Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er samtímis á Ctrl og F og orðið skrifað í gluggann.
Copyright ©: Leó M. Jónsson. Öll réttindi áskilin.

Brotajárn nr. 39
(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda. Myndir og myndatextar í Mbl. eru valdar og samdir af starfsmönnum þess).
Varðandi fyrirsagnir, sem einhverjum kunna að finnast undarlegar án greinarmerkja, þá er það með ráðum gert til að rugla síður leitarvélina.

Vélaverkstæðið Kistufell selur samsettar blokkir (kjallara) fyrir Nissan 2.5 Tdi. Þeir eiga reyndar einnig á lager samsetta kjallara fyrir Nissan Patrol ZD30, nýjar pústþjöppur (túrbó) af algengustu gerðum auk þess að auka stöðugt úrval alls konar slithluta í stýris- og undirvagn fólksbíla og jeppa.

Áður en þú kaupir nýja vélar- eða sjálfskiptingartölvu fyrir hundruð þúsunda króna: Oft má gera við bíltölvur (ECU/OBD/TCU/TOD) fyrir brot af því sem ný kostar. Varahlutalagerinn í Kópavogi sendir tölvurnar til Bretlands til viðgerðar. Kynntu þér málið í síma 699 3737 - það gæti sparað þér veruleg útgjöld.

Mælaborð, byggð á rafeindatækni, eiga það til að bila. Þess eru dæmi að mælaeiningin kosti 150-200 þús. kr. hjá viðkomandi bílaumboði. Næstum undantekningarlaust er hægt að fá gert við mælaborð fyrir brot af því sem nýtt kostar. Vaka í Súðarvogi tekur að sér milligöngu um viðgerð á mælaborðum. Vaka annast einnig milligöngu um viðgerð á ABS-tölvum og tölvum fyrir ,,AirBag".


Áður en þúvelur verkstæði til að gera við sjálfskiptingu eða kaupir varahlut í sjálfskiptingu bíl skaltu kanna verðið hjáBifreiðastillingu ehf. (Pétur Oddgeirsson) á Smiðjuvegi í Kópavogi eða hjá Jeppasmiðjunni við Selfoss (482 2858)) Það gætir sparað þér 50% af því verði sem bílaumboð setur upp.

Um metanbreytingu
Spurt: Las pistil á síðunni þinni um metan og ákvað að athuga hvort ég gæti sótt örlítinn fróðleik til þín um málið. Málið er að ég er leigubílstjóri og hef verið uppá síðkastið að velta fyrir mér að láta breyta hjá mér bílnum. Núna er staðan sú að ég er væntanlega kominn á þann tímapunkt að neyðast til að skipta um bíl og er að spukulera í að grípa gæsina og láta breyta þeim bíl sem ég kaupi (sem væntanlega verður 4 ára gamall Avensis Sedan með bensínvél, keyrður 26 þúsund). En ég hef semsagt verið að fylgjast með þessum metanmálum nú í 3-4 ár og hefur mér virst þetta ganga meira og minna hnökralaust, þe hef ekki heyrt neitt um óeðlilega bilanatíðni etc og þeir kollegar mínir sem hafa stigið skrefið virðast undantekningalaust vera ánægðir enda nemur eldsneytissparnaður um 60 - 70 þúsundum á mánuði hjá okkur leigubílstjórum. En að kjarna málsins. Nú var ég í dag í samræðum við kollega minn (óttalegan besservisser) og við ræddum þetta af miklum hita en hann tjáði mér að eini staðurinn sem gerði þetta af einhverju viti væri Bíljöfur en þeir væru sko þeir einu sem settu smurkerfi með metanspíssunum en það væri nauðsynlegt vegna þess hve brunahitinn á metaninu væri miklu hærri og að vélar sem ekki fengju þetta smurkerfi væru ónýtar eftir 80 - 100 þús kílómetra. Og breytingin hjá Bíljöfri væri á 700 þús í stað 400 - 450 þús hjá öðrum (ss Einn Grænn og Sorpa). Ég kem af fjöllum??? Fer besservisserinn með rétt mál eða er hann að steypa tóma tjöru (eins og oft áður)?? Er eitthvað sem ég ætti sérstaklega að hafa í huga þegar að því kemur að taka ákvörðunina?? Er eitthvað sem gæti komið mér á óvart?? Og svona að lokum. Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur er víst að byrja á þessum breytingum (eða byrjaðir) og þeir stungu uppá við mig að setja kútana undir gólfið með því að taka burt varadekkið og gryfjuna fyrir það og setja kútana á milli bitanna þarna fyrir aftan. Hljómar vel ef haft er í huga að með þessu held ég farangursrýminu óskertu. Góð hugmynd?

Svar: Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki sett mig mikið inn í þessa metanbreytingu - ástæðan er sú að mér finnst hún lykta af innbyrðis skítkasti, rógi og kerlingarbókum. Vek athygli á því að á þessu verki er 2ja ára ábyrgð samkvæmt lögum um neytendakaup. Ég veit að þeir hjá Vélamiðstöðinni hafa staðið fagmannlega að þessu máli og það sem ég hef séð frá þeim er til fyrirmyndar hvað frágang snertir. Sé þörf á einhverri smurkælingu með metanspíssunum myndu þeir hjá Vélamiðstöðinni örugglega setja hana í. Þegar haft er í huga að fá má felgur/dekk með öryggismön (ekkert varahjól nauðsynlegt) sýnist mér þetta vera upplögð lausn með kútana. Annað sem fólk ætti að hugleiða í sambandi við metan sem eldsneyti: Metan hefur verið notað sem eldsneyti á bíla í tæp 60 ár. Ekkert nýtt hefur komið fram í sambandi við tæknina þegar um metan í gasformi er að ræða. Hækkanir á verði bensíns og dieselolíu hafa engu breytt varðandi þá metantækni sem verið er að bjóða. Metan í vökvaformi (LNG) er þegar farið að nota í Evrópu. Með þeirri tækni komast tflutningabílar 1200 km á einni hleðslu (í stað 100 km á gasi) sem fer mun minna fyrir en kútum fyrir gas (GNG). Í þriðja lagi: Metanbreyting er dýr aðgerð sem brátt verður úrelt og verð á metangasi hérlendis á bara eftir að hækka!


250
Skoda: Biluð þjófnaðarvörn
Spurt: Skódinn minn er af árgerð 2002. Hann hefur reynst mér vel. Fyrir nokkrum mánuðum fór að bera á því að vélin vildi ekki í gang heit. Bíða varð þar til hún hafði kólnað. Á verkstæði var mér sagt að þetta væri vegna ónýts toppstöðunema (crank sensor) en hann kostar mánaðarlaunin mín hjá umboðinu. Við bilunargreiningu á öðru verkstæði kom fram kóðinn P1570. Ekki voru menn á eitt sáttir um hvað hann þýddi þannig að ég beið með frekari aðgerðir. Getur þú sagt mér hvað þessi kóði þýðir og hvað maður ætti að gera?

Svar: Þessi kóði í Skoda þýðir að bilun í þjófnaðarvörn (immobilizer) kemur í veg fyrir að vélartölvan gefi neista á kertin. Þjófnaðarvörninni stýrir flaga (samrás) sem er innbyggð í svisslykilinn. Flagan getur verið biluð, rafhlaðan í lyklinum að tæmast eða sambandleysi eða bilun á milli svissins og tölvunnar í bílnum sem stýrir þjófnaðarvörninni en það samband fer um sérstakt loftnet tengt svissnum (hringurinn). Fyrir þá sem hafa sérþekkingu á þessum kerfum er þetta ekki stórmál. Þeir hjá Nesradíó í Síðumúla 19 kippa þessu í liðinn fyrir þig.

