringjunum). Þetta efni er eins og sýróp - þykk leðja. Dósina þarf að hita á miðstöðvarofni í um 30 mín. áður en efninu er hellt saman við smurolíuna. Breytist olíunotkunin ekkert við STP-efnið má ganga að því sem vísu að ventlaþéttingarnar séu lekar. Ákveðnar tegundir smurolíu brenna síður en aðrar. Sem dæmi má nefna Esso Ultron 5W/40. Þótt veikur neisti (háspennukeflið) orsaki yfirleitt olíublaut kerti hjálpa slitnir stimpilhringir og/eða lekar ventlaþéttingar til. Það er ekki mjög mikið fyrirtæki að skipta um þessar ventlaþéttingar - það er hægt að gera án þess að taka þurfi heddið af - engu að síður máttu reikna með að að verkið kosti 40-50 þús. kr. enda er oft skipt um tímareimina um leið.

Spurt: Sæll Leó. Hafþór heiti ég og mig langar að vita hvort að þú getir hjálpað mér því að ég er svo heppinn að eig hérna Porsche 356 Speedster eftirlíkinguna sem að Jón S.Haldórsson heitinn smíðaði á sínum tíma fyrir Hrafn Gunnlaugsson en málið er það að ég er mikið búinn að spá í það hvaða mótor ég ætti að setja
í bílinn en eins og stendur þá er bíllinn með 1,3 Bjöllu-vél en ég er mikið búinn að spá hvort að ég eigi að setja Subaru mótor eða Alfa Romeo 2,0 vatnskældan boxer í hann en það kostar mig annað svinghjól, milliplötu og margar aðrar breytingar á bílnum, sem að myndu taka tíma og kosta peninga. En svo er það maður sem að ég hef svolítið talað við en hann á 1,8 boxer mótor úr Porsche 914 árg 73 en hann er sjálfur búinn að setja í þann bíl 2,7 6 sílindra Porsche mótor og mér stendur þessi mótor til boða, þ.e.a.s. 1,8
lítra mótorinn. Það sem að veldur mér mestum hausverk er að ég þarf að breyta kælibúnaðinum á mótornum því að í 914-bílnum er mótorinn fyrir miðju og því með kælidótið mjög lágbyggt. Ég þyrfti að breyta því þannig að það myndi líta út eins og í Bjölluni - en þá kemur að því að það eru tveir blöndungar á 914-mótornum og það þarf að breyta því kerfi eitthvað, - þá á ég við að það er þessi litla soggrein sem að þarf að breyta eða reyna að finna og þá er spurnig hvort að maður geti notað blöndungana. En til þess að ég geti notað Bjöllu-gírkassan þá þarf ég að fá annað svinghjól á mótorinn en þá er það spurnig því að hann á líka kassan úr 914-bílnum sem á að vera kassi úr 911og mig mynnir að hann heiti 901. En til að ég gæti notað hann þá vantar mig nýtt skipti-dót aftan á hann því það passar ekki en ég var að spá hvort að þú gætir lesið þessa romsu mína og kannski að þú gætir hjálpað mér eitthvað. En þú hefðir kannski gaman af því að skoða myndir af svona speedster sem að vinur minn í Bretlandi á og var búinn að breyta mikið en slóðin til hans er www.ricola.co.uk

