Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.

Netfang Leós M. Jónssonar
(Spurningar sem borist hafa frá lesendum Vefsíðu Leós (www.leoemm.com) og Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur hefur svarað með netpósti).

Öll réttindi áskilin.

Spurt: Ég á Ford F150 Pickup af árgerð 1996 sem ég er búinn að vera í miklum vandræðum með út af rafkerfinu. Það byrjaði fyrir nokkrum mánuðum með því að startarinn neitaði að virka, heyrist bara smellur eða klikk þegar reynt var að starta en svo þegar ég hafði beðið um hálftíma startaði hann. Þegar ég kom heim prófaði ég að starta en þá fékk ég hann ekki til að virka. Ég hafði lesið á vefsíðunni þinni að þegar startari hegðar sér svona sé það oft vegna uppeyddra kola. Ég gat fengið nýjan startara á mjög góðu verði í Bílanausti og sló til og skipti. Þá var allt aftur eins og það á að vera í um mánaðartíma en þá kemur það fyrir að startarinn snýr varla vélinni og það var með herkjum að hún fór í gang. Ég fór á verkstæði þar sem rafgeymir og hleðsla voru mæld - hleðslan reyndist í fínu lagi, engin útleiðsla mældist en rúmlega tveggja ára rafgeymir reyndist minna en hálfhlaðinn og var mér sagt að hann væri líklega ónýtur. Ég keypti nýjan geymi og setti í og þá reyndist allt í fínu lagi. Það er hleðslumælir í bílnum og fannst mér hann sýna óvenjumikla hleðslu jafnvel þótt geymirin væri nýr. Nú var bílinn eðlilegur í tæpa viku en einn morguninn í kulda þá neitar hann að starta og ljósin dofnuðu áberandi þegar reynt var að starta eins og nýi geymirin væri tómur - þrátt fyrir að hleðslan væri í fínu lagi! Ég hafði samband við verkstæðið og þeir höfðu enga aðra skýringu en þá að nýi startarinn gæti verið gallaður. Því trúi ég varla og nú er ég stopp - veit ekkert hvað ég á að gera og alveg djöfullegt að geta aldrei treyst því að koma bílnum í gang fari maður eitthvað á honum. Hvað heldur þú að þetta gæti verið sem veldur þessu rafmagnsvandamáli?

Svar: Ég tók sérstaklega eftir því að þú minntist á að þér hefði fundist hleðslan óvenju mikil eftir mælinum eftir að nýi geymirinn var settur í. Mig grunar að það hafi ekkert með geymaskiptin að gera heldur sé það tilviljun að þú tókst eftir þessu. Þrátt fyrir að hleðslan mælist með álagsmæli pólspennu segir það ekki að alternatorinn geti ekki verið bilaður. Líklegasta skýringin á þessu er einmitt að einstreymisdíóða (beinir) í díóðubrúnni í alternatornum sé ónýt þannig að bein útleiðsla sé í gegn um alternatorinn - og það skýri þessa miklu hleðslu og rafmagnsleysið. Líklega hefur 2ja ára rafgeymirinn verið stríheill - við skulum vona að þú sért ekki búinn að farga honum. Ég myndi ráðleggja þér að endurnýja kolin, spennustillinn og díóðubrúna í alternatornum eða kaupa nýjan (hann kostar ekki mikið meira en þessir varahlutir + vinna) sé hann til. Þú ert ekki sá fyrsti sem lætur blekkjast af jákvæðri hleðslumælingu undir þessum kringumstæðum enda er frekar sjaldgæft að alternator bili svona - oftast fer brúin eða kolin og hann hættir að hlaða.

Spurt: Citroen Xantia '95 með vökva fjöðrun, bíllin varð skyndilega þungur í stýri í mestu frostunum hérna í Noregi og hefur lítið batnað þegar hlýnaði, það virkar eins stýrið taki á einn eða annan of seint við boðunum um að hjálpa til .... stillingaratriði?

Svar:
Nokkuð ljóst að það er dælan sem veldur þessu - gæti þurft að strekkja reim, gæti verið leki (vanti vökva á kerfið).


Spurt: Ég á afgasturbinu á MMC Lancer 90´ sem er ekki af mínum bíl og var að spá hvort hægt sé að setja hana á vél með blöndungi og hvað ég þyrfti þá að gera og hvort það væri í lagi að nota propan gas á vélina veit nefnilega um nokkra með þannig búnað, eða er ég klikk?

Svar: Til að hægt sé að nota túrbínu með vélinni þarf að lækka þjöppunarhlutfallið úr ca. 9,5 í 8-8,5 á móti einum - sennilega er einfaldast að gera það með því að fá hedd fyrir turbó. Kveikjubúnaðinum þarf einnig að breyta þannig að kveikjan seinki neistatímanum við inngjöf/snúning í stað þess að flýta honum. Varðandi própangasið þá er hægt að nota það með ákveðnum breytingum en í bensínbíl er nánast ekkert fengið með því nema stóraukinn eldsneytiskostnaður.