Pajero: Olíuleki
Spurt: Ég er með Pajero turbodiesel 2,5 lítra 1995. Skyndilega fór að leka olía út með sveifarásstrissunni og um leið var eins og vélin missti afl. Getur verið að pakkdósin bili svona allt í einu og getur verið að olían hafi valdið því að vélin hafi farið yfir á tíma og það sé orsök aflleysisins?

Svar: Af lýsingu þinni að dæma hefur sveifaráspakkdósin gefið sig (skemmst). Tímareimin gæti hafa hoppað um tönn. En þú mátt búast við að fleira sé í gangi og komi í ljós þegar tímareimarhlífin hefur verið losuð af: Á þessum vélum eru 2 reimar, tímareim og fyrir innan hana reim sem knýr jafnvægisás. Sá ás á það til að festast í legunum og þá getur dregið niður í vélinni þar til sú reim slitnar og veldur skemmdum. Því skaltu ekki draga viðgerðina.

Suzuki Jimmy: Framhjólslegur
Spurt: Mig langaði að athuga hvert ég ætti að leita með viðgerð á gömlum Suzuki Jimmy varðandi framhjólalegur og pústviðgerð. Mér skilst að sérverkfæri séu nauðsynleg til að endurnýja framhjólalegurnar í þessum bílum og að þau eigi ekki margir nema þeir sem þjónusta Suzuki-bíla. Eru fleiri sem koma til greina í því sambandi en Semoco ehf?

Svar: Pústviðgerðina færðu á hagstæðasta verði hjá BJB-þjónustunni í Hafnarfirði. Strákarnir þar vita hvort þú getir leitað eitthvað annað með hjólalegurnar en til Semoco. (svo geturðu prófað vefsíðuna www.sukka.is ).

Ford Escape: Eyðsla
Spurt: Hvað getur maður gert til að minnka mikla bensíneyðslu nýlegs Ford Escape jepplings?

Svar: Sumir hafa gripið til þess ráðs að taka afturdrifið úr sambandi (Bílhagi ehf. hefur tekið það að sér). Aðrir eigendur telja sig geta minnkað eyðsluna um 2-3 lítra á hundraðið með því að nota V-Power-bensín.

ÁBENDING: BENSÍNSÍA
Margir nýlegir bílar hafa 2 bensíndælur, eina fyrir hringrás en aðra fyrir háþrýsting inn á spíssatré. Stöðug hringrás kælir kerfið, m.a. dælur og aðra fokdýra hluti í innsprautukerfi. Vélin gengur þótt bensínsía sé 50% teppt . Því geta hlutir hitnað óeðlilega og valdið ótímabærum (dýrum) bilunum. Því ætti að endurnýja bensínsíuna árlega. Hún kostar ekki mikið. Verkið fæst unnið á næstu smurstöð.

249
Gölluð Opel-vél?
Spurt: Ég keypti Opel Vectra Direct 2.2 árið 2007 (bensín) hjá umboðinu og hef ekið honum um 50 þús. km. En svo heyrðist smellur og vélin neitaði að fara í gang og var fluttur á verkstæði IH. Nokkrum dögum seinna var mér sagt að bíllinn færi í gang en gangur væri ekki alveg eðlilegur á köflum, skipting óeðlileg, skipti sér ekki upp eðlilega og ekki væri hægt að greina hvað ylli biluninni en skoða ætti málið næsta morgun þegar vélin væri köld. Þá var mér sagt að líklega væri bilunin í ,,regulator" eða bensíndælu. Hvort tveggja er dýrt stykki sem ekki var til. Ég gat notað bílinn skamma stund, greinilega í ólagi, eða þar til vélin stöðvaðist aftur með smelli. Hjá IH var mér sagt að áðurnefnd stykki yrðu ekki pöntuð nema ég greiddi staðfestingargjald. Ég átti að taka áhættuna af bilanagreiningu sem ekki var víst að stæðist! Kostnað áætluðu þeir um 300 þús. Mér finnst þetta skrýtin þjónusta og ber leita því til þín.

Svar: Þjónusta bílaumboða er misjöfn (síðan þetta mál kom upp, sem er bæði lengra og ljótara, hafa nýir eigendur tekið við rekstri IH/BL og lýst því yfir, m.a. við mig persónulega, að þeir ætli að endurskipuleggja og bæta þjónustu fyrirtækisins). Eitthvað er þessi lýsing á bilanagreiningu Opel-vélarinnar undarleg, sé hún rétt, því fleira bendir til að smellurinn hafi verið frá tímakeðjunni. Hún er strekkt sjálfvirkt með búnaði sem vinnur með olíu frá smurkerfi vélarinnar. Til að smelli í keðjunni þarf annað hvort; óeðlilega lágan olíuþrýsting eða leka. En það vill svo til að þessi bilun er jafnframt vegna þekkts galla í þessari vél sem er sú sama og í Vauxhall Vectra, eins og sjá má á eftirfarandi breskri vefsíðu:
http://www.vauxhallownersnetwork.co.uk/showthread.php

Þar sem 3ja ára ábyrgð er útrunnin en 5ára kvörtunarfrestur, samkvæmt lögum um neytendakaup, enn í gildi, sé hann einhvers virði, ræð ég þér til að ræða málið við stjórnendur hjá IH. Beri það ekki árangur skaltu fá gert við vélina hjá Vélaverkstæðinu Kistufelli (á Tangarhöfða). Þeir myndu jafnframt votta ástand vélarinnar og hvað þeir teldu hafa valdið biluninni.Varahluti færðu á hjá Kistufelli.

Benz 190: Lausagangsvandræði
Spurt: Ég er með M-Benz 190E 1991 með 1,8-vél, sjálfskiptan, ekinn 265 þús. Einhver bilun veldur því að vélin helst ekki í lausagangi heit en vinnur vel og eðlilega eftir að komið er af stað. Búið er að skipta um flest sem mönnum hefur dottið í hug en án árangurs. Jafnvel vanir Benz-viðgerðarmenn finna ekkert út úr þessu. Þeir benda alltaf á nýja hluti sem þeir vilja skipta um og ég borga, enn nú er veskið tómt og ég ráðalaus!

Svar: Byrjaðu á því að skoða allar soglagnir í húddinu. Sumar geta verið grannar pípur úr plasti tengdar á endum með gúmmúffum, ýmist beinum eða í bognum sem vilja leka en þá ruglast kerfið. Á soggreininni, barkamegin við startspíssinn gegnt inngjafarspjaldinu, er ílangt um 6 sm langt stykki sem tengist rafleiðslu. Þetta er loki sem festur er á stall á soggreininni með 2 litlum boltum. Í stallinum eru 2 grannar rásir hvor sínum megin við inngjafarspjaldið á soggreininni. Stykkið nefnist á ensku ,,Auxillary-air device" = eða jöfnunarloki. Rafstýrð stálfjöður stýrir þessum loka, sem opnar og lokar þessu framhjáhlaupi þannig að blandan styrkist eða veikist sjálfkrafa við breytt álag, t.d. þegar stöðvað er og aftur sett í gír. Sé lokinn eða pípurnar stíflaðar drepur vélin á sér í lausagangi eins og þú lýsir vegna þess að þessu blöndujöfnun er óvirk.

