Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er samtímis á Ctrl og F og orðið skrifað í gluggann.
Copyright ©: Leó M. Jónsson. Öll réttindi áskilin.

Brotajárn nr. 40
(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda. Myndir og myndatextar í Mbl. eru valdar og samdir af starfsmönnum þess).
Varðandi fyrirsagnir, sem einhverjum kunna að finnast undarlegar án greinarmerkja, þá er það með ráðum gert til að rugla síður leitarvélina.

Er þetta ryðvörn eða spellvirki?
Ég, Leó M. Jónsson, hef oftar en einu sinni lýst þeirri skoðun minni að svokölluð ryðvörn (,,íslensk ryðvörn") ofan á verksmiðjuryðvörn nýrra bíla sé einungis til þess líkleg að flýta fyrir ryðtæringu og þá sérstaklega undirvagns. Þetta álit mitt byggi ég á langri reynslu og þeirri staðreynd að grindur hafa hreinlega tærst upp og horfið úr pallbílum á áratug, þ.e. ryðvarnarkvoðan sem sprautað er á undirvagninn hefur eyðilagt bílinn í stað þess að vernda burðarvirkið gegn ryðtæringu. Ég þori að fullyrða að bílasmiður með 10-15 ára reynslu í faginu muni ekki mæla með ,,eftirryðvarnarþjónustu" eins og ákveðin fyrirtæki bjóða og selja hérlendis. Að FÍB og aðrir opinberir aðilar (t.d. á Norðurlöndum) skuli mæla með þessari ,,eyðileggingu" og telja hana nauðsynlega er, að mínum dómi, hneyksli. Þeir sem vilja sannfærast um að ég fari ekki með fleipur þurfa ekki annað en að bregða sér á næstu bílasölu og skoða undirvagn 9-11 ára gamalla jeppa. Eftirfarandi ljósmyndir, sem teknar voru af Mitsubishi Pajero af árgerð 1999, núna í ágúst 2011, tala sínu máli - en þessi bíll var ,,ryðvarinn" sérstaklega (lesist eyðilagður) hér innanlands í október 1999.

-----------------------------------------------------------
V
é
laverkstæðið Kistufell selur samsettar blokkir (kjallara) fyrir Nissan 2.5 Tdi. Þeir eiga reyndar einnig á lager samsetta kjallara fyrir Nissan Patrol ZD30, nýjar pústþjöppur (túrbó) af algengustu gerðum auk þess að auka stöðugt úrval alls konar slithluta í stýris- og undirvagn fólksbíla og jeppa.

Áður en þú kaupir nýja vélar- eða sjálfskiptingartölvu fyrir hundruð þúsunda króna: Oft má gera við bíltölvur (ECU/OBD/TCU/TOD) fyrir brot af því sem ný kostar. Varahlutalagerinn í Kópavogi sendir tölvurnar til Bretlands til viðgerðar. Kynntu þér málið í síma 699 3737 - það gæti sparað þér veruleg útgjöld.

Mælaborð, byggð á rafeindatækni, eiga það til að bila. Þess eru dæmi að mælaeiningin kosti 150-200 þús. kr. hjá viðkomandi bílaumboði. Næstum undantekningarlaust er hægt að fá gert við mælaborð fyrir brot af því sem nýtt kostar. Vaka í Súðarvogi tekur að sér milligöngu um viðgerð á mælaborðum. Vaka annast einnig milligöngu um viðgerð á ABS-tölvum og tölvum fyrir ,,AirBag".


Áður en þúvelur verkstæði til að gera við sjálfskiptingu eða kaupir varahlut í sjálfskiptingu bíl skaltu kanna verðið hjáBifreiðastillingu ehf. (Pétur Oddgeirsson) á Smiðjuvegi í Kópavogi eða hjá Jeppasmiðjunni við Selfoss (482 2858)) Það gætir sparað þér 50% af því verði sem bílaumboð setur upp.

Hvað gerist þegar bensín er sett á diesel-bíl?

Kemur í ljós við áfyllingu
Uppgötvist, í miðjum klíðum, að verið sé að dæla bensíni á diesel-bíl, skiptir miklu máli að gangsetja ekki vélina heldur ýta bílnum í stæði. Þetta gildir jafnt um alla diesel-bíla, gamla sem nýja. Sé vélin ekki gangsett er ennþá diesel-olía í tankdælu og innsprautukerfinu. Það þýðir að ekki þarf að tæma eldsneytiskerfið, sem getur verið flókið verk og krafist sérbúnaðar, heldur þarf einungis að tæma eldsneytisgeyminn af bensíni og fylla með diesel-olíu.
Hafi vélin ekki verið gangsett má nota botntappa, sem eru á geymum sumra jeppa, til að tæmingar. Í flestum tilfellum er geymirinn tæmdur um op sem er á honum að ofanverðu (mælissendir/dæla). Þá er aftursætisbekkurinn tekinn úr til að komast að þessum opum. Máli skiptir að gangsetja ekki tankdæluna undir þessum kringumstæðum.
Margir bílar eru með gildru í áfyllingarstúti eldsneytisgeymis sem gerir það að verkum að ekki er hægt að þræða slöngu niður í geyminn (þjófnaðarvörn).

Kemur í ljós í akstri eftir áfyllingu
Verði vart við gangtruflun í diesel-vél skömmu eftir áfyllingu eldsneytis getur skipt máli að drepið sé á vélinni sem fyrst. Nógu mikill kostnaður fylgir því að láta dæla bensíni af geymi og kerfi þótt ekki bætist við kostnaður vegna skemmda á vélbúnaði. Sparnaður í þessum tilfellum er undantekningarlaust vondur bisniss.

Hætta á skemmdum vélbúnaðar vegna rangs eldsneytis fer eftir aldri, tegund og búnaði diesel-bíls og jafnframt eftir því hvert blöndunarhlutfallið er af diesel-olíu og bensíni.

Eldri diesel-bíll

Sé um að ræða eldri bíl með olíuverki og gormaspíssum skiptir magnið mestu máli, þ.e. blöndunarhlutfallið. Hafi bensíni verið dælt á sem nemur 10% nægir að bæta 200 ml af tvígengisolíu út í geyminn og fylla síðan upp sem fyrst með diesel-olíu. Sé um meira magn að ræða og gangtruflun þarf að tæma geyminn og endurnýja eldsneytissíuna. Mesta hættan á alvarlegum vélarskemmdum er þegar blöndunarhlutfallið er um og innan við 50% en þá er oft hægt að knýja vélina áfram. Þá getur miskveikjun (detonation) myndað sprengingar og afleiðingin orðið bráðnun stimpilkolla, spíssa og/eða ventilhausa.

Diesel-bíll með forðagrein
CRDi er skammstöfun fyrir Common Rail Direct injection = Bein innsprautun í brunahólf frá forðagrein. Þessi diesel-kerfi eru án olíuverks, þeim stýrir tölva og spíssarnir eru rafvirkir. Eldsneytið kælir jafnframt kerfið, er í stöðugri hringrás og er kælt í sérstökum kæli. Ein dæla sér um hringrásina en önnur myndar háþrýsting í forðagreininni. Diesel-bílar með forðagrein eru búnir hvarfa í útblæstri frá og með árgerð 2005.
Eins og áður sagði skiptir miklu uppgötvist mistökin við áfyllingu. Sé vélin ekki gangsett er hverfandi hætta á skemmdum og einungis þarf að tæma eldsneytisgeyminn. Hafi vélin verið gangsett skiptir miklu máli að hún sé stöðvuð um leið og gangtruflun gerir vart við sig. Í þeim tilfellum má oftast komast hjá skemmdum sé kerfið tæmt á réttan hátt. Það vill stundum gleymast að tæma þarf eldsneytiskælinn, endurnýja eldsneytissíu, tæma hreyfibiðu sem er áföst hringrásardælunni í geyminum (um 1 -2 lítrar), halla bílnum og tæma eldsneytisgeyminn. Hreyfibiðan er hylki úr plasti sem er á legg dælunnar. Í hylkinu er einstefnuloki sem tryggir að það sé alltaf fullt af eldsneyti. Með því móti er girt fyrir að dælan grípi loft í skörpum beygjum eða halla. Öruggast er að fylla hreyfibiðuna með diesel-olíu eftir að bensínið hefur verið tæmt úr henni og áður en hún er sett í geyminn því geymirinn þarf að vera fylltur upp í topp til þess að dælan fylli hreyfibiðuna. Eftir áfyllingu með diesel-olíu þarf að lofta eldsneytissíuna (einstaka kerfi gera það á sjálfvirkan hátt). Sé kerfið ekki tæmt á réttan máta geta leifar bensíns leynst í því í talsverðan tíma og blandast diesel-olíunni og þannig valdið aflleysi, jafnvel skemmdum vegna miskveikjunar (detonation).

