Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er samtímis á Ctrl og F og orðið skrifað í gluggann.
Copyright ©: Leó M. Jónsson. Öll réttindi áskilin.

Brotajárn nr. 41
(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda. Myndir og myndatextar í Mbl. eru valdar og samdir af starfsmönnum þess).
Varðandi fyrirsagnir, sem einhverjum kunna að finnast undarlegar án greinarmerkja, þá er það með ráðum gert til að rugla síður leitarvélina.

Leiðrétting: Í síðasta pistli (260) var fjallað um varahluti í Renault (Kangoo) vegna endurnýjunar heddpakkningar. Við samanburð á varahlutaverði urðu þau mistök að borið var saman verð á svokölluðu slípisetti í umboði (28 þús. kr.) og verð á stakri heddpakkningu hjá Kistufelli í Brautarholti (9.435 kr.). Umboðið selur ekki staka heddpakkningu í þessa vél. Slípisett inniheldur allar pakkningar sem þarf til verksins, m.a.heddpakkningu , og því eðlilegt að settið kosti meira en stök heddpakkning. Viðkomandi umboð er beðið afsökunar á þessum mistökum sem leiðréttast hér með. (L.M.J.)

-----------------------------------------------------------
IH með lausn á afturdemparamálnu í Subaru
IH býður nú hefðbundna afturdempara frá Subaru í stað þeirra með hleðslustillingunni. Stykkið kostar 37.000.- og gormurinn 23.000.- stk.

Ekki er þörf á breytingum, hvorki með upphækkunarklossum eða öðru.
Að sögn fyrirtækisins hefur salan strax tekið við sér og greinilegt að margir hafa verið að bíða eftir lausn sem þessari (sem Vefsíða Leós vakti fyrst máls á).

Vélaverkstæðið Kistufell selur samsettar blokkir (kjallara) fyrir Nissan 2.5 Tdi. Þeir eiga reyndar einnig á lager samsetta kjallara fyrir Nissan Patrol ZD30, nýjar pústþjöppur (túrbó) af algengustu gerðum auk þess að auka stöðugt úrval alls konar slithluta í stýris- og undirvagn fólksbíla og jeppa.

Áður en þú kaupir nýja vélar- eða sjálfskiptingartölvu fyrir hundruð þúsunda króna: Oft má gera við bíltölvur (ECU/OBD/TCU/TOD) fyrir brot af því sem ný kostar. Varahlutalagerinn í Kópavogi sendir tölvurnar til Bretlands til viðgerðar. Kynntu þér málið í síma 699 3737 - það gæti sparað þér veruleg útgjöld.

Mælaborð, byggð á rafeindatækni, eiga það til að bila. Þess eru dæmi að mælaeiningin kosti 150-200 þús. kr. hjá viðkomandi bílaumboði. Næstum undantekningarlaust er hægt að fá gert við mælaborð fyrir brot af því sem nýtt kostar. Vaka í Súðarvogi tekur að sér milligöngu um viðgerð á mælaborðum. Vaka annast einnig milligöngu um viðgerð á ABS-tölvum og tölvum fyrir ,,AirBag".


Áður en þúvelur verkstæði til að gera við sjálfskiptingu eða kaupir varahlut í sjálfskiptingu bíl skaltu kanna verðið hjáBifreiðastillingu ehf. (Pétur Oddgeirsson) á Smiðjuvegi í Kópavogi, hjá Jeppasmiðjunni við Selfoss (482 2858)) eða Skiptingu ehf. í Keflavík (421 3773). Það gætir sparað þér 50% af því verði sem bílaumboð setur upp.

KIA Sorento: Gallaðar dieselvélar?
Í brotajárni 34 er fjallað um algenga bilun í Kia Sorento 2.5 CRD. Vélin vill steindrepa á sér fyrirvaralaust. Ein af orsökunum getur verið ótímabær stíflun eldsneytissíu vegna innri húðunar í eldsneytisgeyminum sem dieselolían,l sem seld hefur verið hérlendis undanfarna 18 mánuði, leysir upp (gráar trefjar). Þetta vandamál er í fleiri dieselbílum, t.d. Toyota Hilux. Framleiðandinn, KIA í Kóreu, hefur innkallað Sorento-bíla með 2.5 lítra 170 ha CRDi-dieselvélinni (t.d. af árgerð 2006/2007 í Bretlandi og víðar og látið endurnýja spíssana, sem eru rafknúnir en galli í spíssunum eða þéttingum á þeim mun hafa eyðilagt vélar. (Spíssarnir kosta vel á 2. hundrað þúsund kr. stykkið í umboðinu en 57 þús. kr. hjá Kistufelli). Enginn Sorento-eigandi hérlendis, sem Vefsíða Leós hefur haft samband við, kannast við innköllun (umboðið er Askja). Hins vegar er okkur kunnugt um a.m.k. eina brotna vél (ónýta) hjá Vélaverkstæðinu Kistufelli af árgerð 2006, en í henni var búið að endurnýja pústþjöppukerfið einu sinni (í ábyrgð). Vefsíðan er nú að kanna hvort Kia Sorento með þessar dieselvélar hafi verið innkallaðar á Norðurlöndum en, af einhverjum ástæðum, ekki á Íslandi !

Tímareim eða tímakeðja?
Spurt
: Ég er með 2004 árgerð af Kia Sorento 2.4 Diesel. Hvort er tímakeðja eða tímareim í þessari vél? Er hægt að sjá það á vél hvort hún er með tímareim eða keðju?

Svar:. Diesel-vélarnar (2,4, 2,5 CRDi (170 hö) og 2.0 CRDi eru með tímakeðjur sem á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af, sé allt með felldu. Öruggasta aðferðin til að ganga úr skugga um hvort keðja eða reim knýr kambása er að lesa sig til í viðhaldskafla handbókarinnar, sem fylgir bílnum, eða hafa samband við viðkomandi umboð og fá upplýsingar beint frá þjónustudeild. Tímareimar eru ódýr aðferð við að minnka vélarhljóð. Stundum má sjá á tímagírshlífinni, en hún er á þeim enda vélarinnar sem snýr frá gírkassanum, hvort um reim eða keðju sé að ræða. Hlíf yfir reim er yfirleitt úr plasti en úr málmblöndu yfir keðju.


Chevrolet Yukon: Airbag ljós lýsir stöðugt
Spurt:
Ég á Youkon 1996. Airbag ljósið logar í mælaborðinu. Bíllinn hefur ekki
orðið fyrir neinu hnjaski eða slíku. Varð reyndar rafmagnslaus í haust.
Geturðu ráðlagt mér eitthvað varðandi þetta ? eða þarf ég að láta lesa af
honum ?

Svar: Algengasta ástæða þess að Airbag-ljósið lýsir án þess að nokkuð hafi komið fyrir bílinn er sambandsleysi í bílbeltalás bílstjórastólsins. Aftengdu rafgeyminn, bíddu í 5 mín: Skoðaðu rafleiðslurnar undir stólnum. Sé ekkert að þeim skaltu úða rækilega með Electrical Connection Cleaner (Fæst hjá Poulsen) í lásinn, bíða 2 mínútur og blása svo úr honum drullunni með þrýstilofti. Ástæða er til að benda á að ljósið fyrir beltislásinn kemur ekki þessu Airbag-ljósi við. Það er beltastrekkjarinn (sem tengist lásnum) sem slekkur Airbag-ljósið en strekkjarinn færist fram og aftur með stólnum. Straumleiðsla gæti því verið rofin þess vegna. Annað: Verði eitthvað af rofunum í stýrishjólinu óvirkir um svipað leyti getur leiðslupúðinn (Clock-spring) í stýrismiðjunni verið ónýtur. Þá eru eftir Airbag-tölvan og flóttaaflsneminn fyrir kerfið í framstykkinu fyrir framan vatnskassann. Í því tilviki er árangursríkast að láta tölvulesa kerfið.