Jöfnunarlokinn er stykkið nr. 15 á yfirlitsmyndinni sem er yfir K-Jetronic frá Bosch

ÁBENDING: UM GASDEMPARA
Sumir standa í þeirri trú að gasfylltir vökvademparar séu mýkri en demparar sem einungis innihalda vökva. Það er misskilningur. Með því að hafa niturgas, sem þjappast saman þegar þrýstingur eykst í demparaolíu vegna álags og hitnunar, þolir demparinn að hitna meira án þess að olían sjóði (hærri þrýstingur = hærra suðumark). Soðni olía í dempara verður hann máttlaus og fellur saman. Öllum fólksbílum og flestum jeppum sem varla fara út af malbiki nægja vökvademparar. Gasdempari er oftast sóun á peningum enda upphaflega hannaður til að leysa vandamál sem skapast þegar álag á dempara, t.d. þegar ekið er á vondum vegum eða vegleysum, hiti hann ekki umfram suðumark olíunnar. Það álag skapast yfirleitt ekki í venjulegri umferð á bundnu slitlagi. Hins vegar hafa seljendur dempara óspart notfært sér trúgirni almennra bíleigenda með því að telja þeim trú um að dýrari gasdemparar gerðu bílinn mýkri. Það er auðvitað della; - demparar hafa þann tilgang að halda hjólinu sem lengst í snertingu við undirlag (tryggja veggrip) en hafa, út af fyrir sig ekkert með fjöðrunina að gera nema í þeim tilfellum sem fjöðrun og dempun er sambyggð.
Og eitt enn: Koni-demparar eru þeir vönduðustu og dýrustu og margir kaupa þá til að setja undir fjallajeppa, ekki síst vegna þess að þá má fá með stillanlegri dempun. Þá er það stór kostur að Koni-dempara má gera upp og jafnvel breyta þeim, t.d. gera þá mýkri eða stinnari með því að opna þá og skipta um flæðiventla. Það sem færri vita er að þetta er einungis hægt að gera við vökvafyllta dempara en ekki Koni-gasdempara, þeir verða ekki opnaðir, þeim breytt eða þeir lagfærðir!

248
Stíflaður vatnskassi
Spurt: Ég er með Pajero Sport sem yfirhitnar. Vatnskassinn er sagður ónýtur (stíflaður), nýr kostar hálft bílverð og engin partasala virðist eiga heilan vatnskassa. Áttu ráð við þessum vanda?

Svar: Þegar öll sund virðast lokuð og rándýr hreinsiefni gagnslaus hefur eftirfarandi aðferð stundum skilað árangri: (Notaðu hlífðarhanska og andlitshlíf við eftirfarandi framkvæmd). Vatnskassahosur aftengdar og efri stútnum lokað með tappa. Hellt í áfyllingu 150 mg af matarsóda (natríum bi-karbónat). Hellt 1 lítra af borðediki (ediksýra blönduð með vatni, fæst í matvörubúðum) og áfyllingu lokað. Beðið í 15-30 mín. Áfylling opnuð (varlega) og vatni hellt á vatnskassann. Sé hann ekki ónýtur byrja óhreinindin að leka út úr neðri stútnum. Heitu vatni bætt á þar til eðlilegt rennsli er í gegn um kassann. Ef þú vilt einfalda málið (og vatnskassinn hvort eða er dæmdur ónýtur) geturðu prófað sterkara efni, stíflueyði sem nefnist DIX og fæst hjá Poulsen. Hann er að vísu ætlaður til að losa stíflur úr frárennslislögnum en ekki kælikerfum bíla. Stór kostur við DIX er að hann myndar ekki hita við efnahvörf er er fjandi sterkur. Vissarar er að hafa andlitshlíf og uppháa hanska við framkvæmdirnar og gæta þess að vatnskassinn sé aftengdur kælikerfi vélarinnar. Mæli ekki með DIX nema kassinn sé álitinn ónýtur.

Honda Civic/Toyota: Ískur í hurðum
Spurt: Undanfarna mánuði hefur óþolandi ískur heyrst þegar dyr eru opnaðar á Honda Civic 2004. Ég er búinn að reyna að smyrja lamirnar en án árangurs. Umboðsverkstæði segist geta gert við þetta fyrir 80-90 þús. kr. (Upplýsingar um hvað valdi svo háu verði fylgja auðvitað ekki). Er hægt að laga þetta með minni kostnaði?

Svar: Ískrið er þekkt í fólksbílum frá Honda og Toyota. Það myndast ekki í lömunum heldur í stopparanum, - flötu járni sem takmarkar opnun dyranna auk þess að halda hurðinni í opinni stöðu. Á stopparanum er þykkildi úr plasti sem gengur inn í klemmu í hurðarkarminum. Þetta á ekki að smyrja með feiti. Þegar ryk sest í feitina myndast ískrið. Þrífðu stopparann og klemmuna rækilega að ofan og neðan með nettum pensli bleyttum í bensíni og hreyfðu hurðina samtímis og blástu svo þar til stykkin eru þurr. Úðaðu svo silikon-efni á þetta um leið og þú hreyfir hurðina. Efnið er það sama og og notað er til að liðka rennilása á tjaldvögnum og fæst á öllum bensínstöðvum (úðabrúsi). Eftir það ættu hurðirnar að hætta að ískra og þú getur sparað þér þjónustu umboðsverkstæðisins.

BMW 525td: Reimleikar
Spurt: Ég er í vandræðum með BMW 525 diesel 2002. Fyrirvaralaust þá kem ég að honum rafmagnslausum með óreglulegu millibili. Búið er að mæla geymi og hleðslu og er hvort tveggja í lagi. Komið hefur fyrir að hann læsir sér eða opnar á víxl, rúður fara smávegis niður, aðallega að framan. Stundum gerist þetta dag eftir dag en svo geta liðið mánuðir á milli, sem sagt óreglulegt. Hvað getur valdið þessu?

Spurt: Af fyrirspurninni að dæma hefurðu ekki leitað til verkstæðis. Mig grunar að vanir BMW-menn myndu strax setja þessa ,,reimleika" í samband við vatnsleka. Leki með afturrúðu þykir mér ekki ósennilegur en undir aftursætinu er svokölluð ,,boddý-tölva" sem stjórnar tímaliðum og stöðvurum á rúðuvindum, samlæsingum, miðstöð, afturrúðuhitara o.fl. Líklegasta skýringin er sú að raki hafi komist í tölvuna og að hún sé að tengja og aftengja afturrúðuhitarann í tíma og ótíma og tæmi þannig rafgeyminn. Fáðu verkstæði sem er sérhæft í rúðuísetningum til að skoða þéttingar á fram- og afturrúðum. Stundum er hægt að gera við þessa tölvu. Vaka í Súðarvogi hefur boðið slíka þjónustu.

ÁBENDING: NEISTAR ÞEGAR ÞÚ SNERTIR BÍLINN?
Áklæði bíla er úr mismunandi efnum. Sama gildir um fatnað fólks. Í þurrviðri getur bíll hlaðist stöðuspennu. Hún getur valdið því að þegar hurðarhúnn er snertur hleypur neisti milli handar og bíls - viðkomandi myndar jarðsamband. Neistinn getur verið óþægilegur og fólki brugðið. Einföld lausn er að bleyta dekkin með vatni. Þá hverfur vandamálið - jafnvel í mánuð.