Svar: Ég man eftir þessum bíl og minnir að viðskipti þeirra Jóns og Hrafns vegna hans hafi verið skrautleg. Ég átti talsvert við Porsche 911 á sínum tíma en það er orðið langt síðan. Ég fékkst talsvert við að breyta vélbúnaði Bjöllunnar á sínum tíma, m.a. með 6 sílindra Corvair-vél og fleiru. Ég reikna með að það gildi ekki síður nú en fyrir 30 árum að það þótti undantekningarlaust ,,vondur bisness" að nota Porsche-hluti í VW-bíla eða á eða við VW-vélar. Það þótti bjóða heim flóknum lausnum og undantekningarlaust dýrum. Kosturinn við 356 Speedster byggingarsettið er sá að hægt er að nota VW-vélbúnaðinn sem er einfaldur - auðfáanlegur og kostar ekki mjög mikið. Ég myndi halda mig við hann - því mér lýst satt að segja ekki á þínar pælingar - finnst þær ekki þess eðlis að samsetningu bílsins gæti lokið þannig að hann fengist til að virka eðlilega. VW-vélina er hægt að trimma ótrúlega og til þess fæst enn allt sem til þarf (eins og sjá má í Kit Car tímaritinu). Ég ráðlegg þér að velja einfalda lausn (VW-vélbúnað) þó ekki væri nema til þess að þú losnir við að láta okrara plokka af þér peninga fyrir rándýrt Porsche-dót.

Spurt: Sæll Leó, það er sko ekki tekið út með sældinni að eiga gamlan amerískan bíl, ég er enn að brasa með GMC Jimmy '84 hann er með 6,2 disel vél og sjálfskiptur, í honum er 3 þrepa 400 skipting, en gallin við það er finnst mér hvað hann er máttlaus í háa drifinu ef ég stoppa í brattri brekku er varla að ég komist af stað aftur nema setja í lága drifið eins ef ég er í þungu færi og, t.d. snjó eða sandi þá bara stendur bíllinn á "öskrinu" og fer hvergi, nú er þessi bíll með óbreyttu drifhlutfalli að ég best veit og bara á 33" dekkjum svo að mér fyndist að svona stór vél ætti að geta látið bílinn bifast áfram þó það sé ekki niður brekku, er þetta eðlilegt? Ég er búinn að reyna spyrjast fyrir og menn eru nú ekki sammála um hvort þetta sé eðlilegt eða ekki? Hefur þú einhver svör handa mér?

Svar: Heyrðu það er þó alltaf skárra að eiga gamlan amerískan en nýjan Alfa Romeo! (það helvítis drasl)! Þetta er auðvitað ekki eðlilegt - svo mikið er víst. En það er nú varla von að hægt sé að bilanagreina vélina á grundvelli þessarar lýsingar. Sé vélin ekki haugslitin væri sennilegasta skýringin á máttleysinu rangur tími á olíuverki (þá ætti vélin að reykja við rösklega inngjöf). Nái vélin upp snúningi án þess að bíllinn drattist af stað berast böndin að sjálfskiptingunni - ef það er það sem þú átt við með því að ,,bíllinn standi á öskrinu" - skiptingin gæti verið hálftóm, kúplingar brunnar, - túrbínan ónýt o.s.frv.

Spurt: Ég á Suzuki Swift Gti 92 módelið og langar til þess að setja í hann 12/220 volta spennubreyti fyrir ferðatölvu og kannski seinna meir Playstation 2. Í bílnum verða svo öflugar græjur. Mig langar til að spyrja þig hvort þú haldir að alternatorinn ráði við þetta allt saman sem ég á hreinlega ekki von á. Einnig langar mig að spyrja hvað þú heldur að sé sniðugast að gera til að auka afl vélarinnar. Í bílinn verða allavega settar flækjur og kraftpúst og svo hef ég einnig hug á að fá heita knastása. Heldur þú að það sé ekki hægt að gera
eitthvað fleira sniðugt til að auka afl vélarinnar enn meira án þess að það kosti fleiri hundruð þúsundir?

Svar: Ég myndi ráðleggja þér að nota upprunalega alternatorinn til að byrja með og sjá hvernig rafkerfið stendur sig því það er frekar rafgeymirinn sem þú þyrftir hugsanlega að stækka - a.m.k. áður en þú skiptir um alternator (athugaðu að öflugri alternator minnkar vélaraflið). Ódýrustu aukahestöflin færðu í þessari vél með því að stækka pústið (minna viðnám)og tryggja um leið aukið loftflæði inn á vélina með stærri lofthreinsara. Þegar það er fyrir hendi er skaltu tjékka á því hvað sett af heitari kambásum kostar.