Nýrri diesel-bílar
Nýjustu diesel-bílar eru búnir forðagrein, hvarfa og sótagnasíu, sem hreinsar sig sjálf. Þau innsprautukerfi eru flóknari, m.a. búin fleiri skynjurum og því eru fleiri dýrir íhlutir sem geta skemmst. Sum eru með innbyggðri vörn sem stöðvar vélina sé eldsneytið mengað bensíni. Þessi kerfi getur þurft að endurforrita eftir tæmingu. Að öðru leyti gilda sömu atriði um þau - nema að tæming og endurstilling er meira verk og dýrara
.

257
Suzuki Grand Vitara: Óstöðvandi titringur
Spurt
: Þetta er árg. '99 á 35 tommu dekkjum. Skyndilega kom í hann titringur sem erfitt hefur reynst að uppræta: Á sléttu malbiki nötrar bíllinn eins og á þvottabretti. Eftirfarandi er á meðal þess sem búið er að reyna: Önnur dekk sett undir án árangurs. Afturskaftið var tekið undan og skipt um krossa. Bíllinn lagaðist nokkuð en titraði eftir sem áður. Skipt um þreyttan gírkassapúða og þriðji dekkjagangurinn reyndur. Engin breyting. Skipt um neðri stífur á afturhásingu. Breytti engu varðandi titringinn en bíllinn varð mun stöðugri á malbiki og hætti að elta hjólför (rása). Afturskaftið var tekið undan og keyrt í framdrifinu. Það breytti heldur engu. Kíkt var inn í drifhúsið að aftan, allt virðist eðlilegt og ekkert slag í neinu og ekkert svarf í olíu. Bremsuborðar að aftan eru heilir og í góðu standi. Skipt um hjólalegur að aftan. Breytti engu. Og nú er ég strandaður!

Svar: Mér sýnist þú vera búinn að útiloka allt nema bogna afturhásingu. Láttu mæla hjólastöðu afturhjóla hjá Birni B Steffensen uppi á Ártúnshöfða.

Ljósker þurfa ekki að kosta mánaðarkaup!
Stællinn á framljósum bíla gerir það að verkum að sé eigandinn svo óheppinn að ljósker brotni (bót í máli er að flest þessara ljóskerja úr polycarbon-plasti þola betur steinkast en þau gömlu með glerjunum) getur verið um veruleg útgjöld að ræða, en verð á ökuljóskerjum, t.d. í suma nýjustu bíla geta skipt hundruðum þúsunda króna. Nokkur fyrirtæki hafa á boðstólum mun ódýrari ljósker og ljósabúnað í flesta algengari bíla. Eitt þeirra er felgur.is á Axarhöfða 16. (fyrirtækið er þekkt fyrir að hafa sérhæft sig í viðgerð og réttingum á sportfelgum úr álblöndum auk viðgerða á stálfelgum undan bílum og vélhjólum). Felgur.is hefur á boðstólum ljósabúnað í talsverðu úrvali á verulega hagstæðara verði en t.d. viðkomandi bílaumboð.

Toyota LandCruiser 90 árgerð 1997: Vondur í gang
Bíllinn er ekinn 330 þús. km. Upp á síðkastið hefur vélin verið erfið í gang og reykir talsvert við fyrstu gangsetningu að morgni. Hún á það líka til að drepa á sér. Eyðslan hefur aukist. Eldsneyti sl. 2 ár hefur verið dieselolía blönduð til helminga með steinolíu.


Eftir talsverðar pælingar og tilraunir, m.a. endurnýjun glóðarkerta sem reyndist vera full þörf á þótt það leysti ekki vandamálið og mælingu á rafgeymi sem sýndi að hann var í góðu lagi bárust böndin að olíuverkinu, en í þessari árgerð er tölvustýrt stjörnuolíuverk. Það reyndist mikið slitið. Eftir að endurbyggt olíuverk var komið í stað þess gamla rauk vélin í gang en þá kom í ljós að eldsneytisleiðslan frá geymi að eldsneytissíu var ryðguð í sundur á nokkrum stöðum. Eftir að hún hafði verið endurnýjuð var vandamálið endanlega úr sögunni.

Ford Explorer: 20+ lítrar
Spurt: Ford Explorer xlt 4.0 árg. '04. Stundum heyrist blásturspíp-hljóð í bílnum eins og þvingaður útblástur. Veistu hvað það eru margir hvarfakútar/skynjarar í bílnum og er einhver möguleiki á að breyta pústkerfinu? Ég veit að margir með eldri en '94 hafa fjarlægt hvarfakúta til að minnka eyðsluna. Hvað má gera í því efni með minn bíl? Bensíneyðslan mælist rúmlega 20 lítrar/100 km. í borgarakstri.

Svar: Svona píphljóð í bensínbíl er oft vegna þess að leirkaka í hvarfakút hefur hrunið saman, gat myndast í útblásturskerfinu eða óþétt flans-pakkning. Í Ford Explorer '04 eru 2 hvarfar og 4 súrefnisskynjarar. Þekkt aðferð til að minnka eyðslu er að hreinsa skemmda leirköku innan úr hvörfum. Um dieselbíla gildir að hvarfakútur/ar eiga að vera í þeim frá og með árgerð 2005.
Þú færð frekari ráðleggingar, hvarfa og skoðun á kerfinu á hagkvæmu verði hjá BJB-þjónustunni í Hjallahrauni í Hafnarfirði. Í þessum bíl er V6-vél - 6 sílindra þýsk Ford-vél oft nefnd ,,Kölnar-vélin". Algeng orsök óeðlilegrar eyðslu er sogleki. Það sem margir átta sig ekki á (og á ekki einungis við þessa vél) er að algengur sogleki sem aldrei uppgötvast er með lélegum pakkningum, t.d. ventlalokspakkningum, pönnupakkningu (ég hef séð ryðgat á pönnu) og sveifaráspakkdósum - auk allra venjulegustu lekanna. Þarna geta myndast 5 lítra/100 km soglekar.

Korando: Aflvana á 33"
Spurt:
Ég á SsangYong Korando, handskiptan, 2.9 diesel (án túrbínu), árg. '98, ekinn 130 þús. Dekk eru 33" og drifhlutfall óbreytt. Þetta er góður, sparneytinn og gangviss jeppi. En hann vantar tilfinnanlega meira vélarafl, þó ekki væri nema til að geta haldið viðunandi hraða á þjóðvegi, t.d. í brekkum eða mótvindi. Vélin hefur líka átt það til að drepa á sér í bröttum brekkum á hálendinu. Nú er ég að leita að hagkvæmustu leiðinni til að bæta úr þessu, ef hún er til. Þvermálið á púströrinu er ca 45 mm, hefði það einhver merkjanleg áhrif væri það sverara?

Svar: Án forþjöppu missir þessi vél of mikið afl og tog þegar dekkin eru stækkuð úr upprunalegum tæpum 29" í 33" án þess að lækka drifhlutfall á móti. Jeppinn yrði miklu sprækari með pústþjöppu og millikæli. Talaðu við Musso-parta í Hafnarfirði um það mál. Stærri dekkin valda því að vélin nær ekki hámarkstogi við hámarksálag í háa drifinu. 2,5" púst (64 mm) skilar árangri. Ráðlegg þér að láta yfirfara eldsneytiskerfið hjá Framtaki/Blossa í Garðabæ.

ÁBENDING: VARÐANDI CHEVROLET CAPTIVA DIESEL
Fyrri pistll fjallaði m.a. um lagfæringu á pústþjöppugátt í Captiva. Losa þurfti fastan arm sem tengist sogmótor og stjórnar gáttinni. Eins og tekið er fram neðanmáls eru fyrirspurnir og svör stytt en birt í fullri lengd á Vefsíðu Leós. Sé þessi armur svo fastur að liðka verði hann með hitun á að losa hann frá sogmótornum (vacuum-rofanum) - annars getur þessi dýri búnaður skemmst. Þennan arm ættu eigendur þessa bíls að fá smurðan sem lið í reglulegri smurþjónustu!