247
Nokkur atriði áður en lagt er upp í ferðalag

Dekkin
Dekkin eru mikilvægustu öryggistæki bíls. Ástand þeirra ræður því hvort og hvernig bíll lætur að stjórn, ekki síst í neyðartilviki þegar mest á reynir. Til að dekk hafi fullnægjandi veggrip þarf dýpt munstursins að vera minnst 3 mm á miðjum sólanum. Til að bíll láti eðlilega að stjórn þurfa öll dekkin að hafa jafn gott grip. Til þess þarf munstrið að vera jafnt og jafn þrýstingur í öllum dekkjunum. Þetta gildir einnig um kerruhjól. Réttur þrýstingur er gefinn upp í handbók bíls, innan á bensínáfyllingarspjaldi eða á dyrastaf eða karmi bílstjórahurðar. 32 psi ( 2 kp/rsm) tryggja hámarkssparneytni og álagsþol.

Ekkert varahjól
Sumir nýir bílar eru ekki með varahjól. Þá er sérstök mön innan í felgunni sem gerir kleift að aka bílnum á næstu þjónustustöð. Sé vegalengd ekki mikil og ekki ekið hraðar en 40 km/klst nær dekkið ekki að hita nóg til að eyðileggjast.

Varahjól
Vissara er að ganga úr skugga um að þrýstingur sé í varahjólinu. Sé það í grind undir bílnum getur festing hennar verið ryðguð og gikkföst. Því er vissara að prófa í tíma hvort hægt sé að ná varahjólinu úr festingunni.

Áhöld
Ekki þarf flókin tæki til að skipta um hjól. En þau þurfa að vera til staðar. Í handbók bílsins eru leiðbeiningar um hvar megi setja tjakk undir. Einnig er sýnt hvar tjakk, viðvörunarþríhyrning og felgulykil sé að finna. Vissara að ganga úr skugga um að þessir hlutir séu meðferðis. Mörgum hefur gengið illa að losa felgurær/bolta með þeim lyklum sem fylgja bíl. Á flestum bensínstöðvum eru til felgulyklar með útdraganlegum átaksarmi. Þeir kosta ekki mikið en með þeim má yfirleitt losa hjól þótt boltar séu mjög fastir.

Dráttur
Yfirleitt er óhætt að draga bíla sem hafa drif á einni hásingu, jafnvel þótt þeir séu sjálfskiptir - sé vegalengd stutt og farið hægt. Marga fjórhjóladrifna bíla má ekki draga en verður að flytja á palli. Suma fjórhjóladrifna bíla má draga, sé rétt að því staðið. Upplýsingar eru í handbók eða á sólskyggni. Í verkfærasetti margra bíla er sérstök ugla til að skrúfa í framstuðara. Næstum undantekningarlaust er þessi ugla, sem skrúfuð er í gat undir loki í stuðaranum, með öfugum skrúfgangi.
Eigi að draga vagn skyldi prófa raftengibúnaðinn áður en haldið er af stað. Öryggiskeðjunni á að víxla hálfan snúning áður en henni er smeygt upp á beisliskúluna. Sé bíll sjálfskiptur og vagn í eftirdrætti skyldi aftengja yfirgír (OD) eða leggja í lægri gír (D2) þegar farið er upp í móti. Þannig sparast eldsneyti auk þess sem minni hætta er á að sjálfskiptingin yfirhitni.

Framrúðan
Í borgarumferð með tilheyrandi lestargangi blæs sótugur útblástur næsta bíls á undan um miðstöðina og upp á framrúðuna að innanverðu. Þessi óhreinindi geta komið sér mjög illa þurfi að aka á móti sólsetri. Því borgar sig að þrífa framrúðuna bæði að utan sem innan (hjá Poulsen fæst krem sem tekur flestum vökva fram - en sértu með vökva má bæta smáslurki af borðediki út í hann sem gerir hann ólíkt virkari).
Þurrkublöð sem þrifin eru með ísvara (isoprópanóli) eða kveikjarabensíni og borin með yngingarefni (Son of a Gun eða líku) geta gert gæfumuninn.

ÁBENDING: Er framdrifið virkt?
Þeir jeppaeigendur sem ekki virða þá reglu að setja í fjórhjóladrif og lágadrifið mánaðarlega allan ársins hring eiga það á hættu að sitja fastir þegar mest liggur við vegna þess að framdrifið virkar ekki. Hlutir í búnaðinum vilja stirðna vegna saltraka og/eða hreyfingarleysis. Framdrif má prófa á einfaldan hátt. Sett er í 4L og tekið á framöxlunum. Sé hægt að snúa þeim eru lokur í hjólnöfum óvirkar. (Einnig má lyfta einu framhjóli í einu og sé hægt að snúa því með handafli er tengibúnaður öxla/hjólnafar bilaður. Sé hægt að snúa öðru framhjólinu með handafli þegar það er á lofti og fremra drifskaftið snýst er bilunin í millikassanum.
Auðveldast er að fá úr þessu skorið á lyftu hjá smurstöð.

Galant frystikerfi í ólagi
Spurt: Er með Galant 2004 innfluttur frá USA og er í einhverjum vandræðum með loftkælinguna (AC) vill meina að hún kæli lítið þrátt fyrir að vera á fullu .Er til í því að það þurfi að bæta á vökva , strekkja reimar eða stilla eitthvað í þessum búnaði og við hvern ráðleggur þú mönnum að tala (ekki fer maður í Heklu öðruvísi en að verða gjaldþrota á eftir) í tilvikum sem þessum.

Svar: Talaðu við Hafliða hjá heilsversluninni Íshúsinu á Smiðjuvegi 4A (sama hús og N1-búðin). Hann þekkir þessi kerfi, er með tæki til að greina bilanir og til áfyllingar. Og ekki er verra að þetta er vanur maður og sanngjarn en ekki einn af þessum gráðugu sjakölum.

246
Benz heddpakkning
Spurt:
Ég er með Benz C180 , árg. '95 (289 þús. km). Heddpakkningin er farin og ventlatikk hefur heyrst nokkuð lengi. Væri ráð að endurnýja undirlyftur og jafnvel tímakeðjuna um leið og heddpakkninguna?
Ég var að endurnýja vökva og síu í skiptingunni; tappaði af pönnu og þreif vel auk þess sem ég tæmdi vökvadrifið (konverterinn). Mér taldist koma af þessu um 7 lítrar. Þegar ég fór að fylla á skiptinguna byrjaði ég með með 5 lítra. Þegar ég var byrjaður á 6. lítranum tók ég eftir leka undan bílnum út um op fyrir ofan pönnu. Með um 5 lítra á skiptingunni er borðið um 3 sm ofan við efsta merki á kvarða þegar vél/skipting er heit. Þarf ég að tappa af skiptingunni?

Svar: Þú átt ekki að þurfa að endurnýja tímakeðjuna. Heddið þarf að plana og setja á með nýrri pakkningu og nýjum heddboltum (teygjuboltar). Þú færð þessa varahluti á hagstæðu verði hjá Vélaverkstæðinu Kistufelli á Tangarhöfða. Ég efast um að þú þurfir að skipta um vökvadempara á milli kambáss og vippu - tikkið stafar oftast af þrýstingsfalli vegna lekrar heddpakkningar.
Varðandi sjálfskiptinguna: Yfirfall er á þessum skiptingum sem kemur í veg fyrir að vökvaborðið verði of hátt. Um 7-8 lítra þarf við síuskipti en alls munu fara um 9 lítrar á tóma skiptingu og vökvadrif (konverter) eftir endurbyggingu. Sjálfskiptinguna á að fylla á í áföngum: Með stöðubremsuna á fyllirðu fyrst með 4-5 lítrum, gangsetur og færir á milli allra gíra nokkrum sinnum og ekur áfram og afturábak. Síðan endurtekurðu ferlið, bætir 1 lítra við og ekur lengra. Þá á vökvastaðan að mælast rétt með heita skiptingu/vél, vél í lausagangi, bílinn láréttan og skiptinguna í P. Benz-skipting er næm fyrir vökvamagni. Yfirfylling getur eyðilagt hana.