Spurt: Þetta er góð síða hjá þér Leó, margt afspyrnugott. Má ég ljósrita og nota á meiraprófsnámskeiði efni af síðunni, ég myndi að sjálfsögðu merkja það síðunni þinni?

Svar: Þér er velkomið að nota efni af síðunni sé það merkt mér eins og vera ber (hins vegar á ég ekki von á því að hið opinbera hafi efni á að borga neitt fyrir slíka notkun - enda flest ókeypis hjá því eins og við þekkjum !).

Spurt: Hverju mælir þú með í meðhöndlun á tærðum 10'' jeppafelgum (ál)
Þær eru orðnar frekar frekknóttar.
Kveðja

Svar: Ég er búinn að reyna ýmsar aðferðir en allar nema ein hafa verið of mikil vinna og/eða ljót áferð. Fljótlegast er að fá rennismið til að renna nýtt yfirborð og lakka það síðan með glæru. Þá hefurðu rétta útlitið sé um állitinn að ræða. Séu þetta silfurbronslitar felgur má bjarga sér með lakkuppleysi, slípun og góðum fylli áður en silfurlitu lakki er sprautað á.

Spurt: Ég hef grun um að þú hafir mikinn áhuga á grúski, og ættir því að hafa gaman að mínum spekuleringum. Þannig er mál með vexti að mér var gefinn Toyota tercel '88 model sem er með mjög heilt og gott boddy. Í honum er vél, keyrð rúm 200 þúsund og farin að slappast, lekur olíu og löngu kominn tími á tímareim ... auk þess að vera kraftlaus og leiðinleg. Þessvegna er ég búinn að finna mér gamlan toy hilux með 2.2 bensínvél og öllu krami, en boddy orðið brúnátu að bráð. Mér datt í hug að skella kraminu um borð í tercel, og hafa hann á 33" dekkjum sem ég á. Þetta er á dagskrá um jólin. Svo datt mér í hug, gaman væri að hafa soldið af alminnilegum krafti, Turbo og jafnvel intercooler væri snilld. Nú er 2.2 vélin náttúrulega með venjulegum blöndungi, og spyr ég þig því, er hægt að fá turboblöndung fyrir svona vél á skikkanlegu verði eða væri vitlaust að setja innspýtinguna af 2.4 vélinni (sem ég á ekki) og turboið þar ofaná? Hvað er best að gera? Núna helduru kannski að ég sé klikkaður og það verði aldrei neitt úr þessu, en í mér býr mikið vesenisgen og smíðaeðli, er sveitamaður og afi var brúarsmiður og pabbi er járnsmiður, og ég því alinn upp á verkstæði, og fékk þá flugu í höfuðið fyrir nokkrum árum að smíða mér bíl, og gerði það! Þar ber helst að nefna scout grind og hásingarnar sem fylgdu henni, kramið er frá ford gamla, merkilega hress og skemmtileg 302 ásamt C4 og dana 20 hlaðið í röð aftan á hana. Stýrið er úr toyotu :-) Þú getur fengið mynd(ir) í næsta bréfi ef þú kærir þig um. En látum þetta duga í bili, gaman væri að vita hvað þú gætir ráðlagt mér með Tercel jeppaspyrnugræjuna mína).

Svar: Kínverskt máltæki segir ,,Jafnvel steinar verða heitir sé setið á þeim nógu lengi": Það er nefnilega allt hægt - sé bara nógu lengi dundað við það. Hins vegar þarf að leysa ýmis vandamál, eins og gengur. T.d. skrúfar maður ekki pústþjöppu á hvaða bensínvél sem er. Ég ráðlegg þér að lesa þér til um forþjöppur, t.d. gætirðu byrjað á grein sem nefnist ,,Um bílvélar, turbo, sjálfskiptingar og fleira" sem þú finnur undir ,,TÆKNIMÁL" á vefsíðunni http://www.leoemm,com

Spurt: Ég hef mikið lesið eftir þig gegn um tíðina og datt þess vegna í hug að leggja fyrir þig spurningu. Er eitthvað vit í því að auka afl túrbó dísel véla með própangasi? Ég er sérstaklega að hugsa þetta útfrá endingu vélarinnar (4.2 toy.95 12ventla).