256
Citroën: Þekktur kvilli
Spurt
: Ég á Citroën C3 bíl, árgerð 2004. Að venju fór ég á bílnum í vinnuna, þegar þangað var komið virkaði fjarstýringin á lyklinum ekki og ég læsti því bílstjóramegin með lyklinum en heyri að samlæsingin virkar ekki.
Þegar ég ætla heim á bílnum eftir vinnu er hann ,,steindauður." Engin ljós kvikna í mælaborðið, engin ökuljós, ekki hægt að starta og valstöngin föst í P; - allt sem tengist rafmagns- eða rafeindahluta bílsins er óvirkt! Geymirinn er í lagi (mældur), 20 og 30 ampera öryggin, sem eru í öryggjaboxinu frammí eru í lagi. Prófaði að taka geyminn úr sambandi í nokkrar mínútur en breytti engu. Mér skilst að þetta lýsi sér eins virkjuð þjófnaðarvörn. Kannt þú einhverja lausn á þessu máli, - hvað get ég hugsanlega gert ? Er hægt að beita einhverri aðferð til að ,,svæfa" þjófnaðarvörnina (sé hún orsökin)?

Lausn (Bíleigandinn fann þetta út sjálfur!): Þessu olli bilað jarðsamband frá rafgeyminum. Það sást ekki fyrr en geymirinn hafði verið tekinn úr. Með því að tengja startkapal milli mínus-pólsins á geyminum og vélarinnar rauk vélin í gang og aka mátti bílnum á verkstæði. Þetta mun vera þekktur kvilli í Citroën.

Chevrolet Captiva: Máttlaus
Spurt: Minn ágæti Chevrolet Captiva turbo-diesel, ágerð '06, ekinn 80 þús. km (án teljandi bilana), missti snögglega máttinn; vélin snýst ekki hraðar en 3000 snúninga og fer þá að missa úr og reykja. Bilunarljósið lýsir stöðugt. Hægt er að skreiðast áfram á bílnum en hann nær varla 50 km hraða á jafnsléttu. Ég er úti á landi og ekkert umboðsverkstæði á mínu svæði. Hvað getur verið að? Get ég komist hjá dýrum flutningi?

Svar: Mér kæmi á óvart væri þetta alvarleg bilun. Af lýsingu þinni að dæma Líklegust orsök er að framhjáhlaupsgáttinn í pústþjöppunni sé föst. Þetta er spjaldloki sem stjórnar forþjöppuninni. Armur, sem sogmótor stýrir eftir álagi á vél, festist þannig að forþjöppunin verður ekki einungis óvirk heldur teppist útblásturskerfið. Sé bíllinn settur á lyftu er auðvelt að komast að arminum/gáttinni neðan frá. Sé armurinn svo fastur að hann þurfi að hita verður að losa hann frá sogmótornum (vacuum-rofanum) að öðrum kosti getur búnaðurinn skemmst (en þá þarf að endurnýja alla pústþjöppuna en það er dæmi upp á um 400-500 þús. kr.). Sé armurinn einungis stirður en færanlegur má losa hann með góðri ryðolíu (Prolong). Þegar gáttin virkar á ný á vélin að verða eðlileg og bilunarljósið að slokkna eftir ákveðinn akstur. (Séu þessi einkenni án þess að bilunarljósið lýsi getur orsökin verið stíflaður hvarfakútur. Hann fæst á hagkvæmasta verði hjá BJB-þjónustunni í Hafnarfirði). Eigendum Chevrolet Captiva með dieselvél er bent á að óska sérstaklega eftir því við viðkomandi smurstöð að þessi armur á pústþjöppunni sé smurður sem liður í reglulegri smurþjónustu.

Kia Cerato: Tvö viðvörunarljós lýsa
Spurt:
Ég er með Kia fólksbíl af árg. '07. Allt í einu lýsa tvö viðvörunarljós í mælaborðinu, TCS off og ABS. Hvað er að gerast og get ég lagfært bilunina sjálfur?

Svar: TCS stendur fyrir spólvörn og ABS fyrir læsingarvörn á bremsum. Þessi kerfi byggjast bæði á boðum frá hjólnemum um snúningshraða einstakra hjóla. Tannhring (teljara) er þrykkt upp á öxultappa að framan en er inni í nafarhúsi að aftan. Þegar ryð sest á öxultappa eykst ummál hans og tannhringurinn vill spennast út og springa. Þá raskast boðkerfið og bilunarljósin lýsa. Ég hef sandblásið tannhringinn og rafsoðið saman með for- og eftirhitun, þrifið öxultappann, glóðað tannhringinn og þrykkt honum upp á í pressu. Sú viðgerð hefur dugað vel og kerfin virkað.

ÁBENDING: Brennisteinsvetni
Sterk lykt upp af leirhverum og frá virkjunum, getur verið hættuleg við innöndun. Færri vita að brennisteinsvetni getur valdið alvarlegum skemmdum á fjarskiptatækjum, mælitækjum, myndavélum og tölvubúnaði bíla, með því að oxa snertla sem húðaðir eru með silfri og/eða platínu (sömu áhrif og hitaveituvatn hefur á silfurborðbúnað). Því skyldi halda tækjum og bílum fjarri hveragufu eða verja sérstaklega.

255
Honda CR-V: Aukahljóð í hjólabúnaði
Spurt:
Þegar ég bakka bílnum mínum, sem er Honda CR-V jepplingur af árg. '05 út úr innkeyrslunni heyrist hljóð eins og eitt afturhjólanna taki út í brettaskálina. Þetta hljóð kemur einungis þegar ég legg á stýrið. Þegar ég ek bílnum beint af augum er allt eðlilegt en þetta hljóð kemur af og til, t.d. í beygjum. Getur þetta verið biluð hjóllega eða ...?

Svar:
Þessi jepplingur er búinn sjálfvirku fjórhjóladrifi. Það þýðir að þegar ekki er þörf á auknu veggripi, t.d. í beygjum, er einungis framdrifið virkt. Um leið og lagt er á stýrið tengir sjálfvirk diskakúpling afturdrifið. Kúplingin, sem er sambyggð afturdrifinu, inniheldur sérstakan silikon-vökva (1,3 lítra). Þessi vökvi endist takmarkaðan tíma og hann þarf að standast ákveðinn eiginleikastaðal frá Honda. Hljóðið sem þú heyrir, þegar lagt er á stýrið, kemur frá þessari kúplingu þegar hún tengir og segir að komið sé að því að endurnýja þennan vökva. Það færðu gert á næstu smurstöð. (Festist jepplingur með þessa gerð fjórhjóladrifs, án læsingar á milli fram- og afturdrifs, í snjó eða aur, er fjórhjóladrifið óvirkt nema lagt sé á stýrið!).

Fastir ventlar?
Hérlendis mun gangtruflun vegna fastra útblástursventla, jafnvel í vélum nýlegra bíla, vera algengari en t.d. í Skandinavíu. Bílaframleiðendur hafa átt í vandræðum með að skýra ástæður þessa fyrirbæris og hafa m.a. giskað á að orsökin kunni að vera kaldara loftslag. Persónulega er ég þeirrar skoðunar, eftir að hafa komið að þessu vandamáli hjá fleiri en einu bílaumboði, að orsökin hérlendis sé samspil lélegra bensíns og umferðarhátta á höfuðborgarsvæðinu (lestargangur til og frá vinnu). Þessi kvilli virðist einungis hrjá vélar með fleiri en 2 ventla á hverju brunahólfi. Oft uppgötvast ekki að gangtruflun sé vegna fastra ventla fyrr en búið er að prófa margt með umtalsverðum kostnaði en engum árangri, sérstaklega vegna þess að gangtruflunin (óreglulegur lausagangur og/eða vélin ,,missir úr" á ákveðnum sn.hraða) skilar ekki alltaf bilunarkóða og stundum hverfur truflunin eftir að vélin hefur náð að hitna. Sé um kóða að ræða getur hann verið misvísandi, t.d. ,,Misfiring."
Ventlarnir festast vegna þess að sót, vegna ófullkomins bruna (köld vél - sterkari blanda - lausgangur), sem sest á ventilhausa, nær að setjast í ventilstýringar: Ventillinn gengur ekki alla leið upp og heldur ekki þéttu á milli hauss og sætis. Eina örugga aðferðin til að greina fasta ventla er að þjöppumæla kalda vél. Í flestum tilfellum verður að taka heddið af til að losa fasta ventla. Það er kostnaðarsöm aðgerð. Því eru alls konar ,,undraefni" í boði sem eiga að ,,vinna verkið." Það segir sig nánast sjálft að efni, sem blandað er í bensín, koma að litlu gagni þar sem þau brenna upp áður en þau snerta stýringar útventlana. Hins vegar er vitað að syntetísk smurolía (smurolía sem unnin er úr fjöleindum en ekki jarðolíu) ásamt reglulegri íblöndun rakaeyðis í bensín, getur komið í veg fyrir að ventlar festist. Ath. Sé isoprópanól notað sem rakaeyðir nægir ein tappafylling af því í aðra hverja áfyllingu bensíngeymis.