SsangYong Kyron: Sjálfskipting í rugli
Spurt:
Er með 2006 árgerð af sjálfskiptum Kyron 2ja lítra CRDi. Skiptingin hefur verið að versna undanfarna mánuði og er nú komin í algjört rugl þannig að bíllinn er ónothæfur. Ég er úti á landi og því fylgir mikill kostnaður að flytja bílinn á vagni til Reykjavíkur. Umboðsverkstæðið næst mér er búið að fá lánaða tölvu frá umboðinu í Rvk. og hefur auk þess verið í stöðugu sambandi við umboðið (BB) en ekkert hefur komið út úr því nema kostnaður. Eru þessar sjálfskiptingar einhverjir gallagripir? Getur þú aðstoðað okkur í þessu máli?

Svar: Það er ekkert að þessum sjálfskiptingum í SsangYong. Hins vegar veldur ófullnægjandi frágangur rafleiðslna og helv. íslenska undirvagnsdrullið (sem eyðileggur alla jeppa á 10 árum) því að nánast ómögulegt er að rekja rafleiðslur frá skiptingunni (hraðanemanum) og upp í vélarrýmið. Byrjaðu á því að þrífa drulluna rækilega af undirvagningum umhverfis skiptinguna. Rektu síðan rafleiðslurnar þar til þú finnur hvar þær nuddast saman eða hafa skorist og ná jarðsambandi við hreyfingu eða samslætti. Þegar þú hefur gert við þetta og varið leiðslurnar með góðu ídragi mun skiptingin vinna eðlilega.

SsangYong Kyron: Drepur á sér í tíma og ótíma
Spurt:
Ég er með 2007 árgerð af Kyron Diesel. Hann er búinn að fara inn og út af verkstæði umboðsins í Rvk. undanfarin tæp 2 ár vegna galla sem lýsir sér þannig að hann steindrepur á sér á ferð án nokkurs fyrirvara. Vegna þess að hann er sjálfskiptur er maður á nálum með að setja skiptinguna í N til að starta, en oftast fer hann fljótlega aftur í gang. (Fyrir bragðið neitar konan mín að aka bílnum). Búið er að reyna flest sem mönnum hefur dottið í hug en allt án árangurs - einungis tafir og kostnaður. Ég er orðinn, vægast sagt þreyttur á þessu. Hvað gætir þú ímyndað þér að valdi þessu?

Svar: Lestu svarið hér fyrir ofan til Kyron-eigandans sem var að vandræðast með sjálfskiptinguna (sem nú er komin í lag). Einu vandræðin með þessa Kyron-jeppann er lélegur frágangur á ýmsum hlutum í rafkerfi (t.d. leiðslum) og þessi íslenska svarta drulla sem makað er á botn bílanna - einungis til óþurftar. Ástæða þess að vélin stöðvast er að öllum líkindum losaralega frágengnar rafleiðslur í vélarrými eða milli vélar og skiptingar sem hafa nuddast þannig að þær ná jarðsaambandi við hreyfingu, t.d. þegar farið er yfir hraðahindranir. Þrífðu sem mest af drullunni þannig að hægt sé að skoða og rekja allar leiðslur, kanna hvort þær séu í sundur, skemmdar eða lausar. Þetta þarf að gera mjög skipulega og getur tekið tíma. Settu ídragshlífar á allar leiðslur sem geta nuddast og festu þeim tryggilega með strekkjum.

Ford Winstar: Hnökrar í skiptingu
Spurt:
Ég er með gamlan (1997) en ágætan amerískan 7 sæta Ford Winstar með 3.8 lítra V6-vélinni og sjálfskiptingu (framdrif). Vélin er í fínu lagi en skiptingin , sem var endurbyggð fyrir 20 þús. km. af fagmanni, er alltaf í rugli öðru hverju; tekur ekki gíra, skiptir sér óreglulega, hlunkast í gír, skiptir niður fyrirvaralaust: Til að ger langa sögu stutta; þá er hún gjörsamlega ómöguleg. Ég er búinn að fá alls konar ábendingar frá bílvirkjum sem telja sig þekkja þessa bilun og flestir eru á því að bilunin sé í rafseglullokum í ventlaboxinu. Mér kæmi ekki á óvart þótt þú þekktir þessar Ford-sjálfskiptingar. Er eitthvað sem þú getur aðstoðað mig við? Öll aðstoð væri vel þegin því þessi bíll er orðinn of gamall fyrir meiriháttar viðgerðir.

PS. Mér var m.a. bent á að sams konar bilun væri algeng í nýlegum Ford Galaxy og stundum mætti lagfæra hana með því að endurnýja einhvern ,,skiptipung."

Svar: Við skulum ekki blanda saman amerískum Ford Winstar sem er framleiddur í Bandaríkjunum fyrir þarlendan markað, og reynst hefur afburða vel, og þessu evrópska Ford-drasli, Galaxy, sem er, af mörgum, talinn einn lélegasti bíllinn á evrópska markaðnum (ásamt nýju VW-bjöllunni). Þetta er, að sjálfsögðu, mín persónulega skoðun. En tökum Galaxy fyrir seinna.
Ég tel mig kannast við þessa bilun eða hnökra sem þú ert að glíma við í Winstar. Frá því fyrsti Winstar kom (1996) og líklega fram yfir árgerð 2000 var hann með hraðamælisdrif í mælaborðinu sem var einhvers konar blanda af rafknúnu og rafeindaknúnum búnaði.Það þýðir m.a. að í skiptingunni er rafeindanemi (speed sensor) og jafnframt hraðamælisbarki. Rafeinda-hraðaneminn í skiptingunni (en hann er utan á henni) gegnir lykilhlutverki sem stýribreyta fyrir gírskiptingar. Þegar þetta stykki bilar (speed sensor, kostar um 16 dollara hjá varahlutasölum í USA) ruglast niðurgírunarforrit skiptingarinnar. Það tekur um klst. að endurnýja þetta stykki og þá máttu búast við að skiptingin breytist aftur í þessa nákvæmu, mjúku og hljóðlátu sem einkennir vel heppnaðar amerískar skiptingar.
En nú að Galaxy-draslinu: Ford Galaxy hefur verið morandi í hönnunargöllum frá upphafi. Eins og títt er um evrópskar sjálfskiptingar í ódýrari bílum er sjálfskiptingin í Galaxy (en hún er sú sama og í Ford Focus) lélegt drasl sem endist yfirleitt ekki 100 þús. km. án dýrra viðgerða. Algeng bilun í Galaxy lýsir sér á svipaðan hátt og þessi bilun sem þú hefur verið að glíma við í Winstar. Stundum er ástæðan bilaður hraðanemi (speed sensor). Hann er hins vegar af annarri gerð en í eldri Winstar-skiptingunum því hann er einungis refeindastýrður (enginn barki) - og að sjálfsögðu miklu dýrari þótt hann sé svipaður að stærð og álíka langan tíma taki að endurnyja hann. Og hraðanemanum í Galaxy skyldi ekki blanda saman við annað stykki, sem einnig er utan á skiptingunni, og getur valdið svipuðu rugli en það ,,Electronic Gear Selector" og tengist gírvalsstönginni.

265
ESP-takkinn
Spurt:
Ég á Suzuki Grand Vitara Lux V6. Í borðinu er takki, sem á stendur ESP OFF. Ég hef ekki getað fundið út hvaða hlutverki þessi takki gegnir?

Svar: ESP = Electronic Stability Program er sjálfvirkt tölvustýrt stöðugleikakerfi. Þessi öryggisbúnaður notar breytur frá ABS-hjólnemum (en þeir mæla snúningshraða hjóla) , flóttaafls- og hallanemum, hraðanema, inngjafarstöðunema o.fl. til að taka í taumana, t.d. þegar bíllinn byrjar að skrika til hliðar vegna hálku eða þegar bíll er á mörkum þess að vera undir- eða yfirstýrður, t.d. við að farið er of hratt í beygju, t.d. á malarvegi, þ.e.a.s. um það bil að missa veggrip. Kerfið beitir ABS-bremsunum og rafknúnu aflstýrinu til að rétta kúrsinn: Bílstjórinn finnur greinilega hreyfingu stýrishjólsins (sé um rafstýri að ræða) sem ekki er af hans völdum. Með takkanum geturðu aftengt þetta kerfi - sem getur stundum verið nauðsynlegt við sérstakar aðstæður, ekki síst sé spólvörn innifalin í kerfinu).