Svar: Það er vel þekkt að nota prophangas með dísilolíu eða eingöngu sem eldsneyti fyrir dísilvélar. Á vissum stöðum í veröldinni er jarðgas og gas frá olíuvinnslu fáanlegt fyrir lítið verð og þá notað til að drýgja eldsneytiskostnað. Í bandaríkjunum hafa skólarútur með dísilvél verið keyrðar á gasi í áratugi og er það gert til að drega úr loftmengun í þéttbýli. Propangas eykur ekki endingu dísilvélar en getur aukið aflið á svipaðan hátt og hláturgas gerir í bensínvél. Hérlendis er hefur lengi verið okrað á þeim sem nota gas, svo sem sumarbústaðaeigendum. Þegar ég prófaði að keyra bensínbíl á propangasi árið 1978 reyndist það hækka eldsneytiskostnaðinn (miðað við bensín) þrefalt. Án þess að hafa skoðað það sérstaklega þá tel ég að verð á gasi sé hér enn miklu hærra en í nágrannalöndum. Sé svo er ekkert fengið með því að nota það sem eldsneyti á bíla (nema hreinni útblástur) og einna síst á dísilbíla. Ódýrasta aflaukningin í túrbó-dísilvél er millikælir, eða stærri millikælir og stærri lofthreinsari - því kaldara og meira loft sem er til reiðu fyrir pústþjöppuna - því meiru súrefni treður hún inn í brunahólfin - því meira afl næst út úr eldsneytinu með betri bruna.

Spurt: Mig langaði að leita ráða hjá þér. Ég hef verið að velta fyrir mér að kaupa mér jeppa sem er hagkvæmur í rekstri fyrir um 1500 - 1700 þúsund. Spurningin er hvort hagkvæmara er að kaupa dísel eða bensín bíl. Ég hef aldrei átt dísel bíl og keyri kannski um 15 - 20 þús. km. á ári, mest í og úr vinnu. Við erum með lítið fellihýsi sem við komum til með að fara með um landið aftan í bílnum. Ég hef kannski mest verið að spá í Nissan Terrano II, en auðvita kemur Land Cruiser 90 til greina. Þeir eru hins vegar frekar dýrir. Einnig hef ég verið að spá í Rav 4 en hann er kannski í minnst lagi, en sleppur að ég held. Hvað er að þínu mati skynsamast fyrir mig að gera.

Svar: Þú ekur ekki nógu mikið til að dísilbíll borgi sig eins og gjaldamálum er háttað nú (en það breytist á miðju ári 2005 - sjá grein á vefsíðunni minni). Terrano II með bensínvél er of eyðslufrekur. Þar sem fellihýsi telst nú ekki þungt í drætti (miðað við húsvagn) myndi ég telja að þú yrðir mjög sáttur með RAV 4 eða Mitsubishi Outlander báðir eru vel smíðaðir bílar, t.d. sterkbyggðari en Honda CRV. Skoðaðu Outlander - hann er meiri bíll fyrir svipað verð en RAV 4. Bæði RAV4 og Outlander eru með 2ja lítra bensínvélar og því mæli ég ekki með þeim sjálfskiptum eigi að draga vagn- þó er skiptingin í Outlander með handskiptibúnaði sem auðveldar málið.
P.S: Skoðaðu grein um Outlander á vefsíðunni minni (Bílaprófanir).
http://.www.leoemm.com

Aftur á aðalsíðu