Kílreim: Rétt lengd?
Þeir sem búa úti á landsbyggðinni lenda oft í stökustu vandræðum vegna þess að þeir fá senda pantaða kílreim sem ekki passar (oft geta 5 mm til eða frá skipt sköpum). Þegar kílreim er pöntuð skiptir miklu máli að gefin sé upp rétt lengd og breidd. Breiddin mælist á ytra borði kílsins (breiðara sporið), þ.e. lengdin er ytra ummálið! Sé notaða reimin fyrir hendi eru málin oft lesanleg á reiminni (t.d. 9,5x 1150). Sé svo ekki er auðveldast að mæla rétta lengd með því að klippa reimina sundur og mæla lengdina. Sé gamla reimin ekki fyrir hendi má nota aðra gamla reim af sömu breidd en lengri, til að fella í trissurnar (þegar strekkjari er í stystu stöðu), merkja, klippa og mæla lengdina. Þannig fæst stysta málið á reiminni og strekkingin virk.

ÁBENDING: Bón er ryðvörn
Séu 10 ára gamlir bílar skoðaðir sér maður að þeir sem eru ryðskemmdir hafa flestir ryðgað utan frá; lakkið hefur ekki varið stálið. Lakk verður fyrir áreiti og veðrun sem skaðar lakkhjúpinn. Þær skemmdir eru oft ekki sjáanlegar fyrr en ryð hefur náð að myndast og lakkið hlaupið upp. Bón fyllir upp og lokar rifum og rispum í lakkhjúpnum og tryggir að hann veiti nauðsynlega vernd. Gljáinn gerir lakkið vatnsfælið og kemur í veg fyrir að óhreinindi festist á því.

254
VW Passat: Aflleysi
Spurt:
Fyrir fjórtán árum keypti ég nýjan sjálfskiptan VW Passat með 1,9 lítra túrbóvél sem með ,,kubbi" skilar 130 hö. Bílnum hefur verið ekið 280 þús. km. Ekkert hefur komið upp á annað en hefðbundið viðhald, svo sem vökvar og síur sem sinnt hefur verið eins og handbók bílsins segir til um.
Eftir að tímareim var endurnýjuð í 210 þús. km (2. sinn) fór ég að finna fyrir hökti í vélinni á lágum snúningi (1600 snún./mín). Snúningsmælir verður óstöðugur og kippist til um 100 snún./mín. Lét það lengi gott heita og handskipti niður þá sjaldan gerðist. Lét athuga sjálfskiptinguna hjá Jeppasmiðjunni. Ekkert fannst að henni. Nú hefur þetta verið að ágerast, einkum þegar vélin erfiðar og sýnu verst þegar farið er upp í móti með kerru í eftirdragi. Bilunarljós lýsir ekki og ,,sérfræðingar" hafa giskað á ýmislegt. Hvað telur þú að sé að hrjá vélina?

Svar: Jafnvel þótt bilunarljósið lýsi ekki ráðlegg ég þér að láta lesa minni tölvunnar, t.d. hjá Bílvogi í Kópavogi (en þeir eru sérhæfðir í VW/Skoda/MMC). Þótt bilunarljósið lýsi ekki getur kóði verið skráður. Tel að það sé einungis tilviljun að þetta hafi komið upp eftir tímareimarskiptin. Sé enginn kóði skráður myndi ég gruna pústþjöppuna um græsku; hún gæti verið ónýt (farin að taka út í og festast) eða stýringin milli inngjafar og þjöppu biluð, framhjáhlaupsloki bilaður o.s.frv. Ástæða er til að benda á að Vélaverkstæðið Kistufell selur pústþjöppur frá A-Research og TRW (frumbúnaður) á hagstæðu verði.

Toyota Celica: Hikstar
Spurt:
Er með Celicu. Vélin hefur verið að missa afl og versnar með hverjum mánuðinum. Búið að endurnýja kerti tvisvar og láta mæla sogkerfið á vélinni en án árangurs. Mest ber á gangtruflun í lausagangi og þegar taka á af stað kokar vélin og snúningur næst ekki upp nema gjöfin sé pumpuð. Í akstri hikar vélin sé gefið hressilega inn en tekur svo við sér.

Svar: Byrjaðu á því að setja isopropanól (rakavara) í bensíngeyminn. Þá ertu búinn að útiloka að rakamettað bensín geti valdið þessu. Næst myndi ég skoða nýju kertin. Séu þau dökk og sótug liggur beinast við að athuga kertaþræði og háspennukefli (fer eftir árgerð hvernig sá búnaður er). Bensínsíu þarf að endurnýja einu sinni á ári - hún gæti valdið þessari gangtruflun. Hún er á hvalbaknum undir bremsukútnum. Annað sem ekki er hægt að útiloka eru fastir ventlar. Þá má stundum losa með því að endurnýja smurolíuna með syntetískri smurolíu 5w -30. Hana færðu ódýrasta frá Valvoline hjá Poulsen.

Líflegri Renault Megané?
Spurt:Keypti ódýran Renault Megané Opera. Vélin í honum er 1.6 lítra, 8 ventla Mk 1(90hp/67kW). Er ekki hægt að hleypa meiru lífi í svona vél með tölvukubbi? Ég sá í einhverju tímariti tölvukubb sem nefnist ,,Megasquirt" sem á að auka afl og snerpu. Veistu til þess að hægt sé að fá svona græjur hérlendis?

Svar: Ég hef hvergi séð svona trimm-dót fyrir Renault nema í Frakklandi og Bretlandi og þá einungis fyrir Megané og Clio II (16 ventla vélina). Það eru verkstæði hérlendis sem tjúna bílvélar, t.d. Subaru, Honda o.fl. Prófaðu að spyrja þá sem eru á þannig bílum.

253
Súrefnisskynjari hreinsaður

Spurt: Eftir að hafa trassað að endurnýja kerti og kertaþræði í Renault Megané þannig að vélin var hætt að ganga á öllum kviknaði bilunarljósið. Þótt kertin og þræðirnir væru endurnýjuð lýsir ljósið eftir sem áður og gangurinn í vélinni er leiðinlegur. Bilunarkóðinn segir að súrefnisskynjari framan við hvarfa sé óvirkur. Er hægt að hreinsa svona súrefnisskynjara (4 leiðslur) eða verður að endurnýja hann?

Svar: Sé skynjarinn óvirkur vegna sóts/smurolíu má reyna að hreinsa hann. Þvoðu mestu óhreinindin af með bensíni og tannbursta. Boraðu gat í sítrónu og stingdu skynjaranum í hana og láttu standa á heitum miðstöðvarofni yfir nótt. Skolaðu svo skynjarann með volgu vatni og skrúfaðu hann á sinn stað. Breytist gangurinn skyldi ekki koma á óvart þótt bilunarljósið hætti að lýsa eftir að vélin hefur náð fullum hita.

Peugeot 406 sem höktir
Spurt: Ég er með Peugeot 406,1,8 l (bensín) árg. 2002. Undanfarna mánuði
hefur verið hvimleitt hökt í vélinni þegar ekið er með litlu álagi eða þegar slegið er af. Lausagangurinn er ekki stöðugur. Fyrir um hálfu ári var háspennukeflið endurnýjað en það gamla bilaði með þeim afleiðingum að útblásturskerfið fór illa. Nokkru seinna hófst þetta hökt í vélinni. Pústkerfið með hvarfa hefur verið endurnýjað sem liður í bilanagreiningu og viðgerð hjá umboði en skilaði ekki öðru en kostnaði. Hvað gæti valdið þessari gangtruflun ?