Saab 9-3: Kælivökvi
Spurt:
Ég á Saab 9 3. Í handbókinni eru talin upp fjölmörg atriði, sem á að fara yfir eftir vissan tíma. En hvergi er minnst á að skipta eigi um frostlög, bara að bæta á eftir þörf. Hvergi er minnst á hvernig tappa eigi kælivökvanum af kerfinu. Á ekki við um þessa bíla, eins og flesta eða alla bíla, að þetta sé gert á um 3ja árafresti? Allt sem sagt er um frostlög í þessari bók, er að aðeins skuli notaður Saab-frostlögur blandaður til helminga með vatni og kúturinn sé hálfur þegar vél er köld og bætt á þegar yfirborðið fer niður fyrir hálfan kút. Þetta finnst mér ansi snubbóttar upplýsingar, en geta þær verið réttar?

Svar: Þessi Saab er einn þeirra bíla sem aldrei á að þurfa að endurnýja kælivökvann á og gildir það um alla bíla frá GM í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Hvort menn treysta því eða ekki er undir hverjum og einum komið (ég geri það ekki). Kælikerfi er auðvelt að skola út með því að aftengja hosur. Betur búnar smurstöðvar hafa tæki til að tæma, fylla á og lofta kælikerfi. Flestar vélar eru með hedd úr áli. Súrni kælivökvi, en það vill hann gera með aldri, getur hann valdið tæringu og leka með heddpakkningu = dýrri viðgerð. Kælivökvi kostar ekki mikið og því ekki ástæða til að taka áhættu í þessu efni. Bendi á að hjá Poulsen fæst Valvoline-kælivökvi á hagstæðu verði sem er með 5 ára tæringarvörn.

Nissan Patrol: Steindauður
Spurt:
Er með Patrol 2000 árg. Hann dó skyndilega eins og kippt úr sambandi. Er einhver pungur á olíuverkinu fyrir ádreparann? Eða dettur þér eitthvað annað í hug? Búinn að ath. öll öryggi, prófaði að losa spíss og dæla upp en fékk ekki neitt. Ég fæ olíu í gegnum síu. Er þetta þá segullokinn sem er að stríða mér?

Svar: Það er rafsegulloki á olíuverkinu sem opnar og lokar fyrir streymi. Byrjaðu á að athuga hvort eldsneyti berist frá síunni í gegn um (fæðidælan) rafsegullokann þegar straumi er hleypt á hann. Opni lokinn ekki fær spíss ekki eldsneyti. Þeir sem þekkja þessi kerfi byrja á því að mæla hvort straumur skilar sér til rafsegullokans - ef ekki hvort öryggið fyrir rafsegullokann og straumlokan séu í lagi (straumlokan á að vera í kassa á vinstra innra brettinu (merkt Injection control).

ÁBENDING: KEÐJURNAR ERU GLEYMDAR
Nú teljast snjódekk sjálfsagður hlutur og leitun mun vera að almennum bíleiganda í þéttbýli sem á snjókeðjur og jafnvel þótt hann ætti þær myndi hann hugsa sig um tvisvar áður en hann setti þær undir. Nú eru 6 ártugir síðan Emanúel Morthens sem þá rak Barðann hf. byrjaði að sóla dekk með snjógripi. Fáir trúðu því að snjódekkin myndu leysa keðjurnar af hólmi. Það breyttist eftir að strætisvagnar á snjódekkjum sýndu akstur upp snævi þakta skíðabrekku á Ártúnshöfða veturinn 1955
.

264
Toyota RA-V: Rokkandi lausagangur
Spurt:
Bifreiðin er Toyota Ra-V árg. '01 bensín. Við gangsetningu í köldu röku veðri sveiflast lausagangurinn en jafnar sig eftir að vélin hefur hitnað. Kerti eiga að vera í lagi. Er þetta eitthvert skynjara vandamál?

Svar: Í Toyota geta svona sveiflur í lausagangi stafað af því að kælivökva vanti á kerfið - þá gengur skynjari í vatnsganginum þurr með þessum afleiðingum.
Sveiflukenndur lausagangur getur bent til sogleka. Rektu allar slöngur sem þú sérð, grannar sem sverar (athugaðu sérstaklega bremsukútinn), kannaðu hvort soggreinin geti verið laus og hvort öndunarkerfið á vélinni sé þétt og virkt. Ástæða getur verið til að endurnýja bensínsíu sé hún ekki nýleg.
Gangtruflanir í röku lofti geta verið vísbending um lélega kertaþræði.
Vanti þig aðstoð við að finna þessa bilun - án þess að hún kosti ,,augun úr" - færðu hana hjá Olís-smurstöðinni í Sætúni 4.

VW Golf 1400 '98: Ónýt vél?
Spurt:
Vélin brenndi ventil, reykti mikið og komu reykský úr útblæstri við inngjöf. Skipt var um ventilinn. Eftir 1000 km brenndi hann aftur ventil og þá var farið að athuga þetta betur og kenndi ég óþéttum stimpilhringjum um. Nú hefur bílnum verið ekið 400 km og á þeim speli brenndi vélin 3 lítrum af smurolíu. Hvað getur orsakað þetta? Nýir hringir, nýjar ventlaþéttingar nýslípaðir ventlar og samt hverfur af honum olían? Getur einhver sogbúnaður valdið þessu?
2) Hefur heyrt að heddpakkningar í LandCruiser 80 með 4,2 gefi sig oft?


Svar: Gefum okkur að vélin sé rétt sett saman. Á þessari vél er öndun með hringrásarkerfi og einstefnuloka. Óhreint gas, sem myndast í sveifar- og ventilhúsi, á að sogast inn í brunahólfin og brenna (mengunarvörn sem nefnist PCV = Positive Crankcase Ventilation). Á milli sveifarhúss og soggreinar er einstefnuloki (PCV-loki) og í honum kúla sem á að hringla laus til merkis um að lokinn sé opinn í aðra áttina. Þegar þessi loki eða lagnir að/frá honum stíflast safnast upp froða, tjara og skúm innan í vélinni sem teppir smurolíurásir, jafnvel að því marki að vélin yfirhitnar, smurolía þrýstist út með samskeytum o.fl. Upptökusía smurdælunnar getur teppst. Afleiðingin getur orðið slit þannig að bora þarf blokkina eða endurnýja. Ástæða endurtekinnar eyðileggingar ventils getur verið bilun í innsprautukerfi (of þunn blanda), t.d. ónýtur spíss eða leki með soggrein. Eðlileg smurolíunotkun er 1 lítri á 1500-2500 km.
Varðandi Toyota LC80 4.2: Heddpakkning í turbo-diesel-vélum, með blokk og hedd úr álblöndu, er yfirleitt til friðs sé kælivökvi endurnýjaður reglulega á 2-3 ára fresti, einnota-heddboltar hertir á réttan hátt og í réttri röð.

Hyundai SantaFe EGR-vandamál
Spurt:
Ég á Hyunday SantaFe Diesel Lux (keyptur nýr í nóv. 2006). Í vor fór að bera á gangtruflunum og þurfti að hreinsa og liðka upp ERG-loka. Nú í október fór vélin ekki í gang. Þá kom í ljós að þessi loki stóð aftur opinn. Hann var hreinsaður aftur og allt í lagi með bílinn núna. Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir svona bilun?