,,Teygju-heddboltar" - hvers vegna?
Spurt: Þegar endurnýja þarf heddpakkningu er oft talað um að endurnýja þurfi heddbolta um leið og jafnvel fleira. Hver er skýringin á því?

Svar: Til að létta bíla eru notaðar álblöndur í ýmsa stærri hluti svo sem hedd og vélarblokkir. Ál er mun fljótara að hitna en stál og því þarf gangsetning ekki eins sterka blöndu né eins lengi (minna innsog) sem sparar eldsneyti og minnkar mengun í útblæstri. Þessum eiginleika áls fylgir að útþensla þess við hitun og samþjöppun við kólnun er meiri en stáls. Til að halda heddpakkningu þéttri þurfa heddboltar því að geta teygst og dregist saman, þ.e. fylgt þenslu hedds. Til þess þarf að að forspenna þá við herslu með sérstakri aðgerð (endurlosun, endurhersla + gráður). Þar sem bilun í heddpakkningu veldur oft yfirhitnun vélar lengjast boltarnir umfram teygjuþol og tapa teygjanleikanum. Við ofhitnun verpist heddið. Oft má mæla ástand boltanna með skíðmáli því við teygjun umfram mörk myndast á þeim mælanlegt ,,mitti." Til þess að hedd ,,pakki" eftir ofhitnun er pakkningarflötur þess réttur af (planaður). Ástæða þess að aðrir hlutir eru oft endurnýjaðir um leið og heddpakkning, svo sem vatnsdæla og tímareim, er að stærsta hluta sama verks þarf oft að vinna við endurnýjun þessarra hluta. Hedd er hert í áföngum og eftir reglum: Byrjað er á miðjunni og heddið ,,flatt út" frá henni og endað á fremstu og öftustu boltunum. Séu síðustu áfangar ,,boltaherslulista" gefnir upp í gráðum þýðir það að um einnota heddbolta (teygjubolta) er að ræða. Heddboltagöt (gengjur) þarf að þrífa rækilega og sé ekki annað tekið fram á að smyrja gengjur í blokk og á boltum auk snertistalls á boltahaus fyrir samsetningu. Teygjuboltar eru úr sérhertri stálblöndu sem þolir ákveðna teygjun (að tognun- og slitmörkum) án þess að glata herslustyrk. Því er ekki sama hvernig þeir eru hertir. Að fyrstu herslu lokinni er oftast losað upp á hverjum einstökum bolta í einu samkvæmt hersluröð og hann hertur aftur að uppgefnu átaki og síðan forspenntur með herslu í gráðum. (Ástæða þess að ég nefni þessa viðgerð ,,íslensku heddpakkninguna" er að hún stafar oftast af trassaskap. Hérlendis var, ártugum saman, trassað að endurnýja kælivökva á 3-4 ára fresti á ábyrgðartíma, eins og tekið er fram í handbókum flestra bíla).

ÁBENDING: Kælivökvi hefur þróast
Á sumum bílvélum eru núorðið kælivökvi sem á að endast vélina; nýjar álblöndur hafa meira tæringarþol, heddpakkningar hafa verið endurbættar og ný gerð kælivökva súrnar síður með aldri. Upplýsingar um þessi atriði eru undantekningarlaust í handbók sem fylgir viðkomandi bíl. En óhöpp geta alltaf gerst. Því eru til dýrir kælivökvar í viðkomandi umboði auk þrenns konar gæðavottaðra kælivökva frá þekktum framleiðendum; með 2ja ára tæringarþol, 3ja ára tæringarþol og tæringarþol umfram 5 ár.

245
Gamall Mondeo með hiksta
Spurt: Bíllinn minn er að gera mig brjálaðan. Fyrir nokkrum mánuðum tók vélin upp á því að hökta (sleppa úr) þegar inngjöf er sleppt og farið niður í móti. Þessir rykkir eru orðnir ansi hvimleiðir. Ég er búinn að skipta um ýmislegt, fara með hann í umboðið en ekkert breytist og verkstæðið finnur ekki bilunina. Bilunarljós lýsir ekki. Bíllinn er heillegur og að öðru leyti í góðu standi (nýskoðaður) og tími ég varla að farga honum þótt kostnaðurinn við þessa bilun sé kominn út úr kortinu. Hvað á ég að gera?

Svar: Merkilegt nokk er þetta þekkt bilun í eldri gerðum af Mondeo með 2ja lítra vél (og hún ´að vista bilunarkóða ,,Misfiring" í minni tölvunnar). Þú þarft að endurnýja bæði háspennukeflin (sem koma með þráðum). Séu þau ekki til hjá Stillingu eða N1 skaltu láta panta þau fyrir þig hjá Poulsen. Við það spararðu a.m.k. 50%. Þessi truntugangur á að hverfa með nýjum háspennukeflum.

,,Enþá meira" af Ford
Spurt: Ford Fiesta 1600 árg. '07 er allt í einu orðinn illkeyrandi. Málið er að vélin slær ekki af þegar inngjöf er sleppt til að skipta um gír. Þessi bilun gerði engin boð á undan sér, kom bara allt í einu. Bilunarljósið lýsir öðru hverju. Þýðir það að ég þarf að láta kóðalesa kerfið (það mun ekki vera gefið)?

Svar: Þú þarft ekki að láta kóðalesa kerfið. Það sem veldur þessari bilun er stykki sem nefnist lausagangsloki (Idle speed valve). 15 mín. tekur að endurnýja hann. Mig skortir hugarflug til að giska á hve mikið svona loki geti kostað í umboðinu. Hitt er svo annað mál að hverfi bilunarljósið ekki eftir 8-10 gangsetningar, eftir að vélin er komin í lag, þarftu að leita til einhvers sem á OBC-lesara og getur hreinsað minni tölvunnar fyrir þig. Flestar betri smurstöðvar eiga slíkar græjur (í nýrri bílum er ekki hægt að hreinsa minnið með aftengingu rafgeymis).

Urg í afturdrifi á Honda CR-V
Spurt: Ég er á tæplega 4ra ára CR-V-jepplingi sem er ekinn 75 þús. km. Frá afturhásingunni heyri ég nokkuð stöðugt núningshljóð sem stundum jaðrar við urg. Mér finnst þetta ekki traustvekjandi og er að velta fyrir mér hvort mismunardrifið kunni að vera að gefa sig. Hvað telur þú að geti verið að?

Svar: Þessi jepplingur er með drifið á framhjólunum að öllu jöfnu. Bíllinn er búinn stöðugleikakerfi sem metur þörf fyrir aukið veggrip, t.d. þegar gefið er inn, beygt á ákveðnum hraða o.s.frv. Þá tengir tölva fjórhjóladrifið. Sérstök gír/diskakúpling sambyggð afturdrifi tengir drifskaft afturhjólanna sjálfvirkt samkvæmt boðum frá tölvunni. Í þessari diskakúplingu er sérstakur silikón-vökvi. Hljóðið sem þú lýsir stafar, að öllum líkindum, af því að vökva vantar á þessa kúplingu. Sértu heppinn dugar að endurnýja hann. Sértu óheppinn er kostnaður töluverður. Þú færð gert við þetta, fyrir sanngjarnt verð, hjá bílaverkstæðinu Bílahaga í Kjarnanum uppi á Höfða .