Svar: Byrjaðu á því að útiloka rakamettun í bensíni með því að setja 100-200 ml af isoprópanóli (fæst í apótekum) í fullan bensíngeymi. Jafnvel þótt það breyti engu er forvörn fólgin í isoprópanóli. Oft þegar um er að ræða gangtruflanir sem ekki skila bilunarkóða/ljósi er orsökin sogleki. Rekja og yfirfara þarf allar soglagnir sem tengjast soggrein og lagfæra lausa enda/múffur og endurnýja skemmdar slöngur. Algengur sogleki er t.d. með endum slöngunnar sem tengist bremsukútnum. Annar algengur sogleki er með óþéttri ventlalokspakkningu (léleg pakkning eða laust lok). Í inngjafarkverkinni eru örlítil göt sín hvoru megin við inngjafarspjaldið. Þegar óhreinindi setjast í kverkina og á spjaldið geta götin stíflast og við það verður lausagangur ójafn og hökt myndast við inngjöf. Þetta er auðvelt að þrífa með spritti og listmálarabursta. Þú getur fengið aðstoð við þetta á smurstöð, t.d. á Olís-smurstöðinni í Sætúni 4.

Um dagljósaskyldu
Spurt:
Er ennþá skylda að nota ökuljós um hábjartan dag? Ég heyrði að samkvæmt EES-reglum væri ekki hægt að skylda þetta.

Svar: Samkvæmt upplýsingum frá Einari Magnússyni hjá Umferðarstofu er ljósaskylda í umferðarlögunum. Hins vegar er ekki lengur skylt að hafa sjálfvirkan dagljósabúnað við nýskráningu. Ökuljós skal því nota í akstri.

ÁBENDING: Brennisteinn í diesel- og steinolíu
Frá og með árgerð 2005 eru diesel-bílar með platínu/áloxíð-hvarfa í útblásturskerfi til að draga úr mengun með oxun. Skilyrði þess að hvarfi virki við diesel-vél er að eldsneytið sé brennisteinssnautt (low sulphur fuel). Brennisteinssnauða diesel-olíu þarf að efnabæta til að tryggja smureiginleika hennar. Steinolía inniheldur margfalt magn brennisteins á við diesel-olíu og því er ekki hægt að nota hana sé hvarfi í útblásturskerfinu.

252
Stillanlegur Koni-dempari
Spurt: Keypti gamlan Ford Ranger pallbíl og fékk hann með nýlegum Koni gasdempurum að framan sem eru stillanlegir. Þeir virðast gerðir fyrir þyngri bíl því þeir eru allt of stinnir í mýkstu stillingu. Er hægt að endurbyggja þessa Koni-dempara þannig að þeir verði mýkri?

Svar: Nei, - það er ekki hægt að fá gasdempara frá Koni endurbyggða. Það gildir einungis um vökvademparana, a.m.k. hérlendis. Í Ford Ranger (1981-1994) eru framdempararnir lóðréttir milli grindar að ofanverðu og neðri klafa. Þú getur ef til vill notað þessa gasdempara, þ.e.a.s. gert verkun þeirra mýkri, með því að færa efri festinguna aftar á grindina þannig að demparinn hallaði aftur frá lóðlínu, að ofanverðu, sem næmi 10-15°.

Toyota V6 bensín: Fastir stimpilhringir?
Spurt: Ég er með 4runner V6 af árg. '92 sem hefur reynst mér frábærlega og ég vil gjarnan halda við. Fyrir ári gaf sig heddpakkning. Gert var við á viðurkenndu verkstæði þ.e. skipt um pakkningar og heddin yfirfarin. Til að gera langa sögu stutta þá hefur vélin aldrei gengið almennilega síðan. Eftir að hafa reynt að finna þessa bilun í heilt ár kom loks í ljós að vélin sýndi enga þjöppun á einum silindra. Niðurstaðan nú er sú að það séu fastir stimpilhringir á einum stimpli. Kannt þú einhver ráð til að losa hringina án þess að rífa stimpilinn úr? Þetta er þegar búið að kosta hátt í 400 þús. kr. og gangurinn í bílnum er verri en hann var með bilaða heddpakkningu fyrir ári síðan.

Svar: Þar sem heddin voru tekin af fyrir ári ætti að mega ganga út frá því sem vísu að ekki sé gat í stimpilkollinum á þessum eina sem ekki þjappar og jafnframt að ventlarnir séu þéttir. Þá eru 3 mögulegar orsakir fyrir gangtrufluninni: Ónýtur kertaþráður á viðkomandi silindra (ótrúlegt, en ég veit dæmi þess að gleymst hafi að mæla neista í svona tilfellum). Brotnir eða fastir stimpilhringir. Það er enginn galdur til sem leysir svona vandamál. Ég myndi reikna með því að hagkvæmasta lausnin, þegar öllu er á botninn hvolft, sé að taka stimpilinn úr (mig minnir að pönnuna sé hægt að losa án þess að taka vélina úr bílnum). En með aldur bílsins í huga og ,,fyrri störf" (400 þús. kr.) myndi ég prófa eftirfarandi (birt án ábyrgðar):

A. Hitaðu vélina í vinnsluhita. Aftengdu háspennuþráðinn úr toppi háspennukeflisins. Losaðu kertið varlega úr viðkomandi silindra. Mældu þjöppuna með inngjöfina í botni og skráðu .
B. Hafðu stimpilinn sem nemur um fjórðungs snúningi á sveifarási fyrir neðan toppstöðu (þreifar stöðu kollsins með grönnu skrúfjárni) . Úðaðu heilum brúsa af PROLONG-ryðolíu (fæst m.a. hjá Vöku) inn um kertagatið og láttu vélina óhreyfða þannig í sólarhring.
C. Tappaðu 2 lítrum af smurolíu úr pönnunni og fylltu í staðinn með 2 lítrum af sjálfskiptiolíu.
D. Með háspennukeflið aftengt - notaðu startarann til að láta sílindrann hvæsa rækilega áður en þú setur hreint kerti í. Gangsettu vélina með lágmarksinngjöf.
E. Aktu bílnum á nokkrum dögum sem nemur 200 km akstri. Því oftar sem vélin hitnar og kólnar því betra!
F. Sértu ljónheppinn skilar þessi aðgerð mælanlega hærri þjöppun. Þá skaltu endurnýja smurolíu og síu með alsyntetískri smurolíu 10W30 (Valvoline hjá Poulsen er ódýrust). og möguleiki er á að vélin verði farin að ganga eðlilega eftir um vikunotkun.
-------------------------------------------------------
Hér fyrir neðan eru fyrirspurnir og svör beint úr netpóstinum dagana 1.-12. sept. 2011.

Spurt: Aflestur vegna bilunarljóss í Pajero Sport 2005 segir að fremri og aftari súrefnisskynjararnir vinstra meginn séu bilaðir. Þeir á verkstæðinu mæla með því að skipta fyrst um þann fremri því þá geti sá aftari hugsanlega leiðrétt sig. Þessir skynjarar kosta yfir 75.000 kr orginal en 37.000 ó-orginal hér heima en ef maður skoðar þá á erlendum vefsíðum geta þeir farið niður fyrir 10000 kallinn. Hvernig stendur á því að á erlendu síðunum eru sumir skynjararnir sagðir passa bæði framan og aftan við hvarfakút en í öðrum tilvikum er tiltekið nákvæmlega hvar viðkomandi skynjari á að vera?

Svar: Það eru ekki allir súrefnisskynjarar forhitaðir - það skýrir hvers vegna þeir óhituðu passa bæði að aftan og framan. Þú átt að geta fengið þessa skynjara fyrir miklu minna verð hjá N1, Stillingu eða Poulsen. Best er að fara með gömlu skynjarana til þeirra - það er aðallega fjöldi leiðslanna sem skiptir máli (brúnn/svartur eða blár eru straumur og jörð en hinir eru signal.

Spurt: Ég er með Benz se 300 árgerð 1990. Þegar hnn hefur ekki verið hreyfður í 2-3 daga kemur í hann ógangur þegar hann er orðinn heitur og drepur þá á sér Þá þarf maður að bíða þar til hann er orðinn kaldur í kanski klukkutíma eða svo þá verður hann eðlilegur aftur ef hann er keyrður á hverjum degi er hann í lagi. Ég er orðinn dálítið pirraður á þessu. Hef hvergi fengið svar um hvað þetta geti verið.
Svar: Þetta getur verið allur andskotinn. Byrjaðu á því að endurnýja bensínsíuna hafirðu ekki gert það nýlega og settu ísvara í bensíngeyminn (isoprópanól sem fæst í apótekum). Sjáðu hvort það breytir einhverju og hafðu samband aftur.