Svar: EGR = Exhaust Gas Recirculation er tölvustýrt hringrásarkerfi tilheyrandi eldsneytis- og mengunarvarnarkerfi vélarinnar. Kerfið beinir hluta afgassins aftur inn í brunahólfin við ákveðnar aðstæður (hitastig, álag, sn. hraði). Súrefnissnautt afgasið þynnir blönduna; brunahitinn lækkar um 15-20 °C sem breytir efnahvörfum. Við það myndast minna af nituroxíðum í útblæstrinum (NOx) - en auk þess að vera gróðurhúsalofttegund eru nituroxíð eitruð og valda m.a. súru regni sem eyðir skógum t.d. í Bandaríkjunum. (Nituroxíð eru hluti af hættulegri loftmengun sem myndast í miðborg Rvk (rauðgula skýið á vetrum).

EGR-hringrásarkerfinu stjórnar sjálfvirkur keiluloki, ýmist raf- eða sogstýrður. EGR-lokinn á að haldast þéttur á meðan vélin er að ná vinnsluhita. EGR-rásin á ekki að virka (opna) fyrr en við ákveðið hitastig og inngjöf/álag. Festist þessi loki er það næstum undantekningarlaust vegna óeðlilegrar sótmyndunar. Orsök hennar getur verið vegna lélegra spíssa, ójafnrar þjöppunar (lekur upp með spíssum), mengaðs eldsneytis. Algengur fylgifiskur þessa ástands er óeðlileg sótmyndun í millikæli og pústþjöppu. Fremur sjaldgæft er að EGR-lokann megi ekki liðka sé það gert af kunnáttu. Myndi ráðleggja þér að láta skoða þetta hjá Framtaki/Blossa í Garðabæ (sértu á Rvk.-svæðinu).

ÁBENDING: GÓÐ KAUP Í BFGoodrich G-Force
Valdi ný ónegld vetrardekk frá BFGoodrich, 195 65-15, til að prófa undir Daewoo Nubira Station. Frábært grip, rásfesta, hljóðlát, lítið vegviðnám (léttur í stýri). Gangurinn kostar 6 þús. kr. minna en negld snjódekk og 14 þús. kr. minna en harðskeljadekk.

263
Mazda 5: Lélegir demparar
Spurt
: Mig langar að vita hvort að þú þekkir til lélegra upprunalegra afturdempara Mözdu 5? Í mínum Mazda 5 hafa afturdempararnir verið til vandræða nánast frá upphafi; - byrjar með leka, jafnvel eftir 35 þús. km og eyðileggjast skömmu seinna. Aðrir eigendur sem ég hef haft samband við hafa sömu sögu að segja. Í mínum bíl entist fyrsta settið 50 þús. km. Verðið á dempurunum í umboðinu og vinnan nemur upphæðum sem þola vart dagsljós þrátt fyrir að lesa megi í fjölmiðlum að skattgreiðendur hafi tekið á sig um 4000 milljónir af skuldum Brimborgar.

Svar: (Bendi á að Brimborg er ekki eina bílaumboðið, sem skriðið hefur undir pilsfald ríkisins með ómældum útgjöldum fyrir skattgreiðendur. Þar á meðal eru Toyota-umboðið, Hekla, Ingvar Helgason o.fl.).
Mér kæmi ekki á óvart þótt það hafa farið framhjá ,,sérfræðingum" umboðsins að þetta telst bótaskyldur galli hjá Mazda í Bandaríkjunum, Kanada og víðar (gúgglaðu eftirfarandi tengil: Mazda5 Suspension Issues [Archive] - RedFlagDeals.com Forums Mér kæmi ekki á óvart þótt svarið frá umboðinu sé stöðluð klausa á borð við að ,,demparar séu undanþegnir ábyrgð" á sama hátt og bremsuklossar, púströr o.fl. Hins vegar hafa klárir bílvirkjar með reynslu breytt þessum búnaði (í Mazda 5, Subaru Forester o.fl.) með því að setja hefðbundna dempara ásamt stinnari gormum að aftan í stað þessara með ónýtu sjálfvirku hleðslustillingunni. Prófaðu að tala við Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur um málið.

Nissan X-Trail: Miðstöðvarviðnám
Spurt:
Ég á nokkurra ára gamlan Nissan X-Trail-jeppling. Fyrir skömmu hætti miðstöðin að blása. Á verkstæði var mér sagt að líklega væri viðnám sem stýrði hraða blásarans ónýtt, en þetta er lítið stykki á stærð við kexköku. Í umboðinu kostaði þessi varahlutur 38 þúsund kr. (sem ég á ekki til). Er einhver önnur ódýrari leið til að laga miðstöðina?

Svar: Það vill svo til. Þetta viðnám er með einfaldari stykkjum í rafeindabúnaði sem rafeindavirkjar (útvarpsvirkjar) eru alla daga að fást við. Sennileg er bilunin ekki merkilegri en að bræðivar (öryggi) á prentrásarplötunni hefur brunnið. Farðu með stykkið í Nesradíó í Síðumúla og talaðu við Guðmund (þú getur skoðað allt það flottasta í bíltækjum á meðan hann kippir þessu í lag - fyrir lítilræði).

,,Heitari" og ,,kaldari" kerti
Spurt:
Hverju breytti það fyrir minn Subaru Legacy, sem ekið er daglega styttri vegalengd til og frá vinnu (oft í lest), að skipta yfir í kerti með aðra hitatölu en þá sem gefin er upp fyrir vélina?

Svar: Mismunandi hönnun skauts/nagla ræður því hve auðveldlega kerti brennir af sér sóti. Sú hitatala, sem bílaframleiðandi velur, er málamiðlun sem hentar flestum aðstæðum. Því eru kerti iðulega of köld fyrir okkar aðstæður t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem mörgum bílum er ekið stuttar vegalengdir kvölds og morgna, jafnvel lestargang; vélin nær sjaldan fullum vinnsluhita né snúningi yfir 3000 sn/mín. Með því að velja heitari kerti við þessar aðstæður, t.d. einu númeri heitari en upp er gefið í vörulista - geta þau hreinsað þau sig betur, neistinn verður sterkari og eyðslan minnkar. Flestir kertaframleiðendur nota hækkandi númer fyrir hitatöluna nema NGK - þar er heitara kerti með lægri tölu en kalt kerti.

ÁBENDING: HAGKVÆMARI KAUP Á SJÁLFSKIPTIVÖKVA
Sum bílaumboð skilyrða verksmiðjuábyrgð við tegund sjálfskiptivökva og brjóta þannig gegn gildandi lögum um réttmæta viðskiptahætti (BER-reglugerð). Krefjast má þess að vökvinn uppfylla ákveðinn alþjóðlegan gæðastaðal en umboði er ekki heimilt að skilyrða verksmiðjuábyrgð við ákveðna tegund vökva, sía, reima, kerta eða annarra rekstrarvara (vörumerkja) á alþjóðlegum markaði. (Sem dæmi eru allar síur merktar Toyota á markaði í NV-Evrópu framleiddar af FRAM í Cardiff í Wales. Valvoline (Poulsen) framleiðir sérhæfðan glussa/sjálfskiptivökva fyrir alla bíla og vinnuvélar í Bandaríkjunum og Evrópu. Notkun Valvoline hefur engin áhrif á ábyrgðarskilmála nýlegra bíla, hvort sem um er að ræða Porsche, VW, BMW, Ford eða Audi. Þú getur sparað þér 40-50 þús. kr. með því að láta endurnýja sjálfskiptivökva hjá sérhæfðri viðurkenndri sjálfskiptingarþjónustu með viðeigandi gerð af Valvoline. Stimpill í þjónustubók frá Skiptingu í iKeflavík, Bifreiðaskoðun e.h.f. Jeppasmiðjunni e.h.f. er jafngildur stimpli umboðsins. Enda skal bent á að ekkert bílaumboð er með sérhæfða sjálfskiptingarþjónustu, hvorki starfsfólk né aðstöðu, þar er einungis þjálfun í því að setja skiptingar saman úr endurbyggðum einingum auk smurþjónustu.

Á maður að sleppa nöglunum?
Spurt:
Þú hefur verið að prófa dekk undanfarin ár eins og lesa má á www.leoemm.com Mundir þú mæla með Toyo harðskeljadekkjum frekar en negldum snjódekkjum hér á höfuðborgarsvæðinu?