ÁBENDING: Pústkerfin kosta sitt
Pústkerfi eru orðin efnismikil, dýr og flókin. Fríhæð bíls er yfirleitt ekki miðuð við íslenska malarvegi utan þjóðvegar. Rekist pústkerfi niður getur skemmdin reynst dýr. Falli hluti kerfisins niður í götu má reikna með að 250 þúsund króna pústkerfið sé ónýtt. Áður en lagt er upp í sumarferðina getur því borgað sig að láta skoða upphengjur, samskeyti og festingar pústkerfis og fá gert við það sem betur má fara. Flestar betri smurstöðvar taka að sér þetta verk sé beðið um það.

244
,,Dauður" Opel
Spurt: Ég þurfti að stöðva á Keflavíkurveginum til að svara farsímanum. Þegar ég ætlaði af stað aftur fór vélin ekki í gang - tók ekki við sér svo mikið sem eitt púst. Þetta er 7 ára gamall Opel Astra og var í góðu lagi fram að þessu. Ég skildi bílinn eftir og sendi þér fyrirspurn með netbréfi. Þú sagðir að þar sem þessi bilun hefði ekki haft neinn aðdraganda né bilunarljós kviknað gæti líkleg orsök verið bilun í bensíndælu sem er í bensíngeyminum. Að þínu ráði tók ég með mér góðan hamar og eftir að hafa gefið bensíngeyminum gott drag (undir hægra aftursætinu) datt vélin í gang og ég ók heim án vandræða. En til að eiga þetta ekki á hættu á ný fór ég einnig að þínum ráðum og fjárfesti í nýrri bensíndælu og endurnýjaði samkvæmt leiðbeiningum. En þá bregður svo við að vélin er ,,steindauð" þótt greinilega heyrist í nýju dælunni. Hvað er nú til ráða? Getur verið að nýja dælan sé biluð?

Svar: Þú hefur sjálfsagt tæmt gömlu bensíndæluna eins og vera ber. Þér hefur hins vegar láðst að fylla þá nýju (,,præma" á vondu máli). Hvíti plasthólkurinn á dælunni, sá hluti sem gengur niður í geyminn, rúmar um 1 lítra af bensíni sem ekki lekur niður af. Það er aukaforði sem girðir fyrir að hreyfingar bílsins valdi því að dælan ,,grípi í tómt." Sé hann tómur nær dælan ekki upp þrýstingi. Þú þarft ekki að taka dæluna aftur úr. Taktu aftursætið úr og aftengdu grennri lögnina á dælunni. Útbúðu slöngu sem passar upp á stútinn og settu netta trekt á hinn enda slöngunnar. Helltu 1 lítra af bensíni í dæluna, tengdu lögnina á ný og vélin mun fara í gang.

Daewoo Nubira: Stirðar þurrkur
Spurt: Ég er með árg. 02 af Nubira. Undanfarið hafa þurrkurnar verið leiðinlegar, hnökra með tilheyrandi óhljóðum. Þær eiga það til að stöðvast á miðri rúðunni en fara oftast aftur af stað ýti maður við þeim. Ég lét skipta um þurrkublöð og bera á þau efni sem á að gera þau hál en það breytti engu. Á smurstöð var mér sagt að líklega væri þurrkumótorinn ónýtur. Mér skilst að hann geti kostað talsvert svo öll góð ráð væru vel þegin.

Svar: Þurrkumótorar í þessum bílum eru gríðarlega sterkir og bila sjaldan. Í langflestum tilfellum eins og þú lýsir stafar vandinn af stirðum spindlum, en það eru öxlarnir sem snúa þurrkuörmunum. Þeir eru í hólkum sem í eru stálfóðringar. Í þær sest ryk og óhreinindi þar til spindlarnir festast. Viðgerð er ekki flókin. Merktu með tússi hvar þurrkublöðin setjast á rúðuna. Losaðu rærnar af þurrkuörmunum og þrýstu niður á þá ofan við spindilinn en við það losna þeir af. Fjarlægðu plasthlífina sem er fyrir neðan framrúðuna. Skrúfurnar á endum hlífarinnar skrúfast niður í nælonklossa og oftast þarf að höggva þær sundur með beittum meitli. Losaðu arm mótorsins af spindildrifi hægri þurrkunnar (slærð hann niður af kúlunni með hamarsskafti) en láttu arminn vera kyrran á mótornum. Losaðu boltana sem halda spindlunum (3 hvoru megin) og farðu með drifbúnaðinn á renniverkstæði (t.d. til Árna Brynjólfssonar, Skútuhrauni 5 í Hafnarfirði) og fáðu spindlana losaða úr. Þeir geta verið mjög fastir í og hætt við að spindilhólkarnir brotni sé ekki beitt réttum verkfærum. Yfirleitt þarf ekki viðgerð, einungis að losa spindlana, þrífa þá og fóðringarnar, smyrja og endurnýja o-hring sem er í stútnum undir skífu og splitti. Ísetningin er auðveld og þurrkurnar munu verða eins og nýjar.

ÁBENDING: Jafn þrýstingur í dekkjum mikilvægur
Til öryggisbúnaður (ABS, stöðugleikakerfi o.fl.) skili bestum árangri þurfa dekk að hafa réttan og jafnan þrýsting. Belgur, sóli og munstur fólksbíladekkja eru frábrugðin því sem var fyrir 25 árum; mörg dekk eru með stefnuvirkt munstur og því ekki sama hvoru megin þau eru undir bíl (merkt með pílu). Hámarksöryggi og sparneytni fólksbíls næst þegar þrýstingur í dekkjum er 32 psi (2 kp/fsm). Munsturdýpt getur sýnt hvort þrýstingur sé sá rétti: Slitni sóli meira á miðjunni er þrýstingur of mikill. Slitni munstrið meira á báðum jöðrum sólans en á miðjunni er þrýstingurinn of lítill.

243
Lancer: Hnökrar í skiptingu
Spurt: Ég er í smá basli með Lancer 1600 '98 ekinn um 175.000 km. Sjálfskiptingin hætti að að skipta upp fyrr en í 5-6000 snúningum, og þá yfirleitt með höggi. Í fyrstu gerðist þetta sjaldan. Ég bý úti á landi og fór með bílinn á umboðsverkstæði fyrir Mitsubishi. Þeir lögðu til að vökvi og sía yrði endurnýjuð sem ég lét gera. Við það versnaði ástandið því nú skiptir hann sér aldrei eðlilega.
Vonandi er skiptingin ekki að gefa sig því svona skipting fæst ekki á partasölu lengur. Hvað getur verið að og hvernig er ráðlegast að bregðast við?

Svar: Þú skalt forðast öll bætiefni nema sérfræðingur í sjálfskiptingum mæli með sérstöku efni. Líklegasta orsökin er sú að fleiri en einn spóluloki er stirður eða fastur í ventlaboxinu. Taka þarf boxið úr skiptingunni og fá það liðkað upp hjá sérfræðingi, t.d. Bifreiðastillingu á Smiðjuvegi í Reykjavík (Pétur Oddgeirson) eða hjá Jeppasmiðjunni við Selfoss. Þetta er hægt að gera án þess að skiptingin sé tekin úr bílnum. Ventlaboxið er tekið úr og sent til viðgerðar. Það er ekki sama hvernig að því verki er staðið, annars vegar eru lausar kúlur á ákveðnum stöðum í ventlaboxinu sem passa verður upp á að fari ekki á flakk eða týnist og hins vegar þarf að ganga vel frá skiptingunni til að ryk komist ekki í hana á meðan verið er að gera við ventlaboxið hér fyrir sunnan.