Spurt: Ég leita nú aftur til þín eins og endranær þegar kemur að furðulegum bilunum. Um er að ræða Skoda Octavia 2006, - bíll sem á góða sögu að baki og góða umhirðu. Fyrir ca. mánuði síðan varð vart við bilun sem virðist ætla að verða hausverkur sem engin verkjalyf hafa fundist við: Titrun myndast á milli 40-60 km. hraða en verður svo eðlilegur í akstri eftir það. Það var skipt um báða ytri hjöruliðina í sumar og hjólalegur að framan voru endurnýjaðar fyrir ca 4 árum síðan og afturlegur í sumar. Það kom reyndar í ljós í fyrradag að felgurnar(original stál)voru skakkar en þeim var skipt út í dag og öll hjól jafnvægisstillt en titrunin er enn til staðar. Þegar ég prufukeyrði bílinn í dag varð ég var við örítið högg þegar tekið er af stað og líka þegar maður sleppir olíugjöfinnnni, ég varð var við þetta á lítilli ferð. Þetta er Diesel-bíll með DSG skiptingunni. Með von um einhver ráð.

Svar: Höggin sem þú nefnir benda ótvírætt til slits í hjörulið. Því myndi maður byrja á að skoða þá rækilega. Svona titringur, þegar búið er að útiloka ójafnvægi hjóla og hjöruliði, er oftast vegna þess að stimpill í bremsudælu að framan stendur á sér (stirður eða fastur) - þá veldur hann tritrun þegar hann hefur hitnað eða á ákveðnum hraða eða eftir ákveðinn akstur. Láttu tjékka á þessu t.d. hjá Bílvogi.

Spurt: Ég er með Renault Laguna 2004. Hef grun um að kolefnissían sé biluð en ég þekki ekki nógu mikið til þess. Skyndilega fór bílinn að eyða ca. 18 lítrum í tveimur ferðum til Hafnarfjarðar í dag. Tæmdist frá rétt tæplega 1/4 niður í ekkert. Nýbúiið að skipta um tímareim, knastásflýtihjól ofl. Hólfið þar sem útvarpið er sjóðhitnar og lykillinn að bílnum (kortið) hitnar líka. Þegar ég gef inn og sleppi bensíngjöfinni er vélin lengi að hægja á sér og er líkt og bensíngjöfin standi á sér sem hún gerir ekki. Áttu einhverjar upplýsingar um kolefnissíuna og kannski með hugmynd um hvað gæti verið að?

Svar: Ég þori næstum að fullyrða að í þessum bíl er ekki kolefnissía. Hins vegar er í honum hvarfakútur. Hann gæti verið stíflaður (þú færð hann skoðaðan hjá BJB-þjónustunni í Hafnarfirði. Sé hvarfinn í lagi myndi mann gruna að um sogleka sé að ræða. Í þessum bílum er hann oft í slöngunni sem tengir MAP-nemann (hvítt eða svart plaststykki sem er á hvalbaknum). Hitinn í lyklinum getur verið vegna bilunar í fjarstýringu eða þjófnaðarvörn. Lyklasmiðurinn á Grensásvegi 16 gæti hugsanlega aðstoðað þig í því máli.

Spurt: Er að spá í Suzuki Sidekick 1800, 4ra sílindra bensín. En hann gengur ekki á aftasta sílindra. Smitar hvorki út vatni né olíu. Búið að endurnýja kerti. Hvad gæti verið að? Kertaþráður, tölvan eða háspennukefli?

Svar: Prófaðu annan kertaþráð og þjöppumældu silindrann (fastur ventill).

Spurt: Leita til þín með smá vandamál þar sem verkstæðum hefur ekki tekist að leysa. Um er að ræða Musso, 2.3 beinsk. bensín árg. 2000. Hann gengur mjög treglega lausagang.
1. Fór til Benna og þeir sögðu mér að líklega væri þetta loftflæðiskynjari - endurnýjun hans skilaði engu nema kostnaði.
2. Fór til Litháa sem sérhæfir sig í rafkerfum. Hann mældi allt og las út af tölvu en fann ekkert. Fann að því hve vatnsleiðslan frá væri hörð (mikill þrýstingur).
3. Fékk álit hjá D&E bílaverkstæði í Hafnarfirði um að ef mæling á stimplum kæmi vel út þyrfti að taka heddið af, skipta um allar pakkningar í vél og plana hedd og slípa ventla.
4. D&E bílaverkstæði skipti um skoðun og vill ekki fara í ofangreindar framkvæmdir á vél fyrr en búið er að ganga úr skugga um að tölva bílsins valdi þessu ekki.
5. Eftir er að kanna hvort tölvan valdi þessu.
(Annað sem var að bílnum og er verið að lagfæra hjá D&E bílaverkstæði er smá gat á pústkerfi, leki frá bensíntanki og skipt um stýrisvél). Ég hef enga þekkingu á bílvélum og er orðinn algerlega ráðalaus varðandi þennan gamla Musso minn sem ég var að vona að ég gæti notað og notið. Hvert bendir þú mér á að fara með bílinn? Hvað álítur þú að geti valdið þessu?

Svar: Það er eitt og annað sem getur valdið óreglulegum lausagangi og eyðslu í svona Musso. Oftast eru það kerti (þarf að endurnýja með NGK- eða Bosch-kertum á 10-12 þús. km. fresti), kertaþræðir (iðulega lélegir) eða sogleki. Sá sem þekkir þess bíla best er Sigurður Einarsson hjá Bílhaga (í Kjarnanum uppi á Ártúnshöfða). Prófaðu að leita til hans (893 3510).

Spurt: Það var rétt hjá þér með bílunina í Benzanum um daginn - eins og þú nefndir reyndist það vera bilaður sveifarás stöðuskynjari eða er það ekki þessi toppstöðunemi, en hann er í haldara aftan við tímareimina sem þú nemdir allavega var hann aftan við tímareimina og það tók fjóra tíma að skipta um hann á verkstæði en þeir hjá Baugsbót (hér fyrir norðan) komu og tölvulásu bílinn þegar hann stöðvaðist og fundu strax þessa bilun. Þetta mun vera algeng bilun í Benz-jeppanum og bílar verið innkallaðir vegna þessa toppstöðunema. Ég talað við nafna minn hjá bílabúð Benna, eins og þú bentir mér á, og fékk góðan díl á Toyo harðskeljadekkjum og vil ég þakka þér kærlega fyrir alla hjálpina.

Svar: Toppstöðuneminn er aftan við tímareimina. Hann nefnist Crank Sensor á ensku. Lýsing þín á biluninni gat átt við hann.

Spurt: Veist þú nokkuð hvað er að Musso 2,9 Diesel/sjálfskiptur/2001 sem er ekinn 130 þúsund km./Ástralíuskipting. Bíllinn hefur staðið í 4 mánuði. Hann tekur ekki almennilega afturábak þegar hann er orðin heitur, en ágætur kaldur. Allt virkar að öðru leyti. Ég setti nýja olíu frá Benna og nýja síu frá Skiptiþjónustunni í Smiðjuhverfinu. Ég skipti aðeins um olíu á skiptingunni en skolaði ekki út úr túrbínu (ca 5 lítrar af olíu fóru á skiptinguna) engin brunalykt var af gömlu olíunni og sían ekki slæm að sjá.

Svar: Einhver galli var í fyrstu seríunni af BTRA-sjálfskiptingunni sem gerði það að verkum að bakkgírinn tengdi ekki alltaf. þá heldur hann ekki bakkgírnum inni. Það á að vera tiltölulega lítið mál að laga þetta. Sértu heppinn er bilunin í rafspóluloka neðst á skiptingunni og hægt að laga þetta með því að taka pönnuna undan. Sértu ekki alveg nógu heppinn getur þetta verið kúplingin fyrir bakkgírinn en það kostar að taka kassan úr og slátra honum - því bakkgírinn kemur síðast út úr belgnum. Hann Pétur í Bifreiðastillingu (nágranni þinn) þekkir þetta og ég mæli með honum.

Spurt: Ég er búinn að fara milli verkstæða og reyna að finna bilun í Chevrolet enn enginn veit hvað hrjáir hann, svo ég ákvað að athuga hvort þú hafir einhver svör. Ég er með Chevrolet með 6,5 l dt vél. Þegar ég starta honum á morgnanna og hann hefur gengið í c.a. 5 mín drepur hann á sér. Þegar ég starta honum svo aftur er allt í fínu og hann gengur fínt.
Svar: Mér finnst ég kannast við þessa bilun. Ég myndi giska á að það væri þjófnaðarvörnin sem sé að stríða þér, annað hvort tölvan eða þá sendirinn sem stýrir fjarstýringunni. Sértu á Rvk-svæðinu skaltu tala við strákana hjá Nesradíó - þeir eru sérfræðingar í ,,Immobilizer-kerfum".