Svar: Mér hefur ekki tekist að prófa margar tegundir dekkja því það er seinlegt eins og gefur að skilja. Harðskeljadekkin frá Toyo eru af 4 mismunandi gerðum. Fyrir fólksbíla eru Garit G4 og Garit KX. Ég hef prófað báðar gerðirnar og get mælt með Garit KX. Perónulega myndi ég ekki vilja hafa þessi dekk negld. Til að viðhalda gripinu sem bestu borgar sig að þrífa sólann með terpentínu öðru hverju. Naglar fara illa með sóla dekkja, þeir missa hluta gripsins fljótlega, þyngja dekk sem því eru oftar ójafnvægð; þola illa hraða yfir 90 km/klst og endast því skemur en ónegld vetrardekk auk rykmengunarinnar.
Fyrir stærri bíla eru harðskeljadekkin af 2 gerðum, annars vegar Tranpath S1 og hins vegar G02. Ég hef prófað Tranpath með góðum árangri (nota þau reyndar allan ársins hring undir pallbíl). Gripið hefur aldrei svikið. Mér dytti ekki í hug að nota negld snjódekk, a.m.k. ekki hér á suðvestur-horninu. Tranpath eru einstaklega mjúk , hljóðlát og rásfesta áberandi. Þau grípa vel í hálku og snjógrip er meira en ætla mætti í fljótu bragði. Endingu áætla ég a.m.k. 60 þús. km. Séu Toyo Tranpath undir jeppum eða pallbílum þarf að hafa í huga að þau eru ekki torfærudekk; hliðarnar eru með þunnu tvöföldu strigalagi og því auðvelt að rífa þær á hvössum hraunnibbum.

Útskeifir Pajero
Spurning: Hvers vegna eru eða virðast "flestir" Pajero jeppar í umferðinni vera "útskeifir?". Sé ekki aðra bíla á götunum sem eru með slíka stöðu á dekkjunum?

Svar: Pajero er með klafafjöðrun að framan og sítengt aldrif sem veldur því að framhjólin þvingast inn á við að framan við átak. Rétt stilling er um 1° útskeift (Toe-out) sem breytist í 0°á ferð.

Chrysler: Magnum eða Hemi?
Spurt:
Hver er munurinn á Magnum-vél og Hemi-vél (í Chrysler-bíl)?

Svar: Um er að ræða tvenns konar hedd. Magnum (Chrysler-vöruheiti) sem er af hefðbundinni gerð með kertið skáhallt í hlið brunahólfsins. Hemi (stytting á Hemisperical, byggingarheiti) er með kertið efst í toppi hálfkúlulaga brunahólfs. Hemi-hedd þolir meiri snúningshraða/ hita án þess að miskveikjun myndist. Hemi-hedd = fleiri hestöfl.

ÁBENDING: SPORTFELGUR VILJA LOSNA
Sportfelgur úr léttmálmsblöndu þenjast við að hitna (þess vegna þarf að yfirfara herslu felgubolta með reglulegu millibili). Nú þegar kólnar getur losnað um felgubolta og vissara að fara yfir þá með útdraganlegum felgulykli eins og fæst á bensínstöðvum.

261
Leiðrétting: Í síðasta pistli var fjallað um varahluti í Renault (Kangoo) vegna endurnýjunar heddpakkningar. Við samanburð á varahlutaverði urðu þau mistök að borið var saman verð á svokölluðu slípisetti í umboði (28 þús. kr.) og verð á stakri heddpakkningu hjá Kistufelli í Brautarholti (9.435 kr.). Umboðið selur ekki staka heddpakkningu í þessa vél. Slípisett inniheldur allar pakkningar sem þarf til verksins, m.a.heddpakkningu , og því eðlilegt að settið kosti meira en stök heddpakkning. Viðkomandi umboð er beðið afsökunar á þessum mistökum sem leiðréttast hér með.

Toyota: Þegar lykillinn bregst
Spurt:
Ég er með Toyota LandCruiser. Í morgun gerðist það, þegar lykillinn var kominn í kveikjulásinn, heyrðist smellur og snúa mátti lyklinum án þess að nokkuð gerðist - eins og eitthvað hefði brotnað í lásnum. Hvað er það sem hefur gerst, get ég sloppið við flutning bílsins á palli á verkstæði? Hvernig er best að snúa sér í málinu?

Svar: Þetta er þekkt bilun, einkum í LandCruiser 100. Pinni, sem gengur niður í svissbotninn þegar lyklinum er stungið í lásinn, brotnar. Skipta þarf um kveikjulásinn, m.a. höggva sundur bolta sem eiga að torvelda þjófnað. Þetta er verkefni fyrir sérhæft Toyota-þjónustuverkstæði (ég efast um að lyklasmiðir ráði við þetta dæmi - en þú getur prófað hvort Neyðarþjónustan getur komið bílnum í gang þannig að aka megi á verkstæði). Algengast er að bíll sé fluttur á vagni og getur því kostnaður af þessari bilun verið talsverður.

Enn um hvarfakúta
Öðru hverju er kvartað undan takmarkaðri endingu hvarfakúta sem geta verið mjög dýrir. Þegar um er að ræða bíl með dieselvél (en hvarfakútar eiga að vera í þeim frá og með árgerð 2005/2006) er ástæðan oft sú að notuð hefur verið steinolía, jafnvel blönduð smurolíu, sem eldsneyti í stað dieselolíu. Steinolían, sem er þotueldsneyti (Jet Fuel Class A) og nefnist ,,fotogen" í Skandinavíu þar sem hún er notuð til að hita upp sumarhús og gufuböð, inniheldur margfalt magn brennisteins á við dieselolíu. Brennisteinninn eyðileggur þann búnað hvarfans sem viðheldur efnahvörfum og girðir fyrir mengun. Steinolíu skyldi því ekki nota á yngri dieselbíla en 2004.
Þá hefur verið kvartað undan skammri endingu hvarfakúta í ákveðnum tegundum bensínbíla og geipiverði á þeim í viðkomandi umboði. Hvarfakútar eru misjafnir að gæðum eins og gengur. Áður en nýr hvarfi er keyptur háu verði í umboði borgar sig að spyrjast fyrir um verð hjá sérhæfðum pústverkstæðum, t.d. hjá BJB-pústþjónustunni í Hafnarfirði, Þess eru dæmi að fengist hafi vandaðri hvarfar hjá þeim fyrir 1/3 af uppgefnu verði umboðs.

Nýju Diesel-kerfin: Forvörn
Helsti kosturinn við nýrri diesel-kerfi (CRDi = Common Rail Direct injecion), sem eru án olíuverks og með rafknúnum spíssum á svokallaðri forðagrein, er m.a. sá að snúningshraði vélarinnar hefur engin áhrif á ýrun spíssanna. Viðbragð við inngjöf verður betra, eldsneytið nýtist betur, svo nokkuð sé nefnt. Þetta kerfi byggist á háþrýstidælu og gríðarlegum þrýstingi og honum fylgir varmamyndun. Þess vegna er búnaðurinn kældur með stöðugu gegnumstreymi eldsneytis. Sé lítið eftir í geyminum hitnar eldsneytið - jafnvel að því marki að búnaðurinn hitni umfram það sem æskilegt er. Því er það ákveðin forvörn að hafa eldsneytisgeyminn að jafnaði hálfan eða gott betur. (Tæmist geymirinn getur viðkomandi lent í vondum málum).

ÁBENDING: Dýr dropi
Í lyfjabúð kostar 100 ml glas af isoprópanóli (sem nota má sem rakaeyði fyrir bensín) um 800 kr. án vsk. Lítrinn kostar því rúmlega 10 þús. kr. með vaski (25,5%). Það getur því borgað sig að kanna verð á ísvara/rakaeyði á næstu bensínstöð eða í bílabúð!