Engin kæling í bílnum
Spurt: Ég á Volvo S60 af árg. '05 með loftkælingu í farþegarýminu. Þegar ég ætlaði að grípa til hennar til að kæla innanrýmið eftir að bíllinn hafi staðið í sól virkaði kerfið ekki, blés bara volgu. Á bensínstöð var mér sagt að sérstakur kælivökvi, sem á að vera á kerfinu, hefði gufað upp og fylla þyrfti á það með sérstökum tækjum. Til hverra á maður að snúa sér til að fá þá þjónustu án þess að hún kosti ,,augun úr" eins og stundum er sagt?

Svar: Loftkælikerfi í bílum (Air conditioner) er sams konar og í kæliskápum á heimilum. En vegna hreyfingar bílsins geta tengingar losnað og lekið auk þess sem lekið getur út með pakkdós á frystiþjöppu, sérstaklega sé kerfið lítið notað. Þá þarf að endurfylla kerfið með sérstökum vökva undir þrýstingi. Það er gert með sérhæfðum búnaði. Auk þess er sérstakt tæki (ljósi) notað til að greina leka í kerfi bíls. Eitt þeirra sérhæfðu fyrirtækja sem veita þessa þjónustu, á verði sem þolir dagsljós, er Íshúsið á Smiðjuvegi í Kópavogi (í sama húsi og N1-verslunin). Panta þarf tíma í síma 566 6000 (Hafliði). Áfyllingin tekur stutta stund.

Fyrir eigendur LandCruiser með aukamiðstöð í afturrými: Árum saman hefur því verið haldið að fólki að Toyota-bílar biluðu ekki. Það er auðvitað fjarri lag. Allir bílar bila. Hins vegar valda bilanir því minni óþægindum sem þjónusta er betri. Þar hefur Toyota verið til fyrirmyndar hérlendis og beinlínis selt bíla út á góða þjónustu. Hvort hún sé dýr er svo annað mál (sú þjónusta er oftast dýrust sem ekki fæst eða er illa unnin). Sígild bilun í Toyota LandCruiser 100 (stærri 7-sæta bíllinn með aukamiðstöð í afturrými) er leki í frystivökvalögn aftarlega í bílnum. Sé lögninni fylgt kemur að festingu og beygju þar sem henni er haldið með stálspennu. Þar tærist lögnin sundur, sem er úr álblöndu. Viðgerð er mjög dýr. Hana má fyrirbyggja með því að fóðra állögnina með gúmmíhólki þannig að hún titri ekki og tærist. Þar með losnar bíleigandinn við verulegan kostnað - og óþægindi af því að hafa enga AC-kælingu í bílnum. Íshúsið, Smiðjuvegi 4A í Kópavogi leysir málið og fyllir á kerfið.

160 þús. kr. súrefnisskynjari í Mazda!
Spurt: Ég ek Mazda 6 árg. '07. Fremri súrefnisskynjarinn er bilaður. Hann kostar 160 þúsund í umboðinu. Getur þú gefið mér upplýsingar um hvar ég gæti fengið ódýrari skynjara? Er í lagi að keyra bílinn svona?

Svar: Þú færð súrefnisskynjara fyrir 13-15 þús. kr. hjá Stillingu eða N1. Málið verður auðveldara hafir þú eldri skynjarann með í verslunina. Talaðu við þá hjá Olís-smurstöðinni í Sætúni (sértu í Rvk.) og fáðu þá til að skoða þetta fyrir þig - þeir eru liprir við að aðstoða fólk við ýmsar smærri viðgerðir. Gangi vélin án þess að drepa á sér má aka bílnum svona en dragðu samt ekki viðgerðina.

Ábending: Hve gömul er loftsían?
Meðalakstur fólksbíls í rykmengun á höfuðborgarsvæðinu þýðir að venjuleg loftsía vinnur með viðunandi virkni eitt ár. Sé hún notuð lengur eykst viðnám í síunni vegna mettunar; vélin fær minna súrefni, brunanýting vélarinnar minnkar, eyðslan eykst og bíllinn verður draugslegri í akstri. Því borgar sig að endurnýja loftsíuna árlega.

242
Toyota LandCruiser 120: Óeðlilegt vélarhljóð
Spurt: Ég er með Toyota LandCruiser 120 árgerð 2007. Skipt hefur verið um spíssa í vélinni tvisvar vegna mikils hávaða í vélinni en sem hverfur samt ekki. Ég þori ekki á bílnum út fyrir borgina. Þegar vélin er gangsett köld eru háværir skellir í henni. Ég er búinn að tala við umboðið í Kópavogi eftir að seinni spíssarnir voru settir í. Þeir segja að þetta eigi að vera svona! En þetta er ekki sá bíll sem ég keypti. Ég hef átt marga Landkrusera en aldrei lent í svona vandræðum. Ég hef heyrt af fleirum með sams konar spíssavandamál í LC 120 og að vélar hafi jafnvel hrunið í framhaldi. Það hrellir mig einnig að sitja uppi með dýran og illseljanlegan bíl, a.m.k. myndi ég ekki þora að kaupa bíl með svona vélarhljóðum. Hefur þú heyrt af þessu? Á maður ekki rétt á að fá nýja vél? Bíllinn er ekinn 57000 km og hefur farið í allar þjónustuskoðanir hjá Toyota í Kópavogi og því í fullri ábyrgð. Hvað ráðleggur þú manni að gera í svona máli?

Svar: Þessi spíssavandamál í LC 120 eru þekkt. Hins vegar er einhver misskilningur hjá þér varðandi ábyrgð framleiðandans, hún gilti í 3 ár eða 100 þús. km. og er því útrunnin og þjónustuskoðanir breyta því ekki. Mér kemur lýsing þín á viðbrögðum umboðsins spanskt fyrir sjónir því ég hef heimildir fyrir því að þar sé tekið á þessum spíssamálum umyrðalaust enda sérstök 3ja ára ábyrgð á því verki. Þá vaknar spurningin hvort þessi hávaði (skellir) sé frá spíssunum. Væri um galla í vélinni að ræða kemur aftur að ábyrgðinni sem er útrunnin. Jafnvel þótt umboðið kæmi til móts við þig varðandi endurbyggða vél hlýtur þú að greiða einhvern hluta af þeim kostnaði með tilliti til 57 þús. km. notkunar. Ég ráðlegg þér að fá álit óháðs bílvirkja á því hvað valdi þessu óeðlilega hljóð í vélinni og ræða aftur við umboðið í framhaldi af því.

Athugasemd: Lögfræðingur hjá Neytendasamtökunum gerir athugasemd við þetta svar og er það birt í Mbl. (Finni) 30.júní 2011. Það er í annað sinn sem sams konar athugasemd berst frá NS. Ég sé ekki ástæðu til að svara henni - enda álitamál hvort ,,5 ára kvörtunarfrestur" fær staðist - tel það frekar vera hlutverk Bílagreinasambandsins að fjalla um það mál. Fólk ræður því sjálft hvort það leitar til Félags íslenskra bifreiðaeigenda, Bílgreinasambandins, Umboðsmanns neytenda eða Neytendasamtakanna með svona mál, eins og bent er á í öllum svörum sem fyrirspyrjendum berast frá mér á Netinu.