Spurt: Ég á Ford Escape framl.2004, 2966 rsm. Sálfskiptingin á til að höggva við hraðabreytingu. Hvað ráðleggur þú mér að gera?

Svar: Leitaðu til Bifreiðastillingar ehf. í Kópavogi eða Jeppasmiðjunnar við Selfoss. Þeir eru sérfræðingar í sjálfskiptingum (það er umboðið ekki). Sértu heppinn þarf einungis að endurnýja síu og vökva á skiptingunni, yfirfara rafspóluloka og setja sérstakt bætiefni á - þá ætti skiptingin að virka eðlilega.

Spurt: Ég hef áhyggjur að því sem að ég myndi kalla "leguhljóði" í mínum skemmtilega og tiltölulega spræka Volvo. Ég þóttist nokkuð viss um að framhjólslegan h.m. væri að gefa sig því að "leguhljóð" var áberandi í akstri beint áfram og ef beygt var til vinstri en hljóðnar þegar álagið minnkar h.m. t.d. í beygju til hægri svo að ég keypti hjóllegu h.m.að framan. Ég fór með bílinn á Þjónustuverkstæði N1 en þar sögðu menn mér að ekkert væri að legunni h.m. að fr. en hjóllegan v.m. að aftan væri ónýt svo að ég skilaði framhjólslegunni og keypti legu í v. afturhjól. Ég og sonur minn settum svo þá legu í en enn er allt við það sama hvað þetta "leguhjóð (sarg) varðar. Ég er alveg mát; hefur þú einhverja hugmynd ? Ég er nýbúinn að skipta um ytri öxulendahosu v.m. og notaði þá tækifærið til að hreinsa og endursmyrja bæði ytri og innri liðina; þeir voru báðir liðugir. Bíllinn fór nýlega athugasemdalaust í gegnum aðalskoðun.

Svar: Hjá N1 var lengi til hlustunarpípa - úr plasti með stálsprota. Kostaði lítið. Sé bíll keyrður uppi á tjakki og sprotinn settur á leguhúsið heyrist greinilega í skemmdri legu. Ég tek ekki mikið mark á drýldnum ,,sérfræðingum" hjá N1. Finnir þú mun á hljóðinu í hjóllegunni h.m. og v.m. hefurðu fundið þá sem er slitin. Hins vegar er málið það að þú þarft ekki að hafa miklar aáhyggjur af þessu hljóði - eftir að byrjar að heyrast í framhjólslegu geturðu ekið a.m.k. 50 þús. km. án þess að eiga mikið á hættu - það er ekki fyrr en seint og um síðir sem hljóðið eykst og þörf er á endurnýjun legunnar - fram að því skrúfar fólk bara upp í græjunum.

Spurt: Nú er ég í vandræðummeð Nissan Terrano II 2,7 2000 árg: Eitt glóðarkertið er brotið slétt við heddið. Geturðu gefið mér einhver ráð með þetta? Þarf ég virkilega að taka heddið af til að laga þetta? Get ég keyrt þennan bíl á steinolíu án þess að skemma vélina?

Svar: Talaðu við Sigurð Einarsson hjá Bílhaga (í Kjarnanum uppi á Ártúnshöfða) eða Vélaverkstæðið Kistufell á Tangarhöfða. Geti þeir ekki losað kertisbotninn úr er ekki um annað að gera en að taka heddið af og fá þetta gert á renniverkstæði.
Þennan bíl (og aðra diesel-bíla sem ekki eru með hvarfakút í útblásturskerfinu) á að mega keyra á óblandaðri steinolíu.

Spurt: Vinnubrögð eins og ég er að upplifa hjá Heklu (varðandi þjónustu fyrir Audi) eru til skammar og minna helst á glæpastarfsemi. þetta er eitthvað sem mér finnst að þurfi að láta vita af svo fleiri lendi ekki í slíkri þjónustu en beini sínum viðskiptum annað og forðist bíla sem Hekla er umboðsaðili fyrir. Þekkirðu eitthvað inn á hvernig Aud-verksmiðjan starfar, - ætli það sé ekki hægt að kvarta yfir þjónustu við Audi-bíla hérlendis við þá úti?

Svar: Mín persónulega skoðun: Audi-bílar eru illa hannaðir og illa smíðaðir - þeir eru auglýstir sem gæðamerki - nokkuð sem stenst ekki - því þeir eru fyrst og fremst rándýrt glæsilegt drasl. Ég vara fólk við þessum bílum. Fjöldi Bandaríkjamanna sem hefur látið glepjast hefur lögsótt Audi og umboðsaðila þess í Bandaríkjunum. Heilu vefsíðurnar eru kjaftfullar af ótrúlegustu bilanasögum um þessa bíla og framleiðandinn Auto Union hefur neyðst til að framlengja ábyrgð á ýmsum hlutum eins og sjálfskiptingum og fleiru en um leið skrúfað upp þjónustugjöld og viðgerðarkostnað. Á þessum vefsíðum má sjá að margir sem keypt hafa Audi ætla aldrei að gera það aftur. Ég efast um að það þjóni nokkrum tilgangi að eyða púðri í að kvarta við framleiðandann - skynsamlegra er að leggja vinnu í að reyna að losna við bílinn, t.d. með því að setja hann upp í seljanlegri bíl hjá Heklu (t.d. Mitsubishi) því maður skyldi ætla að notaður Audi sé hvergi verðlagður sem gæðamerki ef ekki þar.

Spurt: Ég á Chvrolet árg. 2004 með Duramax öndvegisvél, keyrðan rúmlega 70 þús. km. Ég er búinn að keyra hann eingöngu á steinolíu ca. 2000 km. Finn enga breytingu á hljóði. Ef eitthvað er þá er hann kraftmeiri. Flest allir sem ég hef ráðfært mig við vilja meina að þetta sé hið besta mál vegna gæða steinolíunnar. Hún sé í raun þotueldsneyti og þess vegna þurfi ekki einu sinni að steja olíuslatta með. Mér skilst að þú hafir eitthvað tjáð þig um þetta mál en ég hef misst af þeirri umræðu. Gæti ég fengið þitt álit á þessu máli?

Svar: Ég hef bent á að samkvæmt gæðastöðlum sem N1 birtir sé steinolían þeirra Jet Fuel Class A eða það sem nefnist ,,fotogen" í Skandinavíu. Það er betra eldsneyti en brennisteinssnauða diesel-olían sem seld er hérlendis. Steinolían inniheldur meiri brennistein en hann er smurefnið í díesel-kerfum (ekki fita í olíunni). Enga tilfærða fitu þarf að blanda í steinolíu. Hins vegar hentar steinolía ekki á bíla með hvarfa.

Spurt: Ég er með mótorhjól, Honda Shadow VLX 600cc, sem ég keypti notað í fyrrahaust. Skipt hefur verið um "original" pústkerfið og í staðinn sett púst frá COBRA. Allt í lagi með það og bara gott mál en nú bar hins vegar svo við að ég fór með hjólið í skoðun og fékk ekki skoðun vegna hávaðamengunar, skildist að mælingin væri um 110dB en mætti mest vera 100dB. Þetta pústkerfi hefur verið á hjólinu frá því að það kom til landsins og hefur hjólið farið í skoðun 4 sinnum áður, án athugasemda varðandi hávaðamengun. En aðalmálið er hvað er hægt að gera til að lækka/koma í veg fyrir þennan hávaða, tímabundið. Mér hefur verið sagt að setja steinull í pústið en við það minnki hávaðinn. En skýst ekki steinullin bara út um pústið þegar gefið er inn þarna í skoðuninni og maður stendur eftir eins og kjáni? Annar sagði að ég ætti að fá mér sett af "original" pústi og skipta um þegar hjólið fer í skoðun. Varla getur það verið hagkvæm lausn. Hefur þú einhverja hugmynd um hvað menn gera svona að öllu jöfnu í þessum málum, miðað við fjölda stórra og kraftmikilla hjóla á götunum, hlýtur þetta að vera algengt vandamál.

Svar: Ég er nú ekki lengur inni í þessum málum (átti reyndar Honda Shadow 750 rsm). Hjá Byko fæst vírnet með mismunandi möskvastærð og mismunandi þjált. Ég myndi búa til hólk úr vírneti og fylla hann með ekki allt of þéttri steinull og koma fyrir í hljóðkútnum. Þú prófar bara inngjafir áður en þú ferð í skoðunina. Merkirðu mun á hljóðinu skaltu bara láta vaða á þetta.