260
Hyundai Terracan 2.9 CRDi: Kraftleysi
Spurt: Hyundai Terracan árg.'03, ekinn um 220.000 km og hefur verið án vandræða utan þess að skipt var um spíssa fyrir um ári síðan. Nú nýverið fór ég að taka eftir hækkandi túrbínuhvin sem stóð í nokkra daga en síðan gerðist það að það hljóð hætti en því fylgdi að túrbínan hætti að gefa þrýsting þannig að við inngjöf og álag er útblásturinn svartur reykur. Búið er að yfirfara túrbínuna og allt sem henni viðkemur án þess að bilun finnist.

Svar: Af lýsingu að dæma er eitthvað sem kemur í veg fyrir að pústþjappan (túrbínan) skili aflaukningu. Það getur verið óvirk stýring tölvunnar á framhjáhlaupsgáttinni eða þrýstingsfall (leki) sem kemur í veg fyrir forþjöppun. (Við nánari skoðun reyndust 3 boltar í soggreininni horfnir (höfðu tærst upp) og soggreinin því laus á heddinu og leki með pakkningunni).

Toyota Hilux 2.5 CRD: Hik og skrítið eldsneyti
Spurt: Ég er með Hilux Diesel árg. '05. Hann er ekinn um 210 þusund og er 35" breyttur. Í vor kviknaði og slokknaði bilunarljósið nokkrum sinnum og lýsti svo öðru hverju, t.d. léti ég vélina toga aðeins t.d eftir að hafa tekið beygju í of háum gír en þá dró niður í vélinni sem snérist ekki hraðar en 1800 sn. Vélartölvan var kóðalesin á Toyota-verkstæði. Mér var sagt að þetta hefði eitthvað að gera með eldsneytiskerfið. Eldsneytissían var endurnýjuð og sögð hafa verið mjög óhrein sem er skrítið því hún var nánast ný. ,,Viðgerðin" entist ekki nema örfáa km en þá byrjaði ballið á nýtt. Eyðsla er óbreytt en útblástur sótmettaður. Jafnframt hef ég tekið eftir flögum í eldsneytinu. Þótt geymirinn væri tekinn undan, tæmdur og hreinsaður hefur það ekki breyst. Stefni ég í spíssa- og háþrýstidæluskipti upp á eina milljón?

Svar: Þótt það komi ekki fram í bréfi þínu giska ég á að þú sért að nota lífrænt eldsneyti (Bio-Diesel). Flögurnar sem þú nefnir valda útfellingu í eldsneytissíu og síuhúsi og þær stífla jafnframt stútana á síuhúsinu (þetta þarf að þrífa rækilega um leið og lífræna eldsneytinu er dælt af geyminum). Spíssarnir virðast ekki úða Bio-Diesel eðlilega sem veldur því að vélin brennir eldsneytinu illa (sótmyndun). Margir eigendur diesel-bíla, sem notað hafa Bio-Diesel, hafa lent í sams konar vandræðum og þú. Því hefur verið haldið fram af seljendum eldsneytisins að flögurnar myndist einungis á meðan lífræna eldsneytið sé blandað hefðbundinni diesel-olíu. Það hefur reynst rangt. Svo virðist sem Bio-Diesel sé gallað eldsneyti sem sett hefur verið á markaðinn án fullnægjandi prófana. Ég mun t.d. ekki nota það á minn diesel-bíl eins og það er nú.

Opel Astra: Kokar við inngjöf
Spurt: Er með Opel Astra '98 - 1600 vél - hann er góður í gang kaldur og heitur en drepur stundum á sér í akstri. Til að gangsetja að nýju þarf að standa bensíngjöf í botni en þá fer hann oftast í gang strax en kokar við inngjöf. Fari hann ekki strax í gang þarf að bíða um stund. Þetta gerist helst þegar snögglega er dregið úr ferð, tekin kröpp beygja og/eða gjöfinni sleppt.

Svar: Útilokaðu raka í bensíni með því að blanda isopropanoli í tankinn, 100 ml færðu í apóteki, helltu því í hálfan geyminn. Bensínsían gæti verið stífluð hafi hún ekki verið endurnýjuð nýlega. Annars berast böndin að loftflæðiskynjaranum í inntaki soggreinarinnar.

ÁBENDING (og leiðrétting) : Álheddum fest með einnota heddboltum
Álhedd þenjast meira en stálhedd. Því er þeim oftast fest með heddboltum sem geta teygst. Sé skipt um heddpakkningu þarf nýja heddbolta auk heddsetts. Það getur borgað sig að kanna verð á þessum hlutum á fleiri en einum stað. Þess eru dæmi að heddboltasett (10 stk. ) kosti tífalt meira hjá bílaumboði en hjá Kistufelli í Brautarholti.
Leiðrétting: Hér var fjallað um varahluti í Renault (Kangoo) vegna endurnýjunar heddpakkningar. Við samanburð á varahlutaverði urðu þau mistök að borið var saman verð á svokölluðu slípisetti í umboði (28 þús. kr.) og verð á stakri heddpakkningu hjá Kistufelli í Brautarholti (9.435 kr.). Umboðið selur ekki staka heddpakkningu í þessa vél. Slípisett inniheldur allar pakkningar sem þarf til verksins, m.a.heddpakkningu, og því eðlilegt að settið kosti meira en stök heddpakkning. Viðkomandi umboð er beðið afsökunar á þessum mistökum sem leiðréttast hér með.

Ljósker þurfa ekki að kosta mánaðarkaup!
Stællinn á framljósum bíla gerir það að verkum að sé eigandinn svo óheppinn að ljósker brotni (bót í máli er að flest þessara ljóskera úr polycarbon-plasti þola betur steinkast en þau gömlu með glerjunum) getur verið um veruleg útgjöld að ræða, en verð á ökuljóskerum, t.d. í suma nýjustu bíla geta kostað 200-300 þús. kr. Nokkur fyrirtæki hafa á boðstólum ódýrari ljósker og ljósabúnað í flesta algengari bíla. Á meðal þeirra eru Stilling og AB-varahlutir. felgur.is á Axarhöfða 16 er þekkt fyrir að hafa sérhæft sig í viðgerðum og réttingum á sportfelgum úr álblöndum og stáli (fyrir bíla, vélhjól og tæki). Þeir selja jafnframt svonefnd ,,LED-ljós" og perur og tilheyrandi ljósker í mismunandi tegundir bíla.

Dodge Durango: Brotnar stimpilstangir
Frá því Chrysler skartaði 426 kúbika V8-Hemi-vélinni í 300-línunni á 6. áratug 20.aldar hefur sérstökum ljóma stafað af þessari firna öflugu og sterkbyggðu vél. Hraðskreiðustu handsmíðaðir evrópskir GTO-lúxusbílar af dýrustu gerð, m.a. svissneski Monica og franski Facel Vega, státuðu af Chrysler Hemi. Það sem skilur Hemi-vél frá öðrum er heddið, en í því eru kertin í miðju hvolfi brunahólfsins en það kemur í veg fyrir miskveikjun og gerir það m.a. að verkum að þessar vélar þola meiri snúningshraða en hefðbundnar og skila því meira afli. Við endurreisn Chrysler, eftir misheppnað samstarf við Daimler Benz, þótti markaðsmönnum Chrysler upplagt að skreyta sig með þessu magnaða vörumerki. Hönnuð var ný og minni Chrysler Hemi, 5,7 lítra V8-vél sem virtist vera meistarastykki á pappírnum. En eins og oft vill verða nú í seinni tíð er ,,baunateljurum," sem virðast stundum ekki hafa gripsvit á tækni, falið vald til að skera niður kostnað með skelfilegum afleiðingum. Nýja 5,7 lítra Chrysler Hemi-bensínvélin, sem kom á markaðinn með 2009 árgerðum Chrysler-bíla hefur hvergi staðið undir væntingum; reynst hrákasmíði. Á meðal ,,skemmtilegheita" eru gallaðar stimpilstangir. Þegar stimpilstöng hrekkur sundur vegna efnisgalla, jafnvel eftir innan við 15 þús. km. akstur, þarf sérstaka heppni til að vélin eyðileggist ekki. Með stuttu millibili hafa 2 eigendur Dodge Durango snúið sér til mín eftir að stimpilstöng hefur brotnað í nýlegum bíl. Sjálfsagt er það tilviljun að í bæði skiptin brotnaði stimpilstöngin skömmu eftir að vélum bílanna hafði verið breytt fyrir metan-gas. Í öðru tilfellinu var brotin stimpilstöngin rannsökuð af Dr. Sigrúnu N. Karlsdóttur verkfræðingi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Niðurstaða hennar, í styttu máli, er að um málmþreytu hafi verið að ræða, þ.e. svokallað þreytubrot.