Audi A6: Slitin tímareim
Spurt: Ég keypti vel með farinn Audi A6 af árgerð 2004 í fyrra. Honum hafði þá einungis verið ekið 32 þús. km. Nú, ári seinna, stendur hann í 45 þús. og þá gerist það að vélin, sem er 2.8 L V6 bensínvél, stöðvast skyndilega með smelli. Við skoðun á verkstæði er mér sagt að tímareimin hafi slitnað og ventlar bognað, jafnvel heddin skemmd. Mér er sagt að sé ég heppinn kosti viðgerð innan við eina milljón króna. Nú spyr ég þig, sem sérfræðing, hvort þetta sé algengt vandamál í Audi-bílum, hvort þetta teljist eðlileg ending á tímareim og hvort þetta sé ekki galli sem framleiðandi/umboði beri að bæta?

Svar: Þetta er þekkt vandamál í Audi. Gæði tímareima í Audi A4 og A6 virðast vera misjöfn, hjá sumum endast reimarnar um og yfir 100 þús. km. Bíleigendum og þjónustuaðilum hættir til að gleyma því að framleiðandinn mælir með því að tímareim sé endurnýjuð eftir 100-140 þús. km eða á 5 ára fresti hvort sem fyrr kemur! Tímareimar í Audi virðast innþorna og fúna ört. Sé þessi 5 ára regla virt á þetta ekki að vera vandamál. Þar sem 5 ára reglan hefur ekki verið virt í þínu tilfelli og bíllinn ekki lengur í ábyrgð er ekki um galla að ræða sem umboði ber að bæta. Þegar tímareim er endurnýjuð sem eðlileg forvörn er reglan sú að skipta um leið um stýrihjól, strekkjara og vatnsdælu. Þú getur sparað talsvert fé með því að fá þetta unnið hjá Vélaverkstæðinu Kistufelli en þeir eiga jafnframt þá varahluti sem til þarf.

ÁBENDING: Heimalagaður rúðuvökvi
Settu 1 lítra af ódýrasta frostlegi sem fæst út í 9 lítra af vatni. Bættu við einni matskeið af venjulegum uppþvottalegi. (Frostlegi má sleppa að sumri til). Þegar þú reiknar út kostnaðinn munu verða hissa á því hve mikið má spara með dálítilli útsjónarsemi og lítilli fyrirhöfn.

244
,,Dauður" Opel
Spurt: Ég þurfti að stöðva á Keflavíkurveginum til að svara farsímanum. Þegar ég ætlaði af stað aftur fór vélin ekki í gang - tók ekki við sér svo mikið sem eitt púst. Þetta er 7 ára gamall Opel Astra og var í góðu lagi fram að þessu. Ég skildi bílinn eftir og sendi þér fyrirspurn með netbréfi. Þú sagðir að þar sem þessi bilun hefði ekki haft neinn aðdraganda né bilunarljós kviknað gæti líkleg orsök verið bilun í bensíndælu sem er í bensíngeyminum. Að þínu ráði tók ég með mér góðan hamar og eftir að hafa gefið bensíngeyminum gott drag (undir hægra aftursætinu) datt vélin í gang og ég ók heim án vandræða. En til að eiga þetta ekki á hættu á ný fór ég einnig að þínum ráðum og fjárfesti í nýrri bensíndælu og endurnýjaði samkvæmt leiðbeiningum. En þá bregður svo við að vélin er ,,steindauð" þótt greinilega heyrist í nýju dælunni. Hvað er nú til ráða? Getur verið að nýja dælan sé biluð?

Svar: Þú hefur sjálfsagt tæmt gömlu bensíndæluna eins og vera ber. Þér hefur hins vegar láðst að fylla þá nýju (,,præma" á vondu máli). Hvíti plasthólkurinn á dælunni, sá hluti sem gengur niður í geyminn, rúmar um 1 lítra af bensíni sem ekki lekur niður af. Það er aukaforði sem girðir fyrir að hreyfingar bílsins valdi því að dælan ,,grípi í tómt." Sé hann tómur nær dælan ekki upp þrýstingi. Þú þarft ekki að taka dæluna aftur úr. Taktu aftursætið úr og aftengdu grennri lögnina á dælunni. Útbúðu slöngu sem passar upp á stútinn og settu netta trekt á hinn enda slöngunnar. Helltu 1 lítra af bensíni í dæluna, tengdu lögnina á ný og vélin mun fara í gang.

Daewoo Nubira: Stirðar þurrkur
Spurt: Ég er með árg. 02 af Nubira. Undanfarið hafa þurrkurnar verið leiðinlegar, hnökra með tilheyrandi óhljóðum. Þær eiga það til að stöðvast á miðri rúðunni en fara oftast aftur af stað ýti maður við þeim. Ég lét skipta um þurrkublöð og bera á þau efni sem á að gera þau hál en það breytti engu. Á smurstöð var mér sagt að líklega væri þurrkumótorinn ónýtur. Mér skilst að hann geti kostað talsvert svo öll góð ráð væru vel þegin.

Svar: Þurrkumótorar í þessum bílum eru gríðarlega sterkir og bila sjaldan. Í langflestum tilfellum eins og þú lýsir stafar vandinn af stirðum spindlum, en það eru öxlarnir sem snúa þurrkuörmunum. Þeir eru í hólkum sem í eru stálfóðringar. Í þær sest ryk og óhreinindi þar til spindlarnir festast. Viðgerð er ekki flókin. Merktu með tússi hvar þurrkublöðin setjast á rúðuna. Losaðu rærnar af þurrkuörmunum og þrýstu niður á þá ofan við spindilinn en við það losna þeir af. Fjarlægðu plasthlífina sem er fyrir neðan framrúðuna. Skrúfurnar á endum hlífarinnar skrúfast niður í nælonklossa og oftast þarf að höggva þær sundur með beittum meitli. Losaðu arm mótorsins af spindildrifi hægri þurrkunnar (slærð hann niður af kúlunni með hamarsskafti) en láttu arminn vera kyrran á mótornum. Losaðu boltana sem halda spindlunum (3 hvoru megin) og farðu með drifbúnaðinn á renniverkstæði og fáðu spindlana losaða úr. Þeir geta verið mjög fastir í og hætt við að spindilhólkarnir brotni sé ekki beitt réttum verkfærum. Yfirleitt þarf ekki viðgerð, einungis að losa spindlana, þrífa þá og fóðringarnar, smyrja og endurnýja o-hring sem er í stútnum undir skífu og splitti. Ísetningin er auðveld og þurrkurnar munu verða eins og nýjar.

ÁBENDING:
Jafn þrýstingur í dekkjum mikilvægur

Til öryggisbúnaður (ABS, stöðugleikakerfi o.fl.) skili bestum árangri þurfa dekk að hafa réttan og jafnan þrýsting. Belgur, sóli og munstur fólksbíladekkja eru frábrugðin því sem var fyrir 25 árum; mörg dekk eru með stefnuvirkt munstur og því ekki sama hvoru megin þau eru undir bíl (merkt með pílu). Hámarksöryggi og sparneytni fólksbíls næst þegar þrýstingur í dekkjum er 32 psi (2 kp/fsm). Munsturdýpt getur sýnt hvort þrýstingur sé sá rétti: Slitni sóli meira á miðjunni er þrýstingur of mikill. Slitni munstrið meira á báðum jöðrum sólans en á miðjunni er þrýstingurinn of lítill.

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu

Tæknigreinar

PISTLAR