Spurt: Er til tölvukerfi sem nota má í fyrirbyggjandi viðhald á bílum (leigubílum) svipað og notað er í dag í skipum og flugvélum?

Svar: Það er örugglega til þótt ég hafi ekki vitneskju um framleiðanda eða söluaðila, t.d. er alveg pottþétt að fyrirtæki sem gera út flota bíla nota tölvuforrit til að halda utan um verkáætlanir og skráningu fyrirbyggjandi viðhalds á bílum þar sem upplýsingar framleiðanda (t.d. úr handbók) um viðhaldsþörf og það sem henni tengist eru frumforsendur.


Spurt: Ég á '92 Isuzu Trooper og fæ hvergi neina varahluti í hann hér. Búinn að hafa samband við IH, Stillingu, Bílanaust o.fl. Hvernig ber maður sig að að kaupa varahluti erlendis frá?

Svar:
Þú getur gert það sjálfur á netinu t.d. með því að leita á Yahoo (Isuzu parts), prófað http://www.rockauto.com eða nýtt þér sérpöntunarþjónustu Þ. Jónssonar - Vélalands (s. 577 4500).

Spurt: Teikningar af húsbílum eru þær til ef svo er hvar er hægt að nálgast þær á netinu.

Svar: Þetta er helst að finna í erlendum tímaritum um húsbíla (Penninn) eða á vefsíðum húsbílaklúbba. Prófaðu Yahoo með leitarlýsingunni Camper's clubs.Húsbílafélagið er með tengil á tenglasafni Vefsíðu Leós.

Spurt: Það er ekki beint um vandamál að ræða Ég sá auglýstan
Opel Vectra diesel 1997 árgerð, ekinn 134 000 km og ásett verð aðeins 790 000. Hafa þessar vélar vont orð á sér, er vitað um einhvern sérstakan galla á þeim eða er önnur ástæða fyrir þessu lága verð

Svar: Þessi Opel Vectra er með 1,7 lítra turbódísilvél frá Isuzu - það er yfirleitt talin ein besta 4ra sílindra dísilvélin á markaðnum, t.d. miklu betri en Opel-dísilvélarnar. Ástæðan fyrir lágu verði getur verið að þetta sé fyrrverandi leigubíll, fordómar eða sú staðreynd að mjög fáir Vectra með þessari dísilvél eru hérlendis, sennilega innan við 5 bílar og varahlutaþjónusta fyrir Opel hefur þótt sérlega slök undanfarin ár.

Spurt: Ég á Cherokee ´97, 2.5L 4 cyl beinsk. Hann er full máttlaus,sérstaklega með felihýsi í eftirdragi. Kunningi minn stakk upp á því að setja turpo í hann. Er það lausnin á vandamálinu, er það hægt, hver myndi gera það og hver er kostnaðurinn?

Svar: Það er allt hægt. Þetta er dýr aðgerð. Þú gætir fengið þetta gert t.d. hjá Þ. Jónssyni - Vélalandi. Í þínum sporum væri miklu hagkvæmara að skipta um bíl.

Spurt: Gætir þú bent mér á gott verkst. sem gæti gert við startara fyrir
mig? Ég er í Reykjavík. Með fyrirfram þökk.

Svar: Bílaraf nú á Strandgötu í Hafnarfirði og Rafstilling í Súðarvogi gera við startarann fyrir þig en þú verður sjálfur að sjá um að taka hann úr og setja aftur í.

Spurt: Corolla 1300 ár.91. varð bensínlaus og gengur illa síðan.Takk fyrir. Nafn : Hrólfur Ragnarsson

Svar: Líklegasta orsökin er að bensínsían hafi fyllst af óhreinindum úr dreggjunum í geyminum auk þess sem vatn getur verið í henni/geyminum. Skiptu um bensínsíuna og settu smáslurk af ísvara saman við bensínið.

Spurt: Heill og sæll, mig vantar einhverjar upplýsingar um hvernig betrumbæta má skáhallandi 6cyl bensínvél í 79 Dodge PowerRam. Hvar hægt væri að fá ,,aftermarket tjúngræjur" í svoleiðis tæki.

Svar: Þú færð allt slíkt dót hjá Clifford Performance Parts í Kaliforníu (Netið) en það fyrirtæki er sérhæft í aflaukandi búnaði fyrir 6 sílindra amerískar vélar. Þú finnur netfang þess á Yahoo.