Leiðrétting kolefnisskatts
TækniþjónustaÍslands hefur um mánaðarbil aðstoðað bíleigendur við að fá úr því skorið hvort reiknaður kolefnisskattur, sem er nýjasti skatturinn á bíleigendur, sé í samræmi við CO2-losun viðkomandi bíls í grömmum á ekinn km. Tækniþjónustan tekur 1250 kr. fyrir að kanna málið. Í þeim tilfellum sem CO2-losun bíls er ekki gefin upp af framleiðanda reiknar Ríkisskattstjóri skattinn út á grundvelli eigin þyngdar bíls. Sá útreikningur stenst ekki fræðilegar kröfur, eins og undirritaður hefur bent á. Í ljós hefur komið að eigendur diesel-bíla, t.d. húsbíla, hafa fengið umtalsverða leiðréttingu, jafnvel um 20 þús. kr. lækkun fyrir hvert tímabil, en þau eru 2 á ári. Næstir koma eigendur sendibíla og jeppa með diesel-vél en ekki er óalgengt að lækkun hjá þeim sé um 10 þús. kr. á hverju tímabili. Það getur því verið eftir talsverðu að slægjast. Veffang þeirra er www.co2skraning.is og netfang: info(hjá) co2skraning.is. Frekari upplýsingar um Tækniþjónustu Íslands fást í síma 118.

ÁBENDING: SKOÐIÐ GAMLAN JEPPA VEL ÁÐUR EN SLEGIÐ ER TIL
10-12 ára gamlir diesel-jeppar voru upphaflega ryðvarðir hérlendis ofan á verksmiðjuryðvörn. Vissara er að skoða grindur þessara jeppa um og yfir afturhásingu áður en þeir eru keyptir. Á www.leoemm.com (Gagnabanki, Brotajárn 40) eru sýnd dæmi um svona ryðskemmdir (ljósmyndir).

258
Hvað er tvöföld kúpling?

Spurt: Nýlegur VW Passat er sagður hafa tvöfalda kúplingu. Hugtakið er ekki útskýrt. Mér leikur forvitni á að vita meira um þetta fyrirbæri, m.a. að hvaða leyti ég sé betur settur með tvöfalda kúplingu en einfalda og hvort séu á að þessi (flóknari) búnaður muni valda dýrum bilunum?

Svar: (Það sem hér er nefnt tvöföld kúpling ber ekki að rugla saman við tveggja diska kúplingu eins og lengi hefur tíðkast í vörubílum og stærri tækjum og heldur ekki við sjálfvirku kúplinguna (DSG í Ford- og Toyota-fólksbílar), sem t.d. Toyota selur sem sjálfskiptingu og er , að mínu áliti, rakið andskotans drasl sem mun aldrei verða til friðs). Kúpling handskiptra VW og fleiri fólksbíla er búin tveimur samsettum kasthjólum (Dual-mass flywheel) með einum kúplingsdiski. Virði maður venjulegan kúplingsdisk fyrir sér sést m.a. að á milli miðjunnar, sem tengist gírkassaöxlinum, og ytri hringborðanna, sem tengjast kasthjóli og pressuplani, eru 4-6 gormar. Miðjan og ytri jaðarinn geta snúist hvor gegn öðrum. Gormarnir tempra snúninginn og deyfa titring milli vélar og drifbúnaðar. Titrun er mæld með sveiflutíðni/ölduhæð (riðum). Mestur árangur næst með deyfingu sem gerir sveiflutíðni drifbúnaðar lægri en vélar. Það gefur augaleið að kúplingsdiskur leyfir takmarkaðan fjölda gorma. Hins vegar er kasthjólið nógu stórt og sterkbyggt fyrir öflugri gorma, þ.e. meiri deyfingu titrings. Kasthjólið er því haft í tveimur hlutum. Þeim er fest saman þannig að þeir fjaðra hvor gegn öðrum. Í helmingnum nær vélinni er komið fyrir gormum til deyfingar. Gormalaus kúplingsdiskur er á milli aftari hluta kasthjólsins og kúplingspressunnar. Kosturinn er sá að titringur frá drifbúnaði verður minni en frá vél. Titringur og hljóðmögnun frá vélbúnaði magnast síður upp í burðarbúri bílsins. Án gorma er diskurinn sterkari. Ekki er mér kunnugt um kvartanir vegna þessa búnaðar í fólksbílum og þótt bilanatíðni VW-bíla sé yfir meðaltali mun það ekki vera þessari tvöföldu kúplingu að kenna heldur almennt lélegum íhlutum og vondum frágangi (en þeir glansa áberandi meira með nýju glærunni). Hins vegar hef heyrt af vandamálum í jeppum (Nissan Pathfinder 2005+) með hátt/lágt drif.

Hvernig bíl á ég að kaupa?
Ég er oft spurður þessarar spurningar, ekki síst þegar kaupa á notaðan bíl. Sé miðað við sæmilega rúmgóðan 5-manna fjölskyldubíl af árgerð 1998 -2005 og aðaláherslan lögð á hagkvæman rekstur, svara ég á eftirfarandi hátt:
Subaru* bilar allra bíla sjaldnast en eyðir um 10% meiru en vísitölubíllinn. Það vinnst margfalt upp með minni varahlutakostnaði og verkstæðisheimsóknum. Toyota Corolla 1600 4ra dyra með 5gíra handskiptingu er sparneytinn, -ef til vill ekki mest spennandi bíll í akstri en traustur og þjónusta um allt land. Toyota Avensis (af fyrstu kynslóð 1998 - 2002) með 1600-vél, 5-gíra handskiptur er mjög sparneytinn og rúmgóður, bilanatíðni vel undir meðaltali og aksturseiginleikar betri en margur ætlar. Framstólarnir mættu vera betri í fyrstu kynslóðinni: Traustur bíll og sterkur. Þjónusta um allt land. Nissan Almera 4ra dyra með 1500-vél, 5gíra handskiptur er vissulega ekki mest spennandi bíll í akstri. En sé vel hugsað um gripinn er leitun að gangöruggari bíl. Með Almera þarf maður nánast ekkert á þjónustu umboðsins að halda. Lakkið er lélegt og því þarf að bóna Almera reglulega til að yfirbyggingin ryðgi ekki utan af vélbúnaðinum. Hyundai Sonata er mjög rúmgóður 5 manna fólksbíll með ýmsum lúxusbúnaði. Sonata er, af einhverjum orsökum, vanmetinn bíll hérlendis (Hyundai stendur upp í hárinu á Lexus á Bandaríkjamarkaði hvað varðar gæðamat, sjá JDPower.com). Daewoo Nubira, 4ra dyra með 1600-vél, 5gíra handskiptur. Eins og Sonata er Nubira vanmetinn bíll. Sé vel hugsað um Daewoo Nubira er bilanatíðnin vel undir meðaltali. Nubira-station er með betri aksturseiginleika en flestir aðrir station-bílar af svipaðri stærð. Varahlutaþjónusta er góð, bæði varðandi þjónustu og verð.
* Heimild: Bilbasen, Dit Bilmarket. Nr. 10 2011. Bls. 39.