Spurt: Ég er með 1998 árgerð af MMC Carisma, hann er 1,8l sjálfskiptur ekinn um 138000km. Þannig er að þegar hann hefur staðið yfir nótt eða nær að kólna þá er hann svo leiðinlegur í gang getur þurft að starta honum 2-3 sinnum þannig að hann fari í gang, svo þegar hann fer í gang þá rýkur hann upp á snúning en jafnar sig fljótt og er svo bara fínn þangað til hann er orðinn heitur þá verður lausagagangurinn óreglulegur, flakkar upp og niður en vélin drepur ekki á sér. Hefur þú einhverjar hugmyndir handa mér?

Svar: Ég myndi endurnýja bensínsíuna sé hún ekki nýleg. Sjálfsagt hefurðu endurnýjað kertin en kertaþræðir og kveikjulok (sé venjulegt lok á kveikjunni í þessari vél) er líklega komið á tíma (veikur neisti). Fleira kemur til greina en byrjaðu á þessu en hafðu samband aftur ef ekkert breytist.

Spurt: Er einhver einn spíssahreinsir sem þu mælir með frekar en annar fyrir Nissan Pathfinder 2005 diesel ekinn 108.000?

Svar: Sá nefnist Diesel Magic, er frá Comma og fæst hjá N1.

Spurt: Sá áhugaverða grein eftir þig í Mogganum varðandi hreinsun á vatnskassa, man bara ekki í hvaða blaði það var. Er með Nissan Terrano sem ég tók eftir að hreyfði hitamælin þegar ég fór upp Kambana (vel yfir miðju ). Getur þú bent mér á greinina. Eitthvað með að nota edik os.fr. Er algjör jólasveinn hvað bílamál snertir en langar samt til að prófa þetta.
Svar: Þú finnur þetta á Vefsíðu Leós, Brotajárn39 Pistill nr. 248

Spurt: Er í vandræðum með að starta. Stundum kemur það í fyrsta en stundum í fjórða skipti. Ekki langt síðan ég skipti um startara í Nissan Terrano. Það kemur eins og högg. Nóg rafmagn en s.s startar ekki alltaf. Einhver sagði mér að þetta gæti verið slitið tannhjól sem snýr vélinni. Eitthvað til í því?? Getur þetta verið startpungurinn?
Svar: Oftast er þetta startarinn sjálfur - yfirleitt slitin kol sem ná stundum ekki sambandi. Hafi startarinn verið notaður sem þú settir í myndi ég giska á kolin. En áður en þú ræðst í að skipta honum út skaltu skoða geymasamböndin, pólklemmurnar og tengingarnar á startpung/startara. Þetta getur verið sambandsleysi á tengiskó á grönnu leiðslunni sem kemur á startarann. Sértu óheppinn gæti startkransinn verið skemmdur. Það er meiriháttar mál.

Spurt: Freelander 2 2007 2.2 td4.
1) Hvenær á að skipta um tímareim í þessum bílum? 2) Veistu hvort að eitthvað vesen hafi verið á sjálfskiptingunum í þessum bílum? Þessi Freelander er keyrður um 100.000 og einn morguninn í vikunni þegar hann var settur í D vildi hann ekki fara í gírinn fyrr en seint og síðar meir. Var svo erfiður að skipta upp og niður. Tölvuaflestur gefur til kynna einhverja bilun.

Svar: Mín persónulega skoðun: Þetta er einfaldlega breskt drasl. Um tvær 2,2ja lítra dieselvélar getur verið að ræða, - báðar eru með tímakeðju sem ekki þarf að hafa áhyggjur af. Það hafa verið alls konar bilanir í þessum Freelander, þar á meðal í sjálfskiptingunum. Þessi bilun í skiptingu þarf þó ekki að vera alvarleg, miðað við lýsinguna - gæti verið teppt upptökusía í pönnunni. Þá þarf að endurnýja vökvann um leið og síuna. Það færðu gert á hagkvæmasta hátt hjá Jeppasmiðjunni við Selfoss eða Bifreiðastillingu á Smiðjuvegi í Kópavogi en þeir yfirfara ventlaboxið í leiðinni.

Spurt: Við hjónin eigum Ford Galaxy árgerð 2006 en finnst hann full erfiður í snjó (búum á norðurlandi) og langar í sparneytinn og rúmgóðan jeppa. Þú talar ágætlega um Chevrolet Captiva á síðunni þinni og erum við hrifin af honum en það sem truflar mig er hve margir af þeim eru til sölu. Finnst eins og það sé eitthvað við hann sem veldur því að fólk er að losa sig við bílana. Veistu hvað veldur? Geturðu mælt með öðrum sparneytnum, rúmgóðum jeppa/jeppling sem rúmar helst þrjá barnastóla eða tvo stóla og sessu?

Svar: Captiva Diesel hefur reynst ágætlega og fáir jepplingar, ef nokkrir jafn rúmgóðir, eru sparneytnari. Ég veit ekki hvað veldur því ef margir Captiva eru til sölu en skýringin getur einfaldlega verið sú að þeir seldust mjög vel fyrir 4-5 árum. Aðrir bílar sem ég myndi mæla með eru Kia Sorento Diesel (jeppi til og með 2010 árgerð en eftir það jepplingur) og Kia Sportage Diesel. Toyota RAV-4 er þröngur og leiðinlegur í akstri en þjónustan er í lagi - það er meira en sagt verður um aðra seljendur jepplinga.

Spurt: Mér stendur til boða að eignast árgerð 1979 af Benz 200. Búið er að taka í gegn vél og bremsur, en sjálfskiptingin er víst ónýt. Það kitlar mig auðvitað að ráðast í málið. Gætir þú sagt mér hvar væri helst að fá skiptingu?

Svar: Það gæti orðið snúið mál að fá réttu skiptinguna sem passar aftan á þessa 2000 rsm vél. Um tvenns konar vél getur verið að ræða í þessari árgerð; MB115.938 (95 hö) eða MB115.939 (85 hö). Það er fræðilegur möguleiki að skipting úr 2ja lítra bensín Musso passi, þ.e. 2000 rsm vélin en ekki 1997 rsm vélin en þær eru ólíkar (talaðu við Musso partasöluna í Hafnarfirði). Annars er helst að leita eftir svona skiptingu hjá þeim sem taka upp skiptingar;þeir kynnu að vita um bíla sem væru falir, en það eru Jeppasmiðjan við Selfoss, Bifreiðastilling ehf. í Kópavogi, Skipting í Keflavík o.fl.

Spurt: Hvað er til ráða varðandi samlæsingarnar í Nissan Almera. Vandamálið er að þegar bílnum er startað þá læsast hurðir sjálfkrafa (samlæsingin). Þetta er smá vandamál því nú á að selja bílinn og það virðist ekki virka traustvekjandi á væntanlega kaupendur. Búinn að tala við IH en þeir segja mér að koma með bílinn á verkstæðið þeirra. Af fenginni reynslu þá þori ég ekki þangað með bílinn.

Svar: Ég myndi treysta þeim hjá Nesradíó (Síðumúla 19) til þess að leysa þetta mál á hagkvæman hátt.

Spurt: Getur þú frætt mig á því hvort eitthvað sé eftir í 1997 Pajero 2,8 disel sem er ekinn 355000 km?. Hann er beinskiptur og lítur vel út að sjá. Hann er óbreyttur. Hvað ber að varast í þessum bílum? Er einhver sérfræðingurí Reykjavík sem að gæti skoðað svona bíl fyrir mig með stuttum fyrirvara?

Svar: Kramið í þessum bílum er ódrepandi sé nægilega vel um það hirt. Það sem yfirleitt er að þetta gömlum Pajero er að grindina er hægt að mylja með berum höndunum í kring um afturhásinguna , þ.e. það sem eftir er af henni. Það er ,,Íslenska ryðvörnin" sem veldur þessari eyðileggingu (gegn greiðslu! - Og enn eru spellvirkjar að selja þessa eyðileggingu - en nú nefnist hún hljóðeinangrun!). Það þarf engan sérfræðing til að ástandsskoðaa svona bíl - farðu bara með hann á næsta bílaverkstæði eða smurstöðina Klöpp eða BP á Sæbraut.

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu

Tæknigreinar

PISTLAR