Spurt: Sæll Leó. Ég er með Benz 500 SEC ´84 og hann er farinn að ganga illa og maður finnur titring inni í bíl og hann er mun kraftminni en hann á að vera. Þetta er ekki vegna kertanna eða kertaþráðanna .. er eitthvað sem þú gætir lagt til málanna? Takk Einar

Svar: Þetta getur verið allur andskotinn og næstum ómögulegt að ráða í þessa gátu án þess að hafa séð/heyrt bílinn/vélina. En ég myndi skjóta á tvennt: Fyrst myndi ég tjékka hvort sprunga gæti verið í kveikjulokinu og nr. 2 myndi ég leita að sogleka, gúmmíslanga í sundur, leki með millihaddspakkningu, leki í inntaksgrein á eftir inngjafarspjaldi, svo nokkuð sé nefnt. Þú finnur sogleka með því að úða bensíni með dælubrúsa yfir búnaðinn með vélina í lausagangi,- breytist gangurinn í henni við það (hraðari lausagangur) er um sogleka að ræða. Hafðu slökkvitæki handbært og farðu varlega.

Spurt: Ég á Daimler Sovereign (Jaguar) og mig vantar að láta einhvern laga hann. það þarf að sandblása og gera við botninn í honum, laga ryð hér og þar og fara yfir allt það helsta. Gætirðu stungið uppá einhverjum sem gæti gert þetta fyrir mig ?

Svar: Í þínum sporum myndi ég snúa mér til Fornbílaklúbbsins því svona verk er ekki sama hverjum er fólgið. Þeir vita um menn sem taka að sér svona verkefni. Vefsíðan er http://www.fornbill.is (sendu ritstjóranum fyrirspurn).

Spurt: Mazda 323 '88 háspennukeflið eyðilegst alltaf. Ef maður lætur nýtt kefli í bílinn þá eyðilegst það eftir um það bil 1-5 mín hvað getur verið að?

Svar: Líklegasta skýringin er sú að þú sért ekki með rétta gerð af háspennukefli fyrir þennan bíl (hápennukefli eru ýmist 12 eða 9 volt eftir því hvort notað er viðnám eða ekki í straumrásinni frá sviss að kefli). Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að þú tengir keflið ranglega - prófaðu með prófunarljósi hvor leiðslan er kraftur frá sviss en hún á að fara á +-pólinn á keflinu.

Spurt: Bens 280 GE 81. boddíhlutir og dísel?

Svar: Félagsskapur Benz-eigenda heldur úti netsíðu http://www.stjarna.is - þeir geta eflaust hjálpað þér að finna seljendur varahluta í Benz-jeppann.

Spurt: Hvernig á að gera vél tilbúna eftir áralanga hvíld áður en hún er sett í gang svo hún skemmist ekki þegar hún fer að snúast?

Svar: Sé vélin mjög verðmæt myndi maður taka hana sundur, liðka upp það sem þarf og setja saman aftur. Annars dugar að setja nýja smurolíu/síu og loftsíu, dæla smáslurk af steinolíu inn í kertagötin og lofa henni að vinna yfir nótt - snafsa svo vélina fyrir gangsetningu og láta hana ekki ganga of hratt á meðan hún er að hitna.

Spurt: Ég á Nissan Maxima ´90, gamlan og fremur lúinn bíl. Nú er svo komið að ég fæ ekki skoðun á bílinn vegna þess að "dempararnir, að framan og aftan, allir fjórir eru ónýtir. Umboðið, segist geta pantað þá en verðið er "óguðlegt" eða kr 50 þúsund krónur stykkið?

Svar: Hentu bílnum.

Spurt: Ég var að spá hvað ég gæti gert til að tjúna upp Opel Astra 1600 '99 1600 16v, er með green "loftsíu" og opið púst, hvað borgar sig að gera og hverju er betur sleppt, t.d. nítró, heit. kamb, þrykkt. stimp. hvað af þessu eyðileggur ekki vélina?

Svar: Þú getur fengið alls konar ,,tjúnunarpakka" fyrir þessa vél. Mest úrvalið er í Bretlandi en þar nefnist bíllinn Vauxhall Astra 1600 16v. Notaðu Yahoo leitarvélina (Astra power kit eða Astra tuning kit). Ef þú treystir þér ekki til að panta þetta sjálfur geturðu leitað til sérpöntunarþjónustu Þ. Jónnsonar - Vélalands.

Spurt. Vantar upplýsingar um 3,3L diesel Nissan vélina

Svar: Þú átt væntanlega við 6 sílindra vélina í Patrol með 3246 rsm slagrými sem kom fyrst í 1982 árgerðinni (SD 33) 95 og 100 hö. Vélin var fáanleg með pústþjöppu frá 1985 (SD 33T)- þá 115 hö. Þessi vél er upphaflega iðnaðarvél (industrial) fyrir loftpressur og vatnsdælur en hefur alltaf verið hálfgerður sleði í bílum.