ÁBENDING: SKAMMLÍFAR PERUR?
Árið 1827 sannaði þýski eðlisfræðingurinn Georg Simon Ohm þá kenningu sína að í lokaðri rafrás væri spennan (U) margfeldið af viðnámi (R) og straumstyrk (I). Ohms-lögmálið (U=IxR) segir okkur m.a. að lélegt samband auki viðnám sem geti hækkað spennu. Nóg um Ohms-lögmálið. Oft má rekja óeðlilega skamman líftíma pera til sambandsleysis; svo sem útfellinga í perustæðum, tengjum og/eða vegna lélegs jarðsambands!

257
Suzuki Grand Vitara: Óstöðvandi titringur
Spurt
: Þetta er árg. '99 á 35 tommu dekkjum. Skyndilega kom í hann titringur sem erfitt hefur reynst að uppræta: Á sléttu malbiki nötrar bíllinn eins og á þvottabretti. Eftirfarandi er á meðal þess sem búið er að reyna: Önnur dekk sett undir án árangurs. Afturskaftið var tekið undan og skipt um krossa. Bíllinn lagaðist nokkuð en titraði eftir sem áður. Skipt um þreyttan gírkassapúða og þriðji dekkjagangurinn reyndur. Engin breyting. Skipt um neðri stífur á afturhásingu. Breytti engu varðandi titringinn en bíllinn varð mun stöðugri á malbiki og hætti að elta hjólför (rása). Afturskaftið var tekið undan og keyrt í framdrifinu. Það breytti heldur engu. Kíkt var inn í drifhúsið að aftan, allt virðist eðlilegt og ekkert slag í neinu og ekkert svarf í olíu. Bremsuborðar að aftan eru heilir og í góðu standi. Skipt um hjólalegur að aftan. Breytti engu. Og nú er ég strandaður!

Svar: Mér sýnist þú vera búinn að útiloka allt nema bogna afturhásingu. Láttu mæla hjólastöðu afturhjóla hjá Birni B Steffensen uppi á Ártúnshöfða.

Ljósker þurfa ekki að kosta mánaðarkaup!
Stællinn á framljósum bíla gerir það að verkum að sé eigandinn svo óheppinn að ljósker brotni (bót í máli er að flest þessara ljóskerja úr polycarbon-plasti þola betur steinkast en þau gömlu með glerjunum) getur verið um veruleg útgjöld að ræða, en verð á ökuljóskerjum, t.d. í suma nýjustu bíla geta skipt hundruðum þúsunda króna. Nokkur fyrirtæki hafa á boðstólum mun ódýrari ljósker og ljósabúnað í flesta algengari bíla. Eitt þeirra er felgur.is á Axarhöfða 16. (fyrirtækið er þekkt fyrir að hafa sérhæft sig í viðgerð og réttingum á sportfelgum úr álblöndum auk viðgerða á stálfelgum undan bílum og vélhjólum). Felgur.is hefur á boðstólum ljósabúnað í talsverðu úrvali á verulega hagstæðara verði en t.d. viðkomandi bílaumboð.

Toyota LandCruiser 90 árgerð 1997: Vondur í gang
Bíllinn er ekinn 330 þús. km. Upp á síðkastið hefur vélin verið erfið í gang og reykir talsvert við fyrstu gangsetningu að morgni. Hún á það líka til að drepa á sér. Eyðslan hefur aukist. Eldsneyti sl. 2 ár hefur verið dieselolía blönduð til helminga með steinolíu.


Eftir talsverðar pælingar og tilraunir, m.a. endurnýjun glóðarkerta sem reyndist vera full þörf á þótt það leysti ekki vandamálið og mælingu á rafgeymi sem sýndi að hann var í góðu lagi bárust böndin að olíuverkinu, en í þessari árgerð er tölvustýrt stjörnuolíuverk. Það reyndist mikið slitið. Eftir að endurbyggt olíuverk var komið í stað þess gamla rauk vélin í gang en þá kom í ljós að eldsneytisleiðslan frá geymi að eldsneytissíu var ryðguð í sundur á nokkrum stöðum. Eftir að hún hafði verið endurnýjuð var vandamálið endanlega úr sögunni.

Ford Explorer: 20+ lítrar
Spurt: Ford Explorer xlt 4.0 árg. '04. Stundum heyrist blásturspíp-hljóð í bílnum eins og þvingaður útblástur. Veistu hvað það eru margir hvarfakútar/skynjarar í bílnum og er einhver möguleiki á að breyta pústkerfinu? Ég veit að margir með eldri en '94 hafa fjarlægt hvarfakúta til að minnka eyðsluna. Hvað má gera í því efni með minn bíl? Bensíneyðslan mælist rúmlega 20 lítrar/100 km. í borgarakstri.

Svar: Svona píphljóð í bensínbíl er oft vegna þess að leirkaka í hvarfakút hefur hrunið saman, gat myndast í útblásturskerfinu eða óþétt flans-pakkning. Í Ford Explorer '04 eru 2 hvarfar og 4 súrefnisskynjarar. Þekkt aðferð til að minnka eyðslu er að hreinsa skemmda leirköku innan úr hvörfum. Um dieselbíla gildir að hvarfakútur/ar eiga að vera í þeim frá og með árgerð 2005.
Þú færð frekari ráðleggingar, hvarfa og skoðun á kerfinu á hagkvæmu verði hjá BJB-þjónustunni í Hjallahrauni í Hafnarfirði. Í þessum bíl er V6-vél - 6 sílindra þýsk Ford-vél oft nefnd ,,Kölnar-vélin". Algeng orsök óeðlilegrar eyðslu er sogleki. Það sem margir átta sig ekki á (og á ekki einungis við þessa vél) er að algengur sogleki sem aldrei uppgötvast er með lélegum pakkningum, t.d. ventlalokspakkningum, pönnupakkningu (ég hef séð ryðgat á pönnu) og sveifaráspakkdósum - auk allra venjulegustu lekanna. Þarna geta myndast 5 lítra/100 km soglekar.

Korando: Aflvana á 33"
Spurt:
Ég á SsangYong Korando, handskiptan, 2.9 diesel (án túrbínu), árg. '98, ekinn 130 þús. Dekk eru 33" og drifhlutfall óbreytt. Þetta er góður, sparneytinn og gangviss jeppi. En hann vantar tilfinnanlega meira vélarafl, þó ekki væri nema til að geta haldið viðunandi hraða á þjóðvegi, t.d. í brekkum eða mótvindi. Vélin hefur líka átt það til að drepa á sér í bröttum brekkum á hálendinu. Nú er ég að leita að hagkvæmustu leiðinni til að bæta úr þessu, ef hún er til. Þvermálið á púströrinu er ca 45 mm, hefði það einhver merkjanleg áhrif væri það sverara?

Svar: Án forþjöppu missir þessi vél of mikið afl og tog þegar dekkin eru stækkuð úr upprunalegum tæpum 29" í 33" án þess að lækka drifhlutfall á móti. Jeppinn yrði miklu sprækari með pústþjöppu og millikæli. Talaðu við Musso-parta í Hafnarfirði um það mál. Stærri dekkin valda því að vélin nær ekki hámarkstogi við hámarksálag í háa drifinu. 2,5" púst (64 mm) skilar árangri. Ráðlegg þér að láta yfirfara eldsneytiskerfið hjá Framtaki/Blossa í Garðabæ.

ÁBENDING: VARÐANDI CHEVROLET CAPTIVA DIESEL
Fyrri pistll fjallaði m.a. um lagfæringu á pústþjöppugátt í Captiva. Losa þurfti fastan arm sem tengist sogmótor og stjórnar gáttinni. Eins og tekið er fram neðanmáls eru fyrirspurnir og svör stytt en birt í fullri lengd á Vefsíðu Leós. Sé þessi armur svo fastur að liðka verði hann með hitun á að losa hann frá sogmótornum (vacuum-rofanum) - annars getur þessi dýri búnaður skemmst. Þennan arm ættu eigendur þessa bíls að fá smurðan sem lið í reglulegri smurþjónustu!

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu

Tæknigreinar

PISTLAR