Spurt: Varðar MMC Pajero turbo disel '91 neðri vatnskassahosa hitnar ekki búinn að skipta um vatnslás virðist ekki breyta neinu.Kveðja GK.

Svar: Það kemur ekki fram hvert sé vandamálið. Ef sýður á vélinni eftir að skipt hefur verið um vatnslás og neðri hosan hitnar ekki er vatnsdælan óvirk eða vatnskassinn stíflaður.

Spurt: Aftur drif + framdrif, sídrif + læsing, eða sídrif + hamla og væntanlega læsing. Er verulegur munur á eyðslu þessara kerfa í daglegri notkun.Er verulegur munur á eyðslu?

Svar: Fjórhjóladrif eykur eyðslu vegna aukins viðnáms. Viðnám í fjórhjóladrifskerfum er minnkað með ,,part-time" drifbúnaði en þá er afturdrif aftengt þegar ekki er þörf fyrir fullt veggrip. Gæði sítengdra fjórhjóladrifsbúnaða eru mjög mismunandi - sum þeirra t.d. í Landa Sport og Range Rover auka eyðslu lítið - sum önnur miklu meira. Seiglæsing (hamla?) eykur veggrip og dregur úr eyðslu. Læsing eykur veggrip í hálku og torfærum og eykur eyðslu.

Spurt: Sæll. Ég á Hondu Civic VTi og er að pæla hvað ég get gert til að fá nokkur auka hestöfl. Hann er orginal 160, en ég er með K&N kraftsíju og er að fara að losa mig við hvarfakútana, en ég var að pæla hvort þú gætir bent mér á einhverjar ódýrar lausnir.

Svar: Ódýrt er afstætt. Ég mæli ekki með því að hvarfakútur sé fjarlægður - það er lögbrot. Það er til í dæminu að ,,power" tölvukubbur gefi þér ódýrustu hestöflin til viðbótar. Það vill svo til að þessi Honda Civic VTi er vinsæll hjá Bretum og mikið til af aflaukningarbúnaði. Prófaðu að nota Yahoo leitarvélina og leitarslóðina power chip.co.uk þá ættirðu að fá vefsíður þeirra fyrirtækja sem selja þennan búnað.

Spurt: Hvernig er ventlabil stillt á Bronco 302 ´74. Hvað get ég gert við ónýta túrbínu í BMW 320i '87 - tími ekki að eyða 500 þús í túrbínusett. Eitthvað sem þú gætir leiðbent mér?

Svar: Séu upphaflegu rokkerarmapinnarnir í heddunum (þrykkt í heddin) er ekki um neina stillingu að ræða heldur eru rærnar hertar í 17-23 ft.lbs. Sérstakt áhald er notað til að mæla bilið eftir þessa herslu og standist það ekki þarf að skipta um undirlyftustangir, setja styttri eða lengri. Varðandi túrbínuna áttu ekki um annað að velja en að reyna að fá hana notaða en það auðveldar málið að hún passar úr nokkrum öðrum þýskum bílum.


Spurt: Hvaða skoðun hefurðu á Militec? Kv. MH

Svar: Ég treysti mér ekki til að gerast dómari varðandi bætiefni - hef ekki skoðun á Militec frekar en öðrum bætiefnum.

Spurt: Sæll. Ég er að setja GM 6.2l ofaní Scout sem ég á, vandamálið sem ég er að fást við er(u) eftrifarandi: Hvaða millikassi passar aftaná GM 700 skiptingu ? Er hægt að nota Dana millikassan? Hvar get ég fengið rafkerfisteikningar af 6.2l ?

Svar: Það fást millistykki til að tengja marga mismunandi millikasa við TH 700 skiptinguna svo sem NP 203, 205 og 208 og 21s og 23ja rillu NP 231. Millibúnaður fyrir Dana 300 er m.a. til hjá fyrirtækjunum Prestige Performance og Advanced Adapters. Verkstæði sem hafa Sun tölvubúnað eða AutoData hugbúnað á Sun- eða Bear-tölvubúnaði geta prentað út rafkerfisteikningu fyrir GM bíla með 6.2ja lítra vél (raflagnir fyrir vélina sjálfa er einungis lítill hluti af kerfinu og það eina sem er flókið er forhitunin).

Spurt: Ég er nýbúinn að láta smyrja bílinn minn en olíumælirinn er á flökti upp og niður, sérstaklega þegar ég í torfærum!

Svar: Hafi þetta flökt ekki verið áður en bíllinn var smurður eru mestar líkur á því að náunginn sem smurði hafi sett of lítið af smurolíu á vélina og að upptökuraninn í pönnunni ,,missi" þegar bíllinn hallar.

 

Aftur á aðalsíðu